Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mikill múgur fyrir hásæti Jehóva

Mikill múgur fyrir hásæti Jehóva

13. kafli

Mikill múgur fyrir hásæti Jehóva

1. (a) Hvað verða þjónar Guðs fyrir daga kristninnar og hinar 144.000 að ganga í gegnum áður en þær hljóta laun sín? (b) Hvaða möguleiki stendur opinn miklum múgi manna sem eru lifandi þegar ‚þrengingin mikla‘ brýst út?

 ENDA þótt trúir þjónar Guðs allt frá Abel til Jóhannesar skírara hafi látið það að gera vilja Guðs ganga fyrir öllu öðru, urðu þeir allir að deyja og bíða upprisu. Hinar 144.000, sem vera munu með Kristi í ríkinu á himni, verða líka að deyja áður en þær geta hlotið launin. Jóhannes postuli fékk að sjá í sýn mikinn múg manna sem, ólíkt þeim sem getið er hér á undan, myndu lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og eiga fyrir sér eilíft líf án þess að þurfa nokkurn tíma að deyja. — Opinb. 7:9-17.

Hver ‚múgurinn mikli‘ er

2. Hvað leiddi til þess að menn fengu glöggan skilning á hver væri ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9?

2 Um aldaraðir var mönnum hulið hver þessi ‚mikli múgur‘ væri. En smám saman fengu menn skilning á öðrum spádómum og það undirbjó jarðveginn. Árið 1923 varð þjónum Guðs ljóst að ‚sauðirnir‘ í dæmisögu Jesú í Matteusi 25:31-46, og hinir ‚aðrir sauðir,‘ sem getið er um í Jóhannesi 10:16, væru núlifandi menn sem hefðu tækifæri til að búa eilíflega hér á jörð. Árið 1931 gerðu þeir sér ljóst að þeir sem Esekíel 9:1-11 segir fá merki á ennið hjá manninum með skriffærin, væru þeir hinir sömu og ‚sauðirnir‘ í 25. kafla hjá Matteusi. Og árið 1935 var á það bent að ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9-17 væru þeir hinir sömu og ‚sauðirnir‘ í dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana. Þótt ljóst væri þegar árið 1923 að sumir slíkir sauðumlíkir menn væru byrjaðir að koma fram, var það ekki fyrr en 1935 að þeim fór að fjölga verulega. Núna leita bókstaflega milljónir manna eftir því að teljast hluti af hinum ‚mikla múgi‘ ‚annarra sauða‘ sem njóta hylli Guðs.

3. Hvers vegna þýðir það að þeir „standa frammi fyrir hásætinu“ ekki að þeir séu á himnum?

3 Gerður er greinarmunur á þeim sem mynda ‚múginn mikla‘ og hinum 144.000 meðlimum andlegu Ísraelsþjóðarinnar sem getið er fyrr í sama kafla Opinberunarbókarinnar. Í sýn sinni sá Jóhannes ekki þennan ‚mikla múg‘ á himnum. Að þeir sem mynda hann stóðu „frammi fyrir hásætinu“ (á grísku enópíon tou þronou, merkir bókstaflega „í augsýn hásætisins“), það er að segja hásæti Guðs, útheimtir ekki að þeir séu á himnum. Þeir eru einfaldlega „í augsýn“ Guðs sem segir okkur að frá himnum sjái hann syni mannanna. (Opinb. 7:9; Sálm. 11:4; samanber Sálm 100:1, 2, einnig Lúkas 1:74, 75 og Postulasöguna 10:33, Kingdom Interlinear.) Á sama hátt er ekki nauðsynlegt að „allar þjóðir“ séu á himnum til að safnast frammi fyrir hásæti Krists (bókstaflega „frammi fyrir honum“) eins og lýst er í Matteusi 25:31, 32. Að hinn ‚mikli múgur‘ sem enginn gat tölu á komið,‘ er ekki himneskur sést með samanburði við Opinberunarbókina 7:4-8 og 14:1-4 þar sem gefin er nákvæm tala þeirra sem teknir eru frá jörðinni.

4. (a) Hvað er ‚þrengingin mikla‘ sem þeir lifa af? (b) Hverjir hofra á ‚múginn mikla‘ og taka þátt með honum í tilbeiðslu, samkvæmt Opinberunarbókinni 7:11, 12?

4 Jóhannes segir nánar um hinn ‚mikla múg‘: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu.“ Það sem þeir lifa í gegnum verður svo sannarlega sú mesta þrenging sem jörðin hefur litið. (Opinb. 7:13, 14; Matt. 24:21) Þeir sem lifa af þennan óttalega dag Jehóva munu ekki vera í neinum vafa um hverjum þeir eiga björgun sína að þakka. Þegar þeir þakka Guði og lambinu hjálpræði sitt munu allar trúfastar sköpunarverur á himni taka undir með þeim í að dýrka hinn eina sanna Guð: „Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda.“ — Opinb. 7:11, 12.

