Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu á vernd og leiðsögn Jehóva

Treystu á vernd og leiðsögn Jehóva

16. kafli

Treystu á vernd og leiðsögn Jehóva

Jesaja 20:1-6

1, 2. Hvaða hætta blasir við fólki Guðs á áttundu öld f.o.t. og hvar vilja margir leita ásjár?

 EINS og fram kemur fyrr í þessari bók er fólk Guðs í mikilli hættu á áttundu öld f.o.t. Hinir blóðþyrstu Assýringar eyða land eftir land og fyrr eða síðar hlýtur röðin að koma að Júda. Hvar geta landsmenn leitað ásjár? Þeir ættu að reiða sig á hjálp Jehóva vegna þess að þeir eru í sáttmálasambandi við hann. (2. Mósebók 19:5, 6) Davíð konungur gerði það og hann sagði: „[Jehóva] er bjarg mitt og vígi, hann er sá sem hjálpar mér.“ (2. Samúelsbók 22:2) En á áttundu öld f.o.t. eru margir hættir að treysta á Jehóva sem vígi og vilja heldur leita ásjár Egypta og Eþíópa í von um að þeir geti varið þá fyrir árás Assýringa. En þar skjátlast þeim.

2 Jehóva varar Júdamenn við að leita ásjár Egypta eða Eþíópa og segir að það hafi skelfilegar afleiðingar. Innblásin orð Jesaja spámanns eru holl ábending til samtíðarmanna hans og verðmæt ábending til okkar um mikilvægi þess að treysta Jehóva.

Blóðsekt land

3. Hversu mikið lögðu Assýringar upp úr herstyrk?

3 Assýringar eru kunnir fyrir herstyrk sinn. Bókin Ancient Cities bendir á að þeir hafi „dýrkað mátt og afl og aðeins beðist fyrir frammi fyrir risavöxnum steingoðum í ljóns- og nautsmynd með þunglamalegum útlimum, arnarvængjum og mannshöfðum sem táknuðu afl, hugrekki og sigur. Stríð var þjóðaratvinna og prestarnir voru óstöðvandi stríðsæsingamenn.“ Það var ærin ástæða fyrir því að spámaðurinn Nahúm kallaði höfuðborgina Níníve ‚hina blóðseku borg.‘ — Nahúm 3:1.

4. Hvernig skelfdu Assýringar aðrar þjóðir?

4 Assýringar voru með afbrigðum grimmir. Lágmyndir frá þeim tíma sýna assýrska hermenn leiða burt fanga með króka gegnum nef eða varir. Stundum blinduðu þeir fanga með spjótsoddum. Áletrun segir frá einum sigrinum þar sem assýrski herinn aflimaði fangana og kastaði í tvær hrúgur utan borgar — höfðunum í aðra en öðrum limum í hina. Börn hinna sigruðu voru brennd í eldi. Þessi grimmd vakti ótta annarra þjóða sem hlýtur að hafa komið sér vel fyrir Assýringa því að hún dró úr mótspyrnu þeirra sem stóðu í vegi fyrir hernum.

Stríðið gegn Asdód

5. Hvaða voldugur konungur var við völd í Assýríu á dögum Jesaja og hvernig hefur umsögn Biblíunnar um hann verið staðfest?

5 Assýríuveldi náði nýjum hátindi á dögum Jesaja, í valdatíð Sargons konungs. * Um langt skeið véfengdu biblíugagnrýnendur að þessi konungur hefði verið til því að hans var hvergi getið í veraldlegum heimildum. En svo fundu fornleifafræðingar rústirnar af höll hans og staðfestu þar með frásögu Biblíunnar.

6, 7. (a) Af hverju hefur Sargon líklega fyrirskipað árás á Asdód? (b) Hvaða áhrif hefur fall Asdód á nágranna Filista?

