Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hughreystandi spádómsorð sem snerta þig

Hughreystandi spádómsorð sem snerta þig

2. kafli

Hughreystandi spádómsorð sem snerta þig

Jesaja 41:1-29

1. Af hverju ætti spádómur Jesaja að vekja áhuga okkar?

 NÆSTUM 3000 ár eru liðin síðan Jesaja skrifaði bókina sem við hann er kennd. Engu að síður á hún brýnt erindi til okkar sem nú lifum. Við getum lært mikilvægar meginreglur af þeim söguviðburðum sem hún greinir frá. Og við getum treyst trú okkar með því að rannsaka spádómana sem Jesaja skráði í nafni Jehóva. Jesaja var spámaður lifanda Guðs sem innblés honum að skrá framvindu sögunnar fyrir fram — að lýsa atburðum áður en þeir gerðust. Þannig sýndi Jehóva fram á að hann getur bæði sagt framtíðina fyrir og stýrt henni. Eftir að hafa kynnt sér Jesajabók eru sannkristnir menn öruggir um að Jehóva uppfylli allt sem hann hefur lofað.

2. Hvernig var ástatt í Jerúsalem á þeim tíma er Jesaja skrifaði spádómsbókina og hvaða breyting átti að verða?

2 Jerúsalem hafði staðið af sér ógnun Assýringa þegar Jesaja lauk við að skrásetja spádóminn. Musterið stóð enn og lífið gekk sinn vanagang, ósköp svipað og það hafði gert um aldaraðir. En það átti að breytast. Sá tími kæmi er auður Júdakonunga yrði fluttur til Babýlonar og ungir Gyðingar gerðir að hirðmönnum þar í borg. * (Jesaja 39:6, 7) Það átti að gerast rösklega 100 árum síðar. — 2. Konungabók 24:12-17; Daníel 1:19.

3. Hvaða boðskap inniheldur 41. kafli Jesajabókar?

3 En Jesaja boðaði fleira en dóma frá Guði. Fertugasti kafli bókarinnar hefst á orðinu „huggið.“ * Gyðingar gátu látið huggast við það að þeir eða börn þeirra fengju að snúa heim aftur. Þessi huggunarboðskapur heldur áfram í 41. kafla og þar er boðað að Jehóva veki upp voldugan konung til að framkvæma vilja sinn. Kaflinn er bæði hughreystandi og hvetur lesendur til að treysta Guði. Hann afhjúpar einnig falsguðina sem hinar þjóðirnar treystu á. Þetta var trústyrkjandi á dögum Jesaja og er það enn.

Jehóva skorar á þjóðirnar

4. Með hvaða orðum skorar Jehóva á þjóðirnar?

4 Jehóva segir fyrir munn spámannsins: „Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við.“ (Jesaja 41:1) Með þessum orðum skorar Jehóva á þjóðirnar sem eru mótsnúnar fólki hans. Þær skulu standa frammi fyrir honum og manna sig upp í að tala. Eins og við munum sjá síðar krefst Jehóva þess að þjóðirnar leggi fram sannanir fyrir því að skurðgoð þeirra séu raunverulegir guðir, ekki ósvipað og þær séu fyrir rétti og hann sé dómari. Geta þessir guðir boðað dýrkendum sínum hjálpræðisverk eða dóma yfir fjendum þeirra? Ef svo er, geta þeir þá uppfyllt slíka spádóma? Svarið er nei. Enginn getur það nema Jehóva.

5. Útskýrðu hvernig spádómar Jesaja eiga sér fleiri en eina uppfyllingu.

