Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur‘“

„Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur‘“

26. kafli

„Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur‘“

Jesaja 33:1-24

1. Af hverju eru orðin í Jesaja 33:24 mjög hughreystandi?

 „ÖLL sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa,“ sagði Páll postuli. (Rómverjabréfið 8:22) Sjúkdómar og dauði hrjá mannkynið þrátt fyrir framfarir læknavísindanna. Það er ekki lítið sem lofað er í þessum kafla í spádómi Jesaja. Hugsaðu þér þann tíma þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Hvenær rætist þetta og hvernig?

2, 3. (a) Hvernig er Ísraelsþjóðin sjúk? (b) Hvernig notar Guð Assýríu eins og ‚vönd‘ til að aga þjóð sína?

2 Sáttmálaþjóð Guðs er andlega sjúk á þeim tíma er Jesaja skrifar bók sína. (Jesaja 1:5, 6) Svo djúpt er hún sokkin í fráhvarf og siðleysi að Jehóva Guð þarf að aga hana harðlega, og Assýría er ‚vöndurinn‘ sem hann notar til þess. (Jesaja 7:17; 10:5, 15) Fyrst fellur norðurríkið Ísrael fyrir Assýringum árið 740 f.o.t. (2. Konungabók 17:1-18; 18:9-11) Fáeinum árum síðar ræðst Sanheríb Assýríukonungur með öflugum her inn í Júda. (2. Konungabók 18:13; Jesaja 36:1) Slík er vítisvél Assýringa að alger tortíming virðist óhjákvæmileg.

3 En Assýría fékk aðeins umboð til að aga þjóð Guðs. Nú fer hún yfir strikið og hyggst leggja undir sig heiminn, rekin áfram af græðgi og metnaði. (Jesaja 10:7-11) Ætli Jehóva láti henni óhegnt fyrir þessa hrottalegu meðferð á fólki sínu? Verður þjóðin læknuð af andlegum sjúkleika sínum? Við lesum svör Jehóva í 33. kafla Jesajabókar.

Eyðandinn eyddur

4, 5. (a) Hvernig snýst taflið Assýríu í óhag? (b) Hvernig biður Jesaja fyrir fólki Jehóva?

4 Spádómurinn hefst svo: „Vei þér, sem eyðir, og hefir þó sjálfur eigi fyrir eyðingu orðið, sem rænir, og hefir þó eigi rændur verið! Þegar þú hefir lokið eyðingunni, skalt þú fyrir eyðingu verða, þegar þú ert hættur að ræna, skalt þú rændur verða.“ (Jesaja 33:1) Jesaja ávarpar eyðandann Assýríu. Þessi herskáa þjóð virðist ósigrandi þegar veldi hennar rís hæst. Hún hefur ‚eytt en ekki orðið fyrir eyðingu,‘ farið ránshendi um borgir Júda og meira að segja hrifsað til sín fjársjóði húss Jehóva — og virðist komast upp með það! (2. Konungabók 18:14-16; 2. Kroníkubók 28:21) En nú snýst taflið við. Nú „skalt þú fyrir eyðingu verða,“ segir Jesaja djarfmannlega sem er mjög hughreystandi fyrir trúa þjóna Guðs.

5 Dyggir dýrkendur Jehóva þurfa að leita hjálpar hans á þessum ógnartímum, svo að Jesaja biður: „[Jehóva], ver þú oss líknsamur! Vér vonum á þig. Ver þú styrkur vor á hverjum morgni og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma. Fyrir hinum dynjandi gný flýja þjóðirnar. Þegar þú rís upp, tvístrast heiðingjarnir.“ (Jesaja 33:2, 3) Jesaja biður Jehóva þess að frelsa þjóð sína eins og hann hefur gert oftsinnis áður. (Sálmur 44:4; 68:2) Og hann er ekki fyrr búinn að fara með bænina en hann flytur svar Jehóva við henni!

6. Hvað verður um Assýríu og af hverju er það sanngjarnt?

6 „Þá mun herfangi [Assýringa] verða safnað, eins og þegar engisprettur eru að tína, menn munu stökkva á það, eins og þegar jarðvargar stökkva.“ (Jesaja 33:4) Júdamenn þekkja mætavel hvílík eyðilegging fylgir skordýraplágum. En nú eru það óvinir þeirra sem verða eyðingunni að bráð. Assýringar skulu bíða smánarlegan ósigur og hermennirnir skulu neyðast til að flýja og skilja eftir mikið herfang sem Júdamenn geta lagt hald á. Það er ekki nema sanngjarnt að Assýringar séu eyddir, svo alræmdir sem þeir eru fyrir grimmd sína. — Jesaja 37:36.

