Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér eruð mínir vottar!“

„Þér eruð mínir vottar!“

4. kafli

„Þér eruð mínir vottar!“

Jesaja 43:1-28

1. Til hvers notar Jehóva spádóma og hvernig á fólk hans að bregðast við uppfylltum spádómum?

 HINN sanni Guð getur sagt framtíðina fyrir og það er eitt af mörgu sem greinir hann frá öllum falsguðum. En hann spáir ekki aðeins til að sanna guðdóm sinn. Eins og fram kemur í 43. kafla Jesajabókar eru spádómarnir bæði sönnun fyrir guðdómi hans og kærleika til sáttmálaþjóðar sinnar. Og þjónar hans eiga ekki að þegja þegar þeir sjá spádómana uppfyllast heldur vitna um það sem þeir hafa séð. Já, þeir eiga að vera vottar Jehóva!

2. (a) Hvernig er Ísraelsþjóðin andlega á vegi stödd á dögum Jesaja? (b) Hvernig opnar Jehóva augu þjóðar sinnar?

2 Því miður er svo ömurlega ástatt fyrir Ísrael á dögum Jesaja að Jehóva álítur þjóðina andlega fatlaða. „Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru.“ (Jesaja 43:8) Hvernig getur andlega blind og dauf þjóð verið lifandi vottar um Jehóva? Það er aðeins ein leið til þess og hún er sú að augu hennar og eyru opnist fyrir kraftaverk. Og Jehóva vinnur þetta kraftaverk! Fyrst agar hann þjóðina harðlega. Íbúar norðurríkisins Ísraels eru fluttir í útlegð árið 740 f.o.t. og íbúar Júda árið 607 f.o.t. Síðan beitir Jehóva mætti sínum í þágu þjóðarinnar, frelsar hana og leiðir iðrandi og andlega endurlífgaðar leifar heim aftur árið 537 f.o.t. Reyndar er Jehóva svo öruggur um að ásetningi sínum verði ekki hnekkt að hann talar um frelsun Ísraels 200 árum fyrir fram eins og hún sé um garð gengin.

3. Hvernig uppörvar Jehóva væntanlega útlaga?

3 „Nú segir [Jehóva] svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér. Því að ég, [Jehóva], er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn.“ — Jesaja 43:1-3a.

4. Í hvaða skilningi er Jehóva skapari Ísraels og hverju lofar hann þjóð sinni varðandi heimför hennar?

4 Jehóva lætur sér sérstaklega annt um Ísrael af því að þjóðin tilheyrir honum. Hún er persónulegt sköpunarverk hans í samræmi við Abrahamssáttmálann. (1. Mósebók 12:1-3) Þess vegna segir í Sálmi 100:3: „Vitið, að [Jehóva] er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.“ Jehóva, skapari og lausnari Ísraels, ætlar að leiða þjóð sína óhulta heim á ný. Tálmar eins og vötn, flæðiár og brennheitar eyðimerkur fá hvorki skaðað þá né hindrað heimför þeirra, enda náði ekkert slíkt að aftra forfeðrum þeirra á leiðinni til fyrirheitna landsins þúsund árum áður.

5. (a) Hvernig eru orð Jehóva hughreystandi fyrir hinn andlega Ísrael? (b) Hverjir hafa gengið til liðs við hinn andlega Ísrael og hverjir voru táknmynd þeirra?

5 Orð Jehóva eru líka hughreystandi fyrir leifar hins andlega Ísraels á okkar dögum sem er andagetin ‚ný sköpun.‘ (2. Korintubréf 5:17) Þær hafa gengið djarfmannlega fram fyrir ‚vötn‘ mannkynsins og notið verndar Guðs í táknrænum flóðum. Þær hafa ekki skaðast heldur hreinsast í eldi óvinanna. (Sakaría 13:9; Opinberunarbókin 12:15-17) Vernd hans hefur einnig náð til ‚múgsins mikla‘ af ‚öðrum sauðum‘ sem hefur gengið til liðs við andlega þjóð hans. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Þeir áttu sér táknmynd í hinum ‚mikla fjölda af alls konar lýð‘ sem yfirgaf Egyptaland ásamt Ísraelsmönnum, og einnig í fólki af öðrum þjóðum sem slóst í för með útlögunum er þeir yfirgáfu Babýlon. — 2. Mósebók 12:38; Esrabók 2:1, 43, 55, 58.

