Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesaja boðar ‚undarlegt verk‘ Jehóva

Jesaja boðar ‚undarlegt verk‘ Jehóva

22. kafli

Jesaja boðar ‚undarlegt verk‘ Jehóva

Jesaja 28:1–29:24

1, 2. Af hverju telja Ísrael og Júda sig örugga?

 ÍSRAEL og Júda telja sig örugga um skamma hríð. Leiðtogarnir hafa gert pólitísk bandalög við stærri og öflugri ríki í von um að tryggja þjóðaröryggi í hættulegum heimi. Samaría, höfuðborg Ísraels, hefur leitað til grannríkisins Sýrlands en Jerúsalem, höfuðborg Júda, setur traust sitt á hina grimmu Assýringa.

2 Í norðurríkinu búast sumir jafnvel við því að Jehóva verndi þá, þó svo að þeir haldi áfram að dýrka gullkálfana. Júdamenn eru líka sannfærðir um að þeir geti treyst á vernd hans. Stendur ekki musteri hans í höfuðborginni Jerúsalem? En óvæntir atburðir bíða beggja þjóða og Jehóva innblæs Jesaja að boða atburði sem einþykku fólki hans á eftir að þykja kynlegir. Og orð hans eru lærdómsrík fyrir nútímamenn.

‚Drykkjurútarnir í Efraím‘

3, 4. Hverju er norðurríkið stolt af?

3 Inngangsorð spádómsins eru óvænt: „Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím, hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum hinna víndrukknu. Sjá, sterk og voldug hetja kemur frá [Jehóva]. Eins og haglskúr . . . varpar hann honum til jarðar með hendi sinni. Fótum troðinn skal hann verða, hinn drembilegi höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím.“ — Jesaja 28:1-3.

4 Efraím er þekktust norðurættkvíslanna tíu svo að Ísrael og Efraím eru nánast samheiti. Höfuðborgin Samaría er fögur og gnæfandi „á hæðinni í frjósama dalnum.“ Leiðtogar Efraíms eru stoltir af „hinum drembilega höfuðsveig“ sínum, það er að segja sjálfstæðinu gagnvart konungsætt Davíðs í Jerúsalem. En þeir eru andlegir ‚drykkjurútar‘ vegna bandalagsins við Sýrlendinga gegn Júda. Bráðlega verður allt sem þeim er kært fótum troðið af innrásarmönnum. — Samanber Jesaja 29:9.

5. Hversu ótrygg er staða Ísraels en á hvaða von bendir Jesaja?

5 Efraím áttar sig ekki á því hve ótrygg staða hans er. Jesaja heldur áfram: „Fyrir hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum, skal fara eins og árfíkju, er þroskast fyrir uppskeru: Einhver kemur auga á hana og gleypir hana óðara en hann hefir náð henni.“ (Jesaja 28:4) Efraím fellur í hendur Assýringa, gleyptur í heilu lagi eins og gómsætur biti. Er þá öll von úti? Eins og oft áður mildar vonin dómana sem Jesaja boðar. Þó svo að þjóðin falli komast trúfastir menn af með hjálp Jehóva. „Á þeim degi mun [Jehóva] allsherjar vera dýrlegur höfuðsveigur og prýðilegt höfuðdjásn fyrir leifar þjóðar sinnar og réttlætisandi þeim, er í dómum sitja, og styrkleikur þeim, er bægja burt ófriðnum að borghliðum óvinanna.“ — Jesaja 28:5, 6.

„Þá svimar“

6. Hvenær líður Ísrael undir lok en af hverju ættu Júdamenn ekki að hlakka yfir því?

6 Reikningsskiladagurinn rennur upp hjá Samaríu árið 740 f.o.t. þegar Assýringar eyða landið og norðurríkið hverfur af sjónarsviðinu sem sjálfstæð þjóð. En hvað um Júda? Assýringar munu ráðast inn í landið og síðar munu Babýloníumenn leggja höfuðborgina í rúst. En musterið skal standa áfram í Júda meðan Jesaja er uppi, prestastéttin skal starfa og spámennirnir spá. En ættu Júdamenn að hlakka yfir falli nágrannans í norðri? Nei, Jehóva á líka eftir að gera upp reikningana við þá og leiðtoga þeirra sökum óhlýðninnar og trúleysisins.

