Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Óbyrjan fagnar

Óbyrjan fagnar

15. kafli

Óbyrjan fagnar

Jesaja 54:1-17

1. Af hverju þráði Sara að eignast börn en hvernig fór?

 SARA þráði að eignast börn. Því miður var hún óbyrja og leið mjög fyrir. Ófrjósemi þótti hneisa í hennar tíð, en kvöl hennar risti dýpra en það. Hún þráði að sjá fyrirheitið, sem Guð gaf eiginmanni hennar, rætast. Abraham átti að eignast afkvæmi sem verða átti öllum þjóðum jarðar til blessunar. (1. Mósebók 12:1-3) En þeim hafði ekki orðið barna auðið þótt áratugir væru liðnir síðan loforðið var gefið. Sara var barnlaus fram á elliár. Kannski hefur hún stundum velt því fyrir sér hvort hún hafi vonað til einskis. En dag nokkurn breyttist örvæntingin í fögnuð.

2. Af hverju er spádómurinn í Jesaja 54. kafla forvitnilegur?

2 Staða Söru auðveldar okkur að skilja spádóminn í Jesaja 54. kafla. Þar er Jerúsalem ávörpuð eins og hún sé óbyrja sem kynnist þeirri miklu gleði að eignast fjölda barna. Jehóva sýnir fornþjóð sinni ástúð með því að kalla hana eiginkonu sína. Og þessi kafli Jesajabókar lýkur upp mikilvægum þætti merkilegs „leyndardóms“ sem Biblían kallar svo. (Rómverjabréfið 16:25, 26) Skýring á því hver ‚óbyrjan‘ er og á reynslu hennar, sem þessi spádómur boðar, varpar skæru ljósi á sanna tilbeiðslu nú á tímum.

Hver er ‚óbyrjan‘?

3. Af hverju á ‚óbyrjan‘ eftir að gleðjast?

3 Fimmtugasti og fjórði kaflinn hefst í glaðlegum tón: „Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, — segir [Jehóva].“ (Jesaja 54:1) Jesaja hlýtur að hafa notið þess að flytja þessi orð. Og þau hafa verið sérstaklega hughreystandi fyrir Gyðinga í útlegðinni í Babýlon. Jerúsalem lá enn í eyði þegar hér var komið sögu. Frá mannlegum bæjardyrum séð virtist ekki meiri von um að hún yrði byggð að nýju en að óbyrja eignaðist börn í ellinni. En þessi „óbyrja“ á mikla blessun í vændum því að hún á að eignast börn. Jerúsalem verður frá sér numin af gleði. Enn á ný skal hún fyllast ‚börnum‘ eða íbúum.

4. (a) Hvernig sýnir Páll postuli fram á að 54. kafli Jesajabókar hljóti að rætast í fullkomnari mæli en hann gerði árið 537 f.o.t.? (b) Hver er „Jerúsalem, sem í hæðum er“?

4 Jesaja veit kannski ekki að þessi spádómur á að rætast oftar en einu sinni. Páll postuli vitnar í 54. kafla Jesajabókar og útskýrir að ‚óbyrjan‘ tákni mun mikilvægari hlut en hina jarðnesku Jerúsalemborg. Hann skrifar: „Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor.“ (Galatabréfið 4:26) Hver er ‚Jerúsalem í hæðum‘? Ljóst er að það er ekki átt við borgina Jerúsalem í fyrirheitna landinu. Hún er jarðnesk en ekki „í hæðum“ himinsins. ‚Jerúsalem í hæðum‘ er himnesk ‚kona‘ Guðs, andaveruskipulag hans.

5. Hvað táknar hver í sjónleiknum sem lýst er í Galatabréfinu 4:22-31: (a) Abraham? (b) Sara? (c) Ísak? (d) Hagar? (e) Ísmael?

