Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Huggið lýð minn!“

„Huggið lýð minn!“

30. kafli

„Huggið lýð minn!“

Jesaja 40:1-31

1. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva huggar okkur.

 JEHÓVA er ‚Guð sem veitir huggunina.‘ Fyrirheitin í orði hans eru eitt af því sem hann notar til að hugga okkur. (Rómverjabréfið 15:4, 5) Ef maður missir ástvin er fátt eins huggandi og vonin um að sjá hann aftur upprisinn í nýjum heimi Guðs. (Jóhannes 5:28, 29) Og Jehóva hefur lofað að binda enda á illskuna mjög bráðlega og breyta jörðinni í paradís. Er það ekki bæði huggun og hughreysting að eiga þá von að fá að lifa inn í paradís framtíðarinnar og þurfa aldrei að deyja? — Sálmur 37:9-11, 29; Opinberunarbókin 21:3-5.

2. Af hverju getum við treyst fyrirheitum Guðs?

2 Getum við virkilega treyst fyrirheitum Guðs? Já, gjafari þeirra er fullkomlega áreiðanlegur. Hann er bæði fær um að standa við orð sín og fús til þess. (Jesaja 55:10, 11) Hann sýndi það með áhrifamiklum hætti er hann boðaði endurreisn sannrar tilbeiðslu í Jerúsalem. Lítum á spádóminn sem er að finna í 40. kafla Jesajabókar, því að hann getur styrkt þá trú okkar að Jehóva uppfylli loforð sín.

Huggandi fyrirheit

3, 4. (a) Hvaða huggunarorð flytur Jesaja sem fólk Guðs þarf á að halda síðar meir? (b) Af hverju verða Júdamenn og Jerúsalembúar fluttir í útlegð til Babýlonar og hve löng verður ánauðin?

3 Á áttundu öld f.o.t. skrásetur Jesaja spámaður huggandi orð sem fólk Jehóva þarf á að halda síðar meir. Hann er nýbúinn að segja Hiskía konungi frá því að Jerúsalem verði eytt og Gyðingar fluttir til Babýlonar er hann flytur endurreisnarfyrirheit frá Jehóva: „Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar. Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi [Jehóva] fyrir allar syndir sínar!“ — Jesaja 40:1, 2.

4 Orðið „huggið,“ upphafsorð 40. kaflans, er lýsandi fyrir þann boðskap ljóss og vonar sem fram kemur í framhaldi bókarinnar. Júdamenn og Jerúsalembúar verða sendir í útlegð til Babýlonar árið 607 f.o.t. vegna þess að þeir eru orðnir fráhverfir trúnni. En útlagarnir eiga ekki að þjóna Babýloníumönnum um allan aldur heldur aðeins þangað til sekt þeirra er „goldin.“ Hversu lengi er það? Sjötíu ár, að sögn Jeremía spámanns. (Jeremía 25:11, 12) Að þeim tíma liðnum ætlar Jehóva að leiða iðrandi leifar frá Babýlon heim til Jerúsalem. Þú getur rétt ímyndað þér hvílík huggun það verður fyrir útlagana er þeir uppgötva á 70. árinu frá eyðingu Júda að hin fyrirheitna frelsun stendur fyrir dyrum. — Daníel 9:1, 2.

5, 6. (a) Af hverju torveldar það ekki Guði að efna fyrirheit sitt þótt leiðin frá Babýlon til Jerúsalem sé löng? (b) Hvaða áhrif mun heimför Gyðinga hafa á aðrar þjóðir?

5 Frá Babýlon til Jerúsalem eru 800 til 1600 kílómetrar eftir því hvaða leið er valin. En það torveldar ekki Guði að efna fyrirheit sitt þótt leiðin sé löng. Jesaja skrifar: „Heyr, kallað er: ‚Greiðið götu [Jehóva] í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni! Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum! Dýrð [Jehóva] mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur [Jehóva] hefir talað það!‘“ — Jesaja 40:3-5.

6 Valdhafar Austurlanda gerðu gjarnan út menn til að undirbúa veginn áður en lagt var upp í ferðalag. Þeir ruddu burt stórgrýti og sléttuðu jafnvel hæðir og lögðu upphækkaða vegi. Þegar Gyðingar halda heimleiðis er eins og Guð sjálfur fari á undan og ryðji öllum hindrunum úr vegi. Þetta er fólkið sem ber nafn Jehóva, og vegsemd hans blasir við öllum þjóðum er hann efnir loforð sitt um að leiða það heim í land sitt að nýju. Hvort sem þjóðunum líkar betur eða verr neyðast þær til að horfa upp á það að Jehóva efnir fyrirheit sín.

