Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva úthellir reiði sinni yfir þjóðirnar

Jehóva úthellir reiði sinni yfir þjóðirnar

27. kafli

Jehóva úthellir reiði sinni yfir þjóðirnar

Jesaja 34:1-17

1, 2. (a) Um hvað getum við verið viss í sambandi við refsidóma Jehóva? (b) Hverju áorkar Guð með því að refsa?

 JEHÓVA GUÐ er þolinmóður við trúa þjóna sína og einnig við óvini sína þegar tilgangur hans leyfir. (1. Pétursbréf 3:19, 20; 2. Pétursbréf 3:15) Andstæðingarnir líta stundum á þolinmæði hans sem vanmátt eða viljaleysi. En eins og fram kemur í 34. kafla Jesajabókar krefur Jehóva óvini sína alltaf reikningsskapar fyrr eða síðar. (Sefanía 3:8) Hann leyfði Edóm og fleiri þjóðum að standa gegn Ísraelsmönnum um hríð. En þær fengu makleg málagjöld þegar það var tímabært. (5. Mósebók 32:35) Í fyllingu tímans mun Jehóva einnig refsa öllu og öllum sem ögra drottinvaldi hans í illum heimi nútímans.

2 Meginmarkmið Guðs með refsingunni er að halda drottinvaldi sínu á loft og upphefja nafn sitt. (Sálmur 83:14-19) Réttlátir refsidómar hans sýna og sanna hverjir fulltrúar hans eru, og hann frelsar þá úr erfiðum aðstæðum. Og refsidómarnir eru alltaf í fullkomnu samræmi við réttvísi hans. — Sálmur 58:11, 12.

Þjóðir, hlýðið á

3. Hvaða boð sendir Jehóva þjóðunum?

3 Áður en Jehóva beinir athyglinni að refsingu Edómíta sendir hann öllum þjóðum hátíðleg boð: „Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra! Hlýðið til, þér lýðir! Heyri það jörðin og allt, sem á henni er, jarðarkringlan og allt, sem á henni vex!“ (Jesaja 34:1) Jesaja spámaður hefur margsinnis sagt óguðlegum þjóðum til syndanna og nú býr hann sig undir að draga saman fordæmingu Guðs á þeim. Eiga þessar viðvaranir erindi til okkar?

4. (a) Hvað er þjóðunum sagt að gera samkvæmt Jesaja 34:1? (b) Er Jehóva grimmur Guð úr því að hann dæmir þjóðirnar? (Sjá rammagrein á bls. 363.)

4 Já, drottnari alheims á í deilu við þennan óguðlega heim eins og hann leggur sig. Þess vegna er ‚lýðum‘ og ‚jörð‘ sagt að hlýða á hinn biblíutengda boðskap sem Jehóva hefur látið boða um allan heim. Orðfæri Jesaja minnir á Sálm 24:1 er hann segir að öll jörðin fái að heyra boðskapinn. Spádómurinn hefur ræst á okkar tímum með boðunarstarfi votta Jehóva „allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Þjóðirnar hafa hvorki hlustað né tekið mark á viðvöruninni um yfirvofandi endalok sín. En það hindrar auðvitað ekki að Jehóva uppfylli orð sín.

5, 6. (a) Af hverju krefst Guð reikningsskapar af þjóðunum? (b) Hvernig ‚renna fjöllin sundur af blóði þeirra‘?

5 Spádómurinn dregur upp dökka mynd af framtíð óguðlegra þjóða og hún stingur mjög í stúf við bjarta von þjóna Guðs sem lýst er síðar. (Jesaja 35:1-10) Spámaðurinn segir: „[Jehóva] er reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her. Hann hefir vígt þær dauðanum og ofurselt þær til slátrunar. Vegnum mönnum þeirra er burt kastað, og hrævadaunn stígur upp af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra.“ — Jesaja 34:2, 3.

