Iðrunarbæn
25. kafli
Iðrunarbæn
1, 2. (a) Hver er tilgangurinn með ögun Guðs? (b) Hvaða valkosti hafa Gyðingar eftir að hafa fengið ögun frá Jehóva?
EYÐING Jerúsalem og musterisins árið 607 f.o.t. var ögun frá Jehóva og merki um megna vanþóknun hans. Júdamenn verðskulduðu þessa hörðu refsingu sökum óhlýðni sinnar. En Jehóva ætlaði ekki að útrýma þeim. Páll postuli ýjaði að tilganginum með ögun hans er hann sagði: „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ — Hebreabréfið 12:11.
2 Hvernig ætli Gyðingar taki þessari þungbæru reynslu? Skyldu þeir hata ögun Jehóva eða þiggja hana? (Sálmur 50:16, 17) Ætli þeir iðrist og læknist? (Jesaja 57:18; Esekíel 18:23) Spádómur Jesaja gefur í skyn að sumir fyrrverandi íbúar Júda taki aganum að minnsta kosti vel. Allt frá síðustu versunum í 63. kafla og til loka þess 64. er Júdamönnum lýst sem iðrandi þjóð er ákallar Jehóva af heilu hjarta. Jesaja spámaður ber fram iðrunarbæn fyrir hönd samlanda sinna í útlegð framtíðarinnar og talar þar um ókomna atburði eins og þeir séu að gerast fyrir augum hans.
Brjóstgóður faðir
3. (a) Hvernig er Jehóva upphafinn í spádómlegri bæn Jesaja? (b) Hvernig sést af bæn Daníels að spádómleg bæn Jesaja endurómar tilfinningar iðrandi Gyðinga í Babýlon? (Sjá rammagrein á bls. 362.)
3 Jesaja biður til Jehóva: „Horf þú af himni ofan og lít niður frá hinum heilaga og dýrðarsamlega bústað þínum!“ Spámaðurinn er að tala um hina andlegu himna þar sem Jehóva og ósýnilegar sköpunarverur hans búa. Hann túlkar hugsanir Gyðinga í útlegðinni og heldur áfram: „Hvar er nú vandlæti þitt og máttarverk þín? Þín viðkvæma elska og miskunnsemi við mig hefir dregið sig í hlé!“ (Jesaja 63:15) Jehóva hefur haldið aftur af mætti sínum og haft stjórn á ‚viðkvæmri elsku sinni og miskunn‘ gagnvart fólki sínu. En hann er „faðir“ Gyðingaþjóðarinnar. Abraham og Ísrael (Jakob) voru kynfeður hennar, en væru þeir vaktir til lífs myndu þeir kannski hafna þessum fráhvarfsbörnum. Jehóva er miskunnsamari. (Sálmur 27:10) Jesaja segir í þakklátum tón: „Þú, [Jehóva], ert faðir vor, ‚Frelsari vor frá alda öðli‘ er nafn þitt.“ — Jesaja 63:16.
4, 5. (a) Í hvaða skilningi hefur Jehóva látið fólk sitt villast af vegum sínum? (b) Hvers konar tilbeiðslu vill Jehóva fá?
4 Jesaja heldur áfram í innilegum tón: „Hví lést þú oss, [Jehóva], villast af vegum þínum, hví lést þú hjarta vort forherða sig, svo að það óttaðist þig ekki? Hverf aftur fyrir sakir þjóna þinna, fyrir sakir ættkvísla arfleifðar þinnar!“ (Jesaja 63:17) Jesaja biður Jehóva að beina athygli sinni aftur að þjónum sínum. En í hvaða skilningi hefur Jehóva látið Gyðinga villast af vegum sínum? Er það honum að kenna að þeir hafa forhert hjörtu sín svo að þeir óttast hann ekki? Nei, en hann leyfir það og Gyðingar harma það í örvæntingu sinni að hann skyldi veita þeim þetta frelsi. (2. Mósebók 4:21; Nehemíabók 9:16) Þeir vildu óska þess að Jehóva hefði skorist í leikinn og hindrað þá í því að gera rangt.