5 Þegar við skoðum spádóm Jesaja skulum við hafa hugfast að hann uppfyllist oftar en einu sinni, rétt eins og margir aðrir biblíuspádómar. Júdamenn verða sendir í útlegð til Babýlonar árið 607 f.o.t. En spádómur Jesaja opinberar að Jehóva muni frelsa útlæga þjóna sína þaðan. Það gerist árið 537 f.o.t. Þessi lausn átti sér hliðstæðu snemma á 20. öldinni. Smurðir þjónar Jehóva gengu gegnum þrengingatíma í fyrri heimsstyrjöldinni. Árið 1918 má segja að skipulegt boðunarstarf hafi lagst niður vegna þrýstings frá heimi Satans. Kristni heimurinn, sem er uppistaðan í Babýlon hinni miklu, átti drjúgan þátt í því. (Opinberunarbókin 11:5-10) Nokkrir af forystumönnum Varðturnsfélagsins voru hnepptir í fangelsi fyrir uppspunnar sakir. Það varð ekki annað séð en að heimurinn hefði unnið stríðið gegn þjónum Guðs. En Guð frelsaði þá öllum að óvörum líkt og gerðist árið 537 f.o.t. Árið 1919 var forystumönnum Félagsins sleppt úr fangelsi og síðar voru ákærurnar á hendur þeim felldar niður. Í september árið 1919 var haldið mót í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum þar sem blásið var nýju lífi í boðunarstarf þjóna Jehóva. (Opinberunarbókin 11:11, 12) Þaðan í frá hefur boðun Guðsríkis vaxið stórlega. Og margt annað, sem Jesaja boðaði, rætist með stórkostlegum hætti í paradís framtíðarinnar. Þar af leiðandi á hinn forni boðskapur Jesaja erindi til allra þjóða og manna nú á tímum.

Frelsari kallaður fram

6. Hvernig lýsir spámaðurinn væntanlegum sigurvegara?

6 Fyrir munn Jesaja boðar Jehóva tilkomu sigurvegara sem á bæði að frelsa fólk Guðs úr Babýlon og fullnægja dómi yfir óvinum hennar. Jehóva spyr: „Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar? Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum? Hver lætur þá verða eins og moldarryk fyrir sverði hans, og eins og fjúkandi hálmleggi fyrir boga hans, svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum? Hver hefir gjört það og framkvæmt? — Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, [Jehóva], sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami.“ — Jesaja 41:2-4, vers 2c samkvæmt Biblíunni 1859.

7. Hver er hinn væntanlegi sigurvegari og hverju áorkar hann?

7 Hver er þetta sem vakinn er upp í austrinu? Medía-Persía og Elam liggja austur af Babýlon og þaðan kemur Kýrus Persakonungur með voldugum her sínum. (Jesaja 41:25; 44:28; 45:1-4, 13; 46:11) Kýrus tilbiður ekki hinn réttláta Guð, Jehóva, en lætur engu að síður að vilja hans. Hann drottnar yfir konungum og þeir tvístrast frá honum eins og moldarryk. Á sigurgöngu sinni fer hann „ósakaður“ eða óhultur um veg sem er ekki farinn að jafnaði og yfirstígur allar hindranir. Árið 539 f.o.t. nær hann til hinnar voldugu Babýlonborgar, vinnur hana og leyfir fólki Guðs að snúa heim til Jerúsalem og endurreisa hreina tilbeiðslu. — Esrabók 1:1-7. *

8. Hvað getur enginn gert nema Jehóva?

8 Þannig boðar Jehóva uppgang Kýrusar konungs löngu fyrir fæðingu hans. Enginn nema hinn sanni Guð getur spáð slíku með nákvæmni. Enginn af falsguðum þjóðanna er jafnoki Jehóva. Hann er því í fullum rétti að segja: „Dýrð mína gef ég eigi öðrum.“ Enginn nema Jehóva getur réttilega sagt: „Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.“ — Jesaja 42:8; 44:6, 7.

Skelfdar þjóðir treysta á skurðgoð

9-11. Hvernig bregðast þjóðirnar við framsókn Kýrusar?

