Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fortíðarspámaður með nútímaboðskap

Fortíðarspámaður með nútímaboðskap

1. kafli

Fortíðarspámaður með nútímaboðskap

Jesaja 1:1

1, 2. (a) Hvernig er ástandið í heiminum? (b) Hvernig lýsti bandarískur öldungadeildarþingmaður áhyggjum sínum af hnignun þjóðfélagsins?

 HVER þráir ekki hvíld frá þeim vandamálum sem mannkynið á við að etja? En hversu oft bregðast ekki vonir okkar? Okkur dreymir um frið en búum við styrjaldir. Við þráum lög og reglu en megnum ekki að stemma stigu við vaxandi ránum, nauðgunum og morðum. Okkur langar til að treysta náunganum en neyðumst til að læsa dyrum okkur til verndar. Við elskum börnin okkar og reynum að innræta þeim góða siði en megum allt of oft horfa hjálparvana á hvernig þau verða fyrir óheilnæmum áhrifum kunningjanna.

2 Við getum mætavel tekið undir með Job sem sagði að maðurinn ‚mettist órósemi‘ á skammri ævi sinni. (Jobsbók 14:1) Og sjaldan hefur það verið sem nú því að þjóðfélaginu hnignar hraðar en nokkru sinni fyrr. Bandarískur öldungadeildarþingmaður sagði: „Kalda stríðinu er lokið en það er átakanlegt, að í vissum skilningi er heimurinn orðinn kjörlendi þjóðernis-, ættflokka- og trúarvillimennsku og hefndaraðgerða. . . . Við höfum útvatnað siðferðisreglur okkar svo að unglingar eru margir hverjir ráðvilltir og kjarklitlir og eiga í alvarlegum erfiðleikum. Við erum að uppskera vanrækslu, hjónaskilnaði, misnotkun á börnum, táningamæður, uppflosnaða skólanema, fíkniefni og götur fullar af ofbeldi. Það er rétt eins og húsið okkar hafi sloppið óskemmt úr miklum jarðskjálfta, sem við köllum kalda stríðið, en sé nú að verða termítum að bráð.“

3. Hvaða biblíubók vekur sérstaka von?

3 En við erum ekki án vonar. Fyrir ríflega 2700 árum innblés Guð manni í Miðausturlöndum að bera fram allmarga spádóma sem hafa sérstaka þýðingu á okkar tímum. Þessir spádómar eru skráðir í biblíubók sem ber nafn spámannsins — Jesajabók. Hver var Jesaja og af hverju getum við sagt að spádómurinn, sem hann skrifaði fyrir hartnær þrjú þúsund árum, sé ljós handa öllu mannkyni nú á tímum?

Réttlátur maður á ólgutímum

4. Hver var Jesaja og hvenær var hann spámaður Jehóva?

4 Jesaja kynnir sig í fyrsta versi bókarinnar sem ‚Amozson‘ * og segist hafa þjónað sem spámaður Guðs „á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda.“ (Jesaja 1:1) Það þýðir að Jesaja hefur verið spámaður Guðs í Júda í að minnsta kosti 46 ár og trúlega hafið spámennskuna undir lok stjórnartíðar Ússía um árið 778 f.o.t.

5, 6. Hvað er ljóst í sambandi við fjölskyldulíf Jesaja og hvers vegna?

5 Fátt er vitað um einkalíf Jesaja í samanburði við suma aðra spámenn. Vitað er að hann var kvæntur og kallaði konu sína „spákonuna.“ ( Jesaja 8:3) Samkvæmt handbókinni Cyclopedia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature eftir McClintock og Strong gefur þessi nafngift til kynna að hjónalíf Jesaja „hafi ekki aðeins samræmst köllun hans heldur verið beinlínis samofið henni.“ Vel má vera að eiginkona Jesaja hafi gegnt sjálfstæðu spámannsstarfi líkt og sumar aðrar guðhræddar konur í Forn-Ísrael. — Dómarabókin 4:4; 2. Konungabók 22:14.

6 Jesaja og kona hans áttu að minnsta kosti tvo syni. Nöfn þeirra beggja höfðu spádómlega þýðingu. Frumgetningurinn, Sear Jasúb, var í för með Jesaja þegar hann flutti hinum illa Akasi konungi boðskap Guðs. (Jesaja 7:3) Ljóst er að fjölskyldan tilbað Guð saman sem er góð fyrirmynd fyrir hjón nú á tímum.

7. Lýstu ástandinu í Júda á dögum Jesaja.

7 Jesaja og fjölskylda hans voru uppi á ólgutímum í sögu Júda. Pólitískur órói var algengur, mútur spilltu dómstólum og hræsni var að eyðileggja trúarlega innviði samfélagsins. Hæðirnar voru þaktar falsguðaölturum. Sumir konunganna ýttu meira að segja undir heiðna tilbeiðslu. Svo dæmi sé tekið umbar Akas ekki aðeins skurðgoðadýrkun þegna sinna heldur stundaði hana sjálfur og lét syni sína „ganga gegnum eldinn“ sem trúarlega fórn fyrir kanverska guðinn Mólok. * (2. Konungabók 16:3, 4; 2. Kroníkubók 28:3, 4) Og þetta gerðist hjá þjóð sem var í sáttmálasambandi við Jehóva! — 2. Mósebók 19:5-8.

8. (a) Hvers konar fordæmi gáfu konungarnir Ússía og Jótam, og fylgdi þjóðin forystu þeirra? (b) Hvernig sýndi Jesaja dirfsku andspænis uppreisnargjarnri þjóð?

