Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Eigumst lög við“

„Eigumst lög við“

3. kafli

„Eigumst lög við“

Jesaja 1:10-31

1, 2. Við hverja líkir Jehóva höfðingjum og íbúum Jerúsalem og Júda og af hverju er samlíkingin viðeigandi?

 JERÚSALEMBÚAR hafa kannski tilhneigingu til að réttlæta sig eftir fordæminguna í Jesaja 1:1-9. Eflaust vilja þeir benda stoltir á allar fórnirnar sem þeir færa Jehóva. En í 10. til 15. versi svarar Jehóva þeim kuldalega: „Heyrið orð [Jehóva], dómarar í Sódómu! Hlusta þú á kenning Guðs vors, Gómorru-lýður!“ — Jesaja 1:10.

2 Sódómu og Gómorru var ekki aðeins eytt sökum öfugsnúinna kynferðisathafna borgarbúa heldur einnig sökum harðúðar þeirra og hroka. (1. Mósebók 18:20, 21; 19:4, 5, 23-25; Esekíel 16:49, 50) Áheyrendum Jesaja hlýtur að vera brugðið að heyra sér líkt við íbúa þessara bölvuðu borga. * En Jehóva sér hvernig fólk er innst inni og Jesaja mýkir ekki boðskap hans til að ‚kitla eyru þess.‘ — 2. Tímóteusarbréf 4:3.

3. Hvað á Jehóva við þegar hann segist vera „orðinn saddur“ á fórnum fólksins og hvers vegna er hann það?

3 Taktu eftir hvernig Jehóva lítur á formfasta tilbeiðslu fólks síns. „Hvað skulu mér yðar mörgu sláturfórnir? — segir [Jehóva]. Ég er orðinn saddur á hrútabrennifórnum og alikálfafeiti, og í uxa-, lamba- og hafrablóð langar mig ekki.“ (Jesaja 1:11) Fólkið er búið að gleyma að Jehóva er ekki háður fórnum þess. (Sálmur 50:8-13) Hann þarfnast einskis sem menn geta boðið honum. Ef menn halda að þeir séu að gera honum greiða með því að færa honum fórnir með hálfum huga, þá eru þeir að vaða reyk. Jehóva notar sterkt myndmál. Orðin „ég er orðinn saddur“ má einnig þýða „ég hef fengið mig fullsaddan“ eða „hef fengið offylli.“ Kannastu við þá tilfinningu að vera svo pakksaddur að þér bjóði við mat? Þannig leit Jehóva á þessar fórnir — honum bauð við þeim.

4. Hvernig sýnir Jesaja 1:12 fram á að það sé til lítils fyrir fólk að koma í musterið í Jerúsalem?

4 Jehóva heldur áfram: „Þegar þér komið til þess að líta auglit mitt, hver hefir þá beðið yður að traðka forgarða mína?“ (Jesaja 1:12) Er þess ekki krafist í lögmáli Jehóva að fólk ‚líti auglit hans‘ með því að koma í musterið í Jerúsalem? (2. Mósebók 34:23, 24) Jú, en menn koma af einskærri skyldurækni; þeir tilbiðja Guð aðeins fyrir siðasakir en ekki af hreinum hvötum. Hinar tíðu heimsóknir þeirra í forgarða musterisins eru eins og ‚traðk‘ í augum Jehóva og gera ekkert annað en að slíta gólfinu.

5. Hvers konar tilbeiðsluathafnir hafa Gyðingar í frammi og af hverju eru þær orðnar Jehóva „byrði“?

5 Það er engin furða að Jehóva skuli taka enn dýpra í árinni: „Berið eigi lengur fram fánýtar matfórnir; þær eru mér andstyggilegur fórnarreykur! Tunglkomur, hvíldardagar, hátíðastefnur, — ég fæ eigi þolað að saman fari ranglæti og hátíðaþröng. Sál mín hatar tunglkomur yðar og hátíðir, þær eru orðnar mér byrði, ég er þreyttur orðinn að bera þær.“ (Jesaja 1:13, 14) Lögmál Guðs til Ísraels kveður á um matfórnir, reykelsi, hvíldardaga og hátíðastefnur. Lögmálið tiltekur að halda skuli upp á „tunglkomur,“ og smám saman hafa þróast uppbyggilegar hefðir í kringum þær. (4. Mósebók 10:10; 28:11) Tunglkomudagurinn er mánaðarlegur hvíldardagur og fólk hvílist frá vinnu og safnast jafnvel saman til að fá fræðslu spámanna og presta. (2. Konungabók 4:23; Esekíel 46:3; Amos 8:5) Það er ekkert rangt við það. En menn eru farnir að halda þessa hvíldardaga aðeins til að sýnast. Gyðingar eru jafnvel farnir að stunda andatrú samhliða því að halda lögmál Guðs að forminu til. * Tilbeiðsluathafnir þeirra eru því „byrði“ fyrir Jehóva.

