Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva Guð miskunnar leifum

Jehóva Guð miskunnar leifum

6. kafli

Jehóva Guð miskunnar leifum

Jesaja 4:2-6

1, 2. Hvað spáir Jesaja að komi yfir Júda og Jerúsalem?

 OFSAVEÐUR skellur á þéttbýlt svæði. Stormur, úrhelli og flóð ganga yfir breitt belti og valda manntjóni og þungum búsifjum. En stormurinn gengur brátt yfir, kyrrð kemst á og þeir sem eftir lifa geta hafið endurreisn og uppbyggingu.

2 Spámaðurinn Jesaja spáir að eitthvað svipað komi yfir Júda og Jerúsalem. Dómur Guðs færist nær eins og óveðursský sem hrannast upp á himni — og það er ærin ástæða til. Sekt þjóðarinnar er mikil. Bæði höfðingjar og almenningur hafa fyllt landið ranglæti og blóðsúthellingum. Fyrir munn Jesaja afhjúpar Jehóva sekt Júda og varar við að hann fullnægi dómi yfir þessari syndugu þjóð. (Jesaja 3:25) Í kjölfar stormsins á Júda að liggja algerlega í eyði. Þessi vitneskja hlýtur að hryggja Jesaja.

3. Hvaða góðar fréttir er að finna í innblásnum boðskap Jesaja 4:2-6?

3 En það er góðar fréttir að færa! Réttlátur dómur Jehóva líður hjá eins og stormur en leifar lifa af. Miskunn hans mildar dóminn yfir Júda. Innblásinn boðskapur Jesaja í 4. kafla versi 2-6 á við þennan gleðitíma. Það er eins og sólin brjótist fram gegnum skýin. Í stað dómsins, sem lýst er í Jesaja 2:6–4:1, tekur við fagurlega endurnýjað land og þjóð.

4. Hvaða ástæða er til að fjalla um spádóm Jesaja um endurreistar leifar?

4 Spádómur Jesaja um endurreisn leifanna og öryggi þeirra eftir það uppfyllist einnig núna „á hinum síðustu dögum.“ (Jesaja 2:2-4) Við skulum fjalla um þennan tímabæra boðskap, því að hann hefur bæði spádómlega þýðingu og fræðir okkur um miskunn Jehóva og möguleika okkar hvers og eins að njóta hennar.

‚Kvistur Jehóva‘

5, 6. (a) Hvernig lýsir Jesaja friðartímanum sem fylgir óveðrinu framundan? (b) Hvað merkir orðið „kvistur“ og hvað þýðir það fyrir Júdaland?

5 Jesaja verður hlýlegri í máli þegar hann horfir til friðartímans eftir að óveðrinu slotar. Hann skrifar: „Á þeim degi mun kvistur [Jehóva] prýðilegur og veglegur verða, og ávöxtur landsins hár og fagur fyrir þá af Ísrael, sem undan komast.“ — Jesaja 4:2.

6 Jesaja er að tala um endurreisn. Hebreska nafnorðið, sem þýtt er „kvistur,“ merkir ‚það sem sprettur upp, sproti, grein.‘ Það er tengt hagsæld, vexti og blessun frá Jehóva. Jesaja veitir þannig von — eyðingin framundan er ekki endanleg. Júdaland var frjósamt áður og mun bera ríkulegan ávöxt á nýjan leik með blessun Jehóva. * — 3. Mósebók 26:3-5.

7. Hvernig verður kvistur Jehóva „prýðilegur og veglegur“?

7 Jesaja notar lifandi mál til að lýsa hinni mikilfenglegu umbreytingu sem framundan er. Kvistur Jehóva verður „prýðilegur og veglegur.“ Orðið „prýðilegur“ minnir á fegurð fyrirheitna landsins þegar Jehóva gaf Ísrael það öldum áður. Slík var fegurðin að það var kallað „prýði [„gimsteinn,“ New American Bible] meðal landanna.“ (Esekíel 20:6) Orð Jesaja fullvissa þannig fólkið um að Júdaland endurheimti fyrri prýði sína og fegurð. Það verður eins og gimsteinn á jörðinni.

8. Hverjir verða á sjónarsviðinu til að njóta fegurðar landsins eftir endurreisnina og hvernig lýsir Jesaja tilfinningum þeirra?

