Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Paradís endurreist!

Paradís endurreist!

28. kafli

Paradís endurreist!

Jesaja 35:1-10

1. Af hverju er paradísarvonin algeng í trúarbrögðum heims?

 „PARADÍSARÞRÁIN er ein af hinum sterku þrám sem virðast blunda í manninum, hugsanlega sú sterkasta og lífseigasta. Í öllum trúarbrögðum sjást merki um vissa paradísarlöngun.“ Þetta stendur í trúfræðibókinni The Encyclopedia of Religion. Þessi þrá er eðlileg því að Biblían segir að fyrsta heimili mannsins hafi verið paradís — undurfagur garður þar sem sjúkdómar og dauði voru ekki til. (1. Mósebók 2:8-15) Engin furða að mörg af trúarbrögðum heims skuli halda á loft einhvers konar paradísarvon.

2. Hvar finnum við sanna paradísarvon?

2 Biblían segir víða frá hinni sönnu paradísarvon. (Jesaja 51:3) Því er til dæmis lýst í 35. kafla Jesajabókar hvernig eyðimerkur breytast í garða og frjósama akra, blindir fá sjón, mállausir tala og daufir heyra. Í paradísinni verða hvorki andvörp né hryggð sem gefur til kynna að dauðinn hverfi. Þetta er fagurt fyrirheit! Ber það með sér von fyrir nútímamenn? Svörin er að finna í 35. kafla Jesajabókar.

Eyðilandið gleðst

3. Hvaða breyting verður á landinu samkvæmt spádómi Jesaja?

3 Innblásinn spádómur Jesaja um endurreista paradís hefst þannig: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd [Jehóva] og prýði Guðs vors.“ — Jesaja 35:1, 2.

4. Hvenær og hvernig verður heimaland Gyðinga eins og eyðimörk?

4 Jesaja skrifar þetta nálægt árinu 732 f.o.t. Babýloníumenn eyða Jerúsalem um 125 árum síðar, Júdamenn eru fluttir í útlegð og landið leggst í eyði. (2. Konungabók 25:8-11, 21-26) Þannig rætist viðvörun Jehóva þess efnis að Ísraelsmenn verði sendir í útlegð ef þeir reynast ótrúir. (5. Mósebók 28:15, 36, 37; 1. Konungabók 9:6-8) Vökvaðir akrar og aldingarðar leggjast í órækt og verða eins og eyðimörk þegar Hebrear eru fluttir af landi brott í 70 ára útlegð. — Jesaja 64:9; Jeremía 4:23-27; 9:10-12.

5. (a) Hvernig eru paradísarskilyrði endurreist í landinu? (b) Í hvaða skilningi fær fólk að ‚sjá vegsemd Jehóva‘?

5 En landauðnin verður ekki ævarandi samkvæmt spádómi Jesaja því að landið á að byggjast að nýju og breytast í sanna paradís. Það á að hljóta „vegsemd Líbanons“ og „prýði Karmels og Sarons.“ * Hvernig? Með því að endurheimta fyrri frjómátt þegar Gyðingar snúa heim úr útlegðinni og taka að erja og vökva akrana að nýju. Þetta er engum nema Jehóva að þakka. Það er með vilja hans, blessun og stuðningi sem Gyðingum verður búið þetta paradísarumhverfi. Þeir sjá ‚vegsemd Jehóva og prýði Guðs síns‘ þegar þeir viðurkenna hönd hans í þessari stórkostlegu breytingu á landinu.

6. Á hvaða mikilvægan hátt rætast orð Jesaja?

6 En orð Jesaja rætast á annan og mikilvægari hátt í Ísrael eftir endurreisnina. Andlega hefur þjóðin verið eins og skrælnuð eyðimörk um árabil. Hrein tilbeiðsla var miklum takmörkum háð meðan útlagarnir voru í Babýlon. Þar var hvorki musteri, altari né skipulögð prestastétt og daglegar fórnir lögðust af. En Jesaja spáir umskiptum. Undir forystu manna á borð við Serúbabel, Esra og Nehemía snúa fulltrúar allra ættkvíslanna 12 heim til Jerúsalem, endurreisa musterið og tilbiðja Jehóva að vild. (Esrabók 2:1, 2) Þetta er andleg paradís!

