Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva ósæmir skraut Týrusar

Jehóva ósæmir skraut Týrusar

19. kafli

Jehóva ósæmir skraut Týrusar

Jesaja 23:1-18

1, 2. (a) Hvers konar borg var Týrus fornaldar? (b) Hverju spáði Jesaja borginni?

 HÚN var ‚aðdáanlega fögur‘ og átti „gnótt alls konar kaupeyris.“ (Esekíel 27:4, 12) Kaupskip hennar sigldu til fjarlægra staða. Hún ‚varð mjög hlaðin úti á hafinu‘ og ‚auðgaði konunga jarðarinnar með auðlegð sinni.‘ (Esekíel 27:25, 33) Þannig var fönikíska borgin Týrus á sjöundu öld fyrir okkar tímatal.

2 En Týrus átti eyðingu yfir höfði sér. Um 100 árum áður en Esekíel skrifaði um þetta höfuðvígi Fönikíumanna fyrir botni Miðjarðarhafs, boðaði spámaðurinn Jesaja fall þess og harm þeirra sem á það treystu. Jafnframt spáði hann því að Guð myndi síðar beina athygli sinni að borginni og auka hagsæld hennar að nýju. Hvernig rættust orð spámannsins og hvaða lærdóm má draga af örlögum borgarinnar? Með því að glöggva okkur á afdrifum hennar og orsökum þeirra styrkjum við trúna á Jehóva og fyrirheit hans.

„Kveinið, þér Tarsisknerrir“

3, 4. (a) Hvar var Tarsis og hvert var samband þess og Týrusar? (b) Af hverju hafa farmenn , sem skipta við Tarsis, ástæðu til að ‚kveina‘?

3 Undir formálsorðunum „spádómar um Týrus,“ segir Jesaja: „Kveinið, þér Tarsisknerrir, því að hún er í eyði lögð! Ekkert hús þar framar, ekkert til að fara inn í!“ (Jesaja 23:1a) Talið er að Tarsis hafi verið hluti Spánar, víðs fjarri Týrus fyrir botni Miðjarðarhafs. * En Fönikíumenn voru miklir siglingamenn og skip þeirra bæði stór og vel haffær. Sumir sagnfræðingar telja að Fönikíumenn hafi fyrstir manna komið auga á tengslin milli tungls og sjávarfalla og siglt eftir stjörnum þannig að leiðin frá Týrus til Tarsis óx þeim ekki í augum þótt löng væri.

4 Tarsis er mikilvægur markaður fyrir Týrverja á dögum Jesaja, hugsanlega helsta auðlind hennar um tíma. Á Spáni eru auðugar námur þar sem unnið er silfur, járn, tin og fleiri málmar. (Samanber Jeremía 10:9; Esekíel 27:12.) „Tarsisknerrir“ eru líklega týrversk kaupskip sem sigla til Tarsis en hafa ríka ástæðu til að reka upp harmakvein þegar heimahöfn þeirra er eyðilögð.

5. Hvar frétta farmenn á leið frá Tarsis af falli Týrusar?

5 Hvernig frétta farmenn í siglingum af falli Týrusar? „Frá Kýpur berst þeim sú fregn,“ svarar Jesaja. (Jesaja 23:1b) Eyjan Kýpur er um 100 kílómetra vestur af strönd Fönikíu og er síðasti viðkomustaður skipa á austurleið frá Tarsis áður en þau koma til Týrusar. Sjómennirnir frétta því fall heimaborgar sinnar þegar þeir koma við á Kýpur. Hvílíkt áfall! Þeir ‚kveina‘ harmi slegnir.

