Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva Guð er í heilögu musteri sínu

Jehóva Guð er í heilögu musteri sínu

8. kafli

Jehóva Guð er í heilögu musteri sínu

Jesaja 6:1-13

1, 2. (a) Hvenær sér spámaðurinn Jesaja musterissýnina? (b) Hvers vegna glataði Ússía konungur hylli Jehóva?

 „ÁRIÐ sem Ússía konungur andaðist sá ég [Jehóva] sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.“ (Jesaja 6:1) Þannig hefst 6. kafli Jesajabókar. Þetta er árið 778 f.o.t.

2 Fimmtíu og tveggja ára stjórnartíð Ússía Júdakonungs var sérlega farsæl lengst af. Konungur „gjörði það, sem rétt var í augum [Jehóva]“ og naut stuðnings hans í hernaði, við byggingarframkvæmdir og umbætur í landbúnaði. En velgengnin steig honum til höfuðs. Um síðir varð hann dramblátur „og braut á móti [Jehóva], Guði sínum, er hann gekk inn í musteri [Jehóva] til þess að brenna reykelsi.“ Ússía var holdsveikur til dauðadags vegna hrokafullrar breytni sinnar og reiði í garð prestanna sem ávítuðu hann. (2. Kroníkubók 26:3-22) Það var um svipað leyti sem Jesaja hóf spámannsstarf sitt.

3. (a) Sér Jesaja Jehóva Guð í raun og veru? Gefðu nánari skýringu. (b) Hvað sér Jesaja og hver er ástæðan?

3 Þess er ekki getið hvar Jesaja er staddur þegar hann sér sýnina. En það er greinilega í sýn en ekki bókstaflega sem hann sér hinn alvalda því að „enginn hefur nokkurn tíma séð Guð.“ (Jóhannes 1:18; 2. Mósebók 33:20) Það er engu að síður ógnvekjandi og mikilfengleg sjón að sjá skaparann, Jehóva, í sýn. Drottnari alheims situr á háum og gnæfandi veldistóli er táknar hlutverk hans sem eilífur konungur, dómari og uppspretta réttmæts stjórnvalds. Langur skikkjuslóði hans bylgjast og fyllir musterið. Jesaja er kallaður til spámannsþjónustu sem á að mikla drottinvald Jehóva og réttlæti. Því til undirbúnings fær hann að sjá sýn um heilagleika Guðs.

4. (a) Af hverju hljóta lýsingar Biblíunnar á Jehóva í sýnum að vera táknrænar? (b) Hvað má sjá af sýn Jesaja um Jehóva?

4 Jesaja segir ekkert um útlit Jehóva í þessari sýn, ólíkt þeim sýnum sem Esekíel, Daníel og Jóhannes greina frá. Og lýsingar þeirra á því sem þeir sjá á himnum eru ólíkar. (Esekíel 1:26-28; Daníel 7:9, 10; Opinberunarbókin 4:2, 3) En það þarf að hafa í huga tilgang og eðli þessara sýna. Þær eru ekki bókstaflegar lýsingar á nærveru Jehóva því að augu manna geta ekki séð það sem andlegt er og mannshugurinn er of takmarkaður til að geta skilið andaheiminn. Sýnirnar lýsa á mannamáli þeim upplýsingum sem koma þarf á framfæri. (Samanber Opinberunarbókina 1:1.) Í sýn Jesaja er ekki nauðsynlegt að lýsa útliti Guðs. Það er tilgangur hennar að upplýsa spámanninn um að Jehóva sé í heilögu musteri sínu, að hann sé heilagur og dómar hans hreinir.

Serafarnir

5. (a) Hverjir eru serafarnir og hvað merkir orðið? (b) Hvers vegna hylja serafarnir andlit og fætur?

5 Hlustaðu á! Jesaja heldur áfram: „Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.“ (Jesaja 6:2) Sjötti kafli Jesajabókar er eini staðurinn í Biblíunni þar sem serafar eru nefndir. Þetta eru augljóslega englar í mjög hárri sérréttinda- og virðingarstöðu í þjónustu Jehóva því að þeir standa kringum himneskt hásæti hans. Ólíkt hinum drambsama Ússía konungi gegna þeir stöðu sinni af fullri auðmýkt og hógværð. Þar sem þeir eru í návist hins alvalda á himnum hylja þeir andlit sitt með einu vængjapari, og sökum lotningar fyrir helgi staðarins hylja þeir fæturna með öðru vængjapari. Serafarnir láta mjög lítið á sér bera í nálægð alheimsdrottins til að draga ekki athygli frá dýrð hans. Orðið „serafar“ merkir „hinir eldlegu“ eða „hinir brennandi“ sem bendir til að ljómi stafi af þeim, en samt sem áður hylja þeir andlit sitt fyrir hinum enn meiri ljóma og dýrð Jehóva.

