Konungurinn og höfðingjar hans
25. kafli
Konungurinn og höfðingjar hans
1, 2. Hvað er hægt að segja um textann í Dauðahafshandriti Jesajabókar?
SÍÐLA á fimmta áratug tuttugustu aldar fannst mikill handritasjóður í hellum við Dauðahaf í Palestínu. Þetta eru Dauðahafshandritin svokölluðu sem eru talin rituð á árabilinu 200 f.o.t. til 70 e.o.t. Þekktast er skinnhandrit af Jesajabók skrifað á hebresku. Bókrollan er næstum heil og sáralítill munur á texta hennar og Masóretahandritunum sem eru um 1000 árum yngri. Hún er prýðisdæmi um það hve vel biblíutextinn hefur varðveist.
2 Það er athyglisvert að skrifari hefur krotað „X“ á spássíu Dauðahafshandrits Jesajabókar þar sem nú er 32. kafli. Við vitum ekki af hverju skrifarinn gerði þetta en hitt vitum við að þessi kafli heilagrar Biblíu er sérstakur.
Stjórna með réttlæti og réttvísi
3. Hvaða stjórn er spáð í Jesajabók og Opinberunarbókinni?
3 Þrítugasti og annar kafli Jesajabókar hefst á hrífandi spádómi sem er að rætast núna: „Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi.“ (Jesaja 32:1) Í hebreska textanum hefst versið á upphrópuninni „sjá“ sem minnir á sams konar upphrópun í síðustu spádómsbók Biblíunnar: „Sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.‘“ (Opinberunarbókin 21:5) Þó að 900 ár aðskilji Jesajabók og Opinberunarbókina er í þeim báðum örvandi lýsing á nýrri stjórn — ‚nýjum himni‘ með konunginn Krist Jesú í hásæti á himnum frá 1914 og 144.000 meðstjórnendur sem ‚leystir eru út úr hóp mannanna‘ — og ‚nýrri jörð‘ sem er sameinað mannfélag um heim allan. * (Opinberunarbókin 14:1-4; 21:1-4; Jesaja 65:17-25) Lausnarfórn Krists er forsenda alls þessa.
4. Hvaða kjarni nýju jarðarinnar er kominn fram á sjónarsviðið?
4 Eftir að Jóhannes postuli sér þessa 144.000 meðstjórnendur fá lokainnsigli segir hann: „Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.“ Þessi milljónamúgur er kjarni nýju jarðarinnar og honum hefur verið safnað við hlið þeirra fáu sem eftir eru af hinum 144.000 og eru flestir aldraðir. Múgurinn mikli kemst lifandi gegnum þrenginguna miklu, sem nálgast óðfluga, og inn í paradís á jörð. Þar bætast við upprisnir menn af hópi trúaðra og milljarðar annarra sem fá tækifæri til að iðka trú. Allir sem gera það hljóta eilíft líf. — Opinberunarbókin 7:4, 9-17.
5-7. Hvert er hlutverk ‚höfðingjanna‘ í hjörð Guðs?
5 En meðan núverandi heimur stendur þarf að vernda múginn mikla. Verndin er að mestu leyti veitt af ‚höfðingjunum sem stjórna með réttvísi,‘ og þeim er lýst nánar í hinum uppörvandi spádómi Jesaja: „Þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ — Jesaja 32:2.
6 Á þeim hættu- og háskatímum, sem við lifum, er þörf á ‚höfðingjum,‘ það er að segja öldungum sem ‚hafa gát á allri hjörðinni,‘ annast sauði Jehóva og stjórna með réttvísi í samræmi við réttlátar meginreglur hans. (Postulasagan 20:28) „Höfðingjarnir“ þurfa að uppfylla þær hæfniskröfur sem tilteknar eru í 1. Tímóteusarbréfi 3:2-7 og Títusarbréfinu 1:6-9.
