Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er konungur

Jehóva er konungur

20. kafli

Jehóva er konungur

Jesaja 24:1-23

1, 2. (a) Hverjir fá að kenna á reiði Jehóva? (b) Sleppa Júdamenn við hegningu? Hvernig vitum við það?

 BABÝLON, Filistea, Móab, Sýrland, Eþíópía, Egyptaland, Edóm, Týrus og Assýría fá öll að kenna á reiði Jehóva. Jesaja hefur spáð hvaða ógæfa bíður þessara fjandsamlegu borga og þjóða. En hvað um Júda? Sleppa Júdamenn við hegningu fyrir syndir sínar? Sagan svarar því neitandi.

2 Örlög Samaríu eru ágætt dæmi um þetta en hún var höfuðborg hins tíu ættkvísla Ísraelsríkis. Þjóðin hélt ekki sáttmála sinn við Guð. Samaríubúar forðuðust ekki lostafengið háttalag grannþjóðanna heldur „aðhöfðust . . . það sem illt var og egndu [Jehóva] til reiði. . . . Þá reiddist [Jehóva] Ísrael ákaflega og rak þá burt frá augliti sínu. Þannig var Ísrael herleiddur burt úr landi sínu til Assýríu.“ (2. Konungabók 17:9-12, 16-18, 23; Hósea 4:12-14) Örlög Ísraels vita ekki á gott fyrir systurríkið Júda.

Jesaja boðar eyðingu Júda

3. (a) Af hverju snýr Jehóva baki við tveggjaættkvíslaríkinu Júda? (b) Hvað er Jehóva ákveðinn í að gera?

3 Sumir Júdakonungar voru trúfastir þótt ekki væru þeir margir, en þjóðin hætti ekki falsguðadýrkuninni með öllu þótt trúir konungar eins og Jótam væru við völd. (2. Konungabók 15:32-35) Illskan náði hámarki í Júda í stjórnartíð hins blóðþyrsta Manasse, en arfsagnir Gyðinga segja að hann hafi myrt Jesaja spámann með því að láta saga hann sundur. (Samanber Hebreabréfið 11:37.) Þessi illi konungur „leiddi Júda og Jerúsalembúa afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er [Jehóva] hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.“ (2. Kroníkubók 33:9) Í stjórnartíð hans varð landið enn spilltara en það hafði verið meðan Kanverjar réðu því. Þess vegna segir Jehóva: „Ég mun leiða ógæfu yfir Jerúsalem og Júda, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra. Ég mun . . . þurrka Jerúsalem burt, eins og þegar þurrkað er af skál og skálinni síðan hvolft, þegar þurrkað hefir verið af henni. Og ég mun útskúfa leifum arfleifðar minnar og gefa þá í hendur óvinum þeirra, svo að þeir verði öllum óvinum sínum að bráð og herfangi, vegna þess að þeir hafa gjört það, sem illt er í augum mínum, og egnt mig til reiði.“ — 2. Konungabók 21:11-15.

4. Hvað ætlar Jehóva að gera við Júda og hvernig rætist spádómurinn?

4 Landið verður tæmt af íbúum sínum eins og hvolft sé úr skál. Enn og aftur fjallar Jesaja um þessa væntanlegu eyðingu Júda og Jerúsalem í spádómi. Hann hefur mál sitt svo: „Sjá, [Jehóva] tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar íbúum hennar.“ (Jesaja 24:1) Þessi spádómur rætist þegar her Babýlonar undir forystu Nebúkadnesars eyðir Jerúsalem og musterinu og Júdamenn tortímast næstum því fyrir sverði, hungri og drepsóttum. Þeir sem komast lífs af eru flestir fluttir sem fangar til Babýlonar og þeir fáu, sem eftir eru, flýja til Egyptalands. Júda leggst í eyði. Jafnvel húsdýrin hverfa. Ekkert verður eftir í landinu nema drungalegar rústir þar sem fuglar og villidýr taka sér bólfestu.