8 Það má segja sumum af samtíðarmönnum Jesaja til hróss — þeirra á meðal einstaka valdhöfum — að þeir reyndu að efla sanna guðsdýrkun. Ússía konungur var einn þeirra en hann gerði „það sem rétt var í augum [ Jehóva].“ Samt sem áður „fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum“ í stjórnartíð hans. (2. Konungabók 15:3, 4) Jótam konungur „gjörði það, sem rétt var í augum [Jehóva]“ en „lýðurinn aðhafðist enn óhæfu.“ (2. Kroníkubók 27:2) Andlegt og siðferðilegt ástand Júdaríkis var ömurlegt stærsta hlutann af spámannstíð Jesaja. Á heildina litið virti fólk jákvæð áhrif konunga sinna einskis. Það hefur því ekki verið auðvelt verkefni að flytja þessu þrjóska fólki boðskap Guðs. En þegar Jehóva spurði: „Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ svaraði Jesaja hiklaust: „Hér er ég, send þú mig!“ — Jesaja 6:8.

Hjálpræðisboðskapur

9. Hvað merkir nafnið Jesaja og hvernig tengist það stefi bókarinnar sem hann skrifaði?

9 Nafnið Jesaja merkir „hjálpræði Jehóva“ og það má segja að það sé stefið í boðskap hans. Sumir spádómar hans boða að vísu dóm, en engu að síður ómar hjálpræðisstefið hátt og skýrt. Jesaja segir margsinnis frá því hvernig Jehóva muni leysa Ísraelsmenn úr ánauð Babýlonar þegar þar að komi, svo að leifar þeirra geti snúið heim til Síonar og veitt landinu aftur sinn fyrri glæsileik. Eflaust hefur Jesaja haft mikið yndi af því að fá að bera fram og færa í letur spádóma um endurreisn sinnar heittelskuðu Jerúsalem.

10, 11. (a) Af hverju er Jesajabók áhugaverð fyrir nútímamenn? (b) Hvernig beinir bókin athyglinni að Messíasi?

10 En hvað varðar okkur um þennan boðskap dóms og hjálpræðis? Jesaja spáði ekki einungis fyrir tveggjaættkvíslaríkinu Júda heldur hefur boðskapur hans sérstaka þýðingu fyrir okkar daga. Jesaja dregur upp dýrlega mynd af því hvernig Guðsríki veitir jörðinni mikla blessun í náinni framtíð. Stór hluti bókar hans fjallar um hinn fyrirheitna Messías sem átti að verða konungur Guðsríkis. (Daníel 9:25; Jóhannes 12:41) Það er áreiðanlega engin tilviljun að nöfnin Jesús og Jesaja eru nánast sömu merkingar en nafnið Jesús merkir „Jehóva er hjálpræði.“

11 Jesús fæddist ekki fyrr en sjö öldum eftir daga Jesaja. En messíasarspádómar Jesajabókar eru svo ítarlegir og nákvæmir að það er engu líkara en að sjónarvottur sé að segja frá ævi Jesú á jörðinni. Fræðirit bendir á það og segir að þess vegna sé Jesajabók stundum kölluð ‚fimmta guðspjallið.‘ Það kemur því tæpast á óvart að Jesús og postular hans vitnuðu oftast í Jesajabók af öllum bókum Biblíunnar til að sýna fram á hver Messías væri.

12. Af hverju ættum við að kynna okkur Jesajabók?

12 Jesaja dregur upp stórbrotna mynd af ‚nýjum himni og nýrri jörð‘ þar sem „konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi.“ ( Jesaja 32:1, 2; 65:17, 18) Jesajabók heldur þannig á loft hinni örvandi von um ríki Guðs í höndum konungsins Messíasar, Jesú Krists. Það hvetur okkur til að gleðjast hvern dag yfir ‚hjálpræði Jehóva‘ sem í vændum er. ( Jesaja 25:9; 40:28-31) Við skulum því kynna okkur vandlega hinn dýrmæta boðskap Jesajabókar. Það styrkir til muna traust okkar á fyrirheitum Guðs. Og það treystir þá sannfæringu okkar að Jehóva sé hjálpræðisguð okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Amoz, faðir Jesaja, er ekki spámaðurinn Amos sem spáði í upphafi stjórnartíðar Ússía og skrifaði biblíubókina sem ber nafn hans.

^ gr. 7 Sumir segja að orðin „ganga gegnum eldinn“ geti vísað til hreinsunarathafnar. En í þessu samhengi virðist þetta orðalag vísa til bókstaflegrar fórnar. Enginn vafi leikur á að barnafórnir voru stundaðar meðal Kanverja og Ísraelsmanna sem gerst höfðu fráhverfir trúnni. — 5. Mósebók 12:31; Sálmur 106:37, 38.

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 7]

Hver var Jesaja?

NAFNIÐ MERKIR: „Hjálpræði Jehóva.“

FJÖLSKYLDA: Kvæntur og átti að minnsta kosti tvo syni.

HEIMILI: Jerúsalem.

ÞJÓNUSTUÁR: Að minnsta kosti 46, frá hér um bil 778 f.o.t. fram yfir 732 f.o.t.

SAMTÍÐARKONUNGAR JÚDA: Ússía, Jótam, Akas og Hiskía.

SAMTÍÐARSPÁMENN: Míka, Hósea og Ódeð.

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 6]

Fjölskylda Jesaja tilbað Guð saman.