9 Jesaja lýsir nú viðbrögðum þjóðanna við þessum sigurvegara framtíðarinnar: „Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu. Hver hjálpar öðrum og segir við félaga sinn: ‚Vertu hughraustur!‘ Trésmiðurinn hughreystir gullsmiðinn, koparsmiðurinn járnsmiðinn og segir: ‚Kveikingin er góð!‘ Síðan festir hann goðalíkneskið með nöglum, til þess að það haggist ekki.“ — Jesaja 41:5-7.

10 Jehóva horfir á vettvang heimsmála um 200 ár fram í tímann. Öflugur her Kýrusar fer fljótt yfir og brýtur alla andspyrnu á bak aftur. Þjóðir skjálfa er hann nálgast — meira að segja íbúar eylanda og fjarlægra staða. Óttaslegnar taka þær höndum saman gegn honum sem Jehóva hefur kallað úr austri til að fullnægja dómi. „Vertu hughraustur,“ segja þær og reyna að stappa stálinu hver í aðra.

11 Iðnaðarmenn vinna saman að smíði skurðgoða sem eiga að frelsa fólkið. Trésmiður smíðar grind og hvetur gullsmiðinn til að klæða hana málmi, kannski gulli. Málmsmiður hamrar málminn til og leggur blessun sína yfir lóðunina (kveikinguna). Það er kannski með nokkurri kaldhæðni sem talað er um að goðalíkneskið sé fest með nöglum svo að það haggist ekki eins og líkneski Dagóns sem steyptist um koll frammi fyrir örk Jehóva. — 1. Samúelsbók 5:4.

Óttist ekki!

12. Hvernig styrkir Jehóva Ísrael?

12 Jehóva snýr sér nú að þjónum sínum. Þeir sem treysta á hinn sanna Guð þurfa aldrei að óttast, ólíkt þjóðunum sem reiða sig á lífvana skurðgoð. Jehóva byrjar á því að minna Ísraelsmenn á að þeir séu komnir af Abraham, vini sínum. Það er mikil hlýja í orðum hans sem Jesaja flytur: „En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns. Þú, sem ég þreif frá endimörkum jarðarinnar og kallaði þig frá ystu landsálfum hennar og sagði við þig: ‚Þú ert þjónn minn, ég hefi útvalið þig og eigi hafnað þér!‘ Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ — Jesaja 41:8-10.

13. Af hverju verða orð Jehóva einkar hughreystandi fyrir hina hernumdu Gyðinga?

13 Þessi orð eru hughreystandi fyrir trúa Gyðinga í ánauð í fjarlægu landi. Það er hughreystandi að heyra Jehóva kalla þá ‚þjón sinn‘ meðan þeir eru útlægir og í þjónustu Babýlonarkonungs. (2. Kroníkubók 36:20) Jehóva hafnar þeim ekki þó að hann agi þá fyrir ótrúmennskuna. Ísrael tilheyrir Jehóva en ekki Babýlon. Þjónar hans þurfa ekki að óttast komu hins sigrandi Kýrusar því að Jehóva verður með fólki sínu og hjálpar því.

14. Hvernig eru orð Jehóva til Ísraelsmanna hughreystandi fyrir þjóna hans núna?

14 Þessi orð hafa styrkt og hughreyst þjóna Guðs allt fram á þennan dag. Árið 1918 þráðu þeir að vita hvað Jehóva vildi með þá. Þeir þráðu lausn úr andlegum fjötrum sínum. Núna þráum við lausn undan álaginu frá Satan, heiminum og eigin ófullkomleika. En við skiljum að Jehóva veit nákvæmlega hvenær og hvernig hann á að skerast í leikinn til blessunar fyrir þjóna sína. Við höldum í styrka hönd hans eins og lítil börn og treystum að hann hjálpi okkur að þrauka. (Sálmur 63:8, 9) Jehóva metur þá mikils sem þjóna honum. Hann styður okkur núna alveg eins og hann studdi fólk sitt á erfiðleikatímanum 1918-19 og eins og hann studdi trúfasta Ísraelsmenn forðum daga.