7. Í hvaða skilningi eru leiðtogar Júda drukknir og hvaða afleiðingar hefur það?

7 Jesaja talar nú til Júdamanna: „En einnig hérna reika menn af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra. Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir.“ (Jesaja 28:7, 8) Hvílíkur viðbjóður! Það er alvörumál að vera drukkinn í húsi Guðs en sýnu alvarlegra að prestar og spámenn eru andlega ölvaðir því að hugur þeirra er myrkvaður oftrausti á milliríkjabandalög. Þeir telja sjálfum sér trú um að þeir hafi tekið einu skynsamlegu stefnuna. Kannski halda þeir sig hafa eins konar varaáætlun ef vernd Jehóva dugir ekki. Í andlegri drykkjuvímu sinni spúa trúarleiðtogarnir viðbjóðslegum og óhreinum orðum sem afhjúpa sorglegt trúleysi á fyrirheit Guðs.

8. Hver eru viðbrögðin við boðskap Jesaja?

8 Hvernig bregðast Júdaleiðtogar við viðvörun Jehóva? Þeir gera gys að Jesaja og saka hann um að tala við sig eins og væru þeir smábörn: „Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum? Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa — skamma og skamma, skamma og skamma — ýmist þetta, ýmist hitt.“ (Jesaja 28:9, 10) Þeim finnst spámaðurinn skrýtinn og staglsamur. Hann endurtekur sig í sífellu: ‚Þetta er boðorð Jehóva. Þetta er boðorð Jehóva. Þetta er skipun Jehóva. Þetta er skipun Jehóva.‘ * En bráðlega ‚talar‘ Jehóva í verki til Júdamanna er hann sendir her Babýlonar á þá, útlenda menn sem tala annarlegt tungumál. Þeir munu framkvæma ‚skipanir‘ Jehóva og Júda fellur. — Lestu Jesaja 28:11-13.

Andlegir drykkjurútar nútímans

9, 10. Hvenær og hvernig hafa orð Jesaja þýðingu fyrir síðari kynslóðir?

9 Rættust spádómar Jesaja aðeins á Ísrael og Júda fortíðar? Nei, bæði Jesús og Páll vitna í orð hans og heimfæra þau upp á samtíðina. (Jesaja 29:10, 13; Matteus 15:8, 9; Rómverjabréfið 11:8) Og núna er komið upp svipað ástand og var á dögum Jesaja.

10 Nú eru það trúarleiðtogar kristna heimsins sem treysta á stjórnmálamennina. Þeir skjögra líkt og drykkjurútarnir í Ísrael og Júda, skipta sér af stjórnmálum og njóta þess að hin svonefndu stórmenni heimsins skuli ráðgast við þá. En það er ekki hreinn biblíusannleikur sem þeir tala heldur eitthvað andlega óhreint. Andleg sjón þeirra er óskýr svo að þeim er ekki treystandi til að leiðbeina mannkyni. — Matteus 15:14.

11. Hvernig bregðast leiðtogar kristna heimsins við fagnaðarerindinu um ríki Guðs?

11 Þegar vottar Jehóva benda forkólfum kristna heimsins á að Guðsríki sé eina sanna vonin skilja þeir ekki baun og finnst vottarnir barnalegir og staglsamir. Þeir líta niður á boðberana og hæðast að þeim. Þeir vilja ekki sjá Guðsríki frekar en Gyðingar á dögum Jesú og vilja ekki að sóknarbörn sín frétti af því. (Matteus 23:13) Þess vegna eru þeir varaðir við að Jehóva tali ekki endalaust við þá fyrir munn meinlausra boðbera sinna. Sá tími komi þegar þeir sem vilja ekki lúta Guðsríki „beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir,“ já, tortímist.