5 En hvernig getur Jehóva átt tvær táknrænar konur, aðra á himni en hina á jörð? Er eitthvert ósamræmi í því? Alls ekki. Páll postuli bendir á að svarið sé fólgið í hinni spádómlegu fyrirmynd sem fjölskylda Abrahams var. (Galatabréfið 4:22-31; sjá „Fjölskylda Abrahams er spádómleg fyrirmynd,“ á bls. 218.) Sara, ‚frjálsa konan“ og eiginkona Abrahams, táknar andaveruskipulag Jehóva sem líkt er við eiginkonu. Hagar, ambáttin og hjákona Abrahams, táknar hina jarðnesku Jerúsalem.

6. Í hvaða skilningi var himneskt skipulag Guðs ófrjótt lengi vel?

6 Með þessar upplýsingar að bakhjarli byrjar hin djúpstæða merking Jesaja 54:1 að renna upp fyrir okkur. Sara eignaðist Ísak níræð að aldri, eftir áratugalanga ófrjósemi. Himneskt skipulag Jehóva var líka ófrjótt um langa hríð. Strax í Eden lofaði Jehóva því að „kona“ sín skyldi eignast ‚sæði‘ eða afkvæmi. (1. Mósebók 3:15) Meira en 2000 árum síðar gerði Jehóva sáttmálann við Abraham um hið fyrirheitna sæði. En himnesk „kona“ Guðs þurfti að bíða enn í margar aldir áður en afkvæmið kom fram. Svo rann upp sá tími að börn þessarar fyrrverandi ‚óbyrju‘ urðu fleiri en börn Ísraels að holdinu. Samlíkingin við óbyrjuna varpar ljósi á það hvers vegna englarnir voru svona ákafir að sjá hið fyrirheitna sæði koma fram. (1. Pétursbréf 1:12) Hvenær gerðist það?

7. Hvenær hafði ‚Jerúsalem í hæðum‘ tilefni til að gleðjast eins og boðað var í Jesaja 54:1? Rökstyddu svarið.

7 Fæðing Jesú á jörð var englunum mikið gleðiefni. (Lúkas 2:9-14) En Jesaja 54:1 fjallaði ekki um þann atburð. Jesús varð ekki andlegur sonur ‚Jerúsalem í hæðum‘ fyrr en hann var getinn af heilögum anda árið 29, en þá viðurkenndi Guð hann opinberlega sem ‚elskaðan son sinn.‘ (Markús 1:10, 11; Hebreabréfið 1:5; 5:4, 5) Það var þá sem himnesk „kona“ Guðs hafði ástæðu til að gleðjast eins og boðað var í Jesaja 54:1. Loksins var hún búin að geta hið fyrirheitna sæði, Messías! Aldalöng ófrjósemi hennar var á enda. En fögnuði hennar lauk ekki með því.

Óbyrjan eignast fjölda barna

8. Af hverju hafði himnesk „kona“ Guðs ástæðu til að gleðjast eftir að hún eignaðist hið fyrirheitna sæði?

8 Eftir dauða Jesú og upprisu gat himnesk „kona“ Guðs glaðst yfir því að endurheimta uppáhaldsson sinn. Hann var „frumburðurinn frá hinum dauðu.“ (Kólossubréfið 1:18) Þá fór hún að eignast fleiri andleg börn. Um 120 fylgjendur Jesú voru smurðir heilögum anda á hvítasunnu árið 33. Þar með voru þeir ættleiddir sem samerfingjar Krists. Þrjú þúsund bættust við síðar sama dag. (Jóhannes 1:12; Postulasagan 1:13-15; 2:1-4, 41; Rómverjabréfið 8:14-16) Börnunum fjölgaði jafnt og þétt. Á fyrstu öldum fráhvarfsins frá sannri kristni hægði mjög á fjölguninni. En það breyttist aftur á 20. öld.

9, 10. Hvernig ‚víkkaði kona út tjald sitt‘ forðum daga og af hverju hefur hún haft ánægju af því að gera það?

9 Jesaja heldur áfram og spáir athyglisverðum vexti: „Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana. Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir. Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.“ — Jesaja 54:2-4.