6. Hvernig reynist Jehóva réttvís Guð í sambandi við lausn (a) Ísraels að holdinu? (b) hins andlega Ísraels?

6 Jehóva heitir því að beita herjum Meda og Persa til að frelsa fólk sitt frá Babýlon. (Jesaja 13:17-19; 21:2, 9; 44:28; Daníel 5:28) Hann er réttvís Guð og greiðir medísk-persneskum „starfsmönnum“ sínum hæfilegt lausnargjald fyrir Ísrael. „Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín. Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.“ (Jesaja 43:3b, 4) Mannkynssagan staðfestir að Persaveldi lagði undir sig Egyptaland, Bláland (Eþíópíu) og grannríkið Seba eins og Guð hafði sagt fyrir. (Orðskviðirnir 21:18) Jehóva lét Jesú Krist frelsa leifar hins andlega Ísraels úr ánauð árið 1919. En Jesús þurfti engin laun fyrir þjónustu sína. Hann var ekki heiðinn stjórnandi. Og hann var að frelsa andlega bræður sína. Auk þess hafði Jehóva gefið honum „þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali“ árið 1914. — Sálmur 2:8.

7. Hvernig hugsar Jehóva til fólks síns, bæði fyrr og nú?

7 Taktu eftir hve opinskátt Jehóva talar um tilfinningar sínar í garð hinna endurleystu útlaga. Hann segist „elska“ þá og segir að þeir séu ‚dýrmætir‘ í augum sínum og ‚mikils metnir.‘ (Jeremía 31:3) Hann ber enn sterkari tilfinningar til dyggra þjóna sinna nú á tímum. Eftir að hafa vígst honum eignast smurðir kristnir menn samband við hann, ekki vegna ætternis heldur vegna starfsemi heilags anda. Hann hefur dregið þá til sín og sonar síns og ritað lögmál sitt og meginreglur á opin hjörtu þeirra. — Jeremía 31:31-34; Jóhannes 6:44.

8. Hvernig hughreystir Jehóva hina útlægu og hvernig hugsa þeir um frelsun sína?

8 Jehóva heldur áfram að hughreysta hina útlægu og segir: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri. Ég segi við norðrið: ‚Lát fram!‘ og við suðrið: ‚Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar: sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!‘“ (Jesaja 43:5-7) Jehóva nær til fjarlægustu heimshorna til að frelsa syni sína og dætur í fyllingu tímans og leiða þau aftur heim í landið sem þau unna. (Jeremía 30:10, 11) Frá þeirra sjónarhóli er þessi frelsun eflaust enn merkilegri en frelsun þjóðarinnar frá Egyptalandi forðum daga. — Jeremía 16:14, 15.

9. Hvernig tengir Jehóva frelsunina við nafn sitt á tvo vegu?

9 Jehóva minnir þjóð sína, Ísrael, á að hún sé kennd við nafn hans og staðfestir þar með loforð sitt um að frelsa hana. (Jesaja 54:5, 6) Hann leggur meira að segja nafn sitt við frelsunarloforðið og tryggir þannig að hann fái heiðurinn af því að spádómsorð hans rætist. Sigurvegarar Babýlonar eiga ekki einu sinni rétt á þeim heiðri sem hinn eini lifandi Guð á að fá.

