Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Engin hjálp frá heiminum

Engin hjálp frá heiminum

24. kafli

Engin hjálp frá heiminum

Jesaja 31:1-9

1, 2. (a) Af hverju eru Jerúsalembúar dauðskelfdir? (b) Hvaða spurninga er eðlilegt að spyrja í ljósi þeirra vandræða sem Jerúsalem á í?

 JERÚSALEMBÚAR eru dauðskelfdir. Það er ástæða til. Assýría, voldugasta ríki þess tíma, hefur lagt í herför gegn ‚öllum víggirtum borgum í Júda og unnið þær.‘ Núna ógna Assýringar höfuðborg Júda. (2. Konungabók 18:13, 17) Hvað gera Hiskía konungur og aðrir Jerúsalembúar?

2 Hiskía veit að Jerúsalem má sín lítils gegn öflugri hervél Assýringa, enda eru aðrar borgir í landinu fallnar. Og Assýringar eru alræmdir fyrir grimmd og ofbeldi. Svo ógurlegur er herinn að andstæðingar flýja stundum án bardaga! Hvar geta Jerúsalembúar leitað hjálpar í nauðum sínum? Er einhver undankomuleið? Og hvernig lenti fólk Guðs í þessum ógöngum? Til að svara því þurfum við að líta um öxl og kanna samskipti Jehóva við sáttmálaþjóð sína fyrr á árum.

Fráhvarf í Ísrael

3, 4. (a) Hvenær og hvernig skiptist Ísrael í tvö ríki? (b) Hvernig leiddi Jeróbóam norðurríkið út á fráhvarfsbraut?

3 Ísraelsættkvíslirnar 12 voru ein sameinuð þjóð í rösklega 500 ár frá því að þær yfirgáfu Egyptaland fram yfir dauða Salómons Davíðssonar. Jeróbóam fór fyrir uppreisn tíu ættkvísla í norðurhluta landsins gegn Davíðsætt eftir dauða Salómons, og upp frá því skiptist þjóðin í tvö ríki. Þetta gerðist árið 997 f.o.t.

4 Jeróbóam var fyrsti konungur Ísraelsríkis í norðri og leiddi þegna sína út á fráhvarfsbraut með því að skipa presta sem ekki voru af Aronsætt og koma á kálfadýrkun í stað hinnar réttu tilbeiðslu á Jehóva. (1. Konungabók 12:25-33) Jehóva hafði andstyggð á þessu og leyfði Assýringum þar af leiðandi að leggja Ísrael undir sig. (Jeremía 32:30, 35; 2. Konungabók 15:29) Hósea konungur freistaði þess að hrista ok Assýringa af þjóðinni með liðveislu Egypta en það fór út um þúfur. — 2. Konungabók 17:4.

Falshæli Ísraels

5. Hvar leitar Ísrael ásjár?

5 Jehóva vill koma vitinu fyrir Ísraelsmenn og sendir spámanninn Jesaja til þeirra með svohljóðandi viðvörun: * „Vei þeim, sem fara suður til Egyptalands í liðsbón, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því að þeir séu margir, og á riddara, af því að fjöldinn sé mikill, en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael og leita ekki [Jehóva].“ (Jesaja 31:1) Þetta er skelfilegt! Ísraelsmenn treysta frekar á hesta og hervagna en Jehóva, hinn lifandi Guð. Þeir eru svo veraldlegir í hugsun að þeir sjá ekkert nema marga og máttuga hesta Egypta. Þetta hljóta að vera góðir bandamenn gegn Assýríuher! En Ísraelsmenn komast fljótt að raun um að hið veraldlega bandalag við Egypta er til lítils.