10 Hér er Jerúsalem ávörpuð eins og hún búi í tjöldum líkt og Sara gerði. Þegar þessi eiginkona og móðir eignast fleiri börn þarf hún að stækka heimilið. Hún þarf að þenja út tjalddúkana, lengja stögin og reka niður tjaldhælana á nýjum stöðum. Hún hefur ánægju af þessari vinnu, og í öllu annríkinu á hún auðvelt með að gleyma árunum sem hún hugleiddi áhyggjufull hvort hún myndi nokkurn tíma eignast börn til að viðhalda ættinni.

11. (a) Hvaða blessun hlaut himnesk „kona“ Guðs árið 1914? (Sjá neðanmálsgrein.) (b) Hvaða blessun hafa hinir smurðu á jörðinni hlotið síðan 1919?

11 Hin jarðneska Jerúsalem var endurnýjuð eftir útlegðina í Babýlon. ‚Jerúsalem í hæðum‘ hefur veist enn ríkulegri blessun. * Smurðir „niðjar“ hennar hafa dafnað eftir andlega endurreisn, einkum frá og með 1919. (Jesaja 61:4; 66:8) Þeir ‚eignuðust lönd þjóðanna‘ með því að útbreiðast víða um lönd og leita uppi alla þá sem vildu tengjast hinni andlegu fjölskyldu. Samansöfnun hinna smurðu barna gekk því hratt fyrir sig. Lokatölunni 144.000 virtist vera náð einhvern tíma um miðjan fjórða áratug tuttugustu aldar. (Opinberunarbókin 14:3) Þá hættu menn að einbeita sér að því í boðunarstarfinu að safna hinum smurðu. En vextinum var ekki lokið.

12. Hverjum, auk hinna smurðu, hefur verið safnað inn í kristna söfnuðinn síðan á fjórða áratugnum?

12 Jesús sagði fyrir að hann myndi eiga sér „aðra sauði“ fyrir utan „litla hjörð“ smurðra bræðra sinna, og að það þyrfti að leiða þá inn í sauðabyrgi sannkristinna manna. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Þeir eru ekki andleg börn ‚Jerúsalem í hæðum‘ en eru trúir félagar hinna smurðu og gegna mikilvægu hlutverki sem spáð var um endur fyrir löngu. (Sakaría 8:23) Frá því á fjórða áratugnum hefur verið safnað saman ‚miklum múgi‘ þeirra og kristni söfnuðurinn hefur vaxið sem aldrei fyrr. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Múgurinn mikli telst nú í milljónum og þessi mikla fjölgun hefur haft í för með sér að þurft hefur að reisa fleiri ríkissali, mótshallir og útibú. Orð Jesaja virðast eiga betur og betur við. Það er mikill heiður að mega vera þátttakandi í þeim vexti sem spáð var!

Móðir sem annast börn sín

13, 14. (a) Hvaða mótsögn virðist vera í sumu af því sem sagt er við himneska „konu“ Guðs? (b) Hvaða skýringu sjáum við þegar við lítum nánar á myndmálið?

13 Við höfum komist að raun um að „konan“ í spádómnum táknar himneskt skipulag Jehóva í meiri uppfyllingunni. En eftir að hafa lesið Jesaja 54:4 er okkur kannski spurn hvernig þetta andaveruskipulag hafi getað orðið fyrir háðung og svívirðu. Versin á eftir segja að „kona“ Guðs verði yfirgefin, harmþrungin og ofríki beitt. Hún kalli jafnvel yfir sig reiði Guðs. Hvernig getur slíkt hent skipulag fullkominna andavera sem hafa aldrei syndgað? Svarið er fólgið í eðlisgerð fjölskyldunnar.

