Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Faðir og uppreisnargjörn börn

Faðir og uppreisnargjörn börn

2. kafli

Faðir og uppreisnargjörn börn

Jesaja 1:2-9

1, 2. Skýrðu hvernig Jehóva gat átt uppreisnargjörn börn.

 HANN sá vel fyrir börnum sínum eins og ástríkum föður ber. Hann fæddi þau og klæddi ár eftir ár og veitti þeim húsaskjól. Hann agaði þau þegar með þurfti en ekki um of heldur alltaf „í hófi.“ (Jeremía 30:11) Við getum rétt ímyndað okkur hve sárt það hefur verið fyrir þennan ástríka föður að þurfa að segja: „Ég hefi fóstrað börn og fætt þau upp, og þau hafa risið í gegn mér.“ — Jesaja 1:2b.

2 Þessi uppreisnargjörnu börn eru Júdamenn og Jehóva Guð er faðirinn. Hann hefur nært þá og upphafið þá meðal þjóðanna. „Ég færði þig í glitklæði og fékk þér skó af höfrungaskinni, faldaði þér með hvítu líni og huldi þig silkiblæju,“ sagði hann síðar fyrir munn spámannsins Esekíels. (Esekíel 16:10) En að stærstum hluta til kunna Júdamenn ekki að meta það sem Jehóva hefur gert fyrir þá. Þeir gera uppreisn, rísa í gegn honum.

3. Af hverju kallar Jehóva himin og jörð til vitnis um uppreisn Júdamanna?

3 Jehóva hefur fullt tilefni til að hafa þennan formála að orðum sínum um hin uppreisnargjörnu börn: „Heyrið, þér himnar, og hlusta þú, jörð, því að [Jehóva] talar.“ (Jesaja 1:2a) Öldum áður höfðu himinn og jörð heyrt Ísraelsmenn fá skýra viðvörun um afleiðingar þess að óhlýðnast. Móse sagði: „Ég [kveð] í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að þá munuð þér brátt eyðast úr því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að fá það til eignar.“ (5. Mósebók 4:26) Núna, á dögum Jesaja, kallar Jehóva hina ósýnilegu himna og hina sýnilegu jörð til vitnis um uppreisn Júda.

4. Hvernig kýs Jehóva að koma fram við Júdamenn?

4 Svo alvarlegt er ástandið að það þarf að taka það föstum tökum. En jafnvel þótt það sé ákaflega brýnt er eftirtektarvert og traustvekjandi að Jehóva skuli koma fram við Júdamenn eins og ástríkur faðir en ekki aðeins eigandi sem hefur keypt þá. Hann er eiginlega að sárbæna fólk sitt um að hugleiða málið frá sjónarhóli föður sem hefur þungar áhyggjur af einþykkum börnum sínum. Kannski geta sumir foreldrar í Júda sett sig í spor hans og látið þessa samlíkingu hreyfa við sér. En Jehóva er í þann mund að leggja málið fyrir Júda.

Skynlausar skepnur vita betur

5. Hvernig sýna uxinn og asninn vissa trúfesti, ólíkt Ísrael?

5 Jehóva segir fyrir munn Jesaja: „Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki.“ (Jesaja 1:3) * Uxinn og asninn eru þekkt dráttar- og burðardýr í Miðausturlöndum. Júdamenn geta ekki neitað því að þessar skynlausu skepnur sýna vissa tryggð og hafa sterka vitund um að þær eiga sér húsbónda. Biblíufræðimaður lýsir því sem hann varð vitni að undir dagslok í borg einni í Miðausturlöndum: „Hjörðin var ekki fyrr komin inn fyrir múrana en hún tók að dreifa sér. Hver uxi þekkti eiganda sinn fullkomlega og rataði að húsi hans. Hann villtist ekki eitt andartak í völundarhúsi þröngra og krókóttra gatnanna. Asninn gekk beinustu leið að dyrunum og að ‚jötu húsbónda síns.‘“

6. Hvernig hafa Júdamenn ‚ekki skilið‘?

6 Samtíðarmenn Jesaja þekkja þetta sjálfsagt mætavel svo að kjarninn í boðskap Jehóva er skýr: Fyrst skynlausar skepnur þekkja húsbónda sinn og jötu, hvaða afsökun geta Júdamenn þá haft fyrir því að yfirgefa Jehóva? Þeir hafa svo sannarlega ‚ekki skilið.‘ Það er engu líkara en að þeir skilji ekki að velgengni þeirra og tilvera er háð Jehóva. Það er raunar mikið miskunnartákn að Jehóva skuli enn þá tala um Júdamenn sem ‚fólk sitt‘!