6. Hver er staða serafanna gagnvart Jehóva?

6 Serafarnir nota þriðja vængjaparið til að fljúga og eflaust einnig til að svífa eða ‚standa‘ á sínum stað eða „yfir honum“ samkvæmt bókstaflegri merkingu frummálsins. (Samanber 5. Mósebók 31:15, NW.) Prófessor Franz Delitzsch segir um stöðu þeirra: „Serafarnir hafa ekki gnæft yfir höfuð honum sem sat í hásætinu heldur svifið yfir skikkju hans sem fyllti salinn.“ (Commentary on the Old Testament) Þetta virðist rökrétt. Þeir eru ‚yfir,‘ ekki eins og þeir séu hærra settir en Jehóva heldur hlýðnir og reiðubúnir til þjónustu.

7. (a) Hvaða verkefni hafa serafarnir með höndum? (b) Hvers vegna lýsa serafarnir þrívegis yfir heilagleika Guðs?

7 Hlustaðu á serafana: „Þeir kölluðu hver til annars og sögðu: ‚Heilagur, heilagur, heilagur er [Jehóva] allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.‘“ (Jesaja 6:3) Þeir hafa það verkefni að sjá um að heilagleiki Jehóva sé boðaður og dýrð hans viðurkennd um alheim allan, meðal annars á jörðinni. Dýrð hans birtist í öllu sem hann hefur skapað og bráðlega munu allir jarðarbúar sjá hana. (4. Mósebók 14:21; Sálmur 19:2-4; Habakkuk 2:14) Þrítekningin „heilagur, heilagur, heilagur“ er engin vísbending um þrenningu heldur þreföld áhersla á heilagleika Guðs. (Samanber Opinberunarbókina 4:8.) Heilagleiki Jehóva er óviðjafnanlegur.

8. Hvað gerist við yfirlýsingu serafanna?

8 Þess er ekki getið hve margir serafarnir eru en vera má að þeir séu í hópum nálægt hásætinu. Í hljómfögrum söng lýsa þeir hver af öðrum yfir dýrð og heilagleika Guðs. Hver eru áhrifin? Hlýðum á áframhaldandi lýsingu Jesaja: „Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.“ (Jesaja 6:4) Biblían notar oft reyk eða ský sem sýnilegt tákn um nærveru Guðs. (2. Mósebók 19:18; 40:34, 35; 1. Konungabók 8:10, 11; Opinberunarbókin 15:5-8) Það táknar dýrð sem við mennirnir fáum ekki að nálgast.

Óverðugur en hreinsaður

9. (a) Hvaða áhrif hefur sýnin á Jesaja? (b)  Hvaða munur er á Jesaja og Ússía konungi?

9 Þessi sýn um hásæti Jehóva hefur djúpstæð áhrif á Jesaja. „Þá sagði ég: ‚Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, [Jehóva] allsherjar.‘“ (Jesaja 6:5) Hvílíkur munur á Jesaja og Ússía konungi! Ússía sölsaði undir sig hlutverk hinnar smurðu prestastéttar og ruddist inn í hið heilaga í musterinu. Þótt hann sæi gullljósastikurnar, gullna reykelsisaltarið og „borðið, sem skoðunarbrauðin [„nærverubrauðin,“ NW, neðanmáls] lágu á,“ sá hann ekki auglit Jehóva og fékk ekkert sérstakt umboð frá honum. (1. Konungabók 7:48-50) En Jesaja spámaður hunsar hvorki prestastéttina né fer í leyfisleysi inn í musterið. Samt sem áður sér hann Jehóva í sýn í heilögu musteri hans og er sýnd sú virðing að fá tilskipun um ákveðið verkefni beint frá honum. Serafarnir dirfast ekki að horfa á Drottin musterisins í hásæti hans, en Jesaja fær að sjá „konunginn, [Jehóva] allsherjar,“ í sýn!