‚Sáttmáli við dauðann‘

12. Hver er ‚sáttmálinn við dauðann‘ sem Júda telur sig hafa gert?

12 Jesaja heldur spádóminum áfram: „Þér segið: ‚Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna.‘“ (Jesaja 28:14, 15) Júdaleiðtogar þykjast hafa tryggt sig gegn ósigri með stjórnmálabandalögum. Þeir þykjast hafa gert „sáttmála við dauðann“ um að láta sig í friði. En þessi blekking veitir þeim ekki skjól því að bandalögin eru hrein lygi og fals. Hið sama er uppi á teningnum núna. Náið samband kristna heimsins við veraldarleiðtoga verður bölvaldur hans en ekki bjargvættur þegar að því kemur að Jehóva gerir upp reikningana við hann. — Opinberunarbókin 17:16, 17.

13. Hver er ‚trausti steinninn‘ og hvernig hefur kristni heimurinn hafnað honum?

13 Hvar ættu trúarleiðtogarnir þá að leita verndar? Jesaja flytur loforð Jehóva: „Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur. Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu.“ (Jesaja 28:16, 17) Skömmu eftir að Jesaja segir þetta er hinn trúfasti Hiskía settur til konungs í Síon og ríki hans bjargast, ekki vegna bandalaga við grannþjóðirnar heldur vegna íhlutunar Jehóva. En þessi innblásnu orð Jesaja rætast ekki á Hiskía. Pétur postuli vitnar í þau og bendir á að Jesús Kristur, sem er afkomandi Hiskía, sé hinn ‚trausti steinn‘ og að enginn þurfi að óttast sem trúir á hann. (1. Pétursbréf 2:6) Það er dapurlegt að trúarleiðtogar, sem kalla sig kristna, skuli hafa gert það sem Jesús neitaði að gera! Þeir hafa sóst eftir völdum og frama í þessum heimi í stað þess að bíða eftir að Jehóva komi ríki sínu á laggirnar með Jesú Krist sem konung. — Matteus 4:8-10.

14. Hvenær verður ‚sáttmáli Júda við dauðann‘ til einskis?

14 Þegar herir Babýlonar ríða yfir landið eins og „dynjandi svipa“ afhjúpar Jehóva hið pólitíska hæli Júdamanna. Það er lygin ein. „Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða,“ segir hann. „Þá er hin dynjandi svipa ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni. Í hvert sinn, sem hún ríður yfir, skal hún hremma yður . . . Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn.“ (Jesaja 28:18, 19) Já, það má draga mikinn lærdóm af örlögum þeirra sem segjast þjóna Jehóva en setja traust sitt á bandalag við þjóðirnar.

15. Hvaða dæmi notar Jesaja til að lýsa því hve varnarlaust Júdaríkið er?

15 Líttu á hvernig komið er fyrir þessum Júdaleiðtogum: „Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni.“ (Jesaja 28:20) Það er rétt eins og þeir halli sér en fái enga hvíld. Annaðhvort standa fæturnir út í kuldann eða ábreiðan er of mjó til að skýla þeim ef þeir hnipra sig saman til að halda á sér hita. Þannig var ástandið á dögum Jesaja og þannig er það núna hjá þeim sem treysta á hæli lyginnar í kristna heiminum. Það er óhugnanlegt til að hugsa að sumir af trúarforkólfum kristna heimsins skuli vera bendlaðir við grimmdarverk á borð við þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð vegna stjórnmálaafskipta sinna.

‚Undarlegt verk‘ Jehóva

16. Hvað er hið „undarlega verk“ Jehóva og af hverju er það óvanalegt?

16 Málalokin verða andhverfa þess sem trúarleiðtogar Júda vonast eftir. Jehóva gerir nokkuð undarlegt við hina andlegu drykkjurúta í Júda. „[Jehóva] mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt.“ (Jesaja 28:21) Á dögum Davíðs konungs veitti Jehóva fólki sínu markverða sigra á Filistum við Perasímfjall og í dalnum hjá Gíbeon. (1. Kroníkubók 14:10-16) Á dögum Jósúa lét hann sólina jafnvel standa kyrra yfir Gíbeon svo að Ísrael gæti gersigrað Amoríta. (Jósúabók 10:8-14) Það var afar óvenjulegt. Nú ætlar Jehóva að berjast aftur en í þetta sinn gegn þeim sem segjast vera fólk hans. Er hægt að hugsa sér nokkuð undarlegra eða óvanalegra þegar á það er litið að Jerúsalem er miðstöð tilbeiðslunnar á Jehóva og borgin þar sem smurður konungur hans situr? Fram til þessa hefur konungsætt Davíðs í Jerúsalem aldrei verið sett af. En Jehóva ætlar að vinna þetta „undarlega verk.“ — Samanber Habakkuk 1:5-7.