6 Jesaja lýsir stuttlega einni herferð Sargons: „Yfirhershöfðinginn kom til Asdód, sendur af Sargon Assýríukonungi, og herjaði á Asdód og vann hana.“ (Jesaja 20:1) Af hverju lét Sargon gera árás á filistaborgina Asdód? Filistea er bandalagsríki Egyptalands og Asdód, þar sem musteri Dagóns stendur, er við þjóðveginn meðfram ströndinni frá Egyptalandi um Palestínu. Borgin er því hernaðarlega mikilvæg. Það má líta á hernám hennar sem undanfara þess að vinna Egyptaland. Auk þess segir í assýrskum heimildum að Azúrí, konungur í Asdód, hafi verið að undirbúa samsæri gegn Assýríu. Sargon lætur því steypa hinum uppreisnargjarna konungi af stóli og skipar Ahímití, yngri bróður hans, í embættið. En það bætir ekki úr skák. Aftur er gerð uppreisn og nú beitir Sargon meiri hörku. Hann fyrirskipar árás á Asdód sem er þá umsetin og unnin. Jesaja 20:1 vísar líklega til þessa atburðar.

7 Fall Asdód vekur ugg meðal nágrannanna, einkum Júda. Jehóva veit að fólk hans hefur tilhneigingu til að treysta á ‚mannlegan mátt,‘ svo sem Egypta eða Eþíópa í suðri svo að hann fyrirskipar Jesaja að færa þeim alvarlega viðvörun með látbragðsleik. — 2. Kroníkubók 32:7, 8.

„Fáklæddur og berfættur“

8. Hvaða spádóm leikur Jesaja?

8 Jehóva segir Jesaja: „Far og leys hærusekkinn af lendum þér og drag skó þína af fótum þér.“ Jesaja „gjörði svo og gekk fáklæddur og berfættur.“ (Jesaja 20:2) Hærusekkur er flík úr grófgerðu efni sem spámenn klæddust gjarnan, stundum er þeir þurftu að flytja viðvörun. Menn klæddust einnig hærusekk á hættutímum og þegar þeim bárust óheillafréttir. (2. Konungabók 19:2; Sálmur 35:13; Daníel 9:3) Hebreska orðið, sem hér er þýtt „fáklæddur,“ getur einnig merkt nakinn. (1. Samúelsbók 19:24) En vel má vera að Jesaja hafi aðeins farið úr utanyfirfötunum en verið áfram í kyrtlinum sem voru hin hefðbundnu undirföt. Assýrskar höggmyndir sýna karlfanga oft þannig klædda.

9. Hvaða spádómlega merkingu hefur hátterni Jesaja?

9 Enginn þarf að velkjast í vafa um ástæðuna fyrir óvenjulegu hátterni Jesaja: „[Jehóva] mælti: Eins og Jesaja þjónn minn hefir gengið fáklæddur og berfættur í þrjú ár sem tákn og fyrirburður um Egyptaland og Bláland, svo skal Assýríukonungur færa burt bandingjana frá Egyptalandi og útlagana frá Blálandi, bæði unga og gamla, fáklædda og berfætta, með bera bakhlutina, Egyptum til smánar.“ (Jesaja 20:3, 4) Egyptar og Blálendingar (Eþíópar) verða bráðlega fluttir burt í fjötrum og engum hlíft. Bæði ‚ungir og gamlir,‘ börn og aldraðir, verða sviptir öllum eigum sínum og fluttir í útlegð. Jehóva notar þetta kaldranalega myndmál til að segja Júdamönnum að það sé til lítils fyrir þá að treysta á Egypta og Eþíópa. Þessar þjóðir fái ekki rönd við reist og verði ‚smánaðar.‘

Stuðningurinn bregst og fegurðin fölnar

10, 11. (a) Hver verða viðbrögð Júdamanna þegar þeir uppgötva að Egyptar og Eþíópar eru máttvana gagnvart Assýringum? (b) Af hverju hafa Júdamenn kannski tilhneigingu til að treysta á Egypta og Eþíópa?