5. Verður einhver undanþeginn dómi Jehóva? Skýrðu svarið.

5 Verður einhverjum ívilnað í þessum dómi yfir Júda? Jesaja svarar: „Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans. Jörðin skal verða altæmd og gjörsamlega rænd, því að [Jehóva] hefir talað þetta.“ (Jesaja 24:2, 3) Auðlegð og musterisþjónusta er einskis virði. Engar undantekningar eru gerðar. Landið er svo gerspillt að allir verða sendir í útlegð sem komast lífs af — jafnt prestar sem húsbændur og þjónar, og kaupendur og seljendur.

6. Af hverju hættir Jehóva að blessa landið?

6 Til að fyrirbyggja misskilning lýsir Jesaja hversu alger eyðingin verður og tilgreinir ástæðuna: „Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna. Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa. Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið.“ (Jesaja 24:4-6) Kanaanland ‚flaut í mjólk og hunangi‘ þegar Ísraelsmenn fengu það til eignar en þeir voru háðir blessun Jehóva eftir sem áður. (5. Mósebók 27:3) Ef þeir héldu skipanir hans og ákvæði myndi landið „gefa ávöxt sinn,“ en ef þeir brytu þau myndu þeir eyða kröftum sínum „til ónýtis“ og landið „eigi gefa ávöxt sinn.“ (3. Mósebók 26:3-5, 14, 15, 20) Bölvun Jehóva myndi ‚eyða jörðina.‘ (5. Mósebók 28:15-20, 38-42, 62, 63) Nú á Júda þessa bölvun yfir höfði sér.

7. Hvernig átti lagasáttmálinn að vera Ísraelsmönnum til blessunar?

7 Um 800 árum fyrir daga Jesaja gengust Ísraelsmenn fúslega undir sáttmálasamband við Jehóva og lofuðu að halda ákvæði hans. (2. Mósebók 24:3-8) Sáttmálinn kvað á um að þeir myndu hljóta blessun Jehóva ef þeir héldu boðorð hans en glata blessuninni og falla í hendur óvina sinna ef þeir ryfu hann. (2. Mósebók 19:5, 6; 5. Mósebók 28:1-68) Lagasáttmálinn var gefinn fyrir milligöngu Móse og átti að vera í gildi um ótiltekinn tíma og vernda Ísraelsmenn uns Messías kæmi. — Galatabréfið 3:19, 24.

8. (a) Hvernig hefur þjóðin „brotið lögin“ og „brjálað boðorðunum“? (b) Hvernig ‚blikna tignarmennirnir‘ fyrstir?

8 En þjóðin hefur „rofið sáttmálann eilífa,“ hunsað lög Guðs og brotið þau. Hún hefur „brjálað boðorðunum“ með því að setja sér aðrar lagaviðmiðanir en Jehóva gaf henni. (2. Mósebók 22:25; Esekíel 22:12) Þess vegna hættir hann að vernda þjóðina og hún verður flutt burt úr landinu. Engin miskunn verður sýnd í komandi dómi. Meðal þeirra fyrstu sem „blikna“ eru ‚tignarmennirnir‘ eða aðallinn en það uppfyllist þannig að Júdakonungar verða lénsmenn Egypta og síðar Babýloníumanna þegar dregur að eyðingu Jerúsalem. Jójakín og fleiri af konungsættinni eru meðal þeirra fyrstu sem fluttir eru í útlegð til Babýlonar. — 2. Kroníkubók 36:4, 9, 10.

Fögnuður yfirgefur landið

9, 10. (a) Hve stóru hlutverki gegnir landbúnaður í Ísrael? (b) Hvað þýðir það að hver ‚búi undir sínu víntré og fíkjutré‘?

9 Ísrael er landbúnaðarþjóðfélag. Þegar þjóðin var sest að í fyrirheitna landinu sneri hún sér að akuryrkju og kvikfjárrækt, þannig að löggjöf hennar fjallar töluvert um landbúnað. Sjöunda hvert ár á að hvíla landið og endurnýja frjómátt þess. (2. Mósebók 23:10, 11; 3. Mósebók 25:3-7) Þjóðin á að halda þrjár hátíðir á ári sem ber upp á uppskerutímana. — 2. Mósebók 23:14-16.