14 Myndlíkingar eru mjög lýsandi í hugum manna svo að Jehóva notar fjölskyldutengsl — eiginmann og konu, móður og börn — til að lýsa djúpstæðum, andlegum sannindum. Hver sem reynsla okkar er af fjölskyldulífi og hvernig sem fjölskylda okkar er samsett höfum við sennilega allgóða hugmynd um það hvernig gott hjónaband er og hvernig gott samband milli foreldra og barna eigi að vera. Jehóva dregur þannig upp ljóslifandi mynd af innilegu og hlýlegu trúnaðarsambandi sínu við hinn mikla fjölda andaþjóna sinna. Og hann kennir okkur með mjög áhrifamiklum hætti að skipulag sitt á himnum láti sér annt um andasmurð börn sín á jörð. Þegar þjónar hans á jörðinni þjást, þá þjást hinir trúu himnesku þjónar hans líka, það er að segja ‚Jerúsalem í hæðum.‘ Jesús sagði: „Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu [andasmurðu] bræðra, það hafið þér gjört mér.“ — Matteus 25:40.

15, 16. Hver var byrjunaruppfylling Jesaja 54:5, 6 og hver er meiri uppfyllingin?

15 Það kemur því ekki á óvart að margt af því sem sagt er við himneska „konu“ Jehóva skuli henda börn hennar á jörðinni. Spádómurinn heldur áfram: „Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, [Jehóva] allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann. [Jehóva] kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, — segir Guð þinn.“ — Jesaja 54:5, 6.

16 Hvaða eiginkona er ávörpuð hér? Í byrjunaruppfyllingunni er það Jerúsalem sem táknar þjóð Guðs. Í hinni 70 ára útlegð í Babýlon líður Ísraelsmönnum eins og Jehóva hafi hafnað þeim og yfirgefið þá. Í hinni meiri uppfyllingu eiga orðin við ‚Jerúsalem í hæðum‘ og það að hún skuli loksins eignast ‚sæði‘ eða afkomendur eins og spáð var í 1. Mósebók 3:15.

Skammvinn ögun, eilíf blessun

17. (a) Hvernig verður hin jarðneska Jerúsalem fyrir „ofurreiði“ Guðs? (b) Hvaða „ofurreiði“ skall á börnum ‚Jerúsalem í hæðum‘?

17 Spádómurinn heldur áfram: „Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér. Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, — segir endurlausnari þinn, [Jehóva].“ (Jesaja 54:7, 8) Hin jarðneska Jerúsalem má þola „ofurreiði“ Guðs þegar Babýloníuher ræðst á hana árið 607 f.o.t. Sjötíu ár virtist langur útlegðartími. En þrengingarnar standa aðeins „um stund“ í samanburði við hina eilífu blessun þeirra sem þiggja ögunina. Smurðum börnum ‚Jerúsalem í hæðum‘ fannst þau líka verða fyrir „ofurreiði“ Jehóva er hann leyfði stjórnmálaöflum að ráðast á þau að undirlagi Babýlonar hinnar miklu. En ögunin virtist ósköp skammvinn síðar í samanburði við andlega blessunartímann sem kom í kjölfarið árið 1919.

18. Hvaða mikilvægan lærdóm má draga af reiði Jehóva gagnvart fólki sínu og hvernig gæti það snert okkur persónulega?

18 Þessi vers segja annan mikilvægan sannleika: Reiði Guðs er stundleg en miskunn hans eilíf. Reiði hans blossar gegn syndinni en hún er alltaf öguð og stefnuföst. Og ef við þiggjum ögun Jehóva stendur reiði hans aðeins „um stund“ og víkur svo fyrir „mikilli miskunnsemi“ hans, fyrirgefningu og alúð sem er ‚eilíf.‘ Við ættum því aldrei að hika við að iðrast og bæta fyrir brot okkar þegar við syndgum. Ef syndin er alvarleg ættum við að leita til safnaðaröldunganna þegar í stað. (Jakobsbréfið 5:14) Kannski þarf að aga okkur og það getur verið erfitt að taka því. (Hebreabréfið 12:11) En ögunin verður skammvinn í samanburði við hina eilífu blessun sem fyrirgefning Jehóva Guðs hefur í för með sér.

19, 20. (a) Hvað er regnbogasáttmálinn og hvaða máli skiptir hann fyrir útlagana í Babýlon? (b) Hvaða tryggingu fá smurðir kristnir menn nú á dögum samkvæmt ‚friðarsáttmálanum‘?