6. Af hverju er það blygðunarlaust trúleysi af hálfu Ísraels að leita hjálpar Egypta?

6 Bæði Ísraelsmenn og Júdamenn eru vígðir Jehóva fyrir tilstuðlan lagasáttmálans. (2. Mósebók 24:3-8; 1. Kroníkubók 16:15-17) Með því að leita ásjár Egypta afhjúpa Ísraelsmenn hve lítið traust þeir bera til Jehóva og hunsa lögin sem eru hluti hins heilaga sáttmála, en meðal ákvæða sáttmálans er loforð Jehóva um að vernda þjóð sína ef hún sýnir honum óskipta hollustu. (3. Mósebók 26:3-8) Hann hefur staðið við loforð sitt og oftsinnis verið „hæli þeirra á neyðartímum.“ (Sálmur 37:39; 2. Kroníkubók 14:2, 9-12; 17:3-5, 10) Og Móse, sem færði þjóðinni lagasáttmálann, flutti henni þau boð frá Jehóva að konungar þjóðarinnar á síðari tímum ættu ekki að eiga marga hesta. (5. Mósebók 17:16) Með því að hlýða þessu ákvæði gátu konungarnir sýnt að þeir treystu ‚Hinum heilaga í Ísrael‘ til að vernda sig. Því miður skorti stjórnendur Ísraels slíka trú.

7. Hvaða lærdóm geta kristnir menn dregið af trúleysi Ísraels?

7 Kristnir menn geta dregið lærdóm af þessu. Ísrael tók sýnilega liðveislu Egypta fram yfir hinn miklu sterkari stuðning Jehóva. Kristinn maður gæti freistast til þess að treysta á jarðneskt öryggi í stað Jehóva — á bankareikninga, þjóðfélagsstöðu eða sambönd í heiminum. Kristinn fjölskyldufaðir axlar auðvitað þá ábyrgð að sjá fjölskyldunni farborða, en hann ‚varast alla ágirnd‘ og setur ekki traust sitt á efnislega hluti. (1. Tímóteusarbréf 5:8; Lúkas 12:13-21) Jehóva Guð er eina örugga ‚vígið á neyðartímum.‘ — Sálmur 9:10; 54:9.

8, 9. (a) Hvernig fer ráðagerð Ísraels þó að hún virðist hernaðarlega góð og hvers vegna? (b) Hvaða munur er á loforðum manna og loforðum Jehóva?

8 Jesaja hæðist að leiðtogum Ísraels sem gerðu sáttmálann við Egypta: „Hann er líka ráðspakur og lætur ógæfuna yfir koma og tekur ekki orð sín aftur. Hann rís upp í móti húsi illvirkjanna og í móti hjálparliði misgjörðamannanna.“ (Jesaja 31:2) Leiðtogar Ísraels halda kannski að þeir séu vitrir, en er ekki skapari alheims öllum vitrari? Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er hernaðarlega skynsamlegt af Ísrael að leita stuðnings Egypta, en í augum Jehóva jafngildir svona stjórnmálabandalag andlegum hórdómi. (Esekíel 23:1-10) Jesaja segir að fyrir vikið láti Jehóva „ógæfuna yfir koma.“

9 Loforð manna eru einstaklega óáreiðanleg og vernd þeirra ótrygg. Jehóva þarf hins vegar ekki að ‚taka orð sín aftur‘ heldur gerir örugglega það sem hann lofar. Orð hans snúa ekki aftur til hans án þess að áorka því sem hann ætlar sér. — Jesaja 55:10, 11; 14:24.

10. Hvað verður bæði um Egyptaland og Ísrael?

10 Ætli Egyptar veiti Ísraelsmönnum örugga vernd? Nei, Jesaja segir Ísrael: „Egyptar eru menn, en enginn Guð, hestar þeirra eru hold, en eigi andi. Þegar [Jehóva] réttir út hönd sína, hrasar liðveitandinn og liðþeginn fellur, svo að þeir farast allir hver með öðrum.“ (Jesaja 31:3) Bæði liðveitandinn (Egyptar) og liðþeginn (Ísraelsmenn) hrasa, falla og líða undir lok þegar Jehóva réttir út hönd sína og notar Assýringa til að fullnægja dómi.