7. Nefndu nokkrar leiðir til að sýna að við kunnum að meta ráðstafanir Jehóva.

7 Ekki viljum við vera skilningslaus og vanþakklát fyrir allt sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Við ættum að líkja eftir sálmaritaranum Davíð sem sagði: „Ég vil lofa þig, [Jehóva], af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.“ (Sálmur 9:2) Stöðugur lærdómur um Jehóva vekur löngun okkar til þess því að Biblían segir að það séu ‚hyggindi að þekkja Hinn heilaga.‘ (Orðskviðirnir 9:10) Að hugleiða blessun hans dag hvern hjálpar okkur að vera þakklát og líta ekki á himneskan föður okkar sem sjálfsagðan hlut. (Kólossubréfið 3:15) „Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig,“ segir Jehóva, „og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs.“ — Sálmur 50:23.

Yfirgengileg móðgun við „Hinn heilaga í Ísrael“

8. Af hverju er hægt að kalla Júdamenn ‚synduga þjóð‘?

8 Jesaja heldur áfram boðskap sínum og fer hörðum orðum um Júdamenn: „Vei hinni syndugu þjóð, þeim lýð, sem misgjörðum er hlaðinn, afsprengi illræðismannanna, spilltum sonum! Þeir hafa yfirgefið [Jehóva], smáð Hinn heilaga í Ísrael og snúið baki við honum.“ (Jesaja 1:4) Vond verk geta safnast upp svo að þau verði eins og þjakandi byrði. Jehóva kallaði synd Sódómu og Gómorru á dögum Abrahams ‚mjög þunga.‘ (1. Mósebók 18:20) Nú er eitthvað svipað uppi á teningnum hjá Júdamönnum því að Jesaja segir að þeir séu ‚misgjörðum hlaðnir.‘ Og hann kallar þá ‚afsprengi illræðismanna, spillta syni.‘ Júdamenn eru eins og afbrotaunglingar. Þeir hafa „snúið baki við honum“ og eru orðnir „algerlega fráhverfir“ föður sínum eins og biblíuþýðingin New Revised Standard Version orðar það.

9. Hvaða þýðingu hefur nafngiftin ‚Hinn heilagi í Ísrael‘?

9 Með þrjósku sinni eru Júdamenn að sýna ‚Hinum heilaga í Ísrael‘ gróft virðingarleysi. Hvað þýðir þessi nafngift sem kemur 25 sinnum fyrir í Jesajabók? Að vera heilagur merkir að vera hreinn og tær. Jehóva er heilagur í æðsta skilningi orðsins. (Opinberunarbókin 4:8) Ísraelsmenn eru minntir á það í hvert sinn sem þeir sjá orðin sem grafin eru í skínandi gullspöng á vefjarhetti æðstaprestsins: ‚Helgaður Jehóva.‘ (2. Mósebók 39:30) Með því að kalla Jehóva „Hinn heilaga í Ísrael“ undirstrikar Jesaja hve alvarleg synd Júdamanna er. Þessir uppreisnarseggir þverbrjóta boðið sem lagt var fyrir feður þeirra: „Helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur.“ — 3. Mósebók 11:44.

10. Hvernig getum við forðast að óvirða „Hinn heilaga í Ísrael“?

10 Nú á tímum verða kristnir menn að leggja sig í líma við að feta ekki í fótspor Júdamanna og óvirða „Hinn heilaga í Ísrael.“ Þeir verða að líkja eftir heilagleika Jehóva. (1. Pétursbréf 1:15, 16) Og þeir þurfa að „hata hið illa.“ (Sálmur 97:10) Óhreint hátterni eins og siðleysi, skurðgoðadýrkun, þjófnaður og drykkjuskapur getur spillt kristna söfnuðinum. Þess vegna er þeim vikið úr söfnuðinum sem vilja ekki hætta slíku. Að lokum verða þeir sem stunda óhrein verk og iðrast ekki útilokaðir frá þeirri blessun sem Guðsríki hefur í för með sér. Í rauninni eru öll slík vonskuverk yfirgengileg móðgun við „Hinn heilaga í Ísrael.“ — Rómverjabréfið 1:26, 27; 1. Korintubréf 5:6-11; 6:9, 10.