Þeir þurfa að sýna sig verðuga björgunar

5. (a) Hvernig getum við gengið úr skugga um hvað þurfi til að vera hluti ‚múgsins mikla‘ sem bjargast? (b) Útskýrðu með hjálp spurninganna við lok þessarar tölugreinar hvers er krafist til að lifa af ‚þrenginguna miklu‘?

5 Hinum ‚mikla múgi‘ er bjargað í samræmi við réttláta staðla Jehóva sjálfs. Þar sem Biblían lýsir spádómlega þeim sem lifa skulu af er dregin upp skýr mynd af því hvað skuli einkenna þá. Það gerir unnendum réttlætisins kleift að gera núna það sem þarf til að bjargast. Við höfum þegar getið þeirra ritningargreina sem á eftir fara. En nú skalt þú skoða þær vandlega með hjálp annarra tilvísana í Ritninguna, og hugleiða hvað þú þurfir að gera til að þessar lýsingar eigi við þig.

 Hinir ‚aðrir sauðir‘ sem lýst er í Jóhannesi 10:16.

 Hvað merkir það að heyra raust Jesú? (Jóh. 10:27; Matt. 9:9; Ef. 4:17-24)

 Hvernig getum við sýnt að við viðurkennum Krist sem okkar ‚eina hirði‘? (Matt. 23:10, 11)

 „Sauðirnir“ í dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana. (Matt. 25:31-46)

 Hverjir eru „bræður“ Krists sem þeir gera gott? (Hebr. 2:10, 11; 3:1)

 Við hvaða erfiðar aðstæður þurfa þeir að standa með bræðrum Krists á jörðinni? Hvaða starfi veita þeir dyggan stuðning? (Opinb. 12:12, 17; Matt. 24:14; 28:19, 20)

 Þeir sem maðurinn með skriffærin merkti til björgunnar. (Esek. 9:1-11)

 Hvernig sýna þeir að þeir eru ekki sáttir við þær viðurstyggðir sem framdar eru í hinni fyrirmynduðu Jerúsalem, kristna heiminum? (Opinb. 18:4, 5)

 Hvað felst í ‚merkinu‘ sem greinir þá frá þeim sem eru einungis kristnir að nafninu til, og gefur þeim möguleika á björgun? (1. Pét. 3:21; Matt. 7:21-27; Jóh. 13:35)

6. Hvernig hjálpar lýsing Jóhannesar á ‚múginum mikla‘ okkur að skilja hvers vegna hann nýtur verndar?

6 Lýsingin á ‚múginum mikla,‘ sem er að finna í Opinberunarbókinni 7:9-15, bætir við þýðingarmiklum atriðum. Með því að segja okkur hvernig þessi ‚mikli múgur‘ gengur fram eftir ‚þrenginguna miklu‘ beinir Ritningin einnig athygli að því sem leiddi til þess að hann hlaut vernd.

7. Hvað gerði þessi hópur fyrir ‚þrenginguna miklu‘ og hvernig kemur það fram?

7 Enda þótt þeir komi frá öllum þjóðum, kynkvíslum, lýðum og tungum standa þeir sameinaðir „frammi fyrir hásætinu“ og viðurkenna Jehóva, sem þar situr, sem drottinvald alheimsins. Þeir hafa sýnt og sannað með lífi sínu að þeir eru dyggir stuðningsmenn drottinvalds hans. Sú staðreynd að þeir hafa „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“ gefir til kynna að þeir hafa viðurkennt þörf sína fyrir friðþæginguna sem fórn Jesú, Guðslambsins, veitti. (Jóh. 1:29; 1. Jóh. 2:2) Í trú hafa þeir vígt sig Guði á grundvelli þeirrar fórnar, gefið tákn um vígslu sína með vatnsskírn og standa nú hreinir frammi fyrir Guði, táknað með hvítu skikkjunum. Þeir hafa ekki veigrað sér við að gera kunnuga trú sína á son Guðs. (Matt. 10:32, 33) Í samræmi við allt þetta eru þeir sýndir standandi í musteri Guðs, alheims-tilbeiðsluhúsi hans, og dýrka Guð með því að „þjóna honum dag og nótt.“ Þeir hafa því sýnt sig drottinholla stuðningsmenn sannrar guðsdýrkunar og boðbera Guðsríkis. — Jes. 2:2, 3.

8. Hvað verðum við að gera til að þessi vitneskja geti verið okkur til gagns?

8 Eiga þessar spádómsmyndir við þig í smáatriðum? Þarft þú á einhverju sviði að færa líf þitt til betra samræmis við það sem hér er lýst? Núna er rétti tíminn til að gera það, ef svo er!

