Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vei hinum ótrúa víngarði!

Vei hinum ótrúa víngarði!

7. kafli

Vei hinum ótrúa víngarði!

Jesaja 5:1-30

1, 2. Hvað plantar ‚ástvinurinn‘ og hvernig veldur það vonbrigðum?

 „ORÐFÆRI þessarar dæmisögu er svo undurfagurt og snilldarlega áhrifamikið að hún á varla sinn líka.“ Þannig lýsir biblíuskýrandi fyrstu versum fimmta kafla Jesajabókar. En orð Jesaja eru annað og meira en listaverk; þau eru hjartnæm lýsing á ást og umhyggju Jehóva fyrir fólki sínu. Og jafnframt vara þau við því sem hann hefur vanþóknun á.

2 Dæmisagan hefst þannig: „Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga.“ — Jesaja 5:1, 2; samanber Markús 12:1.

Umönnun víngarðsins

3, 4. Hvernig er víngarðinum sinnt af mikill natni?

3 Dæmisagan nær örugglega athygli áheyrenda, hvernig sem Jesaja flytur hana. Flestir þekkja sennilega til vínyrkju og lýsing Jesaja er ljóslifandi og raunsæ. Eigandinn sáir ekki vínberjasteinum í garð sinn heldur gróðursetur þar „gæðavínvið,“ það er að segja græðling af öðrum vínviði, líkt og vínyrkjar gera á okkar tímum. Og hann plantar þennan víngarð „á frjósamri hæð“ þar sem vínviðurinn getur dafnað.

4 Það kostar mikið erfiði að fá góða uppskeru úr víngarði. Jesaja lýsir því hvernig eigandinn ‚stingur upp garðinn og tínir grjótið úr honum‘ sem er bæði erfitt og lýjandi. Trúlega notar hann stærstu steinana til að ‚reisa turn.‘ Til forna voru þessir turnar notaðir fyrir vaktmenn sem gættu uppskerunnar fyrir þjófum og skepnum. * Og maðurinn hleður múrvegg meðfram stöllunum í garðinum. (Jesaja 5:5) Þetta var oft gert til að dýrmæt gróðurmoldin skolaðist ekki burt.

5. Hvers væntir eigandinn eðlilega af víngarði sínum en hvað fær hann?

5 Eigandinn hefur lagt mikið á sig til að verja víngarðinn svo að hann ætlast réttilega til að hann beri ávöxt. Og með væntanlega uppskeru í huga heggur hann út vínþró. En fær hann uppskeruna sem hann vonast eftir? Nei, víngarðurinn ber aðeins muðlinga eða villivínber.

Víngarðurinn og eigandinn

6, 7. (a) Hver er eigandi víngarðsins og hvað er víngarðurinn? (b)  Eftir hvaða dómi óskar eigandinn?

6 Hver er eigandinn og hvað er víngarðurinn? Eigandinn bendir sjálfur á svarið og segir: „Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns! Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber? En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður.“ — Jesaja 5:3-5.

7 Það er Jehóva sem er eigandi víngarðsins og það er eins og hann gangi í dómssal og biðji um að dæmt sé milli sín og víngarðsins sem brugðist hefur vonum hans. Hvað er þá víngarðurinn? Eigandinn segir: „Víngarður [Jehóva] allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans.“ — Jesaja 5:7a.

8. Hvaða þýðingu hefur það að Jesaja skuli kalla Jehóva ‚ástvin sinn‘?

8 Jesaja kallar Jehóva, eiganda víngarðsins, ‚ástvin sinn.‘ (Jesaja 5:1) Hann getur aðeins talað svona innilega um Guð af því að hann á náið samband við hann. (Samanber Jobsbók 29:4; Sálm 25:14.) En kærleikur spámannsins til Guðs bliknar í samanburði við þann kærleika sem Guð hefur sýnt ‚víngarði‘ sínum, þjóðinni sem hann ‚gróðursetti.‘ — Samanber 2. Mósebók 15:17; Sálm 80:9, 10.

9. Hvernig hefur Jehóva farið með þjóð sína eins og verðmætan víngarð?

9 Jehóva ‚gróðursetti‘ þjóð sína í Kanaanlandi og gaf henni lög sín og ákvæði sem voru eins og varnarveggur gegn spillingu frá öðrum þjóðum. (2. Mósebók 19:5, 6; Sálmur 147:19, 20; Efesusbréfið 2:14) Hann gaf henni dómara, presta og spámenn til að fræða hana. (2. Konungabók 17:13; Malakí 2:7; Postulasagan 13:20) Hann vakti upp frelsara þegar óvinir herjuðu á Ísrael. (Hebreabréfið 11:32, 33) Það er því ærin ástæða til að Jehóva skuli spyrja: „Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann?“

Hver er víngarður Guðs núna?