6. Í hvaða skilningi er Jehóva orðinn „þreyttur“?

6 En hvernig gat Jehóva verið „þreyttur“? Hann er nú einu sinni ‚voldugur að afli og þreytist ekki né lýist.‘ (Jesaja 40:26, 28) Jehóva notar hér lifandi myndmál til að við getum skilið hvernig honum líður. Hefurðu einhvern tíma borið þunga byrði svo lengi að þú varst orðinn kúguppgefinn og þráðir það eitt að kasta henni af þér? Það er þannig sem Jehóva líður vegna hræsnisfullra tilbeiðsluathafna fólksins.

7. Hvers vegna er Jehóva hættur að hlusta á bænir fólks síns?

7 Jehóva snýr sér nú að innilegustu og persónulegustu tilbeiðsluathöfninni. „Er þér fórnið upp höndum, byrgi ég augu mín fyrir yður, og þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. Hendur yðar eru alblóðugar.“ (Jesaja 1:15) Það er bænastelling að fórna upp höndum og halda þeim útréttum með lófana upp, en hún er orðin merkingarlaus í augum Jehóva því að hendur fólksins eru alblóðugar. Taumlaust ofbeldi er í landinu. Þeir sem minna mega sín eru kúgaðir. Það er hreinlega viðbjóðslegt að svona hrottafengið og eigingjarnt fólk skuli biðja Jehóva um blessun. Það er ofureðlilegt að hann segist ‚ekki heyra.‘

8. Í hvaða villu veður kristni heimurinn og hvernig ganga sumir kristnir menn í sams konar gildru?

8 Kristni heimurinn á okkar dögum hefur ekki heldur áunnið sér hylli Guðs með endalausum en innantómum bænaþulum sínum og öðrum trúarlegum ‚verkum.‘ (Matteus 7:21-23.) Það er afar mikilvægt að ganga ekki í þessa sömu gildru. Það hendir af og til að kristinn maður fer að stunda alvarlega synd og hugsar svo með sér að ef hann aðeins feli það sem hann gerir og verði enn starfsamari í kristna söfnuðinum vegi það einhvern veginn upp á móti synd hans. Jehóva hefur ekki velþóknun á slíkum verkum sem eru ekkert nema hið ytra form. Það er aðeins ein lækning við andlegum sjúkleika eins og fram kemur í næstu versum Jesajabókar.

Lækningin við andlegum sjúkleika

9, 10. Hve mikilvægur er hreinleiki í tilbeiðslunni á Jehóva?

9 Jehóva er brjóstgóður Guð og skiptir nú yfir í hlýlegri tón. „Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.“ (Jesaja 1:16, 17) Hér eru níu fyrirskipanir hver á fætur annarri. Fyrstu fjórar eru neikvæðar í þeim skilningi að þær fjalla um að hætta syndsamlegri breytni; hinar fimm snúa að uppbyggilegum verkum sem hafa blessun Jehóva í för með sér.

10 Þvottur og hreinleiki hefur alltaf verið mikilvægur þáttur hreinnar tilbeiðslu. (2. Mósebók 19:10, 11; 30:20; 2. Korintubréf 7:1) En Jehóva vill að hreinsunin nái dýpra, allt inn í hjörtu dýrkenda sinna. Siðferðilegur og andlegur hreinleiki skiptir mestu máli og það er það sem Jehóva er að tala um. Fyrstu tvenn fyrirmælin í 16. versi eru ekki beinlínis endurtekning. Hebreskumálfræðingur segir að hin fyrri, „þvoið yður,“ lýsi upphaflegri hreinsun en hið síðara, „hreinsið yður,“ lýsi samfelldri viðleitni til að halda sér hreinum.

