Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Konungi umbunuð trúin

Konungi umbunuð trúin

29. kafli

Konungi umbunuð trúin

Jesaja 36:1–39:8

1, 2. Hvernig reyndist Hiskía betri konungur en Akas?

 HISKÍA var 25 ára er hann tók við konungsembætti í Júda. Hvers konar stjórnandi myndi hann verða? Myndi hann feta í fótspor Akasar föður síns og hvetja þegna sína til að elta falsguði? Eða myndi hann veita þjóðinni forystu í tilbeiðslu á Jehóva eins og Davíð forfaðir hans? — 2. Konungabók 16:2.

2 Skömmu eftir að Hiskía tók við embætti var ljóst að hann ætlaði sér ‚að gera það sem rétt var í augum Jehóva.‘ (2. Konungabók 18:2, 3) Á fyrsta stjórnarári sínu fyrirskipaði hann viðgerð á musterinu og musterisþjónustan var tekin upp að nýju. (2. Kroníkubók 29:3, 7, 11) Síðan bauð hann allri þjóðinni til mikillar páskahátíðar, einnig norðurættkvíslunum tíu í Ísrael. Hátíðin var ógleymanleg. Engin slík hafði verið haldin síðan á dögum Salómons konungs. — 2. Kroníkubók 30:1, 25, 26.

3. (a) Hvað gerðu Ísraels- og Júdamenn eftir páskahátíðina sem Hiskía lét halda? (b) Hvað geta kristnir menn lært af einurð þeirra sem sóttu páskahátíðina?

3 Eftir hátíðina fundu gestir hjá sér hvöt til að höggva sundur asérurnar, brjóta merkissteinana og rífa niður fórnarhæðirnar og ölturu falsguðanna. Síðan sneru þeir heimleiðis, staðráðnir í að þjóna hinum sanna Guði. (2. Kroníkubók 31:1) Þetta var mikil viðhorfsbreyting sem minnir sannkristna menn á að það sé ákaflega mikilvægt að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar.‘ Þær eru veigamikill þáttur í hvatningunni „til kærleika og góðra verka,“ sem þeir fá fyrir atbeina bræðrafélagsins og heilags anda, og gildir það jafnt um venjulegar safnaðarsamkomur sem fjölmenn mót. — Hebreabréfið 10:23-25.

Það reynir á trúna

4, 5. (a) Hvernig hefur Hiskía sýnt að hann er óháður Assýríu? (b) Lýstu hernaðaraðgerðum Sanheríbs gegn Júda. Hvað gerir Hiskía til að afstýra árás á Jerúsalem? (c) Hvernig býr Hiskía Jerúsalem til varnar gegn Assýringum?

4 Alvarlegar prófraunir bíða Jerúsalembúa. Hiskía hefur slitið bandalaginu sem trúlaus faðir hans gerði við Assýringa og yfirbugað Filista sem eru bandamenn þeirra. (2. Konungabók 18:7, 8) Assýríukonungur tekur þetta óstinnt upp. Við lesum: „Svo bar til á fjórtánda ríkisári Hiskía konungs, að Sanheríb Assýríukonungur fór herför gegn öllum víggirtum borgum í Júda og vann þær.“ (Jesaja 36:1) Hiskía fellst á að greiða Sanheríb gífurlegt skattgjald — 300 talentur silfurs og 30 talentur gulls. * Kannski vonast hann til að afstýra því að hinn miskunnarlausi Assýríuher ráðist á Jerúsalem. — 2. Konungabók 18:14.

5 Ekki er nóg gull og silfur í fjárhirslu konungs til að greiða skattgjaldið svo að Hiskía tekur alla þá góðmálma sem hann getur úr musterinu. Dyr musterisins voru lagðar gulli og Hiskía tekur það allt og sendir Sanheríb. Þetta dugir Assýríukonungi — um sinn. (2. Konungabók 18:15, 16) En Hiskía veit að Assýringar eira ekki borginni lengi svo að hann býr hana undir umsát. Hann lætur stemma allar lindir þar sem innrásarherinn getur náð í vatn, styrkir borgarmúrinn og safnar vopnum, þar á meðal ‚afar miklu af skotvopnum og skjöldum.‘ — 2. Kroníkubók 32:4, 5.

