Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinn sanni Guð boðar frelsun

Hinn sanni Guð boðar frelsun

5. kafli

Hinn sanni Guð boðar frelsun

Jesaja 44:1-28

1, 2. (a) Hvaða spurningu varpar Jehóva fram? (b) Hvernig ætlar Jehóva að sanna að hann einn er hinn sanni Guð?

 HVER er hinn sanni Guð? Menn hafa spurt þessarar spurningar um aldaraðir. En það kemur á óvart að Jehóva skuli sjálfur varpa henni fram í Jesajabók. Þar hvetur hann menn til að hugleiða hvort hann sé hinn sanni Guð eða hvort til sé einhver annar guð sem getur véfengt stöðu hans. Eftir að Jehóva hefur hafið máls á þessu leggur hann fram skynsamlegar viðmiðanir til að svara spurningunni um guðdóminn. Rökfærsla hans er slík að réttsinnaðir menn komast óhjákvæmilega að einni og sömu niðurstöðu.

2 Líkneski eru mikið dýrkuð á dögum Jesaja. Í 44. kafla Jesajabókar er sýnt fram á með sterkum og skýrum rökum að það sé gagnslaust að dýrka skurðgoð. Þjóð Guðs hefur þó fallið í þá gildru. Þess vegna eiga Ísraelsmenn stranga ögun í vændum eins og fram kemur í köflunum þar á undan. En Jehóva er kærleiksríkur og fullvissar þjóðina um að hann frelsi hana í fyllingu tímans þó að hann leyfi Babýloníumönnum að hneppa hana í þrælkun. Þegar spádómarnir um frelsun úr fjötrum og endurreisn sannrar tilbeiðslu rætast mun það hafið yfir allan vafa að Jehóva einn er hinn sanni Guð. Og allir sem dýrka lífvana guði þjóðanna verða sér til skammar.

3. Hvernig eru spádómsorð Jesaja gagnleg fyrir kristna menn?

3 Spádómarnir í þessum kafla Jesajabókar og uppfylling þeirra forðum daga er trústyrkjandi fyrir kristna menn. Og spádómsorð Jesaja eiga sér uppfyllingu á okkar tímum og meira að segja í framtíðinni. Í þeirri uppfyllingu koma við sögu meiri frelsari og meiri frelsun en spáð var handa þjóð Guðs að fornu.

Von handa þeim sem tilheyra Jehóva

4. Hvernig hvetur Jehóva Ísrael?

4 Kafli 44 hefst á jákvæðum nótum. Ísrael er minntur á það að Guð hafi útvalið hann sem þjón sinn og aðgreint hann frá þjóðunum umhverfis. Spádómurinn segir: „Heyr þú nú, Jakob, þjónn minn, og Ísrael, sem ég hefi útvalið. Svo segir [Jehóva], sá er þig hefir skapað og þig hefir myndað frá móðurkviði, hann sem hjálpar þér: Óttast þú eigi, þjónn minn Jakob, og þú Jesjúrún, sem ég hefi útvalið.“ (Jesaja 44:1, 2) Jehóva hefur annast Ísrael frá móðurkviði ef svo má að orði komast, allt frá því að Ísrael varð þjóð eftir burtförina frá Egyptalandi. Hann kallar hana „Jesjúrún“ sem merkir „ráðvandur,“ og nafngiftin lýsir ást og blíðu. Nafnið er líka áminning um það að Ísraelsmenn verði að vera ráðvandir þó að þeir hafi ekki alltaf verið það.

5, 6. Hvaða ráðstafanir gerir Jehóva til að hressa Ísrael og með hvaða árangri?

5 Jehóva er hlýlegur og uppörvandi er hann heldur áfram: „Því að ég mun ausa vatni yfir hið þyrsta og veita árstraumum yfir þurrlendið. Ég mun úthella anda mínum yfir niðja þína og blessan minni yfir afsprengi þitt. Þeir skulu spretta upp, eins og gras milli vatna, eins og pílviðir á lækjarbökkum.“ (Jesaja 44:3, 4) Trjáþyrpingar geta dafnað vel í heitu og þurru loftslagi ef þær ná til vatns. Ísrael mun dafna og blómgast eins og tré á lækjarbökkum þegar Jehóva gefur hið lífgandi sannleiksvatn og úthellir heilögum anda sínum. (Sálmur 1:3; Jeremía 17:7, 8) Jehóva gefur fólki sínu kraft til að gegna því hlutverki að vera vottar um guðdóm hans.