Brennandi í andanum

7, 8. Af hverju þurfa hinir útlægu Gyðingar að vera jákvæðir og hvernig eru orð Jesaja hvetjandi?

7 Það er gleðiblær yfir 35. kafla bókarinnar. Spámaðurinn boðar iðrandi þjóð bjarta framtíð. Orð hans lýsa sannfæringu og bjartsýni. Hinir útlægu Gyðingar þurfa á sömu sannfæringu og bjartsýni að halda tveim öldum síðar þegar endurreisnin stendur fyrir dyrum. Jehóva hvetur þá: „Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné! Segið hinum ístöðulausu: ‚Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður.‘“ — Jesaja 35:3, 4.

8 Að lokinni langri útlegð er tíminn kominn til að láta hendur standa fram úr ermum. Kýrus Persakonungur, sem fullnægði hefnd Jehóva á Babýlon, hefur boðað að tilbeiðslan á Jehóva skuli endurreist í Jerúsalem. (2. Kroníkubók 36:22, 23) Þúsundir hebreskra fjölskyldna þurfa að taka sig upp og leggja í hættulegt ferðalag frá Babýlon til Jerúsalem. Þegar þangað er komið þarf að reisa viðunandi húsnæði og búa sig undir hið mikla verk að endurbyggja musterið og borgina. Sumum Gyðingum í Babýlon vex þetta kannski í augum, en nú er ekki tími veiklyndis og kvíða. Gyðingar eiga að styrkja hver annan og treysta á Jehóva, og hann fullvissar þá um að þeir verði óhultir.

9. Hverju er Gyðingum heitið við heimkomuna?

9 Þeir sem leystir eru úr ánauðinni í Babýlon hafa ærna ástæðu til að fagna vegna þess að fögur framtíð bíður þeirra við heimkomuna til Jerúsalem. Jesaja boðar: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ — Jesaja 35:5, 6a.

10, 11. Af hverju hljóta orð Jesaja að rætast andlega á Gyðingum og hvað gefa þau í skyn?

10 Jehóva var greinilega að tala um andlegt ásigkomulag þjóðarinnar. Henni hafði verið refsað með 70 ára útlegð fyrir fráhvarf sitt forðum daga. En Jehóva sló Ísraelsmenn ekki blindu, heyrnarleysi, helti né málleysi svo að það þarf ekki að lækna þá af líkamlegri fötlun samfara endurreisninni. Þeir fá aftur það sem þeir glötuðu, það er að segja andlegt heilbrigði.

11 Iðrandi Gyðingar læknast á þann hátt að þeir endurheimta andleg skilningarvit sín — andlegu sjónina og hæfileikann að heyra, hlýða og tala orð Jehóva. Þeim verður ljóst að þeir þurfa að varðveita náin tengsl við hann. Þeir ‚lofsyngja‘ Guði fagnandi með góðri breytni sinni. Hinn „halti“ verður svo ákafur og atorkusamur í tilbeiðslunni á Jehóva að það er eins og hann ‚létti sér sem hjörtur.‘

Jehóva endurnærir fólk sitt

12. Í hvaða mæli veitir Jehóva landinu vatn?

12 Það er erfitt að ímynda sér paradís án vatns. Gnóttir vatns voru í paradísinni Eden. (1. Mósebók 2:10-14) Í landinu, sem Ísrael fékk til eignar, var ‚fjöldi lækja, linda og djúpra vatna.‘ (5. Mósebók 8:7) Hið hressandi fyrirheit Jesaja er því vel við hæfi: „Vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.“ (Jesaja 35:6b, 7) Eyðisvæðin þar sem sjakalar höfðust við verða græn og gróskumikil þegar Ísraelsmenn taka að annast landið á nýjan leik. Þurr og sólbrunnin jörð breytist í „mýri“ með reyr og sefgróðri. — Jobsbók 8:11.

