Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hræsni afhjúpuð!

Hræsni afhjúpuð!

19. kafli

Hræsni afhjúpuð!

Jesaja 58:1-14

1. Hvernig líta Jesús og Jehóva á hræsni og í hvaða mynd birtist hún á dögum Jesaja?

 „ÞANNIG eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis,“ sagði Jesús trúarleiðtogum samtíðarinnar. (Matteus 23:28) Fordæming hans endurspeglar afstöðu föðurins á himnum. Fimmtugasti og áttundi kafli Jesajabókar beinir athyglinni sérstaklega að hinni útbreiddu hræsni í Júda. Deilur, kúgun og ofbeldi eru daglegt brauð og hvíldardagshaldið er orðið að innihaldslausum helgisið. Landsmenn þjóna Jehóva aðeins til málamynda og flíka uppgerðarguðrækni sinni með því að fasta. Það er engin furða að hann skuli afhjúpa þá!

‚Kunngerið lýðnum syndir hans‘

2. Með hvaða hugarfari boðar Jesaja boðskap Jehóva og hverjir líkjast honum?

2 Jehóva hvetur Júdamenn hlýlega til að iðrast þó að hann hafi megna andstyggð á framferði þeirra. En hann vill ekki að áminningin sé óljós svo að hann skipar Jesaja: „Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra!“ (Jesaja 58:1) Jesaja má búast við að þjóðin taki því illa að hann skuli flytja henni orð Jehóva djarflega, en hann er óhræddur. Hann sýnir sömu, dyggu fórnfýsina og hann gerði er hann sagði: „Hér er ég, send þú mig!“ (Jesaja 6:8) Hann er góð fyrirmynd um það þolgæði sem nútímavottar Jehóva þurfa að sýna en þeim er líka falið það verkefni að prédika orð Guðs og afhjúpa trúhræsni. — Sálmur 118:6; 2. Tímóteusarbréf 4:1-5.

3, 4. (a) Hvernig eru samtíðarmenn Jesaja að þykjast? (b) Hvernig er ástandið í Júda raunverulega?

3 Samtíðarmenn Jesaja leita Jehóva í orði kveðnu og lýsa yfir ánægju sinni með réttláta dóma hans. Jehóva segir: „Þeir leita mín dag frá degi og girnast að þekkja mína vegu. Þeir heimta af mér réttláta dóma og girnast það, að Guð komi til, eins og væru þeir þjóð, sem iðkar réttlæti og eigi víkur frá skipunum Guðs síns.“ (Jesaja 58:2) En yfirlýst ánægja þeirra með vegi Jehóva er ekki einlæg. Þeir eru ‚eins og þjóð sem iðkar réttlæti‘ en aðeins á yfirborðinu. Sannleikurinn er sá að þeir hafa ‚vikið frá skipunum Guðs síns.‘

4 Ástandið er ósköp svipað og opinberað var spámanninum Esekíel síðar. Jehóva benti honum á að Gyðingar segðu hver við annan: „Komið og heyrið, hvaða orð kemur frá [Jehóva]!“ En hann varaði Esekíel við óeinlægni þeirra: „Þeir koma til þín í hópum . . . en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra, en hjarta þeirra eltir fégróðann. Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim.“ (Esekíel 33:30-32) Samtíðarmenn Jesaja þykjast líka leita Jehóva sí og æ en hlýða honum ekki.

Hræsnisfullt föstuhald

5. Hvernig reyna Gyðingar að ávinna sér velvild Jehóva en hvernig bregst hann við?

5 Gyðingar reyna að ávinna sér velvild Guðs með föstuhaldi, en yfirborðsguðræknin gerir þá aðeins fjarlægari honum. Þeir þykjast ráðvilltir og spyrja: „Hví föstum vér, og þú sér það ekki? Hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki?“ Jehóva svarar hreinskilnislega: „Sjá, daginn sem þér fastið fáist þér við störf yðar og þrælkið öll hjú yðar. Sjá, þér fastið til þess að vekja deilur og þrætur og til þess að ljósta með ósvífnum hnefa. En þér fastið eigi í dag til þess að láta rödd yðar heyrast upp í hæðirnar. Mun slíkt vera sú fasta, er mér líkar, sá dagur, er menn þjá sig? Að hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir [Jehóva]?“ — Jesaja 58:3-5.