8 En hverjir verða á sjónarsviðinu til að njóta fegurðar landsins eftir endurreisnina? ‚Þeir af Ísrael sem undan komast,‘ segir Jesaja. Sumir komast undan auðmýkjandi eyðingunni sem spáð hefur verið. (Jesaja 3:25, 26) Leifar hinna eftirlifandi snúa aftur til Júda og taka þátt í endurreisninni. Endurreist land ‚þeirra sem undan komast‘ og snúa aftur heim gefur ríkulegan ávöxt sem sagður er „hár og fagur.“ (Jesaja 4:2) Niðurlæging eyðingarinnar víkur fyrir nýju stolti.

9. (a) Hvernig uppfylltust orð Jesaja árið 537 f.o.t.? (b) Hvernig má segja að í hópi ‚þeirra sem undan komust‘ séu einhverjir sem fæddust í útlegðinni? (Sjá neðanmálsathugasemd.)

9 Eins og Jesaja hafði spáð skall óveður dómsins á árið 607 f.o.t. þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem og fjöldi Ísraelsmanna týndi lífi. Sumir komust lífs af og voru fluttir í útlegð til Babýlonar, en hefði miskunn Jehóva ekki komið til hefðu alls engir lifað af. (Nehemíabók 9:31) Að síðustu lá Júda algerlega í eyði. (2. Kroníkubók 36:17-21) En í miskunn sinni leyfði Guð ‚þeim sem undan komust‘ að snúa heim til Júda til að endurreisa sanna tilbeiðslu árið 537 f.o.t. * (Esrabók 1:1-4; 2:1) Einlæg iðrun þessara heimkomnu útlaga er fallega orðuð í Sálmi 137 sem var líklega ortur í útlegðinni eða skömmu eftir hana. Þegar þeir voru komnir heim til Júda tóku þeir að plægja og sá. Hugsaðu þér hvernig þeim hlýtur að hafa verið innanbrjósts þegar þeir sáu að Guð blessaði erfiði þeirra og lét landið blómgast eins og frjósaman ‚Edens garð.‘ — Esekíel 36:34-36.

10, 11. (a) Hvernig voru Biblíunemendurnir í ánauð ‚Babýlonar hinnar miklu‘ snemma á 20. öldinni? (b) Hvernig blessaði Jehóva leifar andlegra Ísraelsmanna?

10 Hiðstæð endurreisn hefur átt sér stað á okkar tímum. Snemma á 20. öldinni voru Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma, hnepptir í andlega ánauð ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heimsveldis falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 17:5) Þótt Biblíunemendurnir hefðu hafnað fjölmörgum falstrúarkenningum vottaði enn fyrir babýlonskum hugmyndum og siðum hjá þeim. Sumir voru bókstaflega hnepptir í fangelsi að undirlagi klerka. Hið andlega land þeirra lá í eyði, það er að segja trúarlegt eða andlegt óðal þeirra.

11 En vorið 1919 miskunnaði Jehóva þessum leifum andlegra Ísraelsmanna. (Galatabréfið 6:16) Hann sá að þær iðruðust og þráðu að tilbiðja hann í sannleika, svo að hann sá til þess að þær væru leystar úr bókstaflegu fangelsi og einnig úr andlegri ánauð. ‚Þeir sem undan komust‘ endurheimtu hina andlegu landareign, sem Guð hafði gefið þeim, og hann lét hana blómgast og spretta ríkulega. Þessi andlega landareign er fögur ásýndum og hefur dregið til sín milljónir guðhræddra manna að auki sem hafa sameinast leifunum í sannri tilbeiðslu.

12. Hvernig mikla orð Jesaja miskunn Jehóva við fólk sitt?

12 Orð Jesaja mikla miskunn Guðs við fólk sitt. Þótt Ísraelsmenn hafi sem þjóð snúist gegn Jehóva hafði hann miskunnað iðrandi leifum þeirra. Við skulum láta þá vitneskju hughreysta okkur að menn geti snúið aftur vongóðir til Jehóva þótt þeir hafi syndgað alvarlega. Iðrandi mönnum þarf ekki að finnast að miskunn hans geti ekki náð til sín því að hann hafnar ekki iðrunarfullu hjarta. (Sálmur 51:19) Biblían fullvissar okkur: „Náðugur og miskunnsamur er [Jehóva], þolinmóður og mjög gæskuríkur. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann.“ (Sálmur 103:8, 13) Þessi miskunnsami Guð verðskuldar allt okkar lof.

