Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa‘

‚Fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa‘

26. kafli

‚Fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa‘

Jesaja 65:1-25

1. Hvaða uppörvandi orð skrifaði Pétur postuli og hvaða spurning vaknar?

 ÆTLI ranglæti og þjáningar taki einhvern tíma enda? Pétur postuli skrifaði þessi uppörvandi orð fyrir rösklega 1900 árum: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Margir dyggir þjónar Guðs í aldanna rás hafa, líkt og Pétur, hlakkað til þess dýrlega dags þegar endi verður bundinn á lögleysi, kúgun og ofbeldi og réttlæti tekur við. Getum við treyst að þetta loforð rætist?

2. Hvaða spámaður hafði talað um ‚nýjan himin og nýja jörð‘ og hvernig rætist þessi forni spádómur?

2 Já, við getum treyst því. Pétur var ekki að brydda upp á nýrri hugmynd er hann talaði um ‚nýjan himin og nýja jörð.‘ Um 800 árum áður hafði Jehóva sagt eitthvað svipað fyrir munn spámannsins Jesaja. Fyrra fyrirheitið rættist í smáum stíl árið 537 f.o.t. þegar Gyðingar voru leystir úr ánauð Babýlonar og gátu snúið heim til ættjarðar sinnar. En spádómur Jesaja er að rætast í stærri stíl núna og við hlökkum til þess að hann uppfyllist í enn þá stórfenglegri mæli í nýjum heimi Guðs. Þessi uppörvandi spádómur bregður upp í leiftursýn hvaða blessun Guð hefur búið þeim sem elska hann.

Jehóva hvetur ‚þrjóskan lýð‘

3. Hvaða spurningu er svarað í 65. kafla Jesajabókar?

3 Eins og þú manst flutti Jesaja spádómlega bæn fyrir hönd hinna útlægu Gyðinga í Babýlon. Bænin stendur skráð í Jesaja 63:15–64:11. Margir Gyðingar tilbiðja ekki Jehóva af heilum hug eins og bænin ber með sér, en sumir hafa þó iðrast og snúið sér til hans. Ætlar Jehóva að gefa þjóðinni ættjörð hennar aftur vegna þessara iðrandi leifa? Svarið er að finna í 65. kafla Jesajabókar. En áður en Jehóva lofar hinum fáu trúföstu frelsun lýsir hann dómi hinna mörgu sem ekki trúa.

4. (a) Hverjir munu leita Jehóva, ólíkt uppreisnargjörnu fólki hans? (b) Hvernig heimfærði Páll postuli Jesaja 65:1, 2?

4 Jehóva hefur umborið þráláta uppreisn þjóðar sinnar en það kemur að því að hann ofurselur hana óvinum hennar og veitir öðrum velvild sína. Hann segir fyrir munn Jesaja: „Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: ‚Hér er ég, hér er ég,‘ við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt.“ (Jesaja 65:1) Það er dapurleg umsögn um sáttmálaþjóð Jehóva að aðrar þjóðir skuli koma til hans en að Júdamenn séu á heildina litið svo þrjóskir að þeir vilji ekki gera það. Jesaja er ekki eini spámaðurinn sem boðar að Guð útvelji að lokum þjóð sem hann viðurkenndi ekki áður. (Hósea 1:10; 2:23) Páll postuli vitnaði í Jesaja 65:1, 2 í Sjötíumannaþýðingunni til að sýna fram á að menn af þjóðunum myndu öðlast „réttlæti, sem er af trú,“ en því höfðu innbornir Gyðingar hafnað. — Rómverjabréfið 9:30; 10:20, 21.

5, 6. (a) Hvað þráir Jehóva en hvernig hefur fólk hans brugðist við? (b) Hvað má læra af samskiptum Jehóva við Júdamenn?

5 Jehóva skýrir hvers vegna hann leyfir að fólk sitt þjáist: „Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum.“ (Jesaja 65:2) Að rétta út hendurnar er tákn um boð eða innilega bón og Jehóva réttir út hendurnar allan daginn, ekki aðeins stutta stund. Hann þráir að sjá Júdamenn snúa sér til sín en þeir eru þrjóskir og vilja það ekki.

