Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ráðstöfun Jehóva gegn öllum þjóðum

Ráðstöfun Jehóva gegn öllum þjóðum

15. kafli

Ráðstöfun Jehóva gegn öllum þjóðum

Jesaja 14:24–19:25

1. Hvaða dóm gegn Assýríu skráir Jesaja?

 JEHÓVA getur notað aðrar þjóðir til að aga sína eigin þjóð vegna vonsku hennar. En það afsakar ekki óþarfa grimmd þeirra, dramb og fjandskap gagnvart sannri tilbeiðslu. Þess vegna innblæs hann Jesaja löngu fyrir fram að skrá niður ‚spádóm um Babýlon.‘ (Jesaja 13:1) En það stafar ekki ógn af Babýlon fyrr en seinna meir. Á dögum Jesaja er það Assýría sem kúgar sáttmálaþjóð Guðs. Assýría eyðir norðurríkið Ísrael og leggur stóran hluta Júda í rúst. En sigurgleði Assýríu er skammvinn. Jesaja skrifar: „[Jehóva] allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða . . . Ég mun sundurmola Assýríu í landi mínu og fótum troða hana á fjöllum mínum. Skal þá ok hennar af þeim tekið og byrði hennar tekin af herðum þeirra.“ (Jesaja 14:24, 25) Skömmu eftir að Jesaja ber fram þennan spádóm hættir Júda að stafa ógn af Assýríu.

2, 3. (a) Gegn hverjum rétti Jehóva út hönd sína forðum daga? (b) Hvað merkir það að hönd Jehóva sé útrétt gegn „öllum þjóðum“?

2 En hvað um aðrar þjóðir sem eru fjandsamlegar sáttmálaþjóð Guðs? Þær þurfa líka að fá sinn dóm. Jesaja lýsir yfir: „Þetta er sú ráðstöfun, sem áformuð er um alla jörðina, og þetta er sú hönd, sem út er rétt gegn öllum þjóðum. [Jehóva] allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur?“ (Jesaja 14:26, 27) „Ráðstöfun“ eða „ráðsályktun“ Jehóva er óhagganleg ákvörðun hans eða tilskipun. (Jeremía 49:20, 30) „Hönd“ hans er mátturinn sem hann beitir. Síðustu versin í 14. kafla Jesajabókar og 15. til 19. kafla fjalla um ráðstöfun hans gegn Filisteu, Móab, Damaskus, Blálandi (Eþíópíu) og Egyptalandi.

3 En Jesaja segir að hönd Jehóva sé útrétt gegn „öllum þjóðum.“ Þess vegna hljóta þessar spár Jesaja að eiga í meginatriðum við á ‚endalokatímanum‘ þegar Jehóva réttir út hönd sína gegn öllum ríkjum jarðar, þó svo að þær uppfyllist fyrst í heimi fornaldar. (Daníel 2:44; 12:9; Rómverjabréfið 15:4; Opinberunarbókin 19:11, 19-21) Alvaldur Guð Jehóva opinberar ráðstöfun sína óhikað löngu fyrir fram. Enginn getur bægt útréttri hendi hans frá. — Sálmur 33:11; Jesaja 46:10.

„Flugdreki“ gegn Filisteu

4. Hver eru meginatriðin í spádómi Jehóva gegn Filisteu?

4 Jehóva snýr sér fyrst að Filistum. „Þessi spádómur var birtur árið, sem Akas konungur andaðist. Gleðst þú eigi, gjörvöll Filistea, af því að stafurinn, sem sló þig, er í sundur brotinn, því að út af rót höggormsins mun naðra koma og ávöxtur hennar verða flugdreki.“ — Jesaja 14:28, 29.

5, 6. (a) Hvernig er Ússía eins og höggormur gagnvart Filistum? (b) Hvað er Hiskía gagnvart Filisteu?

5 Ússía konungur átti í fullu tré við Filista. (2. Kroníkubók 26:6-8) Hann var eins og höggormur gagnvart þessari óvinveittu þjóð og stafur hans dundi linnulaust á henni. Með dauða Ússía ‚sundur brotnaði stafurinn‘ og hinn trúfasti Jótam tók við völdum en „lýðurinn aðhafðist enn óhæfu.“ Akas var næstur á valdastóli. Þá skipuðust veður í lofti því að Filistar réðust inn í Júda og varð vel ágengt. (2. Kroníkubók 27:2; 28:17, 18) En nú eru veður aftur að skipast í lofti. Akas konungur deyr árið 746 f.o.t. og Hiskía sest í hásætið ungur að árum. Filistum skjátlast hrapallega ef þeir halda að þeir eigi góða daga fyrir höndum. Hiskía reynist hættulegur fjandmaður. Hann er afkomandi Ússía (‚ávöxturinn‘ af „rót“ hans) og er eins og „flugdreki“ því að árásir hans eru leiftursnöggar og fórnarlömbunum svíður undan þeim rétt eins og hann hafi spýtt eitri í þau.

