Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tilgangur Jehóva fullnast

Tilgangur Jehóva fullnast

24. kafli

Tilgangur Jehóva fullnast

1, 2. (a) Hver er tilgangur Jehóva varðandi skynsemigæddar sköpunarverur sínar? (b) Hverjir tilheyrðu sameinaðri fjölskyldu tilbiðjenda Guðs? (c) Hvaða persónuleg spurning er verð íhugunar?

 SÁ er hinn vitri og ástríki tilgangur Jehóva að öll skynsemigædd sköpun hans sé sameinuð í sannri guðsdýrkun og allir njóti dýrðarfrelsis Guðs barna. Það þrá líka allir sem unna réttlætinu.

2 Jehóva byrjaði að uppfylla sinn mikla tilgang þegar hann hóf sköpunarstarf sitt. Fyrsta sköpunin var sonur hans sem er „ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans.“ (Hebr. 1:1-3) Þessi sonur var einstakur að því leyti að Guð skapaði hann einn saman. Í gegnum þennan son urðu allir aðrir synir Guðs til — fyrst englar á himnum og síðan maðurinn á jörðinni. (Job. 38:7; Lúk. 3:38) Allir þessir synir voru ein alheimsfjölskylda. Jehóva var Guð þeirra allra, sá eini sem skyldi tilbeðinn. Hann var drottinvaldur alheimsins og kærleiksríkur faðir þeirra. Er hann líka faðir þinn og ert þú eitt barna hans? Slíkt samband getur verið mjög dýrmætt fyrir þig!

3. (a) Hvers vegna er ekkert okkar barn Guðs frá fæðingu? (b) Hvaða ráðstöfun gerði Jehóva í þágu afkomenda Adams?

3 Við verðum samt sem áður að horfast í augu við það að þegar okkar fyrstu jarðnesku foreldrar voru dæmdir til dauða sem sjálfviljugir syndarar afneitaði Guð þeim og rak úr Edengarðinum. Þeir hættu að tilheyra alheimsfjölskyldu Jehóva. (1. Mós. 3:22-24; Samanber 5. Mósebók 32:4, 5.) Með því að við erum afkomendur syndarans Adams erum við öll fædd með syndugar tilhneigingar. Þar eð við erum komin af foreldrum, sem voru reknir úr fjölskyldu Guðs, getum við ekki krafist þess að teljast synir Guðs einfaldlega af því að við erum fæddir sem menn. En Jehóva vissi að sumir afkomenda Adams myndu unna réttlætinu og gerði kærleiksríka ráðstöfun til að þeir gætu hlotið dýrðarfrelsi Guðs barna. — Rómv. 8:20, 21.

Forréttindastaða Ísraelsmanna

4. (a) Á hvaða grundvelli voru Ísraelsmenn ‚synir‘ Guðs? (b) Hvað merkti það þó ekki?

4 Um 2500 árum eftir sköpun Adams veitti Jehóva aftur vissum mönnum þau sérréttindi að eiga við sig sonarsamband. Í samræmi við sáttmála sinn við Abraham útvaldi Jehóva Ísraelsmenn sem þjóð sína. Því talaði hann um Ísrael sem ‚son sinn‘ við Faraó Egyptalands. (2. Mós. 4:22, 23; 1. Mós. 12:1, 2) Síðar gaf hann Ísraelsmönnum lögmál sitt við Sínaífjall, gerði þá að þjóð og notaði í tengslum við tilgang sinn. Þar eð Ísraelsmenn voru nú „eignarlýður“ Jehóva voru þeir kallaðir ‚sýnir‘ Guðs. (5. Mós. 14:1, 2, NW; Jes. 43:1, NW) Þar fyrir utan kallaði Jehóva vissa einstaklinga innan þjóðarinnar syni sína vegna sérstakra samskipta við þá. (1. Kron. 22:9, 10) Þessi sérstaða Ísralsmanna byggðist á sáttmálasambandi við Guð. Hún þýddi þó ekki að þeir nytu þess dýrðarfrelsis sem Adam hafði haft sem sonur Guðs. Þeir voru enn í fjötrum syndar og dauða.