6. Lýstu sambandi Týrusar og Sídonar.

6 Strandbúar Fönikíu eru einnig kvíðnir og skelfdir. Spámaðurinn segir: „Verið hljóðir, þér íbúar eyborgarinnar, sem full var af kaupmönnum frá Sídon, er yfir hafið fara, og dró að sér Síkor-sáð og Nílarkorn yfir hin miklu höf og var kauptún þjóðanna!“ (Jesaja 23:2, 3) Orðin „íbúar eyborgarinnar“ má einnig þýða „íbúar strandlengjunnar“ og vísa þá til nágranna Týrusar sem eru þögulir og slegnir yfir hörmulegu falli borgarinnar. Hverjir eru þessir fjölmörgu ‚kaupmenn frá Sídon‘ sem auðguðu svæðið? Týrus var upphaflega nýlenda hafnarborgarinnar Sídonar, 35 kílómetrum norðar. Á peningum frá Sídon er talað um hana sem móður Týrusar. Þótt Týrus sé orðin auðugri en Sídon er hún enn „Sídondóttir“ og íbúar hennar kalla sig Sídoninga. (Jesaja 23:12) Þess vegna eru ‚kaupmennirnir frá Sídon‘ sennilega verslunarmennirnir í Týrus.

7. Hvernig hefur auður sídonskra kaupmanna breiðst út?

7 Hinir auðugu Sídonarkaupmenn sigla um Miðjarðarhaf þvert og endilangt í verslunarerindum. Þeir flytja víða sáðkorn frá Síkor sem er austasta kvísl Nílarósa í Egyptalandi. (Samanber Jeremía 2:18.) Það er mjög arðvænlegt fyrir þessa siglingakaupmenn og aðrar þjóðir, sem þeir eiga viðskipti við, að versla með „Nílarkorn“ og aðrar vörur frá Egyptalandi. Sídonarkaupmenn draga mikinn auð til Týrusar og harma eyðingu hennar sárlega þegar til hennar kemur.

8. Hvaða áhrif hefur eyðing Týrusar á Sídon?

8 Jesaja ávarpar Sídon svo: „Fyrirverð þig, sæborgin Sídon, því særinn segir: ‚Eigi hefi ég verið jóðsjúkur og eigi fætt, og eigi hefi ég fóstrað yngismenn né uppalið meyjar.‘“ (Jesaja 23:4) Ströndin, þar sem Týrus stóð, er hrjóstrug og eyðileg að sjá eftir að borgin er liðin undir lok. Það er engu líkara en að hafið hrópi angistarfullt líkt og móðir sem misst hefur börn sín og er svo örvilnuð að hún neitar því að hafa nokkurn tíma átt þau. Sídon fyrirverður sig fyrir örlög dóttur sinnar.

9. Hverju líkist skelfingin sem grípur um sig við fall Týrusar?

9 Já, tíðindin af eyðingu Týrusar valda harmi víða. Jesaja segir: „Eins og menn skelfdust, þá þeir fréttu ófarir Egyptalands, eins munu þeir skelfast, þá þeir fá fregn af Týrusborg.“ (Jesaja 23:5, Biblían 1859) Skelfing syrgjendanna er sambærileg við skelfinguna sem greip um sig við fréttina af óförum Egyptalands. Hvaða frétt á spámaðurinn við? Ef til vill uppfyllingu fyrri ‚spádóms um Egyptaland.‘ * (Jesaja 19:1-25) Eins getur verið að spámaðurinn eigi við hið mikla ofboð sem greip um sig þegar her faraós var tortímt á dögum Móse. (2. Mósebók 15:4, 5, 14-16; Jósúabók 2:9-11) Þeir sem fregna eyðingu Týrusar eru að minnsta kosti dauðskelfdir. Þeir eru hvattir til að flýja til Tarsis langt í fjarska og fyrirskipað að láta harm sinn í ljós með miklu kveini: „Farið yfir til Tarsis og kveinið, þér íbúar eyborgarinnar,“ eða strandlengjunnar, samanber 2. versið.  Jesaja 23:6.

Glaummikil ‚frá fornaldar dögum‘

10-12. Lýstu auðlegð, fyrnsku og áhrifum Týrusar.

10 Týrus stendur á gömlum merg eins og Jesaja minnir á er hann spyr: „Er þetta glaummikla borgin yðar, sem rekur uppruna sinn fram til fornaldar daga?“ (Jesaja 23:7) Velmektarsaga Týrusar nær að minnsta kosti aftur til daga Jósúa. (Jósúabók 19:29) Í aldanna rás aflaði hún sér frægðar fyrir málmsmíði, glervörur og purpuralit. Skikkjur úr týrverskum purpura seldust háu verði og hin dýra vefnaðarvara borgarinnar var eftirsótt meðal hástéttarfólks. (Samanber Esekíel 27:7, 24.) Og Týrus er viðkomustaður kaupmannalesta á landi auk þess að vera innflutnings- og útflutningsmiðstöð.

