Óttist ekki Assúr
12. kafli
Óttist ekki Assúr
1, 2. (a) Af hverju hafði Jónas gilda ástæðu, frá mannlegum bæjardyrum séð, til að hika við að prédika fyrir Assýringum? (b) Hvernig brugðust Nínívemenn við boðskap Jónasar?
ÞAÐ var um miðbik níundu aldar f.o.t. sem hebreski spámaðurinn Jónas Amittaíson hætti sér til Níníve, höfuðborgar assýrska heimsveldisins. Hann átti að flytja þungan boðskap. Jehóva hafði sagt honum: „Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og prédika móti henni, því að vonska þeirra er upp stigin fyrir auglit mitt.“ — Jónas 1:2, 3.
2 Fyrstu viðbrögð Jónasar við þessu verkefni voru að leggja á flótta í þveröfuga átt til Tarsis. Frá mannlegum bæjardyrum séð hafði hann ástæðu til að vera tregur til fararinnar. Assýringar voru grimmir. Til marks um það er lýsing eins af Assýríukonungum á því hvernig hann fór með óvini sína: „Ég hjó útlimina af foringjunum . . . Marga fanga úr hópnum brenndi ég í eldi og marga hertók ég lifandi. Af sumum hjó ég hendurnar og fingurna, og af öðrum hjó ég nefið.“ En um síðir flutti Jónas Nínívemönnum boðskap Jehóva og þeir iðruðust synda sinna svo að Jehóva þyrmdi borginni á þeim tíma. — Jónas 3:3-10; Matteus 12:41.
Jehóva tekur upp ‚vöndinn‘
3. Hvernig bregðast Ísraelsmenn við viðvörunum spámanna Jehóva ólíkt Nínívemönnum?
3 Jónas prédikaði líka fyrir Ísraelsmönnum. En tóku þeir sinnaskiptum? (2. Konungabók 14:25) Nei, þeir sneru baki við hreinni guðsdýrkun. Þeir gengu svo langt að ‚falla fram fyrir öllum himinsins her og dýrka Baal.‘ Jafnframt létu þeir „sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn, fóru með galdur og fjölkynngi og ofurseldu sig til að gjöra það, sem illt var í augum [Jehóva], til þess að egna hann til reiði.“ (2. Konungabók 17:16, 17) Ólíkt Nínívemönnum taka Ísraelsmenn ekki við sér þegar Jehóva sendir spámenn til að vara þá við. Þess vegna ákveður hann að grípa til harkalegri aðgerða.
4, 5. (a) Hver er „Assúr“ og hvernig ætlar Jehóva að nota hann sem ‚vönd‘? (b) Hvenær fellur Samaría?
4 Það dregur úr yfirgangi Assýringa um tíma eftir að Jónas heimsækir Níníve. * En í byrjun áttundu aldar f.o.t. lætur Assýría aftur til sín taka sem herveldi og Jehóva notar hana með furðulegum hætti. Spámaðurinn Jesaja flytur norðurríkinu Ísrael viðvörun frá honum: „Vei Assúr, vendinum reiði minnar! Heift mín er stafurinn í höndum þeirra. Ég sendi hann móti guðlausri þjóð, ég býð honum að fara á móti lýðnum, sem ég er reiður, til þess að ræna og rupla og troða hann fótum sem saur á strætum.“ — Jesaja 10:5, 6.
5 Hvílík niðurlæging fyrir hina fráhverfu Ísraelsmenn! Guð notar heiðna þjóð, „Assúr,“ sem refsivönd. Salmaneser 5. Assýríukonungur sest um Samaríu, höfuðborg Ísraels, árið 742 f.o.t. Samaría stendur á 90 metra hárri hæð og tekst að verjast óvininum í nærri þrjú ár. En engin mannleg herkænska getur hindrað Guð í að ná fram tilgangi sínum. Samaría fellur árið 740 f.o.t. og er fótum troðin af Assýringum. — 2. Konungabók 18:10.
6. Hvernig gengur Assúr lengra en Jehóva ætlaði honum?
6 Assýringar viðurkenna ekki Jehóva þó svo að hann noti þá til að kenna fólki sínu lexíu. Hann heldur því áfram: „En [Assúr] skilur það eigi svo, og hjarta hans hugsar eigi svo, heldur girnist hann að eyða og uppræta margar þjóðir.“ (Jesaja 10:7) Assúr á að vera verkfæri í hendi Guðs en hefur annað í hyggju. Hjartað knýr hann til að setja markið enn hærra — að leggja undir sig allan hinn þekkta heim!