10. Hvaða dæmisögu sagði Jesús um víngarð?

10 Vel má vera að Jesús hafi haft orð Jesaja í huga þegar hann sagði dæmisöguna um grimmu vínyrkjana: „Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.“ En vínyrkjarnir sviku landeigandann og drápu jafnvel son hans. Jesús sýndi síðan fram á að þessi dæmisaga átti ekki aðeins við hinn bókstaflega Ísrael og sagði: „Guðs ríki verður frá yður [Ísrael að holdinu] tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ — Matteus 21:33-41, 43.

11. Hvaða andlegur víngarður var til á fyrstu öldinni en hvað gerðist eftir dauða postulanna?

11 Þessi nýja „þjóð“ reyndist vera „Ísrael Guðs“ — andleg þjóð 144.000 smurðra kristinna manna. (Galatabréfið 6:16; 1. Pétursbréf 2:9, 10; Opinberunarbókin 7:3, 4) Jesús líkti þessum lærisveinum við ‚greinar‘ á ‚hinum sanna vínviði‘ sem var hann sjálfur. Þess er auðvitað vænst að greinarnar beri ávöxt. (Jóhannes 15:1-5) Þær verða að sýna sams konar eiginleika og Kristur og taka þátt í að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið.“ (Matteus 24:14; Galatabréfið 5:22, 23) En langflestir þeirra, sem hafa þóst vera greinar á ‚hinum sanna vínviði‘ síðan postularnir tólf dóu, hafa verið falsgreinar og borið muðlinga í stað góðra ávaxta. — Matteus 13:24-30, 38, 39.

12. Hvernig fordæma orð Jesaja kristna heiminn og hvað geta sannkristnir menn lært af því?

12 Fordæming Jesaja á Júda á því við kristna heiminn nú á tímum. Saga kristna heimsins — styrjaldirnar, krossferðirnar og rannsóknarrétturinn — ber vitni um gallsúran ávöxt! En hinn sanni víngarður, smurðir kristnir menn og félagar þeirra, ‚múgurinn mikli,‘ verða að gefa orðum Jesaja gaum. (Opinberunarbókin 7:9) Til að þóknast víngarðseigandanum verða þeir, bæði sem einstaklingar og hópur, að bera ávöxt sem hann hefur velþóknun á.

Muðlingar‘

13. Hvað ætlar Jehóva að gera við víngarð sinn fyrst hann ber slæman ávöxt?

13 Jehóva hefur hlúð einstaklega vel að víngarði sínum og lagt mikla rækt við hann, og hann ætlast réttilega til að hann verði ‚yndislegur víngarður.‘ (Jesaja 27:2) En í stað þess að bera nothæfan ávöxt vaxa aðeins ‚muðlingar‘ í honum eða, svo bókstaflega sé þýtt, „daunill ber“ eða „úldin (rotin) ber.“ (Jesaja 5:2, NW neðanmáls; Jeremía 2:21) Jehóva lýsir því yfir að hann ætli að rífa „þyrnigerðið“ sem umlykur þjóðina og verndar hana. Landið verður ‚gert að auðn,‘ yfirgefið og undirlagt þurrkum. (Lestu Jesaja 5:6.) Móse hafði varað þjóðina við að þannig færi ef hún óhlýðnaðist lögmáli Guðs. — 5. Mósebók 11:17; 28:63, 64; 29:22, 23.

14. Hvaða ávaxtar væntir Jehóva af þjóðinni en hvaða uppskeru fær hann?

14 Guð ætlast til þess að þjóðin beri góðan ávöxt. Míka, samtíðarmaður Jesaja, spyr: „Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ (Míka 6:8; Sakaría 7:9) En þjóðin sinnir ekki hvatningu Jehóva. „[Guð] vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.“ (Jesaja 5:7b) Móse spáði að þessi ótrúa þjóð myndi gefa af sér eitruð vínber af „vínviði Sódómu.“ (5. Mósebók 32:32) Miðað við það er fráhvarf hennar frá lögmáli Guðs meðal annars fólgið í siðleysi, þar á meðal kynvillu. (3. Mósebók 18:22) ‚Manndrápunum‘ hefur eflaust fylgt „neyðarkvein“ þeirra sem voru harðrétti beittir — neyðarkvein sem náði til eyrna hans sem plantaði víngarðinn. — Samanber Jobsbók 34:28.