10. Hvers vegna verður Jesaja óttasleginn við sýnina?

10 Jesaja finnst hann ákaflega óhreinn þegar hann sér hvað syndsemi sín stingur í stúf við heilagleika Guðs. Hann verður hræddur og ímyndar sér að hann hljóti að deyja. (2. Mósebók 33:20) Hann heyrir serafana lofa Guð með hreinum vörum en varir sjálfs hans eru óhreinar og auk þess flekkaðar vegna þess að varir fólksins, sem hann býr meðal og heyrir tala, eru óhreinar. Jehóva er heilagur og þjónar hans verða að vera það líka. (1. Pétursbréf 1:15, 16) Þótt það sé búið að velja Jesaja sem talsmann Guðs finnur hann sárlega fyrir því að hann er syndugur og hefur ekki þær hreinu varir sem hæfa talsmanni hins dýrlega og heilaga konungs. Hvaða viðbrögð fær hann frá himnum?

11. (a) Hvað gerir einn af seröfunum og hvað táknar það? (b) Hvernig geta orð serafans við Jesaja hjálpað okkur ef okkur finnst við óverðug þess að þjóna Guði?

11 Serafarnir hrekja ekki Jesaja burt úr návist Jehóva heldur hjálpa honum, þó að lágt settur sé. Frásagan segir: „Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng, og hann snart munn minn með kolinu og sagði: ‚Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína.‘“ (Jesaja 6:6, 7) Í táknrænum skilningi er eldur hreinsandi. Serafinn snertir varir Jesaja með glóandi kolamola úr eldinum heilaga á altarinu og fullvissar hann um að það sé friðþægt fyrir syndir hans að því marki að hann geti hlotið velþóknun Guðs og starfsumboð frá honum. Þetta er hughreystandi fyrir okkur. Við erum líka syndug og óverðug þess að nálgast Guð. En við erum endurleyst vegna lausnarfórnar Jesú og getum hlotið velþóknun Guðs og nálgast hann í bæn. — 2. Korintubréf 5:18, 21; 1. Jóhannesarbréf 4:10.

12. Hvaða altari sér Jesaja og hvað gerir eldur?

12 Að ‚altarið‘ skuli nefnt þarna minnir okkur aftur á að þetta er sýn. (Samanber Opinberunarbókina 8:3; 9:13.) Tvö ölturu voru í musterinu í Jerúsalem. Rétt framan við fortjald hins allrahelgasta var lítið reykelsisaltari, og fyrir framan innganginn að helgidóminum var stóra fórnaraltarið þar sem logaði stöðugt eldur. (3. Mósebók 6:12, 13; 16:12, 13) En þessi jarðnesku ölturu voru eftirmyndir þess sem meira var. (Hebreabréfið 8:5; 9:23; 10:5-10) Það var eldur af himni sem eyddi brennifórninni á altarinu þegar Salómon konungur vígði musterið. (2. Kroníkubók 7:1-3) Og núna er það eldur frá hinu sanna altari á himnum sem hreinsar varir Jesaja.

13. Hvaða spurningu ber Jehóva fram og hver er meðtalinn þegar hann segir ‚vér‘?

13 Hlustum með Jesaja: „Þá heyrði ég raust [Jehóva]. Hann sagði: ‚Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?‘ Og ég sagði: ‚Hér er ég, send þú mig!‘“ (Jesaja 6:8) Jehóva ætlar greinilega að fá svar frá Jesaja því að enginn annar mennskur spámaður sést í sýninni. Þetta er ótvírætt boð til hans um að vera sendiboði Jehóva. En hvers vegna spyr Jehóva: „Hver vill vera erindreki vor?“ Með því að skipta úr eintölunni „ég“ í fleirtöluna ‚vér‘ telur hann að minnsta kost einn annan með. Hver var það? Var það ekki eingetinn sonur hans sem síðar varð maðurinn Jesús Kristur? Jú, það var sami sonurinn og hann sagði við: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd.“ (1. Mósebók 1:26; Orðskviðirnir 8:30, 31) Eingetinn sonur Jehóva er með honum í hirðsölunum á himnum. — Jóhannes 1:14.

14. Hvernig bregst Jesaja við boði Jehóva og hvaða fyrirmynd er það fyrir okkur?

14 Jesaja hikar ekki. Hver svo sem boðskapurinn verður svarar hann þegar í stað: „Hér er ég, send þú mig!“ Hann spyr ekki hvaða ávinning hann hafi af því að taka verkefnið að sér. Fúsleiki hans er góð fyrirmynd fyrir alla þjóna Guðs nú á tímum sem hafa fengið það verkefni að prédika ‚fagnaðarerindið um ríkið um alla heimsbyggðina.‘ (Matteus 24:14) Líkt og Jesaja halda þeir ótrauðir áfram verki sínu „öllum þjóðum til vitnisburðar,“ þrátt fyrir áhugaleysi fjöldans. Og þeir ganga fram með trúartrausti eins og Jesaja af því að þeir vita að starfsumboð þeirra er frá hinum hæsta.