6. Á hvern treystir Hiskía?

6 En Hiskía reiðir sig ekki á hersnilli eða víggirðingar heldur á Jehóva allsherjar. Hann hvetur herforingja sína: „‚Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi né hræðist Assýríukonung og allan þann manngrúa, sem með honum er, því að sá er meiri, sem með oss er, en með honum. Því að hann styður mannlegur máttur, en með oss er [Jehóva], Guð vor, til þess að hjálpa oss og heyja orustur vorar.‘ Og lýðurinn treysti á orð Hiskía Júdakonungs.“ (2. Kroníkubók 32:7, 8) Sjáðu fyrir þér hina spennandi atburði sem fylgja í kjölfarið og lýst er í 36. til 39. kafla Jesajabókar.

Marskálkur flytur erindi sitt

7. Hvers vegna sendir Sanheríb marskálk sinn til Jerúsalem?

7 Sanheríb sendir marskálk sinn og tvo aðra tignarmenn til Jerúsalem og heimtar uppgjöf. (2. Konungabók 18:17) Þrír fulltrúar Hiskía ganga til fundar við þá utan borgarmúranna, þeir Eljakím dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari.  Jesaja 36:2, 3.

8. Hvernig reynir marskálkur að lama baráttuþrek Jerúsalembúa?

8 Erindi marskálks er einfalt: að telja Jerúsalembúa á að gefast upp mótþróalaust. Hann hrópar á hebresku: „Hvert er það athvarf er þú treystir á? . . . Á hvern treystir þú þá svo, að þú skulir hafa gjört uppreisn í gegn mér?“ (Jesaja 36:4, 5) Síðan hæðist hann að óttaslegnum Gyðingunum og minnir þá á að þeir séu algerlega einangraðir. Hvar geta þeir leitað stuðnings? Hjá þessum „brotna reyrstaf,“ Egyptalandi? (Jesaja 36:6) Egyptaland er eins og brotinn reyrstafur um þessar mundir því að Eþíópar hafa lagt undir sig hið fyrrverandi heimsveldi og ráða því um tíma, og núverandi faraó, Tírhaka, er ekki Egypti heldur Eþíópi. Og hann er í þann mund að bíða ósigur fyrir Assýringum. (2. Konungabók 19:8, 9) Júdamönnum er lítill stuðningur í Egyptum fyrst þeir geta ekki einu sinni bjargað sjálfum sér.

9. Af hverju ályktar marskálkur að Jehóva yfirgefi þjóð sína en hver er raunin?

9 Marskálkur fullyrðir að Jehóva berjist ekki fyrir þjóð sína því að hann hafi vanþóknun á henni. „Og segir þú við mig: ‚Vér treystum á [Jehóva], Guð vorn,‘ eru það þá ekki fórnarhæðir hans og ölturu, sem Hiskía nam burt?“ (Jesaja 36:7) En með því að rífa niður fórnarhæðirnar og ölturun í landinu voru Gyðingar auðvitað að snúa sér til Jehóva en ekki hafna honum.

10. Af hverju skiptir það ekki máli hvort varnarmenn Júda eru margir eða fáir?

10 Ögrandi og hrokafullur minnir marskálkur Gyðingana á að þeir standi öðrum langt að baki hernaðarlega: „Ég skal fá þér tvö þúsund hesta, ef þú getur sett riddara á þá.“ (Jesaja 36:8) En skiptir það máli hvort Júdamenn eiga marga þjálfaða riddara eða fáa? Nei, af því að bjargræði þeirra byggist ekki á herstyrk. „Hesturinn er hafður viðbúinn til orustudagsins, en sigurinn er í hendi [Jehóva],“ segja Orðskviðirnir 21:31. Marskálkur fullyrðir að blessun Jehóva hvíli yfir Assýringum en ekki Gyðingum, ella hefðu þeir ekki komist svona langt inn í landið.  Jesaja 36:9, 10.

11, 12. (a) Hvers vegna talar marskálkur á „Júda tungu“ og hvernig reynir hann að freista Gyðinga? (b) Hvaða áhrif kunna orð marskálks að hafa á Gyðinga?