Guðirnir fyrir rétti

10. Hvernig skorar Jehóva á þjóðirnar og guði þeirra?

10 Jehóva leiðir guði þjóðanna fyrir rétt og gerir frelsunarheitið við Ísrael að alheims-prófmáli. Við lesum: „Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. Hver af þeim [guðunum] getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir [guðirnir] fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: ‚Það er satt!‘“ (Jesaja 43:9) Þetta er ógnvekjandi áskorun til þjóða heims. Jehóva segir í reynd: ‚Látið guði ykkar segja framtíðina fyrir og sanna að þeir séu guðir.‘ Þetta próf mun afhjúpa alla svikara af því að enginn nema hinn sanni Guð getur spáð nákvæmlega um framtíðina. (Jesaja 48:5) En hinn alvaldi setur annan lagaskilmála: Allir sem segjast vera sannir guðir verða að leiða fram votta, bæði að spám sínum og uppfyllingu þeirra. Og Jehóva undanskilur ekki sjálfan sig þegar hann setur þennan skilmála.

11. Hvaða verkefni fær Jehóva þjóni sínum og hvað opinberar hann varðandi guðdóm sinn?

11 Falsguðirnir geta ekki leitt fram einn einasta vott, enda geta þeir ekki neitt. Vitnastúka þeirra stendur galtóm. En nú er kominn tími fyrir Jehóva til að staðfesta guðdóm sinn. Hann horfir í átt til þjóðar sinnar og segir: „En þér eruð mínir vottar . . . og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til. Ég, ég er [Jehóva], og enginn frelsari er til nema ég. Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir, . . . Ég er Guð. Já, enn í dag er ég hinn sami. Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?“ — Jesaja 43:10-13.

12, 13. (a) Hvaða vitnisburð geta þjónar Jehóva gefið? (b) Hvernig hefur nafn Jehóva komið fram á sjónarsviðið á síðustu áratugum?

12 Innan skamms er vitnastúkan yfirfull af fagnandi vottum sem hafa svarað kalli Jehóva. Vitnisburður þeirra er skýr og óhrekjandi. Þeir votta hið sama og Jósúa: ‚Allt sem Jehóva hefur sagt hefur ræst. Ekkert orð hefur brugðist.‘ (Jósúabók 23:14) Orð Jesaja, Jeremía, Esekíels og annarra spámanna óma í eyrum þjóna Jehóva, en þeir boðuðu einróma útlegð Júdamanna og undraverða frelsun þeirra úr útlegðinni. (Jeremía 25:11, 12) Kýrus, frelsari Júda, var meira að segja nafngreindur löngu áður en hann fæddist! — Jesaja 44:26–45:1.

13 Hver getur neitað því að Jehóva sé hinn eini sanni Guð eftir að öll þessi sönnunargögn hafa hrannast upp? Hann á sér engan skapara, ólíkt heiðnu guðunum, og hann einn er hinn sanni Guð. * Þar af leiðandi eiga þeir sem bera nafn Jehóva þau einstæðu og hrífandi sérréttindi að segja komandi kynslóðum og öðrum, sem spyrja um hann, frá stórvirkjum hans. (Sálmur 78:5-7) Nútímavottar Jehóva fá einnig að boða nafn hans um alla jörðina. Biblíunemendurnir gerðu sér grein fyrir djúpstæðri merkingu nafnsins Jehóva á þriðja áratug tuttugustu aldar. Forseti Félagsins, Joseph F. Rutherford, lagði svo fram yfirlýsingu á móti í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum hinn 26. júlí 1931. Yfirlýsingin hét: „Nýtt nafn,“ og í henni sagði: „Við viljum láta nefna okkur og þekkjast undir nafninu vottar Jehóva.“ Mótsgestir samþykktu yfirlýsinguna einróma. Síðan þá hefur nafn Jehóva orðið alkunnugt um allan heim. — Sálmur 83:19.

14. Á hvað minnir Jehóva Ísraelsmenn og af hverju er áminningin tímabær?