6 Þetta lýsir nýja konunginum vel. Hiskía „vann . . . sigur á Filistum alla leið til Gasa og eyddi landið umhverfis hana.“ (2. Konungabók 18:8) Samkvæmt annálum Sanheríbs Assýríukonungs verða Filistar þegnskyldir Hiskía. „Hinir allralítilmótlegustu“ — hið veiklaða Júdaríki — býr við öryggi og efnislegar nægtir en Filistea líður hungur. — Lestu Jesaja 14:30, 31.

7. Hvernig á Hiskía að svara sendimönnunum sem komnir eru til Jerúsalem?

7 Svo virðist sem sendiherrar séu staddir í Júda, hugsanlega til að falast eftir bandalagi gegn Assýríu. Hvað á að segja þeim? „Hverju skal þá svara sendimönnum hinnar heiðnu þjóðar?“ Á Hiskía að treysta öryggi landsins með bandalagi við erlend ríki? Nei, hann á að segja sendimönnunum „að [Jehóva] hafi grundvallað Síon, og að hinir þjáðu meðal þjóðar hans leiti sér hælis í henni.“ (Jesaja 14:32) Konungurinn verður að treysta Jehóva skilyrðislaust. Síon stendur á traustum grunni. Borgin verður öruggt skjól þegar Assýringar ógna. — Sálmur 46:2-8.

8. (a) Hvernig hafa sumar nútímaþjóðir líkst Filisteu? (b) Hvernig hefur Jehóva stutt fólk sitt nú á tímum líkt og forðum daga?

8 Sumar þjóðir eru mjög fjandsamlegar gagnvart þeim sem dýrka Jehóva nú á dögum, líkt og Filistea forðum daga. Kristnir vottar Jehóva hafa verið hnepptir í fangelsi og fangabúðir. Starfsemi þeirra hefur verið bönnuð og margir drepnir. Andstæðingar halda áfram að „ráðast á líf hins réttláta.“ (Sálmur 94:21) Óvinunum finnst þessi kristni hópur ‚lítilmótlegur‘ og ‚fátækur.‘ En með stuðningi Jehóva býr hann við andlegar nægtir þótt óvinina hungri. (Jesaja 65:13, 14; Amos 8:11) Þegar Jehóva réttir út hönd sína gegn Filistum nútímans verða þessir ‚lítilmótlegu‘ menn óhultir. Hvar? Með ‚heimamönnum Guðs‘ sem eiga Jesú að traustum hyrningarsteini. (Efesusbréfið 2:19, 20) Og þeir njóta verndar „hinnar himnesku Jerúsalem“ sem er ríki Jehóva á himnum í höndum konungsins Jesú Krists. — Hebreabréfið 12:22; Opinberunarbókin 14:1.

Þaggað niður í Móab

9. Gegn hvaða þjóð beinist næsti spádómur og hvernig hefur hún sýnt fólki Guðs fjandskap?

9 Við austanvert Dauðahaf á Ísrael sér annan nágranna, Móab. Móabítar eru komnir af Lot, bróðursyni Abrahams, og eru því skyldir Ísraelsmönnum, ólíkt Filistum. (1. Mósebók 19:37) Þrátt fyrir ættartengslin hafa þeir löngum sýnt Ísraelsmönnum fjandskap. Konungur Móabs réð spámanninn Bíleam til að formæla Ísraelsmönnum á dögum Móse, svo dæmi sé tekið. Þegar það mistókst leiddu Móabítar Ísraelsmenn í gildru siðleysis og Baalsdýrkunar. (4. Mósebók 22:4-6; 25:1-5) Það er því ekkert undarlegt að Jehóva skuli innblása Jesaja að skrá niður ‚spádóm um Móab.‘ — Jesaja 15:1a.

10, 11. Hvað verður um Móab?

10 Spádómur Jesaja beinist gegn fjölda borga og staða í Móab, þar á meðal Ar, Kír (eða Kír Hareset) og Díbon. (Jesaja 15:1b, 2a) Móabítar munu sjá eftir rúsínukökunum frá Kír Hareset sem kunna að hafa verið helsta framleiðsluvara borgarinnar. (Jesaja 16:6, 7) Síbma og Jaser, frægar fyrir vínrækt, verða ekki svipur hjá sjón. (Jesaja 16:8-10) Eglat Selisía, sem merkir hugsanlega „þriggja vetra kvíga,“ verður eins og þróttmikil ungkýr sem öskrar af neyð. (Jesaja 15:5) Grasið skrælnar og landið þornar upp en „vötn Dímonar“ verða full af blóði vegna þess að Móabítar eru strádrepnir. „Nimrímvötn“ verða að „öræfum,“ annaðhvort táknrænt eða bókstaflega, trúlega vegna þess að óvinasveitir stífla árnar.  Jesaja 15:6-9.