Fall Samaríu

11. Hvernig hefur Ísrael lagt sekt á synd ofan og hver verða málalokin?

11 Jehóva er miskunnsamur og sendir Ísraelsmönnum marga spámenn sem hvetja þá til að iðrast og taka aftur upp hreina tilbeiðslu. (2. Konungabók 17:13) En Ísraelsmenn leggja sekt á synd ofan með því að stunda bæði kálfadýrkun, spásagnir og siðlausa Baalsdýrkun og gera sér asérur og fórnarhæðir. Þeir láta meira að segja „sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn“ með því að færa djöflaguðum börnin að fórn. (2. Konungabók 17:14-17; Sálmur 106:36-39; Amos 2:8) Jehóva ætlar að binda enda á illsku Ísraels: „Samaría skal í eyði lögð verða, konungur hennar skal verða sem tréflís á vatni.“ (Hósea 10:1, 7) Assýrskar hersveitir ráðast á Samaríu, höfuðborg Ísraels, árið 742 f.o.t. Borgin fellur eftir þriggja ára umsátur og tíuættkvíslaríkið hverfur af sjónarsviðinu árið 740 f.o.t.

12. Hvaða verk hefur Jehóva fyrirskipað þjónum sínum að vinna nú á tímum og hvað verður um þá sem hunsa hvatningu þeirra?

12 Jehóva hefur fyrirskipað umfangsmikið boðunarstarf um heim allan á okkar dögum til að benda mönnum á „að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum.“ (Postulasagan 17:3; Matteus 24:14) Þeir sem hafna hjálpræðisleið Guðs verða eins og „tréflís á vatni,“ þeim verður tortímt eins og fráhvarfsþjóðinni Ísrael. Þeir sem vona á Jehóva munu hins vegar „fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29) Gerum ekki sömu skyssu og Ísraelsmenn forðum daga heldur treystum Jehóva óhikað fyrir hjálpræði okkar.

Björgunarmáttur Jehóva

13, 14. Hvernig hughreystir Jehóva Síon?

13 Jerúsalem, höfuðborg Júda, stendur nokkrum kílómetrum sunnan við landamæri Ísraels. Jerúsalembúar vita mætavel hvernig fór fyrir Samaríu. Nú er þeim ógnað af sama óvini og lagði undir sig nágrannann í norðri. Skyldu þeir læra af örlögum Samaríu?

14 Jesaja er einkar hughreystandi við Jerúsalembúa og fullvissar þá um að Jehóva elski sáttmálaþjóð sína enn þá: „Svo hefir [Jehóva] við mig sagt: Eins og ljónið eða ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni, þegar hjarðmannahóp er stefnt saman á móti honum, og hann hræðist ekki köll þeirra og lætur ekki hugfallast við háreysti þeirra, eins mun [Jehóva] allsherjar ofan stíga til þess að herja á Síonfjall og hæð þess.“ (Jesaja 31:4) Jehóva ver Síon, borgina helgu, eins og ljónskálfur bráð sína. Ekkert fær snúið Jehóva frá ætlun sinni, hvorki stórlæti, hótanir né atgangur í liði Assýringa.

15. Hvernig sýnir Jehóva Jerúsalembúum umhyggju?

15 Jehóva er umhyggjusamur og mildur við Jerúsalembúa: „Eins og fuglar á flökti, eins mun [Jehóva] allsherjar vernda Jerúsalem, vernda hana og frelsa, vægja henni og bjarga.“ (Jesaja 31:5) Ungamóðir ver og vakir yfir afkvæmi sínu. Hún sveimar þöndum vængjum yfir ungunum og skimar eftir hættum. Ef ræningi nálgast steypir hún sér niður til að verja þá. Jehóva ætlar líka að verja og vernda Jerúsalembúa fyrir Assýringum.

„Hverfið aftur“

16. (a) Hvernig höfðar Jehóva hlýlega til fólks síns? (b) Hvenær kemur uppreisn Júdamanna skýrt í ljós? Skýrðu svarið.