17. Hvaða áhrif hafa háðsglósur á uppfyllingu spádómsins sem Jesaja boðaði?

17 Þess vegna segir Jesaja í viðvörunartón: „Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, [Jehóva] allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt.“ (Jesaja 28:22) Boðskapur Jesaja er sannur þó að leiðtogarnir hæðist að honum. Boðskapurinn er frá Jehóva og þessir leiðtogar eru í sáttmálasambandi við hann. Trúarleiðtogar kristna heimsins hæðast að ‚undarlegu verki‘ Jehóva þegar á það er minnst og bölsótast jafnvel yfir vottum hans. En boðskapur vottanna er sannur, enda sóttur í Biblíuna, bókina sem þessir leiðtogar segjast vera talsmenn fyrir.

18. Hvernig lýsir Jesaja jafnvæginu í ögun Jehóva?

18 Jehóva er velviljaður og leiðréttir einlæga menn sem fylgja ekki þessum leiðtogum að málum. (Lestu Jesaja 28:23-29.) Jehóva tekur mið af aðstæðum þegar hann agar og leiðréttir lærisvein sinn, ekki ósvipað og bóndi fer mildum höndum um viðkvæmt korn eins og kúmen er hann þreskir. Hann er aldrei gerræðislegur eða þunghentur heldur agar þann sem fer villur vegar til að leiða hann aftur inn á rétta braut. Menn eiga sér von ef þeir bregðast rétt við hvatningu hans. Þó svo að örlög kristna heimsins séu ráðin þegar á heildina er litið getur hver sem er forðast óhagstæðan dóm ef hann beygir sig undir ríki Jehóva.

Vei Jerúsalem!

19. Í hvaða skilningi verður Jerúsalem „altarisstæði,“ hvenær gerist það og hvernig?

19 En hvað er Jehóva að tala um núna? „Æ, Aríel, Aríel, þú borg, þar sem Davíð sló herbúðum! Bætið ári við þetta ár, lát hátíðirnar fara sinn hring, þá þrengi ég að Aríel, og hún skal verða hryggð og harmur, og hún skal verða mér sem Aríel.“ (Jesaja 29:1, 2) „Aríel“ merkir hugsanlega „altarisstæði Guðs“ og hér er greinilega átt við Jerúsalem þar sem musterið með fórnaraltarinu stendur. Gyðingar halda þar hátíðir og færa fórnir eftir ákveðinni reglu en Jehóva hefur enga ánægju af tilbeiðslu þeirra. (Hósea 6:6) Hann fyrirskipar að borgin verði „altarisstæði“ í öðrum skilningi því að blóð á að renna og eldur brenna. Hann lýsir jafnvel hvernig það gerist: „Ég vil setja herbúðir allt í kringum þig, umlykja þig með varðmönnum og reisa hervirki í móti þér. Þú skalt tala lágri röddu upp úr jörðinni, og orð þín hljóma dimmum rómi úr duftinu.“ (Jesaja 29:3, 4) Þetta rætist á Júda og Jerúsalem árið 607 f.o.t. þegar babýlonskur her sest um borgina, eyðir hana og brennir musterið. Jerúsalem verður lögð jafnlágt og jörðin sem hún stendur á.

20. Hvað verður um óvini Guðs að lokum?

20 Áður en þessir örlagatímar renna upp sitja af og til konungar í Júda sem hlýða lögmáli Jehóva. Þá berst Jehóva fyrir þjóð sína og óvinirnir verða eins og „moldryk“ og „sáðir“ þótt þeir þeki landið. Þegar tíminn kemur tvístrar Jehóva þeim „með reiðarþrumu, landskjálfta og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga.“ — Jesaja 29:5, 6.