7, 8. (a) Hvernig rættust orðin í Jesaja 40:3 á fyrstu öld? (b) Hvaða meiri uppfyllingu hlaut spádómur Jesaja árið 1919?

7 Spádómurinn rætist ekki aðeins með endurreisninni á sjöttu öld f.o.t. heldur einnig á fyrstu öld. Jóhannes skírari var „rödd hrópanda í eyðimörk“ eins og spáð var í Jesaja 40:3. (Lúkas 3:1-6) Honum var innblásið að heimfæra orð Jesaja á sjálfan sig. (Jóhannes 1:19-23) Árið 29 tók hann að búa veginn undir komu hins fyrirheitna Messíasar, Jesú Krists. * Boðun hans vakti fólk svo að það yrði reiðubúið að hlýða á Messías og fylgja honum þegar hann kæmi. (Lúkas 1:13-17, 76) Fyrir tilstuðlan Jesú ætlaði Jehóva að leiða iðrandi menn til þess frelsis sem aðeins Guðsríki getur veitt, frelsis úr fjötrum syndar og dauða. (Jóhannes 1:29; 8:32) Orð Jesaja áttu sér víðtækari uppfyllingu er leifar hins andlega Ísraels voru frelsaðar úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu árið 1919 og sönn tilbeiðsla endurreist.

8 En hvað um hina útlægu Gyðinga í Babýlon sem eiga að njóta góðs af byrjunaruppfyllingu fyrirheitsins? Geta þeir virkilega treyst loforði Jehóva um að skila þeim heim til ættjarðarinnar sem er þeim svo kær? Vissulega. Jesaja grípur til sterkra orða og líkinga úr daglegu lífi til að sýna fram á hvers vegna þeir geti treyst fullkomlega að Jehóva haldi orð sín.

Orð Guðs stendur eilíflega

9, 10. Hvernig ber Jesaja saman hina stundlegu ævi mannsins og hið varanlega orð Guðs?

9 Það var Guð sem lofaði endurreisn og orð hans stendur eilíflega. Jesaja skrifar: „Heyr, einhver segir: ‚Kalla þú!‘ Og ég svara: ‚Hvað skal ég kalla?‘ ‚Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna, þegar [Jehóva] andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras. Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.‘“ — Jesaja 40:6-8.

10 Ísraelsmenn vita mætavel að grasið stendur ekki að eilífu. Það visnar og sölnar í sterkri sólinni á þurrkatímanum. Að sumu leyti er mannsævin eins og grasið — ósköp stutt. (Sálmur 103:15, 16; Jakobsbréfið 1:10, 11) Jesaja ber saman hverfula ævi mannsins og hið varanlega „orð“ Guðs, þann tilgang sem hann hefur lýst yfir. „Orð Guðs vors“ varir að eilífu. Ekkert getur ógilt töluð orð hans eða hindrað að þau rætist. — Jósúabók 23:14.

11. Af hverju getum við treyst að Jehóva efni fyrirheitin í rituðu orði sínu?

11 Við höfum yfirlýstan tilgang Jehóva í Biblíunni. Hún hefur sætt harðri andstöðu í aldanna rás og hugrakkir þýðendur og fleiri hættu lífinu til að varðveita hana. En það þurfti meira en mannlega viðleitni til. Varðveisla Biblíunnar hlýtur að vera Jehóva að þakka „sem lifir og varir“ og verndar orð sitt. (1. Pétursbréf 1:23-25) Fyrst hann hefur varðveitt ritað orð sitt hljótum við að geta treyst honum til að efna þau fyrirheit sem í því eru.

Sterkur Guð sem er annt um sauðina

12, 13. (a) Hvers vegna er hægt að treysta endurreisnarfyrirheitinu? (b) Hvaða fagnaðarfréttir fá Gyðingarnir í útlegðinni og af hverju geta þeir treyst Guði?

12 Jesaja tilgreinir aðra ástæðu fyrir því að hægt er að treysta endurreisnarfyrirheitinu. Sá sem gaf það er sterkur og lætur sér innilega annt um fólk sitt. Jesaja heldur áfram: „Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: ‚Sjá, Guð yðar kemur!‘ Sjá, hinn alvaldi [Jehóva] kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum. Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.“ — Jesaja 40:9-11.