11 Borgin er hernaðarlega sterk. L. Sprague de Camp skrifar: „Þótt Fönikíumenn væru ekkert sérlega herskáir — þeir voru kaupsýslumenn en ekki hermenn — vörðu þeir borgir sínar af ofstækisfullu hugrekki og þrjósku. Þegar styrkur þeirra til sjós bættist við áttu þeir í fullu tré við assýrska herinn sem var sterkastur herja á þeim tíma.“

12 Týrus setur mark sitt á Miðjarðarhafssvæðið. Hún hefur „stikað . . . langar leiðir til þess að taka sér bólfestu.“ (Jesaja 23:7b) Fönikíumenn ferðast langar leiðir og koma sér upp verslunar- og viðkomustöðum. Sums staðar koma þeir sér upp nýlendum. Borgin Karþagó í Norður-Afríku er týrversk nýlenda og verður með tíð og tíma keppinautur Rómar og áhrifameiri í heimi Miðjarðarhafslanda en Týrus var.

Að ósæma skraut hennar

13. Af hverju er spurt hver vogi sér að lýsa dómi gegn Týrus?

13 Í ljósi auðlegðar og fornar frægðar borgarinnar er viðeigandi að spyrja: „Hver hefir ályktað svo um Týrus, um hana, sem ber höfuðdjásnið, þar sem kaupmennirnir voru höfðingjar og verslunarmennirnir tignustu menn á jörðu?“ (Jesaja 23:8) Hver vogar sér að tala gegn borginni sem skipað hefur volduga menn í há embætti í nýlendum sínum og víðar, sem „út hlutaði kórónum“ eins og það er orðað í Biblíunni frá 1859? Hver vogar sér að tala gegn stórborg þar sem kaupmennirnir eru höfðingjar og verslunarmennirnir tignarmenn? Maurice Chehab, fyrrverandi forstöðumaður fornminjadeildar Þjóðminjasafnsins í Beirút í Líbanon, segir: „Frá níundu öld f.o.t. fram á þá sjöttu var Týrus álíka mikilvæg borg og Lundúnir voru í byrjun tuttugustu aldar.“ Hver vogar sér að tala gegn þessari borg?

14. Hver lýsir dómi á hendur Týrus og hvers vegna?

14 Hið innblásna svar veldur miklu ofboði í Týrus. Jesaja segir: „[Jehóva] allsherjar hefir ályktað þetta til þess að ósæma allt hið dýrlega skraut og lægja alla hina tignustu menn á jörðu.“ (Jesaja 23:9) Af hverju fellir Jehóva dóm yfir hinni ævafornu og auðugu borg? Er ástæðan sú að borgarbúar dýrka falsguðinn Baal? Er það vegna tengsla hennar við Jesebel, dóttur Etbaals konungs Sídonar og Týrusar sem giftist Akab Ísraelskonungi og myrti spámenn Jehóva? (1. Konungabók 16:29, 31; 18:4, 13, 19) Svarið er nei. Týrus er dæmd fyrir hroka sinn og dramb. Hún hefur auðgast á kostnað annarra, þeirra á meðal Ísraelsmanna. Á níundu öld f.o.t. talaði Jehóva til Týrusar og fleiri borga fyrir munn Jóels spámanns og sagði: „Júdamenn og Jerúsalembúa hafið þér selt Íónum til þess að flytja þá langt burt frá átthögum þeirra.“ (Jóel 3:11) Getur Guð litið fram hjá því að Týrverjar skuli hafa farið með sáttmálaþjóð hans eins og hverja aðra verslunarvöru?