Sjúkir frá hvirfli til ilja

11, 12. (a) Lýstu aumu ástandi Júdamanna. (b) Af hverju ættum við ekki að kenna í brjósti um Júdamenn?

11 Jesaja reynir nú að rökræða við Júdamenn með því að benda þeim á hve sjúkir þeir séu. Hann segir: „Hvar ætlið þér að láta ljósta yður framvegis, fyrst þér haldið áfram að þverskallast?“ Jesaja er í rauninni að spyrja þá: ‚Eruð þið ekki búnir að þjást nóg? Hví að bæta gráu ofan á svart með því að halda uppreisninni áfram?‘ Hann heldur áfram: „Höfuðið er allt í sárum og hjartað allt sjúkt. Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt.“ (Jesaja 1:5, 6a) Þetta er ekki glæsileg sjúkdómsgreining. Júdamenn eru haldnir viðbjóðslegum sjúkdómi — andlega sjúkir frá hvirfli til ilja.

12 Eigum við að kenna í brjósti um Júdamenn? Það er varla ástæða til þess. Öldum áður hafði Ísraelsþjóðin í heild verið vöruð rækilega við hegningunni fyrir óhlýðni. Henni var meðal annars sagt að ‚Jehóva myndi slá hana með illkynjuðum ólæknandi kaunum á knjám og fótleggjum, frá iljum og allt upp á hvirfil.‘ (5. Mósebók 28:35) Í táknrænum skilningi eru Júdamenn nú að uppskera þessar afleiðingar þrjósku sinnar. Og þeir hefðu getað umflúið þetta ef þeir hefðu hreinlega hlýtt Jehóva.

13, 14. (a) Hvaða meiðslum hafa Júdamenn orðið fyrir? (b) Fá þjáningar Júdamanna þá til að láta af uppreisn sinni?

13 Jesaja heldur áfram að lýsa aumkunarverðu ástandi Júdamanna: „Tómar undir, skrámur og nýjar benjar, sem hvorki er kreist úr né um bundið og þær eigi mýktar með olíu.“ (Jesaja 1:6b) Spámaðurinn nefnir hér þrenns konar áverka: undir (eða skurðsár, til dæmis eftir sverð eða hníf), skrámur (bólgurákir eftir barsmíð) og nýjar benjar (nýleg svöðusár sem virðast ekki geta gróið). Verið er að lýsa manni sem hefur verið refsað grimmilega á alla hugsanlega vegu svo að enginn líkamshluti er óskaddaður. Það er sannarlega illa komið fyrir Júda.

14 Fær hið auma ástand Júdamanna þá til að snúa aftur til Jehóva? Nei, þeir eru eins og uppreisnarmaðurinn sem lýst er í Orðskviðunum 29:1: „Sá sem oftlega hefir ávítaður verið, en þverskallast þó, mun skyndilega knosaður verða, og engin lækning fást.“ (Orðskviðirnir 29:1) Þjóðin virðist ólæknandi. Eins og Jesaja orðar það hefur hvorki verið ‚kreist úr sárunum né um bundið og þau eigi mýkt með olíu.‘ * Að vissu leyti eru Júdamenn eins og eitt flakandi sár sem ekki grær og ekki er bundið um.

15. Hvernig getum við forðast andlegan sjúkleika?

15 Við verðum að draga lærdóm af Júda og gæta okkar á andlegum sjúkleika sem getur lagst á okkur öll, ekkert síður en líkamlegir sjúkdómar. Enginn er ónæmur fyrir veikleikum holdsins. Ágirnd og skemmtanafíkn getur skotið rótum í hjörtum okkar. Við þurfum þess vegna að þjálfa okkur í því að ‚hafa andstyggð á hinu vonda‘ og ‚halda fast við hið góða.‘ (Rómverjabréfið 12:9) Við þurfum líka að rækta með okkur ávöxt anda Guðs dags daglega. (Galatabréfið 5:22, 23) Þannig getum við forðast hinn andlega sjúkleika sem þjakaði Júdamenn frá hvirfli til ilja.