16 Jehóva minnir fólk sitt á að það hafi syndgað og hvetur það til að snúa frá villu síns vegar: „Hverfið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, sem þér eruð horfnir svo langt í burtu frá.“ (Jesaja 31:6) Tíuættkvíslaríkið Ísrael er ekki eini uppreisnarseggurinn. Júdamenn eru líka „Ísraelsmenn“ og þeir eru ‚horfnir langt í burtu frá‘ Guði. Það sýnir sig greinilega skömmu eftir að Jesaja lýkur spámennskunni og Manasse Hiskíason tekur við konungdómi. Biblían segir að ‚Manasse hafi leitt Júda og Jerúsalembúa afvega svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir er Jehóva hafði eytt.‘ (2. Kroníkubók 33:9) Hugsaðu þér! Jehóva útrýmir heiðnum þjóðum vegna óþverrabreytni þeirra en Júdamenn, sem eru í sáttmálasambandi við hann, eru verri en þær!

17. Hvað er líkt með nútímanum og Júda á dögum Manasse?

17 Við upphaf 21. aldar er heimurinn um margt líkur Júda á dögum Manasse. Trúar-, kynþátta- og þjóðernishatur veldur æ meiri sundrungu. Morð, pyndingar, nauðganir og svonefndar þjóðernishreinsanir hafa verið hlutskipti milljóna manna. Það er óhætt að segja að menn og þjóðir, sérstaklega í kristna heiminum, hafi ‚horfið langt í burtu frá‘ Guði. En atburðir á dögum Jesaja veita okkur vissu fyrir því að Jehóva leyfir illskuna ekki endalaust.

Jerúsalem frelsuð

18. Hvað bendir marskálkurinn Hiskía konungi á?

18 Assýríukonungar þakka guðunum sigra sína á vígvellinum. Í bókinni Ancient Near Eastern Texts eru dæmi um skrif Assúrbanípals Assýríukonungs sem sagðist njóta leiðsagnar „Assúrs, Bels, Nebós, guðanna miklu, drottna [sinna] sem (ávallt) eru [honum] við hlið [er hann] sigrar stríðs (-reynda) hermenn . . . í miklum bardaga.“ Sama tiltrú á þátt guða í hernaði manna kemur fram í máli marskálks sem ávarpar Hiskía konung fyrir hönd Sanheríbs Assýríukonungs á dögum Jesaja. Hann varar Júdakonung við því að treysta á hjálp Jehóva og bendir á að guðir annarra þjóða hafi ekki megnað að vernda þær gegn voldugri stríðsvél Assýringa. — 2. Konungabók 18:33-35.

19. Hvernig bregst Hiskía við ögrun marskálks?

19 Biblían lýsir viðbrögðunum: „Þegar Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús [Jehóva].“ (2. Konungabók 19:1) Hiskía veit að það er aðeins einn guð sem getur hjálpað honum í þessari ógnvænlegu stöðu, og hann auðmýkir sig og leitar leiðsagnar Jehóva.

20. Hvað ætlar Jehóva að gera fyrir Júdamenn og hvað ættu þeir að læra af því?

20 Jehóva leiðbeinir honum eins og um er beðið. Hann segir fyrir munn Jesaja: „Á þeim degi munu þeir hver og einn hafna silfurgoðum sínum og gullgoðum, er sekar hendur yðar hafa gjört handa yður.“ (Jesaja 31:7) Jehóva afhjúpar guði Sanheríbs þegar hann berst fyrir þjóð sína — þeir eru einskis nýtir. Júdamenn ættu að draga lærdóm af því. Þó svo að Hiskía konungur sé trúfastur er Júdaland fullt af skurðgoðum eins og Ísrael. (Jesaja 2:5-8) Júdamenn þurfa að treysta samband sitt við Jehóva á ný með því að iðrast synda sinna og ‚hafna hver og einn goðum sínum.‘ — Sjá 2. Mósebók 34:14.