6 Við lærum mikið af þessum orðum Jehóva. Hann er viðmótshlýr Guð og vill að við nálgumst sig. (Jakobsbréfið 4:8) Hann er auðmjúkur. (Sálmur 113:5, 6) Hann réttir út hendurnar táknrænt séð og hvetur fólk sitt til að snúa við, þó svo að þrjóska þess hafi ‚hryggt‘ hann. (Sálmur 78:40, 41) Hann er búinn að höfða til þessa fólks um aldaraðir en nú ofurselur hann það óvinum þess. Og jafnvel þá lokar hann ekki á auðmjúka menn meðal þjóðarinnar.

7, 8. Hvernig hafa hinir þrjósku Gyðingar reitt Jehóva til reiði?

7 Gyðingar hafa margoft reitt Jehóva til reiði með þrjósku sinni og svívirðilegu hátterni. Hann lýsir nú framferði þeirra: „[Fólk], sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum, sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum, sem segir: ‚Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!‘ — Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn.“ (Jesaja 65:3-5) Gyðingar þykjast guðræknir en reita Jehóva til reiði „upp í opin augun“ sem lýsir bæði ósvífni og virðingarleysi. Þeir reyna ekki einu sinni að draga dul á svívirðingarnar. Er ekki vítavert að syndga í augsýn Guðs sem þeir ættu að heiðra og hlýða?

8 Þessir sjálfbirgingslegu syndarar segja í reynd við aðra Gyðinga: ‚Burt með ykkur; ég er heilagri en þið!‘ Hvílík hræsni! Þessir „guðræknu“ menn færa falsguðum fórnir og brenna reykelsi fyrir þá en það er fordæmt í lögmáli Guðs. (2. Mósebók 20:2-6) Þeir eru óhreinir samkvæmt lögmálinu vegna þess að þeir hafast við í gröfum hinna látnu og borða svínakjöt sem er óhrein fæða. * (3. Mósebók 11:7; 4. Mósebók 19:14-16) En sökum trúarathafna sinna finnst þeim þeir heilagri en aðrir Gyðingar og vilja því halda þeim í hæfilegri fjarlægð svo að þeir helgist ekki líka eða hreinsist af félagsskapnum. En Guð krefst óskiptrar hollustu og hann lítur málið öðrum augum. — 5. Mósebók 4:24.

9. Hvernig lítur Jehóva á hina sjálfbirgingslegu syndara?

9 Þessir sjálfbirgingar eru ekki heilagir í augum Jehóva. Hann segir að þeir séu eins og ‚reykur í nösum sér.‘ Nef eða nasir er oft notað í hebresku sem tákn um reiði, og reykur tengist einnig brennandi reiði Jehóva. (Jesaja 30:275. Mósebók 29:20) Viðurstyggileg skurðgoðadýrkun fólksins hefur vakið upp reiði hans.

10. Hvernig ætlar Jehóva að endurgjalda Júdamönnum syndir þeirra?

10 Jehóva er réttvís og getur ekki látið þessum þrjósku syndurum óhegnt. Jesaja skrifar: „Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut, bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra — segir [Jehóva]. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra.“ (Jesaja 65:6, 7) Þessir Gyðingar hafa smánað hinn sanna Guð með falsguðadýrkun sinni svo að tilbeiðslan á honum virðist engu betri en trúardýrkun þjóðanna umhverfis. Hann mun „gjalda þeim í skaut . . . fyrir misgjörðir þeirra,“ þar á meðal skurðgoðadýrkunina og andatrúna. Með ‚skautinu‘ mun vera átt við fellingu í yfirhöfninni sem myndaði eins konar vasa þar sem smásalar helltu gjarnan mældum skammti af vöru. (Lúkas 6:38) Fráhvarfsmenn Gyðinga skilja mætavel hvað við er átt — Jehóva ætlar að mæla þeim ‚launin‘ eða refsinguna. Guð réttlætisins endurgeldur þeim eins og þeir hafa unnið til. (Sálmur 79:12; Jeremía 32:18) Þar eð Jehóva breytir sér ekki megum við treysta því að hann mæli þessu illa heimskerfi í skaut refsingu á sambærilegan hátt þegar þar að kemur. — Malakí 3:6.