11 Móabítar munu tjá sorg sína með því að gyrðast hærusekk og raka sig sköllótta til tákns um skömm sína og kveinstafi. Skegg þeirra verður „af rakað“ til merkis um ákafa sorg og auðmýkingu. (Jesaja 15:2b-4) Jesaja sjálfur finnur sárt til því að hann er viss um að þessir dómar uppfyllast. Hjarta hans titrar af meðaumkun líkt og hörpustrengir vegna hins válega boðskapar gegn Móab.  Jesaja 16:11, 12.

12. Hvernig rættust orð Jesaja gegn Móab?

12 Hvenær rætist spádómurinn? Innan skamms. „Þetta er það orð, sem [Jehóva] talaði um Móab fyrrum. En nú talar [Jehóva] á þessa leið: Áður en þrjú ár eru liðin, slík sem ár kaupamanna eru talin, skal vegsemd Móabs með öllum hinum mikla mannfjölda fyrirlitin verða, en leifar munu eftir verða, lítilfenglegar, eigi teljandi.“ (Jesaja 16:13, 14) Þetta kemur heim og saman við fornleifafundi sem sýna að Móabítar gengu gegnum miklar raunir á áttundu öld f.o.t. og margar borgir þeirra lögðust í eyði. Tíglat Píleser 3. nefnir að Salamanú Móabskonungur hafi greitt sér skattgjald. Sanheríb fékk greiddan skatt frá Kammusunadbí konungi í Móab. Asarhaddon og Assúrbanípal Assýríukonungar tala um Músúrí og Kamashaltú Móabskonunga sem þegna sína. Móabítar hurfu af sjónarsviðinu sem þjóð fyrir mörgum öldum. Fundist hafa rústir borga, sem þeir eru taldir hafa byggt, en að öðru leyti hafa litlar menjar fundist um þennan volduga óvin Ísraels sem einu sinni var.

„Móab“ nútímans fyrirferst

13. Hvað er á sjónarsviðinu núna sem líkist Móab?

13 Núna er kristni heimurinn á sjónarsviðinu. Hann er meginstoð ‚Babýlonar hinnar miklu‘ og líkist Móab fortíðar. (Opinberunarbókin 17:5) Bæði Móabítar og Ísraelsmenn voru afkomendur Tara, föður Abrahams. Kristni heimurinn segist, líkt og söfnuður smurðra kristinna manna, vera sprottinn af kristna söfnuðinum á fyrstu öld. (Galatabréfið 6:16) En kristni heimurinn er spilltur líkt og Móab og ýtir undir andlegt siðleysi og dýrkun annarra guða en Jehóva sem er hinn eini sanni Guð. (Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Sem stétt eru forystumenn kristna heimsins andsnúnir þeim sem prédika fagnaðarerindið um ríkið. — Matteus 24:9, 14.

14. Hvaða von er um einstaklinga innan kristna heimsins, þrátt fyrir ráðstöfun Jehóva gegn „Móab“ nútímans?

14 Um síðir var þaggað niður í Móab og eins fer fyrir kristna heiminum. Jehóva notar nútímahliðstæðu Assýríu til að eyða honum. (Opinberunarbókin 17:16, 17) En þeir sem búa í „Móab“ nútímans eiga undankomuvon. Í miðjum spádóminum gegn Móab segir Jesaja: „Þá mun veldisstóll reistur verða með miskunnsemi og á honum sitja með trúfesti í tjaldi Davíðs dómari, sem leitar réttinda og temur sér réttlæti.“ (Jesaja 16:5) Jehóva reisti veldisstól Jesú árið 1914 sem varð þá stjórnandi af ætt Davíðs konungs. Konungdómur hans er merki um miskunn Jehóva og mun standa að eilífu eins og heitið var í sáttmálanum við Davíð konung. (Sálmur 72:2; 85:11, 12; 89:4, 5; Lúkas 1:32) Margt auðmjúkra manna hefur yfirgefið „Móab“ nútímans og gengist undir stjórn Jesú til að öðlast líf. (Opinberunarbókin 18:4) Það er hughreystandi fyrir þá að Jesús skuli „boða þjóðunum rétt.“ — Matteus 12:18; Jeremía 33:15.

Damaskus verður að molnandi rúst

15, 16. (a) Hvaða fjandskap sýna Damaskus og Ísrael Júdamönnum og hvaða afleiðingar hefur það fyrir Damaskus? (b) Til hverra nær spádómurinn gegn Damaskus einnig? (c) Hvað geta kristnir menn lært af því sem henti Ísrael?

15 Næst flytur Jesaja ‚spádóm um Damaskus.‘ (Lestu Jesaja 17:1-6.) Damaskus liggur norður af Ísrael og er „höfuð Sýrlands.“ (Jesaja 7:8) Resín konungur í Damaskus og Peka Ísraelskonungur gera sameiginlega innrás í Júda í stjórnartíð Akasar. En að beiðni Akasar fer Tíglat Píleser 3. Assýríukonungur herför til Damaskus, leggur hana undir sig og leiðir marga af íbúunum í útlegð. Damaskus ógnar Júda ekki framar. — 2. Konungabók 16:5-9; 2. Kroníkubók 28:5, 16.