6 Hér er athyglinni beint að blóðsekt þjóðanna, og þar bera þjóðir kristna heimsins mesta sök. Jörðin hefur flotið í blóði fallinna manna í tveim heimsstyrjöldum og mörgum fleiri stríðum sem þær hafa háð. Hinn mikli skapari og lífgjafi getur með réttu krafist refsingar fyrir allar þessar blóðsúthellingar. (Sálmur 36:10) Lög hans eru ótvíræð: „Þá skalt þú láta líf fyrir líf.“ (2. Mósebók 21:23-25; 1. Mósebók 9:4-6) Hann ætlar að láta blóð þjóðanna renna eins og þetta lagaákvæði heimtar —sem verður þeirra bani. Líkin munu liggja ógrafin um víðan völl og fnykurinn fyllir loftið. Þetta er smánarlegur dauðdagi. (Jeremía 25:33) Svo mikið blóð þarf að greiða í endurgjald að það er eins og fjöllin renni sundur og bráðni í því. (Sefanía 1:17) Herafla þjóðanna er gereytt og stjórnirnar falla en þeim er stundum líkt við fjöll í spádómum Biblíunnar. — Daníel 2:35, 44, 45; Opinberunarbókin 17:9.

7. Hvað er „himinninn“ og hvað er „himinsins her“?

7 Enn og aftur notar Jesaja lifandi myndmál og segir: „Allur himinsins her hjaðnar, og himinninn vefst saman eins og bókfell. Allur hans her hrynur niður, eins og laufið fellur af vínviði og visin blöð af fíkjutré.“ (Jesaja 34:4) „Allur himinsins her“ er ekki hinar bókstaflegu stjörnur og reikistjörnur. Fimmta og sjötta vers tala um aftökusverð sem er löðrandi í blóði þessa ‚himins,‘ svo að hann hlýtur að tákna eitthvað á mannlegum vettvangi. (1. Korintubréf 15:50) Stjórnir mannkyns eru upphafnar svo að þeim er stundum líkt við himna sem drottna yfir mannlegu samfélagi á jörðinni. (Rómverjabréfið 13:1-4) „Himinsins her“ táknar því sameinaða heri þessara stjórnvalda mannkyns.

8. Hvernig er hinn táknræni himinn „eins og bókfell“ og hvað verður um „her“ hans?

8 ‚Herinn‘ á að ‚hjaðna‘ og leysast sundur. (Sálmur 102:27; Jesaja 51:6) Himinninn yfir höfði okkar er sveigður að sjá eins og ævaforn bókrolla. Skrifað var á innri hlið bókrollunnar sem var svo vafin saman og lögð til hliðar að lestri loknum. „Himinninn vefst saman eins og bókfell“ í þeim skilningi að stjórnir manna líða undir lok. Þær farast í Harmagedón þegar síðasta kaflanum í sögu þeirra lýkur. Hinir glæsilegu ‚herir‘ falla líkt og lauf af vínviði og „visin blöð af fíkjutré.“ Tími þeirra er liðinn. — Samanber Opinberunarbókina 6:12-14.

Endurgjaldsdagur

9. (a) Hver er uppruni Edómíta og hvernig þróaðist samband þeirra og Ísraelsmanna? (b) Hver er dómur Jehóva yfir Edóm?

9 Spádómurinn beinist nú að einni þjóð sem uppi var á dögum Jesaja. Það eru Edómítar, afkomendur Esaús (Edóms) sem seldi Jakobi tvíburabróður sínum frumburðarréttinn fyrir brauð og baunarétt. (1. Mósebók 25:24-34) Esaú fékk mikið hatur á bróður sínum fyrir að hafa af sér frumburðarréttinn. Edómítar og Ísraelsmenn urðu óvinaþjóðir þótt komnar væru af tvíburabræðrum. Fjandskapur Edómíta gegn þjóð Guðs hefur kallað reiði hans yfir þá svo að hann segir: „Sverð mitt hefir drukkið sig drukkið á himnum, nú lýstur því niður til dóms yfir Edóm, þá þjóð, sem ég hefi vígt dauðanum. Sverð [Jehóva] er alblóðugt, löðrandi af feiti, af blóði lamba og kjarnhafra, af nýrnamör úr hrútum, því að [Jehóva] heldur fórnarveislu í Bosra og slátrun mikla í Edómlandi.“ — Jesaja 34:5, 6.