„Fyrir sakir þjóna minna“

11. Hvernig lætur Jehóva í ljós að hann muni bjarga trúföstum leifum?

11 Ætlar Jehóva að miskunna trúföstum mönnum meðal þjóðarinnar? Jesaja segir: „Svo segir [Jehóva]: Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: ‚Ónýt það eigi, því að blessun er í því!‘ eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum. Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar.“ (Jesaja 65:8, 9) Gyðingar gera sér fyllilega ljóst hvað við er átt þegar Jehóva líkir fólki sínu við vínber eða vínberjaklasa. Vínrækt er mikil í landinu og vínið er mönnunum til blessunar. (Sálmur 104:15) Myndin, sem dregin er upp, er annaðhvort af vínberjaklasa þar sem sum berin eru góð en önnur ekki eða af klösum sem eru ýmist góðir, skemmdir eða óþroskaðir. Vínræktarmaðurinn hendir að minnsta kosti ekki góðum vínberjum. Þannig fullvissar Jehóva fólk sitt um að hann tortími ekki þjóðinni algerlega heldur þyrmi trúföstum leifum. Hann segir að þessar leifar erfi ‚fjöll‘ hans, það er að segja Jerúsalem og hið hæðótta Júdaland sem var eign hans.

12. Hvaða blessun bíður trúfastra leifa?

12 Hvaða blessun bíður þessara trúföstu leifa? Jehóva segir: „Saron skal verða að beitilandi fyrir hjarðir og Akordalur að nautastöðli fyrir þá af þjóð minni, sem leita mín.“ (Jesaja 65:10) Búfé gegnir mikilvægu hlutverki í lífi margra Gyðinga og stórt beitiland stuðlar að velmegun á friðartímum. Jehóva lýsir friði og velmegun með því að tilgreina tvenn af ystu mörkum landsins. Saronsléttan í vestri liggur meðfram strönd Miðjarðarhafs og var annáluð fyrir fegurð og frjósemi. Akordalur (öðru nafni Mæðudalur) liggur að norðausturlandamærunum. (Jósúabók 15:7) Á útlegðartímanum, sem framundan er, leggjast bæði svæðin í eyði ásamt landinu öllu. En Jehóva heitir því að þarna verði aftur fögur og frjósöm beitilönd eftir að leifar snúa heim úr útlegðinni. — Jesaja 35:2; Hósea 2:15.

Að treysta á „heilladísina“

13, 14. Hvaða hátterni sýnir að þjóð Guðs hefur yfirgefið hann og hvernig fer þar af leiðandi fyrir henni?

13 Spádómur Jesaja beinist nú aftur að þeim sem hafa yfirgefið Jehóva og halda skurðgoðadýrkun sinni áfram. Hann segir: „Þér, sem yfirgefið [Jehóva], sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina.“ (Jesaja 65:11) Þessir spilltu Gyðingar eru farnir að dýrka skurðgoð að hætti heiðinna þjóða með því að setja mat og drykk fyrir ‚heilladísina‘ og ‚örlaganornina.‘ * Hvernig fer fyrir þeim sem eru svo barnalegir að treysta á þessa guði?

14 Viðvörun Jehóva er afdráttarlaus: „Yður ætla ég undir sverðið, og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.“ (Jesaja 65:12) Jehóva leikur með hebreska orðið fyrir örlaganornina er hann segir að dýrkendur þessa falsguðs séu ‚ætlaðir undir sverðið,‘ það er að segja að þeim verði tortímt. Hann hefur margoft falið spámönnunum að hvetja þá til að iðrast en þeir hafa hunsað hann og haldið þrjóskufullir áfram að gera það sem þeir vita að er illt í augum hans. Þeir sýna honum megna fyrirlitningu. Miklar hörmungar dynja á þjóðinni árið 607 f.o.t. er Jehóva leyfir Babýloníumönnum að eyða Jerúsalem og musterið, eins og hann hafði varað við. Þá megnar ‚heilladísin‘ ekki að vernda dýrkendur sína í Júda og Jerúsalem. — 2. Kroníkubók 36:17.

