Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig leiðir Jehóva skipulag sitt?

Hvernig leiðir Jehóva skipulag sitt?

15. kafli

Hvernig leiðir Jehóva skipulag sitt?

1. Hvaða upplýsingar finnum við í Biblíunni um skipulag Jehóva og hvaða þýðingu hafa þær fyrir okkur?

 ÚT í gegnum hinar innblásnu ritningar gefur Jehóva okkur af og til örlitla innsýn í sitt mikilfenglega himneska skipulag. (Jes. 6:2, 3; Esek. 1:1, 4-28; Dan. 7:9, 10, 13, 14) Þótt andaverur séu okkur ósýnilegar vekur hann athygli okkar á hvernig starf hinna heilögu engla hafi áhrif á sanna guðsdýrkendur á jörðinni. (1. Mós. 28:12, 13; 2. Kon. 6:15-17; Sálm. 34:8; Matt. 13:41, 42; 25:31, 32) Biblían lýsir líka hinum sýnilega hluta skipulags Jehóva og hjálpar okkur að skilja hvernig hann stýrir því. Ef við höfum andlegan skilning á öllu þessu mun það hjálpa okkur að ‚hegða okkur eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ — Kól. 1:9, 10.

Hinn sýnilegi hluti

2. Hver hefur verið söfnuður Guðs frá hvítasunnunni árið 33?

2 Í 1545 ár var Ísraelsþjóðin söfnuður Guðs. Þjóðin hélt hins vegar ekki lagasáttmálann og hafnaði Guðs eigin syni. Jehóva stofnaði því nýjan söfnuð sem hann gerði við nýjan sáttmála. Þessi söfnuður er í Ritningunni nefndur „brúður“ Krists, myndaður af 144.000 einstaklingum sem Guð útvelur til að sameinast syni sínum á himnum. (Ef. 5:22-32; Opinb. 14:1; 21:9, 10) Hinir fyrstu voru smurðir heilögum anda á hvítasunnunni árið 33. Með sínum heilaga anda gaf Jehóva ótvíræðan vitnisburð um að þetta væri sá söfnuður sem hann myndi nota til að fullna tilgang sinn. — Hebr. 2:2-4.

3. Hverjir mynda núna sýnilegt skipulag Jehóva?

3 Á jörðinni eru núna aðeins leifar hinna 144.000. En eins og sagt var fyrir í spádómum Biblíunnar hefur verið safnað miklum múgi ‚annarra sauða‘ til að starfa með þeim. Jesús Kristur, góði hirðirinn, hefur sameinað þessa ‚aðra sauði‘ þeim sem eru leifar andagetinna fylgjenda hans, þannig að þeir mynda aðeins ‚eina hjörð‘ sem hann er ‚einn hirðir‘ yfir. (Jóh. 10:11, 16; Opinb. 7:9, 10) Til samans mynda þeir allir eitt sameinað skipulag, hið sýnilega skipulag Jehóva á jörðinni.

Guðræðisleg uppbygging

4. Hver leiðir skipulagið og hvernig?

4 Orðfæri Biblíunnar, „söfnuður lifanda Guðs,“ sýnir glöggt hver það er sem stjórnar honum. Skipulagið er guðræðislegt, það er að segja Guð stjórnar því. Jehóva leiðir þjóna sína fyrir milligöngu hans sem hann hefur útnefnt til að vera ósýnilegt höfuð safnaðarins, Drottin Jesú Krist, og í gegnum innblásið orð sitt, Biblíuna. — 1. Tím. 3:14, 15; Ef. 1:22, 23; 2. Tím. 3:16, 17.

5. (a) Hvernig birtist hin himneska forysta safnaðarins á fyrstu öldinni? (b) Hvað sýnir að Jesús er enn höfuð safnaðarins?