14 Jehóva lætur sér annt um þá sem bera nafn hans sómasamlega. Þeir eru eins og ‚sjáaldur auga hans.‘ Hann minnir Ísraelsmenn á það og rifjar upp hvernig hann frelsaði þá frá Egyptalandi og leiddi þá óhulta um eyðimörkina. (5. Mósebók 32:10, 12) Á þeim tíma var enginn ókunnur guð meðal þeirra því að þeir sáu með eigin augum hvernig guðir Egyptalands voru algerlega auðmýktir. Guðafjöld Egypta samanlögð gat hvorki verndað Egyptaland né hindrað Ísraelsmenn í að fara. (2. Mósebók 12:12) Í hinni voldugu Babýlon standa að minnsta kosti 50 falsguðamusteri en hún getur ekki heldur stöðvað hönd hins alvalda er hann frelsar fólk sitt. Ljóst er að „enginn frelsari er til“ nema Jehóva.

Stríðshestar falla, fangelsi opnast

15. Hverju spáir Jehóva um Babýlon?

15 „Svo segir [Jehóva], frelsari yðar, Hinn heilagi í Ísrael: Yðar vegna sendi ég til Babýlon og brýt niður slagbranda hennar. Og gleðilæti Kaldeanna munu snúast í sorgarsöng. Ég, [Jehóva], er yðar Heilagi, skapari Ísraels, konungur yðar. Svo segir [Jehóva], hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur.“ — Jesaja 43:14-17.

16. Hvernig fer fyrir Babýlon, kaupmönnum Kaldea og öllum sem hyggjast verja borgina?

16 Babýlon er eins og fangelsi sem hindrar að útlagarnir snúi heim til Jerúsalem. En varnir hennar eru engin hindrun fyrir hinn alvalda sem „lagði veg yfir [Rauðahafið] og braut yfir hin ströngu vötn“ — eflaust Jórdan. (2. Mósebók 14:16; Jósúabók 3:13) Kýrus, fulltrúi Jehóva, mun á sama hátt stöðva hina miklu Efrat svo að hermenn hans komist inn í borgina. Þúsundir kaupmanna sigla um skurði og vatnsfarvegi Babýlonar „á skipum sínum“ (Biblían 1859), og guðir hennar fljóta þar á prömmum. En kaupmenn Kaldea munu kveina og barma sér er hin volduga höfuðborg fellur. Hraðskreiðir stríðsvagnar Babýlonar koma að jafnlitlum notum og vagnar faraós í Rauðahafinu. Þeir bjarga ekki borginni. Innrásarmenn slökkva líf allra sem hyggjast verja borgina, rétt eins og á hörkveik í olíulampa.

Jehóva leiðir þjóð sína óhulta heim

17, 18. (a) Hverju ‚nýju‘ spáir Jehóva? (b) Í hvaða skilningi eiga menn ekki að renna huga til hins umliðna og hvers vegna?

17 Jehóva ber saman fyrri frelsunarverk sín og það sem hann ætlar nú að gera: „Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var. Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því — sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin. Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda. Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.“ — Jesaja 43:18-21.

18 Þegar Jehóva talar um að ‚renna eigi huga til hins umliðna‘ er hann ekki að hvetja þjóna sína til að gleyma fyrri frelsunarverkum hans. Innblásin saga Ísraels greinir frá mörgum þeirra og Jehóva fyrirskipaði að burtförin af Egyptalandi skyldi árlega í minnum höfð á páskáhátíðinni. (3. Mósebók 23:5; 5. Mósebók 16:1-4) En nú hefur hann „nýtt fyrir stafni“ sem hann vill að þjónar sínir vegsami hann fyrir, atburði sem þeir fá að kynnast af eigin raun. Hér er ekki aðeins átt við frelsunina frá Babýlon heldur einnig hina undraverðu heimferð, ef til vill um tiltölulega beina eyðimerkurleið. Jehóva gerir „veg“ fyrir þá um þetta eyðiland og vinnur máttarverk er minna á það sem hann gerði fyrir Ísraelsmenn á dögum Móse — já, hann mun metta þá á heimleiðinni og svala þorsta þeirra með vatnsmiklum ám. Svo ríkulega sér hann fyrir þeim að villidýrin vegsama hann og ráðast ekki á fólk hans.

