Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Huggun handa fólki Guðs

Huggun handa fólki Guðs

12. kafli

Huggun handa fólki Guðs

Jesaja 51:1-23

1. Hvaða dapurleg framtíð bíður Jerúsalem og íbúa hennar en hvaða von er þeim gefin?

 SJÖTÍU ár er langur tími — heill mannsaldur — en útlegð Júdamanna í Babýlon verður þetta löng. (Sálmur 90:10; Jeremía 25:11; 29:10) Flestir eiga þeir eftir að eldast þar og deyja. Þú getur rétt ímyndað þér auðmýkjandi háðsglósur óvinanna. Og hugsaðu þér svívirðingarnar sem Jehóva, Guð þeirra, má sitja undir er borgin, sem hann lagði nafn sitt við, liggur svona lengi í eyði. (Nehemíabók 1:9; Sálmur 132:13; 137:1-3) Musterið sem var þeim svo kært, musterið sem fylltist dýrð Guðs er Salómon vígði það, verður ekki til framar. (2. Kroníkubók 7:1-3) Þetta eru dapurlegar horfur. En Jehóva lætur Jesaja boða endurreisn. (Jesaja 43:14; 44:26-28) Og í 51. kafla Jesajabókar er að finna fleiri huggandi og hughreystandi spádóma.

2. (a) Hverjum sendir Jehóva huggandi boðskap fyrir munn Jesaja? (b) Hvernig leggja trúfastir Gyðingar stund á réttlæti?

2 Jehóva segir þeim Júdamönnum sem hneigja hjörtu sín til hans: „Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið [Jehóva]!“ (Jesaja 51:1a) Að ‚leggja stund á réttlæti‘ gerir ráð fyrir verkum. Þeir sem ‚leggja stund á réttlæti‘ fullyrða ekki aðeins að þeir séu þjónar Guðs heldur kappkosta að vera réttlátir og lifa í samræmi við vilja hans. (Sálmur 34:16; Orðskviðirnir 21:21) Þeir ‚leita Jehóva‘ og líta á hann sem einu réttlætisuppsprettuna. (Sálmur 11:7; 145:17) Ekki svo að skilja að þeir þekki ekki Jehóva eða kunni ekki að nálgast hann í bæn. Hér er átt við það að þeir leitast við að styrkja sambandið við hann, tilbiðja hann, biðja til hans og leita leiðsagnar hans í öllu sem þeir gera.

3, 4. (a) Hvert er ‚hellubjargið‘ sem Gyðingar eru höggnir af og hver er ‚brunnholan‘ sem þeir eru grafnir úr? (b) Hvers vegna er það hughreystandi fyrir Gyðinga að minnast uppruna síns?

3 En það eru tiltölulega fáir Júdamenn sem leita réttlætis í raun og það getur dregið úr þeim kjark og þor. Jehóva bregður upp líkingu af grjótnámi til að hvetja þá: „Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir! Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans.“ (Jesaja 51:1b, 2) Gyðingar eru ákaflega stoltir af Abraham. Hann er ættfaðir þjóðarinnar, „hellubjargið“ sem þeir eru höggnir af. (Matteus 3:9; Jóhannes 8:33, 39) ‚Brunnholan‘ er Sara sem fæddi Ísak, forföður Ísraels.

4 Abraham og Sara voru barnlaus og komin fram yfir barneignaraldur. Jehóva hét engu að síður að blessa Abraham og ‚auka kyn hans.‘ (1. Mósebók 17:1-6, 15-17) Hann endurvakti getnaðarmátt þeirra svo að þau eignuðust son í ellinni, og sáttmálaþjóð Guðs kom af honum. Þannig gerði Jehóva þennan eina mann að ættföður mikillar þjóðar sem reyndist eins óteljandi og stjörnur himins. (1. Mósebók 15:5; Postulasagan 7:5) Fyrst Jehóva gat flutt Abraham úr fjarlægu landi og gert hann að voldugri þjóð, þá getur hann vissulega staðið við loforð sitt um að frelsa trúfastar leifar frá Babýlon, flytja þær heim í land þeirra og gera þær aftur að mikilli þjóð. Loforð Guðs við Abraham rættist, og loforð hans við hina útlægu Gyðinga mun einnig rætast.

5. (a) Hverja tákna Abraham og Sara? Skýrðu svarið. (b) Hverjir koma af ‚bjarginu‘ í lokauppfyllingunni?