15, 16. (a) Hvað verður um óvini Ísraels og hvað er líkt með Ísrael og maðki í moldinni? (b) Hvaða árás er yfirvofandi sem gerir orð Jehóva sérstaklega uppörvandi nú á tímum?

15 Jehóva heldur áfram og segir fyrir munn Jesaja: „Sjá, allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast. Þó að þú leitir að þrætudólgum þínum, skalt þú ekki finna þá. Þeir sem á þig herja, skulu hverfa og að engu verða. Því að ég, [Jehóva], Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: ‚Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!‘ Óttast þú eigi, maðkurinn þinn Jakob, þú fámenni hópur Ísrael! Ég hjálpa þér, segir [Jehóva], og frelsari þinn er Hinn heilagi í Ísrael.“ — Jesaja 41:11-14.

16 Óvinir Ísraels fá ekki staðist. Fjandmenn hans skulu verða til skammar. Þeir sem berjast gegn honum skulu fyrirfarast. Jehóva ætlar að hjálpa Ísraelsmönnum þó að þeir virðist veikir og varnarlausir í útlegðinni eins og maðkur í mold. Þessi vitneskja hefur verið sérlega uppörvandi andspænis þeim mikla fjandskap sem sannkristnir menn hafa mætt á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Og loforð Jehóva er styrkjandi þegar horft er til yfirvofandi árásar Satans sem spádómarnir kalla „Góg í Magóglandi.“ Í grimmdarárás Gógs virðast þjónar Jehóva varnarlausir eins og maðkurinn. Þeir eru „múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið.“ En þeir sem vona á alvaldan Guð Jehóva þurfa ekki að óttast því að hann berst og frelsar þá. — Esekíel 38:2, 11, 14-16, 21-23; 2. Korintubréf 1:3.

Hughreysting handa Ísrael

17, 18. Hvernig lýsir Jesaja þeim krafti sem Ísrael fær, og hvaða uppfyllingu getum við treyst á?

17 Jehóva heldur áfram að hughreysta fólk sitt: „Sjá, ég gjöri þig að nýhvesstum þreskisleða, sem alsettur er göddum. Þú skalt þreskja sundur fjöllin og mylja þau í smátt og gjöra hálsana sem sáðir. Þú skalt sáldra þeim, og vindurinn mun feykja þeim og stormbylurinn tvístra þeim. En sjálfur skalt þú fagna yfir [Jehóva] og miklast af Hinum heilaga í Ísrael.“ — Jesaja 41:15, 16.

18 Óvinir Ísraels eru eins og fjöll en Ísrael fær styrk til að ráðast gegn þeim og sigra þá andlega. Þegar Ísraelsmenn snúa heim úr útlegðinni sigra þeir óvinina sem reyna að hindra að þeir endurreisi musterið og múra Jerúsalem. (Esrabók 6:12; Nehemíabók 6:16) En orð Jehóva uppfyllast með stórbrotnum hætti á „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16) Jesús lofaði smurðum kristnum mönnum: „Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum. Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum.“ (Opinberunarbókin 2:26, 27) Í fyllingu tímans taka bræður Krists, upprisnir til himneskrar dýrðar, þátt í því að eyða óvinum Jehóva Guðs. — 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8; Opinberunarbókin 20:4, 6.

19, 20. Hvernig lýsir Jesaja endurreisn Ísraels og hvernig rætist spádómurinn?

19 Jehóva grípur nú til táknmáls og styrkir loforð sitt um að hjálpa fólki sínu. Jesaja skrifar: „Hinir fátæku og voluðu leita vatns, en finna ekki, tunga þeirra verður þurr af þorsta. Ég, [Jehóva], mun bænheyra þá, ég, Ísraels Guð, mun ekki yfirgefa þá. Ég læt ár spretta upp á gróðurlausum hæðum og vatnslindir í dölunum miðjum. Ég gjöri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum. Ég læt sedrustré, akasíutré, myrtustré og olíutré vaxa í eyðimörkinni, og kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður spretta hver með öðrum á sléttunum, svo að þeir allir sjái og viti, skynji og skilji, að hönd [Jehóva] hefir gjört þetta og Hinn heilagi í Ísrael hefir því til vegar komið.“ — Jesaja 41:17-20.