5 En Guð kemur auðvitað ekki þannig fram við mennina. Við höfum frjálsan vilja og hann leyfir okkur að ákveða sjálf hvort við hlýðum honum eða ekki. (5. Mósebók 30:15-19) Hann vill að tilbeiðsla okkar sé sprottin af hreinu hjarta og ósviknum kærleika. Þess vegnar leyfir hann Gyðingum að beita frjálsum vilja sínum, jafnvel þó að það þýði að þeir geri uppreisn gegn honum. Það er í þessum skilningi sem hann hefur látið hjarta þeirra forherðast. — 2. Kroníkubók 36:14-21.
6, 7. (a) Hvaða afleiðingar hafði það fyrir Gyðinga að yfirgefa vegi Jehóva? (b) Hvaða vonlaus ósk er látin í ljós, en til hvers geta Gyðingar ekki ætlast?
6 Hver er afleiðingin? Jesaja segir spádómlega: „Um skamma stund fékk fólk þitt hið heilaga fjall þitt til eignar, en nú hafa óvinir vorir fótum troðið helgidóm þinn. Vér erum orðnir sem þeir, er þú um langan aldur hefir ekki drottnað yfir, og eins og þeir, er aldrei hafa nefndir verið eftir nafni þínu.“ (Jesaja 63:18, 19) Fólk Jehóva fékk helgidóm hans til eignar um stund en síðan leyfði hann að honum væri eytt og þjóðin flutt í útlegð. Þá var engu líkara en að enginn sáttmáli hefði verið milli hans og afkomenda Abrahams og að þeir hefðu aldrei verið nefndir eftir nafni hans. Nú eru Gyðingar ánauðugir í Babýlon og hrópa í örvæntingu: „Ó, að þú sundurrifir himininn og færir ofan, svo að fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu — eins og þegar eldur kveikir í þurru limi eða þegar eldur kemur vatni til að vella, — til þess að gjöra óvinum þínum kunnugt nafn þitt, svo að þjóðirnar mættu skjálfa fyrir augliti þínu.“ (Jesaja 64:1) Jehóva er nógu máttugur til að bjarga fólki sínu. Hann gæti vissulega stigið niður og barist fyrir það, sundurrifið stjórnkerfin (himininn) og sundrað heimsveldum (fjöllum). Hann hefði getað kunngert nafn sitt með brennandi kostgæfni í þágu þjóðar sinnar.
7 Jehóva hafði gert þetta forðum daga. Jesaja heldur áfram: „Þú framkvæmdir hræðilega hluti, sem vér gátum eigi vænst eftir. Þú fórst ofan, fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu.“ (Jesaja 64:2) Stórvirki Jehóva vitnuðu um mátt hans og guðdóm, en ótrúir Gyðingar á dögum Jesaja gátu ekki ætlast til þess að hann gerði nokkuð slíkt fyrir þá.
Jehóva einn getur bjargað
8. (a) Hvernig er Jehóva ólíkur falsguðum þjóðanna? (b) Af hverju bjargar Jehóva ekki þjóð sinni fyrst hann getur það? (c) Hvernig vitnar Páll í Jesaja 64:3 og heimfærir? (Sjá rammagrein á bls. 366.)
8 Falsguðir vinna ekki máttarverk til að bjarga dýrkendum sínum. Jesaja skrifar: „Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjöri slíkt fyrir þá, er á hann vona. Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum.“ (Jesaja 64:3, 4a) Jehóva einn ‚umbunar þeim er hans leita.‘ (Hebreabréfið 11:6) Hann verndar þá sem ástunda réttlæti og minnast hans. (Jesaja 30:18) Hafa Gyðingar gert það? Nei, Jesaja segir við Jehóva: „Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, — yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir.“ (Jesaja 64:4b) Þjóð Guðs á sér langa syndasögu og hann hefur enga ástæðu til að halda aftur af reiði sinni og bjarga henni.