7. (a) Útskýrðu orðin: „Eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar?“ (b) Hverju ættu þeir að gefa gaum sem yfirgefa Jehóva nú á tímum?
7 Margar borgir utan Ísraels, sem Assýringar hafa unnið, voru áður undir stjórn konunga. Þessir fyrrverandi konungar þurfa nú að lúta Assýríukonungi sem lénshöfðingjar svo að hann getur sagt digurbarkalega: „Eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar?“ (Jesaja 10:8) Falsguðir þekktra borga meðal þjóðanna megnuðu ekki að forða dýrkendum sínum frá tortímingu. Guðirnir, sem Samaríubúar tilbiðja, svo sem Baal, Mólok og gullkálfarnir, geta ekki verndað borgina. Samaría hefur yfirgefið Jehóva svo að hún getur með engum rétti ætlast til að hann skakki leikinn. Þeir sem yfirgefa Jehóva nú á tímum ættu að gefa gaum að örlögum hennar! Assúr getur sagt stærilátur um Samaríu eins og hinar borgirnar sem hann hefur unnið: „Fór ekki fyrir Kalne eins og fyrir Karkemis, fyrir Hamat eins og fyrir Arpad, fyrir Samaríu eins og fyrir Damaskus?“ (Jesaja 10:9) Þær eru allar eins í augum Assúrs — herfang til að hremma.
8, 9. Af hverju gengur Assúr of langt þegar hann lítur Jerúsalem girndarauga?
8 En Assúr gengur of langt í monti sínu. Hann segir: „Eins og hönd mín náði til konungsríkja guðanna, og voru þó líkneskjur þeirra fleiri en Jerúsalem og Samaríu, já, eins og ég hefi farið með Samaríu og guði hennar, svo mun ég fara með Jerúsalem og guðalíkneski hennar!“ (Jesaja 10:10, 11) Þau konungsríki, sem Assúr hefur lagt undir sig nú þegar, áttu sér margfalt fleiri skurðgoð en Jerúsalem og jafnvel Samaría. ‚Hvað getur þá komið í veg fyrir að ég geri hið sama við Jerúsalem og ég gerði við Samaríu?‘ hugsar hann með sér.
9 Jehóva leyfir þessum gortara ekki að vinna Jerúsalem. Ekki svo að skilja að Júdamenn hafi hreinan skjöld því að þeir hafa ekki stutt sanna tilbeiðslu í einu og öllu. (2. Konungabók 16:7-9; 2. Kroníkubók 28:24) Jehóva hefur varað þá við að vegna ótrúmennskunnar bíði þeirra miklar þjáningar við innrás Assýringa. En Jerúsalem skal bjargast. (Jesaja 1:7, 8) Hiskía er konungur í Jerúsalem þegar Assýringar ráðast inn í landið. Hann er ólíkur Akasi föður sínum. Til marks um það má nefna að í fyrsta mánuðinum, sem hann situr að völdum, lætur hann opna dyrnar að musterinu á nýjan leik og endurreisir hreina tilbeiðslu. — 2. Kroníkubók 29:3-5.
10. Hverju lofar Jehóva í sambandi við Assúr?
10 Fyrirhuguð árás Assýringa á Jerúsalem hefur sem sagt ekki velþóknun Jehóva. Hann lofar að gera upp reikningana við þetta ósvífna heimsveldi: „Þegar [Jehóva] hefir lokið öllu starfi sínu á Síon-fjalli og í Jerúsalem, mun hann vitja ávaxtarins af ofmetnaðinum í hjarta Assýríukonungs og hins hrokafulla drembilætis augna hans.“ — Jesaja 10:12.
Til Júda og Jerúsalem!