13 Siður var á biblíutímanum að konur fögnuðu sigri í bardaga með því að syngja um hann eða léttinn sem af honum myndi hljótast. (1. Samúelsbók 18:6, 7; Sálmur 68:12) Jesaja gefur til kynna í spádómnum að hinir útlægu fái fagnaðarfréttir sem hægt sé að kalla kröftuglega og óttalaust, jafnvel ofan af fjallstindunum: Jehóva ætlar að leiða fólk sitt heim til Jerúsalem! Það má treysta því vegna þess að Jehóva kemur sterkur eins og voldug „hetja“ og ekkert getur hindrað að hann efni loforð sitt.

14. (a) Hvernig lýsir Jesaja blíðlegri forystu Jehóva? (b) Hvaða dæmi sýnir umhyggju fjárhirða fyrir sauðum sínum? (Sjá rammagrein á bls. 405.)

14 En þessi sterki Guð er líka blíður. Jesaja lýsir því hvernig hann leiðir fólk sitt heim aftur eins og ástríkur hirðir sem tekur unglömbin í faðm sér og ber þau í „fangi“ sínu. Orðið ‚fang‘ virðist hér merkja fellingar í yfirhöfn þar sem fjárhirðar báru stundum nýfædd lömb sem héldu ekki í við hjörðina. (2. Samúelsbók 12:3) Þessi hjartnæma mynd úr hjarðmennskunni hefur eflaust fullvissað útlæga þjóð Jehóva um ást hans og umhyggju. Það er hægt að treysta þessum sterka og blíða Guði til að efna það sem hann lofar.

15. (a) Hvenær kom Jehóva „sem hetja“ og hver er ‚armleggurinn sem aflar honum yfirráða‘? (b) Hvaða fagnaðartíðindi þarf að boða óttalaust?

15 Orð Jesaja hafa spádómlega merkingu fyrir okkar daga. Jehóva kom „sem hetja“ árið 1914 og stofnsetti ríki sitt á himnum. ‚Armleggurinn sem aflar honum yfirráða‘ er sonurinn Jesús Kristur sem hann hefur sett í hásæti á himnum. Jehóva frelsaði smurða þjóna sína á jörð úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu árið 1919 og hófst handa við að endurreisa hreina tilbeiðslu að fullu. Þetta eru fagnaðartíðindi sem boða þarf óttalaust, rétt eins og það sé hrópað ofan af fjallstindum svo að það berist um víðan völl. Við skulum því hefja upp raustina og kunngera djarfmannlega að Jehóva hefur endurreist hreina tilbeiðslu á jörðinni.

16. Hvernig leiðir Jehóva fólk sitt nú á tímum og hvaða fyrirmynd gefur hann með því?

16 Við lærum annað af orðunum í Jesaja 40:10, 11. Það er hughreystandi að sjá hvernig Jehóva leiðir fólk sitt blíðlega. Hann skilur takmörk trúrra þjóna sinna hvers um sig, svipað og hirðir þekkir þarfir allra sauðanna, þar á meðal litlu lambanna sem geta ekki haldið í við hjörðina. Og mildi Jehóva er kristnum hirðum fyrirmynd til eftirbreytni. Öldungarnir verða að vera mildir við hjörðina og líkja eftir ást og umhyggju hans. Þeir þurfa alltaf að vera minnugir þess hvernig hann lítur á hvern og einn í hjörðinni sem hann „keypti með blóði síns eigin sonar.“ — Postulasagan 20:28, NW.

Alvaldur og alvitur

17, 18. (a) Hvers vegna geta Gyðingarnir í útlegðinni treyst endurreisnarfyrirheitinu? (b) Hvaða spurninga spyr Jesaja?

17 Gyðingarnir í útlegðinni treysta á endurreisnarfyrirheitið af því að Guð er alvaldur og alvitur. Jesaja segir: „Hver hefir mælt vötnin í lófa sínum og stikað himininn með spönn sinni, innilukt duft jarðarinnar í mælikeri og vegið fjöllin á reislu og hálsana á metaskálum? Hver hefir leiðbeint anda [Jehóva], hver hefir verið ráðgjafi hans og frætt hann? Hvern hefir hann sótt að ráðum, þann er gæfi honum skilning og kenndi honum leið réttvísinnar, uppfræddi hann í þekkingu og vísaði honum veg viskunnar?“ — Jesaja 40:12-14.