11 Fulltrúar Hiskía hafa áhyggjur af því að mennirnir, sem heyra til marskálks uppi á borgarmúrnum, verði fyrir áhrifum af málflutningi hans svo að þeir biðja hann: „Tala þú við þjóna þína á arameísku, því að vér skiljum hana, en tala eigi við oss á Júda tungu í áheyrn fólksins, sem uppi er á borgarveggnum.“ (Jesaja 36:11) En marskálkur er ekki á þeim buxunum að tala við þá á arameísku. Hann vill sá ótta og efasemdum í hjörtu Gyðinga svo að þeir gefist upp og Jerúsalem verði unnin án átaka. (Jesaja 36:12) Hann talar því aftur á „Júda tungu“: „Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður.“ (Jesaja 36:13-17) Síðan reynir hann að freista áheyrenda og dregur upp glansmynd af því hvernig Gyðingum geti liðið undir stjórn Assýringa: „Gjörið frið við mig og gangið mér á hönd, þá skal hver yðar mega eta af sínum vínviði og sínu fíkjutré og hver yðar drekka vatn úr sínum brunni, þar til er ég kem og flyt yður í annað eins land og yðar land, í kornland og aldinlagar, í brauðland og víngarða.“ — Jesaja 36:13-17.

12 Gyðingar fá enga uppskeru þetta árið því að innrás Assýringa hefur komið í veg fyrir að þeir hafi getað sáð og gróðursett. Tilhugsunin um safarík vínber og svalandi vatn hlýtur að höfða sterkt til mannanna sem til heyra uppi á múrnum. En marskálkur hefur fleira í bakhöndinni.

13, 14. Af hverju eru örlög Samaríu málinu óviðkomandi?

13 Hann dregur nú fram nýtt rökvopn og varar Gyðinga við að trúa Hiskía ef hann segir: „[Jehóva] mun frelsa oss.“ Ekki gátu guðir Samaríu komið í veg fyrir að Assýringar sigruðu tíuættkvíslaríkið. Og hvað um guði annarra þjóða sem þeir hafa unnið? „Hvar eru guðir Hamatborgar og Arpadborgar?“ spyr hann. „Hvar eru guðir Sefarvaím? Hafa þeir frelsað Samaríu undan minni hendi?“ — Jesaja 36:18-20.

14 Marskálkur er falsguðadýrkandi og skilur auðvitað ekki að það er reginmunur á fráhvarfsborginni Samaríu og Jerúsalem undir stjórn Hiskía. Falsguðir Samaríu megnuðu ekki að bjarga tíuættkvíslaríkinu. (2. Konungabók 17:7, 17, 18) Jerúsalem hefur hins vegar snúið baki við falsguðunum og þjónar Jehóva á nýjan leik undir forystu Hiskía. En Júdamennirnir þrír reyna ekki að útskýra þetta fyrir marskálki. Þeir „þögðu og svöruðu honum engu orði, því að skipun konungs var þessi: ‚Svarið honum eigi.‘“ (Jesaja 36:21) Eljakím, Sébna og Jóak ganga síðan á fund Hiskía og greina honum frá orðum marskálks.  Jesaja 36:22.

Hiskía tekur ákvörðun

15. (a) Hvaða ákvörðun þarf Hiskía að taka? (b) Hvernig hughreystir Jehóva fólk sitt?

15 Hiskía konungur þarf að taka ákvörðun. Á Jerúsalem að gefast upp fyrir Assýringum, fá Egypta til liðs við sig eða reyna að halda velli af eigin rammleik? Það hvílir mikið á konungi. Hann sendir Eljakím og Sébna ásamt prestaöldungunum á fund Jesaja spámanns til að leita frétta hjá Jehóva en gengur sjálfur í musterið. (Jesaja 37:1, 2) Sendimenn konungs ganga fyrir Jesaja klæddir hærusekk og segja: „Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur . . . Vera má, að [Jehóva], Guð þinn, heyri orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi, herra sínum, til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er [Jehóva] Guð þinn hefir heyrt.“ (Jesaja 37:3-5) Já, Assýringar eru að ögra lifanda Guði! Ætli hann gefi gaum að spotti þeirra? Hann hughreystir Gyðingana fyrir munn Jesaja: „Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér. Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi.“ — Jesaja 37:6, 7.