15. Hvernig bregst Týrus við þegar Jerúsalem fellur fyrir Nebúkadnesar?

15 Týrus er við sama heygarðshornið þótt hundrað ár líði. Hún hlakkar yfir því þegar her Nebúkadnesars í Babýlon eyðir Jerúsalem árið 607 f.o.t.: „Nú er þjóðahliðið [borgarhlið Jerúsalem] brotið upp, hefir opnast að mér, nú vil ég fylla mig, er hún er komin í auðn!“ (Esekíel 26:2) Týrus fagnar og vonast til að njóta góðs af eyðingu Jerúsalem. Hún býst við aukinni verslun þar eð hún þarf ekki lengur að keppa við höfuðborg Júda. Jehóva fyrirlítur sjálfskipaða og sjálfumglaða ‚tignarmenn‘ sem standa með óvinum þjóðar sinnar.

16, 17. Hvað verður um Týrverja þegar borgin fellur? (Sjá neðanmálsathugasemd.)

16 Jesaja heldur áfram að fordæma Týrus: „Flæð yfir land þitt eins og Nílfljótið, Tarsisdóttir, engir flóðgarðar eru framar til. [Jehóva] rétti hönd sína út yfir hafið, skelfdi konungsríki. Hann bauð að gjöreyða varnarvirki Kanaans. Hann sagði: Þú skalt aldrei framar leika af kæti, þú spjallaða mey, Sídondóttir. Statt upp og far yfir til Kýprus; þú skalt ekki heldur finna þar hvíld.“ — Jesaja 23:10-12. *

17 Hvers vegna er Týrus kölluð „Tarsisdóttir“? Kannski vegna þess að veldi Tarsis stendur áfram eftir að Týrus er fallin. * Týrverjum verður tvístrað eins og á sem flæðir yfir bakka sína, brýtur flóðgarðana og flæðir yfir slétturnar umhverfis. Boðskapur Jesaja til ‚Tarsisdóttur‘ undirstrikar hve alvarleg örlög Týrusar eru. Jehóva sjálfur teygir út hönd sína og gefur skipun sem enginn getur breytt.

18. Hvers vegna er Týrus kölluð ‚meydóttir Sídonar‘ og hvernig breytist staða hennar?

18 Jesaja talar einnig um Týrus sem ‚meydóttur Sídonar‘ samkvæmt nákvæmri þýðingu frumtextans, sem gefur til kynna að hún hafi ekki verið tekin fyrr né rænd af erlendu ríki heldur sé hún enn þá ósigruð. (Samanber 2. Konungabók 19:21; Jesaja 47:1; Jeremía 46:11.) Nú verður henni tortímt og sumir af íbúunum flýja til fönikísku nýlendunnar Kýprusar (Kýpur). En þeir finna enga hvíld þar eftir að hafa glatað fjárstyrk sínum.

Kaldear leggja hana í eyði

19, 20. Hverjir eiga að vinna Týrus samkvæmt spádómnum og hvernig rætist hann?

19 Hvaða stjórnmálaafl fullnægir dómi Jehóva yfir Týrus? Jesaja boðar: „Líttu á Kaldealand! þessari þjóð mun ekki fara, sem Assýríumönnum; hún mun gjöra borgina að bústað villudýra, þeir (Kaldear) munu reisa vígturna móti henni, herja á hallir hennar, og leggja hana við velli. Kveinið, þér Tarsisborgar knerir, því yðar varnarvirki er lagt í eyði.“ (Jesaja 23:13, 14, Biblían 1859)  Það eru Kaldear en ekki Assýringar sem vinna Týrus. Þeir reisa vígturna, rífa niður hallirnar sem menn bjuggu í og skilja varnarvirki Tarsis-skipanna eftir í rúst.

20 Skömmu eftir að Jerúsalem fellur gera Týrverjar uppreisn gegn Babýlon og Nebúkadnesar sest um Týrus eins og spáð var. Týrverjar telja sig ósigrandi og veita viðnám. Í umsátrinu verða hermenn Babýlonar ‚hárlausir‘ undan hjálmunum og axlir þeirra „gnúnar“ af því að bera efni í umsátursmannvirkin. (Esekíel 29:18) Umsátrið reynist Nebúkadnesar dýrkeypt. Að vísu eyðir hann meginlandsborgina en hann nær engu herfangi því að fjársjóðir hennar hafa að stærstum hluta verið fluttir út í litla eyju um 800 metra frá landi. Eyjan er utan seilingar því að konungur Kaldea ræður ekki yfir skipaflota. Týrus gefst upp með skilyrðum eftir 13 ára umsátur en stendur þó og bíður þess að fleiri spádómar rætist á henni.