9. Hvaða von geta iðrandi Gyðingar borið í brjósti og hvað getum við lært af því?
9 Gyðingar geta ekki breytt því sem búið er en ef þeir iðrast og snúa aftur til hreinnar tilbeiðslu geta þeir vonast eftir fyrirgefningu og blessun eftirleiðis. Jehóva umbunar iðrandi Gyðingum þegar þar að kemur með því að leysa þá úr ánauðinni í Babýlon, en þeir þurfa að vera þolinmóðir. Og hann breytir ekki stundatöflu sinni þótt þeir iðrist. Ef þeir halda vöku sinni og eru móttækilegir fyrir vilja Jehóva er þeim hins vegar lofað frelsun í fyllingu tímans. Kristnir menn nú á tímum eru þolinmóðir og vona á Jehóva. (2. Pétursbréf 3:11, 12) Við förum eftir hvatningu Páls postula sem sagði: „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ — Galatabréfið 6:9.
10. Hvað viðurkennir Jesaja hreinskilnislega í bæn sinni?
10 Spádómleg bæn Jesaja er annað og meira en formleg syndajátning. Hún er einlæg viðurkenning á því að þjóðin geti ekki bjargað sér af sjálfsdáðum. Spámaðurinn segir: „Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur.“ (Jesaja 64:5) Iðrandi Gyðingar eru eflaust hættir fráhvarfsverkum sínum í lok útlegðarinnar. Trúlega hafa þeir snúið sér til Jehóva með dyggðum sínum. En þeir eru ófullkomnir eftir sem áður. Góð verk þeirra eru svo sem lofsverð, en þau geta ekki friðþægt fyrir syndir frekar en óhrein flík. Fyrirgefning Jehóva er óverðskuldað miskunnarverk. Það er ekki hægt að ávinna sér hana. — Rómverjabréfið 3:23, 24.
11. (a) Hvernig er andlegt ástand flestra Gyðinga í útlegðinni og hver kann ástæðan að vera? (b) Nefndu dæmi um sterka trúmenn á útlegðartímanum.
11 Hvað sér Jesaja spámaður er hann horfir fram veginn? „Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum.“ (Jesaja 64:6) Þjóðin er ömurlega á sig komin andlega. Hún hefur ekki ákallað nafn Guðs í bæn. Hún gerir sig að vísu ekki seka um skurðgoðadýrkun lengur, sem er afskaplega gróf synd, en hún virðist samt vera hirðulaus um tilbeiðslu sína og „enginn herðir sig upp til þess að halda fast við“ Jehóva. Samband hennar við skaparann er augljóslega ekki sterkt. Vera má að sumum finnist þeir óverðugir þess að ávarpa Jehóva í bæn. Sumir eru kannski uppteknir af daglegu amstri og hugsa ekkert til hans. Auðvitað eru til sterkir trúmenn meðal hinna útlægu eins og þeir Daníel, Hananja, Mísael, Asarja og Esekíel. (Hebreabréfið 11:33, 34) Undir lok hinnar 70 ára útlegðar eru uppi menn eins og Haggaí, Sakaría, Serúbabel og Jósúa æðstiprestur sem hafa sterka forystu um að ákalla nafn Jehóva. En hin spádómlega bæn Jesaja virðist engu að síður lýsa því hvernig meirihluti útlaganna er á vegi staddur.
„Hlýðni er betri en fórn“
12. Hvernig lýsir Jehóva vilja iðrandi Gyðinga til að breyta um háttalag?
12 Iðrandi Gyðingar eru fúsir til að breyta sér. Jesaja biður til Jehóva fyrir hönd þeirra: „En nú, [Jehóva]! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir!“ (Jesaja 64:7) Hér er viðurkennt enn og aftur að Jehóva sé faðir og lífgjafi. (Jobsbók 10:9) Iðrandi Gyðingum er líkt við þjálan leir. Ef þeir þiggja ögunina getur leirkerasmiðurinn Jehóva mótað þá táknrænt talað í samræmi við staðla sína, en það gerist því aðeins að hann fyrirgefi þeim. Jesaja biður hann því tvisvar að minnast þess að Gyðingar eru fólk hans: „Reiðst eigi, [Jehóva], svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.“ — Jesaja 64:8.