15. Hvernig sinna sannkristnir menn viðvöruninni í Jesaja 65:11, 12?

15 Sannkristnir menn nú á tímum sinna viðvöruninni í Jesaja 65:11, 12. Þeir trúa ekki á „heilladísina,“ rétt eins og hún sé einhvers konar yfirnáttúrlegt afl sem geti gert þeim gott. Þeir vilja ekki sóa fjármunum sínum í það að reyna að friða hana svo að þeir forðast hvers kyns fjárhættuspil. Þeir eru sannfærðir um að áhangendur hennar tapi öllu þegar fram líða stundir því að Jehóva segist ætla slíka menn „undir sverðið.“

„Sjá, þjónar mínir munu gleðjast“

16. Hvernig blessar Jehóva trúfasta þjóna sína en hvernig fer fyrir þeim sem yfirgefa hann?

16 Jehóva ávítar þá sem hafa yfirgefið hann og ber saman hlutskipti þeirra sem þjóna honum í einlægni og hinna sem gera það með hræsni: „Fyrir því segir hinn alvaldi [Jehóva] svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.“ (Jesaja 65:13, 14) Jehóva blessar trúfasta þjóna sína og þeir fagna og syngja af hjartans gleði. Að dýrkendur hans skuli eta, drekka og gleðjast merkir að hann meira en fullnægir þörfum þeirra. En þeir sem kjósa að yfirgefa hann líða andlegt hungur og þorsta. Þeir fá hvorki svölun né saðning heldur æpa af angist og hugarkvöl.

17. Af hverju hefur fólk Guðs ærna ástæðu til að fagna?

17 Orð Jehóva lýsa vel andlegu ásigkomulagi þeirra sem þjóna honum aðeins í orði kveðnu. Hinar mörgu milljónir í kristna heiminum líða hugarkvöl en tilbiðjendur Jehóva fagna innilega. Og þeir hafa ærna ástæðu til því að þeir eru andlega saddir. Jehóva sér þeim fyrir stöðugum straumi andlegrar fæðu á safnaðarsamkomum og í biblíutengdum ritum. Hin uppbyggjandi sannindi Biblíunnar og hvetjandi fyrirheit hennar veita okkur „hjartans gleði.“

18. Hvað verður eftir af þeim sem hafa yfirgefið Jehóva og hvað kann að vera átt við með því að nafn þeirra verði haft sem formæling?

18 Jehóva heldur áfram að tala til þeirra sem hafa yfirgefið hann: „Þér munuð leifa mínum útvöldu nafn yðar sem formæling, en hinn alvaldi [Jehóva] mun deyða yður. En sína þjóna mun hann nefna öðru nafni. Hver sá er óskar sér blessunar í landinu, hann óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs, og hver sem eið vinnur í landinu, hann vinni eið við hinn trúfasta Guð, af því að hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar og af því að þær eru huldar fyrir augum mínum.“ (Jesaja 65:15, 16) Ekkert verður eftir af þeim sem yfirgefa Jehóva nema nafnið og það verður aðeins notað sem formæling. Það kann að merkja að þeir sem vilja skuldbinda sig hátíðlega segi efnislega: ‚Megi ég hljóta sömu refsingu og þessir fráhvarfsmenn ef ég held ekki þetta loforð.‘ Það getur jafnvel merkt að nafn þeirra verði notað sem formælingarorð til tákns um að Guð refsi óguðlegum, líkt og nöfnin Sódóma og Gómorra.