„Mun hún þá aftur fá skækjulaun sín“

21. Með hvaða hætti ‚gleymist‘ Týrus og hversu lengi?

21 Jesaja spáir áfram: „Á þeim dögum skal Týrus gleymast í sjötíu ár, eins og um daga eins konungs.“ (Jesaja 23:15a) Eyborgin Týrus ‚gleymist‘ eftir að Babýloníumenn eyða meginlandsborgina og eins og spádómurinn segir fer lítið fyrir henni í viðskiptaheiminum um daga „eins konungs,“ það er að segja babýlonska heimsveldisins. Jehóva tiltekur fyrir munn Jeremía að hann hafi útvalið Týrverja og fleiri til að drekka af reiðibikar sínum. „Þessar þjóðir skulu þjóna Babelkonungi í sjötíu ár,“ segir hann. (Jeremía 25:8-17, 22, 27) Babýloníumenn ráða reyndar ekki yfir eyborginni Týrus í heil 70 ár því að heimsveldið fellur árið 539 f.o.t. Sjötíu árin tákna greinilega það tímabil þegar völd Babýloníu eru hvað víðtækust — þann tíma þegar konungsættin stærir sig af því að hafa reist veldistól sinn ofar „stjörnum Guðs.“ (Jesaja 14:13) Ýmsar þjóðir lúta yfirráðum þeirra á ýmsum tímum en það tekur enda við lok 70 áranna. Hvað verður þá um Týrus?

22, 23. Hvað verður um Týrus þegar hún losnar undan yfirráðum Babýlonar?

22 Jesaja heldur áfram: „Að liðnum sjötíu árum mun fara fyrir Týrus eins og segir í skækjukvæðinu: Tak gígjuna, far um alla borgina, þú gleymda skækja! Leik fagurlega, syng hátt, svo að eftir þér verði munað! Að liðnum þeim sjötíu árum mun [Jehóva] vitja Týrusar. Mun hún þá aftur fá skækjulaun sín og hórast með öllum konungsríkjum veraldarinnar, þeim sem á jörðinni eru.“ — Jesaja 23:15b-17.

23 Fönikía verður umdæmi Medíu-Persíu eftir fall Babýlonar árið 539 f.o.t. Persneski einvaldurinn Kýrus mikli er umburðarlyndur stjórnandi. Í valdatíð hans tekur Týrus upp fyrri hætti og leggur sig í líma við að endurheimta fyrri orðstír sem heimsmiðstöð verslunar og viðskipta — líkt og gleymd skækja sem hefur glatað viðskiptavinum sínum en reynir að laða að sér nýja með því að fara um borgina með hörpuleik og söng. Tekst Týrus það sem hún ætlar sér? Já, Jehóva veitir henni brautargengi. Eyborgin efnast svo með tíð og tíma að spámaðurinn Sakaría segir undir lok sjöttu aldar f.o.t.: „Týrus reisti sér vígi og hrúgaði saman silfri eins og mold og skíragulli eins og saur á strætum.“ — Sakaría 9:3.

‚Aflafé hennar skal helgað‘

24, 25. (a) Hvernig verður aflafé Týrusar helgað Jehóva? (b) Hvaða spádóm innblæs Jehóva gegn Týrus, þó svo að hún hafi hjálpað fólki hans?

24 Framhald spádómsins er afar eftirtektarvert: „Aflafé hennar og skækjulaun skulu helguð verða [Jehóva]. Það skal ekki verða lagt í sjóð eða geymt, því að þeir, sem búa frammi fyrir augliti [Jehóva], skulu fá aflafé hennar sér til fæðslu og saðningar og sæmilegs klæðnaðar.“ (Jesaja 23:18) Hvernig verður fégróði Týrusar helgaður? Jehóva býr svo um hnútana að hann verði notaður samkvæmt vilja hans — til saðningar og klæðnaðar handa fólki hans. Það atvikast þannig að Týrverjar aðstoða Ísraelsmenn eftir heimkomuna úr útlegðinni í Babýlon með því að láta þeim í té sedrusvið til að endurbyggja musterið, og þeir taka upp viðskipti við Jerúsalem á nýjan leik. — Esrabók 3:7; Nehemíabók 13:16.