Jehóva kallar leifarnar heilagar

13. Hvernig lýsir Jesaja 4:3 leifunum sem Jehóva ætlaði að miskunna?

13 Við höfum verið kynnt fyrir leifunum sem Jehóva ætlaði að miskunna, en nú lýsir Jesaja þeim nánar. Hann skrifar: „Þeir sem af lifa í Síon og eftir verða í Jerúsalem, skulu kallast heilagir, allir þeir, sem skráðir eru meðal hinna lifandi í Jerúsalem.“ — Jesaja 4:3.

14. Hverjir eru það „sem af lifa“ og „eftir verða,“ og af hverju sýnir Jehóva þeim miskunn?

14 Hverjir eru það „sem af lifa“ og „eftir verða“? Það eru þeir sem undan komast og lýst er í versinu á undan, gyðingaútlagarnir sem leyft verður að snúa heim til Júda. Núna bendir Jesaja á hvers vegna Jehóva sýnir þeim miskunn — það er vegna þess að hann ‚kallar þá heilaga.‘ Heilagleiki er „trúarlegur hreinleiki; helgi.“ Að vera heilagur merkir að vera hreinn í orði og verki, að standast kröfur Jehóva um hvað sé rétt og viðeigandi. Jehóva miskunnar þeim sem hann ‚kallar heilaga‘ og leyfir þeim að snúa aftur til ‚borgarinnar helgu,‘ Jerúsalem. — Nehemíabók 11:1.

15. (a) Á hvaða venju Gyðinga minna orðin „skráðir . . . meðal hinna lifandi í Jerúsalem“? (b) Hvaða alvarleg viðvörun er fólgin í orðum Jesaja?

15 Verða þessar trúföstu leifar þar áfram? Jesaja lofar að þær verði ‚skráðar meðal hinna lifandi í Jerúsalem.‘ Þetta minnir á þá venju Gyðinga að halda nákvæmar skrár um fjölskyldur og ættkvíslir Ísraels. (Nehemíabók 7:5) Að vera í nafnaskrá merkti að maðurinn væri lifandi því að nafnið var fellt niður þegar hann dó. Annars staðar í Biblíunni lesum við um táknræna skrá eða bók með nöfnum þeirra sem Jehóva veitir líf. En það er með skilyrðum sem nöfn eru skráð í þessa bók því að Jehóva getur líka ‚afmáð‘ nöfn. (2. Mósebók 32:32, 33; Sálmur 69:29) Orð Jesaja bera því með sér alvarlega viðvörun — hinir heimkomnu geta haldið áfram að lifa í endurreistu landi sínu því aðeins að þeir séu áfram heilagir í augum Guðs.

16. (a) Hvers krafðist Jehóva af þeim sem hann leyfði að snúa heim til Júda árið 537 f.o.t.? (b) Af hverju má segja að miskunn Jehóva með hinum smurðu leifum og hinum ‚öðrum sauðum‘ hafi ekki verið til einskis?

16 Leifarnar, sem sneru heim árið 537 f.o.t., gerðu það af hreinu tilefni. Þær ætluðu sér að endurreisa sanna tilbeiðslu. Enginn sem var mengaður af heiðnum trúariðkunum eða þeirri óhreinu hegðun sem Jesaja hafði varað svo kröftuglega við átti rétt á að snúa heim. (Jesaja 1:15-17) Þeir einir gátu snúið heim til Júda sem voru heilagir í augum Jehóva. (Jesaja 35:8) Hinar smurðu leifar hafa á líkan hátt gert sitt ítrasta til að vera heilagar í augum Guðs síðan þær losnuðu úr andlegri ánauð árið 1919. Hið sama er að segja um hina „aðra sauði“ sem eru milljónir talsins og eiga von um eilíft líf á jörðinni. (Jóhannes 10:16) Þeir hafa losað sig við babýlonskar kenningar og siði. Hver og einn kappkostar að halda háa siðferðisstaðla Guðs. (1. Pétursbréf 1:14-16) Jehóva hefur ekki miskunnað þeim til einskis.