Land í auðn

16. (a) Hvernig lýsir Jesaja ástandi landsins? (b) Af hverju segja sumir að þessi orð hafi sennilega verið sögð í stjórnartíð Akasar, en hvernig má einnig skilja þau?

16 Jesaja hættir nú að tala um heilsufar og tekur að lýsa ástandi landsins. Það er engu líkara en hann horfi yfir land sem er í rústum eftir stríð: „Land yðar er auðn, borgir yðar í eldi brenndar, útlendir menn eta upp akurland yðar fyrir augum yðar, slík eyðing sem þá er land kemst í óvina hendur.“ (Jesaja 1:7) Sumir fræðimenn halda því fram að þessi orð hafi sennilega verið sögð síðar á spámannsferli Jesaja, kannski í stjórnartíð hins illa Akasar konungs, þótt þau standi fremst í bókinni. Þeir fullyrða að velmegun hafi verið meiri en svo í stjórnartíð Ússía að slík lýsing sé réttlætanleg. Auðvitað er ekki hægt að segja með vissu að Jesajabók sé skrifuð í tímaröð, en sennilega er lýsing hans á auðn landsins spádómleg. Með orðunum hér á undan er Jesaja líklega að beita tækni sem finna má annars staðar í Biblíunni, en hún er fólgin í því að lýsa óorðnum atburðum eins og þeir hafi þegar átt sér stað. Með því er lögð áhersla á að spádómurinn rætist örugglega. — Samanber Opinberunarbókina 11:15.

17. Af hverju átti hin spádómlega lýsing á eyðingunni ekki að koma Júdamönnum á óvart?

17 Hvað sem því líður ætti hin spádómlega lýsing á auðn Júda ekki að koma þessu þrjóska og óhlýðna fólki á óvart. Öldum áður varaði Jehóva það við hvað gerast myndi ef það risi upp gegn honum. Hann sagði: „Ég vil eyða landið, svo að óvinum yðar, sem í því búa, skal ofbjóða. En yður vil ég tvístra meðal þjóðanna og bregða sverði á eftir yður, og land yðar skal verða auðn og borgir yðar rústir.“ — 3. Mósebók 26:32, 33; 1. Konungabók 9:6-8.

18-20. Hvenær uppfyllast orðin í Jesaja 1:7, 8 og hvernig ‚lætur Jehóva eftir leifar‘?

18 Orðin í Jesaja 1:7, 8 rætast greinilega í innrás Assýringa sem lyktar með eyðingu Ísraels og veldur mikilli eyðileggingu og þjáningum í Júda. (2. Konungabók 17:5, 18; 18:11, 13; 2. Kroníkubók 29:8, 9) En Júdaríkið er ekki afmáð. Jesaja segir: „Dóttirin Síon er ein eftir eins og varðskáli í víngarði, eins og vökukofi í melónugarði, eins og umsetin borg.“ — Jesaja 1:8.

19 Jerúsalem, „dóttirin Síon,“ fær að standa þrátt fyrir alla eyðilegginguna. En hún verður varnarlaus eins og varðskáli í víngarði og vökukofi í melónugarði. Fræðimaður á 19. öld, sem var á ferð niður Níl, sá sams konar vökukofa og minntist þá orða Jesaja. Hann kallaði þá „lítið annað en skýli fyrir norðanvindi.“ Í Júda var þessum skýlum leyft að hrynja eftir uppskerutímann. En Jerúsalem skal standa þótt hún virðist varnarlaus gegn ósigrandi her Assýringa.

20 Jesaja lýkur þessum spádómsorðum þannig: „Ef [Jehóva] allsherjar hefði eigi látið oss eftir leifar, mundum vér brátt hafa orðið sem Sódóma, — líkst Gómorru!“ (Jesaja 1:9) * Jehóva kemur Júda loks til hjálpar gegn hinum voldugu Assýringum. Júda verður ekki eytt eins og Sódómu og Gómorru heldur fær að standa.