16. Hvaða bréf sendir Sanheríb?

16 Sanheríb situr um Líbna þegar hér er komið sögu og kallar marskálk til sín þangað. Jerúsalem má bíða að sinni. (Jesaja 37:8) En þó að marskálkur sé á burt linnir ekki þrýstingnum á Hiskía. Sanheríb sendir hótunarbréf þar sem hann lýsir fyrir Jerúsalembúum hvað þeir eigi í vændum ef þeir gefast ekki upp: „Þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða? Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær? . . . Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?“ (Jesaja 37:9-13) Assýríukonungur segir efnislega að það sé út í hött að veita mótspyrnu, hún kosti bara meiri vandræði.

17, 18. (a) Af hvaða tilefni biður Hiskía Jehóva um vernd? (b) Hvernig svarar Jehóva Assýringum fyrir munn Jesaja?

17 Hiskía hefur þungar áhyggjur af afleiðingum þeirrar ákvörðunar sem hann þarf að taka og rekur sundur bréf Sanheríbs frammi fyrir Jehóva í musterinu. (Jesaja 37:14) Í innilegri bæn sárbænir hann Jehóva að gefa gaum að hótunum Assýringa. Hann lýkur bæninni svo: „En [Jehóva], Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, [Jehóva], einn ert Guð.“ (Jesaja 37:15-20) Ljóst er af orðum Hiskía að hann er ekki fyrst og fremst að hugsa um að bjarga eigin skinni heldur hefur hann áhyggjur af háðunginni sem nafn Jehóva má sæta ef Assýringar vinna Jerúsalem.

18 Jehóva svarar bæn Hiskía fyrir munn Jesaja spámanns. Jerúsalem á ekki að gefast upp fyrir Assýringum heldur halda velli. Það er eins og Jesaja sé að ávarpa Sanheríb er hann flytur boðskap Jehóva til Assýringa: „Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér, dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið [háðslega] á eftir þér.“ (Jesaja 37:21, 22) Síðan bætir Jehóva efnislega við: ‚Hver ert þú sem smánar Hinn heilaga í Ísrael? Ég þekki verk þín. Þú er metnaðargjarn og borginmannlegur. Þú treystir á hernaðarmátt þinn og hefur lagt undir þig mikið land. En þú ert ekki ósigrandi. Ég ætla að ónýta áform þín. Ég ætla að sigra þig. Síðan fer ég með þig eins og þú hefur farið með aðra. Ég set hring í nasir þér og leiði þig aftur heim til Assýríu.‘  Jesaja 37:23-29.

„Þetta skaltu til marks hafa“

19. Hvaða tákn gefur Jehóva Hiskía og hvað merkir það?

19 Hvaða tryggingu hefur Hiskía fyrir því að spádómur Jesaja rætist? „Þetta skaltu til marks hafa,“ segir Jehóva. „Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.“ (Jesaja 37:30) Jehóva ætlar að sjá hinum innikróuðu Gyðingum fyrir mat. Þeir geta að vísu ekki sáð vegna hersetu Assýringa en hins vegar geta þeir nýtt sér sjálfsáið korn eftir uppskeru síðasta árs. Árið á eftir, sem er hvíldarár, eiga þeir að hvíla akrana þrátt fyrir neyð sína. (2. Mósebók 23:11) Jehóva heitir þjóðinni því að nægilegt korn vaxi af sjálfu sér á ökrunum til að halda í þeim lífinu ef þeir hlýða honum. Þriðja árið mega menn svo sá með eðlilegum hætti og njóta ávaxtar erfiðis síns.

20. Hvað merkir það að Gyðingar ‚skuli að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxtu að ofan‘?

20 Jehóva líkir fólki sínu við rótfasta jurt: „Leifarnar af Júda húsi . . . skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxtu að ofan.“ (Jesaja 37:31, 32) Þeir sem treysta Jehóva þurfa ekkert að óttast því að þeir og afkomendur þeirra skulu búa áfram í landinu.

21, 22. (a) Hverju er spáð um Sanheríb? (b) Hvenær og hvernig rætast orð Jehóva um Sanheríb?

