Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva auðmýkir drambláta borg

Jehóva auðmýkir drambláta borg

14. kafli

Jehóva auðmýkir drambláta borg

Jesaja 13:1–14:23

1. Hve langt fram í tímann horfir Jesaja núna?

 SPÁDÓMSBÓK Jesaja var skrifuð á áttundu öld f.o.t. meðan innrás Assýringa í fyrirheitna landið stóð yfir. Eins og fram hefur komið fyrr í þessari bók segir Jesaja atburðarásina fyrir með ótrúlegri nákvæmni. En Jesajabók horfir fram yfir yfirráðatíma Assýringa. Hún boðar heimkomu sáttmálaþjóðar Jehóva úr útlegð víða um lönd, þeirra á meðal Babýloníu. (Jesaja 11:11) Í 13. kafla Jesajabókar er að finna stórmerkan spádóm um það hvernig þeim opnast leiðin heim. Hann hefst með orðunum: „Spádómur um Babýlon, er vitraðist Jesaja Amozsyni.“ — Jesaja 13:1.

‚Ég vil lægja hroka‘

2. (a) Hvernig kemst Hiskía í tengsl við Babýlon? (b) Hvaða „merki“ verður reist?

2 Júda og Babýlon tengjast á dögum Jesaja. Hiskía konungur veikist alvarlega en nær sér aftur. Sendimenn koma frá Babýlon og óska honum til hamingju með batann, en undir niðri er tilgangurinn líklega sá að tryggja stuðning hans í stríði gegn Assýringum. Hiskía gerir þá skyssu að sýna þeim alla fjársjóði sína. Jesaja segir honum þá að allur þessi auður verði fluttur til Babýlonar eftir dauða hans. (Jesaja 39:1-7) Það rætist árið 607 f.o.t. þegar Jerúsalem er eytt og þjóðin flutt í útlegð. En útvalin þjóð Guðs verður ekki í Babýlon um alla framtíð. Jehóva boðar hvernig hann opni henni leiðina heim. Fyrst segir hann: „Reisið merki á skóglausri hæð! Kallið hárri röddu til þeirra! Bendið þeim með hendinni, að þeir fari inn um hlið harðstjóranna!“ (Jesaja 13:2) ‚Merkið‘ er rísandi heimsveldi sem steypir Babýlon af stalli. Það verður reist „á skóglausri hæð“ þar sem það blasir við langt að. Nýja heimsveldið er kallað til að ráðast á Babýlon og það mun þröngva sér inn um „hlið harðstjóranna,“ hinnar miklu borgar, og vinna hana.

3. (a) Hverjir eru ‚hinir vígðu‘ sem Jehóva býður út? (b) Í hvaða skilningi eru heiðnir herir ‚vígðir‘?

3 Jehóva heldur áfram: „Ég er sá, sem boðið hefi út vígðum liðsmönnum mínum og kallað á kappa mína til að framkvæma reiðidóm minn, þessa hreyknu og hróðugu menn mína. Heyr þysinn á fjöllunum, eins og af mannmergð, heyr gnýinn af hinum samansöfnuðu þjóðum. [Jehóva] allsherjar er að kanna liðið.“ (Jesaja 13:3, 4) Hverjir eru þessir ‚vígðu liðsmenn‘ sem eiga að auðmýkja hina dramblátu Babýlon? Þetta eru ‚samansafnaðar þjóðir‘ eða sameinaðir þjóðherir sem ráðast á Babýlon frá fjarlægu fjallasvæði. „Þeir koma frá fjarlægu landi, frá himins enda.“ (Jesaja 13:5) Í hvaða skilningi eru þeir vígðir? Þeir eru auðvitað ekki heilagir því að þetta eru heiðnir herir sem hafa engan áhuga á að þjóna Jehóva. En Hebresku ritningarnar nota orðið „vígður“ í merkingunni „að vera frátekinn handa Guði.“ Jehóva getur vígt heri þjóðanna og nýtt sér metnaðargirnd þeirra til að gefa reiði sinni útrás. Þannig notaði hann Assýríuher og þannig ætlar hann að nota Babýloníuher. (Jesaja 10:5; Jeremía 25:9) Og síðan notar hann aðrar þjóðir til að refsa Babýlon.

4, 5. (a) Hvað boðar Jehóva um Babýlon? (b) Hvað þurfa árásarmennirnir að fást við?