21. Af hverju ‚lætur Jehóva eftir leifar‘ þegar Babýloníumenn hafa eytt Jerúsalem?

21 Meira en 100 árum síðar er Júda aftur í hættu. Júdamenn hafa ekkert lært af öguninni sem Assýringar voru látnir veita þeim. „Þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans.“ Þar af leiðandi varð „reiði [Jehóva] við lýð hans . . . orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“ (2. Kroníkubók 36:16) Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, sigraði Júda og nú stóð ekkert eftir eins og „varðskáli í víngarði.“ Jerúsalem var jafnvel eytt. (2. Kroníkubók 36:17-21) En Jehóva ‚lét eftir leifar.‘ Þótt Júdamenn væru 70 ár í útlegð sá hann til þess að þjóðin héldist við, sérstaklega þó ætt Davíðs sem hinn fyrirheitni Messías átti að koma af.

22, 23. Af hverju ‚lét Jehóva eftir leifar‘ á fyrstu öld?

22 Á fyrstu öld gekk Ísrael gegnum síðustu hörmungar sínar sem sáttmálaþjóð Guðs. Þegar Jesús bauð sig fram sem hinn fyrirheitni Messías hafnaði þjóðin honum og fyrir vikið hafnaði Jehóva henni. (Matteus 21:43; 23:37-39; Jóhannes 1:11) Átti Jehóva þá enga eignarþjóð á jörðinni framar? Jú, Páll postuli sýndi fram á að Jesaja 1:9 ætti sér aðra uppfyllingu. Hann vitnar í Sjötíumannaþýðinguna og segir: „Eins hefur Jesaja sagt: ‚Ef [Jehóva] hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru.‘“ — Rómverjabréfið 9:29.

23 Í þetta sinn voru það smurðir kristnir menn sem eftir stóðu en þeir trúðu á Jesú Krist. Í fyrstu voru þetta trúaðir Gyðingar en síðar bættust við trúaðir heiðingjar. Saman mynduðu þeir nýjan Ísrael sem er nefndur „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16; Rómverjabréfið 2:29) Þessir ‚niðjar‘ komust lífs af þegar gyðingakerfinu var tortímt árið 70. „Ísrael Guðs“ er reyndar enn á meðal okkar og nú hefur hann fengið til liðs við sig milljónir trúaðra manna af þjóðunum. Þetta er „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ — Opinberunarbókin 7:9.

24. Hverju ættu allir að gefa gaum sem vilja komast lifandi úr mestu þrengingu mannkynssögunnar?

24 Innan skamms dynur Harmagedónstríðið yfir þennan heim. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þó svo að það verði enn meiri hörmungatími en innrásir Assýringa og Babýloníumanna í Júda, já, og enn meiri en eyðing Rómverja á Júdeu árið 70, komast einhverjir lífs af. (Opinberunarbókin 7:14) Það er því mikilvægt fyrir okkur að kynna okkur orð Jesaja til Júdamanna vandlega. Þau voru trúföstum mönnum til björgunar á þeim tíma og þau geta einnig verið trúuðum mönnum nú á tímum til bjargar.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Í þessu samhengi merkir „Ísrael“ tveggjaættkvíslaríkið Júda.

^ gr. 14 Lýsing Jesaja ber vitni um lækningaaðferðir þess tíma. Biblíufræðingurinn E. H. Plumptre segir: „Fyrst var reynt að ‚kreista úr‘ ígerðarsári til að losna við gröftinn; síðan, eins og hjá Hiskía (kafli xxxviii. 21), var ‚bundinn um það‘ bakstur og eftir það var borin á græðandi olía eða smyrsl og sennilega, eins og í Lúkasi x. 34, var notuð olía og vín til að hreinsa sárið.“

^ gr. 20 Biblíuskýringaritið Commentary on the Old Testament eftir C. F. Keil og F. Delitzsch segir: „Spámaðurinn gerir nú hlé á ávarpi sínu. Þessi skil koma þannig fram í textanum að það er bil á milli 9. og 10. versins. Þessi aðferð til að afmarka langa eða stutta kafla, annaðhvort með því að gera bil eða láta línuna enda, byggist á ævafornri hefð, eldri en sérhljóðapunktarnir og áherslumerkin.“

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Ólíkt Sódómu og Gómorru verður Júda ekki óbyggt um alla framtíð.