18 Þetta er umhugsunarvert fyrir útlagana. Geta lítilmótlegir menn stöðvað sjávarföllin? Auðvitað ekki! En hafdjúpin, sem hylja jörðina, eru rétt eins og dropi í lófa Jehóva. * Geta smáir menn mælt út víðáttur himingeimsins eða vegið fjöll og hálsa? Nei, en Jehóva mælir himininn jafnauðveldlega og maður stikar hlut með spönn sinni sem er bilið milli góma þumalfingurs og litla fingurs á útglenntri hönd. Hann getur vegið fjöll og hálsa á reislu ef svo má segja. Geta mestu vitringar manna ráðlagt Guði hvað hann eigi að gera núna eða í framtíðinni? Nei, enginn getur það.

19, 20. Hvaða myndlíkingar notar Jesaja til að lýsa mikilleik Jehóva?

19 Hvað um hinar voldugu þjóðir jarðar? Geta þær staðið í vegi fyrir því að Guð efni fyrirheit sín? Jesaja svarar með lýsingu á þjóðunum: „Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni. Og Líbanon-skógur hrekkur ekki til eldsneytis og dýrin í honum ekki til brennifórnar. Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum, þær eru minna en ekki neitt og hégómi í hans augum.“ — Jesaja 40:15-17.

20 Í augum Jehóva eru heilu þjóðirnar eins og vatnsdropi í fötu. Þær eru eins og örþunnt ryklag á vogarskálum sem hefur ekkert að segja. * Setjum nú sem svo að maður reisi risaaltari og noti allan skóginn af Líbanonsfjöllum til eldiviðar. Segjum svo að hann færði öll dýrin á fjöllunum að fórn. Slík fórn væri ekki einu sinni samboðin Jehóva. Og Jesaja tekur enn dýpra í árinni, rétt eins og þetta myndmál dugi ekki, og segir að allar þjóðir séu „minna en ekki neitt“ í augum hans. — Jesaja 40:17.

21, 22. (a) Hvernig leggur Jesaja áherslu á að Jehóva eigi engan sinn líka? (b) Hvaða ályktun drögum við af lifandi myndlíkingum Jesaja? (c) Hvernig eru orð Jesaja spámanns vísindalega nákvæm? (Sjá rammagrein á bls. 412.)

21 Jesaja leggur enn sterkari áherslu á að ekkert jafnist á við Jehóva og sýnir fram á hve heimskulegt það sé að gera sér skurðgoð úr gulli, silfri eða tré. Hvílík fásinna að láta sér detta í hug að slíkt skurðgoð geti gefið viðeigandi mynd af honum „sem situr hátt yfir jarðarkringlunni“ og drottnar yfir íbúum hennar! — Lestu Jesaja 40:18-24.

22 Það ber allt að sama brunni eins og þessar lifandi myndlíkingar lýsa: Ekkert getur hindrað hinn alvalda, alvitra og óviðjafnanlega Jehóva í að efna fyrirheit sín. Orð Jesaja hljóta að hafa styrkt og hughreyst hina útlægu Gyðinga í Babýlon sem þráðu að snúa heim. Við getum líka treyst að fyrirheit Jehóva um framtíðina rætist.

„Hver hefir skapað stjörnurnar?“

23. Af hverju geta útlagarnir verið hughraustir og hvað segir Jehóva um sjálfan sig?

23 Það er enn ein ástæða fyrir því að Gyðingarnir í útlegðinni geta verið hughraustir. Sá sem lofar frelsuninni er mikill að krafti og skapari allra hluta, og hann bendir á hvernig undramáttur sinn birtist í sköpunarverkinu: „Við hvern viljið þér samlíkja mér, að ég sé honum jafn? segir Hinn heilagi. Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ — Jesaja 40:25, 26.

24. Hvernig bendir Jehóva á að hann eigi engan sinn líka?

24 Hinn heilagi í Ísrael er að tala um sjálfan sig. Hann bendir á stjörnur himins til að sýna fram á að enginn sé jafnoki hans. Hann stjórnar stjörnunum rétt eins og herforingi fylkir liðsmönnum sínum. Ef hann kallaði þær saman yrði ‚engrar þeirra vant.‘ Þótt margar séu kallar hann hverja og eina með nafni, annaðhvort sérnafni eða kenniheiti. Þær eru hver á sínum stað eins og hlýðnir hermenn því að foringi þeirra er ‚mikill að krafti‘ og „voldugur að afli.“ Þess vegna geta Gyðingarnir í útlegðinni verið hughraustir. Skaparinn, sem stýrir stjörnunum, er nógu öflugur til að halda þjónum sínum uppi.