4 Babýlon er ekki enn orðin ráðandi heimsveldi. En þegar Jehóva birtir spádóm sinn fyrir munn Jesaja sér hann fyrir þann tíma þegar hún verður það og boðar fall hennar. Hann segir: „Kveinið, því að dagur [Jehóva] er nálægur; hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ (Jesaja 13:6) Babýlon hættir að gorta og kveinar harmþrungin vegna ‚dags Jehóva,‘ dagsins þegar hann fullnægir dómi yfir henni.

5 En hvernig er hægt að eyða Babýlon? Borgin virðist örugg þegar tími Jehóva rennur upp. Innrásarherirnir þurfa fyrst að yfirstíga þá vörn sem Efratfljótið veitir borginni, en fljótið rennur gegnum hana miðja og er veitt í síki umhverfis hana, auk þess að sjá henni fyrir drykkjarvatni. Þá eru það hinir miklu og tvöföldu múrar Babýlonar sem virðast óvinnandi. Og borgin er vel búin vistum. Bókin Daily Bible Illustrations segir að Nabónídus, síðasti konungur Babýlonar, hafi „lagt ofurkapp á að búa borgina vistum, og talið var að þær nægðu borgarbúum í 20 ár.“

6. Hvað gerist óvænt þegar hin boðaða árás á Babýlon á sér stað?

6 En útlitið getur blekkt. Jesaja segir: „Þess vegna verða allar hendur lémagna og sérhvert mannshjarta bráðnar. Þeir skelfast, harmkvæli og þrautir gagntaka þá, þeir hafa hríðir eins og jóðsjúk kona. Angistarfullir stara þeir hver á annan, andlit þeirra eru sem eldslogi.“ (Jesaja 13:7, 8) Við innrásina snýst ró borgarbúa skyndilega og óvænt í sára kvöl eins og hjá konu sem er að ala barn. Hjörtu þeirra bráðna af ótta. Hendur þeirra eru lémagna svo að þeir koma engum vörnum við. Andlit þeirra eru „sem eldslogi“ af ótta og angist. Þeir stara undrandi hver á annan og skilja ekki hvernig þessi mikla borg getur fallið.

7. Hvaða ‚dagur Jehóva‘ kemur og hvaða afleiðingar hefur það fyrir Babýlon?

7 En hún mun falla. Á ‚degi Jehóva‘ þarf Babýlon að standa honum reikningsskap gerða sinna og það verður sársaukafullt. Dómarinn mikli gefur reiði sinni lausan tauminn og fullnægir verðskulduðum dómi yfir syndugum Babýlonbúum. Spádómurinn segir: „Sjá, dagur [Jehóva] kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.“ (Jesaja 13:9) Horfurnar eru ekki bjartar fyrir Babýlon. Það er engu líkara en sól, tungl og stjörnur hætti að skína. „Stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína, sólin er myrk í uppgöngu sinni og tunglið ber eigi birtu sína.“ — Jesaja 13:10.

8. Hvers vegna fyrirskipar Jehóva að Babýlon skuli falla?

8 Hvers vegna hlýtur hin drambláta borg þessi örlög? Jehóva segir: „Ég vil hegna jarðríki fyrir illsku þess og hinum óguðlegu fyrir misgjörðir þeirra, ég vil niðurkefja ofdramb hinna ríkilátu og lægja hroka ofbeldismannanna.“ (Jesaja 13:11) Með því að úthella reiði sinni er Jehóva að refsa Babýlon fyrir grimmd hennar gagnvart fólki hans. Allt landið þarf að líða fyrir illsku Babýloníumanna. Þessir stærilátu ofbeldismenn skulu ekki ögra Jehóva framar!