6 Þessi úthelling heilags anda hefur meðal annars þau áhrif að glæða virðingu sumra fyrir sambandi Ísraels við Jehóva. Við lesum því: „Einn mun segja: ‚Ég heyri [Jehóva],‘ annar mun kalla sig nafni Jakobs, og enn annar rita á hönd sína ‚Helgaður [Jehóva]‘ og kenna sig við Ísrael.“ (Jesaja 44:5) Já, það mun þykja heiður að bera nafn Jehóva því að menn sjá að hann er hinn eini sanni Guð.

Áskorun á guðina

7, 8. Hvernig skorar Jehóva á guði þjóðanna?

7 Undir lögmálinu gat lausnarmaður keypt mann lausan úr ánauð. Lausnarmaðurinn var yfirleitt nánasti karlkyns ættingi. (3. Mósebók 25:47-54; Rutarbók 2:20) Jehóva segist nú vera lausnari Ísraels. Hann ætlar að leysa þjóðina úr ánauð, Babýlon og öllum guðum hennar til skammar. (Jeremía 50:34) Hann býður falsguðum og falgsuðadýrkendum birginn og segir: „Svo segir [Jehóva], konungur Ísraels og frelsari, [Jehóva] allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég. Hver er sem ég — hann segi frá því og sanni mér það — frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun! Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.“ — Jesaja 44:6-8.

8 Jehóva skorar á guðina að flytja mál sitt. Geta þeir kunngert hið ókomna? Geta þeir sagt svo nákvæmlega frá óorðnum atburðum að það sé eins og þeir séu að gerast? Enginn nema ‚hinn fyrsti og hinn síðasti‘ getur gert það, hann sem var til löngu á undan öllum falsguðum og verður til löngu eftir að þeir eru gleymdir. Fólk Jehóva getur óttalaust borið sannleikanum vitni því að það hefur stuðning hans, og hann er traustur og óhagganlegur eins og bjarg! — 5. Mósebók 32:4; 2. Samúelsbók 22:31, 32.

Skurðgoðadýrkun er fánýt

9. Máttu Ísraelsmenn alls ekki búa til myndir af lifandi verum? Skýrðu svarið.

9 Áskorun Jehóva á falsguðina minnir á annað boðorðið. Þar segir skýrt og skorinort: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær.“ (2. Mósebók 20:4, 5) Þetta bannákvæði merkti auðvitað ekki að Ísraelsmenn mættu ekki gera myndir til skreytingar. Jehóva lét gera myndir og styttur af jurtum, dýrum og kerúbum í tjaldbúðinni. (2. Mósebók 25:18; 26:31) En það átti hvorki að dýrka þær né tilbiðja. Enginn átti að biðja til þeirra eða færa þeim fórnir. Boðorð Guðs lagði bann við því að menn gerðu sér nokkur líkneski í tilbeiðsluskyni. Að dýrka líkneski eða lúta þeim í lotningu er skurðgoðadýrkun. — 1. Jóhannesarbréf 5:21.

10, 11. Af hverju er það skammarlegt í augum Jehóva að tilbiðja líkneski?

10 Jesaja lýsir nú hversu gagnslaus lífvana líkneski séu og hvílík skömm bíði þeirra sem búa þau til: „Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar. Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði? Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, — látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum.“ — Jesaja 44:9-11.

11 Af hverju eru þessi líkneski svona skammarleg í augum Guðs? Í fyrsta lagi er ekki hægt að gera nákvæma mynd úr efnislegum hlutum af hinum alvalda. (Postulasagan 17:29) Í öðru lagi er það lítilsvirðing gagnvart guðdómi hans að dýrka hið skapaða í stað skaparans. Og varla er það samboðið virðingu mannsins sem er skapaður „eftir Guðs mynd.“ — 1. Mósebók 1:27; Rómverjabréfið 1:23, 25.