19 Jehóva hughreystir nú fólk sitt: „Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig. Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, — segir miskunnari þinn, [Jehóva].“ (Jesaja 54:9, 10) Eftir flóðið gerði Guð sáttmála við Nóa og aðrar lifandi sálir, stundum kallaður regnbogasáttmálinn. Þar hét hann því að eyða jörðina aldrei aftur í heimsflóði. (1. Mósebók 9:8-17) Hvað merkir það fyrir Jesaja og þjóð hans?

20 Það er hughreystandi fyrir þá að vita að þeim verður aðeins refsað einu sinni með hinni 70 ára útlegð í Babýlon. Hún verður ekki endurtekin eftir að hún er afstaðin. Eftir það verður „friðarsáttmáli“ Guðs í gildi. Hebreska orðið, sem þýtt er „friður,“ lýsir hvers kyns farsæld, en ekki aðeins því að stríði eða átökum linni. Sáttmálinn er varanlegur af Guðs hálfu. Fyrr myndu fjöll og hálsar færast úr stað en að Jehóva hætti að miskunna trúu fólki sínu. Því miður hættir jarðnesk þjóð hans síðar meir að halda sáttmálann og spillir eigin friði með því að hafna Messíasi. En börnum ‚Jerúsalem í hæðum‘ vegnaði mun betur. Þau fengu tryggingu fyrir vernd Guðs eftir að hinn erfiði ögunartími var liðinn.

Andlegt öryggi fólks Guðs

21, 22. (a) Af hverju er ‚Jerúsalem í hæðum‘ sögð vesæl og hrakin? (b) Hvað táknaði ástand himneskrar „konu“ Guðs fyrir ‚niðja‘ hennar á jörð?

21 Jehóva boðar nú öryggi handa trúu fólki sínu: „Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum. Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum. Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar. Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa. Álít þig fjarlæga ofríki, því að þú þarft ekki að óttast, og fjarlæga skelfingu, því að hún skal ekki koma nærri þér. Ef nokkur áreitir þig, þá er það ekki að mínum vilja. Hver sem áreitir þig, skal falla fyrir þér.“ — Jesaja 54:11-15.

22 „Kona“ Jehóva í andaheiminum verður auðvitað aldrei beinlínis vesæl eða hrakin. En hún þjáðist með smurðum ‚niðjum‘ sínum á jörðinni, einkum þegar þeir voru hnepptir í andlega fjötra á tímabilinu 1918-19. Og þegar hin himneska „kona“ er upphafin endurspeglar það sams konar ástand meðal niðja hennar. Líttu á hina fögru lýsingu á ‚Jerúsalem í hæðum.‘ Roðasteinshliðin, rúbínarnir í byggingu hennar, grunnmúrarnir og meira að segja ummerkjagarðurinn lýsa „fegurð, glæsileik, hreinleika, styrk og traustleika,“ eins og heimildarrit bendir á. Hvað gat veitt smurðum kristnum mönnum slíkt öryggi og slíka blessun?

23. (a) Hvaða áhrif hefur það haft á smurða kristna menn á síðustu dögum að vera ‚lærisveinar Jehóva‘? (b) Í hvaða skilningi er settur ‚ummerkjagarður af dýrindissteinum‘ kringum fólk Guðs?

23 Þrettánda versið í 54. kafla Jesajabókar svarar því: Allir eru ‚lærisveinar Jehóva.‘ Jesús heimfærði þetta vers upp á smurða fylgjendur sína. (Jóhannes 6:45) Spámaðurinn Daníel boðaði að á ‚endalokatímanum‘ myndu hinir smurðu hljóta mikla þekkingu og visku. (Daníel 12:3, 4) Þessi viska hefur gert þeim kleift að standa fyrir mesta fræðsluátaki sögunnar og útbreiða kenningu Guðs um alla jörðina. (Matteus 24:14) Og viskan hefur líka gert þeim kleift að sjá muninn á sannri trú og falskri. Í Jesaja 54:12 er nefndur ‚ummerkjagarður af dýrindissteinum.‘ Frá 1919 hefur Jehóva veitt hinum smurðu æ gleggri skilning á ummerkjagarðinum — hinum andlegu markalínum — sem greina þá frá falstrú og óguðlegum öflum heimsins. (Esekíel 44:23; Jóhannes 17:14; Jakobsbréfið 1:27) Þeir eru aðgreindir sem fólk Guðs. — 1. Pétursbréf 2:9.