6. Með hverju afhjúpa Gyðingar hræsnina í föstuhaldi sínu?

6 Gyðingar fasta, gera sér upp réttlæti og heimta jafnvel réttláta dóma af Jehóva en lifa fyrir eigingjarnar nautnir og viðskipti. Þeir deila, kúga og beita ofbeldi. Þeir reyna að klóra yfir ófagra hegðun sína með því að þykjast syrgja — hengja niður höfuðið eins og sef og sitja í sekk og ösku — og láta sem þeir iðrist synda sinna. En hvers virði er þetta ef þeir halda uppreisninni áfram? Þeir sýna ekki hryggð og iðrun Guði að skapi eins og vera ætti þegar menn fasta af einlægu hjarta. Kvein þeirra heyrist ekki upp til himna þótt hávært sé.

7. Hvernig hræsnuðu Gyðingar á dögum Jesú og hvernig hræsna margir nú á tímum?

7 Gyðingar á dögum Jesú föstuðu einnig til að sýnast, sumir tvisvar í viku! (Matteus 6:16-18; Lúkas 18:11, 12) Margir af trúarleiðtogunum líktu jafnframt eftir kynslóð Jesaja með hörku sinni og ráðríki. Jesús afhjúpaði þessa trúarhræsnara og sagði þeim að tilbeiðsla þeirra væri til einskis. (Matteus 15:7-9) Nú á dögum segjast milljónir manna „þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.“ (Títusarbréfið 1:16) Þeir vonast kannski eftir miskunn Guðs en hegðunin vitnar um óeinlægni þeirra. Vottar Jehóva sýna aftur á móti sanna guðrækni og ósvikna bróðurást. — Jóhannes 13:35.

Sönn iðrun

8, 9. Hvaða verk þurfa að vera samfara einlægri iðrun?

8 Jehóva vill að menn geri meira en að fasta vegna synda sinna. Hann vill að þeir iðrist. Þá geta þeir hlotið velvild hans. (Esekíel 18:23, 32) Hann bendir á að menn verði að bæta fyrir fyrri syndir til að fastan hafi eitthvert gildi. Hann er skýr í máli: „Sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok.“ — Jesaja 58:6.

9 Fjötrar og ok eru hæfandi tákn um harðneskjulega ánauð. Í stað þess að fasta og kúga jafnframt trúbræður sína ættu menn að ‚elska náungann eins og sjálfan sig,‘ líkt og fyrirskipað er. (3. Mósebók 19:18) Þeir ættu að láta alla lausa sem sæta ranglátri kúgun og þrælkun. * Yfirborðslegar trúarföstur koma ekki í staðinn fyrir ósvikna guðrækni og bróðurást í verki. Spámaðurinn Míka, sem var samtíða Jesaja, skrifaði: „Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — Míka 6:8.

10, 11. (a) Hvað áttu Gyðingar að gera frekar en að fasta? (b) Hvernig geta kristnir menn farið eftir þeim ráðum sem Jehóva gaf Gyðingum?

10 Kjarninn í lögmáli Guðs er sá að gera öðrum gott, og réttlæti, kærleikur og lítillæti stuðlar að því. (Matteus 7:12) Það er miklu betra að deila nægtum sínum með þeim sem þurfandi eru heldur en að fasta. Jehóva segir: „[Sú fasta sem mér líkar] er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.“ (Jesaja 58:7) Í stað þess að flíka föstuhaldi sínu ættu þeir sem eru aflögufærir að gefa þurfandi Júdamönnum — holdi sínu og blóði — fæði, klæði og húsaskjól.

11 Þetta fagra lögmál bróðurástar og umhyggju, sem Jehóva lýsir hér, á ekki aðeins við Gyðinga á dögum Jesaja heldur er það einnig leiðarljós kristinna manna. Páll postuli skrifaði þar af leiðandi: „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) Kristni söfnuðurinn verður að vera skjólshús kærleika og bróðurástar, einkum þegar á það er litið að tímarnir versna jafnt og þétt. — 2. Tímóteusarbréf 3:1; Jakobsbréfið 1:27.