9. Hvað bíður Babýlonar á dómsdegi Jehóva?

9 Jehóva segir: „Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara en Ófír-gull.“ (Jesaja 13:12) Borgin verður að óbyggðri auðn. Jehóva heldur áfram: „Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift [Jehóva] allsherjar og á degi hans brennandi reiði.“ (Jesaja 13:13) ‚Himinn‘ Babýlonar er guða- og gyðjufjöld hennar sem hristist og skelfur en getur ekki hjálpað borginni á neyðarstund. „Jörðin“ er heimsveldið Babýlon sem hrærist úr stað og er nú eitt af horfnum heimsveldum sögunnar. „Eins og fældar skógargeitur og eins og smalalaus hjörð skulu þeir hverfa aftur, hver til sinnar þjóðar, og flýja hver heim í sitt land.“ (Jesaja 13:14) Allir erlendir stuðningsmenn Babýlonar snúa baki við henni og flýja í von um að geta stofnað til bandalaga við hið sigursæla heimsveldi. Babýlon þarf nú að líða kvalir sigraðrar borgar, kvalir sem hún hefur lagt á svo marga aðra meðan veldi hennar stóð sem hæst: „Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla. Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.“ — Jesaja 13:15, 16.

Eyðingarverkfæri Guðs

10. Hverja notar Jehóva til að vinna Babýlon?

10 Hvaða ríki notar Jehóva til að vinna Babýlon? Hann svarar því meira en 200 árum fyrir fram: „Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið. Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna. Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldea, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru.“ (Jesaja 13:17-19) Hin mikla Babýlon skal falla og verkfærið, sem Jehóva notar til þess, eru hersveitir frá fjalllandinu Medíu. * Að síðustu leggst hún algerlega í eyði eins og borgirnar Sódóma og Gómorra sem voru illræmdar fyrir siðleysi. — 1. Mósebók 13:13; 19:13, 24.

11, 12. (a) Hvernig verður Medía heimsveldi? (b) Hvað er óvenjulegt við heri Meda eins og fram kemur í spádóminum?

11 Á dögum Jesaja eru bæði Medía og Babýlon undir oki Assýringa. Um einni öld síðar, árið 632 f.o.t., bindast Medía og Babýlon samtökum og vinna Níníve, höfuðborg Assýríu. Þar með er leiðin greið fyrir Babýlon að verða ráðandi heimsveldi. En ekki býður Babýloníumenn í grun að Medar eigi eftir að leggja heimsveldið undir sig eftir eina öld. Enginn nema Jehóva getur spáð svona djarflega.

12 Er Jehóva bendir á eyðingarverkfærið, sem hann hefur valið, segir hann að hersveitir Medíu ‚meti einskis silfrið og langi ekki í gullið‘ sem er í hæsta máta óvenjulegt af stríðsstæltum hermönnum að vera! Biblíufræðingurinn Albert Barnes bendir á að það sé „óneitanlega sjaldgæft að vonin um ránsfeng hafi ekki knúið innrásarheri.“ Uppfylla Medar orð Jehóva um þetta? Já, líttu á þessa glefsu úr bókinni The Bible-Work eftir J. Glentworth Butler: „Medar, og þó sérstaklega Persar, lögðu minna upp úr gulli en sigurvinningum og frægð, ólíkt flestum öðrum þjóðum sem háð hafa stríð.“ * Þegar þetta er haft í huga er ekkert undarlegt að Kýrus Persakonungur skuli skila Ísraelsmönnum þúsundum gull- og silfurkera þegar hann veitir þeim heimfararleyfi úr útlegðinni í Babýlon, en Nebúkadnesar hafði rænt þessum gersemum úr musterinu í Jerúsalem. — Esrabók 1:7-11.

13, 14. (a) Hvað girnast hermenn Meda og Persa annað en ránsfeng? (b) Hvernig yfirvinnur Kýrus hinar nafntoguðu varnir Babýlonar?

13 En hermenn Meda og Persa skortir ekki metnað þótt þeir leggi lítið upp úr ránsfeng. Þeir ætla sér að vera fremstir allra þjóða heims og Jehóva gerir þá áfjáða í ‚eyðingu.‘ (Jesaja 13:6) Þeir eru því staðráðnir í að vinna Babýlon og ganga fram með málmboga í hendi sem bæði er hægt að nota til að skjóta örvum og til að rota og drepa óvinahermennina, lífsafkvæmi Babýlonar.

14 Kýrus, sem er foringi medísk-persneska hersins, lætur varnarvirki Babýlonar ekki aftra sér. Nóttina 5.-6. október árið 539 f.o.t. lætur hann veita Efrat úr farvegi hennar. Vatnsborðið lækkar svo að innrásarmennirnir geta vaðið eftir árfarveginum í lærisdjúpu vatninu og laumast óséðir inn í borgina. Þeir koma íbúum Babýlonar að óvörum og borgin fellur. (Daníel 5:30) Jehóva Guð innblæs Jesaja að spá þessum atburðum svo að ekki leiki vafi á að hann stjórnar framvindu mála.