11. Hvers vegna heldur Assúr að Jerúsalem verði auðveld bráð?
11 Átta árum eftir fall norðurríkisins árið 740 f.o.t. stefnir nýr konungur Assýríu, Sanheríb, liði sínu til Jerúsalem. Jesaja lýsir metnaðarfullu áformi hans með ljóðrænum orðum: „Með styrk handar minnar hefi ég þessu til leiðar komið og með hyggindum mínum, því að ég er vitsmunamaður. Ég hefi fært úr stað landamerki þjóðanna, rænt fjárhlutum þeirra og sem alvaldur steypt af stóli drottnendum þeirra. Hönd mín náði í fjárafla þjóðanna, sem fuglshreiður væri. Eins og menn safna eggjum, sem fuglinn er floginn af, svo hefi ég safnað saman öllum löndum, og hefir enginn blakað vængjum, lokið upp nefinu né tíst.“ (Jesaja 10:13, 14) Aðrar borgir hafa fallið og Samaría er búin að vera, hugsar Sanheríb, svo að Jerúsalem hlýtur að verða auðtekin! Borgarmenn geta svo sem veitt viðnám með hálfum huga, en þeir ná varla að tísta áður en ég sigra þá og hirði fjármuni þeirra rétt eins og egg úr yfirgefnu hreiðri.
12. Hvernig er rétt að líta á stærilæti Assúrs, að sögn Jehóva?
12 En Sanheríb gleymir einu. Samaría hafði gert fráhvarf frá Guði og verðskuldaði refsinguna sem hún fékk. Jerúsalem er hins vegar orðin höfuðvígi hreinnar tilbeiðslu á nýjan leik undir stjórn Hiskía. Hver sem ætlar sér að snerta Jerúsalem á Jehóva að mæta. Jesaja spyr reiðilega: „Hvort má öxin dramba í gegn þeim, sem heggur með henni, eða sögin miklast í gegn þeim, sem sagar með henni? Allt eins og sprotinn ætlaði að sveifla þeim, er reiðir hann, eða stafurinn færa á loft þann, sem ekki er af tré.“ (Jesaja 10:15) Heimsveldið Assýría er einungis verkfæri í hendi Jehóva, rétt eins og öxi, sög, stafur eða sproti í hendi skógarhöggsmanns, sögunarmanns eða fjárhirðis. Hvernig vogar stafurinn sér að miklast gegn þeim sem beitir honum?
13. Hvað er átt við með eftirfarandi og hvað verður um það: (a) ‚hetjuliðið‘? (b) ‚þyrnana og þistlana‘? (c) ‚hina dýrlegu skóga‘?
13 Hvað verður um Assúr? „Fyrir því mun hinn alvaldi, [Jehóva] allsherjar, senda megrun í hetjulið hans, og undir dýrð hans mun eldur blossa upp sem brennandi bál. Og ljós Ísraels mun verða að eldi og Hinn heilagi í Ísrael að loga, og sá logi skal á einum degi upp brenna og eyða þyrnum hans og þistlum og afmá að fullu og öllu hina dýrlegu skóga hans og aldingarða. Hann skal verða eins og sjúklingur, sem veslast upp. Og leifarnar af skógartrjám hans munu verða teljandi, og smásveinn mun geta skrifað þau upp.“ (Jesaja 10:16-19) Já, Jehóva ætlar að lækka rostann í þessum assýrska ‚staf.‘ „Hetjulið“ Assúrs, hinir sterkbyggðu hermenn hans, munu veslast upp í ‚megrandi‘ sýki. Þá verða þeir ekki hetjulegir að sjá. Ljós Ísraels, Jehóva Guð, mun brenna fótgöngulið hans eins og þyrna og þistla. Og ‚dýrlegir skógar hans,‘ herforingjarnir, verða afmáðir. Eftir að Jehóva hefur tekið Assúr til bæna verða svo fáir foringjar eftir að smádrengur getur talið þá á fingrum sér. — Sjá einnig Jesaja 10:33, 34.
14. Lýstu framsókn Assúrs í Júda árið 732 f.o.t.
14 En Gyðingarnir, sem búa í Jerúsalem árið 732 f.o.t., hljóta að vera vantrúaðir á að Assúr verði sigraður. Hinn mikli her hans sækir vægðarlaust fram og vinnur hverja Júdaborgina á fætur annarri: ‚Óvinurinn heldur til Ajat . . . Mígron . . . Mikmas . . . Gebu . . . Rama . . . Gíbeu Sáls . . . Gallím . . . Lejsu . . . Anatót . . . Madmenu . . . Gebím . . . Nób.‘ (Jesaja 10:28-32a) * Loks nær innrásarliðið til Lakís sem er aðeins 50 kílómetra frá Jerúsalem. Innan skamms ógnar fjölmennur her Assýringa borginni. „Hann réttir út hönd sína móti fjalli Síonardóttur, móti hæð Jerúsalemborgar.“ (Jesaja 10:32b) Hvað getur stöðvað Assúr?