Hlýðni er forsenda blessunar

12. Hvað gerir Jehóva ef fólk hans hlýðir honum?

12 Bara að fólk Jehóva sýndi þá skynsemi að þiggja kærleiksáminningar hans. Hann segir: „Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð [Jehóva] fylgja á eftir þér. Þá munt þú kalla á [Jehóva], og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: ‚Hér er ég!‘“ (Jesaja 58:8, 9a) Þetta eru hlýleg orð! Jehóva blessar og verndar þá sem hafa unun af miskunnsemi og réttlæti. Ef þjóð hans iðrast harðýðgi sinnar og hræsni og hlýðir honum birtir mjög til hjá henni. Jehóva lætur þá ‚sár hennar gróa‘ með því að lækna hana andlega og líkamlega. Hann gætir hennar eins og hann gætti forfeðra hennar er þeir yfirgáfu Egyptaland. Og hann svarar tafarlaust er hún kallar á hjálp hans. — 2. Mósebók 14:19, 20, 31.

13. Hvaða blessun bíður Gyðinga ef þeir taka hvatningu Jehóva?

13 Jehóva herðir nú á fyrri hvatningu sinni og segir: „Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum, ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.“ (Jesaja 58:9b, 10) Eigingirni og harðneskja koma manni sjálfum í koll og kalla yfir mann reiði Jehóva, en hann blessar góðvild og örlæti, einkum gagnvart hungruðum og bágstöddum. Bara að Gyðingar skildu þennan sannleika! Þá yrði velsæld þeirra og andleg útgeislun eins og hádegissólin og ræki burt allt myrkur. Umfram allt myndu þeir heiðra og lofa Jehóva sem er uppspretta dýrðar þeirra og blessunar. — 1. Konungabók 8:41-43.

Endurreist þjóð

14. (a) Hvernig taka samtíðarmenn Jesaja orðum hans? (b) Hverju heldur Jehóva á loft eftir sem áður?

14 Því miður lætur þjóðin áköll Jehóva sem vind um eyrun þjóta og sekkur enn dýpra í illskuna. Að síðustu á hann ekki annars úrkosti en að senda hana í útlegð eins og hann varaði við. (5. Mósebók 28:15, 36, 37, 64, 65) En orð hans fyrir munn Jesaja vekja samt sem áður von. Hann spáir því að agaðar og iðrandi leifar snúi fagnandi heim til Júda, þó svo að landið liggi í eyði.

15. Hvaða gleðilega endurreisn boðar Jehóva?

15 Jehóva bendir fram til þess að þjóðin snúi heim árið 537 f.o.t. og segir fyrir munn Jesaja: „Þá mun [Jehóva] stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.“ (Jesaja 58:11) Jehóva breytir hinu vatnslausa Ísraelslandi í gróskumikinn garð. Og ekki er síður verðmætt að hann blessar iðrandi fólk sitt og styrkir lífvana ‚bein þess‘ svo að þau verða full af lífsorku. (Esekíel 37:1-14) Þjóðin verður eins og „vökvaður aldingarður“ sem ber andlegan ávöxt í mikilli gnægð.

16. Hvernig verður landið endurreist?

16 Einn þáttur endurreisnarinnar er sá að byggja upp að nýju þær borgir sem innrásarmenn Babýlonar eyddu árið 607 f.o.t. „Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir.“ (Jesaja 58:12) Hliðstæðurnar — „hinar fornu borgarrústir“ og ‚múrveggirnir er legið hafa við velli marga mannsaldra‘ — sýna að hinar heimkomnu leifar munu endurreisa rústaborgir Júda, einkum þó Jerúsalem. (Nehemíabók 2:5; 12:27; Jesaja 44:28) Þeir munu fylla upp í ‚múrskörð‘ Jerúsalem og eflaust annarra borga einnig. — Jeremía 31:38-40; Amos 9:14.

Blessun fylgir því að halda hvíldardaginn af trúmennsku

17. Hvernig hvetur Jehóva fólk sitt til að halda hvíldardagslögin?

17 Hvíldardagurinn bar vott um mikla umhyggju Guðs fyrir líkamlegri og andlegri velferð þjóðar sinnar. Jesús sagði að ‚hvíldardagurinn hefði orðið til mannsins vegna.‘ (Markús 2:27) Hvíldardagurinn veitti Ísraelsmönnum sérstakt tækifæri til að sýna Jehóva, sem helgaði hann, kærleika sinn. En á dögum Jesaja notuðu menn hvíldardaginn því miður til innantómra helgisiða og til að þjóna eigingjörnum löngunum sínum. Jehóva hefur því enn á ný ástæðu til að setja ofan í við fólk sitt. Enn og aftur reynir hann að ná til hjartna manna. Hann segir: „Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum, ef þú kallar hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag [Jehóva] heiðursdag og virðir hann svo, að þú framkvæmir ekki fyrirætlanir þínar, annast ekki störf þín né talar hégómaorð, þá munt þú gleðjast yfir [Jehóva] og þá mun ég láta þig fram bruna á hæðum landsins og láta þig njóta arfleifðar Jakobs föður þíns, því að munnur [Jehóva] hefir talað það.“ — Jesaja 58:13, 14.