21. Skýrðu líkinguna í Jesaja 29:7, 8.

21 Óvinaherir hlakka til þess að láta greipar sópa um Jerúsalem og gæða sér á herfangi en þeim verður ekki kápan úr því klæðinu. Þeir fá ekki að setjast að veislunni sem þeir búast við, svo að þeir eru eins og hungraður maður sem dreymir að hann sitji að veisluborði en vaknar jafnhungraður. (Lestu Jesaja 29:7, 8.) Hvernig fer ekki fyrir assýrska hernum undir stjórn Sanheríbs þegar hann ógnar Jerúsalem í stjórnartíð hins trúfasta Hiskía? (Jesaja 36. og 37. kafli) Á einni nóttu er hinni ógurlegu hervél Assýringa snúið heim án þess að mannshönd komi nærri — og 185.000 kappar liggja dauðir! Sigurdraumarnir bregðast líka þegar stríðsvél Gógs frá Magóg gerir sig líklega til að ráðast á fólk Jehóva í náinni framtíð. — Esekíel 38:10-12; 39:6, 7.

22. Hvaða áhrif hefur andlegur drykkjuskapur Júdamanna á þá?

22 Júdaleiðtogar sýna ekki sömu trú og Hiskía þegar Jesaja ber fram þennan kafla spádómsins. Þeir eru sljóir og andlega drukknir af bandalagi sínu við óguðlegar þjóðir. „Fallið í stafi og undrist, gjörið yður sjónlausa og verið blindir! Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk.“ (Jesaja 29:9) Í vímunni skynja leiðtogarnir ekki þýðingu sýnarinnar sem sannur spámaður Jehóva flytur. Jesaja segir: „Því að [Jehóva] hefir úthellt yfir yður svefnsemi-anda og aftur lukt augu yðar — spámennina — og brugðið hulu yfir höfuð yðar — þá sem vitranir fá. Öll opinberun er yður sem orðin í innsiglaðri bók. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt: ‚Les þú þetta,‘ þá segir hann: ‚Ég get það ekki, því að hún er innsigluð.‘ En sé bókin fengin þeim, sem eigi kann að lesa, og sagt: ‚Les þú þetta,‘ þá segir hann: ‚Ég er ekki læs.‘“ — Jesaja 29:10-12.

23. Af hverju lætur Jehóva Júdamenn svara til saka og hvernig gerir hann það?

23 Trúarleiðtogar Júda segjast vera andlega hyggnir. En þeir hafa yfirgefið Jehóva og kenna rangsnúnar hugmyndir um rétt og rangt. Svo réttlæta þeir trúleysið, siðleysið og ranga forystu sína sem hefur kallað vanþóknun Guðs yfir þjóðina. Með ‚undarlegu verki‘ lætur Jehóva þá svara til saka fyrir hræsni sína. Hann segir: „Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar, sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.“ (Jesaja 29:13, 14) Ímynduð hyggindi og viska Júdamanna kemst í þrot þegar Jehóva býr svo um hnútana að babýlonska heimsveldið þurrkar trúarkerfi þeirra út. Hið sama gerðist á fyrstu öldinni eftir að leiðtogar Gyðinga, vitrir að eigin mati, leiddu þjóðina á villigötur. Og eins fer fyrir kristna heiminum. — Matteus 15:8, 9; Rómverjabréfið 11:8.

24. Hvernig sýna Júdamenn að þeir óttast ekki Guð?

24 En leiðtogar Júda eru borubrattir og álíta sig nógu vitra til að komast upp með það að rangsnúa sannri tilbeiðslu. Eru þeir það? Jesaja sviptir af þeim grímunni svo að ljóst sé að þeir óttast ekki Guð og að viska þeirra er hjómið eitt: „Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir [Jehóva] og fremja verk sín í myrkrinu og segja: ‚Hver sér oss? Hver veit af oss?‘ Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: ‚Hann hefir eigi búið mig til,‘ og smíðin geti sagt um smiðinn: ‚Hann kann ekki neitt?‘“ (Jesaja 29:15, 16; samanber Sálm 111:10.) Hversu leynt sem þeir telja sig fara standa þeir ‚berir og öndverðir‘ fyrir augum Guðs. — Hebreabréfið 4:13.

‚Hinir daufu skulu heyra‘

25. Í hvaða skilningi heyra „hinir daufu“?