19. Hvað merkir það að þjónar Guðs verði nefndir öðru nafni og hvers vegna munu þeir treysta á trúfesti hans? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

19 Hlutskipti þjóna Guðs er allt annað. Þeir verða nefndir öðru nafni til tákns um þá blessun og þann heiður sem þeir njóta þegar þeir koma aftur heim í ættland sitt. Þeir munu ekki leita blessunar falsguða eða sverja eið við líflaus skurðgoð, heldur óska sér blessunar og vinna eið við hinn trúfasta Guð. Þeir hafa ærna ástæðu til að treysta honum í einu og öllu því að hann hefur haldið fyrirheit sín. * Hinar fyrri þrautir eru fljótar að gleymast þegar Gyðingar eru óhultir í ættlandi sínu.

„Ég skapa nýjan himin og nýja jörð“

20. Hvernig rættist loforð Jehóva um „nýjan himin og nýja jörð“ árið 537 f.o.t.?

20 Jehóva útlistar nú nánar loforð sitt um að endurreisa iðrandi leifar þjóðar sinnar eftir að þær eru komnar heim úr útlegðinni í Babýlon. Hann segir fyrir munn Jesaja: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.“ (Jesaja 65:17) Loforð Jehóva er öruggt svo að hann talar um endurreisn framtíðarinnar eins og hún sé að eiga sér stað. Spádómurinn rættist upphaflega árið 537 f.o.t. þegar leifar Gyðinga fengu að snúa heim til Jerúsalem. Landstjórn Serúbabels, með stuðningi Jósúa æðstaprests, var þá ‚nýi himinninn‘ og hafði aðsetur í Jerúsalem. Hinar heimkomnu leifar þjóðarinnar voru ‚nýja jörðin‘ eða hreinsað þjóðfélag sem var undirgefið þessari stjórn og lagði sig fram um að endurvekja hreina tilbeiðslu í landinu. (Esrabók 5:1, 2) Allar fyrri þjáningar hurfu í skuggann af þeirri gleði sem endurreisnin hafði í för með sér, svo að þrautir fortíðarinnar komu mönnum ekki einu sinni í hug. — Sálmur 126:1, 2.

21. Hvaða nýr himinn varð til árið 1914?

21 En við munum að Pétur endurómaði spádóm Jesaja og benti á að hann uppfylltist í framtíðinni. Hann skrifaði: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Hinn langþráði nýi himinn kom til sögunnar árið 1914. Þá fæddist messíasarríkið sem stjórnar nú frá himnum, og Jehóva hefur fengið því vald yfir allri jörðinni. (Sálmur 2:6-8) Ríki Guðs í höndum Krists og 144.000 meðstjórnenda hans er nýi himinninn. — Opinberunarbókin 14:1.

22. Hverjir mynda nýju jörðina þegar þar að kemur og hvernig er verið að undirbúa þá núna?

22 Hvað er þá nýja jörðin? Í samræmi við uppfyllinguna forðum daga verður nýja jörðin mynduð af fólki sem lýtur nýju himnesku stjórninni af fúsu geði. Nú þegar eru milljónir réttsinna manna undirgefnar þessari stjórn og leitast við að fylgja lögum hennar sem standa í Biblíunni. Þeir eru af öllum þjóðum, tungum og kynþáttum og vinna saman í þjónustu konungsins, Jesú Krists. (Míka 4:1-4) Þessi hópur myndar kjarna nýju jarðarinnar eftir að hið yfirstandandi illa heimskerfi er liðið. Að lokum mun þetta guðhrædda mannfélag teygja sig um allan hnöttinn og erfa hinn jarðneska vettvang Guðsríkis. — Matteus 25:34.