10 Víngarðar eru algengir um land allt. Ritningin kallar vínið, ávöxt vínviðarins, gjöf Guðs sem „gleður hjarta mannsins.“ (Sálmur 104:15) Að hver maður ‚búi undir sínu víntré og fíkjutré‘ lýsir velmegun, friði og öryggi undir réttlætisstjórn Guðs. (1. Konungabók 4:25; Míka 4:4) Góð vínuppskera er talin blessun og tilefni fagnaðar og gleði. (Dómarabókin 9:27; Jeremía 25:30) Þegar vínviðurinn visnar eða ber ekki ávöxt og víngarðarnir eru niðurníddir og þyrnum vaxnir er hins vegar litið á það sem merki þess að Jehóva hafi tekið burt blessun sína. Þá ríkir sorgin.

11, 12. (a) Hvernig lýsir Jesaja ástandinu sem dómur Jehóva veldur? (b) Hvaða nöturlegum horfum lýsir Jesaja?

11 Jesaja notar víngarðana og afurðir þeirra sem dæmi til að lýsa því hvaða afleiðingar það hefur að Jehóva hættir að blessa landið: „Vínberjalögurinn sýtir, vínviðurinn visnar, nú andvarpa allir þeir sem áður voru af hjarta glaðir. Gleðihljóð bumbnanna er þagnað, hávaði hinna glaðværu hættur, gleðiómur gígjunnar þagnaður. Menn sitja ekki syngjandi að víndrykkju, þeim sem drekka áfengan drykk, finnst hann beiskur. Borgirnar eru lagðar í eyði, öll hús lokuð, svo að ekki verður inn komist. Á strætunum er harmakvein af vínskortinum, öll gleði er horfin, fögnuður landsins flúinn. Auðnin ein er eftir í borginni, borgarhliðin eru mölbrotin.“ — Jesaja 24:7-12.

12 Bumbur og gígjur eru notaðar til að lofa Jehóva og tjá gleði. (2. Kroníkubók 29:25; Sálmur 81:3) En þær þagna þegar refsingardagar Guðs renna upp. Það er engin gleðileg vínuppskera framundan. Engin gleðihljóð munu heyrast í eyðirústum Jerúsalem. Borgarhliðin eru „mölbrotin“ og húsin „lokuð“ svo að enginn kemst inn. Þetta eru nöturlegar horfur fyrir íbúa lands sem er svo frjósamt af náttúrunnar hendi.

Leifar „fagna“

13, 14. (a) Hvernig eru uppskerulög Jehóva? (b) Hvernig notar Jesaja uppskerulögin til að lýsa því að sumir lifi af dóm Jehóva? (c) Hverju mega trúfastir Júdamenn treysta þó svo að þrengingadagar séu framundan?

13 Ísraelsmenn slá olíutrén með lurk svo að ólífurnar falli til jarðar. Samkvæmt lögmáli Guðs er þeim óheimilt að gera eftirleit í trjágreinunum til að safna þeim ólífum sem eftir eru. Hið sama gildir um þau vínber sem eftir eru þegar þeir hafa tínt víngarða sína. Það sem eftir er er ætlað fátækum — „útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan“ mega tína það. (5. Mósebók 24:19-21) Jesaja byggir á þessu alþekkta lagaákvæði og hughreystir þjóðina með því að einhverjir lifi af hinn komandi dóm Jehóva: „Á jörðinni miðri, á meðal þjóðanna, skal svo fara sem þá er olíuviður er skekinn, sem við eftirtíning að loknum vínberjalestri. Þeir hefja upp raust sína og fagna. Yfir hátign [Jehóva] gjalla gleðiópin í vestri. Vegsamið þess vegna [Jehóva] á austurvegum, nafn [Jehóva], Ísraels Guðs, á ströndum hafsins! Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrðum vér lofsöngva: ‚Dýrð sé hinum réttláta!‘“ — Jesaja 24:13-16a.