13. Hvaða andlegt vatn getur þjóðin teygað eftir heimkomuna?

13 En mikilvægara er þó að Gyðingar geta teygað hið andlega sannleiksvatn að vild eftir heimkomuna. Jehóva mun miðla þeim þekkingu, hvatningu og hughreystingu með orði sínu. Trúfastir öldungar og höfðingjar verða eins og „vatnslækir í öræfum.“ (Jesaja 32:1, 2) Hvatamenn hreinnar tilbeiðslu, svo sem Esra, Haggaí, Jósúa, Nehemía, Sakaría og Serúbabel, verða lifandi vitnisburður þess að spádómur Jesaja sé að uppfyllast. — Esrabók 5:1, 2; 7:6, 10; Nehemíabók 12:47.

„Brautin helga“

14. Hvernig var hægt að komast milli Babýlonar og Jerúsalem?

14 En hinir útlægu Gyðingar eiga fyrir höndum langa og stranga ferð frá Babýlon til Jerúsalem áður en þessi paradís, andleg og efnisleg, verður að veruleika. Beinasta leiðin er um 800 kílómetra löng og liggur um skrælnuð eyðihrjóstur. Það er hægt að fara aðra auðfarnari leið en hún er 1600 kílómetra löng. Hvora leiðina sem þeir velja verða þeir berskjaldaðir fyrir náttúruöflunum um margra mánaða skeið og hætta búin bæði af dýrslegum mönnum og villidýrum. En þeir sem trúa spádómi Jesaja eru ekkert sérlega áhyggjufullir. Hvers vegna?

15, 16. (a) Hvernig verndar Jehóva trúfasta Gyðinga á heimleiðinni? (b) Í hvaða öðrum skilningi eru Gyðingar óhultir á heimleiðinni?

15 Jehóva lofar þeim fyrir munn Jesaja: „Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar. Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar.“ (Jesaja 35:8, 9) Jehóva hefur endurheimt þjóð sína! Hún er ‚endurleyst‘ og hann ábyrgist vernd hennar á heimleiðinni. Það liggur engin afgirt, upphækkuð og steinlögð þjóðbraut milli Babýlonar og Jerúsalem, en vernd Jehóva er svo örugg að það er engu líkara en að þeir séu á slíkri þjóðbraut. — Samanber Sálm 91:1-16.

16 Gyðingar njóta einnig verndar fyrir andlegum hættum. Hin táknræna þjóðbraut er „brautin helga.“ Enginn fær að ganga hana sem er andlega óhreinn eða virðir ekki það sem heilagt er. Þeirra er ekki óskað í landinu þegar það er byggt að nýju. Þeir sem ganga brautina helgu gera það af réttum hvötum. Andlega sinnaðir Gyðingar snúa ekki heim til Júda og Jerúsalem sökum þjóðrembu eða eiginhagsmuna heldur vita að meginástæða heimfararinnar er sú að endurreisa hreina tilbeiðslu á Jehóva í landinu. — Esrabók 1:1-3.

Fólk Jehóva fagnar

17. Hvernig hefur spádómur Jesaja hughreyst trúfasta Gyðinga á útlegðarárunum?

17 Þrítugasta og fimmta kafla Jesajabókar lýkur á glaðlegum nótum: „Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ (Jesaja 35:10) Gyðingar hafa sótt von og hughreystingu í þennan spádóm á útlegðarárunum en þeim hefur kannski verið spurn hvernig ýmsir þættir hans myndu rætast. Margt hefur trúlega verið þeim ráðgáta. En eitt var víst — þeir myndu ‚hverfa aftur með fögnuði til Síonar.‘

18. Hvernig víkja hryggðin og andvörpin í Babýlon fyrir fögnuði og gleði hinna heimkomnu?

18 Þess vegna er lagt upp í fjögurra mánaða ferðalag heim til Jerúsalem árið 537 f.o.t. Í förinni eru 50.000 karlmenn (þar á meðal rösklega 7000 þrælar), auk kvenna og barna sem treysta Jehóva óhikað. (Esrabók 2:64, 65) Fáeinum mánuðum síðar er búið að stíga fyrsta skrefið að endurreisn musterisins með því að byggja altarið að nýju. Hinn 200 ára gamli spádómur Jesaja hefur uppfyllst. Hryggð og andvörp útlegðaráranna í Babýlon víkja fyrir fögnuði og gleði endurreisnarinnar. Jehóva hefur uppfyllt loforð sitt og paradís er endurreist — bæði efnislega og andlega.