23. Hvaða spádóm finnum við í Opinberunarbókinni um „nýjan himin og nýja jörð“ og hvernig rætist hann?

23 Í Opinberunarbókinni segir frá sýn sem Jóhannes postuli sá um hinn komandi dag Jehóva er þetta heimskerfi verður afmáð og Satan varpað í undirdjúp. (Opinberunarbókin 19:11–20:3) Síðan endurómar Jóhannes spádómsorð Jesaja og skrifar: „Ég sá nýjan himin og nýja jörð.“ Í versunum á eftir er lýst þeim dýrlega tíma er Jehóva Guð gerbreytir ástandinu á jörðinni til hins betra. (Opinberunarbókin 21:1, 3-5) Ljóst er að loforð Jesaja um „nýjan himin og nýja jörð“ rætist með stórfenglegum hætti í nýjum heimi Guðs! Undir stjórn nýja himinsins fær nýtt, jarðneskt þjóðfélag að búa í paradís sem er í senn andleg og efnisleg. Það er mjög svo uppörvandi til að hugsa að ‚hins fyrra [það er að segja sjúkdóma, þjáninga og alls konar böls sem menn búa við] skuli ekki minnst verða og það skuli engum í hug koma.‘ Þær endurminningar, sem við kunnum að hafa frá þeim tíma, munu ekki valda neinum sársauka eins og býr í hjörtum svo margra núna.

24. Hvers vegna fagnar Jehóva endurreisn Jerúsalem og hvað heyrist ekki framar á strætum hennar?

24 Spádómur Jesaja heldur áfram: „Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði. Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.“ (Jesaja 65:18, 19) Gyðingar munu fagna því að fá að snúa heim í ættland sitt en Guð gleðst einnig því að hann fegrar Jerúsalem — hún verður aftur miðstöð sannrar tilbeiðslu á jörðinni. Þar heyrast ekki gráthljóð framar á strætunum eins og gerðist þegar borginni var eytt áratugum áður.

25, 26. (a) Hvernig gerir Jehóva Jerúsalem „að fögnuði“ á okkar dögum? (b) Hvernig mun Jehóva nota hina nýju Jerúsalem og hvers vegna getum við fagnað núna?

25 Jehóva gerir Jerúsalem „að fögnuði“ nú á dögum líka. Hvernig þá? Eins og fram hefur komið varð til nýr himinn árið 1914, það er að segja ný himnesk stjórn þar sem verða að lokum 144.000 meðstjórnendur. Þeir eru spádómlega kallaðir „nýja Jerúsalem.“ (Opinberunarbókin 21:2) Jehóva Guð er að tala um hana er hann segir: „Ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.“ Hann notar hina nýju Jerúsalem til að úthella ólýsanlegri blessun yfir hlýðið mannkyn. Þar heyrast hvorki ‚gráthljóð né kveinstafir‘ því að Jehóva ‚veitir okkur það sem hjartað girnist.‘ — Sálmur 37:3, 4.

26 Við höfum svo sannarlega ástæðu til að fagna, því að Jehóva mun bráðlega helga hið dýrlega nafn sitt og eyða öllum andstæðingum. (Sálmur 83:18, 19) Nýi himinninn ræður þá lögum og lofum. Það er rík ástæða til að gleðjast og fagna eilíflega yfir því sem Guð skapar!

Loforð um örugga framtíð

27. Hvernig lýsir Jesaja öryggi Gyðinga þegar þeir koma heim í land sitt?

27 Hvernig var lífið hjá hinum heimkomnu Gyðingum undir stjórn nýja himinsins þegar spádómurinn rættist upphaflega? Jehóva segir: „Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður.“ (Jesaja 65:20) Þetta er falleg lýsing á því öryggi sem hinir heimkomnu útlagar munu búa við eftir að hafa byggt ættjörðina að nýju. Ungbörn deyja ekki fáeinum dögum eftir fæðingu og fullorðnir deyja ekki um aldur fram heldur ná fullum aldri. Orð Jesaja hljóta að vera sérstaklega uppörvandi fyrir Gyðingana sem snúa heim til Júda. Þeir verða óhultir í landinu og þurfa ekki að óttast að óvinir taki börn þeirra eða drepi karlmennina.