21. Hvernig lýsir Jesaja dómi Jehóva gegn Assýríu?

21 Jesaja lýsir nú spádómlega hvernig Jehóva fullnægir dómi á hinum ógurlega óvini Júda: „Assýría skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir manna sverði. Sverð skal verða henni að bana, en ekkert mannssverð. Hún mun undan sverði flýja og æskumenn hennar verða ánauðugir.“ (Jesaja 31:8) Jerúsalembúar þurfa ekki einu sinni að draga sverð úr slíðrum þegar uppgjörið fer fram. Úrvalslið Assýringa fellur fyrir sverði Jehóva en ekki manna. Sanheríb Assýríukonungur „mun undan sverði flýja“ og snýr heim eftir að engill Jehóva hefur banað 185.000 af hermönnum hans. Synir hans ráða hann síðar af dögum þar sem hann er að biðjast fyrir í hofi Nísroks guðs síns. — 2. Konungabók 19:35-37.

22. Hvað geta kristnir menn lært af viðbrögðum Hiskía og örlögum Assýríuhers?

22 Hvorki Hiskía né nokkur annar gat vitað fyrir hvernig Jehóva myndi frelsa Jerúsalem frá assýrska hernum, en viðbrögð hans eru prýðisdæmi til eftirbreytni í prófraunum. (2. Korintubréf 4:16-18) Orðspor Assýríumanna var slíkt að Hiskía var skiljanlega hræddur þegar þeir ógnuðu Jerúsalem. (2. Konungabók 19:3) En hann treysti Jehóva og leitaði leiðsagnar hans en ekki manna sem var mikil blessun fyrir Jerúsalem. Undir álagi geta sterkar tilfinningar sótt á guðhrætt fólk. Ótti er oft skiljanlegur. En Jehóva annast okkur ef við ‚vörpum allri áhyggju okkar á hann.‘ (1. Pétursbréf 5:7) Hann hjálpar okkur að sigrast á óttanum og styrkir okkur til að standast álagið.

23. Hvernig atvikast það að Sanheríb situr uppi með óttann í stað Hiskía?

23 Að endingu er það Sanheríb en ekki Hiskía sem situr uppi með óttann. Hvar getur hann leitað ásjár? Jesaja segir: „Og bjarg hennar [Assýríu] mun farast af ótta og höfðingjar hennar flýja í ofboði undan merkinu. Svo segir [Jehóva], sem hefir eld sinn á Síon og arin sinn í Jerúsalem.“ (Jesaja 31:9) Guðir Sanheríbs bregðast, ‚bjargið‘ eða hælið sem hann hefur treyst á. Þeir „farast af ótta“ ef svo má segja. Og ekki er mikil hjálp í höfðingjum Sanheríbs sem eru líka dauðskelfdir.

24. Hvaða skýr viðvörun er fólgin í örlögum Assýríu?

24 Í þessum kafla spádómsins er skýr viðvörun til allra sem ætla sér að berjast á móti Jehóva Guði. Engin vopn, ekkert afl og engin brögð geta hindrað fyrirætlanir hans. (Jesaja 41:11, 12) Þeir sem segjast þjóna Guði en snúa baki við honum og leita sér öryggis eftir jarðneskum leiðum verða hins vegar fyrir vonbrigðum. Hver sem ‚lítur ekki til Hins heilaga í Ísrael,‘ til Jehóva, sér hann ‚láta ógæfuna yfir koma.‘ (Jesaja 31:1, 2) Jehóva Guð er eina raunverulega og varanlega skjólið. — Sálmur 37:5.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Fyrstu þrem versunum í 31. kafla Jesajabókar er sennilega beint fyrst og fremst til Ísraels. Hin versin sex virðast eiga við Júda.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 319]

Það er ávísun á vonbrigði að treysta á efnislega hluti.

[Mynd á blaðsíðu 322]

Jehóva ver borgina helgu líkt og ljón bráð sína.

[Mynd á blaðsíðu 324]

Trúar-, þjóðernis- og kynþáttahatur sundrar heiminum.

[Mynd á blaðsíðu 326]

Hiskía leitaði hjálpar í húsi Jehóva.