24. Hvernig getum við tryggt að við séum lærisveinar Jehóva?

24 Hver og einn ætti því að spyrja sig: Er ég lærisveinn Jehóva? Við verðum það ekki sjálfkrafa heldur þurfum að leggja eitthvað á okkur. Ef við lesum reglulega í orði Guðs, hugleiðum það, lærum af lestri biblíutengdra rita frá ‚hinum trúa og hyggna þjóni,‘ búum okkur undir kristnar samkomur og sækjum þær, þá erum við lærisveinar Jehóva. (Matteus 24:45-47) Ef við þiggjum kennslu Guðs, leggjum okkur fram um að fara eftir henni og erum andlega vakandi og árvökur, þá aðgreinum við okkur frá guðlausum heimi. (1. Pétursbréf 5:8, 9) Og síðast en ekki síst er það hjálp til að ‚nálægja okkur Guði.‘ — Jakobsbréfið 1:22-25; 4:8.

25. Hvað þýðir loforð Guðs um frið fyrir fólk hans nú á tímum?

25 Spádómur Jesaja bendir einnig á að hinir smurðu búi við mikinn frið. Er þá aldrei ráðist á þá? Jú, en Guð lofar að fyrirskipa aldrei slíkar árásir né leyfa að þær heppnist. Við lesum: „Sjá, ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar, og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði. Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna [Jehóva] og það réttlæti, er þeir fá hjá mér — segir [Jehóva].“ — Jesaja 54:16, 17.

26. Af hverju er hughreystandi til þess að vita að Jehóva er skapari alls mannkyns?

26 Jehóva minnir þjóna sína á það í annað sinn í þessum kafla að hann sé skaparinn. Í fyrra sinnið segir hann táknrænni eiginkonu sinni að hann hafi ‚skapað hana.‘ Nú segist hann vera skapari alls mannkyns. Sextánda versið lýsir málmsmið sem blæs í kolaeldinn í smiðjunni og smíðar eyðingarvopn, og stríðsmanni sem kallaður er ‚eyðandi til þess að leggja í eyði.‘ Vopnasmiðir og stríðsmenn geta skotið öðrum mönnum skelk í bringu en þeir eiga enga möguleika gegn skapara sínum. Þó að öflugustu hersveitir heims ráðist á fólk Jehóva eiga þær enga sigurmöguleika. Hvernig getur það verið?

27, 28. Hverju megum við treysta á þeim ólgutímum sem við lifum og hvernig vitum við að árásir Satans gegn okkur mistakast?

27 Sá tími er liðinn að fólk Guðs og tilbeiðsla þess í anda og sannleika sæti skaðlegum árásum. (Jóhannes 4:23, 24) Jehóva leyfði Babýlon hinni miklu að gera eina árás sem reyndist árangursrík um skamman tíma. Um stutta stund horfði ‚Jerúsalem í hæðum‘ upp á það að niðjar hennar þögnuðu næstum er boðunarstarfið á jörðinni svo að segja stöðvaðist. En það gerist aldrei aftur. Hún gleðst yfir börnum sínum því að þeir eru í andlegum skilningi ósigrandi. (Jóhannes 16:33; 1. Jóhannesarbréf 5:4) Auðvitað hafa verið smíðuð árásarvopn gegn þeim og svo verður áfram. (Opinberunarbókin 12:17) En þau hafa aldrei reynst sigurvænleg og verða aldrei. Satan á engin vopn sem geta unnið bug á trú og brennandi kostgæfni hinna smurðu og félaga þeirra. Þessi andlegi friður er ‚hlutskipti þjóna Jehóva‘ svo að enginn getur tekið hann frá þeim með valdi. — Sálmur 118:6; Rómverjabréfið 8:38, 39.