17. Nöfn hverra skráir Jehóva í „lífsins bók“ og hverju ættum við öll að vera staðráðin í?

17 Þú manst að Jehóva tók eftir hvaða Ísraelsmenn voru heilagir og ‚skráði nöfn þeirra meðal hinna lifandi.‘ Hann veitir líka athygli viðleitni okkar núna til að vera hreinir í huga og á líkama þegar við ‚bjóðum fram sjálfa okkur að lifandi, heilagri og honum þóknanlegri fórn.‘ (Rómverjabréfið 12:1) Allir sem ástunda slíkt eru skráðir í „lífsins bók“ sem er táknræn minnisbók Guðs með nöfnum þeirra sem eiga í vændum eilíft líf, annaðhvort á himni eða jörð. (Filippíbréfið 4:3; Malakí 3:16) Við skulum því gera okkar ítrasta til að varðveita okkur heilög í augum Guðs og halda þannig nöfnum okkar í þessari dýrmætu „bók.“ — Opinberunarbókin 3:5.

Loforð um ástríka umönnun

18, 19. Hvaða hreinsun kemur Jehóva til leiðar samkvæmt Jesaja 4:4, 5 og hvernig er hún gerð?

18 Jesaja bendir nú á hvernig íbúar hins endurreista lands verða heilagir og á blessunina sem bíður þeirra. Hann segir: „Þá er [Jehóva] hefir afþvegið óhreinindi Síonardætra og hreinsað blóð Jerúsalemborgar af henni með refsidómsanda og hreinsunaranda, mun hann skapa ský um daga og reyk og skínandi eldsloga um nætur yfir öllum helgidóminum á Síonarfjalli og samkomunum þar, því að yfir öllu því, sem dýrlegt er, skal verndarhlíf vera.“ — Jesaja 4:4, 5.

19 Áður hafði Jesaja ávítað ‚Síonardætur‘ sem földu siðspillingu sína undir glysmiklu skrauti og skartgripum. Hann afhjúpaði einnig blóðsekt fólksins almennt og hvatti það til að hreinsa sig. (Jesaja 1:15, 16; 3:16-23) En núna horfir hann fram til þess tíma þegar Guð hefur sjálfur „afþvegið óhreinindi“ manna eða siðspillingu og ‚hreinsað blóðið‘ af þeim. (Jesaja 4:4) Hvernig hreinsar hann fólkið? Með „refsidómsanda“ og með „hreinsunaranda.“ Í væntanlegri eyðingu Jerúsalem og útlegðinni í Babýlon hellir Guð dómi sínum og brennandi reiði yfir óhreina þjóð. Leifarnar, sem lifa þessar hörmungar af og snúa heim, hafa verið auðmýktar og hreinsaðar. Þess vegna kallar Jehóva þær heilagar og miskunnar þeim. — Samanber Malakí 3:2, 3.

20. (a) Á hvað minna orðin „ský,“ ‚reykur‘ og ‚skínandi eldslogi‘? (b) Af hverju þurfa hinir hreinsuðu útlagar ekkert að óttast?

20 Fyrir munn Jesaja lofar Jehóva að annast þessar hreinsuðu leifar. Orðin „ský,“ ‚reykur‘ og ‚skínandi eldslogi‘ minna á hvernig hann annaðist Ísraelsmenn eftir burtförina af Egyptalandi. ‚Eld- og skýstólpi‘ verndaði þá gegn Egyptunum, sem eltu þá, og leiddi þá í eyðimörkinni. (2. Mósebók 13:21, 22; 14:19, 20, 24) Þegar Jehóva opinberaði sig á Sínaífjalli var fjallið „allt í einum reyk.“ (2. Mósebók 19:18) Hinir hreinsuðu útlagar þurfa ekki að óttast því að hann verndar þá. Hann verður með þeim hvort sem þeir safnast saman á heimilum sínum eða á helgum samkomum.

21, 22. (a) Til hvers var oft reistur laufskáli eða skýli? (b) Hvaða framtíðarsýn eiga hinar hreinsuðu leifar?