11. Hvað ættum við að gera til að berjast gegn syndinni en hvað ættum við aldrei að gera?

11 Við getum ekki falið neitt fyrir Jehóva. (Jobsbók 34:22; Orðskviðirnir 15:3; Hebreabréfið 4:13) Fyrirskipun hans um að ‚taka illskubreytni í burt frá augum hans‘ getur því aðeins merkt eitt — að hætta að gera illt. Það merkir auðvitað ekki að reyna að leyna alvarlegum syndum því að það væri synd í sjálfu sér. Orðskviðirnir 28:13 vara við: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.“

12. (a) Af hverju er mikilvægt að ‚læra gott að gera‘? (b) Hvernig geta öldungarnir ‚leitað þess sem rétt er‘ og ‚hjálpað þeim sem fyrir ofríki verður‘?

12 Það má læra margt af fyrirmælum Jehóva í 17. versi 1. kafla Jesajabókar. Taktu eftir að hann segir ekki aðeins „gerið gott“ heldur „lærið gott að gjöra.“ Það þarf einkanám í orði Guðs til að skilja hvað er gott í augum hans og langa til að gera það. Og Jehóva segir mönnum ekki aðeins að „gera rétt“ heldur ‚leita þess sem rétt er.‘ Jafnvel reyndir öldungar þurfa að leita rækilega í orði Guðs til að finna réttu stefnuna í sumum flóknum málum. Það er líka hlutverk þeirra að ‚hjálpa þeim sem fyrir ofríki verður,‘ eins og Jehóva segir þessu næst. Þessar leiðbeiningar eru mikilvægar fyrir kristna hirða nú á dögum því að þeir vilja vernda hjörðina fyrir ‚skæðum vörgum.‘ — Postulasagan 20:28-30.

13. Hvernig getum við farið eftir fyrirmælunum um munaðarleysingjann og ekkjuna?

13 Tvenn síðustu fyrirmælin snúa að þeim sem minnst mega sín meðal fólks Guðs — munaðarlausum og ekkjum. Heimur nútímans er alltaf reiðubúinn til að misnota bágstadda, en svo má ekki vera meðal fólks Guðs. Kærleiksríkir öldungar ‚reka réttar‘ munaðarlausra í söfnuðinum og hjálpa þeim að njóta réttlætis og verndar í heimi sem reynir að misnota þá og spilla þeim. Öldungar ‚verja málefni‘ ekkjunnar eða „berjast“ fyrir hennar hönd eins og hebreska orðið getur einnig þýtt. Allir kristnir menn vilja raunar veita þurfandi fólki sín á meðal skjól og huggun og láta það ná rétti sínum, af því að það er dýrmætt í augum Jehóva. — Míka 6:8; Jakobsbréfið 1:27.

14. Hvaða jákvæður boðskapur er í Jesaja 1:16, 17?

14 Það er ákveðinn og jákvæður boðskapur sem Jehóva flytur okkur í þessum níu fyrirmælum. Þeir sem syndga sannfæra sig stundum um að þeir geti hreinlega ekki gert rétt. Það er letjandi tilhugsun og auk þess röng. Jehóva veit — og vill að við vitum — að með hjálp hans getur hvaða syndari sem er hætt syndsamlegri breytni sinni, snúið við og gert rétt.

Samúðarfull og réttlát bón

15. Hvernig er setningin „eigumst lög við“ stundum misskilin og hvað merkir hún í raun og veru?

15 Jehóva talar nú í enn hlýlegri og samúðarfyllri tón. „Komið, eigumst lög við! — segir [Jehóva]. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.“ (Jesaja 1:18) Boðið, sem þetta fallega vers hefst á, er oft misskilið. Til dæmis segir biblíuþýðingin The New English Bible: „Rökræðum málin,“ rétt eins og báðir aðilar þurfi að gefa eftir til að komast að samkomulagi. En það er ekki rétt. Jehóva ber enga sök, allra síst í samskiptum sínum við þessa uppreisnargjörnu og hræsnisfullu þjóð. (5. Mósebók 32:4, 5) Versið talar ekki um gagnkvæma tilslökun og viðræður milli jafningja heldur um vettvang til að koma á réttlæti. Það er eins og Jehóva sé að kalla Ísrael fyrir rétt.

16, 17. Hvernig vitum við að Jehóva er jafnvel fús til að fyrirgefa alvarlegar syndir?