5 Hið táknræna grjótnám í Jesaja 51:1, 2 á líklega einnig við í öðrum skilningi. Í 5. Mósebók 32:18 er Jehóva kallaður „bjargið“ sem gat Ísrael og ‚ól‘ hann. Síðara orðið er hið sama í hebreskunni og notað er í Jesaja 51:2 þar sem talað er um að Sara hafi alið Ísrael. Abraham er því spádómleg mynd af Jehóva, hinum meiri Abraham. Sara, kona Abrahams, er góð ímynd hins himneska andaveruskipulags Jehóva, enda er það táknað sem kona eða eiginkona hans í Heilagri ritningu. (1. Mósebók 3:15; Opinberunarbókin 12:1, 5) Í lokauppfyllingu þessa hluta spádóms Jesaja er „Ísrael Guðs“ þjóðin sem kemur af ‚bjarginu,‘ en þar er átt við söfnuð andasmurðra kristinna manna sem varð til á hvítasunnu árið 33. Eins og fram kemur fyrr í þessari bók var þessi þjóð hneppt í Babýlonaránauð árið 1918 en leyst úr haldi og tók að dafna andlega árið 1919. — Galatabréfið 3:26-29; 4:28; 6:16.

6. (a) Hvað er framundan fyrir Júda og hvaða endurreisn verður nauðsynleg? (b) Á hvaða nútímaendurreisn minnir Jesaja 51:3?

6 Jehóva huggar Síon eða Jerúsalem með fleiru en loforðinu um að þjóðin verði fjölmenn. Við lesum: „[Jehóva] huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð [Jehóva]. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur.“ (Jesaja 51:3) Á þeim 70 árum, sem þjóðin er í útlegð, breytist Júda í eyðimörk með þyrnirunnum, klungrum og öðrum villigróðri. (Jesaja 64:10; Jeremía 4:26; 9:10-12) Endurreisnin er bæði fólgin í því að endurbyggja landið og að breyta því í eins konar Edengarð með frjósömum ökrum og aldingörðum. Það er engu líkara en að jörðin fagni. Landið verður hrein paradís í samanburði við landauðn útlegðaráranna. Hinar smurðu leifar Ísraels Guðs gengu inn í slíka paradís í andlegri merkingu árið 1919. — Jesaja 11:6-9; 35:1-7.

Ástæða til að treysta Jehóva

7, 8. (a) Hvað merkir það að hlýða á Jehóva? (b) Af hverju er mikilvægt fyrir Júdamenn að taka eftir því sem Jehóva segir?

7 Jehóva biður þjóna sína að taka vel eftir og segir: „Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar. Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg.“ — Jesaja 51:4, 5.

8 Jehóva er ekki aðeins að hvetja menn til að heyra boðskapinn. Að hlýða á hann merkir að hlusta með eftirtekt í þeim tilgangi að fara eftir því sem hann segir. (Sálmur 49:2; 78:1) Þjóðin þarf að gera sér ljóst að Jehóva er fræðari hennar, réttlæti og hjálpræði. Hann einn er andlegur ljósgjafi hennar. (2. Korintubréf 4:6) Hann er endanlegur dómari mannkyns. Lög hans og dómar eru leiðarljós þeirra sem vilja fara eftir þeim. — Sálmur 43:3; 119:105; Orðskviðirnir 6:23.

9. Hverjir njóta góðs af hjálpræðisverki Guðs, auk sáttmálaþjóðar hans?

9 Þetta gildir ekki aðeins um sáttmálaþjóð Guðs heldur alla réttsinna menn hvar sem er, jafnvel í fjarlægum landsálfum. Hann bregst ekki trausti trúrra þjóna sinna; hann getur látið til sín taka og bjargað þeim. Enginn getur stöðvað hann er hann beitir mætti sínum sem armleggur hans táknar. (Jesaja 40:10; Lúkas 1:51, 52) Nú á tímum hefur dyggilegt boðunarstarf þeirra sem eftir eru af Ísrael Guðs orðið til þess að milljónir hafa snúið sér til Jehóva og tekið trú á hann, margir í fjarlægum landsálfum.

10. (a) Hvaða sannleika neyðist Nebúkadnesar konungur til að læra? (b) Hver eru „himinninn“ og „jörðin“ sem líða undir lok?