15. Hvaða framtíð bíður Babýlonar?

15 Verður eyðing Babýlonar alger? Hlustaðu á yfirlýsingu Jehóva: „Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn. Urðarkettir skulu liggja þar og húsin fyllast af uglum. Strútsfuglar skulu halda þar til og skógartröll stökkva þar um. Sjakalar skulu kallast á í höllunum og úlfar í bílífis-sölunum. Tími hennar nálægist og dagar hennar munu eigi undan dragast.“ (Jesaja 13:20-22) Alger eyðing bíður borgarinnar.

16. Hvaða traust vekur núverandi ástand Babýlonar?

16 Þetta gerðist ekki strax árið 539 f.o.t. en nú er það deginum ljósara að allt hefur ræst sem Jesaja spáði um Babýlon. Hún „er og hefur um aldaraðir verið vettvangur algerrar auðnar og er einn rústahaugur,“ segir biblíuskýrandi. „Þegar maður sér þetta rifjast óhjákvæmilega upp hve nákvæmlega spár Jesaja og Jeremía hafa ræst.“ Ljóst er að enginn samtíðarmaður Jesaja gat sagt fyrir fall Babýlonar og gereyðinguna sem síðar varð. Það liðu meira að segja um 200 ár frá því að Jesaja skrifaði bók sína þangað til Babýlon féll fyrir Medum og Persum! Og borgin lagðist ekki endanlega í eyði fyrr en öldum síðar. Styrkir þetta ekki trú okkar á Biblíuna sem innblásið orð Guðs? (2. Tímóteusarbréf 3:16) Og þar eð Jehóva uppfyllti spádóma sína forðum daga getum við treyst fullkomlega að þeir biblíuspádómar, sem enn eru óuppfylltir, rætist á tilsettum tíma.

„Hvíld af þrautum þínum“

17, 18, Hvernig er fall Babýlonar blessun fyrir Ísrael?

17 Fall Babýlonar verður mikill léttir fyrir Ísraelsmenn. Þeir verða leystir úr haldi og fá tækifæri til að snúa heim til fyrirheitna landsins. Þess vegna heldur Jesaja áfram: „[Jehóva] mun miskunna Jakob og enn útvelja Ísrael. Hann mun gefa þeim bólfestu í landi þeirra, og útlendir menn munu sameinast þeim og gjöra félagsskap við Jakobs hús. Og þjóðirnar munu taka þá og flytja þá til átthaga þeirra, en Ísraelsniðjar munu eignast þær að þrælum og ambáttum í landi [Jehóva]. Þeir munu hertaka hertakendur sína og drottna yfir kúgurum sínum.“ (Jesaja 14:1, 2) „Jakob“ merkir hér allan Ísrael — allar ættkvíslirnar 12. Jehóva mun miskunna „Jakob“ með því að leyfa þjóðinni að snúa heim. Með í för verða þúsundir útlendinga og margir þeirra verða musterisþjónar Ísraelsmanna. Sumir Ísraelsmenn verða jafnvel settir yfir fyrrverandi fangara sína. *

18 Sálarkvöl útlegðarinnar hverfur. Jehóva veitir fólki sínu „hvíld af þrautum [þess] og ónæði og af hinni hörðu ánauð, sem á [það] var lögð.“ (Jesaja 14:3) Eftir að þrælkuninni er aflétt þurfa Ísraelsmenn ekki lengur að þola þá þraut og þann óróa sem fylgir því að búa meðal falsguðadýrkenda. (Esrabók 3:1; Jesaja 32:18) Bókin Lands and Peoples of the Bible segir um þetta: „Babýloníumenn álitu að guðirnir væru alveg eins og þeir sjálfir og hefðu alla sömu lestina. Þeir voru huglausir, drykkfelldir og heimskir.“ Hvílíkur léttir að losna úr þessu spillta trúarumhverfi!