Ný þjóð verður til

19. Af hverju segjum við að spádómur Jesaja hafi aðeins ræst að hluta til á sjöttu öld f.o.t.?

19 En 35. kaflinn rætist aðeins að takmörkuðu leyti á sjöttu öld f.o.t. Paradís hinna heimkomnu endist ekki til langframa því að falstrúarkenningar og þjóðernishyggja ná að spilla hreinni tilbeiðslu með tíð og tíma. Aftur mega Gyðingar þola andlega hryggð og andvörp og að síðustu hafnar Jehóva þeim sem þjóð sinni. (Matteus 21:43) Gleðin endist ekki til lengdar af því að óhlýðnin tekur sig upp að nýju. Það bendir til þess að 35. kaflinn eigi að hljóta aðra og meiri uppfyllingu.

20. Hvaða nýr Ísrael varð til á fyrstu öld?

20 Í fyllingu tímans kom fram á sjónarsviðið önnur Ísraelsþjóð sem var andleg. (Galatabréfið 6:16) Jesús lagði grunn að tilurð hennar þegar hann þjónaði á jörð. Hann endurvakti hreina tilbeiðslu og sannleiksvatnið tók að streyma fram að nýju með kennslu hans. Hann læknaði sjúka, jafnt líkamlega sem andlega. Boðun fagnaðarerindisins um ríkið vakti mikla gleði. Jesús stofnsetti kristna söfnuðinn sjö vikum eftir dauða sinn og upprisu og þar með var kominn fram andlegur Ísrael myndaður bæði af Gyðingum og öðrum sem endurleystir voru með úthelltu blóði hans. Þeir voru getnir sem andlegir synir Guðs og bræður Jesú og smurðir heilögum anda. — Postulasagan 2:1-4; Rómverjabréfið 8:16, 17; 1. Pétursbréf 1:18, 19.

21. Hvaða atburði má telja hafa uppfyllt vissa þætti í spádómi Jesaja á fyrstu öld?

21 Páll postuli vísaði í Jesaja 35:3 í bréfi til hins andlega Ísraels er hann sagði: „Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.“ (Hebreabréfið 12:12) (Hebreabréfið 12:12) Ljóst er því að Jesaja 35. kafli rættist á fyrstu öldinni. Jesús og lærisveinar hans höfðu bókstaflega unnið það kraftaverk að veita blindum sýn og daufum heyrn. „Haltir“ gátu gengið og mállausir talað. (Matteus 9:32; 11:5; Lúkas 10:9) Mikilvægara var þó að hjartahreinir menn losnuðu úr fjötrum falstrúar og eignuðust andlega paradís í kristna söfnuðinum. (Jesaja 52:11; 2. Korintubréf 6:17) Þeir komust að raun um að þeir þyrftu að vera jákvæðir og hugrakkir líkt og Gyðingar eftir heimkomuna frá Babýlon. — Rómverjabréfið 12:11.

22. Hvernig lentu sannleiksleitandi kristnir menn í babýlonarfjötrum?

22 Hvað um nútímann? Uppfyllist spádómur Jesaja líka á kristna söfnuðinum á okkar dögum og í ríkari mæli? Já, eftir dauða postulanna fækkaði smurðum sannkristnum mönnum til muna og falskristnir menn, „illgresið,“ döfnuðu. (Matteus 13:36-43; Postulasagan 20:30; 2. Pétursbréf 2:1-3) Þegar einlægir menn tóku að aðgreina sig frá kristna heiminum á 19. öld og leitast við að tilbiðja Guð í hreinleika var skilningur þeirra samt sem áður undir áhrifum óbiblíulegra kenninga. Jesús settist í hásæti sem messíasarkonungur árið 1914 en skömmu síðar syrti í álinn hjá þessum sannleiksunnendum. Þjóðirnar ‚háðu stríð við þá og sigruðu þá‘ eins og spáð var og börðu niður allar tilraunir til að boða fagnaðarerindið. Í reynd voru þeir hnepptir í babýlonarfjötra. — Opinberunarbókin 11:7, 8.

