Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við þurfum að iðka guðrækni á heimilinu

Við þurfum að iðka guðrækni á heimilinu

18. kafli

Við þurfum að iðka guðrækni á heimilinu

1. (a) Hvaða breytingar hafa margir gert eftir að hafa lært um staðla Jehóva um hjónaband? (b) En hvað fleira er fólgið í kristnu fjölskyldulífi?

 MEÐAL þeirra gleðilegu sanninda, sem við höfum lært áður í biblíunámi okkar, eru þau sem varða hjónaband og fjölskyldulíf. Við höfum kynnst Jehóva sem höfundi hjónabandsins og séð að hann hefur í Biblíunni gefið fjölskyldum bestu lífsreglur sem hugsast geta. Sú leiðsögn hefur orðið til þess að margir hafa snúið baki við siðlausu lífi og látið lögskrá hjónabönd sín. Það er hrósunarvert. En kristið fjölskyldulíf er miklu meira en þetta. Það er ekki síður þýðingarmikið að við lítum á hjónabandið sem varanlegt, rækjum skyldur okkar innan vébanda fjölskyldunnar og komum rétt fram við aðra í fjölskyldunni. — Ef. 5:33-6:4.

2. (a) Breyta allir, sem þekkja eitthvað til meginreglna Biblíunnar, eftir þeim á heimilinu? (b) Hvernig undirstrika Jesús og Páll mikilvægi þess að gera það?

2 Milljónir manna vita hvað Biblían segir um þessi mál, en þegar upp koma vandamál á þeirra eigin heimili fara þeir ekki eftir því. Hvað um okkur? Víst er að ekkert okkar vill vera eins og þeir sem Jesús fordæmdi fyrir að sniðganga boð Guðs um að börn heiðruðu foreldra sína, og sögðu að nóg væri að vera trúrækinn á yfirborðinu. (Matt. 15:4-9) Við viljum ekki vera menn sem hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en iðka hana ekki á „eigin heimili.“ Þess í stað ættum við að vilja sýna sanna guðrækni sem er „mikill gróðavegur.“ — 1. Tím. 5:4; 6:6; 2. Tím. 3:5.

Hve lengi mun hjónabandið endast?

3. (a) Hvernig fer oft fyrir hjónaböndum en hvað ættum við að vera staðráðin í að gera? (b) Notaðu Biblíuna til að svara spurningunum að ofan um hjónaband og skilnað.

3 Sífellt algengara er að hjúskaparböndin reynist mjög ótraust. Algengt er orðið að fólk, sem hefur verið gift í 20, 30 eða 40 ár, ákveði að hefja „nýtt líf“ með einhverjum öðrum. Ekki er heldur óalgengt lengur að ung hjón slíti samvistum eftir nokkurra mánaða sambúð. En óháð því hvað aðrir gera ættum við, dýrkendur Jehóva, að þrá að þóknast Guði. Hvað segir orð Guðs um þetta?

 Þegar maður og kona ganga í hjónaband, hve lengi eiga þau að reikna með að búa saman? (Rómv. 7:2, 3; Mark. 10:6-9)

 Hver er eina, gilda skilnaðarástæðan fyrir Guði? (Matt. 19:3-9; 5:31, 32)

 Hve alvarlegir í augum Jehóva eru hjónaskilnaðir sem eru ekki heimilir samkvæmt orði hans? (Mal. 2:13-16)

 Aðhyllist Biblían samvistarslit til að leysa vandamál í hjónabandi? (1. Kor. 7:10-13)

4. Hvers vegna eru sum hjónabönd traust þrátt fyrir þróunina í heiminum?

4 Hvers vegna endast sum hjónabönd meðan slitnar upp úr öðrum — jafnvel meðal þeirra sem játa sig kristna? Miklu skiptir að bíða með hjónaband þar til bæði hjónaleysin hafa náð þroska. Einnig er mikilvægt að finna sér maka með svipuð áhugamál, maka sem hægt er að ræða opinskátt við um hin ýmsu mál. Ósvikin guðrækni er þó enn mikilvægari eiginleiki. Ef bæði hjónin elska Jehóva og eru sannfærð um að hans vegir séu réttir, þá er lagður traustur grunnur að því að leysa vandamál sem upp koma. (Sálm. 119:97, 104; Orðskv. 22:19) Það viðhorf mun ekki grafa undan slíku hjónabandi að alltaf sé hægt að slíta því ef það gengur ekki nógu vel. Slíkt fólk notfærir sér ekki galla eða ófullkomleika maka síns til að hlaupa frá skyldum sínum. Þess í stað lærir það að horfast í augu við vandamál lífsins og finna nothæfa lausn.

5. (a) Hvernig er hollusta við Jehóva tengd þessu máli? (b) Hvaða gagn er að því að halda fast við staðla Jehóva, jafnvel þegar alvarlegir erfiðleikar koma upp?