10 Jehóva minnir nú á sannleika sem Nebúkadnesar Babelkonungur á eftir að læra. Ekkert á himni eða jörð getur hindrað að Jehóva framkvæmi vilja sinn. (Daníel 4:34, 35) Við lesum: „Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna.“ (Jesaja 51:6) Það er ekki á stefnuskrá konunganna í Babýlon að leyfa bandingjum sínum að snúa heim en ásetningi Jehóva verður ekki breytt. (Jesaja 14:16, 17) Stjórnvaldið í Babýlon, „himinninn,“ verður sigraður. Þegnar þessara stjórnvalda, „jörðin,“ munu smám saman líða undir lok. Öflugasta heimsveldi samtíðarinnar fær ekki staðist gegn mætti Jehóva eða hindrað hjálpræðisverk hans.

11. Af hverju er það hvetjandi fyrir kristna menn nú á tímum til þess að vita að spádómurinn um ‚himin‘ og ‚jörð‘ Babýlonar skuli hafa ræst að fullu?

11 Það er ákaflega hvetjandi fyrir kristna menn nú á dögum til þess að vita að þessi spádómsorð skyldu rætast að fullu. Af hverju? Af því að Pétur postuli tók svipað til orða um atburð sem er ókominn enn þá. Hann talaði um dag Jehóva, sem nálgast ört, og sagði að ‚vegna hans myndu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.‘ Síðan sagði hann: „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:12, 13; Jesaja 34:4; Opinberunarbókin 6:12-14) Þó svo að voldugar þjóðir og valdhafar, sem eru hátt upp hafnir eins og stjörnurnar, bjóði Jehóva byrginn verða þeir að engu í fyllingu tímans — kramdir eins og mý. (Sálmur 2:1-9) Réttlát stjórn Guðs stendur ein eftir og ríkir að eilífu yfir réttlátu mannfélagi. — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 21:1-4.

12. Af hverju þurfa þjónar Jehóva ekki að óttast mennska andstæðinga sem rægja þá?

12 Jehóva ávarpar ‚þá sem leggja stund á réttlæti‘ og segir: „Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu. Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra, því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns.“ (Jesaja 51:7, 8) Þeir sem treysta á Jehóva verða rægðir og lastaðir fyrir hugrakka afstöðu sína en þeir þurfa ekki að óttast það. Lastararnir eru dauðlegir menn sem verða ‚mölétnir‘ eins og ullarflík. * Sannkristnir nútímamenn hafa enga ástæðu til að óttast andstæðinga sína frekar en trúfastir Gyðingar fortíðar. Jehóva, Guð eilífðarinnar, er hjálpræði þeirra. (Sálmur 37:1, 2) Lastið frá óvinum Guðs er merki þess að andi hans hvíli yfir þjónum hans. — Matteus 5:11, 12; 10:24-31.

13, 14. Hvað tákna ‚skrímslið‘ og ‚drekinn‘ og hvernig var hann ‚lagður í gegn‘ og honum ‚banað‘?

13 Það er rétt eins og Jesaja sé að kalla Jehóva til verka í þágu útlægrar þjóðar sinnar er hann segir: „Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur [Jehóva]! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann? Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?“ — Jesaja 51:9, 10.

14 Sögudæmin, sem Jesaja tiltekur, eru vel valin. Hver einasti Ísraelsmaður veit af frelsun þjóðarinnar frá Egyptalandi og förinni yfir Rauðahafið. (2. Mósebók 12:24-27; 14:26-31) ‚Skrímslið‘ og ‚drekinn‘ eru Egyptaland undir stjórn faraós sem stóð gegn því að Ísraelsmenn yfirgæfu landið. (Sálmur 74:13; 87:4; Jesaja 30:7) Egyptaland fornaldar var eins og risasnákur í laginu. Höfuðið var óseyrar Nílar og búkurinn teygði sig hundruð kílómetra inn frjósaman Nílardalinn. (Esekíel 29:3) En Jehóva banaði skrímslinu er hann úthellti plágunum tíu yfir það. Það var lagt í gegn, helsært og lamað er herinn tortímdist í Rauðahafinu. Jehóva sýndi máttugan armlegg sinn í samskiptum við Egypta. Verður hann ekki jafnfús til að berjast fyrir fólk sitt í útlegðinni í Babýlon?

15. (a) Hvenær og hvernig munu hryggð og andvörp Síonar flýja? (b) Hvenær flúðu hryggð og andvörp frá Ísrael Guðs á síðari tímum?

15 Nú er horft fram veginn til þess tíma er Ísrael verður frelsaður frá Babýlon. Spádómurinn segir: „Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ (Jesaja 51:11) Hversu illa sem komið verður fyrir þeim í Babýlon eiga þeir bjarta framtíð fyrir höndum ef þeir leita réttlætis Jehóva. Hryggð og andvörp taka enda þegar þar að kemur. Varir hinna endurkeyptu munu hrópa af fögnuði og gleði. Þessi spádómsorð rættust í nútímanum þegar Ísrael Guðs var leystur úr Babýlonarfjötrum árið 1919. Þeir sneru aftur til andlegs óðals síns með miklum fögnuði, fögnuði sem hefur haldist allt fram á þennan dag.