16 Í spádómi Jehóva gegn Damaskus er einnig fólginn dómur yfir hinu ótrúa Ísraelsríki, líklega vegna bandalags ríkjanna tveggja. (Jesaja 17:3-6) Ísrael verður eins og akur á uppskerutíma þar sem kornvöxtur er sáralítill eða eins og olíuviður sem búið er að hrista flestar ólífurnar af. (Jesaja 17:4-6) Þetta er umhugsunarvert dæmi fyrir þá sem eru vígðir Jehóva. Hann væntir óskiptrar hollustu þeirra og viðurkennir aðeins hugheila þjónustu. Og hann hatar þá sem fjandskapast gegn bræðrum sínum. — 2. Mósebók 20:5; Jesaja 17:10, 11; Matteus 24:48-50.

Fullt traust til Jehóva

17, 18. (a) Hvernig bregðast sumir Ísraelsmenn við spádómum Jehóva en hver eru viðbrögðin almennt? (b) Hvað er líkt með nútímanum og dögum Hiskía?

17 Jesaja heldur áfram: „Á þeim degi mun maðurinn mæna til skapara síns og augu hans líta til Hins heilaga í Ísrael. Eigi mun hann þá mæna á ölturun, handaverk sín, né líta til þess, er fingur hans hafa gjört, hvorki til aséranna né sólsúlnanna.“ (Jesaja 17:7, 8) Sumir í Ísrael taka viðvaranir Jehóva til sín. Þegar Hiskía sendir boð til Ísraelsbúa um að koma til Júda og halda páska þiggja sumir boðið og sameinast bræðrum sínum suður frá í hreinni tilbeiðslu. (2. Kroníkubók 30:1-12) En flestir í Ísrael hæðast að sendiboðunum. Fráhvarf þjóðarinnar er slíkt að hún á sér ekki viðreisnar von. Þess vegna rætist ráðstöfun Jehóva gegn henni. Assýringar eyða borgir Ísraels, landið leggst í eyði og uppskeran bregst. — Lestu Jesaja 17:9-11.

18 Hvað um okkar daga? Ísrael var fráhvarfsþjóð. Hiskía reyndi að hjálpa löndum sínum til að snúa aftur til sannrar tilbeiðslu sem minnir á hvernig sannkristnir menn nú á tímum reyna að hjálpa fólki í fráhvarfstrúfélögum kristna heimsins. Allt frá 1919 hafa sendimenn frá „Ísrael Guðs“ farið út um kristna heiminn og boðið fólki hlutdeild í hreinni tilbeiðslu. (Galatabréfið 6:16) Flestir hafa afþakkað. Margir hafa hæðst að sendiboðunum. En sumir hafa þegið boðið og skipta nú orðið milljónum. Þeir ‚mæna til Hins heilaga í Ísrael‘ og njóta þess að láta hann fræða sig. (Jesaja 54:13) Þeir hætta að tilbiðja við vanheilög ölturu; hætta að dýrka og treysta guðum sem menn hafa gert sér og snúa sér til Jehóva. (Sálmur 146:3, 4) Þeir segja hver og einn eins og Míka, samtíðarmaður Jesaja: „Ég vil mæna til [Jehóva], bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig!“ — Míka 7:7.

19. Á hverja hastar Jehóva og hvað þýðir það fyrir þá?

19 Hvílíkur munur á þeim og hinum sem treysta á dauðlega menn! Umbrota- og ofbeldisöldur ríða hver á fætur annarri yfir mannkynið. „Ólgusjór“ hins eirðarlausa og uppreisnargjarna mannkyns rótar upp óánægju og byltingum. (Jesaja 57:20; Opinberunarbókin 8:8, 9; 13:1) Jehóva „hastar á“ þennan háværa lýð. Himneskt ríki hans eyðir öllum vandræðaseggjum, hvort sem það eru menn eða samtök, og þeir „flýja . . . langt burt . . . eins og rykmökkur fyrir stormi.“ — Jesaja 17:12, 13; Opinberunarbókin 16:14, 16.

20. Hverju treysta sannkristnir menn þótt þjóðirnar ‚rupli‘ frá þeim?

20 Jesaja segir um afleiðingarnar: „Að kveldi er þar skelfing, áður en morgnar eru þeir allir á burt. Þetta er hlutskipti þeirra, er oss ræna, og örlög þeirra, er frá oss rupla.“ (Jesaja 17:14) Margir rupla frá fólki Jehóva, eru ruddalegir og fara illa með það. Sannkristnir menn hvorki fylgja né vilja fylgja helstu trúarstefnum þessa heims. Fordómafullir gagnrýnendur og ofstækismenn líta á þá sem auðvelda bráð. En fólk Guðs treystir að ‚morgunninn‘ sé mjög nærri þegar þrengingunum lýkur. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9; 1. Pétursbréf 5:6-11.

