Líf og blóð — virðir þú það sem er heilagt?
20. kafli
Líf og blóð — virðir þú það sem er heilagt?
1. (a) Hvernig lítur Guð á lífið? (b) Hvernig getum við sýnt að við metum að verðleikum þá gjöfs Guðs sem lífið er?
OKKUR þarf ekki að undra að viðhorf Guðs til lífsins sé mjög ólíkt viðhorfum heimsins. Í augum Guðs er mannslífið heilagt. Lítur þú það þeim augum? Við erum algerlega háð Guði sem „gefur öllum líf og anda og alla hluti.“ (Post. 17:25-28; Sálm. 36:10) Ef við höfum sama viðhorf og Guð munum við vilja vernda líf okkar. Þó munum við ekki brjóta lög hans til að reyna að bjarga lífi okkar núna. Við þekkjum og metum mikils fyrirheit Guðs um eilíft líf til handa þeim sem í sannleika iðka trú á son hans. — Matt. 16:25, 26; Jóh. 6:40; Júd. 21.
2. Hvaða viðhorf til lífsins endurspeglar þessi heimur og hvers konar röksemdir hefur það stundum í för með sér?
2 Jesús sagði hins vegar að Satan djöfullinn, höfðingi þessa heims, hafi verið „manndrápari frá upphafi.“ (Jóh. 8:44; 12:31) Allt frá upphafi uppreisnar sinnar leiddi hann dauða yfir mannkynið. Blóði drifin saga heimsins endurspeglar vel anda hans. En Satan getur líka tekið á sig að því er virðist allt aðra mynd. Menn, sem eru undir áhrifum hugsunarháttar hans, halda því þess vegna fram að það geti svo sem verið ágætt að vera trúhneigður, en þegar um lífið sé að tefla sé betra að hlýða „sérfræðiráðum“ þeirra í stað þess að vitna í Biblíuna. (Samanber 2. Korintubréf 11:14, 15.) Hvað munt þú hafa tilhneigingu til að gera þegar líf þitt virðist vera í húfi? Að sjálfsögðu ætti okkur að langa til að þóknast Jehóva.
3. (a) Hvers vegna ættum við að hafa sérstakan áhuga á því sem Biblían segir um blóð? (b) Lestu 1. Mósebók 9:3-6 og Postulasöguna 15:28, 29. Svaraðu síðan spurningunum hér að ofan.
3 Orð Guðs bendir á náin tengsl milli lífs og blóðs og segir: „Líf líkamans er í blóðinu.“ Alveg eins og lífið er heilagt hefur Guð líka gert blóðið heilagt. Það tilheyrir honum og má nota aðeins á þann hátt sem hann viðurkennir. (3. Mós. 17:3, 4, 11; 5. Mós. 12:23) Hyggilegt er því að ígrunda þær kröfur sem hann gerir til okkar í sambandi við blóð.
Lestu 1. Mósebók 9:3-6.
Hvaða algengar venjur hér um slóðir útheimta að þú sért á varðbergi til að neyta ekki dýrablóðs?
Í ljósi þess sem sagt er í 4. versi um dýrablóð, hvað finnst þér um það að drekka mannsblóð (sem gert var á skylmingarleikjum Rómverja)?
Hverjum þarf, samkvæmt 5. og 6. versi, fyrst og fremst að standa reikningsskap fyrir það að úthella mannsblóði?
Lestu Postulasöguna 15:28, 29.
Kemur fram hérna að þessi krafa ætti aðeins að gilda um takmarkaðan tíma? Á hún líka við um okkur?
Gefur orðalagið tilefni til að ætla að mannsblóð sé undanskilið?
Gefur ritningargreinin til kynna að gera megi undanþágu í neyðartilfelli?
4. Hvað sýnir Ritningin að við getum þurft að gera, eins og fram kemur hér, til að baka okkur ekki blóðskuld?
4 Hvað mannsblóði viðvíkur megum við ekki halda að við varðveitum sakleysi okkar með því aðeins að fremja ekki morð. Ritningin sýnir okkur að ef við tilheyrum einhverjum samtökum eða stofnun, sem er blóðsek í augum Guðs, verðum við að rjúfa tengsl okkar við hana ef við viljum ekki eiga hlut í syndum hennar. (Opinb. 18:4, 24; Míka 4:3) Þetta mál þarfnast skjótrar athugunar.
5. Hvers vegna er kostgæfni í þjónustunni á akrinum tengd því að vera laus við blóðskuld?
5 Til að þjónar Guðs, sem hann hefur falið að aðvara menn um komu þrengingarinnar miklu, haldi sér lausum við blóðskuld, þurfa þeir trúfastir að boða aðvörunina. (Samanber Esekíel 3:17-21.) Páll postuli leit á sig sem skuldugan gagnvart alls kyns fólki vegna þeirrar þjónustu sem honum var falin. Honum fannst hann ekki laus ábyrgðar á blóði þeirra fyrr en hann hafði borið rækilega vitni fyrir þeim um hjálpræðisráðstöfun Guðs. (Rómv. 1:14, 15; Post. 18:5, 6; 20:26, 27) Endurspeglar kostgæfni þín í þjónustunni á akrinum sams konar tilfinningu fyrir þeirri ábyrgð sem hvílir á öllum vottum Jehóva?