21 Hvað um hótanir Assýringa í garð Jerúsalem? Jehóva svarar: „Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni. Hann skal aftur snúa sömu leiðina, sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma.“ (Jesaja 37:33, 34) Það kemur aldrei til bardaga. Þótt ótrúlegt sé verða það Assýringar en ekki Gyðingar sem tapa án átaka.

22 Jehóva stendur við orð sín og sendir engil til að drepa úrvalslið Assýringa — 185.000 manns — líklega við Líbna. Sanheríb vaknar að morgni, finnur foringja sína, höfðingja og kappa dauða og snýr sneyptur heim til Níníve. En þrátt fyrir þennan herfilega ósigur heldur hann áfram að dýrka falsguðinn Nísrok. Tveir synir hans ráða hann af dögum nokkrum árum síðar þegar hann er að biðjast fyrir í hofi hans. Enn á ný reynist Nísrok lífvana og máttlaus.  Jesaja 37:35-38.

Jehóva styrkir trú Hiskía enn meira

23. Hvað gerist hjá Hiskía um svipað leyti og Sanheríb ræðst inn í Júda í fyrra sinnið og hvað sér hann fyrir sér?

23 Hiskía veikist heiftarlega um svipað leyti og Sanheríb ræðst inn í Júda í fyrra sinnið. Jesaja segir honum að hann muni deyja. (Jesaja 38:1) Konungur er miður sín. Honum er ekki aðeins umhugað um sjálfan sig heldur einnig framtíð þjóðarinnar. Innrás Assýringa vofir yfir Jerúsalem og Júda. Hver á að fara með forystuna gegn þeim ef hann deyr? Hinn 39 ára konungur á engan son til að taka við stjórnartaumunum og biður Jehóva innilega um að miskunna sér.  Jesaja 38:2, 3.

24, 25. (a) Hvernig svarar Jehóva bæn Hiskía? (b) Hvaða kraftaverk vinnur Jehóva sem lýst er í Jesaja 38:7, 8?

24 Jesaja er enn í hallargarðinum þegar Jehóva sendir hann með ný boð að sjúkrabeði konungs: „Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég vil enn leggja fimmtán ár við aldur þinn. Og ég vil frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg.“ (Jesaja 38:4-6; 2. Konungabók 20:4, 5) Jehóva ætlar að staðfesta loforð sitt með óvenjulegu tákni: „Ég færi aftur stigskuggann, er með sólinni hefir færst niður á sólskífu Akasar, um tíu stig.“ — Jesaja 38:7, 8a.

25 Jósefus, sagnaritari Gyðinga, segir að stigi hafi verið í konungshöllinni og sennilega hafi sólargeislarnir fallið á súlu þar hjá sem varpaði skugga á stigann. Framrás skuggans á stiganum sagði til um tímann. En nú ætlar Jehóva að vinna kraftaverk. Skugginn á að mjakast upp stigann um tíu stig eða þrep eftir að hafa fikrað sig niður eins og venja er. Annað eins hafði aldrei gerst. „Og sólin færðist aftur á bak þau tíu stig á sólskífunni, er hún hafði gengið niður,“ segir Biblían. (Jesaja 38:8b) Hiskía nær sér af veikindunum skömmu síðar. Þetta fréttist til Babýlonar og konungurinn í Babýlon gerir út sendiboða til Jerúsalem til að kynna sér málið.

26. Hvað hlýst af því að Jehóva skuli lengja ævi Hiskía?

26 Hiskía eignast fyrsta soninn, Manasse, um þrem árum eftir þennan undrabata. Manasse metur miskunn Guðs lítils er hann vex úr grasi, þó svo að hann hefði aldrei fæðst án hennar, og mestan hluta ævinnar gerir hann í stórum stíl það sem illt er í augum Jehóva. — 2. Kroníkubók 32:24; 33:1-6.