25. Hvaða boð fáum við í Jesaja 40:26 og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?

25 Hver getur staðist boð Guðs í Jesaja 40:26: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um“? Öflugir sjónaukar stjörnufræðinganna hafa sýnt okkur fram á að himingeimurinn er enn stórfenglegri en menn gerðu sér grein fyrir á dögum Jesaja. Áætlað er að í hinum sýnilega alheimi séu allt að 125 milljarðar vetrarbrauta. Og í einni þeirra, vetrarbrautinni okkar, eru taldar vera rösklega 100 milljarðar stjarna. Slík vitneskja ætti að vekja í hjörtum okkar djúpa lotningu fyrir skaparanum og fullt traust til fyrirheita hans.

26, 27. Hvernig er líðan útlaganna lýst og hvað ættu þeir að hafa hugfast?

26 Jehóva veit að langvarandi útlegð dregur kjark úr Gyðingunum, svo að hann innblæs Jesaja að skrásetja þessi hughreystingarorð: „Hví segir þú þá svo, Jakobsætt, og hví mælir þú þá svo, Ísrael: ‚Hagur minn er hulinn fyrir [Jehóva], og réttur minn er genginn úr höndum Guði mínum?‘ Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? [Jehóva] er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.“ — Jesaja 40:27, 28.

27 Orð Jehóva lýsa því hvernig útlögunum er innanbrjósts í Babýlon, óraveg að heiman. Sumir halda að Guð sjái ekki eða viti ekki hvernig „hagur“ þeirra er, hversu erfið lífsganga þeirra er. Þeir halda að Jehóva sé áhugalaus um ranglætið sem þeir mega þola. Þeir eru minntir á hluti sem þeir ættu að þekkja af eigin raun eða hafa kynnst í föðurhúsum. Jehóva er bæði fús til og fær um að frelsa fólk sitt. Hann er eilífur Guð og skapari allrar jarðarinnar. Hann ræður enn yfir þeim mætti sem hann beitti við sköpunina og hin volduga Babýlon er enginn ofjarl hans. Guð sem þessi hvorki þreytist né bregst fólki sínu. Menn geta ekki búist við að skilja verk Jehóva til fullnustu því að speki hans, innsæi og hyggindi er þeim óskiljanleg.

28, 29. (a) Hvernig minnir Jehóva fólk sitt á að hann komi þreyttum til hjálpar? (b) Hvaða dæmi er tekið til að sýna hvernig Jehóva styrkir þjóna sína?

28 Jehóva heldur áfram að hvetja hina örvilnuðu útlaga: „Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga, en þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ — Jesaja 40:29-31.

29 Vera kann að Jehóva sé að hugsa til hinnar erfiðu heimferðar útlaganna er hann segist veita hinum þreytta kraft. Hann minnir fólk sitt á að hann sé vanur að koma þreyttum til hjálpar sem leita ásjár hans. Jafnvel hinir þróttmestu, „ungir menn“ og „æskumenn,“ geta örmagnast og hnigið niður en Jehóva lofar að gefa þeim sem treysta honum kraft, óþreytandi kraft til að ganga og hlaupa. Örninn virðist geta svifið áreynslulaust um loftin blá klukkutímum saman, og Jehóva notar þennan sterka fugl sem dæmi til að lýsa því hvernig hann gefur þjónum sínum kraft. * Fyrst hann ætlar að styðja Gyðingana svona er engin ástæða til að örvænta.

30. Hvernig geta sannkristnir menn sótt styrk í síðustu versin í 40. kafla Jesajabókar?

30 Lokaversin í 40. kafla Jesajabókar eru styrkjandi fyrir sannkristna menn nú á síðustu dögum þessa illa heimskerfis. Það er hughreystandi til að vita í öllu álaginu og öllum vandamálunum að erfiðleikarnir og ranglætið, sem við megum þola, fer ekki fram hjá Guði. Við getum verið viss um að skapari allra hluta, sem býr yfir ‚ómælanlegri speki,‘ leiðréttir allt ranglæti á sínum tíma og á sinn hátt. (Sálmur 147:5, 6) En við þurfum ekki að halda út í eigin krafti. Jehóva býr yfir óþrjótandi krafti og hann getur veitt þjónum sínum „ofurmagn kraftarins“ á þrengingarstund. — 2. Korintubréf 4:7.