18. Hvaða afleiðingar hefur það að Júdamenn skuli ekki virða hvíldardaginn?

18 Hvíldardagurinn er ætlaður til andlegra hugleiðinga, bænahalds og sameiginlegrar tilbeiðslu í fjölskyldunni. Hann á að hjálpa Gyðingum að ígrunda dásemdarverk Jehóva í þeirra þágu og réttlætið og kærleikann sem birtist í lögmáli hans. Að halda þennan helga dag í tryggð og trúfesti á að styrkja tengsl þeirra við Guð. En Gyðingar spilla hvíldardeginum og eiga á hættu að Jehóva taki blessun sína frá þeim. — 3. Mósebók 26:34; 2. Kroníkubók 36:21.

19. Hvaða blessun á fólk Guðs í vændum ef það fer að halda hvíldardaginn að nýju?

19 Gyðingum er mikil blessun búin ef þeir læra af öguninni og taka að virða hvíldardagsboðið. Þá mun sönn tilbeiðsla og virðing fyrir hvíldardeginum hafa jákvæð áhrif á öll önnur svið lífsins. (5. Mósebók 28:1-13; Sálmur 19:8-12) Jehóva mun til dæmis láta fólk sitt ‚bruna fram á hæðum landsins.‘ Þetta orðatiltæki gefur til kynna öryggi og sigra yfir óvinum þjóðarinnar. Sá sem stjórnar hæðum og fjöllum landsins stjórnar landinu sjálfu. (5. Mósebók 32:13; 33:29) Ísraelsmenn hlýddu Jehóva á sínum tíma og nutu verndar hans, og aðrar þjóðir virtu þá og jafnvel óttuðust. (Jósúabók 2:9-11; 1. Konungabók 4:20, 21) Ef þeir snúa sér aftur til hans í hlýðni endurheimta þeir fyrri vegsemd að einhverju marki. Hann veitir fólki sínu þá fulla hlutdeild í ‚arfleifð Jakobs‘ — blessuninni sem hann hét í sáttmálanum við forfeðurna, einkum þá blessun að hafa öruggt eignarhald á fyrirheitna landinu. — Sálmur 105:8-11.

20. Hvaða „sabbatshvíld“ er kristnum mönnum búin?

20 Geta kristnir menn dregið lærdóm af þessu? Móselögin féllu úr gildi með dauða Jesú Krists, þar á meðal hvíldardagskrafan. (Kólossubréfið 2:16, 17) En hvíldardagurinn átti að ýta undir löngun Júdamanna til að setja andlegu málin á oddinn og styrkja tengslin við Jehóva, og þessi löngun er mikilvæg fyrir dýrkendur hans enn þann dag í dag. (Matteus 6:33; Jakobsbréfið 4:8) Og Páll segir í Hebreabréfinu: „Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.“ Kristnir menn ganga inn í þessa „sabbatshvíld“ með því að hlýða Jehóva og ástunda réttlæti sem byggist á trúnni á úthellt blóð Jesú Krists. (Hebreabréfið 3:12, 18, 19; 4:6, 9-11, 14-16) Kristnir menn stunda ekki aðeins þessa sabbatshvíld einn dag í viku heldur alla daga. — Kólossubréfið 3:23, 24.

Hinn andlegi Ísrael ‚brunar fram á hæðum‘

21, 22. Hvernig hefur Jehóva látið Ísrael Guðs ‚bruna fram á hæðum landsins‘?

21 Smurðir kristnir menn hafa haldið dyggilega það sem hvíldardagurinn táknaði, allt frá því að þeir voru leystir úr Babýlonaránauð árið 1919. Jehóva hefur þar af leiðandi látið þá ‚bruna fram á hæðum.‘ Í hvaða skilningi? Hann gerði sáttmála við afkomendur Abrahams árið 1513 f.o.t. þess efnis að þeir skyldu verða prestaríki og heilög þjóð ef þeir væru hlýðnir. (2. Mósebók 19:5, 6) Hann bar þá óhulta um eyðimörkina í 40 ár, líkt og örn ber unga sína, og sá fyrir þeim á alla vegu. (5. Mósebók 32:10-12) En þjóðina skorti trú og hún glataði að lokum öllum þeim sérréttindum sem henni stóðu til boða. Þrátt fyrir það á Jehóva sér prestaríki nú á tímum en það er hinn andlegi Ísrael Guðs. — Galatabréfið 6:16; 1. Pétursbréf 2:9.

