Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ríki sem mun „aldrei á grunn ganga“

Ríki sem mun „aldrei á grunn ganga“

10. kafli

Ríki sem mun „aldrei á grunn ganga“

1, 2. (a) Hvað undirstrika heimsviðburðirnir hvern dag og hvernig? (b) Hver er eina lausnin?

 ATBURÐIR heimsmálanna undirstrika dag hvern að menn hafa ekki höndlað hamingjuna með því að hafna drottinvaldi Jehóva og reyna að ráða málum sínum sjálfir. Ekkert stjórnkerfi manna hefur veitt öllu mannkyni hlutdrægnislausa blessun. Þótt vísindin hafi náð háu stigi hafa menn ekki getað upprætt synd, sigrast á sjúkdómum eða yfirunnið dauðann, ekki einu sinni fyrir einn einasta mann. Þess í stað halda þjóðirnar áfram að þróa ný og sífellt hræðilegri vopn. Glæpir og ofbeldi vaxa. Tækni, ágirnd og fáfræði sameinast um að menga jarðveginn, vatnið og andrúmsloftið. Óðaverðbólga og atvinnuleysi gera mörgum afar erfitt að afla brýnustu nauðþurfta. Fólk leitar undan komu fullt örvæntingar. — Préd. 8:9.

2 Hver er lausnin? Ríki Guðs sem Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um. (Matt. 6:9, 10) Við ættum að vera afar þakklát að lausnin, sem það mun hafa í för með sér, er mjög nálæg!

3. (a) Hvað gerðist á himnum árið 1914 í sambandi við þetta ríki? (b) Hvers vegna hefur það mikla þýðingu fyrir okkur?

3 Ríki Guðs í höndum Jesú Krists hefur verið starfandi allt frá árinu 1914. * Það ár áttu sér stað á himnum þeir atburðir sem Daníel hafði séð í spádómssýn. „Hinn aldraði,“ Jehóva Guð, fékk Mannssyninum, Jesú Kristi, í hendur „vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ Í frásögn sinni af sýninni sagði Daníel: „Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.“ (Dan. 7:13, 14) Það er með hjálp þessa ríkis að Guð mun gera þeim sem unna réttlætinu fært að njóta allra þeirra gæða sem hann hafði í huga þegar hann setti okkar fyrstu foreldra í paradís.

4. Á hverju höfum við mikinn áhuga og hvers vegna?

4 Drottinhollir þegnar Guðsríkis hafa brennandi áhuga á uppbyggingu og starfi þessarar stjórnar. Þeir vilja vita hvað hún er að gera núna, hverju hún mun áorka í framtíðinni og hvaða kröfur hún gerir til þeirra. Þeir kynna sér allt þetta vandlega og lærist að meta það sífellt meir, og verða betur í stakk búnir að segja öðrum frá því. — Sálm. 48:13, 14.

Athugun sem snertir hjartað

5. (a) Hvernig kemur fram í Biblíunni að drottinvald Jehóva sjálfs birtist í gegnum Messíasarríkið? (b) Hvaða áhrif hefur það sem við lærum um Guðsríki á okkur?

5 Eitt af því fyrsta, sem slík athugun leiðir í ljós, er að þetta Messíasarríki er tjáning drottinvalds Jehóva. Hann var sá sem gaf syni sínum „vald, heiður og ríki.“ Eftir að ríkið tók völd lýstu því raddir á himnum svo yfir: „Heimsríkið er orðið ríki Drottins vors [Jehóva Guðs] og hans Smurða, og hann [Jehóva] mun ríkja um aldir alda.“ (Opinb. 11:15, Ísl. bi. 1912) Allt sem við veitum athygli í sambandi við þetta ríki og það sem það áorkar dregur okkur því nær Jehóva sjálfum. Það vekur með okkur löngun til að lúta drottinvaldi hans að eilífu.

6. Hvers vegna getum við fagnað því að Jesús Kristur skuli ríkja á vegum Jehóva?

6 Við getum fagnað að Jehóva skuli hafa sett Jesú Krist í hásæti til að stjórna í sínum umboði! Jesús vann sem verkstjóri með Guði að sköpun jarðarinnar og mannsins og þekkir því þarfir okkar betur en nokkur maður. Auk þess sýndi hann, allt frá upphafi mannkynssögunnar, að hann hafði ‚yndi af mannanna börnum.‘ (Orðskv. 8:30, 31; Kol. 1:15-17) Svo mikill er sá kærleikur að hann kom í eigin persónu til jarðar og gaf líf sitt sem lausnargjald í þeirra þágu. Þar með opnaði hann okkur leið til að losna úr fjötrum syndar og dauða, og tækifærið til að hljóta eilíft líf. — Matt. 20:28.

7. (a) Hvers vegna mun þessi stjórn vera varanleg, ólíkt stjórnum í höndum manna? (b) Hvert er samband hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ við hina himnesku stjórn?