Bláland færir Jehóva gjöf

21, 22. Hvaða þjóð fær dóm næst og hvernig rætast innblásin orð Jesaja?

21 Bláland eða Eþíópía, sem liggur suður af Egyptalandi, hefur að minnsta kosti tvívegis tekið þátt í hernaði gegn Júda. (2. Kroníkubók 12:2, 3; 14:1, 9-15; 16:8) Jesaja boðar nú dóm yfir þjóðinni sem býr þar: „Vei landi vængjaþytsins, hinumegin Blálands fljóta.“ (Lestu Jesaja 18:1-6.) * Jehóva fyrirskipar að Bláland skuli ‚höggvið, stýft og sniðið af.‘

22 Veraldlegar sagnaheimildir greina frá því að Eþíópar hafi lagt Egyptaland undir sig síðla á áttundu öld f.o.t. og ráðið því í eina sex áratugi. Asarhaddon og Assúrbanípal Assýríukonungar réðust inn í Egyptaland hvor á fætur öðrum. Assýringar innsigluðu yfirráð sín yfir Egyptalandi er Assúrbanípal eyddi Þebu og batt enda á yfirráð Eþíópa yfir Nílardal. (Sjá einnig Jesaja 20:3-6.) Hvað um nútímann?

23. Hvað gera „Blálendingar“ nútímans og hvers vegna líða þeir undir lok?

23 Í spádómi Daníels um ‚endalokatímann‘ er því svo lýst að Blálendingar og Líbýumenn séu ‚í för með‘ hinum árásargjarna ‚konungi norður frá,‘ það er að segja lúti forystu hans. (Daníel 11:40-43) Blálendingar eru líka sagðir vera í herliði ‚Gógs í Magóglandi.‘ (Esekíel 38:2-5, 8) Sveitir Gógs, þeirra á meðal konungurinn norður frá, líða undir lok þegar þær ráðast á heilaga þjóð Jehóva. Hönd Jehóva verður því útrétt gegn ‚Blálendingum‘ nútímans vegna andstöðu þeirra gegn drottinvaldi hans. — Esekíel 38:21-23; Daníel 11:45.

24. Hvernig hefur Jehóva fengið „gjafir“ frá þjóðunum?

24 En spádómurinn segir enn fremur: „Á þeim tíma skulu gjafir verða færðar [Jehóva] allsherjar frá hinum hávaxna og gljáandi lýð, frá lýðnum, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, . . . til þess staðar, þar sem nafn [Jehóva] hersveitanna er, til Síonfjalls.“ (Jesaja 18:7) Þó svo að þjóðirnar viðurkenni ekki drottinvald Jehóva hafa þær stundum gert fólki hans gagn með gerðum sínum. Sums staðar hafa yfirvöld veitt trúum dýrkendum hans viss lögvernduð réttindi, annaðhvort með löggjöf eða dómum. (Postulasagan 5:29; Opinberunarbókin 12:15, 16) Og gjafirnar eru fleiri. „Konungar skulu færa þér gjafir . . . Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.“ (Sálmur 68:30-32) Milljónir ‚Blálendinga‘ nú á dögum óttast Jehóva og færa honum „gjafir“ með tilbeiðslu sinni. (Malakí 1:11) Þeir leggja sitt af mörkum til hins mikla verks að boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim. (Matteus 24:14; Opinberunarbókin 14:6, 7) Það er góð fórn að færa Jehóva! — Hebreabréfið 13:15.

Hjörtu Egypta bráðna

25. Hvað verður um Egyptaland fortíðar í samræmi við Jesaja 19:1-11?

25 Egyptaland er næsti nágranni Júda í suðri og langstæður óvinur sáttmálaþjóðar Guðs. Nítjándi kafli Jesaja segir frá miklum róstum í Egyptalandi á dögum Jesaja. Þar berst „borg við borg og ríki við ríki.“ (Jesaja 19:2, 13, 14) Sagnfræðingar benda á ummerki þess að konungsættir hafi keppt um völdin og ráðið hver yfir sínum landshluta. Hin rómaða viska Egyptalands og einskis nýt ‚goð og galdramenn‘ megna ekki að bjarga því undan „harðráðum drottnara.“ (Jesaja 19:3, 4) Assýría, Babýlon, Persía, Grikkland og Róm ráða yfir Egyptalandi hvert á fætur öðru. Spádómarnir í Jesajabók 19:1-11 uppfyllast í öllu þessu.