16. Hvað er greitt í lausnargjald fyrir Gyðinga?

16 Hvaða gjald þarf að greiða til að endurkaupa Gyðinga? Það hefur þegar komið fram í spádómi Jesaja að Jehóva gefur ‚Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, lætur Bláland og Seba í stað þín.‘ (Jesaja 43:1-4) Þetta gerist síðar. Eftir að hafa unnið Babýlon og veitt Gyðingum heimfararleyfi leggur Persaveldi undir sig Egyptaland, Eþíópíu (Bláland) og Seba. Þetta er lausnargjaldið fyrir sálir Ísraelsmanna og kemur heim og saman við meginregluna í Orðskviðunum 21:18 þar sem segir: „Hinn óguðlegi er lausnargjald fyrir hinn réttláta, og svikarinn kemur í stað hinna hreinskilnu.“

Meiri hughreysting

17. Af hverju er engin ástæða fyrir Gyðinga að óttast heift Babýlonar?

17 Jehóva heldur áfram að hughreysta fólk sitt og segir: „Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið, en gleymir [Jehóva], skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?“ (Jesaja 51:12, 13) Áratugalöng útlegð er framundan. En það er ástæðulaust að óttast heift Babýlonar. Þó svo að þriðja heimsveldi biblíusögunnar hernemi þjóð Guðs og reyni að ‚kúga‘ hana og varna henni undankomu, vita trúir Gyðingar að Jehóva hefur boðað að Babýlon falli fyrir Kýrusi. (Jesaja 44:8, 24-28) Íbúar Babýlonar munu falla eins og gras sem visnar í brennheitri sólinni á þurrkatímanum — ólíkt skaparanum, Jehóva, sem er eilífur Guð. Hvað verður þá um heift þeirra og hótanir? Það er mjög svo óviturlegt að óttast menn og gleyma Jehóva sem skapaði himin og jörð.

18. Hvað fullvissar Jehóva þjóð sína um, þó svo að hún verði fangin um hríð?

18 Þjóð Jehóva verður ‚fjötruð‘ í útlegð um hríð en svo verður hún skyndilega leyst úr haldi. Henni verður hvorki útrýmt í Babýlon né verður hún hungurmorða í fangelsi og lögð lífvana í Helju, gröfina. (Sálmur 30:4; 88:4-6) Jehóva fullvissar hana: „Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð.“ — Jesaja 51:14.

19. Hvers vegna geta trúir Gyðingar treyst orðum Jehóva fullkomlega?

19 Jehóva heldur áfram að hugga Síon: „Svo sannarlega sem ég er [Jehóva], Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. [Jehóva] allsherjar er nafn hans. Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: ‚Þú ert minn lýður!‘“ (Jesaja 51:15, 16) Biblían nefnir margsinnis að Jehóva ráði yfir hafinu og geti stjórnað því. (Jobsbók 26:12; Sálmur 89:10; Jeremía 31:35) Hann hefur náttúruöflin algerlega á valdi sínu eins og sýndi sig er hann frelsaði þjóð sína frá Egyptalandi. Enginn jafnast hið minnsta á við ‚Jehóva hersveitanna.‘ — Sálmur 24:10.

20. Hvaða ‚himinn‘ og „jörð“ verður til þegar Jehóva endurreisir Síon, og hvað segir hann til hughreystingar?

20 Gyðingar eru sáttmálaþjóð Guðs og hann fullvissar þá um að þeir muni snúa heim í land sitt og búa við lögmál hans að nýju. Þeir munu endurbyggja Jerúsalem og musterið og axla á nýjan leik skyldur lagasáttmálans sem hann gerði við þá fyrir milligöngu Móse. ‚Ný jörð‘ verður til þegar Ísraelsmenn eru komnir heim og byggja landið að nýju ásamt búpeningi sínum. Og ‚nýr himinn‘ eða stjórnarfyrirkomulag fer með völd yfir henni. (Jesaja 65:17-19; Haggaí 1:1, 14) Jehóva segir þá aftur við Síon: „Þú ert minn lýður!“

Hvött til verka

21. Hvernig hvetur Jehóva Síon til verka?

21 Jehóva hvetur Síon til verka eftir að hafa hughreyst hana. Hann talar eins og þjáningar hennar séu á enda og segir: „Hresstu þig upp, hresstu þig upp, rístu upp, Jerúsalem, þú sem drukkið hefir reiðibikar [Jehóva], er hönd hans rétti að þér. Vímubikarinn hefir þú drukkið í botn!“ (Jesaja 51:17) Jerúsalem þarf að rísa upp úr ógæfunni og endurheimta fyrri stöðu og ljóma. Að því kemur að hún hefur drukkið hinn táknræna endurgjaldsbikar Guðs í botn. Reiði hans gagnvart henni er þá tæmd.