12, 13. Af hverju geta menn ekki búið til líkneski sem verðskuldar tilbeiðslu?

12 Getur áþreifanlegt efni orðið heilagt ef eitthvað er smíðað úr því sem er svo tilbeðið? Jesaja minnir á að líkneski sé handverk manns. Skurðgoðasmiður notar sömu tól og tækni og hver annar handverksmaður: „Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann. Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi.“ — Jesaja 44:12, 13.

13 Hinn sanni Guð gerði allar lifandi verur á jörð, þar á meðal manninn. Hinar skyni gæddu verur bera guðdómi Jehóva fagurt vitni en auðvitað er allt sem hann skapaði honum óæðra. Er maðurinn færari en Guð? Getur hann búið til eitthvað sér æðra — svo miklu æðra að það verðskuldi tilbeiðslu hans? Maður þreytist og hann hungrar og þyrstir þegar hann býr til líkneski. Þetta eru mannleg takmörk en þau sýna þó að maðurinn er lifandi. Líkneskið, sem hann býr til, er kannski í mannsmynd, jafnvel fallegt. En það er lífvana. Líkneski búa ekki yfir neinu guðlegu eðli. Líkneski hafa aldrei ‚fallið af himni,‘ rétt eins og þau séu eitthvað annað og meira en mannaverk. — Postulasagan 19:35.

14. Hvernig eru skurðgoðasmiðirnir algerlega háðir Jehóva?

14 Jesaja heldur áfram og bendir á að skurðgoðasmiðirnir séu algerlega háðir gangi náttúrunnar og þeim efnum sem Jehóva skapaði: „Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau. Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því. Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: ‚Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn.‘ En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: ‚Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!‘“ — Jesaja 44:14-17.

15. Hvers konar skilningsleysi sýna skurðgoðasmiðirnir?

15 Getur óbrunninn eldiviðarbútur frelsað nokkurn mann? Auðvitað ekki. Enginn getur frelsað nema hinn sanni Guð. Hvernig geta menn þá dýrkað lífvana hluti? Jesaja bendir á að vandinn eigi raunverulega rætur sínar í hjarta mannsins: „Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki. Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: ‚Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!‘ Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: ‚Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?‘“ (Jesaja 44:18-20) Að ímynda sér að maður geti haft nokkurn andlegan ávinning af því að dýrka skurðgoð er sambærilegt við það að borða ösku í staðinn fyrir næringarríkan mat.

16. Hvernig varð skurðgoðadýrkun til og hvað gerir hana mögulega?

16 Skurðgoðadýrkun átti reyndar upptök sín á himnum þegar voldug andavera, sem gerði sig að Satan, ágirntist þá tilbeiðslu sem tilheyrði Jehóva einum. Svo sterk var þrá Satans að hann gerðist fráhverfur Guði. Skurðgoðadýrkun átti raunverulega upptök sín þarna því að Páll postuli bendir á að ágirnd sé það sama og skurðgoðadýrkun. (Jesaja 14:12-14; Esekíel 28:13-15, 17; Kólossubréfið 3:5) Satan tókst að kveikja eigingjarnar hugsanir hjá fyrstu mannhjónunum. Eva girntist það sem Satan bauð henni: „Augu ykkar [munu] upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ Jesús benti á að ágirnd eigi upptök sín í hjartanu. (1. Mósebók 3:5; Markús 7:20-23) Ef hjartað spillist er alltaf hætta á skurðgoðadýrkun. Það er því ákaflega mikilvægt fyrir alla að ‚varðveita hjartað‘ og láta ekkert taka sér bólfestu á þeim stað sem tilheyrir Jehóva einum! — Orðskviðirnir 4:23; Jakobsbréfið 1:14.

Jehóva höfðar til hjartans

17. Hvað ætti Ísrael að taka til íhugunar?

17 Jehóva höfðar nú til Ísraelsmanna og hvetur þá til að rifja upp hvílíkra forréttinda þeir njóti og hvílíka ábyrgð þeir beri. Þeir eru vottar hans! Hann segir: „Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða! Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig. Fagnið, þér himnar, því að [Jehóva] hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að [Jehóva] frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.“ — Jesaja 44:21-23.