5. Hvernig glataði Ísraelsþjóðin sérstöðu sinni gagnvart Guði?

5 Sem synir nutu þeir þó sérstakrar hylli Guðs. Á þeim hvíldi líka sú ábyrgð að virða föður sinn og vinna í samræmi við tilgang hans. Jesús undirstrikaði hversu mikilvægt væri að þeir uppfylltu þá skyldu — ekki aðeins með því að kalla Guð föður sinn heldur ‚reynast‘ vera synir hans. (Matt. 5:43-48; Mal. 1:6) Sem þjóð tókst Gyðingunum ekki að gera það. Á síðasta þjónustuári Jesú hér á jörð sögðu Gyðingarnir, sem leituðust við að lífláta Jesú: „Einn föður eigum vér, Guð.“ Jesús benti þeim á að verk þeirra og andinn, sem þeir sýndu, bæri vitni um annað. (Jóh. 8:41, 44, 47) Árið 33 felldi Guð lagasáttmálann úr gildi og grundvöllur hins sérstaka sambands Ísraelsmanna við Guð var brostinn. Jehóva hætti þó ekki að viðurkenna suma menn sem syni sína.

Jehóva sameinar þjóna sína

6. Hvaða ‚framkvæmd‘ lýsti Páll í Efesusbréfinu 1:9, 10 og hvert er markmið hennar?

6 Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Efesus um áætlun Jehóva til að sameina þjóna sína — fyrirkomulag Guðs til að þeir sem iðkuðu trú gætu orðið elskaðir meðlimir fjölskyldu hans. Hann sagði: „[Guð] kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ (Ef. 1:9, 10) Þessi ‚framkvæmd‘ Guðs snýst um Jesú Krist. Fyrir hans milligöngu geta menn hlotið velvild Guðs — sumir með það í vændum að vera á himnum en aðrir á jörðinni — til að þjóna í sameiningu við englasyni Guðs sem hafa reynst Jehóva drottinhollir.

7. Hvað er ‚það sem er á himnum‘ og hvað felur það í sér fyrir þá að vera safnað saman?

7 Í fyrstu, frá og með hvítasunnunni árið 33, var athyglinni beint að „því, sem er á himnum,“ þar er að segja þeim sem verða myndu samerfingjar Krists að hinum himneska ríki. Vegna trúar sinnar á verðmæti fórnar Jesú lýsti Guð þá réttláta. (Rómv. 5:1, 2) Síðan ‚fæddust þeir að nýju‘ eða voru leiddir fram sem synir Guðs með himneskt líf í vændum. (Jóh. 3:3; 1:12, 13) Guð gerði nú nýjan sáttmála við þá sem andlega þjóð. Með tíð og tíma skyldu bæði Gyðingar og heiðingjar tilheyra henni, alls 144.000 einstaklingar. — Gal. 3:26-26; Opinb. 14:1.

8. Hvernig er samband ríkiserfingjanna við föðurinn í samanburði við samband Gyðinganna við hann undir Móselögunum?

8 Enda þótt þeir sem eftir eru af þessum erfingjum hins himneska ríkis séu enn ófullkomnir í holdinu eiga þeir dýrmætt og innilegt samband við föðurinn. Páll skrifaði um það: „Þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: ‚Abba, faðir!‘ Þú ert þá ekki framar þræll heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs.“ (Gal. 4:6, 7) Arameíska orðið „abba“ merkir „faðir,“ en það er mjög innilegt ávarpsorð, þess konar sem lítið barn notar við föður sinn. Vegna hinnar betri fórnar Jesú og óverðskuldaðrar náðar Guðs njóta þessir andagetnu kristnu menn sambands við Guð sem er innilegra en ófullkomnir menn gátu hlotið undir lögmálinu. En það sem þeir eiga í vændum er enn stórkostlegra.