15, 16. (a) Af hverju þarf Hiskía konungur að sýna sterka trú? (b) Hvaða ástæðu hefur Hiskía til að trúa því að Jehóva komi honum til hjálpar?
15 Hiskía er órótt þar sem hann situr í höll sinni. Hann rífur klæði sín og hylur sig hærusekk. (Jesaja 37:1) Síðan sendir hann menn á fund Jesaja spámanns til að leita fregna hjá Jehóva vegna Júda. Þeir koma aftur að vörmu spori með svar Jehóva: „Óttast þú eigi . . . Ég vil vernda þessa borg.“ (Jesaja 37:6, 35) En Assýringar ógna enn og eru yfirmáta sjálfsöruggir.
16 Hiskía konungur þarf trú til að komast gegnum þessa kreppu, en trú er „sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Hún felur í sér að sjá meira en hið augljósa. Trú er byggð á þekkingu. Hiskía man líklega að Jehóva hefur áður sagt hughreystandi: „Þú þjóð mín, sem býr á Síon, óttast þú eigi Assúr . . . Því að eftir skamma hríð er reiðin á enda, og þá beinist heift mín að eyðing þeirra. Þá reiðir [Jehóva] allsherjar svipuna að þeim, eins og þegar hann laust Midíansmenn hjá Óreb-kletti. Stafur hans er útréttur yfir hafið, og hann færir hann á loft, eins og gegn Egyptum forðum.“ (Jesaja 10:24-26) * Fólk Guðs hefur komist í hann krappan áður. Ættfeður Hiskía virtust í vonlausri aðstöðu gagnvart egypska hernum við Rauðahafið. Öldum fyrir hans dag virtist Gídeon eiga við ofurefli að etja þegar Midíanítar og Amalekítar réðust inn í Ísrael. En Jehóva frelsaði fólk sitt í bæði skiptin. — 2. Mósebók 14:7-9, 13, 28; Dómarabókin 6:33; 7:21, 22.
17. Hvernig er ok Assúrs ‚brotið‘ og hvers vegna?
17 Ætli Jehóva endurtaki það sem hann gerði fyrr á tímum? Já, hann lofar: „Á þeim degi skal byrði sú, sem hann hefir á þig lagt, falla af herðum þér og ok hans af hálsi þínum, og okið skal brotna fyrir ofurfitu.“ (Jesaja 10:27) Oki Assýringa verður létt af herðum og hálsi sáttmálaþjóðar Guðs. Það skal meira að segja „brotna.“ Og sannarlega brotnar það því að á einni nóttu drepur engill Jehóva 185.000 Assýringa. Ógnin hverfur og Assýringar yfirgefa Júda fyrir fullt og allt. (2. Konungabók 19:35, 36) Hvers vegna? „Vegna olíunnar,“ samkvæmt nákvæmri þýðingu frumtextans. Hér kann að vera átt við olíuna sem notuð var til að smyrja Hiskía til konungs af ætt Davíðs. Þannig efnir Jehóva loforð sitt: „Ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns.“ — 2. Konungabók 19:34.
18. (a) Á spádómur Jesaja meira en eina uppfyllingu? Gefðu nánari skýringu. (b) Hver líkist Forn-Samaríu nú á dögum?
18 Frásögn Jesaja, sem er til umræðu í þessum kafla, fjallar um atburði í Júda fyrir meira en 2700 árum en þeir hafa geysimikla þýðingu núna. (Rómverjabréfið 15:4) Ber að skilja það svo að aðalpersónur þessarar hrífandi frásögu, það er að segja Samaríubúar, Jerúsalembúar og Assýringar, eigi sér nútímahliðstæður? Já, kristni heimurinn kveðst tilbiðja Jehóva eins og skurðgoðaborgin Samaría en er algerlega fallinn frá trúnni. Rómversk-kaþólski kardínálinn John Henry Newman viðurkenndi í ritgerð sinni, An Essay on the Development of Christian Doctrine, að reykelsi, kerti, vígt vatn, prestaskrúði og líkneski, eins og kristni heimurinn hefur notað um aldaraðir, sé ‚allt af heiðnum uppruna.‘ Jehóva hefur jafnmikla vanþóknun á heiðinni tilbeiðslu í kristna heiminum og hann hafði á skurðgoðadýrkun Samaríu.