6. Hvaða tengsl eru milli þess að fyrirbyggja slys og virða heilagleika lífsins?
6 Dauðaslys eru líka alvarlegt mál. Sá sem af slysni olli dauða annars manns taldist ekki án sektar samkvæmt Móselögunum. Hann þurfti að taka út vissa refsingu. (2. Mós. 21:29, 30; 5. Mós. 22:8; 4. Mós. 35:22-25) Ef við tökum alvarlega þá meginreglu, sem hér er um að ræða, munum við gæta þess vandlega að stuðla ekki að dauðaslysi með því hvernig við ökum ökutæki, með því að taka heimskulega áhættu eða leyfa hættulegu ástandi að vera á heimili okkar eða vinnustað. Endurspegla viðhorf þín í þessu efni að þú berir djúpa virðingu fyrir heilagleika lífsins?
Hvað um notkun blóðs við lækningar?
7. (a) Samræmist það heilagleika blóðsins að dæla blóði úr einum manni í annan? (b) Hvers vegna er órökrétt að takmarka boðið um að ‚halda sér frá blóði‘ við athafnir sem tíðkaðar voru á fyrstu öld?
7 Þótt það sé ekki nýtt af nálinni hefur það einkanlega á 20. öldinni færst stórlega í vöxt að gefa blóð í æð í þeim tilgangi að viðhalda lífi. Bæði heilblóð og blóðhlutar eru notaðir með þessum hætti. Að sjálfsögðu er slíkt engin trygging fyrir því að sjúklingurinn haldi lífi. Stundum deyr fólk jafnvel beinlínis vegna slíkrar notkunar á blóði. En sú spurning hefur enn meiri þýðingu fyrir okkur hvort krafa Biblíunnar um að við ‚höldum okkur frá blóði‘ nái líka til slíkrar notkunar á því. Svarið er já! Að taka inn í líkamann blóð af einhverri annarri veru, manni eða dýri, er brot á lögum Guðs. Það lýsir virðingarleysi fyrir heilagleika blóðsins. (Post. 15:19, 20) Enginn grundvöllur er fyrir því að takmarka boðið um að ‚halda sér frá blóði‘ við þær athafnir sem algengar voru á fyrstu öldinni, og útiloka lækningaaðferðir okkar tíma. Hugleiddu þetta: Hverjum dettur í hug að bann Biblíunnar við morði nái ekki til þess að taka mannslíf með skotvopni, vegna þess að byssur, eins og við þekkjum þær, voru ekki fundnar upp fyrr en löngu síðar? Og væri rökrétt að halda því fram að bannið við ofnotkun áfengis nái einungis til drykkja sem þekktir voru á fyrstu öld en ekki til sterkra drykkja sem nú eru fáanlegir? Fyrir þá sem vilja þóknast Guði er boðskapurinn um að ‚halda sér frá blóði‘ skýr og greinilegur.
8. (a) Hvernig getur þú gengið úr skugga um hvort einhver læknismeðferð hæfir kristnum manni? (b) Hvaða meginreglur Biblíunnar gætu hjálpað þér að taka heilbrigða ákvörðun, ef læknir vildi taka þér blóð, geyma það og gefa síðan aftur við aðgerð? (c) Hvað má segja um meðferð sem hefur í för með sér að blóð sé látið fara um tækjabúnað utan líkamans?
8 Margar aðferðir við lækningar eru hins vegar svo flóknar að ýmsar spurningar geta vaknað. Hvernig er hægt að fá svar við þeim? Í fyrsta lagi skalt þú biðja lækninn þinn um nákvæma skýringu á þeirri aðferð sem hann hyggst nota. Síðan skalt þú brjóta hana til mergjar í ljósi meginreglna Biblíunnar og leggja málið fyrir Jehóva í bæn. Læknir kann að leggja til að þér sé tekið blóð sem geymt verði og notað síðar við uppskurð, ef þörf krefur. Myndir þú fallast á það? Mundu að samkvæmt lögmáli Guðs, sem kennt er við Móse, átti að hella niður blóði sem tekið væri úr skepnu. (5. Mós. 12:24) Við erum ekki bundin af Móselögunum, en boðskapurinn að baki ákvæða þess er sá að blóðið sé heilagt, og sé það tekið úr lifandi veru skuli skila því aftur til Guðs með því að hella því á fótskör hans, jörðina. (Samanber Matteus 5:34, 35.) Hvernig gæti þá verið rétt að geyma blóð úr þér (jafnvel um tiltölulega skamman tíma) og dæla því svo aftur í líkama þinn? En hvað átt þú að hugsa ef læknirinn segir að við skurðaðgerð eða aðra meðferð verði blóð þitt látið fara um tækjabúnað utan líkama þíns og síðan strax aftur til baka? Myndir þú fallast á það? Sumum hefur fundist þeir geta fallist á það með hreinni samvisku, svo framarlega sem ekki væri notað blóð til að fylla á dælubúnað vélanna. Þeir hafa litið á slík tæki sem framlengingu á blóðrásarkerfi sínu. Að sjálfsögðu eru aðstæður breytilegar og þú verður sjálfur að taka þína ákvörðun. Hún ætti alltaf að vera slík að þú hafir hreina samvisku frammi fyrir Guði. — 1. Pét. 3:16; 1. Tím. 1:19.