15, 16. Hvernig geta sannkristnir menn forðast hinn slæma ávöxt sem Ísrael bar?

15 Jehóva Guð „hefir mætur á réttlæti og rétti.“ (Sálmur 33:5) Hann fyrirskipaði Gyðingum: „Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn.“ (3. Mósebók 19:15) Við verðum því að forðast hlutdrægni í samskiptum hver við annan og megum aldrei meta fólk eftir kynþætti, aldri eða efnahag. (Jakobsbréfið 2:1-4) Sérstaklega er mikilvægt að þeir sem gegna umsjónarstarfi ‚geri ekkert af vilfylgi‘ heldur leitist alltaf við að heyra báðar hliðar á málum áður en þeir fella dóm. — 1. Tímóteusarbréf 5:21; Orðskviðirnir 18:13.

16 Það væri líka hægðarleikur fyrir kristinn mann í löglausum heimi að verða uppreisnargjarn eða neikvæður gagnvart hegðunarreglum Guðs. En sannkristnir menn verða að vera ‚fúsir til að hlýða‘ lögum hans. (Jakobsbréfið 3:17, NW) Þrátt fyrir siðleysi og ofbeldi hinnar ‚yfirstandandi vondu aldar‘ þurfa þeir að ‚hafa nákvæma gát á hvernig þeir breyta, ekki sem fávísir heldur sem vísir.‘ (Galatabréfið 1:4; Efesusbréfið 5:15) Þeir vilja forðast undanlátssemi í siðferðismálum, og þegar misklíð verður ættu þeir að eyða henni án „ofsa, reiði, hávaða og lastmæli.“ (Efesusbréfið 4:31) Sannkristnir menn heiðra Guð og afla sér hylli hans með því að temja sér réttlæti.

Ágirnd er dýrkeypt

17. Hvaða óguðlega breytni fordæmir Jesaja í fyrsta veiinu?

17 Í 8. versi er Jesaja ekki lengur að vitna í orð Jehóva. Hann fordæmir suma af ‚muðlingunum,‘ sem uxu í Júda, og lýsir yfir fyrsta veiinu af sex: „Vei þeim, sem bæta húsi við hús og leggja akur við akur, uns ekkert landrými er eftir og þér búið einir í landi. [Jehóva] allsherjar mælir í eyra mér: Í sannleika skulu mörg hús verða að auðn, mikil og fögur hús verða mannlaus. Því að tíu plóglönd í víngarði skulu gefa af sér eina skjólu og ein tunna sæðis eina skeppu.“ — Jesaja 5:8-10.

18, 19. Hvernig hunsa samtíðarmenn Jesaja lög Jehóva um jarðeignir og hvaða afleiðingar hefur það fyrir þá?

18 Í reynd átti Jehóva allt land í Forn-Ísrael. Hann gaf hverri fjölskyldu arfleifð sem hægt var að lána eða leigja frá sér en aldrei selja „fyrir fullt og allt.“ (3. Mósebók 25:23) Þetta lagaákvæði kom í veg fyrir misnotkun, svo sem einokun á landi. Það verndaði fjölskyldur gegn algerri örbirgð. En sumir Júdamenn voru ágjarnir og brutu lög Guðs um jarðeignir. Míka skrifaði: „Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans.“ (Míka 2:2) En Orðskviðirnir 20:21 segja í viðvörunartón: „Arfur, sem í upphafi var skjótfenginn, blessast eigi að lokum.“

19 Jehóva heitir því að svipta þessa ágjörnu menn illa fengnum auði þeirra. Húsin, sem þeir kúga af fólki, verða „mannlaus.“ Landið, sem þeir girnast, gefur ekki af sér nema brot af því sem það á að geta. Ósagt er látið hvernig og hvenær þessi bölvun uppfyllist. Trúlega á hún að einhverju leyti við það ástand sem útlegðin í Babýlon á eftir að hafa í för með sér. — Jesaja 27:10.

20. Hvernig geta kristnir menn nú á tímum forðast þá græðgi sem sumir Ísraelsmenn sýndu?

20 Kristnir menn nú á tímum verða að hafa andstyggð á óseðjandi græðgi eins og þeirri sem sumir Ísraelsmenn sýndu á þeim tíma. (Orðskviðirnir 27:20) Þegar efnislegir hlutir fara að skipta meira máli en góðu hófi gegnir er hætta á að maður gerist ófyrirleitinn við að afla sér peninga. Það er hægur vandi að flækjast í vafasöm, óraunsæ eða áhættusöm viðskipti. „Sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu.“ (Orðskviðirnir 28:20) Það er því afar mikilvægt að gera sig ánægðan með það sem maður hefur. — 1. Tímóteusarbréf 6:8.