Assúr nútímans

7. (a) Hverjir líkjast hinni andlega sjúku Ísraelsþjóð? (b) Hvaða ‚vönd‘ notar Jehóva til að eyða kristna heiminum?

7 Hvernig rætist spádómur Jesaja á okkar dögum? Ísraelsþjóðin er andlega sjúk og er sambærileg við kristna heiminn sem er ótrúr Guði. Jehóva notar ákveðinn ‚vönd‘ til að refsa honum og öllu falstrúarheimsveldinu ‚Babýlon hinni miklu,‘ líkt og hann notaði Assýríu til að refsa Ísrael. (Jesaja 10:5; Opinberunarbókin 18:2-8) ‚Vöndurinn‘ er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna en þau koma fram í Opinberunarbókinni sem skarlatsrautt dýr með sjö höfuð og tíu horn. — Opinberunarbókin 17:3, 15-17.

8. (a) Hver líkist Sanheríb? (b) Á hverja ætlar Sanheríb nútímans að ráðast og hvernig fer það?

8 Assúr nútímans virðist óstöðvandi þar sem hann fer hamförum gegn falstrúarbrögðunum. Satan djöfullinn hugsar líkt og Sanheríb og hann fær dirfsku til að ráðast bæði á hin spilltu trúarbrögð, sem eiga refsinguna skilda, og sannkristna menn. Milljónir manna hafa yfirgefið heim Satans, þar á meðal Babýlon hina miklu, og tekið afstöðu með ríki Jehóva ásamt þeim sem eftir eru af smurðum, andlegum sonum hans. „Guð þessarar aldar,“ Satan, er ævareiður yfir því að sannkristnir menn vilja ekki lúta honum og ræðst á þá af mikilli heift. (2. Korintubréf 4:4; Esekíel 38:10-16) Þjónar Jehóva þurfa ekki að hrökklast óttaslegnir undan, þó svo að árásin verði eflaust ógnvekjandi. (Jesaja 10:24, 25) Þeir hafa loforð Guðs fyrir því að hann sé ‚hjálpræði þeirra á neyðarinnar tíma,‘ og hann skerst í leikinn með því að eyða Satan og múgi hans. (Esekíel 38:18-23) Þeir sem reyna að ræna fólk Guðs verða sjálfir rændir líkt og forðum daga. (Samanber Orðskviðina 13:22b.) Nafn Jehóva verður helgað og hinum eftirlifandi umbunað fyrir að leita sér ‚visku og þekkingar og ótta Jehóva.‘ — Lestu Jesaja 33:5, 6.

Viðvörun til trúlausra

9. (a) Hvað gera ‚kappar‘ og ‚friðarboðar‘ Júda? (b) Hvernig bregðast Assýringar við friðarumleitunum Júdamanna?

9 En hvernig fer fyrir trúlausum Júdamönnum? Jesaja dregur upp dökka mynd af yfirvofandi örlagadómi fyrir hendi Assýringa. (Lestu Jesaja 33:7.) „Kapparnir“ í Júda kveina af ótta við framsókn þeirra. „Friðarboðarnir,“ sem sendir eru til að friðmælast við Assýringa, eru spottaðir og niðurlægðir og gráta það beisklega að sér skuli hafa mistekist ætlunarverk sitt. (Samanber Jeremía 8:15.) Hinir grimmu Assýringar hafa enga meðaumkun með þeim. (Lestu Jesaja 33:8, 9.) Þeir hunsa sáttmála sína við Júdamenn eins og ekkert sé sjálfsagðara. (2. Konungabók 18:14-16) Þeir ‚fyrirlíta borgirnar‘ í Júda og virða mannslíf einskis. (Biblían 1912) Ástandið er svo niðurdrepandi að það er eins og landið sýti og syrgi. Líbanon, Saron, Basan og Karmel taka undir og harma eyðinguna.

10. (a) Hvernig reynast ‚kappar‘ kristna heimsins máttlitlir? (b) Hver verndar sannkristna menn á þrengingardegi kristna heimsins?