31. Hvaða loforð var fólgið í spádómi Jesaja handa Gyðingunum í Babýlon og hverju getum við algerlega treyst?

31 Hugsaðu til Gyðinganna sem eru útlagar í Babýlon á sjöttu öld f.o.t. Í mörg hundruð kílómetra fjarlægð liggur hin ástkæra Jerúsalem í eyði og musterið í rúst. Spádómur Jesaja færir þeim hughreystandi loforð ljóss og vonar — Jehóva ætlar að flytja þá heim á ný! Það gerir hann árið 537 f.o.t. og sýnir að hann stendur við fyrirheit sín. Við getum líka borið algert traust til Jehóva. Guðsríkisfyrirheitin eru fagurlega orðuð í spádómi Jesaja og þau eiga eftir að rætast. Það eru fagnaðartíðindi — ljós handa öllu mannkyni!

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Jesaja talar um að greiða götu Jehóva. (Jesaja 40:3) Guðspjöllin heimfæra spádóminn hins vegar á það starf Jóhannesar skírara að greiða götu Jesú Krists. Þetta gerðu hinir innblásnu ritarar kristnu Grísku ritninganna vegna þess að Jesús kom fram fyrir hönd föður síns og í hans nafni. — Jóhannes 5:43; 8:29.

^ gr. 18 „Höfin eru talin vega um 1,35 exatonn (1,35 · 1018) eða um 1/4400 af heildarmassa jarðar.“ — Encarta 97 Encyclopedia.

^ gr. 20 Orðskýringabókin The Expositor’s Bible Commentary segir: „Á markaðstorgum Miðausturlanda var ekki skeytt um agnarlítinn vatnsdropa í mælifötu eða örlítið ryk á vogarskálum þegar kjöt eða ávextir voru vegnir.“

^ gr. 29 Örninn nýtir sér hitauppstreymi til að halda sér á lofti með sem minnstri orkunotkun.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 405]

Jehóva, ástríkur hirðir

Jesaja líkir Jehóva við ástríkan hirði sem ber lömbin í fangi sér. (Jesaja 40:10, 11) Hann byggir samlíkinguna greinilega á því hvernig fjárhirðar bera sig að í veruleikanum. Maður, sem fylgdist með fjárhirðum í hlíðum Hermonfjalls í Miðausturlöndum, skrifaði: „Hirðirinn fylgdist gaumgæfilega með hjörðinni til þess að sjá hvernig henni vegnaði. Þegar hann fann nýfætt lamb bar hann það í fellingum yfirhafnar sinnar . . . því að það hafði ekki mátt til að fylgja móðurinni. Þegar hann var kominn með fullt fangið bætti hann lömbum á herðar sér og hélt í fætur þeirra, eða setti þau á bak asna í poka eða körfu uns krílin gátu fylgt mæðrum sínum.“ Er ekki hughreystandi til að vita að við þjónum Guði sem ber svona mikla umhyggju fyrir fólki sínu?

[Rammi á blaðsíðu 412]

Lögun jarðar

Til forna héldu flestir að jörðin væri flöt. Á sjöttu öld f.o.t. kom gríski heimspekingurinn Pýþagóras þó fram með þá kenningu að hún væri hnöttótt. En tveim öldum á undan Pýþagórasi sagði Jesaja spámaður með ótrúlegum skýrleika og vissu: „Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni.“ (Jesaja 40:22) Hebreska orðið ḥú, sem hér er þýtt ‚kringla,‘ getur einnig merkt „hnöttur.“ Rétt er að hafa í huga að einungis hnöttur er hringlaga að sjá úr öllum áttum. * Spámaðurinn Jesaja var því langt á undan samtíðinni er hann skrifaði þessi vísindalega nákvæmu orð sem eru laus við allan goðsögublæ.

[Neðanmáls]

^ gr. 72 Strangt til tekið er jörðin ekki fullkomlega kúlulaga heldur eilítið flöt um pólana.

[Mynd á blaðsíðu 403]

Jóhannes skírari var „rödd hrópanda í eyðimörk.“