5 Þessi guðræðislega forysta var mjög augljós þegar heilagur andi hvatti fyrstu meðlimi safnaðarins til starfa á hvítasunnunni árið 33. (Post. 2:1-4, 32, 33) Hún kom skýrt í ljós þegar engill Jehóva stýrði málum svo að fagnaðarerindið breiddist út til Afríku. (Post. 8: 26-39) Eins var hún ljós þegar rödd Jesú gaf fyrirmæli við trúskipti Sáls frá Tarsus, svo og þegar trúboðsstarf meðal heiðingjanna hófst. (Post. 9:3-7, 10-17; 10:9-16, 19-23; 11:12) En leiðbeiningar og fyrirmæli bárust ekki alltaf með svona tilkomumiklum hætti. Að því kom að raddir hættu að heyrast frá himnum, englar hættu að birtast mönnum og náðargáfur andans liðu undir lok. En Jesús hafði heitið trúum fylgjendum sínum: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar,“ og staðreyndir sýna að hann hefur staðið við það. (Matt. 28:20; 1. Kor. 13:8) Ekki aðeins viðurkenna vottar Jehóva forystu hans; það er líka augljóst að þeir hefðu ekki, án hans hjálpar, getað haldið áfram að boða Guðsríki andspænis hinum mikla fjandskap heimsins.

6. (a) Hverjir mynda ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ og hvernig getum við rökstutt það? (b) Hvaða verkefni fól Jesús þessum ‚þjóni‘?

6 Skömmu fyrir dauða sinn talaði Jesús við lærisveina sína um ‚trúan og hygginn þjón‘ sem hann, húsbóndinn, myndi veita sérstaka ábyrgð. Þessi „þjónn“ myndi, samkvæmt lýsingu Jesú, vera á sjónarsviðinu þegar Drottin stigi upp til himna, og hann yrði enn á lífi þegar Kristur sneri aftur. Óhugsandi er að það geti átt við einhvern einstakan mann. Hins vegar á það við trúfastan, smurðan söfnuð Krists í heild. Jesús vissi að hann myndi kaupa hann með blóði sínu, og því var mjög viðeigandi að hann talaði um söfnuðinn í heild sem ‚þjón‘ sinn eða þræl. Hann fól söfnuðinum verk að vinna, bauð öllum meðlimum hans að gera menn að lærisveinum og næra þá síðan andlega skref fyrir skref, gefa þeim andlegan „mat á réttum tíma.“ Tilnefning þeirra var staðfest af heilögum anda á hvítasunnunni árið 33. — Matt. 24:45-47; 28:19, 20; 1. Kor. 6:19, 20; samanber Jesaja 43:10.

7. (a) Hvaða aukna ábyrgð hefur ‚þjónninn‘ núna? (b) Hvers vegna eru rétt viðbrögð við leiðbeiningum frá honum mikilvæg?

7 Ef ‚þjónninn‘ væri trúfastur að vinna verk húsbóndans við endurkomu hans myndi hann fela honum aukna ábyrgð. Á árunum eftir það yrði gefinn vitnisburður um ríkið út um allan heim, og ‚miklum múgi‘ dýrkenda Jehóva safnað til að þeir gætu hlotið vernd gegnum ‚þrenginguna miklu.‘ (Matt. 24:14; Opinb. 7:8, 9) Þeir myndu líka þurfa að fá andlega fæðu, og hinn samsetti „þjónn,“ andasmurðir þjónar Krists, myndu bera hana fram. Til að þóknast Jehóva verðum við að þiggja þær leiðbeiningar og fyrirmæli sem hann gefur eftir þessari boðleið og breyta í fullu samræmi við þau.

8, 9. (a) Hvernig var á fyrstu öldinni tekin afstaða til spurninga um kenningar og gefin fyrirmæli og leiðbeiningar um prédikun fagnaðarerindisins? (b) Hvaða hliðstætt fyrirkomulag er við lýði núna?

8 Stundum gætu vaknað spurningar varðandi kenningar og aðferðir. Hvað yrði þá gert? Fimmtándi kafli Postulasögunnar segir frá deilu sem kom upp varðandi kröfur til heiðingja sem tekið höfðu trú. Hún var send til úrskurðar postulunum og öldungunum í Jerúsalem sem þjónuðu hlutverki stjórnandi ráðs. Þessir öldungar voru ekki óskeikulir; þeir voru ekki þannig að þeim yrðu aldrei á mistök. (Samanber Galatabréfið 2:11-14.) Samt sem áður notaði Guð þá. Þeir athuguðu það sem hin innblásna Ritning sagði um málið og íhuguðu hvernig andi Guðs hefði starfað þegar akur heiðingjanna var opnaður, og síðan felldu þeir úrskurð. Guð blessaði þetta fyrirkomulag. (Post. 15:1-29; 16:4, 5) Frá þessu ráði, sem var eins konar miðstjórn, voru einstaklingar auk þess sendir út til að efla prédikun fagnaðarerindisins í samræmi við það sem Drottinn sjálfur hafði gefið fyrirmæli um. — Post. 8:14; Gal. 2:9.