25 Engu að síður innblæs Jehóva nýjan spádóm gegn Týrus. Sakaría segir um hina auðugu eyborg: „Sjá, [Jehóva] skal gjöra hana að öreiga og steypa varnarvirki hennar í sjóinn, og sjálf mun hún eydd verða af eldi.“ (Sakaría 9:4) Þetta rætist í júlí árið 332 f.o.t. þegar Alexander mikli tortímir hinni stoltu drottningu hafsins.

Forðastu dramb og efnishyggju

26. Af hverju fordæmir Guð Týrus?

26 Jehóva fyrirlítur dramb og fordæmdi Týrus fyrir það. „Drembileg augu“ eru nefnd fyrst af sjö hlutum sem Jehóva hatar. (Orðskviðirnir 6:16-19) Páll setti ofmetnað og dramb í samband við Satan djöfulinn, og í lýsingu Esekíels á hinni drambsömu Týrusborg er margt sem lýsir Satan sjálfum. (Esekíel 28:13-15; 1. Tímóteusarbréf 3:6) Af hverju stafaði dramb Týrusar? Esekíel ávarpar borgina og segir: „Hjarta þitt varð hrokafullt af auðæfunum.“ (Esekíel 28:5) Borgin var helguð viðskiptum og fjársöfnun og varð óbærilega drambsöm af velgengni sinni. Jehóva sagði „tignarmönnunum í Týrus“ fyrir munn Esekíels: „Hjarta þitt var hrokafullt, svo að þú sagðir: ‚Ég er guð, ég sit í guðasæti!‘“ — Esekíel 28:2.

27, 28. Hverju geta menn orðið að bráð og hvernig lýsti Jesús því í dæmisögu?

27 Bæði þjóðir og einstaklingar geta ofmetið sjálfa sig og orðið efnishyggju að bráð. Jesús sýndi fram á í dæmisögu hve lúmsk þessi snara getur verið. Hann sagði frá ríkum manni sem fékk afbragðsgóða uppskeru af ökrum sínum. Himinlifandi ákvað hann að reisa sér stærri hlöður undir afurðir sínar og sá fram á langa ævi og náðuga daga. En það fór á annan veg því að Guð sagði honum: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?“ Maðurinn dó og hafði engin not af auði sínum. — Lúkas 12:16-20.

28 „Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði,“ sagði Jesús í lokin. (Lúkas 12:21) Það var ekki rangt í sjálfu sér að vera auðugur og engin synd að fá góða uppskeru. Synd mannsins fólst í því að gera þetta tvennt að þungamiðju lífsins. Hann treysti algerlega á auðinn og tók ekki tillit til Jehóva Guðs í framtíðaráformum sínum.

29, 30. Hvernig varar Jakob við því að menn treysti á sjálfa sig?

29 Jakob segir þetta líka tæpitungulaust: „Heyrið, þér sem segið: ‚Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!‘ — Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan. Í stað þess ættuð þér að segja: ‚Ef [Jehóva] vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað.‘“ (Jakobsbréfið 4:13-15) Síðan benti hann á tengsl auðlegðar og drambs og sagði: „Nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont.“ — Jakobsbréfið 4:16.

30 Það er engin synd að stunda viðskipti. Syndin er fólgin í stærilætinu, hrokanum og sjálfstraustinu sem auðurinn getur orsakað. „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi,“ ráðleggur forn orðskviður. Þetta er viturlegt ráð því að fátækt getur gert lífið mjög erfitt fyrir fólk en auður getur komið manni til að ‚afneita Guði og spyrja: „Hver er Jehóva?“‘ — Orðskviðirnir 30:8, 9.