28 Heimur Satans getur aldrei stöðvað starf né hreina tilbeiðslu vígðra þjóna Guðs. Smurðum niðjum ‚Jerúsalem í hæðum‘ er mikil hughreysting í þessu loforði og sama er að segja um múginn mikla. Því betur sem við kynnumst himnesku skipulagi Jehóva og samskiptum þess við dýrkendur hans á jörð, þeim mun sterkari verður trú okkar. Og meðan trúin er sterk megna vopn Satans ekkert gegn okkur!

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Samkvæmt Opinberunarbókinni 12:1-17 hlotnaðist „konu“ Guðs sú blessun að eignast afar þýðingarmikinn ‚niðja.‘ Þetta var ekki einhver einn andasonur heldur messíasarríkið á himnum. Það fæddist árið 1914. (Sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 177-86.) Spádómur Jesaja beinir athyglinni að gleði hennar yfir því að Guð skuli blessa smurð börn hennar á jörð.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 218, 219]

Fjölskylda Abrahams er spádómleg fyrirmynd

Páll postuli bendir á að fjölskylda Abrahams leiki táknrænt hlutverk og sé spádómleg mynd af sambandi Jehóva við hið himneska skipulag og við Ísraelsmenn á jörð meðan lagasáttmálinn var í gildi. — Galatabréfið 4:22-31.

Abraham, höfuð fjölskyldunnar, táknar Jehóva Guð. Hann var fús til að fórna Ísak, hjartkærum syni sínum, sem táknar það að Jehóva var fús til að fórna elskuðum syni sínum fyrir syndir mannkyns. — 1. Mósebók 22:1-13; Jóhannes 3:16.

Sara táknar himneska „eiginkonu“ Guðs, andaveruskipulag hans. Skipulaginu á himnum er vel lýst sem eiginkonu Jehóva því að það á mjög náin tengsl við hann, er undirgefið forystu hans og vinnur fullkomlega með honum að því að ásetningur hans nái fram að ganga. Það er einnig kallað „Jerúsalem, sem í hæðum er.“ (Galatabréfið 4:26) Þessi sama ‚kona‘ er nefnd í 1. Mósebók 3:15 og hún sést í sýn í Opinberunarbókinni 12:1-6, 13-17.

Ísak táknar hið andlega sæði eða afkvæmi konu Guðs, fyrst og fremst Jesú Krist. En smurðir bræður Krists tilheyra einnig afkvæminu. Þeir eru ættleiddir sem andlegir synir eða niðjar og verða samerfingjar Krists. — Rómverjabréfið 8:15-17; Galatabréfið 3:16, 29.

Hagar, hjákona Abrahams, var ambátt. Hún táknar hina jarðnesku Jerúsalem þar sem Móselögin réðu og sýndu fram á að allir fylgismenn þeirra voru þrælar syndar og dauða. Páll segir að ‚Hagar merki Sínaífjall í Arabíu‘ af því að lagasáttmálinn var gerður þar. — Galatabréfið 3:10, 13; 4:25.

Ísmael, sonur Hagar, táknar Gyðinga á fyrstu öld, börn Jerúsalem sem voru enn þá í fjötrum Móselaganna. Gyðingar ofsóttu kristna menn, sem voru smurðir synir hinnar táknrænu Söru, ‚Jerúsalem í hæðum,‘ líkt og Ísmael ofsótti Ísak. Og Jehóva hafnaði að lokum Jerúsalem og uppreisnarsonum hennar, eins og Abraham sendi Hagar og Ísmael burt. — Matteus 23:37, 38.

[Mynd á blaðsíðu 220]

Jesús var smurður heilögum anda eftir skírnina og þá hófst mikilvægasta uppfylling Jesaja 54:1.

[Mynd á blaðsíðu 225]

Jehóva byrgði auglit sitt aðeins „um stund“ fyrir Jerúsalem.

[Mynd á blaðsíðu 231]

Megna stríðsmaðurinn og málmsmiðurinn eitthvað gegn skapara sínum?