16 Þetta kann að virðast skelfileg tilhugsun en Jehóva er miskunnsamasti og samúðarfyllsti dómari sem til er. Enginn er jafnfús og hann til að fyrirgefa. (Sálmur 86:5) Hann einn getur tekið syndir Ísraels, sem eru eins og „skarlat,“ og þvegið þær burt svo að þær verði „hvítar sem mjöll.“ Engin mannleg viðleitni, engin yfirbótarverk, fórnir eða bænir geta þvegið burt blett syndarinnar. Það er aðeins fyrirgefning Jehóva sem getur þvegið burt synd og það er hann sem setur skilyrðin, þeirra á meðal ósvikna og innilega iðrun.

17 Svo mikilvægur er þessi sannleikur að Jehóva endurtekur hann með ljóðrænu tilbrigði — ‚purpurarauðar‘ syndir verða eins og ný, hvít og ólituð ull. Hann vill að við vitum að hann fyrirgefur syndir, jafnvel mjög alvarlegar, eins lengi og við iðrumst í einlægni. Þeir sem eiga erfitt með að trúa að það geti átt við sig ættu að rifja upp dæmi eins og Manasse. Hann drýgði hryllilegar syndir árum saman en iðraðist og hlaut fyrirgefningu. (2. Kroníkubók 33:9-16) Jehóva vill að allir, einnig þeir sem hafa drýgt alvarlegar syndir, viti að það er ekki um seinan að ‚eiga lög við‘ hann og útkljá málin.

18. Hvaða kosti leggur Jehóva fyrir uppreisnargjarna þjóð sína?

18 Jehóva minnir fólk sitt á að það þurfi að velja. „Ef þér eruð auðsveipir og hlýðnir, þá skuluð þér njóta landsins gæða, en ef þér færist undan því og þverskallist, þá skuluð þér verða sverði bitnir. Munnur [Jehóva] hefir talað það.“ (Jesaja 1:19, 20) Jehóva leggur hér áherslu á viðhorf manna og aftur notar hann lifandi myndmál til að koma því skýrt til skila. Júdamenn eiga um það að velja að borða eða vera bitnir. Ef þeir eru fúsir til að hlusta á Jehóva og hlýða honum fá þeir að borða og njóta landsins gæða. En ef þeir þverskallast áfram í uppreisn sinni verða þeir bitnir af sverði óvina sinna. Það virðist nálega óhugsandi að fólk kjósi sverð óvinanna frekar en miskunn og ríkulega fyrirgefningu Guðs. En sú er raunin með Jerúsalem eins og fram kemur í versunum á eftir.

Harmljóð yfir ástkærri borg

19, 20. (a) Hvernig lýsir Jehóva þeirri sviksemi sem hann hefur orðið fyrir? (b) Hvernig hafði ‚réttlætið haft bólfestu í Jerúsalem‘?

19 Í Jesaja 1:21-23 sjáum við hve mikil illska Jerúsalemborgar er orðin. Jesaja flytur nú innblásið harmljóð sem hefst þannig: „Hvernig stendur á því, að hún er orðin að skækju — borgin trúfasta? Hún var full réttinda, og réttlætið hafði þar bólfestu, en nú manndrápsmenn.“ — Jesaja 1:21.

20 Jerúsalemborg er djúpt sokkin! Eitt sinn var hún trúföst eiginkona en nú er hún orðin skækja. Þetta er sterk lýsing á vonbrigðum Jehóva og svikseminni sem honum hefur verið sýnd. Borgin „var full réttinda“ eða réttlætis. Hvenær? Borgin var nefnd Salem á dögum Abrahams, löngu fyrir daga Ísraels. Þar ríkti maður sem var konungur og prestur í senn. Nafn hans, Melkísedek, merkir ‚réttlætiskonungur‘ og virðist hafa hæft honum vel. (Hebreabréfið 7:2; 1. Mósebók 14:18-20) Í stjórnartíð Davíðs og Salómons um 1000 árum eftir daga Melkísedeks náði Jerúsalem hátindi sínum. „Réttlætið hafði þar bólfestu,“ einkum þegar konungarnir gáfu fólkinu gott fordæmi með því að ganga á vegum Jehóva. En á dögum Jesaja er þetta aðeins fjarlæg minning.

21, 22. Hvað táknar sorinn og útþynnta vínið, og af hverju verðskulda leiðtogar Júda þessa lýsingu?