18. (a) Af hverju hefur Ísrael tilefni til að fagna? (b) Hvernig geta þjónar Jehóva nú á tímum líkt eftir miskunn hans?

18 Ísraelsþjóðin skapaði ekki Jehóva. Hann er ekki búinn til af mönnum heldur myndaði hann Ísrael sem útvalinn þjón sinn. Og hann mun sanna guðdóm sinn enn á ný er hann frelsar þjóðina. Hann ávarpar hana hlýlega og fullvissar hana um að ef hún iðrist skuli hann feykja burt syndum hennar eins og þoku eða skýi. Ísrael hefur fullt tilefni til að fagna. Fordæmi Jehóva hvetur þjóna hans nú á tímum til að líkja eftir miskunn hans með því að reyna að hjálpa þeim sem villast af leið, reyna að koma þeim aftur á réttan kjöl andlega ef það er hægt. — Galatabréfið 6:1, 2.

Áskorunin á guðina nær hámarki

19, 20. (a) Hvernig nær Jehóva hámarki í málflutningi sínum? (b) Hverju spáir Jehóva handa fólki sínu og hver á að koma því til leiðar?

19 Nú dregur að kröftugu hámarki í málflutningi Jehóva. Hann er í þann mund að láta reyna á það að hann geti sagt framtíðina nákvæmlega fyrir — sem er erfiðasta prófið á guðdóm. Biblíufræðingur kallar næstu fimm versin í 44. kafla Jesajabókar „óviðjafnanlegt ljóð um Ísraels Guð.“ Hann er hinn eini og sanni skapari, hann einn opinberar ókomna atburði og hann er eina frelsunarvon Ísraels. Það er áhrifamikill stígandi í textanum uns hann nær því hámarki að nafngreina manninn sem á að frelsa þjóðina frá Babýlon.

20 „Svo segir [Jehóva], frelsari þinn, sá er þig hefir myndað frá móðurkviði: Ég er [Jehóva], sem allt hefi skapað, sem útþandi himininn aleinn og útbreiddi jörðina hjálparlaust, sá sem ónýtir tákn lygaranna og gjörir spásagnamennina að fíflum, sem gjörir vitringana afturreka og þekking þeirra að heimsku, sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna. Ég er sá sem segi um Jerúsalem: ‚Verði hún aftur byggð!‘ og um borgirnar í Júda: ‚Verði þær endurreistar, og rústir þeirra reisi ég við!‘ Ég er sá sem segi við djúpið: ‚Þorna þú upp, og ár þínar þurrka ég upp!‘ Ég er sá sem segi um Kýrus: ‚Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!‘“ — Jesaja 44:24-28.

21. Hvaða trygging er fólgin í orðum Jehóva?

21 Já, Jehóva getur bæði sagt fyrir ókomna atburði og látið opinberaðan ásetning sinn ná fram að fullu. Þessi yfirlýsing veitir Ísrael von. Hún er trygging fyrir því að Jerúsalem og borgirnar umhverfis hana rísi aftur og sönn guðsdýrkun verði endurreist þar, þó svo að herir Babýlonar eyði landið. En hvernig?

22. Lýstu hvernig Efrat þornar upp.

22 Óinnblásnir spásagnamenn voga sér sjaldan að vera mjög nákvæmir í spám sínum af ótta við að þær rætist ekki. En Jehóva opinberar jafnvel nafn mannsins sem hann ætlar að nota til að leysa fólk sitt úr ánauðinni svo að það geti snúið heim og endurreist Jerúsalem og musterið. Hann heitir Kýrus og er þekktur sem Kýrus mikli Persakonungur. Jehóva gefur líka upplýsingar um það hvernig Kýrus á eftir að brjótast gegnum hið sterka og flókna varnarkerfi Babýlonar. Þegar þar að kemur verður borgin umlukt háum múrum með síki umhverfis, og fljót rennur gegnum hana miðja. Kýrus mun notfæra sér fljótið Efrat sem er einn af burðarásum þessa varnarkerfis. Að sögn fornaldarsagnfræðinganna Heródótosar og Xenófóns veitti Kýrus ánni úr farvegi hennar ofan við Babýlon svo að það lækkaði í henni og hermennirnir gátu vaðið hana. Hin mikla Efrat þornaði upp svo að hún var ekki lengur vörn Babýlonar.