13. Hvernig er ástandið í Ísrael meðan fólk Guðs er í útlegð?
13 Gyðingar þurfa að þola margt fleira en ánauð í heiðnu landi meðan á útlegðinni stendur. Að Jerúsalem og musterið skuli liggja í rúst er smánarlegt fyrir þá og fyrir Guð þeirra. Í iðrunarbæn sinni tíundar Jesaja sumt af því sem smáninni veldur: „Þínar heilögu borgir eru orðnar að eyðimörk. Síon er orðin að eyðimörk, Jerúsalem komin í auðn. Hið heilaga og veglega musteri vort, þar sem feður vorir vegsömuðu þig, er brunnið upp til kaldra kola, og allt það, sem oss var dýrmætt, er orðið að rústum.“ — Jesaja 64:9, 10.
14. (a) Hvernig varaði Jehóva við því ástandi sem nú var orðið? (b) Hvað er mikilvægara en fórnir, þó svo að Jehóva hafi haft yndi af þeim og musterinu?
14 Jehóva veit auðvitað fullvel hvernig ástatt er í ættlandi Gyðinga. Um 420 árum áður en Jerúsalem var eytt varaði hann þjóð sína við því að hann myndi ‚uppræta hana úr landinu‘ og rústa hið fagra musteri ef hún sneri baki við boðorðum hans og þjónaði öðrum guðum. (1. Konungabók 9:6-9) Jehóva hafði vissulega yndi af landinu, sem hann hafði gefið fólki sínu, hinu stórfenglega musteri sem reist var honum til heiðurs og af fórnunum sem honum voru færðar. En hollusta og hlýðni eru mikilvægari en efnislegir hlutir, meira að segja fórnir. Spámaðurinn Samúel sagði Sál konungi: „Hefir . . . [Jehóva] eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“ — 1. Samúelsbók 15:22.
15. (a) Hvað biður Jesaja um í bæn sinni og hvernig er því svarað? (b) Hver var aðdragandi þess að Jehóva hafnaði Ísrael endanlega sem þjóð sinni?
15 En getur Guð Ísraels horft upp á ógæfu iðrandi þjóðar sinnar án þess að hafa meðaumkun með henni? Jesaja lýkur hinni spádómlegu bæn með því að spyrja um það. Hann biður fyrir hönd hinna útlægu Gyðinga: „Hvort fær þú, [Jehóva], leitt slíkt hjá þér? Getur þú þagað og þjáð oss svo stórlega?“ (Jesaja 64:11) Um síðir fyrirgefur Jehóva þjóð sinni og árið 537 f.o.t. leiðir hann hana aftur heim í ættland hennar svo að hún geti tilbeðið hann þar í hreinleika að nýju. (Jóel 2:13) En öldum síðar voru Jerúsalem og musterið lögð í rúst á nýjan leik og Guð hafnaði sáttmálaþjóð sinni endanlega vegna þess að hún hafði fjarlægst boðorð hans og hafnað Messíasi. (Jóhannes 1:11; 3:19, 20) Þá valdi hann nýja, andlega þjóð í staðinn en hún er nefnd „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16; 1. Pétursbréf 2:9.
Jehóva „heyrir bænir“
16. Hvað kennir Biblían um fyrirgefningu Jehóva?
16 Afdrif Ísraels eru lærdómsrík. Við sjáum að Jehóva er „góður og fús til að fyrirgefa.“ (Sálmur 86:5) Við erum ófullkomin svo að hjálpræði okkar er háð miskunn hans og fyrirgefningu. Við getum aldrei áunnið okkur það. En Jehóva fyrirgefur ekki hverjum sem er heldur þeim einum sem iðrast synda sinna og tekur stefnubreytingu. — Postulasagan 3:19, 20a.
17, 18. (a) Hvernig vitum við að Jehóva er mjög annt um hugsanir okkar og tilfinningar? (b) Hvers vegna er Jehóva langlyndur við synduga menn?
17 Við lærum það líka að Jehóva er mjög annt um hugsanir okkar og tilfinningar og þykir vænt um að við tjáum honum þær í bæn. Hann „heyrir bænir.“ (Sálmur 65:3, 4) Pétur postuli fullvissar okkur um að ‚augu Jehóva séu yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigist að bænum þeirra.‘ (1. Pétursbréf 3:12) Og við komumst að raun um að iðrunarbæn verður að fela í sér auðmjúka syndajátningu. (Orðskviðirnir 28:13) En við getum ekki gengið að miskunn Guðs sem gefnum hlut því að Biblían varar kristna menn við því að þeir gætu ‚látið náð Guðs, sem þeir hefðu þegið, verða til einskis.‘ — 2. Korintubréf 6:1.