Vafasöm skemmtun er snara

21. Hvaða syndir fordæmir Jesaja í öðru veiinu?

21 Nú er komið að öðru veiinu hjá Jesaja: „Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni. Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum [Jehóva] gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki.“ — Jesaja 5:11, 12.

22. Hvaða taumleysi er augljóst í Ísrael og hvaða afleiðingar hefur það fyrir þjóðina?

22 Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘ og telur ekki eftir að þjónar sínir njóti hæfilegrar afþreyingar. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) En þessir skemmtanafíklar kunna sér ekkert hóf. „Þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni,“ segir Biblían. (1. Þessaloníkubréf 5:7) En svallararnir í spádóminum hefja drykkjuna í dögun og drekka langt fram á kvöld! Þeir hegða sér eins og Guð sé ekki til, eins og hann geri þá ekki ábyrga fyrir því sem þeir gera. Jesaja spáir þeim skuggalegri framtíð. „Fyrir því mun lýður minn fyrr en af veit [„minn fáfróði lýður,“ Biblían 1859] fara í útlegð, og tignarmennirnir kveljast af hungri og svallararnir vanmegnast af þorsta.“ ( Jesaja 5:13) Sáttmálaþjóð Guðs vill ekki hegða sér í samræmi við hina sönnu þekkingu svo að hún fer niður til heljar — jafnt háir sem lágir. — Lestu Jesaja 5:14-17.

23, 24. Í hverju eiga kristnir menn að sýna hóf og aðhald?

23 „Svall“ eða „taumlaus teiti“ voru einnig vandamál hjá sumum hinna kristnu á fyrstu öld. (Galatabréfið 5:21, Byington; 2. Pétursbréf 2:13) Það kemur ekki á óvart að einstaka vígðir kristnir menn nú á dögum hafa sýnt slæma dómgreind þegar þeir hafa gert sér dagamun. Taumlaus notkun áfengis getur gert menn háværa og glaumsama. (Orðskviðirnir 20:1) Þess eru jafnvel dæmi að menn hafi hegðað sér ósiðlega eftir að hafa drukkið of mikið, og samkvæmi hafa stundum staðið langt fram á nótt og truflað kristilegt starf daginn eftir.

24 En kristinn maður gætir góðs jafnvægis, ber ávöxt Guði að skapi og sýnir hóf og aðhald í afþreyingu. Hann fer eftir ráðleggingu Páls í Rómverjabréfinu 13:13: „Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju.“

Að hata syndina og elska sannleikann

25, 26. Hvaða óguðlegan hugsunarhátt Ísraelsmanna afhjúpar Jesaja í þriðja og fjórða veiinu?

25 Nú er komið að þriðja og fjórða veiinu hjá Jesaja: „Vei þeim, sem draga refsinguna í böndum ranglætisins og syndagjöldin eins og í aktaugum, þeim er segja: ‚Flýti hann sér og hraði verki sínu, svo að vér megum sjá það, komi nú ráðagjörð Hins heilaga í Ísrael fram og rætist, svo að vér megum verða varir við.‘ Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.“ — Jesaja 5:18-20.

26 Jesaja dregur upp lifandi mynd af þeim sem leggja stund á syndina. Þeir eru bundnir við hana líkt og dráttardýr sem spennt er fyrir vagn. Syndararnir óttast ekki komandi dómsdag heldur hæðast að og segja: „Hraði [Guð] verki sínu.“ Í stað þess að beygja sig undir lögmál hans rangsnúa þeir hlutunum og „kalla hið illa gott og hið góða illt.“ — Samanber Jeremía 6:15; 2. Pétursbréf 3:3-7.