7 Þessi stjórn er stöðug og varanleg. Varanleiki hennar er tryggður í því að Jehóva sjálfur er ekki undirorpinn dauðanum. (Hab. 1:12; Sálm. 146:3-5, 10) Ólíkt jarðneskum konungum er Jesús Kristur, hann sem Guð hefur falið konungdóm, líka ódauðlegur. (Rómv. 6:9; 1. Tím. 6:15, 16) Með Kristi sitja í himneskum hásætum 144.000 meðstjórnendur, dyggir þjónar Guðs teknir „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.“ Þeim er líka gefinn ódauðleiki (Opinb. 5:9, 10; 1. Kor. 15:42-44, 53) Nú þegar er langstærstur hluti þeirra á himnum, og leifar þeirra, sem enn eru á jörðinni, mynda ‚hinn trúa og hyggna þjón,‘ hópinn sem eflir trúfastur hagsmuni þessa ríkis hér. — Matt. 24:45-47.

8, 9. (a) Hvaða sundrungar- og spillingaröflum mun Guðsríki víkja úr vegi? (b) Hvaða stofnanir, samtök eða athafnir verðum við að forðast ef við viljum ekki verða óvinir Guðsríkis?

8 Innan tíðar, á tilsettum tíma Jehóva, munu aftökusveitir hans ganga fram til að hreinsa jörðina. Þær munu eyða í eitt skipti fyrir öll þeim mönnum sem hafa kosið að þekkja ekki Guð, neita að viðurkenna drottinvald hans og fyrirlíta þær kærleiksríku ráðstafanir sem hann hefur gert í Jesú Kristi. (2. Þess. 1:6-9) Þá er runninn upp dagur Jehóva, hin langþráða stund þegar hann upphefur sig sem drottinvald alheimsins.

9 Öll fölsk trúarbrögð, svo og allar jarðneskar stjórnir og herir þeirra, sem ósýnilegur höfðingi þessa heims hefur stýrt, verða afmáð að eilífu. Allir sem gera sig hluta af þessum heimi, með því að stunda eigingirni, óheiðarleika og siðleysi hans, verða látnir hverfa. Satan og illir andar hans verða í öruggu haldi um þúsund ár, meinuð öll tengsl við jarðarbúa. Hvílíkur léttir fyrir alla sem unna réttlætinu! — Opinb. 18:21, 24; 19:11-16, 19-21; 20:1, 2.

Markmið þess og hvernig þeim verður náð

10. (a) Hvernig mun Messíasarríkið framkvæma tilgang Jehóva með jörðina sjálfa? (b) Hvað mun það hafa í för með sér fyrir þá sem byggja jörðina á þeim tíma?

10 Þetta Messíasarríki mun fullkomna upphaflegan tilgang Guðs með jörðina. (1. Mós. 2:8, 9, 15; 1:28) En allt til þessa dags hefur mönnum ekki auðnast að láta þann tilgang rætast. Hinn ‚komandi heimur‘ hefur hins vegar verið lagður undir Mannssoninn, Jesú Krist. Allir sem lifa af, þegar dómi Jehóva yfir hinni gömlu skipan verður fullnægt, munu vinna sem einn maður undir konunginum Kristi, fagna því að gera hvaðeina sem hann mælir fyrir til að jörðin geti öll orðið paradís. (Hebr. 2:5-9) Allir menn munu njóta handaverka sinna og hinna ríkulegu afurða jarðarinnar. — Sálm. 72:1, 7, 8, 16-19; samanber Jesaja 65:21, 22.

11. (a) Hvernig munu þegnar Guðsríkis öðlast fullkomleika á huga og líkama? (b) Hvað mun það fela í sér?

11 Þegar Adam og Eva voru sköpuð voru þau fullkomin, og ætlun Guðs var sú að jörðin yrði fyllt afkomendum þeirra sem allir væru fullkomnir á huga og líkama. Undir stjórn Guðsríkis verður sá tilgangur að dýrlegum veruleika. Það útheimtir að öll áhrif syndarinnar verði þurrkuð út, og til að svo verði er Kristur ekki aðeins konungur heldur líka æðsti prestur. Þolinmóður mun hann hjálpa hlýðnum þegnum sínum að njóta góðs af þeirri friðþægingarfórn sem hann færði með því að afsala sér lífi sínu sem maður. Augum blindra verður lokið upp. Eyru daufra verða opnuð. Hold afmyndað af elli eða sjúkdómum mun svella af æskuþrótti. Langvinnir sjúkdómar munu víkja fyrir góðri heilsu og lifsþrótti. Sá dagur kemur að enginn mun hafa tilefni til að segja: „Ég er sjúkur,“ því að oki syndarinnar og sorglegum afleiðingum hennar verður létt fullkomlega af guðhræddum mönnum. — Samanber Jesaja 33:22, 24; 35:5, 6; Jobsbók 33:25; Lúkas 13:11-13.