7 „Gætið þess, að skelfast ekki,“ sagði Jesús í spádóminum mikla um hinn erfiða ‚endalokatíma veraldar.‘ (Matteus 24:3-8) Hvers vegna skyldu fylgjendur hans ekki skelfast hættuástandið sem er í heiminum núna? Meðal annars vegna þess að „höfðingjarnir,‘ bæði af hópi smurðra og ‚annarra sauða,‘ vernda hjörðina dyggilega og óttalaust, jafnvel í þjóðernisátökum og þjóðarmorðum. (Jóhannes 10:16) Þeir hressa niðurdregna í andlega sveltum heimi með uppbyggjandi sannleika frá orði Guðs, Biblíunni.
8. Hvernig er Jehóva að þjálfa ‚höfðingjana‘ af hópi annarra sauða og hvernig notar hann þá?
8 „Höfðingjarnir“ hafa komið greinilega fram á sjónarsviðið á síðastliðnum 50 árum. ‚Höfðingjar‘ af hópi annarra sauða eru þjálfaðir sem væntanlegur ‚landshöfðingjahópur‘ þannig að hæfir menn séu til reiðu sem hægt er að skipa til stjórnarstarfa á ‚nýju jörðinni.‘ (Esekíel 44:2, 3; 2. Pétursbréf 3:13) Þeir eru eins og „skuggi af stórum hamri“ með því að veita hjörðinni andlega leiðsögn, forystu og hugsvölun á vettvangi tilbeiðslunnar. *
9. Hvers vegna er þörf á ‚höfðingjum‘ núna?
9 Hinir síðustu dagar eru háskalegir og vígðir kristnir menn eru verndarþurfi. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Í illum heimi Satans blása hvassir áróðurs- og falskenningavindar og þar geisa styrjaldarstormar innan þjóða og milli. Dyggir dýrkendur Jehóva Guðs sæta jafnvel árásum. Þeir þurfa að fá hreint og ómengað sannleiksvatn til að slökkva andlegan þorsta sinn því að heimurinn er skrælnaður af andlegum þurrki. Sem betur fer hefur Jehóva lofað að láta konunginn senda smurða bræður sína og ‚höfðingjana‘ af hópi annarra sauða til að leiðbeina þeim sem eru daufir og kjarklitlir og hvetja þá. Þannig lætur hann réttlæti og réttvísi ríkja.
Gefum gaum með augum, eyrum og hjörtum
10. Hvaða ráðstafanir hefur Jehóva gert til að fólk hans geti ‚séð‘ og ‚heyrt‘ það sem andlegt er?
10 Hvernig hefur múgurinn mikli tekið við guðræðistilhögun Jehóva? Spádómurinn heldur áfram: „Þá eru augu hinna sjáandi eigi afturlukt, og þá hlusta eyru þeirra, sem heyrandi eru.“ (Jesaja 32:3) Jehóva hefur byggt upp sameinað milljónabræðralag af öllum þjóðum. Hann hefur frætt og þroskað votta sína um allan heim með ýmsu móti, þar á meðal í Guðveldisskólanum og á öðrum safnaðarsamkomum, á umdæmis-, lands- og alþjóðamótum og svo með sérhæfðri hjarðgæsluþjálfun ‚höfðingjanna.‘ Hvar sem þessir hirðar eru á jörðinni hafa þeir eyrun opin fyrir breyttum skilningi á hinu framsækna orði sannleikans. Samviska þeirra er biblíufrædd svo að þeir eru alltaf reiðubúnir til að hlusta og hlýða. — Sálmur 25:10.
11. Af hverju talar fólk Guðs með öryggi og sannfæringu?
11 Nú koma varnaðarorð: „Hjörtu hinna gálausu munu læra hyggindi og tunga hinna mállausu tala liðugt og skýrt.“ (Jesaja 32:4) Enginn ætti að álykta í gáleysi hvað sé rétt og rangt. „Sjáir þú mann, sem er fljótfær í orðum, þá er meiri von um heimskingja en hann,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 29:20; Prédikarinn 5:1) Fyrir 1919 aðhylltust þjónar Jehóva jafnvel ýmsar babýlonskar hugmyndir, en þaðan í frá hefur hann gefið þeim gleggri skilning á tilgangi sínum. Þeir hafa uppgötvað að sannleikurinn, sem hann hefur opinberað, er ekki gáleysislegur heldur úthugsaður, og þeir eru ekki mállausir af óvissu heldur tala með trúarsannfæringu.