10. (a) Hverjum steypir Jehóva niður þegar hann mundar sverð sitt „á himnum“? (b) Hvaða hugarfar sýna Edómítar þegar Babýloníumenn ráðast á Júda?

10 Edómítar búa á fjallasvæði hátt yfir sjávarmáli. (Jeremía 49:16; Óbadía 8, 9, 19, 21) En náttúrlegar varnir þeirra koma að engu gagni þegar Jehóva mundar dómssverð sitt „á himnum“ og steypir stjórnendum þeirra úr hinni háu stöðu. Edómítar eru vel herbúnir og sveitir þeirra þramma um háa fjallgarða til að verja landið. En þeir eru himinlifandi að sjá Júdaríkið falla fyrir Babýloníumönnum og hvetja sigurvegarana til dáða. (Sálmur 137:7) Þeir elta jafnvel uppi flóttamenn Gyðinga og framselja þá Babýloníumönnum. (Óbadía 11-14) Þeir ætla sér að setjast að í hinu yfirgefna landi Ísraelsmanna og tala digurbarkalega gegn Jehóva. — Esekíel 35:10-15.

11. Hvernig ætlar Jehóva að endurgjalda Edómítum sviksemina?

11 Lítur Jehóva fram hjá þessum ódrengskap Edómíta? Nei, hann spáir um þá: „Villinautin hníga með þeim, og ungneytin með uxunum. Land þeirra flýtur í blóði, og jarðvegurinn er löðrandi af feiti.“ (Jesaja 34:7) Jehóva talar um hina stóru og hina smáu sem villinaut og ungneyti, sem lömb og kjarnhafra. Land þessarar blóðseku þjóðar flýtur í blóði hennar sjálfrar er hún fellur fyrir aftökusverði Jehóva.

12. (a) Hverja notar Jehóva til að refsa Edómítum? (b) Hverju spáir Óbadía um Edóm?

12 Guð ætlar að refsa Edómítum fyrir illsku þeirra í garð Síonar en svo er jarðneskt skipulag hans kallað. Spádómurinn segir: „Nú er hefndardagur [Jehóva], endurgjaldsárið, til að reka réttar Síonar.“ (Jesaja 34:8) Jehóva fullnægir réttlátri refsingu yfir Edómítum skömmu eftir að Jerúsalem er eytt árið 607 f.o.t. (Jeremía 25:15-17, 21) Ekkert getur bjargað þeim þegar Babýloníuher ræðst á þá undir forystu Nebúkadnesars konungs. Þetta er ‚endurgjaldsár‘ fjallaþjóðarinnar. Jehóva segir fyrir munn spámannsins Óbadía: „Sökum ofríkis þess, er þú hefir sýnt bróður þínum Jakob, skal smán hylja þig, og þú skalt að eilífu upprættur verða. . . . Eins og þú hefir öðrum gjört, eins skal þér gjört verða; gjörðir þínar skulu þér í koll koma.“ — Óbadía 10, 15; Esekíel 25:12-14.

Dapurleg framtíð kristna heimsins

13. Hver líkist Edómítum og hvers vegna?

13 Á okkar tímum er uppi veldi sem á sér svipaða sögu og Edóm — kristni heimurinn sem hefur undir forystu klerkastéttarinnar gengið fram fyrir skjöldu í því að lasta og ofsækja þjóna Jehóva. Kristni heimurinn hefur upphafið sig fjallhátt á vettvangi heimsmálanna. Hann helgar sér háa stöðu í heimskerfi mannanna og kirkjudeildir hans eru ráðandi afl innan Babýlonar hinnar miklu. En Jehóva hefur ákveðið ‚endurgjaldsár‘ handa þessum Edóm nútímans vegna svívirðilegrar meðferðar á vottum hans.

14, 15. (a) Hvað verður bæði um Edómsland og kristna heiminn? (b) Hvað er átt við og hvað ekki þegar talað er um brennandi bik og ævarandi reyk?