19. Hvað þarf Ísrael að gera til að hljóta fyrirgefningu Jehóva og hvað lærum við af því?

19 En miskunn Jehóva er ekki skilyrðislaus. Þjóð hans þarf að iðrast illskunnar sem fékk hann til að refsa henni svona harðlega. (Jeremía 3:25) Opinská og innileg játning veitir henni fyrirgefningu hans. (Sjá Nehemíabók 9:6-37; Daníel 9:5.) Sama regla gildir núna. Þar eð „enginn er sá er eigi syndgi“ þörfnumst við öll sömul miskunnar hans. (2. Kroníkubók 6:36) Jehóva, Guð miskunnarinnar, býður okkur hlýlega að játa syndir okkar fyrir sér, iðrast og hætta rangri breytni til að við getum læknast. (5. Mósebók 4:31; Jesaja 1:18; Jakobsbréfið 5:16) Það bæði huggar og veitir okkur velþóknun hans á ný. — Sálmur 51:3; Orðskviðirnir 28:13; 2. Korintubréf 2:7.

„Háðkvæði“ um Babýlon

20, 21. Hvernig fagna grannar Babýlonar falli hennar?

20 Meira en hundrað árum áður en veldissól Babýlonar rís lýsir Jesaja viðbrögðum umheimsins við falli hennar. Í spádómi fyrirskipar hann Ísraelsmönnum, sem leystir hafa verið úr ánauð Babýlonar, að „kyrja upp háðkvæði þetta um konunginn í Babýlon og segja: Hversu hljóður er harðstjórinn nú orðinn, hve hljótt í kvalastaðnum! [Jehóva] hefir sundurbrotið staf hinna óguðlegu, sprota yfirdrottnaranna, sem laust þjóðflokkana í bræði högg á högg ofan, og kúgaði þjóðirnar í reiði með vægðarlausri kúgan.“ (Jesaja 14:4-6) Babýlon er nafntogaður sigurvegari, kúgari sem gerir frjálsa menn að þrælum. Það á vel við að falli hennar sé fagnað með „háðkvæði“ um konungsættina — frá Nebúkadnesar til Nabónídusar og Belsasars — sem stjórnaði ríkinu meðan dýrð þess stóð sem hæst.

21 Hvílík umskipti verða við fall hennar! „Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við. Jafnvel kýprestrén gleðjast yfir þér og sedrustrén á Líbanon: ‚Fyrst þú ert lagstur lágt, mun enginn upp stíga til þess að fella oss.‘“ (Jesaja 14:7, 8) Stjórnendur Babýlonar litu á konunga þjóðanna umhverfis eins og tré sem þeir gátu fellt og notað að vild. Nú var það á enda. Skógarhöggsmaðurinn í Babýlon hafði fellt sitt síðasta tré!

22. Hvað gerist í skáldlegum skilningi í Helju þegar konungsætt Babýlonar er öll?

22 Fall Babýlonar er svo óvænt að sjálf gröfin kemst í uppnám: „Hjá Helju niðri er allt í uppnámi þín vegna til þess að taka á móti þér. Vegna þín rekur hún hina dauðu á fætur, alla foringja jarðarinnar. Af hásætum sínum lætur hún upp standa alla þjóðkonunga. Þeir taka allir til máls og segja við þig: ‚Þú ert þá einnig orðinn máttvana sem vér, orðinn jafningi vor! Ofmetnaðar-skrauti þínu er niður varpað til Heljar, hreimnum harpna þinna! Ormar eru breiddir undir þig, og ábreiðan þín eru maðkar.‘“ (Jesaja 14:9-11) Kröftug, ljóðræn líking þetta! Það er eins og sameiginleg gröf mannkyns veki upp alla þessa konunga, sem dóu á undan babýlonsku konungsættinni, til að fagna aðkomumanninum. Þeir hæðast að konungsætt Babýlonar. Hún liggur þarna hjálparvana á ormabeði í stað skrautdívans og maðkar eru breiddir yfir hana í stað dýrrar ábreiðu.

„Eins og fótum troðið hræ“

23, 24. Hvaða yfirgengilegan hroka sýna konungar Babýlonar?

23 Jesaja heldur áfram háðkvæðinu: „Hversu ertu hröpuð af himni, þú árborna morgunstjarna! Hversu ert þú að velli lagður, undirokari þjóðanna!“ (Jesaja 14:12) Dramb og eigingirni kemur konungum Babýlonar til að hreykja sér upp yfir aðra. Hrokafullir beita þeir valdi sínu eins og skær stjarna á morgunhimni. Sérstaklega eru þeir hreyknir af því að Nebúkadnesar skuli hafa unnið Jerúsalem sem Assýringum mistókst. Í háðkvæðinu er látið sem hin stolta konungsætt Babýlonar segi: „Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að, yst í norðri. Ég vil upp stíga ofar skýjaborgum, gjörast líkur Hinum hæsta!“ (Jesaja 14:13, 14) Er hægt að hugsa sér nokkuð yfirgengilegra?