23. Hvaða heimild er fyrir því að spádómurinn um Kýrus og frelsun Ísraels hafi ræst?

23 Hvað um það loforð að Kýrus muni frelsa fólk Guðs og sjá til þess að Jerúsalem og musterið verði endurreist? Kýrus segir í opinberri tilskipun sem skráð er í Biblíunni: „Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir [Jehóva], Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri [Jehóva], Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem.“ (Esrabók 1:2, 3) Orð Jehóva fyrir munn Jesaja rætist fullkomlega!

Jesaja, Kýrus og kristnir nútímamenn

24. Hvaða samband er milli tilskipunar Artaxerxesar „um endurreisn Jerúsalem“ og komu Messíasar?

24 Fertugasti og fjórði kafli Jesajabókar miklar Jehóva sem hinn eina sanna Guð og frelsara þjóðar sinnar að fornu. Og spádómurinn hefur djúpstæða merkingu fyrir alla núlifandi menn. Tilskipun Kýrusar um endurreisn musterisins í Jerúsalem var gefin árið 538/537 f.o.t. og hleypti af stað atburðarás sem náði hámarki með uppfyllingu annars merkilegs spádóms. Annar valdhafi, Artaxerxes, fylgdi tilskipun Kýrusar eftir er hann fyrirskipaði að Jerúsalem skyldi endurreist. Daníelsbók upplýsir að „frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk [árið 455 f.o.t.], til hins smurða höfðingja“ skyldu vera 69 „sjöundir“ ára. (Daníel 9:24, 25) Þessi spádómur rættist einnig. Jesús lét skírast og hóf jarðneska þjónustu sína á tilsettum tíma, árið 29 eftir okkar tímatali, 483 árum eftir að tilskipun Artaxerxesar tók gildi í fyrirheitna landinu. *

25. Fyrirboði hvers er fall Babýlonar fyrir hendi Kýrusar?

25 Að trúir Gyðingar skyldu geta snúið heim úr útlegðinni eftir fall Babýlonar var fyrirboði þess að smurðar leifar kristinna manna skyldu losna úr andlegri útlegð árið 1919. Þessi lausn var merki þess að önnur Babýlon, kölluð skækjan Babýlon hin mikla, væri fallin, en hún er tákn allra falstrúarbragða heims samanlagðra. Jóhannes postuli sá fall hennar fyrir eins og greint er frá í Opinberunarbókinni. (Opinberunarbókin 14:8) Hann sá líka fyrir skyndilega eyðingu þessa trúarheimsveldis með öllum skurðgoðum þess. Lýsing hans á eyðingu þess líkist að sumu leyti lýsingu Jesaja á því hvernig Kýrus vann Babýlon fortíðar. Ár og síki Babýlonar megnuðu ekki að bjarga henni undan Kýrusi, og ‚vötn‘ mannkynsins, sem eru stuðningur og vernd Babýlonar hinnar miklu, munu ‚þorna upp‘ áður en hún hlýtur verðskuldaða tortímingu. — Opinberunarbókin 16:12. *

26. Hvernig styrkir spádómur Jesaja og uppfylling hans trú okkar?

26 Frá okkar sjónarhóli, meira en tveim og hálfri árþúsund eftir að Jesaja bar fram spádóminn, sjáum við að Guð „framkvæmir ráð sendiboða sinna.“ (Jesaja 44:26) Uppfylling spádóms Jesaja er því framúrskarandi dæmi um að við getum treyst öllum spádómum Heilagrar ritningar.

[Neðanmáls]

^ gr. 24 Sjá 11. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ gr. 25 Sjá 35. og 36. kafla bókarinnar Revelation — Its Grand Climax At Hand!, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 63]

Getur óbrunninn eldiviðarbútur frelsað nokkurn mann?

[Mynd á blaðsíðu 75]

Kýrus uppfyllir spádóm með því að veita Efrat úr farvegi hennar.