19. Hvernig gengur hinn andlegi Ísrael og félagar hans ‚brautina helgu‘?

19 Leifar hins andlega Ísraels voru frelsaðar úr babýlonaránauð árið 1919 og lögðu út á ‚brautina helgu‘ sem Jehóva hafði búið þeim. (Jesaja 35:8) Ólíkt Ísraelsmönnum fortíðar þurftu þeir ekki að fara milli staða um brennheita eyðimörk, og ferðalaginu lauk ekki í Jerúsalem fáeinum mánuðum síðar. „Brautin helga“ lá inn í andlega paradís og smurðir kristnir menn eru enn á þessari braut af því að þeir eru enn á ferð gegnum þetta heimskerfi. Meðan þeir halda sig á brautinni — með því að halda heilagleikakröfur Guðs — búa þeir í andlegri paradís. Og þeir fagna því mjög að fá til liðs við sig mikinn múg af „öðrum þjóðum!“ Leifarnar og félagar þeirra sitja við ríkulega búið andlegt veisluborð Jehóva, en það er harla ólíkt þeim sem treysta á heim Satans. (Jesaja 25:6; 65:13, 14) Margir, sem voru eins og villidýr, hafa breytt líferni sínu og vegsama hinn sanna Guð eftir að hafa séð hvernig hann blessar fólk sitt. — Jesaja 11:6-9.

Jehóva lýsir harmi sínum

20. Hvernig hefur Ísrael brugðist Jehóva á dögum Jesaja?

20 Hinar heimkomnu leifar Ísraels forðum daga eru gerólíkar óguðlegri samtíðakynslóð Jesaja. Jehóva segir um þá síðarnefndu: „Mig hefir þú þó ekki ákallað, þú Jakobs ætt, því þú ert orðinn þreyttur á mér, þú Ísraelslýður. Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum né þreytt þig með reykelsi. Þú hefir ekki keypt ilmreyr fyrir silfur mér til handa, og þú hefir ekki satt mig á feiti sláturfórna þinna, heldur hefir þú mætt mig með syndum þínum og þreytt mig með misgjörðum þínum.“ — Jesaja 43:22-24, vers 22 samkvæmt Biblíunni 1859.

21, 22. (a) Af hverju er hægt að segja að kröfur Jehóva séu ekki íþyngjandi? (b) Hvernig þreytir þjóðin Jehóva?

21 Þegar Jehóva segist ‚eigi hafa mætt þá með matfórnum né þreytt þá með reykelsi‘ er hann ekki að gefa í skyn að fórnir og reykelsi séu óþörf. Hvort tveggja er óaðskiljanlegur þáttur sannrar tilbeiðslu undir lagasáttmálanum. Hið sama er að segja um ‚ilmreyrinn‘ sem er ilmsæt kalmusrót notuð í hina helgu smurningarolíu. Ísraelsmenn hafa verið hirðulausir og ekki notað þetta í musterisþjónustunni. En eru þetta íþyngjandi kröfur? Nei, kröfur Jehóva eru hófstilltar í samanburði við kröfur falsguðanna. Falsguðinn Mólok heimtaði til dæmis barnafórnir en slíks hefur Jehóva aldrei krafist! — 5. Mósebók 30:11; Míka 6:3, 4, 8.

22 Ef Ísraelsmenn hefðu andlegan skilning myndu þeir aldrei þreytast á Jehóva. Ef þeir glugguðu í lögmálið myndu þeir sjá djúpan kærleika hans til þeirra og færa honum fúslega „feiti“ fórnanna — hið besta. En í græðgi sinni halda þeir eftir feitinni til eigin nota. (3. Mósebók 3:9-11, 16) Þessi óguðlega þjóð þreytir og mæðir Jehóva með syndum sínum! — Nehemíabók 9:28-30.