„Heimskinginn“
12. Hverjir eru ‚heimskingjarnir‘ núna og hvernig skortir þá göfuglyndi?
12 Jesaja bendir nú á andstæðu: „Þá verður heimskinginn eigi framar kallaður göfugmenni og hinn undirföruli eigi sagður veglyndur. Heimskinginn talar heimsku.“ (Jesaja 32:5, 6a) Hver er „heimskinginn“? Rétt eins og í áhersluskyni svarar Davíð konungur í tvígang: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: ‚[Jehóva] er ekki til.‘ Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.“ (Sálmur 14:1; 53:2) Gallharðir guðleysingjar segja auðvitað að Jehóva sé ekki til. „Menntamenn“ og fleiri, sem láta eins og Guð sé ekki til, gera það sömuleiðis því að þeir láta eins og þeir þurfi ekki að svara fyrir gerðir sínar. Í slíkum mönnum er enginn sannleikur, ekkert göfuglyndi og enginn kærleiksboðskapur. Ólíkt sannkristnum mönnum eru þeir ekki að flýta sér að liðsinna bágstöddum, ef þeir gera það þá yfirleitt.
13, 14. (a) Hvernig reyna fráhvarfsmenn að valda öðrum tjóni? (b) Hverju reyna fráhvarfsmenn að halda frá hungruðum og þyrstum en hvernig fer að lokum?
13 Margir heimskingjar hata málsvara sannleika Guðs. „Hjarta hans býr mönnum ógæfu, með því að hann breytir óguðlega og talar villu gegn [Jehóva].“ (Jesaja 32:6b) Þetta er raunsönn lýsing á fráhvarfsmönnum okkar daga. Víða um lönd Evrópu og Asíu hafa þeir tekið höndum saman við aðra andstæðinga sannleikans og borið hreinar lygar í yfirvöld í von um að fá starf votta Jehóva bannað eða takmarkað. Þeir sýna sama hugarfar og ‚illi þjónninn‘ sem Jesús spáði um: „Ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ‚Húsbónda mínum dvelst,‘ og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ — Matteus 24:48-51.
14 Fráhvarfsmaðurinn „lætur hinn hungraða vera svangan og gefur eigi þyrstum manni vatnsdrykk.“ (Jesaja 32:6c) Óvinir sannleikans reyna að halda andlegri fæðu frá þeim sem hungrar í sannleikann, og þeir reyna að hindra að þyrstir menn drekki hinn hressandi guðsríkisboðskap. En svo fer að lokum sem Jehóva lýsir yfir fyrir munn annars spámanns: „Þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig — [Jehóva] segir það.“ — Jeremía 1:19; Jesaja 54:17.
15. Hverjir eru sérstaklega ‚undirförulir,‘ hvaða ‚lygaræður‘ flytja þeir og með hvaða afleiðingum?
15 Frá miðri 20. öld hefur siðleysi gengið eins og flóðbylgja yfir lönd kristna heimsins. Spádómurinn tiltekur ástæðuna: „Vopn hins undirförula eru skaðvænleg. Hann hugsar upp pretti til þess að koma hinum umkomulausa á kné með lygaræðum, og það jafnvel þótt hinn fátæki sanni rétt sinn.“ (Jesaja 32:7) Prestastéttin hefur verið sérstaklega undanlátssöm gagnvart kynlífi fyrir hjónaband, óvígðri sambúð og kynvillu — já, gagnvart ‚frillulífi og óhreinleika yfirleitt.‘ (Efesusbréfið 5:3) Þannig hefur hún ‚komið sóknarbörnunum á kné‘ með lygaræðum sínum.