27. Hvernig geta kristnir menn nú á tímum forðast það hugarfar sem Ísraelsmenn sýndu?

27 Kristnir menn nú á tímum verða að forðast slíkt hugarfar hvað sem það kostar. Þeir hafna til dæmis því viðhorfi heimsins að saurlifnaður og kynvilla sé boðleg. (Efesusbréfið 4:18, 19) Kristnum manni getur auðvitað orðið á að drýgja alvarlega synd. (Galatabréfið 6:1) Öldungar safnaðarins eru reiðubúnir að hjálpa þeim sem hafa hrasað og eru hjálparþurfi. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Með bænum og biblíulegum ráðum geta þeir náð sér aftur andlega. Að öðrum kosti er hætta á að þeir verði ‚þrælar syndarinnar.‘ (Jóhannes 8:34) Kristnir menn kappkosta að vera „flekklausir og lýtalausir“ frammi fyrir Jehóva en hvorki spotta hann né glata vitundinni um að dómsdagurinn sé nærri. — 2. Pétursbréf 3:14; Galatabréfið 6:7, 8.

28. Hvaða syndir eru fordæmdar í síðustu veiunum og hvernig geta kristnir menn forðast þess konar syndir?

28 Jesaja kemur nú með síðustu veiin: „Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti. Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk, þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur og svipta hina réttlátu rétti þeirra.“ (Jesaja 5:21-23) Þessum orðum var sennilega beint til dómara landsins. Safnaðaröldungar okkar tíma varast að sýnast ‚vitrir í augum sjálfra sín.‘ Þeir taka auðmjúkir við ráðleggingum samöldunga sinna og fylgja skipulagsfyrirmælum gaumgæfilega. (Orðskviðirnir 1:5; 1. Korintubréf 14:33) Þeir nota áfengi í hófi og snerta það aldrei áður en þeir sinna safnaðarskyldum. (Hósea 4:11) Þeir gæta þess jafnframt að það örli ekki einu sinni á hlutdrægni hjá þeim. (Jakobsbréfið 2:9) Hvílíkur munur á þeim og klerkum kristna heimsins sem margir hverjir hvítþvo áhrifamikla og auðuga syndara sín á meðal. Það stingur illilega í stúf við viðvörun Páls postula í Rómverjabréfinu 1:18, 26, 27, 1. Korintubréfi 6:9, 10 og Efesusbréfinu 5:3-5.

29. Hvaða ömurleg endalok bíða víngarðs Jehóva, Ísraels?

29 Jesaja lýkur þessum spádómsorðum með því að lýsa ömurlegum endalokum þeirra sem „hafa hafnað lögmáli [Jehóva]“ og ekki borið réttlátan ávöxt. (Jesaja 5:24, 25; Hósea 9:16; Malakí 4:1) Hann segir: „[Jehóva] reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá.“ — Jesaja 5:26; 5. Mósebók 28:49; Jeremía 5:15.

30. Hver kallar saman „fjarlæga þjóð“ gegn fólki Jehóva og með hvaða afleiðingum?

30 Til forna gat stöng reist uppi á hæð verið „hermerki“ þar sem liðsafli eða fólk almennt safnaðist saman. (Samanber Jesaja 18:3; Jeremía 51:27.) Nú ætlar Jehóva sjálfur að kalla þessa ónafngreindu og ‚fjarlægu þjóð‘ saman til að láta hana fullnægja dómi sínum. * Hann „blístrar á hana“ til að vekja athygli hennar á þrjóskri þjóð sinni og benda á að það sé fyrirhafnarinnar virði að vinna hana. Síðan lýsir spámaðurinn skyndilegri og skelfilegri árás þessara sigurvegara sem „grípa herfangið,“ þjóð Guðs, eins og ljón og „hafa það á burt“ í ánauð. (Lestu Jesaja 5:27-30a.) Þetta eru dapurleg örlög fyrir landið sem þjóð Jehóva byggir. „Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.“ — Jesaja 5:30b.

31. Hvernig geta sannkristnir menn forðast refsinguna sem Ísrael, víngarður Jehóva, hlaut?

31 Já, víngarðurinn, sem Guð plantaði í kærleika sínum, er ófrjór og verðskuldar ekkert nema eyðingu. Orð Jesaja eru sterk áminning til allra sem vilja þjóna Jehóva nú á tímum. Megi þeir kappkosta að bera réttlátan ávöxt og ekkert annað, Jehóva til lofs og sjálfum sér til hjálpræðis!

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Sumir fræðimenn telja að ódýrari og óvandaðri varðskálar eða skýli hafi verið mun algengari en steinturnar. (Jesaja 1:8) Turn bendir þá til að eigandinn hafi lagt óvenjumikla vinnu í „víngarð“ sinn.

^ gr. 30 Í öðrum spádómum bendir Jesaja á að það sé Babýlon sem fullnægi eyðingardómi Jehóva á Júda.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 83]

Syndari er bundinn við syndina líkt og dráttardýr sem spennt er fyrir vagn.

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 85]