21 Höfðingjar fólksins virðast vera stór hluti vandans. Jesaja heldur harmljóðinu áfram: „Silfur þitt er orðið að sora, vín þitt vatni blandað. Höfðingjar þínir eru uppreistarmenn og leggja lag sitt við þjófa. Allir elska þeir mútu og sækjast ólmir eftir fégjöfum. Þeir reka eigi réttar hins munaðarlausa, og málefni ekkjunnar fær eigi að koma fyrir þá.“ (Jesaja 1:22, 23) Tvær sterkar líkingar hver á eftir annarri gefa tóninn að því sem á eftir kemur. Silfursmiðurinn í smiðjunni fleytir sorann ofan af bráðnu silfrinu og fleygir honum. Höfðingjar og dómarar Ísraels eru eins og sori en ekki silfur. Það þarf að henda þeim. Þeir eru ekkert betri en bragðlaust, vatni blandað vín. Slíkur drykkur er til þess eins að hella honum niður.

22 Tuttugasta og þriðja versið bendir á hvers vegna höfðingjarnir verðskulda þessa lýsingu. Móselögin upphófu fólk Guðs og aðgreindi frá þjóðunum, til dæmis með ákvæðum sínum um vernd munaðarlausra og ekkna. (2. Mósebók 22:22-24) En á dögum Jesaja eiga munaðarlausir litla von um hagstæðan dóm. Ekkjan fær ekki einu sinni áheyrn; þaðan af síður að nokkur berjist fyrir rétti hennar. Þessir dómarar og leiðtogar eru allt of uppteknir af því að hugsa um eigin hag — sækjast eftir mútum, eltast við fégjafir og leggja lag sitt við þjófa, greinilega með því að vernda glæpamenn meðan fórnarlömbin þjást. Ekki bætir úr skák að þeir eru forhertir „uppreistarmenn“ á illskubrautinni. Hvílík hörmung!

Jehóva hreinsar fólk sitt

23. Hvaða tilfinningar gagnvart mótstöðumönnum sínum lætur Jehóva í ljós?

23 Jehóva umber ekki svona valdníðslu endalaust. Jesaja heldur áfram: „Fyrir því segir hinn alvaldi [Jehóva] allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð: Vei, ég skal ná rétti mínum gagnvart mótstöðumönnum mínum og hefna mín á óvinum mínum.“ (Jesaja 1:24) Jehóva er nefndur hér þrem nöfnum sem leggja áherslu á að hann sé réttmætur Drottinn og voldugur mjög. Upphrópunin „vei“ táknar sennilega að meðaumkun hans sé blandin þeim ásetningi að gefa reiði sinni útrás. Og það er tilefni til.

24. Hvernig ætlar Jehóva að hreinsa fólk sitt?

24 Fólk Jehóva hefur gert sig að óvinum hans. Það verðskuldar hefnd hans. Jehóva ætlar að ‚ná rétti sínum‘ gagnvart þeim. Verður þjóðinni, sem ber nafn hans, þá gereytt? Nei, því að Jehóva heldur áfram: „Og ég skal rétta út hönd mína til þín og hreinsa sorann úr þér, eins og með lútösku, og skilja frá allt blýið.“ (Jesaja 1:25) Jehóva notar málmhreinsun sem dæmi. Málmbræðslumaður til forna notaði gjarnan lút til að skilja sorann frá dýrmætum málminum. Jehóva ‚hirtir þjóna sína í hófi‘ af því að hann sér að þeir eru ekki alslæmir. Hann hreinsar aðeins burt þá sem eru eins og ‚blý‘ eða óhreinindi, þá sem eru þrjóskir og óæskilegir og vilja ekki læra og hlýða. * (Jeremía 46:28) Hér fær Jesaja þau sérréttindi að færa hluta sögunnar í letur fyrir fram.

25. (a) Hvernig hreinsaði Jehóva fólk sitt árið 607 f.o.t.? (b) Hvenær á okkar dögum hreinsaði Jehóva fólk sitt?

25 Jehóva hreinsaði vissulega fólk sitt og tók burt spillta leiðtoga og aðra uppreisnarmenn sem voru eins og sori. Jerúsalem var eytt árið 607 f.o.t., löngu eftir daga Jesaja, og íbúarnir voru fluttir til Babýlonar í 70 ára útlegð. Það er að nokkru leyti hliðstætt aðgerðum sem Guð greip til miklu síðar. Spádómurinn í Malakí 3:1-5 var skrifaður löngu eftir útlegðina í Babýlon og sýnir að Guð ætlaði að hreinsa þjóna sína aftur. Það átti að gerast þegar hann kæmi til hins andlega musteris ásamt ‚engli sáttmálans,‘ Jesú Kristi. Ljóst er að það gerðist undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Jehóva rannsakaði alla sem sögðust vera kristnir og síaði hina sönnu frá þeim fölsku. Með hvaða árangri?