9 Á okkar dögum er hið stjórnandi ráð myndað af andagetnum bræðrum frá ýmsum löndum. Það hefur aðsetur í aðalstöðvum votta Jehóva. Drottinhollir vinna þessir bræður að því að efla sanna guðsdýrkun undir forystu Jesú Krists. Þeir hafa sama sjónarmið og Páll postuli sem sagði þegar hann sendi kristnum bræðrum sínum andleg ráð: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar.“ — 2. Kor. 1:24.

10. (a) Hvernig er ákveðið hverjir skuli verða öldungar eða safnaðarþjónar? (b) Hvers vegna ættum við að vinna náið með þeim sem eru útnefndir til slíkra starfa?

10 Vottar Jehóva út um allan heiminn viðurkenna þetta guðræðisfyrirkomulag. Allir söfnuðir þeirra starfa samkvæmt því. Hið stjórnandi ráð útnefnir öldunga og safnaðarþjóna í söfnuðinum til að tryggja snurðulaust starf þeirra. Á hvaða grundvelli eru menn valdir til slíkra starfa? Kröfurnar eru greinilega tíundaðar í Biblíunni. Bæði öldungarnir, sem mæla með bræðrum til útnefningar, og þeir sem gefið er vald til að útnefna bera alvarlega ábyrgð frammi fyrir Guði að halda sér við þessar kröfur. (1. Tím. 3:1-10, 12, 13; 5:22; Tít. 1:5-9) Engin kosningabarátta er háð innan safnaðarins og engar kosningar fara þar fram. Þess í stað er farið að eins og postularnir gerðu þegar útnefningar fóru fram á fyrstu öldinni, og þeir umsjónarmenn, sem ætlað er að gefa meðmæli, biðja um hjálp anda Guðs og leita leiðsagnar í innblásnu orði hans. (Post. 6:2-4, 6; 14:23; samanber Sálm 75:7, 8) Með viðbrögðum okkar við leiðbeiningum öldunganna getum við sýnt að við séum þakklátir fyrir þá ráðstöfun Krists að gefa okkur „gjafir í mönnum“ til að hjálpa okkur öllum að verða „einhuga í trúnni.“ — Ef. 4:8, 11-16, NW.

11. (a) Hvaða verðmæta þjónustu inna konur af hendi í hinu guðræðislega fyrirkomulagi? (b) Hvenær þarf kona að bera höfuðfat og hvers vegna?

11 Ritningin mælir svo fyrir að karlmenn hafi með höndum umsjón í söfnuðinum. Með því er ekki verið að lítillækka konuna, því að fjöldi kvenna er meðal erfingjanna að ríkinu á himnum. Með því að vera hógværar, hreinlífar og heimilisræknar stuðla kristnar konur líka að góðu mannorði safnaðarins. (Tít. 2:3-5) Oft gera þær líka töluverðan hluta þess starfs að finna áhugasama og leiða til sambands við skipulagið. (Sálm. 68:12) En kennslan innan safnaðarins er í umsjá karlmanna sem eru til þess útnefndir. (1. Tím. 2:12, 13) Og séu engir hæfir karlmenn á samkomu, sem söfnuðurinn skipuleggur, á kona að bera höfuðfat þegar hún hefur umsjón með samkomu eða flytur bæn. * Með því sýnir hún virðingu ráðstöfun Jehóva á sama hátt og Jesús setti öllum fordæmi með undirgefni við föðurinn. — 1. Kor. 11:3-16; Jóh. 8:28, 29.

12. (a) Hvernig hvetur Biblían öldunga til að líta á stöðu sína? (b) Hvaða dýrmætu sérréttindum getum við öll átt hlut í?

12 Í heiminum er sá sem gegnir ábyrgðarstöðu álitinn þýðingarmikil persóna, en innan skipulags Guðs gildir þessi regla: „Sá ykkar sem fúsastur er að þjóna öðrum, hann er mikill.“ (Lúk. 9:46-48, Lifandi orð; 22:24-26) Biblían ráðleggur því öldungunum að gæta þess að drottna ekki yfir þeim sem eru arfleifð Guðs, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. (1. Pét. 5:2, 3) Ekki aðeins fáeinir útvaldir heldur allir vottar Jehóva, karlar sem konur, hafa þau óviðjafnanlegu sérréttindi að vera fulltrúar drottinvalds alheimsins, tala auðmjúklega í hans nafni og segja mönnum alls staðar frá ríki hans.