10 Jehóva lýsir nú í spádómi viðbrögðum þjóðar sinnar þegar það rennur upp fyrir henni að Egyptaland og Eþíópía, þar sem hún hugðist leita hælis, eru máttvana gagnvart Assýringum. „Þá munu þeir skelfast og skammast sín vegna Blálands, er þeir reiddu sig á, og Egyptalands, er þeir stærðu sig af. Og þeir, sem búa á þessari strönd, munu segja á þeim degi: ‚Svo er þá komið fyrir þeim, er vér reiddum oss á og flýðum til í von um hjálp til þess að frelsast undan Assýríukonungi! Hversu megum vér þá sjálfir komast undan?‘“ — Jesaja 20:5, 6.

11 Júda er eins og örlítið strandhérað í samanburði við stórveldin Egyptaland og Eþíópíu. Kannski hafa einhverjir íbúar ‚þessarar strandar‘ heillast af fegurð Egyptalands — glæsilegum píramídum, háreistum hofum og rúmgóðum sveitasetrum umkringdum tjörnum og aldingörðum. Hin tilkomumikla byggingarlist Egypta lýsir jafnvægi og stöðugleika. Það er óhugsandi að þetta land verði lagt í rúst! Trúlega hrífast Gyðingar einnig af bogmönnum, stríðsvögnum og riddurum Eþíópíu.

12. Á hvern eiga Júdamenn að treysta?

12 Þeir sem vilja treysta Egyptalandi og Eþíópíu þurfa að hugsa sinn gang með hliðsjón af spádómsorðum Jehóva og hinni leikrænu viðvörun Jesaja. Það er miklu betra að treysta Jehóva en mönnum! (Sálmur 25:2; 40:5) Svo fer að Júdamenn líða miklar þjáningar af hendi Assýríukonungs og síðar sjá þeir Babýloníumenn eyða musterið og höfuðborgina. „Tíundi hluti“ verður þó eftir eða „heilagt sæði“ sem er eins og stúfur af stóru tré. (Jesaja 6:13) Þegar þar að kemur mun boðskapur Jesaja styrkja trú þessa fámenna hóps sem heldur áfram að treysta á Jehóva.

Treystu á Jehóva

13. Hvað getur lagst á alla nú á tímum, jafnt trúaða sem vantrúaða?

13 Sú viðvörun Jesaja að treysta ekki á Egyptaland og Eþíópíu er ekki dauður bókstafur heldur er hún í fullu gildi enn þann dag í dag. Við lifum „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Fjármálakreppa, fátækt, pólitísk óvissa, þjóðfélagsólga og stríð, stór sem smá, valda mannkyni þungum búsifjum — ekki einungis þeim sem hafna stjórn Guðs heldur einnig hinum sem tilbiðja hann. Allir þurfa að spyrja sig hvar þeir leiti hjálpar.

14. Af hverju ættum við aðeins að treysta á Jehóva?

14 Sumir kynnu að hrífast af fjármálasnillingum heimsins, stjórnmálamönnum og vísindamönnum sem tala fjálglega um það hvernig mannkynið geti beitt hugviti sínu og tækni til að leysa vandamál sín. En Biblían segir hreinskilnislega að það sé „betra . . . að leita hælis hjá [Jehóva] en að treysta tignarmönnum.“ (Sálmur 118:9) Allar öryggis- og friðaráætlanir manna verða að engu og ástæðan er ágætlega orðuð hjá Jeremía spámanni: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

15. Hver er eina von mannkyns?

15 Það er því áríðandi fyrir þjóna Guðs að hrífast ekki úr hófi af þeim styrk og þeirri visku sem þessi heimur virðist búa yfir. (Sálmur 33:10; 1. Korintubréf 3:19, 20) Skaparinn Jehóva er eina von þessa aðþrengda mannkyns og þeir bjargast sem setja traust sitt á hann: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans,“ eins og Jóhannesi postula var innblásið að skrifa, „en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sagnfræðingar kalla hann Sargon 2. Annar konungur er nefndur Sargon 1. en sá var ekki frá Assýríu heldur Babýlon.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 209]

Assýringar áttu það til að blinda stríðsfanga.

[Mynd á blaðsíðu 213]

Sumir hrífast af afrekum mannsins en það er betra að treysta á Jehóva.