16. Af hverju eru sannkristnir menn hamingjusamir?
16 Það kveður við annan tón í því sem spámaðurinn segir næst: „En göfugmennið hefir göfugleg áform og stendur stöðugur í því, sem göfuglegt er.“ (Jesaja 32:8) Jesús hvatti til göfuglyndis og örlætis: „Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúkas 6:38) Páll postuli benti líka á blessunina sem örlátir menn uppskera: ‚Minnist orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“‘ (Postulasagan 20:35) Hamingja sannkristinna manna er ekki sprottin af efnislegum auði eða þjóðfélagsstöðu heldur af örlæti — sams konar örlæti og Jehóva Guð sýnir. (Matteus 5:44, 45) Mest yndi hafa þeir af því að gera vilja hans og því að gefa af sjálfum sér til að boða öðrum ‚fagnaðarerindið um dýrð hins sæla Guðs.‘ — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.
17. Hverjir eru eins og ‚ugglausu dæturnar‘ í spádómi Jesaja?
17 Áfram er haldið í spádómi Jesaja: „Þér áhyggjulausu konur, standið upp og heyrið raust mína! Þér ugglausu dætur, gefið gaum að ræðu minni: Eftir ár og daga skulu þér hinar ugglausu skelfast, því að vínberjatekjan bregst og aldintekja verður engin. Hræðist, þér hinar áhyggjulausu! Skelfist, þér hinar ugglausu!“ (Jesaja 32:9-11a) Viðhorf þessara kvenna minna kannski á þá sem segjast þjóna Guði en leggja sig ekki fram í þjónustu hans. Slíkt fólk er að finna innan trúarbragða ‚Babýlonar hinnar miklu, móður hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.‘ (Opinberunarbókin 17:5) Þeir sem tilheyra kirkjudeildum kristna heimsins eru ákaflega líkir þessum ‚konum‘ sem Jesaja lýsir. Þeir eru ‚áhyggjulausir‘ og andvaralausir gagnvart dóminum og skelfingunni sem gleypir þá innan skamms.
18. Hverjum er sagt að ‚gyrðast hærusekk um lendar sér‘ og af hverju?
18 Áfram er haldið og nú er athygli beint að falstrúarbrögðunum: „Farið af klæðum og verið naktar, gyrðið hærusekk um lendar yðar, berið yður hörmulega vegna akranna, vegna hinna yndislegu akra, vegna hins frjósama vínviðar, vegna akurlendis þjóðar minnar þar sem vaxa munu þyrnar og þistlar, já vegna allra glaðværðarhúsanna í hinni glaummiklu borg!“ (Jesaja 32:11b-13) Orðin „farið af klæðum og verið naktar“ virðast ekki merkja að afklæðast algerlega. Siður var til forna að ganga í yfirfötum og undirfötum og voru ytri fötin oft eins konar einkennisföt. (2. Konungabók 10:22, 23; Opinberunarbókin 7:13, 14) Spádómurinn fyrirskipar áhangendum falstrúarbragðanna að afklæðast ytri fötunum — því uppgerðaryfirbragði að þeir séu þjónar Guðs — og klæðast hærusekk til tákns um að þeir harmi yfirvofandi dóm sinn. (Opinberunarbókin 17:16) Það er engan guðræknisávöxt að finna í kirkjudeildum kristna heimsins sem segist vera ‚glaummikil borg‘ Guðs, og sömu sögu er að segja af öðrum falstrúarbrögðum. Þar vex ekkert annað en „þyrnar og þistlar“ vanrækslu og vesældar.
19. Hverju spáir Jesaja um fráhvarfsborgina „Jerúsalem“?
19 Þessi dapurlega mynd teygir sig út um alla fráhvarfsborgina „Jerúsalem“: „Hallirnar munu verða mannauðar og hávaði borgarinnar hverfa. Borgarhæðin og varðturninn verða hellar um aldur og ævi, skógarösnum til skemmtunar og hjörðum til hagbeitar.“ (Jesaja 32:14) Borgarhæðin Ófel er meðtalin en hún styrkti mjög varnarstöðu Jerúsalem. Að borgarhæðin skuli verða hellir lýsir algerri eyðingu borgarinnar. Orð Jesaja bera með sér að fráhvarfsborgin „Jerúsalem“ ‚kristni heimurinn‘ sé ekki vakandi fyrir því að gera vilja Guðs. Hún er andlegt eyðihrjóstur, fjarlæg sannleika og réttvísi — dýrsleg með afbrigðum.