Þeir búa í andlegri paradís

9. Hvernig lýsir Jóhannes þeirri andlegu blessun sem ‚múgurinn mikli‘ nýtur nú þegar?

9 Ert þú einn þeirra sem vonast til að lifa af, vera hluti hins ‚mikla múgs‘? Ef þú hefur samlagað þig réttlátum vegum Jehóva ert þú vafalaust nú þegar farinn að njóta þess sem heitið hefur verið og er réttilega kallað andleg paradís. Jóhannesi postula var sagt: „Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þýrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ (Opinb. 7:16, 17) Hvernig hefur þetta ræst á þér?

10. (a) Hvernig er í andlegum skilningi hægt að segja að ‚múginn mikla hvorki hungri né þyrsti framar‘? (b) Hefur þú reynt það sjálfur?

10 Hungraði þig og þyrsti eftir réttlæti áður en þú komst undir ástríka umsjón góða hirðisins, Jesú Krists? (Samanber Matteus 5:6) Ef svo er þráðir þú nokkuð sem einungis Jehóva gat veitt fyrir milligöngu sonar síns. Þegar þú lærðir um réttláta vegu Jehóva — ætlun hans að tortíma hinum óguðlegu, þá óverðskulduðu náð hans að opna afkomendum Adams leið til björgunar — þá öðlaðist þú vafalaust í fyrsta sinn á ævinni sannan hugarfrið. Andleg fæða og drykkur frá orði Guðs, borin fram í gegnum skipulag hans, hafa haldið áfram að seðja þig. (Jes. 65:13, 14) Og ef þú hefur vígt þig Guði fyrir milligöngu Krists hefur þú núna sannan tilgang í lífinu. (Samanber Jóhannes 4:32-34.) Við þér blasa þær dýrlegu framtíðarhorfur að hljóta eilíft líf á jörð sem verður paradís, því að lambið mun „leiða þá [sem mynda ‚múginn mikla‘] til vatnslinda lífsins.“

11. (a) Í hvaða skilningi ‚brennir hvorki sól né hiti framar‘? (b) Hve mikla þýðingu hefur þetta fyrir þig?

11 Góði hirðirinn verndar og leiðir með styrkri hendi ‚sauðina‘ sem mynda ‚múginn mikla.‘ Þess vegna má svo að orði komast að ‚hvorki sól né nokkur hiti brenni þá.‘ Það þýðir ekki að þú sem tilheyrir ‚múginum mikla‘ munir ekki verða ofsóttur af heiminum. Það merkir að þú hlýtur vernd fyrir hinum brennandi hita vanþóknunar Guðs. Þegar hann lætur rigna eyðingu sinni yfir hina óguðlegu munt þú ekki falla. Þetta dýrmæta samband getur varað eilíflega. — Esek. 38:22, 23; samanber Sálm 11:6; 85:4, 5.

12. Hvernig hafa tár verið þerruð af augum þér nú þegar?

12 Ef þú tilheyrir í raun og sannleika þessum ‚mika múgi‘ hefur þú ærið tilefni til gleði og fagnaðar! Þú berð í brjósti þá stórkostlegu von að sjá hina óguðlegu algerlega afmáða, og finna síðan hug þinn og líkama leystan undan áhrifum syndarinnar. En meira að segja núna ert þú laus við sorgir og áhyggjur þeirra sem þekkja ekki Guð. Þú ert byrjaður að smakka þá gleði sem tilheyrir þeim einum er eiga sér Jehóva að Guði. (Sálm. 144:15b) Með þeim hætti ert þú þegar byrjaður að finna fyrir uppfyllingu fyrirheitsins: „Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

13. Hvað mun auka fögnuð hinnar andlegu paradísar þegar líður á þúsund ára stjórn Jesú Krists?

13 Eins og ‚múgurinn mikli‘ mun lifa af endalok þessa núverandi heimskerfis, svo mun hin andlega paradís lifa þau. Ef þú tilheyrir þeim múgi munt þú halda áfram að sitja að andlegu veisluborði eftir því sem á líður þúsund ára stjórn Krists. Þekking þín á Guði sjálfum mun dýpka þegar þú sérð óbrigðulan tilgang hans uppfyllast með dýrlegum hætti. Gleði þín mun aukast við það að taka á móti vaxandi fjölda upprisinna manna sem sameinast þér í sannri guðsdýrkun. Og hin efnislega blessun, sem þá mun veitast, verður sérstaklega dýrmæt öllum drottinhollum þjónum Guðs því að hún mun vera þeim tákn um kærleika Jehóva sjálfs. — Jes. 25:6-9; Jak. 1:17.

Til upprifjunar

• Hvaða óvenjulegum atburði tengir Biblían ‚múginn mikla‘ og hvernig?

• Hvað verðum við að gera núna ef við viljum tilheyra ‚múginum mikla‘ sem nýtur hylli Guðs?

• Hve mikilvæg er blessun hinnar andlegu paradísar fyrir þig?

[Spurningar]