14 Þess vegna skulum við hugsa bæði um Edóm og kristna heiminn þegar við höldum áfram yfirferðinni yfir þennan kafla í spádómi Jesaja: „Lækirnir skulu verða að biki og jarðvegurinn að brennisteini, landið skal verða að brennandi biki. Það skal eigi slokkna nætur né daga, reykurinn af því skal upp stíga um aldur og ævi.“ (Jesaja 34:9, 10a) Edómland verður svo skrælnað að það er engu líkara en að jarðvegurinn sé úr brennisteini og lækirnir fullir af biki en ekki vatni. Síðan er kveikt í öllu saman. — Samanber Opinberunarbókina 17:16.

15 Sumir hafa túlkað eldinn, bikið og brennisteininn sem svo að það sé til logandi helvíti. En Edóm er ekki varpað í einhvern goðsögulegan vítiseld þar sem hann brennur að eilífu, heldur er honum eytt svo að hann hverfur af sjónarsviðinu rétt eins og hann brynni upp til agna í eldi og brennisteini. Eins og spádómurinn ber með sér í framhaldinu eru það ekki eilífar kvalir sem af hljótast heldur ‚auðn og aleyðing.‘ (Jesaja 34:11, 12) Reykurinn ‚stígur upp um aldur og ævi‘ sem lýsir því mætavel. Þegar hús brennur til grunna stígur upp reykur af öskunni um tíma eftir að logarnir slokkna, svo að sjónarvottar sjá ummerki eldsvoðans. Þar eð kristnir menn draga lærdóm af eyðingu Edóms má segja að reykurinn stígi enn upp af brunarústum landsins.

16, 17. Hvað verður um Edóm og hversu lengi varir það?

16 Spádómur Jesaja boðar að villidýr komi í stað mannfólksins í Edóm en það er merki þess að landið leggist í eyði: „Það skal liggja í eyði frá einni kynslóð til annarrar, enginn maður skal þar um fara að eilífu. Pelíkanar og stjörnuhegrar skulu fá það til eignar, náttuglur og hrafnar búa þar. Hann mun draga yfir það mælivað auðnarinnar og mælilóð aleyðingarinnar. Tignarmenn landsins kveðja þar eigi til konungskosningar, og allir höfðingjarnir verða að engu. Í höllunum munu þyrnar upp vaxa og klungrar og þistlar í víggirtum borgunum. Það mun verða sjakalabæli og strútsfuglagerði. Urðarkettir og sjakalar skulu koma þar saman og skógartröll mæla sér þar mót. Næturgrýlan ein skal hvílast þar og finna sér þar hæli. Stökkormurinn skal búa sér þar hreiður og klekja þar út.“ — Jesaja 34:10b-15. *

17 Já, Edóm verður óbyggð auðn, heimkynni villidýra, fugla og snáka. Það skal liggja í eyði „að eilífu“ eins og 10. versið segir og aldrei endurbyggt. — Óbadía 18.

Orð Jehóva rætist örugglega

18, 19. Hvað er ‚bók Jehóva‘ og hvað er kristna heiminum fyrirbúið í henni?

18 Þetta veit ekki á gott fyrir kristna heiminn sem Edóm táknaði! Hann hefur verið hatrammur óvinur Jehóva Guðs og ofsótt votta hans grimmilega. Og það leikur enginn vafi á því að Jehóva uppfyllir orð sín. Hver sem kynnir sér málið sér að uppfyllingin er eins og spegilmynd spádómsins — rétt eins og öll dýrin í eyðilandinu Edóm eiga sér maka og ekkert „saknar annars.“ Jesaja ávarpar þá sem eiga eftir að kynna sér spádóma Biblíunnar: „Leitið í bók [Jehóva] og lesið: Ekkert af þessum dýrum vantar, ekkert þeirra saknar annars. Því að munnur [Jehóva] hefir svo um boðið, og það er andi hans, sem hefir stefnt þeim saman. Hann hefir sjálfur kastað hlutum fyrir þau, og hönd hans hefir skipt landinu milli þeirra með mælivað. Þau munu eiga það um aldur og ævi og búa þar frá einni kynslóð til annarrar.“ — Jesaja 34:16, 17.