21 Jesaja lýkur lýsingu sinni á vernd Guðs með samlíkingu úr daglega lífinu. Hann skrifar: „Laufskáli skal vera þar til forsælu fyrir hitanum á daginn og til hælis og skýlis fyrir steypiregni og skúrum.“ (Jesaja 4:6) Oft var gerður laufskáli eða skýli í víngarði eða á akri til að veita þarft skjól fyrir brennandi sólinni um þurrkatímann og fyrir stormum og kulda um regntímann. — Samanber Jónas 4:5.

22 Þegar ofsóknir brenna á hinum hreinsuðu leifum eða andstöðustormar bylja á þeim veitir Jehóva þeim vernd, öryggi og skjól. (Sálmur 91:1, 2; 121:5) Þeir eiga því fagra framtíðarsýn: Ef þeir snúa baki við óhreinni trú og siðum Babýlonar, ganga gegnum hreinsunardóm Jehóva og leitast við að varðveita sig heilaga eru þeir öruggir eins og í ‚laufskála‘ verndar hans.

23. Hvers vegna hefur Jehóva blessað hinar smurðu leifar og félaga þeirra?

23 Þú tekur eftir að blessunin tekur við af hreinsuninni. Sú hefur verið raunin á okkar dögum. Árið 1919 gengust hinar smurðu leifar auðmjúkar undir hreinsun og Jehóva ‚afþvoði‘ óhreinleika þeirra. Síðan hefur „mikill múgur“ annarra sauða látið hann hreinsa sig. (Opinberunarbókin 7:9) Eftir þessa hreinsun hafa leifarnar og félagar þeirra hlotið þá blessun að komast undir verndarvæng Jehóva. Hann kemur ekki með kraftaverki í veg fyrir að ofsóknarhiti og andstöðustormar dynji á þeim, en hann verndar þá rétt eins og hann reisi yfir þá ‚laufskála til forsælu og til skýlis fyrir steypiregni.‘ Hvernig?

24. Af hverju er ljóst að Jehóva hefur blessað skipulag þjóna sinna?

24 Sumar af voldugustu ríkisstjórnum mannkynssögunnar hafa bannað boðunarstarf votta Jehóva eða reynt að útrýma þeim. En vottarnir hafa verið staðfastir og haldið ótrauðir áfram að prédika. Af hverju hafa voldugar þjóðir ekki megnað að stöðva starf þessa tiltölulega fámenna og að því er virðist varnarlausa hóps? Af því að Jehóva hefur verndað hreina þjóna sína og reist yfir þá ‚laufskála‘ sem enginn maður getur brotið niður.

25. Hvað þýðir vernd Jehóva fyrir okkur sem einstaklinga?

25 Hvað um okkur sem einstaklinga? Vernd Jehóva hefur ekki í för með sér að lífið í þessu heimskerfi sé laust við öll vandamál. Margir trúfastir kristnir menn verða fyrir miklu andstreymi, svo sem fátækt, náttúruhamförum, styrjöldum, sjúkdómum og jafnvel dauða. Í þess háttar mótlæti skulum við aldrei gleyma að Guð er með okkur. Hann verndar okkur andlega og veitir okkur það sem við þurfum til að standast prófraunirnar, jafnvel „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7) Við erum óhult í návist hans og höfum ekkert að óttast. Meðan við gerum okkar besta til að vera heilög í augum Guðs getur ekkert gert okkur ‚viðskila við kærleika hans.‘ — Rómverjabréfið 8:38, 39.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sumir fræðimenn telja að ‚kvistur Jehóva‘ sé óbein tilvísun til Messíasar sem átti ekki að koma fram fyrr en eftir endurreisn Jerúsalem. Í hinum arameísku Targúm-ritum er þetta umorðað þannig: „Messías [Kristur] Jehóva.“ Það er athyglisvert að Jeremía notar sama hebreska nafnorðið (tseʹmach) síðar þegar hann talar um Messías sem „réttan kvist,“ uppvakinn fyrir Davíð. — Jeremía 23:5; 33:15.

^ gr. 9 Í hópi ‚þeirra sem undan komust‘ voru einhverjir sem fæðst höfðu í útlegðinni. Það mátti segja að þeir hefðu ‚komist undan‘ því að þeir hefðu aldrei fæðst ef forfeður þeirra hefðu ekki lifað eyðinguna af. — Esrabók 9:13-15; samanber Hebreabréfið 7:9, 10.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 63]

Dómur Guðs kemur eins og óveður yfir Júda.