Fögur andstæða
20. Hvaða áhrif hefur það að anda Guðs er úthellt yfir fólk hans?
20 Jesaja bregður nú upp hrífandi von handa þeim sem gera vilja Jehóva. Meðal fólks Guðs verður eyðileggingin skammvinn, „uns úthellt verður yfir oss anda af hæðum. Þá skal eyðimörkin verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur.“ (Jesaja 32:15) Jehóva hefur úthellt anda sínum ríkulega yfir þjóna sína frá 1919 svo að aldingarður smurðra votta hans hefur lifnað við, og síðan hafa aðrir sauðir bæst við eins og vaxandi skógur. Jarðneskt skipulag Jehóva einkennist af vexti og velmegun. Fólk hans boðar hið komandi ríki um allan heim og endurspeglar „vegsemd [Jehóva] og prýði Guðs vors“ í endurreistri, andlegri paradís. — Jesaja 35:1, 2.
21. Hvar er réttlæti, ró og öryggi að finna nú á dögum?
21 Og nú gefur Jehóva unaðslegt loforð: „Réttvísin [skal] festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum. Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.“ (Jesaja 32:16, 17) Þetta er fögur lýsing á því hvernig fólk Jehóva er andlega á vegi statt núna. Þorri mannkyns er sundraður sökum haturs, ofbeldis og andlegrar örbirgðar en sannkristnir menn eru sameinaðir um allan heim þó að þeir séu „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ Þeir lifa, þjóna og starfa í samræmi við réttlæti Guðs og treysta því að þeir fái að búa við sannan frið og öryggi um alla eilífð. — Opinberunarbókin 7:9, 17.
22. Hvernig er ólíkt komið fyrir fólki Guðs og áhangendum falstrúarbragðanna?
22 Jesaja 32:18 er að rætast núna í andlegu paradísinni. Þar stendur: „Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.“ En hjá gervikristnum mönnum mun „hegla . . . þegar skógurinn hrynur og borgin steypist.“ (Jesaja 32:19) Dómur Jehóva skellur á svikaborg falstrúarbragðanna eins og ofsaleg haglhríð svo að ‚skógur‘ stuðningsmannanna hrynur og rís aldrei framar.
23. Hvaða starfi er að ljúka og hvernig er þeim innanbrjósts sem taka þátt í því?
23 „Sælir eruð þér, sem alls staðar sáið við vötn og látið uxa og asna ganga sjálfala,“ segir í lok kaflans. (Jesaja 32:20) Uxar og asnar voru burðar- og dráttardýr hjá þjóð Guðs og notuð forðum daga við plægingu og sáningu. Nú á dögum nota þjónar Jehóva prentvélar, rafeindatæki, byggingar og flutningatæki til að framleiða og dreifa biblíuritum í milljarðatali. En síðast en ekki síst eru notaðir fúsir verkamenn og sameinað guðræðisskipulag til að sá sæði Guðsríkis um alla jörðina, bókstaflega „alls staðar . . . við vötn.“ Búið er að uppskera milljónir guðhræddra karla og kvenna og enn er mikill fjöldi að bætast í hópinn. (Opinberunarbókin 14:15, 16) Og öll eru þau ‚sæl‘!
[Neðanmáls]
^ gr. 3 Í byrjunaruppfyllingunni má vera að „konungurinn“ í Jesaja 32:1 hafi verið Hiskía, en í aðaluppfyllingunni er það Kristur Jesús.
^ gr. 8 Sjá Varðturninn 1. apríl 1999, bls. 23-27, útgefinn af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 331]
Krossað er við 32. kafla í Dauðahafshandriti Jesajabókar.
[Mynd á blaðsíðu 333]
„Höfðingjarnir“ eru hver og einn eins og hlé fyrir vindi, skjól fyrir skúrum, vatnslækir í öræfum og skuggi fyrir sól.
[Mynd á blaðsíðu 338]
Kristinn maður hefur yndi af því að segja öðrum frá fagnaðarerindinu.