19. Hvaða viðvörun hefur kristni heimurinn fengið og frá hverjum?
19 Vottar Jehóva hafa um áraraðir varað kristna heiminn við vanþóknun Jehóva. Sem dæmi má nefna að árið 1955 var fluttur um heim allan opinber fyrirlestur sem hét: „Kristni heimurinn eða kristnin — hvort er ‚ljós heimsins‘?“ Í ræðunni var útskýrt rækilega hvernig kristni heimurinn hefði villst frá sannkristinni kenningu og siðum. Síðan var þessi kröftuga ræða prentuð og póstsend prestum víða um lönd. Sem heild hefur kristni heimurinn hunsað viðvörunina og Jehóva á ekki um annað að velja en að aga hann með ‚vendi.‘
20. (a) Hver fer með nútímahlutverk Assúrs og hvernig verður hann notaður sem ‚vöndur‘? (b) Hversu harkalega ögun fær kristni heimurinn?
20 Hvern eða hverja notar Jehóva til að aga hinn uppreisnargjarna kristna heim? Svarið er að finna í 17. kafla Opinberunarbókarinnar. Þar birtist okkur skækjan „Babýlon hin mikla“ sem táknar öll falstrúarbrögð veraldar, meðal annars kristna heiminn. Skækjan ríður skarlatsrauðu dýri með sjö höfuð og tíu horn. (Opinberunarbókin 17:3, 5, 7-12) Dýrið táknar Sameinuðu þjóðirnar. * Skarlatsrauða dýrið mun „hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi,“ líkt og Assýringar eyddu Samaríu forðum daga. (Opinberunarbókin 17:16) Assúr nútímans (þjóðir innan vébanda Sameinuðu þjóðanna) mun þannig greiða kristna heiminum þungt högg og gereyða honum.
21, 22. Hver kemur dýrinu til að ráðast á fólk Guðs?
21 Ætli trúfastir vottar Jehóva farist með Babýlon hinni miklu? Nei, Guð hefur ekki vanþóknun á þeim. Hrein tilbeiðsla mun standa áfram. En dýrið, sem eyðir Babýlon hinni miklu, skotrar líka girndaraugum til fólks Jehóva. En það gerir það ekki samkvæmt vilja Guðs heldur vilja Satans djöfulsins.
22 Jehóva afhjúpar drembilegt ráðabrugg Satans: „Á þeim degi munu illar hugsanir koma upp í hjarta þínu [Satans] og þú munt hafa illar fyrirætlanir með höndum og segja: ‚Ég vil . . . ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir [varnarlausir]‘ . . . til þess að fara með rán og rifs.“ (Esekíel 38:10-12) Satan hugsar með sér: ‚Af hverju ekki að egna þjóðirnar til að ráðast á votta Jehóva? Þeir eru varnarlausir, berskjaldaðir og hafa engin stjórnmálaáhrif. Þeir veita enga mótspyrnu. Það er hægt að tína þá eins og egg úr óvörðu hreiðri!‘
23. Hvers vegna getur Assúr nútímans ekki gert fólki Guðs það sem hann gerir kristna heiminum?
23 En varið ykkur, þjóðir! Munið að þið þurfið að standa Guði sjálfum reikningsskap ef þið snertið fólk hans! Hann elskar fólk sitt og berst fyrir það jafnörugglega og hann barðist fyrir Jerúsalem á dögum Hiskía. Þegar Assúr nútímans reynir að tortíma þjónum Jehóva er hann í rauninni að berjast gegn Jehóva Guði og lambinu Jesú Kristi. Þá orustu getur Assúr ekki unnið. ‚Lambið mun sigra þá,‘ segir Biblían, „því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga.“ (Opinberunarbókin 17:14; samanber Matteus 25:40.) Skarlatsrauða dýrið „fer til glötunar“ líkt og Assúr til forna. Enginn þarf að óttast það framar. — Opinberunarbókin 17:11.
24. (a) Hvernig eru sannkristnir menn staðráðnir í að búa sig undir framtíðina? (b) Hvernig horfir Jesaja fram veginn? (Sjá rammagrein á bls. 155.)