20 Hinir útlægu Ísraelsmenn búa í höfuðborg auðugs heimsveldis en hún er þeim eins og skrælnuð eyðimörk. Þeim er innanbrjósts eins og Davíð er hann faldi sig fyrir Sál konungi. Árið 537 f.o.t. opnar Jehóva þeim leið svo að þeir geta snúið heim til Júda og endurreist musterið í Jerúsalem og hreina tilbeiðslu. Síðan ætlar hann að blessa þá. Jesaja boðar í síðari spádómi: „[Jehóva] huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð [Jehóva].“ (Jesaja 51:3) Þetta gerist að lokum eftir að Gyðingar snúa aftur til heimalands síns.

21. Hvaða endurreisn átti sér stað er nær dró okkar tíma og hvað gerist í framtíðinni?

21 Svipað átti sér stað er nær dró okkar tíma þegar Kýrus hinn meiri, Kristur Jesús, frelsaði smurða fylgjendur sína úr andlegri ánauð svo að þeir gætu hafist handa við að endurreisa hreina tilbeiðslu. Þessum trúföstu mönnum var gefin frjósöm, andleg paradís, táknrænn Edengarður. (Jesaja 11:6-9; 35:1-7) Þegar Guð eyðir óvinum sínum innan tíðar verður allri jörðinni breytt í bókstaflega paradís líkt og Jesús lofaði illvirkjanum á aftökustaurnum. — Lúkas 23:43.

Áskorun á óvini Ísraels

22. Hvernig skorar Jehóva aftur á þjóðirnar?

22 Jehóva snýr sér nú aftur að deilunni við þjóðirnar og skurðgoð þeirra: „Berið nú fram málefni yðar, segir [Jehóva]. Færið fram varnir yðar, segir konungur Jakobsættar. Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni. Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er! Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir! Gjörið annaðhvort af yður gott eða illt, svo að við fáum reynt með okkur og sjón verði sögu ríkari. Sjá, þér eruð ekkert og verk yðar ekki neitt! Andstyggilegur er sá, sem yður kýs!“ (Jesaja 41:21-24) Eru guðir þjóðanna færir um að spá nákvæmlega og sanna þar með að þeir búi yfir yfirnáttúrlegri þekkingu? Ef þeir gerðu það ættu að sjást einhver merki þess, annaðhvort góð eða slæm. En sannleikurinn er sá að skurðgoðin geta ekkert og eru eins og ekki neitt.

23. Af hverju lætur Jehóva spámenn sína margfordæma skurðgoðadýrkun?

23 Sumum kann að vera spurn af hverju Jehóva skuli hafa látið Jesaja og samspámenn hans eyða svona miklum tíma í að fordæma skurðgoðadýrkun. Mörgum finnst kannski augljóst hversu heimskulegt og tilgangslaust það er að dýrka skurðgoð. En þegar ákveðið falstrúarform hefur náð fótfestu og öðlast viðurkenningu er ekki hlaupið að því að uppræta það úr hugum þeirra sem trúa á það. Margar trúarhugmyndir nútímans eru jafnheimskulegar og sú trú að líflaus líkneski séu raunverulega guðir. En fólk rígheldur í þessa trú þrátt fyrir sannfærandi rök gegn henni. Menn sjá ekki viskuna í því að treysta á Jehóva nema þeir heyri sannleikann endurtekinn æ ofan í æ.

24, 25. Hvernig minnist Jehóva aftur á Kýrus og á hvaða annan spádóm minnir það?