Ögun skilar árangri

23. (a) Af hverju er ögun Jehóva verðskulduð? (b) Hvað er fólgið í ögun Guðs?

23 Þjóðin verðskuldar harða ögun af hendi Jehóva og fær hana, en ögunin skilar árangri þannig að hægt er að miskunna henni. „Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna. Minn mig á, við skulum eigast lög við. Tel þú upp, svo að þú fáir réttlætt þig. Hinn fyrsti forfaðir þinn syndgaði og talsmenn þínir brutu á móti mér. Þess vegna vanhelgaði ég hina heilögu höfðingja og ofurseldi Jakobsætt bannfæringunni og Ísrael háðunginni.“ (Jesaja 43:25-28) Ísraelsmenn eru komnir af Adam, ‚hinum fyrsta forföður,‘ líkt og allar þjóðir heims. Þess vegna getur enginn þeirra ‚réttlætt sig.‘ „Talsmenn“ Ísraels, sem kenndu og túlkuðu lögmálið, hafa jafnvel syndgað gegn Jehóva og kennt lygar. Þess vegna ætlar hann að ofurselja alla þjóðina „bannfæringunni“ og „háðunginni.“ Hann ætlar líka að vanhelga alla hina „heilögu höfðingja“ sem þjóna í helgidómi hans.

24. Hver er aðalástæðan fyrir því að Jehóva fyrirgefur fólki sínu, bæði fyrr og nú, en hvaða tilfinningar ber hann til þeirra?

24 En við tökum eftir að Jehóva miskunnar ekki Ísraelsmönnum aðeins vegna iðrunar þeirra heldur einnig sjálf sín vegna. Nafn hans er í húfi. Ef hann léti Ísrael vera í ævarandi útlegð yrði nafn hans fyrir lasti frá þeim sem á horfðu. (Sálmur 79:9; Esekíel 20:8-10) Hjálpræði manna nú á tímum er líka aukaatriði miðað við það að nafn Jehóva helgist og drottinvald hans réttlætist. En Jehóva elskar þá sem taka skilyrðislaust við aga hans og tilbiðja hann í anda og sannleika. Hann sýnir þeim kærleika sinn, hvort sem þeir eru smurðir eða aðrir sauðir, með því að afmá afbrot þeirra á grundvelli fórnarinnar sem Jesús Kristur færði. — Jóhannes 3:16; 4:23, 24.

25. Hvaða stórbrotið afrek vinnur Jehóva í náinni framtíð og hvernig getum við sýnt þakklæti okkar nú þegar?

25 Og Jehóva hefur nýtt fyrir stafni því að bráðlega mun hann vernda mikinn múg dyggra dýrkenda sinna í ‚þrengingunni miklu‘ og leiða þá inn á hreinsaða ‚nýja jörð.‘ Þannig sýnir hann þeim kærleika sinn. (Opinberunarbókin 7:14; 2. Pétursbréf 3:13) Þeir verða vitni að stórbrotnustu birtingu máttar hans sem menn hafa nokkru sinni séð. Hinar smurðu leifar og múgurinn mikli fagna því að þessir atburðir skuli vera framundan og lifa dag hvern í samræmi við hið göfuga verkefni sitt: „Þér eruð mínir vottar.“ — Jesaja 43:10.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Algengt er í goðafræði þjóða að guðir „fæðist“ og eignist „börn.“

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 48, 49]

Jehóva ætlar að styðja Gyðingana á leiðinni heim til Jerúsalem.

[Myndir á blaðsíðu 52]

Jehóva skorar á þjóðirnar að leiða fram votta guða sinna.

1. Bronsstytta af Baal. 2. Smástyttur af Astarte. 3. Egypska þrenningin Hórus, Ósíris og Ísis. 4. Grísku gyðjurnar Aþena (til vinstri) og Afródíta.

[Mynd á blaðsíðu 58]

„Þér eruð mínir vottar.“ — Jesaja 43:10.