Starfsumboð Jesaja

15, 16. (a) Hvað á Jesaja að segja „þessu fólki“ og hver verða viðbrögðin? (b) Eru viðbrögð fólksins Jesaja að kenna? Gefðu nánari skýringu.

15 Jehóva útlistar nú hvað Jesaja eigi að segja og hvaða viðbrögð hann fái: „Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða! Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast.“ (Jesaja 6:9, 10) Merkir þetta að Jesaja eigi að vera ónærgætinn, vekja andúð Gyðinganna og gera þá andvíga Jehóva? Síður en svo. Þetta eru samlandar hans og honum þykir vænt um þá. En orð Jehóva gefa til kynna hvernig fólkið bregst við boðskap hans, og skiptir þá engu hve trúfastlega Jesaja gerir verki sínu skil.

16 Sökin er fólksins megin. Jesaja mun tala „grandgæfilega“ og margendurtekið til fólksins en það mun hvorki taka við boðskapnum né skilja. Flestir þrjóskast og daufheyrast við, rétt eins og þeir séu staurblindir og heyrnarlausir. Með því að fara aftur og aftur til ‚þessa fólks‘ sýnir Jesaja fram á að það vill ekki skilja. Það sýnir að það lokar huganum og hjartanu fyrir boðskap Jesaja sem er boðskapur Guðs til þess. Þannig er fólk líka núna. Mjög margir neita að hlusta þegar vottar Jehóva prédika fagnaðarerindið um hið komandi ríki Guðs.

17. Hvað á Jesaja við með spurningunni: „Hversu lengi?“

17 Jesaja er áhyggjufullur: „Ég sagði: ‚Hversu lengi, [Jehóva]?‘ Hann svaraði: ‚Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt.‘ [Jehóva] mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu.“ (Jesaja 6:11, 12) Þegar Jesaja spyr: „Hversu lengi,“ er hann ekki að spyrja hve lengi hann þurfi að halda áfram að prédika fyrir daufum eyrum, heldur hefur hann áhyggjur af fólkinu og er að spyrja hve lengi það verði svona illa á sig komið andlega og hve lengi nafn Jehóva verði smánað á jörðinni. (Sjá Sálm 74:9-11.) Hversu lengi á þetta fáránlega ástand þá að vara?

18. Hversu lengi mun hið slæma andlega ástand fólksins vara, og fær Jesaja að lifa það að sjá spádóminn rætast að fullu?

18 Svar Jehóva sýnir því miður að hið slæma andlega ástand fólksins varir áfram uns afleiðingar óhlýðninnar við hann koma að fullu fram eins og lýst er í sáttmála hans. (3. Mósebók 26:21-33; 5. Mósebók 28:49-68) Þjóðin mun líða undir lok, fólkið verður flutt í útlegð og landið leggst í eyði. Jesaja lifir það ekki að sjá babýlonska herinn eyða Jerúsalem og musterið árið 607 f.o.t. þótt hann spái í meira en 40 ár, allt fram á stjórnartíð Hiskía, sonarsonarsonar Ússía konungs. En hann sinnir verkefni sínu trúfastur allt til dauðadags, meira en 100 árum áður en ógæfan dynur yfir þjóðina.

19. Hvað fullvissar Guð Jesaja um, þó svo að þjóðin verði felld eins og tré?

19 Ástandið er ekki með öllu vonlaust þó svo að ‚gereyðingu‘ Júda verði ekki afstýrt. (2. Konungabók 25:1-26) Jehóva fullvissar Jesaja: „Þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur. En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.“ (Jesaja 6:13) Já, „tíundi hluti . . . heilagt sæði,“ verður eftir, líkt og rótarstúfur af stóru tré sem er fellt. Eflaust hughreystir þetta loforð Jesaja — það munu finnast heilagar leifar meðal fólks hans. Þótt þjóðin sé eydd margsinnis eins og stórt tré, sem fellt er til eldiviðar, stendur eftir mikilvægur rótarstúfur af trénu sem táknar Ísrael. Það verður sæði eða afkvæmi sem er heilagt í augum Jehóva. Um síðir skýtur rótarstúfurinn nýjum frjóöngum og vex aftur. — Samanber Jobsbók 14:7-9; Daníel 4:26.