26-28. (a) Hver var byrjunaruppfylling Jesaja 1:26? (b) Hvernig hefur þessi spádómur uppfyllst á okkar dögum? (c) Hvaða gagn gætu öldungar haft af spádóminum?

26 Jehóva svarar: „Ég skal fá þér aftur slíka dómendur sem í öndverðu og aðra eins ráðgjafa og í upphafi. Upp frá því skalt þú kallast bær réttvísinnar, borgin trúfasta. Síon skal endurleyst fyrir réttan dóm, og þeir, sem taka sinnaskiptum, munu frelsaðir verða fyrir réttlæti.“ (Jesaja 1:26, 27) Þessi spádómur uppfylltist fyrst á Forn-Jerúsalem. Eftir að útlagarnir sneru heim til hinnar ástkæru borgar árið 537 f.o.t. voru aftur trúfastir dómarar og ráðgjafar í borginni eins og forðum daga. Spámennirnir Haggaí og Sefanía, Jósúa prestur, Esra fræðimaður og Serúbabel landstjóri leiðbeindu og stjórnuðu þeim trúföstu leifum, sem sneru heim, svo að þær gætu gengið á vegum Guðs. En þýðingarmeiri uppfylling átti sér stað á 20. öldinni.

27 Árið 1919 lauk prófraunatíma hjá nútímafólki Jehóva. Það var frelsað úr andlegri ánauð Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Munurinn á hinum trúföstu smurðu leifum og prestum kristna heimsins, sem voru fráhvarfsmenn, varð auðsær. Guð blessaði fólk sitt á ný og ‚fékk því aftur dómendur og ráðgjafa‘ — trúfasta menn sem ráðleggja fólki hans í samræmi við orð hans en ekki eftir erfikenningum manna. Þúsundir slíkra manna er að finna meðal ‚litlu hjarðarinnar,‘ sem fer fækkandi, og hinna ‚annarra sauða,‘ félaga þeirra sem skipta milljónum og fjölgar jafnt og þétt. — Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16; Jesaja 32:1, 2; 60:17; 61:3, 4.

28 Öldungar hafa hugfast að þeir eru stundum „dómendur“ í söfnuðinum til að halda honum siðferðilega og andlega hreinum og leiðrétta syndara. Þeim er mikið í mun að beita aðferðum Guðs og líkja eftir miskunn hans og öfgalausri réttvísi. En yfirleitt eru þeir ‚ráðgjafar.‘ Það er auðvitað allt annað en höfðingjar og harðstjórar, og þeim er mikið í mun að það líti ekki einu sinni út eins og þeir ‚drottni yfir söfnuðunum.‘ — 1. Pétursbréf 5:3.

29, 30. (a) Hvað segir Jehóva um þá sem vilja ekki þiggja hreinsun? (b) Í hvaða skilningi ‚blygðast fólkið sín‘ fyrir tré sín og lundi?

29 Hvað um ‚sorann‘ sem nefndur er í spádómi Jesaja? Hvað verður um þá sem vilja ekki njóta góðs af hreinsunarverki Guðs? Jesaja heldur áfram: „En tortíming kemur yfir alla illræðismenn og syndara, og þeir, sem yfirgefa [Jehóva], skulu fyrirfarast. Þér munuð blygðast yðar fyrir eikurnar, sem þér höfðuð mætur á, og þér munuð skammast yðar fyrir lundana, sem voru yndi yðar.“ (Jesaja 1:28, 29) Illræðismenn, sem syndga gegn Jehóva og hunsa viðvörun spámanna hans uns komið er í óefni, ‚tortímast‘ og „fyrirfarast.“ Það gerðist árið 607 f.o.t. En hvað er átt við með trjánum og lundunum?

30 Skurðgoðadýrkun er þrálátt vandamál meðal Júdamanna. Tré og trjálundir gegna oft stóru hlutverki í niðurlægjandi trúariðkunum þeirra. Dýrkendur Baals og Astörtu, eiginkonu hans, trúa að guðirnir tveir deyi á þurrkatímanum og séu grafnir. Dýrkendurnir safnast saman til siðlausra kynlífsathafna undir „helgum“ trjám í trjálundum í því skyni að vekja guðina svo að þeir maki sig og færi landinu frjósemi. Þegar regn frjóvgar landið er falsguðunum þakkað og skurðgoðadýrkendunum finnst hjátrú sín réttlætt. En enginn guð verndar hina uppreisnargjörnu skurðgoðadýrkendur þegar Jehóva tortímir þeim. Þeir ‚blygðast sín‘ fyrir þessi vanmáttugu tré og lundi.