28. Hvað lærum við af orðum Jehóva um lífið í nýja heiminum?

28 Hvað gefa orð Jehóva til kynna um lífið í nýja heiminum sem framundan er? Öll börn, sem fæðast í ríki Guðs, eiga örugga framtíð fyrir sér. Guðhræddir menn deyja ekki í blóma lífsins heldur verða hlýðnir menn óhultir og öruggir og geta notið þess að lifa. Þeir sem kjósa að gera uppreisn gegn Guði missa þau sérréttindi að fá að lifa. Uppreisnargjarn syndari deyr þótt hann sé „tíræður“ og er þá „ungur maður“ í samanburði við eilífðina sem hann átti kost á.

29. (a) Hvaða gleði nýtur hlýðið fólk Guðs í Júda eftir að landið byggist að nýju? (b) Af hverju eru tré viðeigandi tákn um langlífi? (Sjá neðanmálsgrein.)

29 Jehóva heldur áfram að lýsa aðstæðum í Júda eftir að landið verður byggt að nýju: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.“ (Jesaja 65:21, 22) Júda er sjálfsagt án húsa og vínviðar þegar hlýðnir þjónar Guðs snúa heim, en þeir munu reisa sér hús og neyta ávaxtarins af eigin víngörðum. Guð blessar störf þeirra og þeir geta notið ávaxtar erfiðis síns á langri ævi — enda langlífir eins og trén. *

30. Við hvaða ánægjulegar aðstæður búa þjónar Jehóva núna og hvers munu þeir njóta í nýja heiminum?

30 Þessi spádómur hefur uppfyllst í nútímanum. Þjónar Jehóva komu úr andlegri útlegð árið 1919 og tóku til við að endurbyggja „land“ sitt, það er að segja tilbeiðslu og starfsvettvang. Þeir stofnuðu söfnuði, báru ávöxt Guðsríkis og ræktuðu með sér ávöxt andans. Þar af leiðandi búa þeir nú þegar í andlegri paradís og njóta þess friðar sem Jehóva gefur. Við getum verið örugg um að þessi friður heldur áfram er hin bókstaflega paradís tekur við. Við getum ekki einu sinni ímyndað okkur hverju Jehóva áorkar í nýja heiminum með fúsum hjörtum og höndum dýrkenda sinna. Það verður ákaflega gleðilegt að geta reist sér hús og búið í því, og enginn skortur verður á ánægjulegum störfum undir stjórn Guðsríkis. Hugsaðu þér hve unaðslegt það verður að mega ‚njóta fagnaðar‘ af erfiði sínu! (Prédikarinn 3:13) Og trúfastir menn fá nægan tíma til að njóta handaverka sinna til fullnustu því að ævi þeirra verður endalaus, eins og „aldur trjánna“ — þúsundir ára og meira en það!

31, 32. (a) Hvaða blessun bíður útlaganna er þeir snúa heim? (b) Hvað eiga trúfastir menn í vændum í nýja heiminum?

31 Jehóva heldur áfram að lýsa blessuninni sem bíður útlaganna er þeir snúa heim: „Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.“ (Jesaja 65:23) Jehóva blessar hina heimkomnu Gyðinga svo að þeir erfiða ekki til einskis. Foreldrar ala ekki börn í heiminn til að horfa upp á þau deyja á unga aldri. Útlagarnir fyrrverandi sitja ekki einir að blessun endurreisnarinnar því að niðjar þeirra verða hjá þeim. Guði er svo mikið í mun að fullnægja þörfum þjóna sinna að hann lofar: „Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra.“ — Jesaja 65:24.

32 Hvernig uppfyllir Jehóva þessi fyrirheit í nýjum heimi framtíðarinnar? Við verðum að bíða og sjá. Hann lýsir ekki öllu í smáatriðum en við getum hins vegar treyst því að trúfastir menn munu aldrei framar „erfiða til ónýtis.“ Hinn mikli múgur manna, sem lifir Harmagedón af, og þau börn, sem þeim kunna að fæðast, eiga í vændum afar langa og ánægjulega ævi — eilíft líf. Þeir sem rísa upp frá dauðum og kjósa að lifa í samræmi við kröfur Guðs fá einnig að njóta gleðinnar í nýja heiminum. Jehóva mun heyra bænir þeirra og svara þeim. Hann sér þarfir þeirra meira að segja fyrir, og hann lýkur upp hendi sinni og „seður allt sem lifir með blessun.“ — Sálmur 145:16.