19 Yfirvofandi eyðing kristna heimsins er boðuð í ‚bók Jehóva.‘ Hún tíundar í smáatriðum hvernig hann gerir upp reikningana við svarna óvini sína sem kúga fólk hans blygðunarlaust. Það sem skrifað var um Edóm fortíðar rættist, og það styrkir þá sannfæringu okkar að sá þáttur spádómsins rætist einnig sem á við nútímahliðstæðu hans, kristna heiminn. ‚Mælivaður‘ Jehóva, lögmál hans, tryggir að þetta andlega dauðvona skipulag verði óbyggð auðn.

20. Hvað verður um kristna heiminn líkt og Edóm fortíðar?

20 Kristni heimurinn gerir allt hvað hann getur til að friða pólitíska vini sína en án árangurs. Að sögn 17. og 18. kafla Opinberunarbókarinnar leggur alvaldur Guð Jehóva þeim í brjóst að snúast gegn Babýlon hinni miklu, þar á meðal kristna heiminum. Þar með losnar jörðin við falskristni. Ástand kristna heimsins verður eins og lýst er í 34. kafla Jesajabókar. Hann er horfinn af sjónarsviðinu þegar úrslitastríðið „á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ er háð. (Opinberunarbókin 16:14) Kristni heimurinn hverfur algerlega, „að eilífu“ líkt og Edóm fortíðar.

[Neðanmáls]

^ gr. 16 Spádómurinn var búinn að rætast á dögum Malakís. (Malakí 1:3) Hann greinir frá því að Edómítar hafi vonast til að byggja land sitt að nýju en vilji Jehóva var á aðra lund og síðar settist önnur þjóð, Nabatear, að í landinu. — Malakí 1:4.

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 363]

Reiður Guð?

Margir halda að Hebresku ritningarnar lýsi Jehóva sem grimmum og reiðigjörnum Guði og taka þá meðal annars mið af Jesaja 34:2-7. Er það rétt mynd?

Nei, þó svo að Guð gefi reiði sinni stundum útrás er hún alltaf réttlætanleg. Hún stjórnast alltaf af meginreglum en ekki taumlausum tilfinningum. Og hún er alltaf sprottin af rétti skaparans til óskiptrar hollustu og stefnufastri sannleiksvörn hans. Reiði hans stjórnast bæði af ást á réttlætinu og þeim sem ástunda réttlæti. Jehóva sér alla þætti hvers máls og hefur algera og ótakmarkaða þekkingu á aðstæðum. (Hebreabréfið 4:13) Hann les mannshjartað, sér merki um vanþekkingu, vanrækslu eða vísvitandi synd og er óhlutdrægur. — 5. Mósebók 10:17, 18; 1. Samúelsbók 16:7; Postulasagan 10:34, 35.

En Jehóva Guð er seinn til reiði, „þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:6) Hann miskunnar þeim sem óttast hann og ástunda réttæti, vegna þess að hann veit um arfgengan ófullkomleika mannsins. Núna er miskunn hans byggð á fórn Jesú. (Sálmur 103:13, 14) Þegar það er tímabært lætur hann af reiði sinni í garð þeirra sem viðurkenna synd sína, iðrast og þjóna honum. (Jesaja 12:1) Jehóva Guð er ekki reiður að eðlisfari heldur glaður; hann er ekki fálátur heldur viðmótsgóður, og hann er friðsamur og rór gagnvart þeim sem nálgast hann á réttan hátt. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Hann er gerólíkur grimmum og miskunnarlausum falsguðum heiðingjanna eins og þeim er lýst í máli og myndum.

[Kort á blaðsíðu 362]

(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)

Hafið mikla

Damaskus

Sídon

Týrus

ÍSRAEL

Dan

Galíleuvatn

Jórdan

Megiddó

Ramót í Gíleað

Samaría

FILISTEA

JÚDA

Jerúsalem

Líbna

Lakís

Beerseba

Kades Barnea

Saltisjór

AMMÓN

Rabba

MÓAB

Kír Hareset

EDÓM

Bosra

Teman

[Mynd á blaðsíðu 359]

Jörðin er blóði drifin af völdum kristna heimsins.

[Mynd á blaðsíðu 360]

„Himinninn vefst saman eins og bókfell.“