22 Þessi andlega þjóð hefur haldið tryggð sinni við Jehóva á „tíð endalokanna“ sem Forn-Ísrael gerði ekki á sínum tíma. (Daníel 8:17) Þeir sem tilheyra henni halda háleitar kröfur hans og ganga vegi hans, og hann upphefur þá andlega. (Orðskviðirnir 4:4, 5, 8; Opinberunarbókin 11:12) Þeir eru verndaðir fyrir óhreinleikanum umhverfis og líferni þeirra er göfugt, og þeir ‚gleðjast yfir Jehóva‘ og orði hans í stað þess að vilja fara sínu fram. (Sálmur 37:4) Jehóva hefur verndað þá andlega gagnvart harðri mótstöðu alls staðar í heiminum. Enginn hefur ráðist inn í andlegt „land“ þeirra síðan 1919. (Jesaja 66:8) Þeir halda áfram að bera hið háleita nafn hans og boða það fagnandi um heim allan. (5. Mósebók 32:3; Postulasagan 15:14) Og vaxandi fjöldi auðmjúkra manna af öllum þjóðum nýtur þess heiðurs að læra vegi Jehóva ásamt þeim og ganga á stigum hans.

23. Hvernig lætur Jehóva smurða þjóna sína „njóta arfleifðar Jakobs“?

23 Jehóva hefur látið smurða þjóna sína „njóta“ arfleifðar Jakobs eða „borða af“ henni samkvæmt nákvæmri þýðingu frumtextans. Þegar ættfaðirinn Ísak blessaði Jakob í stað Esaús boðaði hann blessun handa öllum sem iðkuðu trú á hið fyrirheitna sæði eða afkvæmi Abrahams. (1. Mósebók 27:27-29; Galatabréfið 3:16, 17) Smurðir kristnir menn og félagar þeirra kunna að meta það sem heilagt er, einkum andlegu fæðuna sem Guð lætur ríkulega í té, og þar líkjast þeir Jakobi en ekki Esaú. (Hebreabréfið 12:16, 17; Matteus 4:4) Þessi andlega fæða er meðal annars fólgin í þekkingu á því sem Jehóva áorkar fyrir atbeina hins fyrirheitna sæðis og félaga þess, og hún er styrkjandi, hressandi og nauðsynleg til að halda sér andlega heilbrigðum. Þess vegna er áríðandi að þjónar Guðs nærist andlega með því lesa orð hans reglulega og hugleiða það. (Sálmur 1:1-3) Það er mikilvægt fyrir þá að vera með trúbræðrum sínum á samkomum. Og þeir þurfa að fylgja háum kröfum hinnar hreinu tilbeiðslu og færa öðrum þessa næringu.

24. Hvað ættu allir sannkristnir menn að gera?

24 Megi sannkristnir menn hafna hvers kyns hræsni og bíða þess með óþreyju að fyrirheit Jehóva rætist. Megi þeir „njóta arfleifðar Jakobs“ og halda áfram að búa við andlegt öryggi „á hæðum landsins.“

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Samkvæmt ákvæðum Jehóva gátu þjónar hans selt sig í þrælkun ef þeir lentu í skuldum. Þeir urðu eiginlega launamenn uns þeir höfðu greitt skuldir sínar. (3. Mósebók 25:39-43) En lögmálið kvað á um það að vel skyldi farið með þræla. Ef þræll sætti illri meðferð átti að láta hann lausan. — 2. Mósebók 21:2, 3, 26, 27; 5. Mósebók 15:12-15.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 278]

Gyðingar föstuðu og hengdu höfuð í uppgerðariðrun en breyttu ekki háttalagi sínu.

[Mynd á blaðsíðu 283]

Þeir sem eru aflögufærir veita nauðstöddum fæði, klæði og húsaskjól.

[Mynd á blaðsíðu 286]

Júdamenn fá að endurbyggja rústaborgir sínar ef þeir iðrast.