10 Eitthvað svipað verður eflaust uppi á teningnum í náinni framtíð þegar þjóðirnar ráðast á trúarbrögðin. Það hefur jafnlitla þýðingu að veita eyðingaröflunum mótspyrnu þá eins og á dögum Hiskía. ‚Kappar‘ kristna heimsins — stjórnmálamenn, fjármálamenn og aðrir áhrifamenn — geta ekki komið honum til hjálpar. ‚Sáttmálar‘ á vettvangi stjórnmála og fjármála, sem eiga að vernda kristna heiminn, verða brotnir. (Jesaja 28:15-18) Örþrifatilraunir til að afstýra tortímingu eftir diplómatískum leiðum mistakast. Viðskipti stöðvast þegar fjármunir og eignir kristna heimsins eru gerðar upptækar eða eyðilagðar. Þeir sem enn bera hlýhug til kristna heimsins harma endalok hans úr öruggri fjarlægð. (Opinberunarbókin 18:9-19) Verður sönn kristni afmáð ásamt falskri? Nei, því að Jehóva lofar: „Nú vil ég upp rísa, segir [Jehóva], nú vil ég láta til mín taka, nú vil ég hefjast handa.“ (Jesaja 33:10) Að lokum skerst hann í leikinn í þágu trúfastra manna, líkt og hann gerði á dögum Hiskía, og stöðvar framsókn Assúrs. — Sálmur 12:6.

11, 12. (a) Hvenær rætast orðin í Jesaja 33:11-14 og hvernig? (b) Hvaða viðvörun til nútímans er fólgin í orðum Jehóva?

11 Hinir óguðlegu geta ekki reiknað með slíkri vernd. Jehóva segir: „Þér gangið með hey og alið hálm, andgustur yðar er eldur, sem eyða mun sjálfum yður. Þjóðirnar munu brenndar verða að kalki, þær munu verða sem upphöggnir þyrnar, sem brenndir eru í eldi. Heyrið, þér sem fjarlægir eruð, hvað ég hefi gjört, og sjáið, þér sem nálægir eruð, kraft minn! Syndararnir í Síon eru hræddir, skelfing hefir gagntekið guðleysingjana: ‚Hver af oss má búa við eyðandi eld, hver af oss má búa við eilíft bál?‘“ (Jesaja 33:11-14) Þessi orð virðast eiga við þann tíma er nýr óvinur ógnar Júda — Babýlon. Júdamenn snúast aftur til sinna vondu vega eftir dauða Hiskía og á áratugunum á eftir hallar svo undan fæti hjá allri þjóðinni að reiðieldur Guðs þarf að koma yfir hana. — 5. Mósebók 32:22.

12 Óguðleg áform og ráðabrugg óhlýðinna manna um það að afstýra dómi Guðs halda ekki betur en hálmur. Reyndar er það hroki og uppreisnargirni þjóðarinnar sem hrindir af stað þeim atburðum sem eru undanfari eyðingarinnar. (Jeremía 52:3-11) Óguðlegir menn verða sem ‚brenndir að kalki‘ og gereyðast. Lamandi ótti leggst á uppreisnargjarna Júdamenn er þeir ígrunda hinn yfirvofandi dóm. Orð Jehóva lýsa vel aðstöðu þeirra sem tilheyra kristna heiminum því að framtíðin er óglæsileg ef þeir hunsa viðvörun hans.

‚Að ganga réttvíslega fram‘

13. Hverju er þeim heitið „sem fram gengur réttvíslega“ og hvernig rættist það á Jeremía?

13 Nú snýr Jehóva við blaðinu og bendir á andstæðu: „Sá sem fram gengur réttvíslega og talar af hreinskilni, sá sem hafnar þeim ávinningi, sem fenginn er með ofríki, sá sem hristir mútugjafir af höndum sér, sá sem byrgir fyrir eyru sín til þess að heyra eigi morð ráðin, sá sem afturlykur augum sínum til þess að horfa eigi á það, sem illt er, hann skal búa uppi á hæðunum. Hamraborgirnar skulu vera vígi hans, brauðið skal verða fært honum og vatnið handa honum skal eigi þverra.“ (Jesaja 33:15, 16) Jehóva „veit . . . hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags,“ eins og Pétur postuli segir síðar. (2. Pétursbréf 2:9) Jeremía kynntist því af eigin raun. Í umsátri Babýloníumanna urðu menn að „eta brauðið eftir skammti og með angist.“ (Esekíel 4:16) Þess voru jafnvel dæmi að konur átu sín eigin börn. (Harmljóðin 2:20) En Jehóva sá til þess að Jeremía væri óhultur.