9. Hvað felst í því fyrir þá að sonarsamband þeirra nær fullum veruleika?

9 Ef þeir reynast trúfastir allt til dauða mun sonarsamband þeirra við Guð verða fullur veruleiki með því að þeir eru reistir upp til ódauðlegs lífs á himnum. Þar munu þeir hljóta þau sérréttindi að þjóna sameiginlega í návist Jehóva Guðs sjálfs. Einungis lítill fjöldi þessara sona Guðs er enn eftir á jörðinni. — Rómv. 8:14, 23; 1. Jóh. 3:1, 2.

Safnað saman „því sem er á jörðu“

10. (a) Hvað er ‚það sem er á jörðu‘ og hvenær var byrjað að safna því til sameinaðrar guðsdýrkunar? (b) Hvert er samband þeirra til Jehóva?

10 Sú sama ‚framkvæmd‘ Guðs, sem gerir mögulegt að safna mönnum í fjölskyldu Guðs með eilíft líf í vændum, tekur líka til ‚þess sem er á jörðu.‘ Einkum frá 1935 hefur mönnum, sem trúa á fórn Krists, verið safnað saman með von um eilíft líf á jörðinni. Þeir mikla nafn Jehóva og upphefja tilbeiðsluna á honum sem einn maður ásamt þeim sem eftir eru af hinum smurða hópi. (Sef. 3:9; Jes. 2:2, 3) Þeir ávarpa Jehóva líka „föður“ með djúpri virðingu, því að þeir viðurkenna hann sem uppsprettu lífsins og leitast í einlægni við að endurspegla eiginleika hans eins og hann væntir af sonum sínum. Þeir standa velþóknanlegir frammi fyrir honum vegna trúar sinnar á úthellt blóð Jesú. (Matt. 6:9; Opinb. 7:9, 14) Þeir vita þó að sú gleði að hljóta fulla viðurkenningu sem börn Guðs bíður síns tíma.

11. (a) Hvaða loforð gefur Rómverjabréfið 8:19-21 mannkyninu? (b) Hver er ‚opinberun sona Guðs‘ sem menn bíða með óþreyju?

11 Eins og fram kemur í Rómberjabréfinu 8:19-21 bíða þeir þess með óþreyju að „Guðs börn verði opinber,“ því að þá er komið að því að hin mannlega sköpun verður „leyst úr ánauð forgengileikans.“ Þessi ‚opinberun‘ mun eiga sér stað þegar menn hér á jörðinni sjá merki þess að andasmurðir synir Guðs, sem hafa hlotið sín himnesku laun, hafi látið til skarar skríða sem meðstjórnendur hins dýrlega Drottins, Jesú Krists. Það mun sýna sig með eyðingu alls hins illa heimskerfis, og síðan rennur upp blessun þúsundárastjórnar Krists þegar þessir ‚synir Guðs‘ munu vera konungar og prestar með honum. — Opinb. 2:26, 27; 20:6.

12. Hvaða lofsöng munu hinir sigursælu andasynir Guðs syngja eftir þrenginguna miklu, og hvað þýðir hann?

12 Mikil verður sú gleði þegar þrengingin mikla er hjá og þessir synir Guðs, sem hafa sameinast Kristi, syngja einum rómi þennan gleðisöng, til lofs Guði: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.“ (Opinb. 15:3, 4) Já, allt mannkynið, fólk af öllum þeim þjóðum sem áður voru, mun sameinst í tilbeiðslu á hinum sanna Guði. Jafnvel þeir sem hvíla í minningargröfunum verða reistir upp og fá tækifæri til að taka undir lofsönginn til Jehóva.

13. Hvaða dýrðarfrelsis munu þeir sem lifa af þrenginguna miklu njóta samstundis?

13 Satan djöfullinn verður ekki lengur „guð þessa heimskerfis.“ Dýrkendur Jehóva hér á jörðinni þurfa ekki lengur að berjast gegn illum áhrifum hans. (2. Kor. 4:4, NW; Opinb. 20:1-3) Falstrúarbrögð munu ekki framar draga upp ranga mynd af okkar ástríka Guði og sundra mannfélaginu. Þjónar hins sanna Guðs þurfa ekki lengur að þola misrétti og arðrán valdamanna. Hvílíkt frelsi til handa þeim sem lifa af þrenginguna miklu!