18 Að síðustu komumst við að raun um hvaða markmið Guð hefur með því að vera langlyndur gagnvart syndugu fólki sínu. Pétur postuli bendir á að Guð ‚vilji ekki að neinir glatist heldur að allir komist til iðrunar.‘ (2. Pétursbréf 3:9) En þeim sem misnota langlyndi Guðs sí og æ verður refsað um síðir. Við lesum: „[Jehóva] mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans: Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika, en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu.“ — Rómverjabréfið 2:6-8.
19. Hvaða óbreytanlega eiginleika sýnir Jehóva alltaf?
19 Jehóva kom þannig fram við Ísraelsmenn forðum daga. Og þar eð hann breytist ekki stjórnast samband okkar við hann af sömu grundvallarreglu. Hann lætur menn taka út verðskuldaða refsingu en er engu að síður „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ — 2. Mósebók 34:6, 7.
[Spurningar]
[Rammi/myndir á blaðsíðu 362]
Iðrunarbæn Daníels
Spámaðurinn Daníel bjó í Babýlon öll 70 árin sem Gyðingar voru í útlegð. Einhvern tíma á 68. útlegðarárinu réð hann það af spádómi Jeremía að útlegðardvöl Ísraels væri senn á enda. (Jeremía 25:11; 29:10; Daníel 9:1, 2) Hann leitaði þá til Jehóva í bæn — iðrunarbæn fyrir hönd allrar Gyðingaþjóðarinnar. Hann segir svo frá: „Ég sneri þá ásjónu minni til [Jehóva] Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku. Ég bað til [Jehóva], Guðs míns, gjörði játningu.“ — Daníel 9:3, 4.
Daníel bar bæn sína fram um tvö hundruð árum eftir að Jesaja skráði hina spádómlegu bæn í 63. og 64. kafla bókar sinnar. Eflaust hafa margir einlægir Gyðingar beðið til Jehóva á hinum erfiðu útlegðarárum. En Biblían heldur bæn Daníels á loft og hún hefur eflaust endurómað tilfinningar margra trúrra Gyðinga. Bæn hans sýnir að spádómleg bæn Jesaja túlkar viðhorf trúfastra Gyðinga í Babýlon.
Taktu eftir nokkrum hliðstæðum með bæn Daníels og bæn Jesaja:
Jesaja 64:9, 10 Daníel 9:16-18
[Rammi á blaðsíðu 366]
„Það sem auga sá ekki“
Páll postuli vitnaði í Jesajabók í bréfi til Korintumanna og skrifaði: „Það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“ (1. Korintubréf 2:9) * Hvorki Páll né Jesaja eru að tala um himneska arfleifð eða jarðneska paradís framtíðarinnar sem Jehóva hefur fyrirbúið fólki sínu. Páll heimfærir orð Jesaja upp á blessun sem kristnir menn nutu þá þegar á fyrstu öld, svo sem skilning á hinum djúpu sannindum Guðs og á þá andlegu upplýsingu sem hann veitti þeim.
Við skiljum ekki djúp andleg sannindi fyrr en Jehóva telur tímabært að opinbera þau — og þá því aðeins að við séum andlegir menn og eigum náið samband við hann. Páll er að tala um þá sem sýna litla eða enga andlega viðleitni. Auga þeirra sér ekki andleg sannindi og eyra þeirra hvorki heyrir þau né skilur. Þekking á því sem Guð hefur fyrirbúið þeim er elska hann nær ekki inn í hjörtu slíkra manna. En hann hefur með anda sínum opinberað þessi sannindi þeim sem eru vígðir honum eins og Páll var. — 1. Korintubréf 2:1-16.
[Neðanmáls]
^ gr. 56 Orðin, sem Páll vitnar í, standa hvergi í Hebresku ritningunum nákvæmlega eins og hann orðar þau. Hann virðist draga saman hugsunina í Jesaja 52:15; 64:3 og 65:17.
[Mynd á blaðsíðu 367]
Fólk Guðs fékk Jerúsalem og musterið til eignar „um skamma stund.“