24 Jehóva minnist aftur á Kýrus: „Ég vakti upp mann í norðri, og hann kom. Frá upprás sólar kallaði ég þann, er ákallar nafn mitt. Hann gengur yfir landstjóra sem leir, eins og leirkerasmiður treður deigulmó.“ (Jesaja 41:25) * Jehóva getur framkvæmt hluti, ólíkt guðum þjóðanna. Með því að kalla Kýrus úr austri, „frá upprás sólar,“ sýnir hann að hann getur sagt framtíðina fyrir og mótað hana svo að hún uppfylli spá hans.

25 Þessi orð minna á lýsinguna í spádómi Jóhannesar postula á konungunum sem kallaðir yrðu til verka á okkar dögum. Við lesum í Opinberunarbókinni 16:12 að vegur sé búinn „fyrir konungana, þá er koma úr austri.“ Konungarnir eru engir aðrir en Jehóva Guð og Jesús Kristur. Líkt og Kýrus frelsaði fólk Guðs endur fyrir löngu, eins ætla þessir margfalt máttugri konungar að gereyða óvinum Guðs og vernda fólk hans í þrengingunni miklu og inn í nýjan og réttlátan heim. — Sálmur 2:8, 9; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 7:14-17.

Jehóva er æðstur

26. Hvaða spurningar spyr Jehóva og hvernig er henni svarað?

26 Jehóva lýsir aftur yfir þeim sannleika að hann einn sé hinn sanni Guð. Hann spyr: „Hver hefir kunngjört það frá öndverðu, svo að vér vissum það, eða fyrirfram, svo að vér gætum sagt: ‚Hann hefir rétt fyrir sér‘? Nei, enginn hefir kunngjört það, enginn látið til sín heyra, enginn hefir heyrt yður segja neitt.“ (Jesaja 41:26) Ekkert skurðgoð boðaði komu sigurvegarans er frelsa skyldi þá sem treysta því. Þau eru öll líflaus og mállaus. Þau eru alls engir guðir.

27, 28. Hvaða mikilvægur sannleikur er ítrekaður í lokaversum 41. kaflans og hverjir boða hann einir manna?

27 Jesaja leggur áherslu á mikilvægan sannleika áður en hann fer með þessi hrífandi spádómsorð Jehóva: „Ég var hinn fyrsti, sem sagði við Síon: ‚Sjá, þar kemur það fram!‘ og hinn fyrsti, er sendi Jerúsalem fagnaðarboða. Ég litast um, en þar er enginn, og á meðal þeirra er ekki neinn, er úrskurð veiti, svo að ég geti spurt þá og þeir svarað mér. Sjá, þeir eru allir hégómi og verk þeirra ekki neitt, líkneski þeirra vindur og hjóm.“ — Jesaja 41:27-29.

28 Jehóva er fyrstur. Hann er æðstur. Hann er hinn sanni Guð sem boðar fólki sínu frelsun. Hann er fagnaðarboði. Og engir nema vottar hans boða þjóðunum hve mikill hann er. Jehóva lýsir fyrirlitningu sinni á þeim sem treysta á skurðgoðadýrkun og lýsir skurðgoðin ‚vind og hjóm.‘ Þetta eru sterk rök fyrir því að fylgja hinum sanna Guði dyggilega. Jehóva einn verðskuldar traust okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Jesús Kristur er hinn meiri Kýrus og hann frelsaði „Ísrael Guðs“ úr andlegri ánauð árið 1919. Hann hefur setið í hásæti sem konungur Guðsríkis á himnum síðan 1914. — Galatabréfið 6:16.

^ gr. 24 Heimaland Kýrusar lá austur af Babýlon en þegar hann gerði lokaárásina á borgina kom hann frá Litlu-Asíu í norðri.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Kýrus er útvalinn til að vinna verk Guðs, þótt heiðinn sé.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Þjóðirnar reiða sig á líflaus skurðgoð.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Ísrael ‚mylur fjöllin‘ eins og ‚þreskisleði.‘