14. Hvernig geta kristnir menn ‚framgengið réttvíslega‘?

14 Kristnir menn verða líka að ‚framganga réttvíslega‘ dag hvern með því að halda boðorð Jehóva. (Sálmur 15:1-5) Þeir verða að ‚tala af hreinskilni‘ en hafna lyginni. (Orðskviðirnir 3:32) Þeir sem ‚framganga réttvíslega‘ hafa andstyggð á mútum og fjársvikum þótt algeng séu víða um lönd. Kristnir menn verða líka að varðveita „góða samvisku“ í viðskiptum og forðast vandlega vafasöm áform eða sviksamleg. (Hebreabréfið 13:18; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Og sá sem ‚byrgir fyrir eyru sín til þess að heyra eigi morð ráðin og afturlykur augum sínum til þess að horfa eigi á það sem er illt‘ er vandfýsinn á tónlist og skemmtiefni. (Sálmur 119:37) Á dómsdegi verndar Jehóva dýrkendur sína sem lifa eftir þessum lögum. — Sefanía 2:3.

Sjá konunginn

15. Hvaða loforð heldur trúföstum Gyðingum uppi í útlegðinni?

15 Jesaja bregður nú upp fagurri framtíðarsýn: „Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum, þau skulu horfa á víðáttumikið land. Hjarta þitt mun hugsa til skelfingartímans: Hvar er nú sá, er silfrið taldi? Hvar er sá, er vó það? Hvar er sá, sem taldi turnana? Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að enginn fær skilið.“ (Jesaja 33:17-19) Fyrirheitið um messíasarkonunginn og ríki hans mun halda trúföstum Gyðingum uppi hin löngu útlegðarár í Babýlon, þó svo að þeir sjái ríkið aðeins álengdar. (Hebreabréfið 11:13) Harðstjórn Babýlonar verður aðeins fjarlæg minning þegar messíasarríkið er orðið að veruleika. Glaðir í bragði spyrja þeir sem lifa af árás Assúrs: „Hvar eru foringjar harðstjórans sem skattlögðu okkur, létu okkur borga, tóku skattgjald okkar?“ — Jesaja 33:18, Moffatt.

16. Hvenær fóru þjónar Guðs að „sjá“ messíasarkonunginn og með hvaða afleiðingum?

16 Þó að orð Jesaja veiti tryggingu fyrir því að Gyðingar verði leystir úr útlegðinni í Babýlon þurfa þeir að bíða upprisunnar til að sjá þennan þátt spádómsins rætast að fullu. Hvað um þjóna Guðs nú á tímum? Frá 1914 hafa þeir getað ‚séð‘ messíasarkonunginn Jesú Krist í öllum andlega ljóma sínum og þeir hafa verið leystir undan kúgun og yfirráðum hins illa heimskerfis Satans. (Sálmur 45:3; 118:22-26) Þeir búa við andlegt öryggi undir stjórn Síonar sem er aðsetur Guðsríkis.

17. (a) Hverju er heitið í sambandi við Síon? (b) Hvernig rætast loforð Jehóva um Síon á messíasarríkinu og stuðningsmönnum þess á jörðinni?

17 Áfram heldur Jesaja: „Lít þú á Síon, borg samfunda vorra! Augu þín skulu horfa á Jerúsalem, bústaðinn örugga, tjaldið, sem eigi er flutt úr stað, hælum þess eigi kippt upp og ekkert af stögum þess slitið. Nei, hinn máttki, [Jehóva], er þar oss til varnar, eins og fljót og breið vatnsföll, þar sem engin róðrarskip geta gengið og engin tignarleg langskip um farið.“ (Jesaja 33:20, 21) Jesaja fullvissar okkur um að messíasarríki Guðs verði aldrei eytt og aldrei kippt burt. Og vernd Guðs nær greinilega til dyggra stuðningsmanna þess á jörðinni. Þó svo að margir séu reyndir til hins ýtrasta er þegnum Guðsríkis á jörð heitið því að söfnuði þeirra verði aldrei tortímt. (Jesaja 54:17) Vernd Jehóva er eins og síki eða fljót umhverfis borg. Hver sá óvinur tortímist, sem reynir að ráðast á þjóna hans, þótt hann sé eins og öflugur floti ‚róðrarskipa og langskipa.‘

18. Hvað ábyrgist Jehóva?

18 En hvers vegna geta þeir sem bíða Guðsríkis verið svona öruggir um vernd Guðs? „[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur, hann mun frelsa oss,“ segir spámaðurinn. (Jesaja 33:22) Jehóva ábyrgist að vernda og leiðbeina fólki sínu sem viðurkennir að hann sé alvaldur alheims. Þeir lúta fúslega stjórn hans sem er í höndum messíasarkonungsins, minnugir þess að hann fer bæði með löggjafar- og framkvæmdavald. En Jehóva unnir réttlæti og réttvísi svo að stjórn hans fyrir milligöngu sonarins er ekki íþyngjandi fyrir dýrkendur hans heldur er það „gagnlegt“ fyrir þá að lúta henni. (Jesaja 48:17) Hann yfirgefur aldrei trúa þjóna sína. — Sálmur 37:28.