33. Í hvaða skilningi munu dýrin vera til friðs þegar Gyðingar snúa heim?

33 Hve víðtækur verður friðurinn og öryggið sem lofað er? Jehóva lýkur þessum hluta spádómsins svo: „Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra — segir [Jehóva].“ (Jesaja 65:25) Trúfastir Gyðingar njóta verndar Jehóva er þeir snúa heim í land sitt. Ljónið mun svo að segja éta hey eins og nautið því að það vinnur ekki Gyðingum né bústofni þeirra mein. Loforðið er áreiðanlegt vegna þess að því er lokið með orðunum: ‚Segir Jehóva.‘ Og orð hans standa alltaf. — Jesaja 55:10, 11.

34. Hvernig rætast orð Jehóva núna og hvernig rætast þau í nýja heiminum?

34 Orð Jehóva rætast á hrífandi hátt meðal trúfastra tilbiðjenda hans á okkar dögum. Hann hefur blessað andlegt land þjóna sinna allt frá 1919 og breytt því í andlega paradís. Þeir sem ganga inn í þessa paradís gera eftirtektarverðar breytingar á sjálfum sér. (Efesusbréfið 4:22-24) Menn sem voru dýrslegir og notfærðu sér aðra eða fóru illa með þá að öðru leyti, temja óæskilega eiginleika sína með hjálp anda Guðs. Og fyrir vikið eru þeir friðsamir og tilbiðja Guð með trúbræðrum sínum. Blessunin, sem fólk Jehóva býr við í hinni andlegu paradís, heldur svo áfram inn í hina bókstaflegu þar sem friðurinn meðal manna nær einnig til dýranna. Við getum treyst því að þegar fram líða stundir mun mannkynið skila vel af sér því verkefni sem Guð fól því í upphafi: „Gjörið ykkur [jörðina] undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ — 1. Mósebók 1:28.

35. Hvers vegna höfum við ríka ástæðu til að ‚gleðjast og fagna ævinlega‘?

35 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir loforðið um „nýjan himin og nýja jörð.“ Það rættist upphaflega árið 537 f.o.t. og er að rætast í fyllri mæli núna. Þessi tvíþætta uppfylling vísar veginn til þeirrar fögru framtíðar sem hlýðið mannkyn á í vændum. Fyrir milligöngu Jesaja hefur Jehóva af gæsku sinni gefið okkur örlítinn forsmekk af því sem bíður þeirra er elska hann. Við höfum því ríka ástæðu til að gera eins og hann segir: „Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ — Jesaja 65:18.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Margir telja að syndararnir hafi hafst við í gröfunum í þeim tilgangi að reyna að ná sambandi við hina látnu. Svínakjötsátið kann að hafa tengst skurðgoðadýrkun.

^ gr. 13 Í skýringum við þetta vers segir biblíuþýðandinn Híerónýmus (fæddur á fjórðu öld) frá heiðinni siðvenju skurðgoðadýrkenda á síðasta degi síðasta mánaðar ársins. Hann skrifaði: „Þeir lögðu á borð alls konar mat og bikar af sætu víni til að tryggja að frjósemi liðins árs eða hins komanda lánaðist.“

^ gr. 19 Í hebreska masoretatextanum er Jehóva nefndur „amens Guð“ í Jesaja 65:16. „Amen“ merkir „verði svo“ eða „vissulega“ og er staðfesting eða trygging fyrir því að eitthvað sé satt eða rætist örugglega. Jehóva Guð framkvæmir allt sem hann lofar og sýnir þar með að allt sem hann segir er satt.

^ gr. 29 Tré lifa lengst allra lífvera og eru því viðeigandi tákn um langlífi. Olíutré ber ávöxt um aldaraðir og getur náð þúsund ára aldri, svo dæmi sé tekið.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 389]

Við höfum meira en nægan tíma til að njóta handaverka okkar í nýjum heimi Guðs.