5 Okkur er fullljóst að djöfullin heldur því fram að við látum vegi Jehóva lönd og leið ef við þjáumst, og ályktum að best sé að ákveða sjálf hvað sé gott og hvað sé illt. En þeir sem eru drottinhollir Jehóva eru ekki þannig. (Job 2:4, 5; Orðskv. 27:11) Yfirgnæfandi meirihluti votta Jehóva, sem hefur mátt þola andstöðu eða ofsókn af hendi maka sem ekki er í trúnni, hefur haldið tryggð við maka sinn. (Matt. 5:37) Sumum hefur meira að segja hlotnast sú gleði, eftir nokkurt árabil, að maki þeirra hefur gengið til liðs við þá í þjónustu Jehóva. (1. Kor. 7:16; 1. Pét. 3:1, 2) Og jafnvel þeir sem hafa enga breytingu séð á afstöðu maka síns eða hafa orðið fyrir því að makinn hefur yfirgefið þá vegna fastheldni þeirra við trúna, hafa líka hlotið ríkulega blessun fyrir það að halda sér við staðla Jehóva. Á hvaða hátt? Aðstæður þeirra hafa kennt þeim að tengjast Jehóva nánari böndum. Þeir hafa lært að endurspegla eiginleika Guði að skapi, jafnvel þegar móti blæs. Líf þeirra ber vitni um þann kraft sem liggur í guðrækninni. — Sálm. 55:23; Jak. 1:2-4; 2. Pét. 1:5, 6.

Hver þarf að gera sitt

6. Hvaða fyrirkomulag verður að virða til að hjónaband heppnist vel?

6 Hamingjuríkt og velheppnað hjónaband felur auðvitað í sér meira en aðeins að búa saman. Grundvallaratriði er að allir í fjölskyldunni virði fyrirkomulag Jehóva varðandi yfirráð. Það stuðlar að góðri reglu og öryggistilfinningu innan veggja heimilisins. — 1. Kor. 11:3; Tít. 2:4, 5; Orðskv. 1:8, 9; 31:10, 28.

7. Hvernig ætti að beita yfirvaldi í fjölskyldunni?

7 Hvernig á að beita þessu yfirvaldi? Á þann veg sem endurspeglar eiginleika Jesú Krists. Jesús heldur sér ófrávíkjanlega við vegu Jehóva; hann elskar réttlæti og hatar ranglæti. (Hebr. 1:8, 9) Hann elskar söfnuð sinn innilega, leiðbeinir honum og annast. Hann er hvorki drambsamur né tillitslaus heldur „hógvær og af hjarta lítillátur,“ og þeir sem koma undir hans yfirráð ‚finna hvíld sálum sínum.‘ (Matt. 11:28, 29; Ef. 5:25-33) Þegar eiginmaður og faðir kemur þannig fram við fjölskyldu sína er augljóst að hann lýtur sjálfur yfirvaldi Krists sem gaf hið fullkomna fordæmi um guðrækni. Kristnar mæður ættu auðvitað að sýna sömu eiginleika gagnvart börnum sínum.

8. (a) Hvers vegna getur stundum virst að kristilegar aðferðir skili ekki tilætluðum árangri? (b) Hvað ættum við að gera ef slíkar aðstæður koma upp?

8 Sökum mannlegs ófullkomleika koma þó stundum upp vandamál. Viss stífni gegn stjórn annarra kann að hafa fest djúpar rætur hjá sumum í fjölskyldunni áður en nokkurt þeirra fór að fylgja meginreglum Biblíunnar. Vingjarnleg tilmæli og kærleiksrík framkoma virðist kannski ekki skila árangri. Við vitum að Biblían segir okkur að leggja af „ofsa, reiði, hávaða og lastmæli.“ (Ef. 4:31) En hvað á að gera ef sumir virðast ekki skilja neitt annað? Nú, hvernig brást Jesús við þegar hann varð fyrir miklum þrýstingi? Hann líkti ekki eftir þeim sem hótuðu og skömmuðust. Þess í stað gaf hann sig föðurnum á vald og reiddi sig á hann. (1. Pét. 2:22, 24) Ef erfiðar aðstæður koma upp á heimilinu ber það líka vott um guðrækni af okkar hálfu ef við snúum okkur til Jehóva og biðjum hann um hjálp, í stað þess að taka upp aðferðir heimsins. — Orðskv. 3:5-7.

9. Hvað hafa margir kristnir eiginmenn lært að gera í stað þess að finna að?

9 Breytingar taka oft sinn tíma, en ráð Biblíunnar skila alltaf góðum árangri. Margir eiginmenn, sem áður fundu hástöfum að göllum eiginkvenna sinna, hafa komist að raun um að heimilisástandið færðist mjög til betri vegar þegar þeir sjálfir öðluðust gleggri skilning á því hvernig Kristur kemur fram við söfnuð sinn. Þessi söfnuður er ekki myndaður af fullkomnum mönnum. Samt sem áður elskar Jesús söfnuðinn, gaf honum rétt fordæmi, lagði jafnvel líf sitt í sölurnar fyrir hann, og hann notar Ritninguna til að hjálpa honum að bæta sig þannig að hann geti verið honum þóknanlegur á allan hátt. (Ef. 5:25-27; 1. Pét. 2:21) Fordæmi hans hefur hvatt margan kristinn eiginmann til að leggja sig fram um að gefa gott fordæmi og veita konu sinni kærleiksríka, persónulega hjálp til að taka framförum. Slíkar aðferðir skila miklu betri árangri en naprar aðfinnslur eða hreinlega þögnin.