19. Hvernig lýsir Jesaja getuleysi óvinanna?

19 Jesaja segir óvinum þjóna Guðs: „Stögin eru slök hjá þér, þau halda ekki siglunni í skorðum og geta eigi þanið út seglið. Þá skal mikilli bráð og herfangi skipt verða, jafnvel haltir menn skulu ræna.“ (Jesaja 33:23) Aðvífandi óvinur verður eins máttvana og hjálparlaus gegn Jehóva og seglvana herskip með slökum stögum og vaggandi mastri. Svo mikið verður herfangið þegar óvinum Guðs er eytt að jafnvel fatlaðir ná hluta af því. Þess vegna getum við treyst því að Jehóva beri sigur af óvinum sínum er hann lætur konunginn Jesú Krist berjast við þá í „þrengingunni miklu“ fram undan. — Opinberunarbókin 7:14.

Lækning

20. Hvers konar lækningu fær fólk Guðs og hvenær?

20 Þessum kafla spádómsins lýkur með uppörvandi loforði: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘ Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.“ (Jesaja 33:24) Sjúkleikinn, sem Jesaja á við, er fyrst og fremst andlegur því að hann tengist synd eða ‚misgjörðum.‘ Í fyrstu uppfyllingunni lofar Jehóva að lækna þjóðina andlega eftir að henni er sleppt úr ánauð í Babýlon. (Jesaja 35:5, 6; Jeremía 33:6; samanber Sálm 103:1-5.) Hann hefur fyrirgefið Gyðingum fyrri syndir og þeir snúa heim til að endurreisa hreina tilbeiðslu í Jerúsalem.

21. Hvernig hljóta dýrkendur Jehóva andlega lækningu nú á dögum?

21 Spádómur Jesaja uppfyllist einnig nú á tímum með andlegri lækningu sem fólk Jehóva fær. Það hefur losnað úr fjötrum falskenninga eins og um ódauðleika sálarinnar, þrenningu og vítiseld. Það fær siðferðisleiðsögn sem forðar því frá siðlausum athöfnum og hjálpar því að taka skynsamlegar ákvarðanir. Og svo er lausnarfórn Jesú Krists að þakka að þjónar Guðs standa hreinir frammi fyrir honum og hafa góða samvisku. (Kólossubréfið 1:13, 14; 1. Pétursbréf 2:24; 1. Jóhannesarbréf 4:10) Andlega lækningin er heilsusamleg því að kristnir menn eru óhultir fyrir kynsjúkdómum og vissum tegundum lungnakrabbameins af því að þeir lifa siðsömu lífi og reykja ekki. — 1. Korintubréf 6:18; 2. Korintubréf 7:1.

22, 23. (a) Hvernig á Jesaja 33:24 að rætast í framtíðinni? (b) Hvað ættu sannir guðsdýrkendur að einsetja sér?

22 Orðin í Jesaja 33:24 rætast enn stórkostlegar í nýjum heimi Guðs eftir Harmagedón því að þegar messíasarríkið hefur tekið völdin læknast menn líkamlega auk andlega. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Skömmu eftir að heimskerfi Satans hefur verið eytt má búast við kraftaverkum um allan heim í líkingu við þau sem Jesús vann þegar hann var á jörðinni. Blindir munu sjá, daufir heyra og haltir ganga! (Jesaja 35:5, 6) Þeir sem komast lifandi gegnum þrenginguna miklu geta þá tekið þátt í að breyta jörðinni í paradís.

23 Síðan hefst upprisan og menn verða eflaust reistir upp heilir heilsu. Lausnargjaldinu er svo beitt smám saman uns mannkyninu hefur verið lyft upp til fullkomleika. Þá ‚lifna‘ réttlátir í fyllsta skilningi. (Opinberunarbókin 20:5, 6) Þá mun „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er sjúkur,‘“ því að allir hafa læknast bæði andlega og líkamlega. Þetta er fagurt fyrirheit! Megi allir sem tilbiðja Guð í sannleika vera staðráðnir í að sjá það rætast.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 344]

Jesaja biður til Jehóva í trausti þess að hann fái bænheyrslu.

[Mynd á blaðsíðu 353]

Þjónar Jehóva standa hreinir frammi fyrir honum vegna lausnarfórnarinnar.

[Mynd á blaðsíðu 354]

Allir læknast líkamlega í nýja heiminum.