26. Hvernig bregðast ‚Egyptar‘ nútímans við dómum Jehóva?

26 En í Biblíunni er Egyptaland oft notað sem tákn um heim Satans. (Esekíel 29:3; Jóel 3:24; Opinberunarbókin 11:8) Á þessi „spádómur um Egyptaland,“ sem Jesaja boðar, sér meiri uppfyllingu? Vissulega. Inngangsorð hans ættu að vekja athygli allra: „Sjá, [Jehóva] ekur á léttfæru skýi og kemur til Egyptalands. Þá skjálfa goð Egyptalands fyrir honum og hjörtu Egypta bráðna í brjóstum þeirra.“ (Jesaja 19:1) Jehóva leggur bráðlega til atlögu gegn skipulagi Satans, og þá sýnir það sig að guðir þessa heimskerfis eru einskis nýtir falsguðir. (Sálmur 96:5; 97:7) „Hjörtu Egypta bráðna“ af ótta. Jesús sagði um þann tíma: „[Þá verður] angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ — Lúkas 21:25, 26.

27. Hvaða innri sundrung var boðuð meðal „Egypta“ og hvernig rætist hún nú á dögum?

27 Jehóva segir spádómlega um undanfara þess að hann fullnægir dómi: „Ég æsi Egypta í gegn Egyptum, svo að bróðir skal berjast við bróður, vinur við vin, borg við borg og ríki við ríki.“ (Jesaja 19:2) Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914 og ‚táknið um nærveru Jesú‘ hefur meðal annars birst í átökum þjóða og ríkja. Ættflokkamorð, þjóðarmorð og svonefndar þjóðernishreinsanir hafa kostað milljónir manna lífið núna á síðustu dögum. Þessar ‚fæðingarhríðir‘ ágerast jafnt og þétt er dregur að endalokunum. — Matteus 24:3, 7, 8.

28. Hvað geta falstrúarbrögðin gert á dómsdeginum til bjargar þessu heimskerfi?

28 „Hyggindi Egypta munu þá verða örþrota, og ráðagjörðir þeirra ónýti ég. Þeir munu leita frétta hjá goðum sínum, hjá galdramönnum, þjónustuöndum og spásagnaröndum.“ (Jesaja 19:3) Prestar Egyptalands urðu sér til háðungar þegar Móse gekk fyrir faraó, því að þeir voru ekki jafnmáttugir og Jehóva. (2. Mósebók 8:18, 19; Postulasagan 13:8; 2. Tímóteusarbréf 3:8) Eins fer á dómsdeginum því að falstrúarbrögðin geta ekki bjargað þessu spillta heimskerfi. (Samanber Jesaja 47:1, 11-13.) Egyptaland lenti um síðir undir „harðráðum drottnara,“ Assýríu. (Jesaja 19:4) Það veit ekki á gott fyrir þetta heimskerfi.

29. Hvaða gagn verður að stjórnmálamönnum þegar dagur Jehóva rennur upp?

29 En hvað um stjórnmálaleiðtogana? Geta þeir hjálpað? „Höfðingjarnir í Sóan eru tómir heimskingjar, ráðspekin hjá hinum vitrustu ráðgjöfum Faraós orðin að flónsku.“ (Lestu Jesaja 19:5-11.) Það er flónska að halda að mennskir ráðgjafar komi að nokkru gagni á dómsdeginum. Jafnvel þótt þeir hafi aðgang að allri þekkingu heimsins vantar þá viskuna sem kemur frá Guði. (1. Korintubréf 3:19) Þeir hafa hafnað Jehóva og reiða sig á svokölluð vísindi, heimspeki, peninga, nautnir og aðra gerviguði. Þar af leiðandi vita þeir ekkert um fyrirætlanir Guðs. Þeir láta blekkjast og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir erfiða til einskis. (Lestu Jesaja 19:12-15.) „Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði [Jehóva], hvaða visku hafa þeir þá?“ — Jeremía 8:9.

Til merkis og vitnisburðar um Jehóva

30. Hvernig mun „Egyptalandi standa ótti af Júdalandi“?

30 En þó að leiðtogar „Egyptalands“ séu veikburða „sem konur“ er enn til fólk sem leitar viskunnar frá Jehóva Guði. Smurðir þjónar hans og félagar þeirra „víðfrægja dáðir hans.“ (Jesaja 19:16; 1. Pétursbréf 2:9) Þeir gera sitt ítrasta til að vara fólk við því að skipulag Satans líði bráðlega undir lok. Jesaja horfir fram til þess tíma og segir: „Þá skal Egyptalandi standa ótti af Júdalandi. Í hvert sinn sem á það er minnst við þá munu þeir skelfast, vegna ráðs þess, er [Jehóva] allsherjar hefir ráðið gegn þeim.“ (Jesaja 19:17) Dyggir boðberar Jehóva fara út til fólks og segja því frá sannleikanum, meðal annars plágunum sem Jehóva boðaði. (Opinberunarbókin 8:7-12; 16:2-12) Þetta angrar trúarleiðtoga heimsins.