14. Hvernig verða þeir frelsaðir undan syndinni og öllum áhrifum hennar?

14 Jesús Kristur, „Guðs lamb, sem ber synd heimsins,“ mun nota verðgildi fórnar sinnar til að þurrka út allar fyrri syndir mannkynsins. (Jóh. 1:29) Þegar Jesús var á jörðinni og lýsti syndir manns fyrirgefnar læknaði hann líka þann sem fyrirgefninguna hlaut, til að sanna það. (Matt. 9:1-7) Á líkan hátt mun hann frá himnum lækna á undraverðan hátt hina blindu, daufu, mállausu, limlestu, geðsjúku og aðra sem þjást á annan hátt. Smám saman munu allir fúsir og hlýðnir menn móta sig eftir réttlátum vegum Jehóva, þannig að „lögmál syndarinnar“ missir algerlega tök sín á þeim. Þá munu öll verk þeirra, hugsanir og langanir hjartans verða þóknanlegar bæði sjálfum þeim og Guði. (Rómv. 7:21-23; samanber Jesaja 25:7, 8 og Opinberunarbókina 21:3, 4.) Fyrir lok þúsundáraríkisins verður búið að hjálpa þeim að ná algerum, mannlegum fullkomleika. Þeir hafa þá verið losaðir algerlega undan syndinni og öllum hinum illbæru afleiðingum hennar. Þeir munu fullkomlega endurspegla ‚mynd Guðs og líkingu‘ í jarðneskri paradís sem teygir sig um allan hnöttinn. — 1. Mós. 1:26.

15. Hvað mun Kristur gera við lok þúsundáraríkisins og hvers vegna?

15 Þegar Kristur hefur leitt mannkynið til fullkomleika mun hann skila föðurnum aftur því valdi sem honum var falið til þessa verks. Því er lýst þannig í 1. Korintubréfi 15:28: „En þegar allt hefur verið lagt undir hann [soninn], þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guðs sé allt í öllu.“

16. Hvað þurfa allir fullkomnaðir menn nú að gera og hvers vegna?

16 Mannkyninu, sem nú er orðið fullkomið, verður gefið tækifæri til að sýna að það sé ófrávíkjanleg ákvörðun þess að þjóna hinum eina lifandi og sanna Guði að eilífu. Áður en Jehóva tekur sér þessa fullkomnuðu menn fyrir syni í gegnum Jesú Krist mun hann því láta þá alla gangast undir rækilegt lokapróf. Satan og djöflum hans verður sleppt úr undirdjúpinu. Það verður þó ekki til neins varanlegs tjóns þeim sem í sannleika elska Jehóva. En hver sem lætur leiða sig út í óhlýðni við Jehóva verður afmáður fyrir fullt og allt ásamt hinum gamla uppreisnarsegg og illum öndum hans. — Opinb. 20:7-10.

17. Hvaða skilyrði munu aftur ríkja meðal allra skynsemigæddra sköpunarvera Jehóva, til að uppfylla tilgang hans?

17 Eftir það mun Jehóva í kærleika sínum taka sér fyrir syni í gegnum Krist alla fullkomnaða menn sem hafa staðist þessa endanlegu úrslitaprófraun. Þeir eignast þá fulla hlutdeild í ‚dýrðarfrelsi Guðs barna.‘ (Rómv. 8:21) Þeir verða loksins hluti af sameinaðri alheimsfjölskyldu Guðs, og um alla eilífð verður Jehóva hinn eini Guð þeirra, drottinvaldur alheimsins, og ástríkur faðir. Þá verður öll skynsemigædd sköpun Jehóva á himni og jörð enn á ný sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði.

Til upprifjunar

Hvaða samband áttu allir tilbiðjendur Jehóva við hann fyrir uppreisnina í Eden?

● Hvaða ábyrgð hvílir á þeim sem eru synir Guðs?

● Hverjir eru synir Guðs núna? Hverjir eiga eftir að verða börn Guðs, og hvernig er það tengt tilgangi Jehóva varðandi sameinaða tilbeiðslu?

[Spurningar]