20. Hvernig rættist síðasti hluti spádómsins upphaflega?

20 Rætist spádómurinn? Já, sjötíu árum eftir að Júda lagðist í eyði sneru guðhræddar leifar heim úr útlegðinni í Babýlon. Þær endurbyggðu musterið og borgina og endurreistu sanna tilbeiðslu í landinu. Með því að leyfa Gyðingum að endurheimta landið, sem hann hafði gefið þeim, gat Jehóva látið þennan spádóm Jesaja uppfyllast öðru sinni. Hvernig var sú uppfylling? — Esrabók 1:1-4.

Aðrar uppfyllingar

21-23. (a) Á hverjum rættist spádómur Jesaja á fyrstu öld og hvernig? (b) Hvert var hið ‚heilaga sæði‘ á fyrstu öld og hvernig varðveittist það?

21 Spámannsstarf Jesaja fyrirmyndaði það starf sem Messías, Jesús Kristur, átti eftir að vinna um 800 árum síðar. (Jesaja 8:18; 61:1, 2; Lúkas 4:16-21; Hebreabréfið 2:13, 14) Þótt Jesús væri meiri en Jesaja var hann jafnfús til að láta himneskan föður sinn senda sig. Hann sagði: „Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn.“ — Hebreabréfið 10:5-9; Sálmur 40:7-9.

22 Jesús innti trúfastur af hendi það starf sem honum var falið, líkt og Jesaja hafði gert, og fékk sömu viðbrögð og hann. Gyðingar á dögum Jesú voru ekkert fúsari til að taka við boðskapnum en þeir sem spámaðurinn Jesaja prédikaði fyrir. (Jesaja 1:4) Líkingar og dæmisögur voru snar þáttur í kennslu Jesú. Lærisveinarnir spurðu hann þess vegna: „Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?“ Hann svaraði: „Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá. Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.“ — Matteus 13:10, 11, 13-15; Markús 4:10-12; Lúkas 8:9, 10.

23 Með tilvitnun sinni í Jesaja sýndi Jesús fram á að spádómurinn væri að uppfyllast þá. Á heildina litið var hjartalag fólksins svipað og Gyðinganna á dögum Jesaja. Það lokaði augum og eyrum fyrir boðskap hans og því var einnig tortímt þegar rómverskar hersveitir undir stjórn Títusar hershöfðingja settust um Jerúsalem árið 70 og jöfnuðu borgina og musterið við jörðu. (Matteus 23:35-38; 24:1, 2) En sumir höfðu hlustað á Jesú og gerst lærisveinar hans, og hann kallaði þá ‚sæla.‘ (Matteus 13:16-23, 51) Hann hafði sagt þeim að þegar þeir sæju „herfylkingar umkringja Jerúsalem“ skyldu þeir ‚flýja til fjalla.‘ (Lúkas 21:20-22) Þannig bjargaðist „heilagt sæði“ sem hafði iðkað trú. Það hafði verið gert að andlegri þjóð, „Ísrael Guðs.“ * — Galatabréfið 6:16.

24. Hvernig heimfærði Páll spádóm Jesaja og hvað gefur það til kynna?

24 Páll postuli sat í stofufangelsi í Róm um árið 60 er hann kallaði á fund sinn ‚helstu menn Gyðinga‘ og fleiri og „vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki.“ Þegar margir þeirra vildu ekki taka við boðskap hans benti hann á að það væri uppfylling á spádómi Jesaja. (Postulasagan 28:17-27; Jesaja 6:9, 10) Lærisveinar Jesú unnu því sambærilegt starf og Jesaja.

25. Hvað hafa nútímavottar Guðs gert sér ljóst og hvernig bregðast þeir við?

25 Vottar Jehóva nú á tímum gera sér einnig grein fyrir að Jehóva Guð er í heilögu musteri sínu. (Malakí 3:1) Þeir segja líkt og Jesaja: „Hér er ég, send þú mig!“ Kostgæfnir vara þeir við yfirvofandi endi þessa illa heimskerfis. En eins og Jesús gaf til kynna vilja fáir opna augun og eyrun til að sjá, heyra og bjargast. (Matteus 7:13, 14) Þeir sem hneigja hjarta sitt til að hlusta og „læknast“ eru sannarlega sælir. — Jesaja 6:8, 10.

[Neðanmáls]

^ gr. 23 Árið 66 höfðu rómverskar hersveitir undir forystu Cestíusar Gallusar sest um Jerúsalem til að bæla niður uppreisn Gyðinga og náð að komast allt að musterisveggnum. En svo hörfuðu Rómverjar þannig að lærisveinar Jesú náðu að flýja til fjallanna í Pereu áður en sveitirnar sneru aftur árið 70.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 94]

„Hér er ég, send þú mig!“

[Mynd á blaðsíðu 97]

„Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar.“