31. Hvernig atvikast það að ‚kanversk tunga‘ er töluð í borgum Egyptalands (a) til forna? (b) á okkar tímum?

31 Hvaða óvæntum árangri skilar þetta boðunarstarf? „Á þeim degi munu fimm borgir í Egyptalandi mæla á kanverska tungu og sverja hlýðni [Jehóva] allsherjar. Skal ein þeirra kallast Bær réttvísinnar [„Niðurrifsbær,“ NW].“ ( Jesaja 19:18) Þessi spádómur hefur sennilega ræst forðum daga þegar hebreska var töluð í egypskum borgum þangað sem Gyðingar höfðu flúið. (Jeremía 24:1, 8-10; 41:1-3; 42:9–43:7; 44:1) Fólk sem býr í „Egyptalandi“ nútímans hefur lært að tala ‚hið hreina tungumál‘ sannleikans í Biblíunni. (Sefanía 3:9, NW) Ein þessara fimm táknrænu borga er nefnd „Niðurrifsbær“ en það vísar til þess að ‚hið hreina tungumál‘ afhjúpar og ‚rífur niður‘ skipulag Satans.

32. (a) Hvaða „altari“ er í miðju Egyptalandi? (b) Hvernig eru hinir smurðu eins og „merkissteinn“ við landamæri Egyptalands?

32 Svo er boðunarstarfi þjóna Jehóva að þakka að hið mikla nafn hans verður víðkunnugt. „Á þeim degi mun vera altari handa [Jehóva] í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa [Jehóva] við landamærin.“ (Jesaja 19:19) Þessi orð vísa til stöðu smurðra kristinna manna sem eiga sáttmálasamband við Guð. (Sálmur 50:5) Þeir eru eins og „altari“ með því að bera fram fórnir sínar, og eins og „stólpi og grundvöllur sannleikans“ með því að vitna um Jehóva. (1. Tímóteusarbréf 3:15; Rómverjabréfið 12:1; Hebreabréfið 13:15, 16) Þeir eru ‚í miðju landinu‘ ásamt félögum sínum, hinum ‚öðrum sauðum,‘ af því að þá er að finna í meira en 230 löndum og eyjum. En þeir eru „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 10:16; 17:15, 16) Það er eins og þeir standi á landamærum þessa heims og Guðsríkis, reiðubúnir að ganga yfir þau og taka við himneskum launum sínum.

33. Hvernig eru hinir smurðu „til merkis og vitnisburðar“ í „Egyptalandi“?

33 Jesaja heldur áfram: „Það skal vera til merkis og vitnisburðar um [Jehóva] allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til [Jehóva] undan kúgurunum, mun hann senda þeim fulltingjara og forvígismann, er frelsar þá.“ (Jesaja 19:20) Hinir smurðu eru „til merkis og vitnisburðar“ með forystu sinni í boðunarstarfinu, og þeir upphefja nafn Jehóva í þessu heimskerfi. (Jesaja 8:18; Hebreabréfið 2:13) Hróp hinna kúguðu heyrast um heim allan en stjórnir manna eru að mestu leyti ófærar um að hjálpa þeim. En Jehóva mun senda mikinn lausnara, konunginn Jesú Krist, til að frelsa alla auðmjúka menn. Þegar hinir síðustu dagar ná hámarki í Harmagedónstríðinu veitir hann guðhræddum mönnum lausn og eilífa blessun. — Sálmur 72:2, 4, 7, 12-14.

34. (a) Hvernig verður Jehóva kunnur ‚Egyptum‘ og hvaða fórn og gjöf færa þeir honum? (b) Hvenær slær Jehóva „Egyptaland“ og hvaða lækning fylgir í kjölfarið?

34 Þangað til vill Guð að allir menn fái nákvæma þekkingu svo að þeir verði hólpnir. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Jesaja skrifar því: „[Jehóva] mun kunnur verða Egyptalandi, og Egyptar munu þekkja [Jehóva] á þeim degi. Þeir munu dýrka hann með sláturfórnum og matfórnum og vinna [Jehóva] heit og efna þau. Og [Jehóva] mun slá Egyptaland, slá og græða, og þeir munu snúa sér til [Jehóva],og hann mun bænheyra þá og græða þá.“ (Jesaja 19:21, 22) Einstöku „Egyptar,“ það er að segja fólk af öllum þjóðum í heimi Satans, munu kynnast Jehóva og færa honum fórnir sem eru ‚ávöxtur vara er játa nafn hans.‘ (Hebreabréfið 13:15) Þeir gefa Jehóva heit með því að vígjast honum og efna heitið með dyggri þjónustu sinni og hollustu. Hann notar ríki sitt til að græða og lækna mannkynið eftir að hann hefur ‚slegið‘ þetta heimskerfi í Harmagedón. Í þúsundáraríki Jesú verður mannkyninu lyft upp til fullkomleika, bæði andlega, hugarfarslega, siðferðilega og líkamlega. Það verður lækning í reynd! — Opinberunarbókin 22:1, 2.