Dómgreindarleysi

27. Hvernig sýnir Hiskía hve mikils hann metur Jehóva?

27 Hiskía er trúaður maður líkt og Davíð forfaðir hans. Orð Guðs er honum mikils virði. Að sögn Orðskviðanna 25:1 lét hann taka saman það sem nú er í 25. til 29. kafla þeirrar biblíubókar. Sumir telja að hann hafi einnig ort 119. sálminn. Eftir að honum batnar yrkir hann hrífandi þakkarsálm sem ber vott um djúpstæðar tilfinningar hans, og hann lýkur sálminum á því að ekkert sé mikilvægara en að geta lofað Jehóva í musteri hans „alla vora lífdaga.“ (Jesaja 38:9-20) Megum við öll vera sama sinnis gagnvart hreinni tilbeiðslu.

28. Hvaða dómgreindarleysi sýnir Hiskía einhvern tíma eftir að hann læknast?

28 Hiskía er ófullkominn þótt trúfastur sé og gerir sig sekan um alvarlegt dómgreindarleysi einhvern tíma eftir að Jehóva læknar hann. Jesaja segir svo frá: „Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn. Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og allt vopnabúr sitt og allt, sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.“ — Jesaja 39:1, 2. *

29. (a) Hvert er hugsanlega tilefnið hjá Hiskía þegar hann sýnir sendimönnum Babýlonar auð sinn? (b) Hvaða afleiðingar hefur dómgreindarleysi konungs?

29 Mörgum þjóðum stendur stuggur af Assýringum þrátt fyrir herfilegan ósigur þeirra fyrir engli Jehóva. Babýlon er engin undantekning. Vera má að Hiskía hafi viljað vekja hrifningu Babelkonungs til að fá hann sem bandamann síðar. En Jehóva vill ekki að Júdamenn leggi lag sitt við óvinina heldur treysti sér! Hann upplýsir Hiskía um það sem í vændum er: „Þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það, sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða . . . Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon.“ (Jesaja 39:3-7) Já, þjóðin, sem Hiskía reyndi að ganga í augun á, á eftir að ræna fjársjóðum Jerúsalem og hneppa íbúana í þrælkun. Að sýna Babýloníumönnum fjársjóðinn æsir einungis ágirnd þeirra.

30. Hvaða hugarfar sýnir Hiskía?

30 Það virðist vera þetta atvik, er Hiskía sýnir Babýloníumönnum fjársjóðinn, sem ýjað er að í 2. Kroníkubók 32:26: „Þá lægði Hiskía dramb sitt, bæði hann og Jerúsalembúar, og kom því reiði [Jehóva] eigi yfir þá meðan Hiskía lifði.“

31. Hvernig farnast Hiskía og hvað lærum við af því?

31 Hiskía var trúaður maður þótt ófullkominn væri. Hann vissi að Jehóva Guð er raunveruleg persóna með tilfinningar. Undir álagi bað hann innilega til hans og fékk bænheyrslu. Jehóva veitti Hiskía frið alla ævidaga hans og það kunni hann að meta. (Jesaja 39:8) Jehóva ætti að vera jafnraunverulegur í augum okkar. Þegar erfiðleikar blasa við getum við leitað visku og lausnar hjá honum eins og Hiskía gerði, því að hann „gefur öllum örlátlega og átölulaust.“ (Jakobsbréfið 1:5) Ef við erum þolgóð og iðkum trú á Jehóva megum við treysta því að hann „umbuni þeim, er hans leita,“ bæði núna og í framtíðinni. — Hebreabréfið 11:6.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Meira en 700 milljónir króna á núvirði.

^ gr. 28 Grannþjóðirnar færðu Hiskía gull, silfur og aðra dýrgripi að gjöf eftir ósigur Sanheríbs. Sagt er í 2. Kroníkubók 32:22, 23, 27 að Hiskía hafi búið við „afar mikinn auð og sæmd“ og verið „frægur talinn meðal allra þjóða.“ Vera má að þessar gjafir hafi fyllt féhirslu hans að nýju sem hann hafði tæmt er hann greiddi Assýringum skattgjaldið.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 383]

Hiskía konungur treystir á Jehóva þegar Assýringar ógna.

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 384]

[Mynd á blaðsíðu 389]

Konungur sendir menn til Jesaja til að leita ráða Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 390]

Hiskía biður þess að nafn Jehóva vegsamist með ósigri Assýringa.

[Mynd á blaðsíðu 393]

Engill Jehóva banar 185.000 Assýringum.