14 Einhverjir verða eftir þegar Jehóva hefur fullnægt dómi, líkt og einhverjir ávextir eru eftir á olíutrénu og vínviðnum eftir uppskeru, eins og ‚eftirtíningur að loknum vínberjalestri.‘ Spámaðurinn er búinn að minnast á þá í sjötta versi þar sem hann segir að ‚fátt manna sé eftir orðið.‘ En þótt fáir séu komast einhverjir af þegar Jerúsalem og Júda er eytt, og síðar meir snúa leifar þeirra heim úr ánauð og byggja landið að nýju. (Jesaja 4:2, 3; 14:1-5) Þó svo að hjartahreinir menn eigi þrengingatíma í vændum geta þeir treyst á frelsun og fögnuð síðar meir. Þeir munu sjá spádómsorð Jehóva rætast og skilja að Jesaja var sannur spámaður hans. Þeir fyllast fögnuði við að sjá endurreisnarspádómana uppfyllast. Hvar sem þeir eru niður komnir — hvort heldur vestur á ströndum Miðjarðarhafsins, „á austurvegum“ í Babýlon eða annars staðar í fjarlægu landi — lofa þeir Guð af því að þeim hefur verið þyrmt og þeir syngja: „Dýrð sé hinum réttláta!“

Dómur Jehóva verður ekki umflúinn

15, 16. (a) Hvað finnst Jesaja um örlög þjóðar sinnar? (b) Hvað verður um ótrúa íbúa landsins?

15 En það er of snemmt að fagna. Jesaja vekur samtíðarmenn sína aftur til veruleikans: „En ég sagði: ‚Æ, mig auman! Æ, mig auman! Vei mér!‘ Ránsmenn ræna, ránum ránsmenn ræna. Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, jarðarbúi. Sá sem flýr undan hinum geigvæna gný, fellur í gröfina, og sá sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni, því að flóðgáttirnar á hæðum ljúkast upp og grundvöllur jarðarinnar skelfur. Jörðin brestur og gnestur, jörðin rofnar og klofnar, jörðin riðar og iðar. Jörðin skjögrar eins og drukkinn maður, henni svipar til og frá eins og vökuskýli. Misgjörð hennar liggur þungt á henni, hún hnígur og fær eigi risið upp framar.“ — Jesaja 24:16b-20.

16 Jesaja er harmi sleginn yfir örlögum þjóðarinnar. Honum líður illa vegna ástandsins í kringum sig. Ræningjar og svikarar eru á hverju strái svo að geigur er í landsmönnum. Ótrúir Júdamenn skelfast bæði um daga og nætur þegar Jehóva hættir að vernda þá. Þeir óttast um líf sitt. Enginn kemst undan hörmungunum sem bíða þeirra vegna þess að þeir hafa snúið baki við boðorðum Jehóva og hunsað viskuorð hans. (Orðskviðirnir 1:24-27) Ógæfan kemur jafnvel þótt svikarar reyni að sannfæra fólk um að allt verði í himnalagi, og beiti blekkingum og undirferli til að leiða það á vit ógæfunnar. (Jeremía 27:9-15) Óvinir munu ráðast inn í landið og flytja íbúana fangna burt. Jesaja er miður sín.

17. (a) Af hverju er engrar undankomu auðið? (b) Hvað verður um landið þegar Jehóva gefur dómi sínum lausan tauminn af himni ofan?

17 En spámaðurinn hlýtur að lýsa því yfir að undankomuvon sé engin. Menn munu nást hvert sem þeir reyna að flýja. Sumum tekst að umflýja eina ógæfu en lenda svo í annarri. Enginn er óhultur. Þeir eru eins og dýr sem sleppur fram hjá veiðigryfjunni en festist svo í snöru. (Samanber Amos 5:18, 19.) Jehóva gefur dómi sínum lausan tauminn af himni ofan svo að undirstöður jarðar nötra. Landið skjögrar og hnígur eins og drukkinn maður; það sligast undan þunga sektarinnar og megnar ekki að rísa aftur. (Amos 5:2) Dómur Jehóva er endanlegur og alger eyðing bíður landsins.

Jehóva ríkir dýrlegur

18, 19. (a) Hvað er hugsanlega átt við með ‚her hæðanna‘ og hvernig verður honum varpað „í dýflissu“? (b) Hvernig verður ‚her hæðanna‘ líklega gefinn gaumur „eftir langa stund“? (c) Hvernig vitjar Jehóva „konunga jarðarinnar“?