24 Sannkristnir menn geta horft óttalaust fram veginn ef þeir viðhalda sterku sambandi við Jehóva og láta vilja hans ganga fyrir í lífinu. (Matteus 6:33) Þá þurfa þeir ‚ekkert illt að óttast.‘ (Sálmur 23:4) Með augum trúarinnar sjá þeir máttarhönd Guðs útrétta, ekki til refsingar heldur til skjóls fyrir óvinum hans. Og eyru þeirra heyra hin hughreystandi orð: „Óttast þú eigi.“ — Jesaja 10:24.
[Neðanmáls]
^ gr. 4 Sjá handbókina Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 203.
^ gr. 14 Til skýrleika er fjallað um Jesaja 10:28-32 á undan Jesaja 10:20-27.
^ gr. 16 Fjallað er um Jesaja 10:20-23 í rammagreininni „Jesaja horfir fram veginn“ á bls. 155.
^ gr. 20 Ítarefni um skækjuna og skarlatsrauða dýrið er að finna í 34. og 35. kafla bókarinnar Revelation — Its Grand Climax At Hand!, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Spurningar]
[Rammagrein á blaðsíðu 155, 156]
JESAJA HORFIR FRAM VEGINN
Tíundi kafli Jesajabókar fjallar aðallega um það hvernig Jehóva notar innrás Assýringa til að fullnægja dómi yfir Ísrael og um það loforð hans að verja Jerúsalem. Þar eð vers 20 til 23 eru í miðjum spádóminum má ætla að þau eigi sér almenna uppfyllingu á sama tímabili. (Samanber Jesaja 1:7-9.) En orðalagið gefur til kynna að versin eigi meira við síðari tíma þegar Jerúsalem þarf líka að svara fyrir syndir íbúa sinna.
Akas konungur reynir að tryggja öryggi sitt með því að leita ásjár Assýringa. Jesaja spámaður boðar að þeir sem eftir lifi af húsi Ísraels muni aldrei framar taka svona heimskulega stefnu. Jesaja 10:20 segir að þeir muni „með trúfesti reiða sig á [Jehóva], Hinn heilaga í Ísrael.“ Vers 21 bendir hins vegar á að þeir verði ekki margir: „Leifar munu aftur hverfa.“ Þetta minnir okkur á Sear Jasúb, son Jesaja, sem er tákn í Ísrael, en nafn hans merkir „leifar munu aftur hverfa.“ (Jesaja 7:3) Vers 22 í 10. kafla varar við fastráðinni ‚eyðingu.‘ Eyðingin verður réttlát af því að þjóðin hlýtur makleg málagjöld uppreisnar sinnar. Aðeins leifar snúa aftur af fjölmennri þjóð sem er eins og „sjávarsandur.“ Vers 23 varar við að hin yfirvofandi eyðing hafi áhrif á allt landið. Jerúsalem verður ekki hlíft í þetta sinn.
Þessi vers lýsa vel því sem gerðist árið 607 f.o.t. þegar Jehóva notaði babýlonska heimsveldið sem refsivönd sinn. Allt landið féll fyrir innrásarliðinu, einnig Jerúsalem. Gyðingar voru fluttir í útlegð til Babýlonar og voru þar
í 70 ár. En eftir það sneru sumir heim — þótt ekki væru nema „leifar“ — til að endurreisa sanna tilbeiðslu í Jerúsalem.Spádómurinn í Jesaja 10:20-23 rættist nánar á fyrstu öld eins og fram kemur í Rómverjabréfinu 9:27, 28. (Samanber Jesaja 1:9; Rómverjabréfið 9:29.) Páll bendir á að í andlegum skilningi hafi „leifar“ Gyðinga ‚horfið aftur‘ til Jehóva á fyrstu öld okkar tímatals þegar lítill hópur trúfastra Gyðinga tók að fylgja Jesú Kristi og tilbiðja Jehóva „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Síðar bættust trúaðir menn af þjóðunum í hópinn og til varð andleg þjóð, „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16) Þá rættust orðin í Jesaja 10:20. Það gerðist „eigi framar“ að þjóð, sem var vígð Jehóva, sneri baki við honum og leitaði stuðnings manna.
[Mynd á blaðsíðu 147]
Sanheríb ímyndar sér að það sé jafnauðvelt að safna saman þjóðum og að tína egg úr hreiðri.