24 Biblían líkir konungum af ætt Davíðs við stjörnur. (4. Mósebók 24:17) Þessar ‚stjörnur‘ ríktu á Síonfjalli allt frá dögum Davíðs. Eftir að Salómon reisti musterið í Jerúsalem var nafnið Síon notað um alla borgina. Lagasáttmálinn skyldaði alla karlmenn í Ísrael til að fara þrisvar á ári til Síonar. Þannig varð fjallið að „þingfjalli.“ Með þeirri ákvörðun að beygja Júdakonunga undir vald sitt og flytja þá síðan burt af fjallinu er Nebúkadnesar að lýsa yfir að hann ætli að setja sig ofar þessum „stjörnum.“ Hann gefur ekki Jehóva heiðurinn af sigri sínum heldur hreykir sér í sæti hans.

25, 26. Hvaða smánarleg endalok hlýtur konungsætt Babýlonar?

25 Mikil umskipti eru framundan fyrir hrokafulla konungsætt Babýlonar! Hún er ekki hafin yfir stjörnur Guðs. „Til Heljar var þér niður varpað, í neðstu fylgsni grafarinnar,“ segir Jehóva. „Þeim sem sjá þig, verður starsýnt á þig, þeir virða þig fyrir sér: ‚Er þetta maðurinn, sem skók jörðina og skelfdi konungsríkin, gjörði jarðkringluna að eyðimörk, eyddi borgir hennar og gaf eigi bandingjum sínum heimfararleyfi?‘“ (Jesaja 14:15-17) Þessi metnaðarfulla konungsætt fer niður til Heljar rétt eins og allir aðrir menn.

26 Hvað er þá orðið um veldið mikla sem lagði undir sig konungsríki, eyddi ræktarland og vann óteljandi borgir? Hvað er orðið um heimsveldið sem hertók fanga og leyfði þeim aldrei að snúa heim aftur? Síðustu konungar Babýlonar fá ekki einu sinni sómasamlega greftrun! Jehóva segir: „Allir konungar þjóðanna liggja virðulega grafnir, hver í sínu húsi, en þér er fleygt út, langt frá gröf þinni, eins og auvirðilegum kvisti. Þú ert þakinn dauðra manna búkum, þeirra er lagðir voru sverði, eins og fótum troðið hræ. Við þá, sem stíga niður í steinlagðar grafir, hefir þú eigi samneyti, því að land þitt hefir þú eytt, myrt þjóð þína. Eigi skal nefnt verða að eilífu afsprengi illvirkjanna.“ (Jesaja 14:18-20) Það þótti mikil hneisa í heimi fornaldar ef konungur fékk ekki virðulega greftrun. Hvað þá um konungsætt Babýlonar? Sennilega eru einstakir konungar jarðsettir með viðhöfn, en konungaröðinni, sem kom af Nebúkadnesar, er fleygt „eins og auvirðilegum kvisti.“ Það er engu líkara en að konungunum sé kastað í ómerkta gröf, rétt eins og óbreyttum fótgönguliða sem fellur í bardaga. Hvílík auðmýking!

27. Hvernig mega komandi kynslóðir Babýloníumanna taka út syndir feðra sinna?

27 Háðkvæðinu lýkur með síðustu skipunum til sigurvegaranna, Meda og Persa: „Búið nú sonum hans rauðan serk sakir misgjörða feðra þeirra. Eigi skulu þeir fá risið á legg og lagt undir sig jörðina né fyllt jarðkringluna rústum!“ (Jesaja 14:21) Babýlon er endanlega fallin og konungsættin verður upprætt. Hún verður aldrei endurreist. Komandi kynslóðir Babýloníumanna munu líða fyrir ‚misgjörðir feðra sinna.‘

28. Hver var undirrótin að synd konunganna í Babýlon og hvað lærum við af því?

28 Dómurinn yfir konungsætt Babýlonar er lærdómsríkur fyrir okkur. Synd konunganna var sprottin af takmarkalausum metnaði þeirra. (Daníel 5:23) Hjörtu þeirra voru uppfull af valdagræðgi. Þeir vildu drottna yfir öðrum. (Jesaja 47:5, 6) Og þeir girntust lof manna sem réttilega tilheyrir Guði einum. (Opinberunarbókin 4:11) Þetta er viðvörun til allra sem fara með eitthvert vald, jafnvel í kristna söfnuðinum. Jehóva þolir ekki metnað, eigingirni og dramb, hvorki í fari manna né þjóða.