23, 24. Hvernig hafa orð Jesaja ræst meðal fólks Guðs frá 1919?

23 En árið 1919 varð breyting á og Jehóva leysti þjóna sína úr ánauð. Þeir tóku að losa sig við falskenningarnar sem höfðu spillt tilbeiðslu þeirra fram að því og hlutu lækningu. Þeir gengu inn í andlega paradís sem er að breiðast út um jörðina enn þann dag í dag. Í andlegum skilningi læra blindir að sjá og daufir að heyra. Þeir vakna fyllilega til vitundar um starfsemi heilags anda og eru sívakandi fyrir því að þeir þurfi að halda sig fast við Jehóva. (1. Þessaloníkubréf 5:6; 2. Tímóteusarbréf 4:5) Sannkristnir menn eru ekki mállausir lengur heldur ‚lofsyngja“ ákaflega með því að boða öðrum sannleika Biblíunnar. (Rómverjabréfið 1:15) Þeir sem áður voru andlega veikburða eða ‚haltir‘ eru nú glaðir og kostgæfnir. Á táknmáli má segja að þeir geti ‚létt sér sem hirtir.‘

24 Þessir kristnu menn ganga ‚brautina helgu‘ sem liggur út úr Babýlon hinni miklu inn í andlega paradís, og hún er opin öllum andlega hreinum guðsdýrkendum. (1. Pétursbréf 1:13-16) Þeir geta reitt sig á vernd Jehóva og treyst því að Satan tekst ekki að útrýma sannri tilbeiðslu með grimmdarárásum sínum. (1. Pétursbréf 5:8) Óhlýðnir menn og þeir sem hegða sér eins og gráðug og glefsandi dýr fá ekki að spilla þeim sem ganga brautina helgu. (1. Korintubréf 5:11) Endurleystir þjónar hins eina sanna Guðs, bæði smurðir og ‚aðrir sauðir,‘ njóta þess að þjóna honum í þessu verndaða umhverfi. — Jóhannes 10:16.

25. Á 35. kafli Jesaja eftir að rætast bókstaflega? Skýrðu svarið.

25 Hvað ber framtíðin í skauti sínu? Á spádómur Jesaja eftir að uppfyllast bókstaflega? Já, kraftaverkalækningar Jesú og postulanna á fyrstu öld voru merki um löngun og getu Jehóva til að framkvæma slíkar lækningar í stórum stíl í framtíðinni. Sálmarnir tala um friðsæld og eilíft líf á jörðinni. (Sálmur 37:9, 11, 29) Jesús lofaði paradís. (Lúkas 23:43) Allt til síðustu bókar heldur Biblían á loft voninni um bókstaflega paradís þar sem blindir, daufir, haltir og mállausir læknast líkamlega í eitt skipti fyrir öll. Hryggð og andvörp munu flýja og fögnuður ríkja um alla eilífð. — Opinberunarbókin 7:9, 16, 17; 21:3, 4.

26. Hvernig eru orð Jesaja styrkjandi fyrir kristna menn nú á tímum?

26 Sannkristnir menn búa í andlegri paradís meðan þeir bíða þess að hin bókstaflega verði endurreist. Þeir eru bjartsýnir í prófraunum og þrengingum. Þeir treysta Jehóva óhagganlega og hvetja hver annan eins og brýnt er fyrir þeim: „Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné! Segið hinum ístöðulausu: ‚Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar!‘“ Þeir treysta fullkomlega fyrirheiti spádómsins: „Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður.“ — Jesaja 35:3, 4.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Ritningin lýsir Líbanon fortíðar sem frjósömu landi með gróskumiklum skógum og tignarlegum sedrustrjám, sambærilegu við Edengarðinn. (Sálmur 29:5; 72:16; Esekíel 28:11-13) Saron var þekkt fyrir ár og eikarskóga og Karmel fyrir víngarða, aldingarða og blómklæddar hlíðar.

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 370]

[Mynd á blaðsíðu 375]

Reyr og sefgróður vex þar sem áður var eyðimörk.

[Mynd á blaðsíðu 378]

Jesús læknaði sjúka, bæði andlega og líkamlega.