9. (a) Hvaða varúðarráðstafanir ættir þú að gera til að tryggja að ákvörðun þín um að ‚halda þér frá blóði‘ sé virt? (b) Hvernig má oft forðast óþægilega árekstra, jafnvel í neyðartilfelli? (c) Hvað myndir þú gera ef læknir eða dómstóll reyndi að þvinga fram blóðgjöf?
9 Til að tryggja að læknirinn þinn virði ákvörðun þína um að ‚halda þér frá blóði‘ skalt þú tala við hann áður en neyðartilfelli kemur upp. Ef nauðsynlegt er fyrir þig að leggjast inn á spítala skalt þú gera þá varúðarráðstöfun að gefa skriflega yfirlýsingu um að ekki skuli notað blóð, og auk þess tala persónulega um það við lækninn sem mun meðhöndla þig. En hvað þá ef óvænt neyðartilfelli kemur upp? Oft má komast hjá óþægilegum árekstrum með því að ræða við lækninn með fullri virðingu, og hvetja hann til að beita kunnáttu sinni en jafnframt að virða kristna samvisku þína. (Orðskv. 15:1; 16:21, 23) En hvað gerir þú ef starfsfólk sjúkrahússins heldur því fram, kannski í góðri trú, að þú stofnir lífi þínu í voða með því að neita blóði, og reynir að þvinga þig til að láta undan? Trúin á að vegir Jehóva séu réttir ætti að gera okkur staðföst. Hollusta við Jehóva ætti að fá okkur til að vera óhagganleg, því að við kjósum að hlýða Guði framar en mönnum. — Post. 5:29; samanber Jobsbók 2:4; Orðskviðina 27:11.
Hvað alvarlegt er málið?
10. Hvers vegna ætti sú fullyrðing að blóðgjöf sé nauðsynleg til að bjarga lífi ekki að hafa áhrif á viðhorf okkar?
10 Þeim sem enn ekki þekkja Jehóva getur fundist rök fyrir blóðgjöfum lýsa djúpri virðingu fyrir heilagleika lífsins. En við gleymum ekki að margir, sem eru þannig hugsandi, láta sér í léttu rúmi liggja að lífi sé eytt með fóstureyðingu. Jehóva veit meira um líf og blóð en nokkur „sérfræðingar“ í heilbrigðisþjónustunni. Öll boð hans hafa reynst okkur til góðs, verndað líf okkar nú og lífshorfur í framtíðinni. (Jes. 48:17; 1. Tím. 4:8) Gegnir öðru máli um boðið um að ‚halda sér frá blóði‘?
11. (a) Hvernig aðeins leyfði Jehóva Ísraelsmönnum að nota blóð? (b) Hvers vegna skiptir það okkur kristna menn miklu máli?
11 Það sem Jehóva sagði um einu leyfilegu notkun blóðs undirstrikar hversu alvarlegt mál það er að virða heilagleika þess. „Líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu. Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ‚Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta.‘“ (3. Mós. 17:11, 12) Allt dýrablóðið, sem úthellt var á altari Jehóva í samræmi við þetta ákvæði, var skuggi og fyrirmynd um hið dýrmæta blóð Jesú Krist. (Hebr. 9:11, 12; 1. Pét. 1:18, 19) Með því að banna nokkra aðra notkun blóðs undirstrika lög Guðs þannig heilagleika blóðs Jesú. Af því má sjá að misnotkun af einhverju tagi ber vott um gróft virðingarleysi fyrir hjálpræðisráðstöfun Jehóva í gegnum son sinn.
12. Hvers vegna grípur sannkristinn maður ekki til þess að misnota blóð til að reyna að bjarga lífi sínu?
12 Það er mikil skammsýni að snúa baki við Guði þegar um líf og dauða er að tefla! Þótt við kunnum að meta þjónustu samviskusamra lækna reynum við ekki í örvæntingu að halda lífi í sjálfum okkur eða ástvinum okkar í fáeina daga eða ár í viðbót, með því að brjóta lög Guðs, rétt eins og þetta líf sé allt og sumt. Við trúum á verðgildi hins úthellta blóðs Jesú og hið eilífa líf sem það gerir mögulegt. Af öllu hjarta trúum við að trúföstum þjónum Guðs — jafnvel þeim sem deyja — verði umbunað með eilífu lífi. — Jóh. 11:25; 1. Tím. 4:10.
Til upprifjunar
• Hvað gerir líf og blóð heilagt? Hvers vegna hefur heimurinn annað sjónarmið?
• Hvernig sýnum við virðingu fyrir heilagleika dýrablóðs?
• Á hvaða mismunandi vegu ættum við öll að sýna að við lítum á mannslífið sem heilagt? Hve þýðingarmikið er það?
[Spurningar]