31. Hvaða spurninga ætti kristinn maður að spyrja sig?

31 Við búum í heimi þar sem margir hafa látið græðgi og eigingirni heltaka sig. Kauphyggjan er sterk og mikil áhersla lögð á auð og efni. Kristinn maður ætti því að líta í eigin barm til að fullvissa sig um að hann sé ekki að falla í sömu gildru og verslunarborgin Týrus. Eyðir hann svo miklum tíma og kröftum í að sækjast eftir efnislegum gæðum að hann er raunverulega þræll þeirra? (Matteus 6:24) Öfundar hann þá sem eiga meira en hann eða eitthvað betra? (Galatabréfið 5:26) Finnst honum hann verðskulda meiri athygli eða sérréttindi en aðrir ef hann er efnaður? (Samanber Jakobsbréfið 2:1-9.) ‚Vill hann verða ríkur‘ hvað sem það kostar ef hann er það ekki? (1. Tímóteusarbréf 6:9) Er hann svo upptekinn af viðskiptum að hann gefur sér ósköp lítinn tíma til að þjóna Guði? (2. Tímóteusarbréf 2:4) Er hann svo gagntekinn af því að sækjast eftir efnislegum gæðum að hann hunsar kristin gildi í viðskiptum? — 1. Tímóteusarbréf 6:10.

32. Hverju varaði Jóhannes við og hvernig getum við farið eftir því?

32 Guðsríki ætti alltaf að ganga fyrir í lífi okkar, óháð efnahag. Við megum aldrei gleyma orðum Jóhannesar postula: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15) Við þurfum að vísu að nota efnahagskerfið til að framfleyta okkur, þannig að við ‚notum heiminn‘ að vissu marki en ekki til hins ýtrasta. (1. Korintubréf 7:31; 2. Þessaloníkubréf 3:10) Ef okkur þykir óhóflega vænt um efnislega hluti — það sem í heiminum er — þá elskum við ekki Jehóva. Að eltast við „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti“ getur ekki samrýmst því að gera vilja Guðs. * Og það er með því að gera vilja hans sem við getum hlotið eilíft líf. — 1. Jóhannesarbréf 2:16, 17.

33. Hvernig geta kristnir menn varast gildruna sem Týrus féll í?

33 Týrus féll í þá gildru að sækjast eftir efnislegum hlutum framar öllu öðru. Henni vegnaði vel fjárhagslega, en varð afar drambsöm og var refsað fyrir. Hún er núlifandi mönnum og þjóðum til viðvörunar. Það er margfalt betra að fylgja hvatningu Páls postula þess efnis að „hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:17.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sumir fræðimenn telja að Tarsis sé eyjan Sardinía á vestanverðu Miðjarðarhafi sem var einnig langt frá Týrus.

^ gr. 9 Sjá 15. kafla þessarar bókar, bls. 200-207.

^ gr. 16 „Meydóttir Sídonar,“ samkvæmt nákvæmri þýðingu hebreska frumtextans.

^ gr. 17 Önnur skýring er sú að „Tarsisdóttir“ sé íbúar Tarsis. Heimildarrit segir: „Tarsisbúar eru nú jafnfrjálsir ferða sinna og Níl er hún flæðir yfir bakka sína til allra átta.“ Engu að síður er áherslan lögð á eftirköstin af falli Týrusar.

^ gr. 32 „Oflæti“ er þýðing gríska orðsins alazoníʹa sem er skilgreint „trúlaus og innantómur hroki sem reiðir sig á að jarðneskir hlutir séu stöðugir.“ — The New Thayer’s Greek-English Lexicon.

[Spurningar]

[Kort/myndir á blaðsíðu 256]

(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)

EVRÓPA

SPÁNN (Hugsanlega TARSIS)

MIÐJARÐARHAF

SARDINÍA

KÝPUR

ASÍA

SÍDON

TÝRUS

AFRÍKA

EGYPTALAND

[Mynd á blaðsíðu 250]

Týrus átti að gefast upp fyrir Babýlon en ekki Assýríu.

[Mynd á blaðsíðu 256]

Peningur með mynd af Melkarti, helsta guði Týrusar.

[Mynd á blaðsíðu 256]

Líkan af fönikísku skipi.