12. (a) Hvað annað felur mannlegur fullkomleiki í sér? (b) Hvernig mun því marki verða náð og hvað hefur það í för með sér?

12 Að öðlast fullkomleika felur þó miklu meira í sér en aðeins að vera heilbrigður á líkama og huga. Það felur í sér að endurspegla á réttan hátt persónuleika Jehóva, því að maðurinn var gerður ‚í mynd Guðs og líkingu.‘ (1. Mós. 1:26) Það kallar á mjög mikla fræðslu. Í þessari nýju skipan á ‚réttlæti að búa‘ þannig að ‚byggjendur jarðríkis munu læra réttlæti‘ eins og spámaðurinn Jesaja sagði. (2. Pét. 3:13; Jes. 26:9) Þessi eiginleiki stuðlar að friði — milli manna allra þjóða, meðal náinna félaga, innan fjölskyldunnar, og framar öllu öðru við Guð sjálfan. (Jes. 32:17; Sálm. 85:11-14) Þeir sem læra réttlæti munu skref fyrir skref fræðast um vilja Guðs með þá. Þegar kærleikurinn til meginreglna Jehóva festir dýpri rætur í hjörtum þeirra munu þeir fylgja þeim á sérhverju sviði lífsins. Hinn fullkomni maður Jesús gat sagt: ‚Ég geri ætíð það sem föður mínum er þóknanlegt.‘ (Jóh. 8:29) Lífið verður sannarlega unaðslegt þegar hægt verður að segja það um allt mannkynið!

Það sem ríkið hefur þegar gert

13. Notaðu spurningarnar hér að ofan til að sýna fram á hvað Guðsríki mun gera og hvað við ættum því að gera.

13 Með augum trúar sjáum við greinilega að Guðsríki hefur nú þegar unnið mikil afrek. Eftirfarandi spurningar og ritningarstaðir minna þig á sum þeirra, svo og það sem allir þegnar Guðsríkis bæði geta og ættu að gera núna:

 Gegn hverjum lét konungurinn fyrst til sín taka og með hvaða árangri? (Opinb. 12:7-10, 12)

 Hvaða lokasöfnun hófst strax eftir að Kristur var sestur í hásæti? (Matt. 24:32; Opinb. 7:1-4)

 Hvaða annað starf sagði Jesús fyrir í Matteusi 25:31-33, sem hann myndi gera eftir að vera sestur í hásæti en áður en hann afmáði hina óguðlegu?

 Hvernig er þetta starf unnið? Hverjir taka þátt í því? (Matt. 24:14; Sálm. 110:3; Opinb. 14:6, 7)

 Hvers vegna hefur pólitískum og trúarlegum andstæðingum ekki tekist að stöðva það? (Post. 5:38, 39; Sak. 4:6)

 Hvaða breytingum hefur fræðslustarfið, sem nú er unnið, nú þegar valdið í lífi þeirra sem viðurkenna stjórn Guðsríkis? (Jes. 2:4; 1. Kor. 6:9-11)

Varanlegt ríki

14. (a) Hve lengi mun Kristur ríkja? (b) Hverju verður áorkað á þeim tíma?

14 Eftir að hafa fjötrað Satan og illa anda hans í undirdjúpi mun Jesús Kristur ríkja um þúsund ár ásamt sínum 144.000 samerfingjum. (Opinb. 20:6) Á þeim tíma verður mannkyninu lyft upp til fullkomleika. Öllum stjórnum og völdum, sem eru í andstöðu við Jehóva, verður rutt úr vegi. Þegar því marki er náð mun Jehóva afhenda föðurnum ríkið „til þess að Guð sé allt í öllu.“ — 1. Kor. 15:24, 28.

15. Í hvaða skilningi mun þetta ríki „aldrei á grunn ganga“?

15 Staða Jesú sjálfs gagnvart jörðinni mun því breytast. Þrátt fyrir það verður stjórn hans ‚eilíf‘ og ríki hans „skal aldrei á grunn ganga.“ (Dan. 7:14) Í hvaða skilningi? Í þeim skilningi að stjórnvaldið mun ekki komast í hendur annarra sem hafa ólík markmið. Það sem Guðsríki hefur áorkað mun „aldrei á grunn ganga.“ Það sem Guðsríki gerir til að upphefja nafn Jehóva og tilgang með þessa jörð mun standa að eilífu.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sjá bókina „Let Your Kingdom Come,“ bls. 127-139.

Til upprifjunar

• Hvers vegna er Guðsríki eina lausnin á vandamálum mannkynsins? Hvenær tók það til starfa?

• Hvað höfðar sérstaklega til þín í sambandi við ríki Guðs og það sem það áorkar? Hvers vegna?

• Hvaða afrek Guðsríkis getum við nú þegar séð? Hvaða hlut eigum við í þeim?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 84, 85]

Menn munu læra réttlæti.