25 En trúuðum mönnum er björgun búin. (Lestu Jesaja 29:17-24; samanber Lúkas 7:22.) „Hinir daufu heyra rituð orð“ boðskaparins í orði Guðs. Hér er ekki verið að tala um bókstaflega lækningu handa heyrnarlausum heldur andlega. Jesaja er aftur að vísa til þess er messíasarríkið verður stofnsett og sönn tilbeiðsla endurreist á jörð undir stjórn þess. Þetta hefur átt sér stað á okkar dögum og milljónir einlægra manna þiggja leiðréttingu frá Jehóva og læra að lofa hann. Hvílík uppfylling! Sá dagur kemur þegar allir menn og allt sem andardrátt hefur lofar Jehóva og helgar heilagt nafn hans. — Sálmur 150:6.

26. Hvaða andlegar áminningar heyra „hinir daufu“ núna?

26 „Hinir daufu,“ sem heyra orð Guðs núna, komast að raun um að allir kristnir menn, einkanlega þeir sem eru hafðir að fyrirmynd í söfnuðinum, verða að forðast það samviskusamlega að ‚reika af víni.‘ (Jesaja 28:7) Og við megum aldrei þreytast á áminningum Guðs sem hjálpa okkur að hafa andleg viðhorf í einu og öllu. Þó svo að kristnir menn séu undirgefnir yfirvöldum og vænti vissrar þjónustu af þeim kemur hjálpræðið ekki frá heiminum heldur Jehóva Guði. Og við megum aldrei gleyma því að dómur hans yfir þessari kynslóð er óumflýjanlegur líkt og dómurinn yfir fráhvarfsborginni Jerúsalem. Með hjálp Jehóva getum við haldið áfram að boða viðvörun hans þrátt fyrir andstöðu, líkt og Jesaja gerði. — Jesaja 28:14, 22; Matteus 24:34; Rómverjabréfið 13:1-4.

27. Hvað geta kristnir menn lært af spádómi Jesaja?

27 Öldungar og foreldrar geta dregið lærdóm af því hvernig Jehóva agar. Þeir eiga ekki aðeins að hugsa um refsingu heldur alltaf að reyna að snúa syndara frá villu síns vegar svo að hann endurheimti velþóknun Guðs. (Jesaja 28:26-29; samanber Jeremía 30:11.) Við erum öll, einnig unga fólkið, minnt á hve mikilvægt það er að þjóna Jehóva af öllu hjarta en vera ekki aðeins kristin til málamynda svo að við getum þóknast mönnum. (Jesaja 29:13) Við þurfum að sýna heilbrigðan guðsótta og djúpa virðingu, ólíkt trúlausum Júdamönnum. (Jesaja 29:16) Og enn fremur þurfum við að sýna að við erum fús til að taka við leiðréttingu frá Jehóva og læra af honum. — Jesaja 29:24.

28. Hvernig líta þjónar Jehóva á björgunarverk hans?

28 Það er ákaflega mikilvægt að trúa og treysta á Jehóva og aðferðir hans. (Samanber Sálm 146:3.) Flestum þykir það barnaleg viðvörun sem við boðum. Það er óvanaleg og undarleg hugmynd að heilu skipulagi verði tortímt, kristna heiminum sem segist þjóna Guði. En Jehóva framkvæmir ‚undarlegt verk sitt,‘ á því leikur enginn vafi. Þjónar hans á síðustu dögum þessa heimskerfis treysta þar af leiðandi ríki hans og konungi þess, Jesú Kristi, í einu og öllu. Þeir vita að björgunarverk Jehóva, sem hann vinnur ásamt ‚undarlegu verki sínu,‘ verður öllu hlýðnu mannkyni til eilífrar blessunar.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Á frumhebresku er Jesaja 28:10 endurtekin hending, ekki ósvipuð vögguvísu. Trúarleiðtogunum fannst boðskapur spámannsins því barnalegur og staglsamur.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 289]

Kristni heimurinn hefur ekki reitt sig á Guð heldur á bandalög við mennska leiðtoga.

[Mynd á blaðsíðu 290]

Jehóva vinnur „hið undarlega verk“ sitt þegar hann leyfir Babýloníumönnum að eyða Jerúsalem.

[Mynd á blaðsíðu 298]

Menn sem voru andlega daufir geta ‚heyrt‘ orð Guðs.