„Blessuð sé þjóð mín“

35, 36. Hvaða tengsl mynduðust forðum daga milli Egyptalands, Assýríu og Ísraels, eins og spáð var í Jesaja 19:23-25?

35 Spámaðurinn sér nú ótrúlega þróun fyrir: „Á þeim degi skal vera brautarvegur frá Egyptalandi til Assýríu, og Assýringar skulu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu, og Egyptar munu tilbiðja ásamt Assýringum. Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri. [Jehóva] allsherjar blessar þá og segir: Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!“ (Jesaja 19:23-25) Já, einn góðan veðurdag verða samskipti Egypta og Assýringa friðsamleg. Hvernig þá?

36 Þegar Jehóva bjargaði fólki sínu undan þjóðunum forðum daga bjó hann þeim frelsisbraut ef svo má segja. (Jesaja 11:16; 35:8-10; 49:11-13; Jeremía 31:21) Þessi spádómur rættist að nokkru leyti eftir að Babýlon var unnin og útlagar sneru heim til fyrirheitna landsins frá Assýríu, Egyptalandi og Babýlon. (Jesaja 11:11) En hvað um nútímann?

37. Hvernig lifa milljónir manna nú á tímum eins og það liggi þjóðvegur milli „Assýríu“ og „Egyptalands“?

37 Hinar smurðu leifar andlegra Ísraelsmanna eru „blessun á jörðinni miðri.“ Þær efla sanna tilbeiðslu og boða boðskapinn um ríkið meðal allra þjóða. Sumar þessara þjóða fylgja harðri herveldisstefnu líkt og Assýringar. Aðrar þjóðir eru frjálslyndari, kannski líkt og Egyptaland sem var á sínum tíma „konungurinn suður frá“ í spádómi Daníels. (Daníel 11:5, 8) Milljónir manna af þessum herveldum og af frjálslyndari þjóðum hafa tileinkað sér sanna tilbeiðslu. Þannig hafa menn af öllum þjóðum ‚tekið saman.‘ Þar er engin þjóðernissundrung. Þeir elska hver annan og það má með sanni segja að ‚Assýringar komi til Egyptalands og Egyptar til Assýríu.‘ Það er rétt eins og þjóðvegur liggi milli þeirra. — 1. Pétursbréf 2:17.

38. (a) Hvernig ‚tekur Ísrael saman við Egyptaland og Assýríu‘? (b) Af hverju segir Jehóva: „Blessuð sé þjóð mín“?

38 En ‚tekur Ísrael saman við Egyptaland og Assýríu‘? Snemma á ‚endalokatímanum‘ var það svo að flestir þjónar Jehóva á jörðinni tilheyrðu „Ísrael Guðs.“ (Daníel 12:9; Galatabréfið 6:16) En frá því á fjórða áratugnum hefur komið fram mikill múgur ‚annarra sauða‘ með jarðneska von. (Jóhannes 10:16a; Opinberunarbókin 7:9) Þeir koma út úr þjóðunum, sem Egyptaland og Assýría tákna, og streyma til tilbeiðsluhúss Jehóva og hvetja aðra til að slást í för með sér. (Jesaja 2:2-4) Þeir prédika alveg eins og smurðir bræður þeirra, þola sams konar prófraunir, sýna sömu trúfestina og ráðvendnina og nærast við sama andlega borð og þeir. Hinir smurðu og hinir ‚aðrir sauðir‘ eru í sannleika sagt „ein hjörð, einn hirðir.“ (Jóhannes 10:16b) Getur nokkur maður efast um að Jehóva, sem fylgist með kostgæfni þeirra og þolgæði, sé ánægður með starf þeirra? Það er engin furða að hann skuli boða þeim blessun og segja: „Blessuð sé þjóð mín!“

[Neðanmáls]

^ gr. 21 Sumir fræðimenn telja að með orðunum ‚land vængjaþytsins‘ sé átt við engispretturnar sem eru stundum á sveimi í Eþíópíu. Aðrir benda á að hebreska orðið tselatsalʹ, sem merkir „suðandi,“ líkist orðinu tsaltsalja sem merkir tsetsefluga á máli galla sem er hamískur ættflokkur í Eþíópíu.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 191]

Hermenn Filista ráðast á óvini sína (egypsk útskurðarmynd frá 12. öld f.o.t.).

[Mynd á blaðsíðu 192]

Rismynd af móabískum hermanni eða guði (11. til 8. öld f.o.t.).

[Mynd á blaðsíðu 196]

Sýrlenskur hermaður á úlfalda (frá níundu öld f.o.t.).

[Mynd á blaðsíðu 198]

„Ólgusjór“ hins uppreisnargjarna mannkyns rótar upp óánægju og byltingum.

[Mynd á blaðsíðu 203]

Prestar Egypta voru ekki jafnmáttugir og Jehóva.