22, 23. Hvað gerist í Jerúsalem þegar hún drekkur reiðibikar Jehóva?

22 En enginn af ‚sonum‘ eða íbúum Jerúsalem getur hindrað að hún taki út refsingu sína meðan á henni stendur. (Jesaja 43:5-7; Jeremía 3:14) Spádómurinn segir: „Af öllum þeim sonum, sem hún hafði alið, var ekki nokkur einn, sem leiddi hana. Af öllum þeim sonum, sem hún hafði upp fætt, var enginn, sem tæki í hönd hennar.“ (Jesaja 51:18) Hún mun þjást mikið fyrir hendi Babýloníumanna. „Þetta tvennt henti þig — hver aumkar þig? — eyðing og umturnun, hungur og sverð — hver huggar þig? Synir þínir liðu í ómegin og lágu á öllum strætamótum, eins og antílópur í veiðigröf, fullir af reiði [Jehóva], af hirtingarorðum Guðs þíns.“ — Jesaja 51:19, 20.

23 Vesalings Jerúsalem! Hún má þola bæði ‚eyðingu, umturnun,‘ „hungur og sverð.“ ‚Synir‘ hennar standa magnþrota og hjálparvana álengdar. Þeir geta hvorki leitt hana né stutt. Þá brestur mátt til að hrinda árás Babýloníumanna og þeir hníga niður magnþrota á áberandi strætamótum. (Harmljóðin 2:19; 4:1, 2) Þeir hafa drukkið reiðibikar Guðs og eru eins hjálparvana og dýr í veiðigröf.

24, 25. (a) Hvað þarf Jerúsalem ekki að þola á nýjan leik? (b) Hver þarf að drekka reiðibikar Jehóva næst?

24 En þetta sorgarástand tekur enda. Jesaja segir hughreystandi: „Fyrir því heyr þú þetta, þú hin vesala, þú sem drukkin ert, og þó ekki af víni: Svo segir [Jehóva] þinn alvaldur og Guð þinn, sem réttir hlut lýðs síns: Sjá, ég tek úr hendi þinni vímubikarinn, skál reiði minnar, þú skalt ekki framar á henni bergja. Ég fæ hana í hendur þeim, sem angra þig, þeim er sögðu við þig: ‚Varpa þér niður, svo að vér getum gengið á þér!‘ Og þú varðst að gjöra hrygg þinn sem gólf og að götu fyrir vegfarendur.“ (Jesaja 51:21-23) Jehóva er reiðubúinn að miskunna og fyrirgefa Jerúsalem eftir að hann hefur agað hana.

25 Reiði Jehóva beinist nú frá Jerúsalem og að Babýlon. Hún hefur jafnað Jerúsalem við jörðu og auðmýkt hana. (Sálmur 137:7-9) En Jerúsalem þarf ekki að bergja á slíkum bikar aftur úr hendi Babýlonar eða bandamanna hennar. Bikarinn verður tekinn úr höndum Jerúsalem og fenginn þeim sem kættust yfir háðung hennar. (Harmljóðin 4:21, 22) Babýlon mun steypast dauðadrukkin en Síon rísa á fætur. (Jeremía 51:6-8) Hvílík umskipti! Þetta er sérlega hughreystandi til að vita fyrir Síon. Og þjónar Jehóva mega treysta því að Jehóva helgi nafn sitt með hjálpræðisverkum sínum.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Hér mun átt við fatamöl sem er mikill skaðræðisgripur á lirfustigi.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 167]

Jehóva, hinn meiri Abraham, er „hellubjargið“ sem fólk hans er ‚höggvið af.‘

[Mynd á blaðsíðu 170]

Andstæðingar þjóðar Guðs munu hverfa eins og mölétin flík.

[Mynd á blaðsíðu 176, 177]

Jehóva hefur sýnt að hann ræður yfir náttúruöflunum.

[Mynd á blaðsíðu 178]

Bikarinn, sem Jerúsalem hefur drukkið, er fenginn Babýlon og bandamönnum hennar.