31. Hvað eiga skurðgoðadýrkendurnir í vændum sem er verra en skömmin?

31 En skurðgoðadýrkendurnir í Júda eiga verri örlög í vændum. Jehóva líkir þeim nú við tré og segir: „Þér munuð verða sem eik með visnuðu laufi og eins og vatnslaus lundur.“ (Jesaja 1:30) Þessi samlíking á vel við í heitu og þurru loftslagi Miðausturlanda. Ekkert tré og enginn lundur endist lengi án stöðugrar vökvunar. Skrælnaður gróðurinn er afar eldfimur svo að líkingin í 31. versi er eðlilegt framhald.

32. (a) Hver er „hinn voldugi“ í 31. versi? (b) Í hvaða skilningi verður hann að „strýi,“ hvaða ‚eldsneisti‘ kveikir í honum og hvað verður um hann?

32 „Hinn voldugi skal verða að strýi og verk hans að eldsneista, og hvort tveggja mun uppbrenna hvað með öðru og enginn slökkva.“ (Jesaja 1:31) Hver er „hinn voldugi“? Hebreska orðið lýsir styrk og auði. Líklega er átt við hina efnuðu og sjálfsöruggu falsguðadýrkendur. Hvorki á dögum Jesaja né nú hefur verið skortur á mönnum sem hafna Jehóva og hreinni tilbeiðslu á honum. Sumir virðast jafnvel komast vel áfram. En Jehóva varar við að slíkir menn verði eins og ‚strý‘ eða grófar hörtrefjar sem eru svo þurrar og veikburða að þær bresta við minnsta eldsneista. (Dómarabókin 16:8, 9) Verk skurðgoðadýrkandans — hvort sem það er tilbeiðslan á skurðgoðunum, auðnum eða einhverju öðru sem hann dýrkar í stað Jehóva — verða eins og ‚eldsneisti.‘ Bæði neistinn og strýið brenna upp til agna í eldi sem enginn getur slökkt. Enginn máttur í alheiminum getur snúið fullkomnum dómum Jehóva við.

33. (a) Hvernig er viðvörun Guðs við komandi dómi einnig merki um miskunn hans? (b) Hvaða tækifæri veitir Jehóva mannkyninu núna og hvernig hefur það áhrif á okkur öll?

33 Stríðir þessi síðasti boðskapur gegn miskunnar- og fyrirgefningarboðskapnum í 18. versi? Alls ekki. Jehóva lætur þjóna sína skrá og flytja þessar viðvaranir vegna þess að hann er miskunnsamur. „Hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Það eru sérréttindi allra sannkristinna manna nú á tímum að boða mannkyninu viðvörun Guðs svo að iðrandi menn geti notið góðs af ríkulegri fyrirgefningu hans og lifað eilíflega. Það er mikil gæska af hálfu Jehóva að gefa mannkyninu tækifæri til að ‚eiga lög við sig‘ og útkljá málin áður en það er um seinan.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Fornar arfsagnir Gyðinga herma að hinn illi Manasse konungur hafi tekið Jesaja af lífi með því að láta saga hann sundur. (Samanber Hebreabréfið 11:37.) Heimildarrit segir að falsspámaður hafi borið eftirfarandi kæru upp á Jesaja til að hægt væri að dæma hann til dauða: „Hann kallar Jerúsalem Sódómu og höfðingja Júda og Jerúsalem kallar hann Gómorru-lýð.“

^ gr. 5 Hebreska orðið, sem þýtt er „ranglæti“ í 13. versinu er einnig þýtt „dulræn öfl,“ „það sem er skaðlegt“ og „það sem er dulrænt.“ Orðabókin Theological Dictionary of the Old Testament bendir á að spámenn Hebrea hafi notað orðið til að fordæma „illsku vegna valdníðslu.“

^ gr. 24 Orðin „ég skal rétta út hönd mína til þín“ merkja að Jehóva hættir að styðja fólk sitt og tekur að hirta það.

[Spurningar]