29. Hverju líkist hroki og metnaður valdhafanna í Babýlon?

29 Stærilæti babýlonsku valdhafanna líktist mjög andanum sem „guð þessarar aldar,“ Satan djöfullinn, sýnir. (2. Korintubréf 4:4) Hann er líka valdagráðugur og þráir ekkert heitara en að hreykja sér yfir Jehóva Guð. Syndsamlegur metnaður Satans hefur leitt þjáningar og þrengingar yfir allt mannkyn, líkt og konungur Babýlonar þjakaði þjóðir sem hann lagði undir sig.

30. Hvaða önnur Babýlon er nefnd í Biblíunni og hvað hefur hún líka sýnt af sér?

30 Í Opinberunarbókinni lesum við um aðra Babýlon. Hún er kölluð „Babýlon hin mikla.“ (Opinberunarbókin 18:2) Hér er átt við heimsveldi falskra trúarbragða sem hefur líka sýnt af sér grimmd, hroka og kúgunargirni. Þess vegna kemur ‚dagur Jehóva‘ líka yfir hana og hún fyrirferst í fyllingu tímans. (Jesaja 13:6) Frá 1919 hefur þessi boðskapur ómað um heim allan: „Fallin er Babýlon hin mikla.“ (Opinberunarbókin 14:8) Hún féll þegar hún gat ekki lengur haldið fólki Guðs í ánauð. Innan skamms verður henni tortímt að fullu. Jehóva fyrirskipaði í sambandi við Babýlon fortíðar: „Gjaldið henni eftir verkum hennar! Gjörið við hana að öllu svo sem hún hefir til gjört, því að hún hefir ofmetnast gegn [Jehóva], gegn Hinum heilaga í Ísrael.“ (Jeremía 50:2; Jakobsbréfið 2:13) Babýlon hin mikla hlýtur samsvarandi dóm.

31. Hvað verður fljótlega um Babýlon hina miklu?

31 Lokaorð Jehóva í þessum spádómi Jesajabókar eiga því bæði við Babýlon fortíðar og Babýlon hina miklu: „Ég vil rísa upp í gegn þeim . . . og afmá nafn og leifar Babýlonsborgar, ætt og afkomendur . . . Ég vil gefa hana stjörnuhegrum til eignar og láta hana verða að vatnsmýri. Ég vil sópa henni burt með sópi eyðingarinnar.“ (Jesaja 14:22, 23) Eyðirústir Forn-Babýlonar sýna hvað Jehóva gerir bráðlega við Babýlon hina miklu. Sú vitneskja er mjög hughreystandi fyrir þá sem unna sannri tilbeiðslu. Hvílík hvatning til að forðast af öllum mætti drambið, hrokann og grimmdina sem einkennir Satan!

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Jesaja nafngreinir aðeins Medíumenn þótt margar þjóðir myndi bandalag gegn Babýlon — Medía, Persía, Elam og fleiri smáþjóðir. (Jeremía 50:9; 51:24, 27, 28) Grannríkin nota nafnið „Medinn“ bæði um Meda og Persa og reyndar er Medía ráðandi á dögum Jesaja. Persía verður ekki ráðandi fyrr en í stjórnartíð Kýrusar.

^ gr. 12 Síðar meir virðast Medar og Persar hafa orðið munaðargjarnari. — Esterarbók 1:1-7.

^ gr. 17 Daníel var til dæmis settur í hátt embætti í Babýlon í stjórnartíð Meda og Persa. Og um 60 árum síðar varð Ester drottning Ahasverusar Persakonungs og Mordekai varð forsætisráðherra alls Persaveldis.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 178]

Hin fallna Babýlon verður heimkynni eyðimerkurdýra.

[Mynd á blaðsíðu 186]

Babýlon hin mikla verður að rúst líkt og Babýlon fortíðar.