10. (a) Á hvaða vegu gæti eiginmaður og faðir — jafnvel þótt han segist vera kristinn — gert öðrum á heimilinu tilveruna erfiða? (b) Hvað er hægt að gera til að bæta ástandið?

10 Að sjálfsögðu geta það verið gallar eiginmannsins og föðurins sem valda vandamálum á heimilinu. Kannski er hann ekki næmur fyrir tilfinningalegum þörfum fjölskyldu sinnar eða tekur ekki forystu í því að fjölskyldan ræði saman um Biblíuna eða geri annað í sameiningu. Á sumum heimilum hefur það verið stór hjálp að ræða málið opinskátt og vingjarnlega. (Orðskv. 15:22; 16:23; 31:26) En jafnvel þótt árangurinn sé ekki jafngóður og vænst var getur hver og einn í fjölskyldunni lagt fram drjúgan skerf að bættu andrúmslofti á heimilinu með því að rækta sjálfur ávexti andans og sýna hinum í fjölskyldunni ást, umhyggju og tillitssemi. Framfarirnar verða ekki með því að bíða eftir að hinir geri eitthvað, heldur með því að gera sjálfur sitt og sýna þannig að við þráum að ástunda guðrækni á heimilinu. — Kol. 3:18-20, 23, 24.

Þar sem leiðsögn er að fá

11, 12. (a) Hvað hefur Jehóva gefið okkur sem hjálp til að leysa vandamál í fjölskyldunni? (b) Hvernig getum við haft fullt gagn af þessari hjálp?

11 Menn leita víða leiðsagnar um fjölskyldumál, en við vitum að orð Guðs geymir langbestu ráðin og erum þakklát að hann skuli hjálpa okkur í gegnum sitt sýnilega skipulag að fylgja þeim. Notfærir þín fjölskylda sér þessa hjálp til fulls? — Sálm. 119:129, 130; Míka 4:2.

12 Hafið þig frátekinn ákveðinn tíma til fjölskyldunáms í Biblíunni, auk þess að sækja safnaðarsamkomur? Fjölskyldur, sem gera það reglulega í hverri viku, sameinast í tilbeiðslu sinni. Sameiginlegar umræður um hvernig heimfæra megi orð Guðs í þeirra fjölskyldu auðga fjölskyldulífið. — Samanber 5. Mósebók 11:18-21.

13. (a) Hvar getum við oft fundið svör við spurningum um hjónaband eða fjölskyldulíf? (b) Hvað ættu allar ákvarðanir okkar að endurspegla?

13 Vera má að þig hjónin hafi ýmsar spurningar um mál sem tengjast fjölskyldu- og hjónalífi. Hvernig ber til dæmis að líta á getnaðarvarnir? Eru frjósemisaðgerðir við hæfi fyrir kristna menn? Er fóstureyðing réttlætanleg ef líklegt virðist að barn geti fæðst vanskapað? Eru því einhver takmörk sett hvað sé viðeigandi í kynlífi hjóna? Í hvaða mæli ber að krefjast þess að unglingur, sem sýnir andlegum málum lítinn áhuga, taki þátt í guðsdýrkun fjölskyldunnar? Vafalaust hefur þú þínar skoðanir á þessum málum, en getur þú stutt þær biblíulegum rökum? Sérhver þessara spurninga hefur verið rædd í Varðturninum. Lærðu að nota efnisskrár til að finna slíkt efni. Ef þú átt ekki til rit nógu langt aftur í tímann getur þú leitað í bókasafni Ríkissalarins. Þú skalt þó ekki reikna með að öllum spurningum sé svarað afdráttarlaust játandi eða neitandi. Stundum þarft þú sjálfur að taka ákvörðunina — einn eða í félagi við maka þinn. Lærðu að taka ákvarðanir sem endurspegla kærleika þinn til Jehóva og fjölskyldu þinnar. Taktu ákvarðanir sem bera vitni um einlæga löngun þína til að vera Guði þóknanlegur. Ef þú gerir það verður það bæði Jehóva Guði og öðrum, sem þekkja þig náið, ljóst að þú iðkar sanna guðrækni, ekki aðeins út á við heldur líka á þínu eigin heimili. — Ef. 5:10; Rómv. 14:19.

Til upprifjunar

• Hvernig er trúfesti við hjúskaparheitið tengd hollusti við Jehóva?

• Hvað hjálpar okkur að gera það sem er Guði þóknanlegt þegar vandamál steðja að fjölskyldunni?

• Hvað getum við gert til að bæta ástandið ef aðrir í fjölskyldunni fylgja ekki meginreglum Biblíunnar sem skyldi?

[Spurningar]