18 Spádómur Jesaja teygir sig nú lengra svo að hann nær yfir tilgang Jehóva eins og hann fullnast í heild sinni: „Á þeim degi mun [Jehóva] vitja hers hæðanna á hæðum og konunga jarðarinnar á jörðu. Þeim skal varpað verða í gryfju, eins og fjötruðum bandingjum, og þeir skulu byrgðir verða í dýflissu. Eftir langa stund skal þeim hegnt verða. Þá mun máninn fyrirverða sig og sólin blygðast sín, því að [Jehóva] allsherjar sest að völdum á Síonfjalli og í Jerúsalem, og fyrir augliti öldunga hans mun dýrð ljóma.“ — Jesaja 24:21-23.

19 ‚Her hæðanna‘ kann að vera ‚heimsdrottnar þessa myrkurs, andaverur vonskunnar í himingeimnum‘ sem hafa haft sterk áhrif á heimsveldin. (Efesusbréfið 6:12; Daníel 10:13, 20; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Það er markmið þeirra að snúa fólki frá Jehóva og hinni hreinu tilbeiðslu. Þeim tekst listavel að tæla Ísrael til að elta spillingu þjóðanna umhverfis og kalla yfir sig dóm Guðs. En Satan og illir andar hans þurfa að svara Guði fyrir gerðir sínar þegar hann snýr sér að þeim og stjórnendum jarðar, ‚konungum jarðarinnar á jörðu‘ sem þeim hefur tekist að snúa gegn Guði til að brjóta lög hans. (Opinberunarbókin 16:13, 14) Jesaja talar táknmál og segir að þeim verði safnað saman og ‚þeir byrgðir inni í dýflissu.‘ „Eftir langa stund“ lætur Guð þá taka út hina endanlegu refsingu sem þeir eiga skilda, kannski þegar Satan og illum öndum hans (en ekki ‚konungum jarðarinnar á jörðu‘) er sleppt um tíma í lok þúsundáraríkis Jesú Krists. — Opinberunarbókin 20:3, 7-10.

20. Hvernig og hvenær ‚sest Guð að völdum‘ bæði fyrr og nú?

20 Í þessum hluta spádómsins er fólgið fagurt loforð til Gyðinga. Á tilsettum tíma á Babýlon að falla fyrir atbeina Jehóva og Gyðingar eiga að fá að snúa heim. Þegar hann sýnir mátt sinn og drottinvald með þessum hætti árið 537 f.o.t. er með réttu hægt að segja þeim: „Guð þinn er setstur að völdum!“ (Jesaja 52:7) Jehóva ‚settist aftur að völdum‘ árið 1914 þegar hann skipaði Jesú Krist konung í ríki sínu á himni. (Sálmur 96:10) Og hann ‚settist að völdum‘ árið 1919 er hann sýndi konunglegan mátt sinn með því að frelsa hinn andlega Ísrael úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu.

21. (a) Hvernig „mun máninn fyrirverða sig og sólin blygðast sín“? (b) Hvaða yfirlýsing á eftir að hljóta sína æðstu uppfyllingu?

21 Jehóva ‚sest að völdum‘ á nýjan leik er hann eyðir Babýlon hinni miklu og hinu illa heimskerfi í heild. (Sakaría 14:9; Opinberunarbókin 19:1, 2, 19-21) Þá verður stjórn hans svo stórfengleg að hvorki fullt tungl að nóttu né sól í hádegisstað jafnast á við hana. (Samanber Opinberunarbókina 22:5.) Þau blygðast sín, ef svo má segja, fyrir að bera sig saman við hinn dýrlega Jehóva allsherjar sem fer með æðsta vald svo að allir sjá almætti hans og dýrð. (Opinberunarbókin 4:8-11; 5:13, 14) Hvílík framtíðarsýn! Þá mun Sálmur 97:1 óma um alla jörðina í sinni æðstu uppfyllingu: „[Jehóva] er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.“

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 262]

Tónlist og fögnuður heyrist ekki framar í landinu.

[Mynd á blaðsíðu 265]

Sumir lifa dóm Jehóva af líkt og ávextir eru eftir á tré að lokinni tínslu.

[Mynd á blaðsíðu 267]

Jesaja er harmi lostinn yfir örlögum þjóðarinnar.

[Mynd á blaðsíðu 269]

Hvorki sól né tungl jafnast á við dýrð Jehóva.