13. Ræddu út af tilgreindum ritningarstöðum spurningarnar við lok þessarar greinar.

13 Hyggilegt er að við spyrjum okkur: „Skil ég fyllilega og met að verðleikum hvernig Jehóva stjórnar sýnilegu skipulagi sínu? Birtist það í viðhorfum mínum, tali og hátterni?“ Eftirfarandi atriði geta hjálpað okkur að brjóta það til mergjar:

 Ef við í sannleika lútum Kristi sem höfði safnaðarins, hvað munum við þá gera samkvæmt ritningarstöðunum hér á eftir? (Matt. 24:14; 28:19, 20; Lúk. 21:34-36; Jóh. 13:34, 35)

 Í hvaða mæli ættu allir, sem tilheyra skipulaginu, að finna sig háða Guði og Kristi, þegar þeir kosta kapps að bera ávöxt sem kristnir menn? (Jóh. 15:5; 1. Kor. 3:5-7)

 Hver er í reynd að sýna góðvild og umhyggju þegar öldungarnir reyna að leiðrétta hugsun manna til samræmis við skipulagið í heild? (Ef. 4:7, 8, 11-13; 2. Kor. 13:11)

 Hverjum sýnum við virðingu þegar við tökum með þakklátum huga við andlegri fæðu og ráðstöfunum sem berst okkur frá ‚þjónshópnum‘ og hinu stjórnandi ráði? Hvað þá ef við tölum niðrandi um þá? (Lúk. 10:16; samanber 3. Jóhannesarbréf 9, 10.)

 Hvers vegna ættum við ekki að vera harðlega gagnrýnin á hina útnefndu öldunga? (Post. 20:28; Rómv. 12:10)

14. (a) Hvað látum við í ljós með viðhorfum okkar til guðræðisskipulagsins? (b) Hvaða tækifæri höfum við í því sambandi til að sanna djöfulinn lygara og gleðja hjarta Jehóva?

14 Jehóva á samskipti við okkur nú á dögum í gegnum hið sýnilega skipulag sitt sem Kristur er höfuð yfir. Með viðhorfum okkar til þessa skipulags erum við því að tjá hver sé afstaða okkar til deilumálsins um drottinvaldið yfir alheiminum. (Hebr. 13:17) Satan heldur því fram að allir láti stjórnast af ábatalöngun, að við hugsum fyrst og síðast um sjálfa okkur. En ef við bjóðum okkur fúslega fram til að þjóna á hvern þann hátt sem þörf er fyrir, og forðumst að segja eða gera nokkuð sem beina myndi óviðeigandi athygli að sjálfum okkur, sönnum við að djöfullinn sé lygari. Ef við elskum og virðum þá sem taka forystuna á meðal okkar, líkjum eftir trú þeirra en metum ekki menn „eftir hagnaði,“ sem við getum haft af þeim, gleðjum við hjarta Jehóva. (Hebr. 13:7; Júd. 16) Með því að rækta með okkur heilnæma virðingu fyrir skipulagi Jehóva og vinna af öllu hjarta að því verki, sem hann hefur falið okkur, látum við í ljós að Jehóva sé í sannleika okkar Guð og að við séum sameinuð í tilbeiðslu á honum. — 1. Kor. 15:58.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Hún þarf ekki að bera höfuðfat þegar hún prédikar fagnaðarerindið hús úr húsi, því að sú ábyrgð hvílir á öllum kristnum mönnum. Ef aðstæður hins vegar útheimta að hún stjórni heimabiblíunámi í viðurvist eiginmanns síns (sem er höfuð hennar hvort sem hann er kristinn eða ekki), ætti hún að bera höfuðfat. Sama gildir ef hún í undantekningartilfelli stjórnar fyrirfram ákveðnu heimabiblíunámi að viðstöddum vígðum bróður í söfnuðinum. Þá skal hún bera höfuðfat en hann ætti að bera fram bænina.

Til upprifjunar

• Hverjir mynda núna hið sýnilega skipulag Jehóva? Hver er tilgangurinn með því?

• Hver er útnefndur höfuð safnaðarins? Í gegnum hvaða sýnilegt fyrirkomulag veitir hann okkur kærleiksríka forystu?

• Hvaða heilbrigt viðhorf ber okkur að rækta til ábyrgðar og einstaklinga innan skipulagsins?

[Spurningar]