Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva blessar hreina tilbeiðslu

Jehóva blessar hreina tilbeiðslu

27. kafli

Jehóva blessar hreina tilbeiðslu

Jesaja 66:1-14

1. Hvaða þemum er haldið á loft í síðasta kafla Jesajabókar og hvaða spurningum er svarað?

 HELSTU þema Jesajabókar ná áhrifamiklu hámarki í síðasta kaflanum og mörgum mikilvægum spurningum er svarað. Meðal annars er athyglinni beint að því hve hár og mikill Jehóva er, að hann hati hræsni, sé ákveðinn í að refsa hinum illu og elski og annist trúfasta menn. Því er líka svarað hvað skilur milli sannrar tilbeiðslu og falskrar. Hvernig getum við verið örugg um að hræsnarar fái makleg málagjöld, þeir sem þykjast heilagir en kúga fólk Guðs? Og hvernig blessar Jehóva þá sem eru honum trúir?

Lykill að hreinni tilbeiðslu

2. Hvað segir Jehóva um hátign sína og hvað á hann ekki við?

2 Spádómurinn byrjar á því að benda á hátign Jehóva: „Svo segir [Jehóva]: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn?“ (Jesaja 66:1) Sumir álíta að spámaðurinn sé að letja Gyðinga þess að endurbyggja musteri Jehóva er þeir snúa heim til ættjarðar sinnar. En svo er ekki því að Jehóva fyrirskipar sjálfur að musterið skuli endurreist. (Esrabók 1:1-6; Jesaja 60:13; Haggaí 1:7, 8) Hvað er þá átt við í þessu versi?

3. Af hverju er viðeigandi að kalla jörðina „fótskör“ Jehóva?

3 Í fyrsta lagi má nefna að það er ekki í niðrunarskyni sem jörðin er kölluð „fótskör“ Jehóva. Hún er eina himintunglið af milljörðum sem fær þetta sérstaka heiti. Jörðin mun standa að eilífu og verður alltaf einstæð fyrir þá sök að það var þar sem eingetinn sonur Jehóva greiddi lausnargjaldið og það er þar sem Jehóva mun láta messíasarríkið upphefja drottinvald sitt. Það er því vel við hæfi að jörðin skuli vera kölluð fótskör hans því að fótskör konungs er eins konar skemill sem hann stígur á er hann sest í hásætið og hvílir svo fæturna á.

4. (a) Af hverju getur engin jarðnesk bygging verið bústaður Jehóva Guðs? (b) Hvað er átt við með orðunum „allt þetta“ og hvað hljótum við að álykta um tilbeiðsluna á Jehóva?

4 Konungur býr auðvitað ekki á fótskörinni og Jehóva býr ekki heldur á jörðinni. Óravíddir hins efnislega himins rúma hann ekki einu sinni, hvað þá jörðin! Þaðan af síður getur Jehóva búið bókstaflega í húsi á jörðinni. (1. Konungabók 8:27) Hásæti hans og bústaður er á andlegu tilverusviði og það er í þeim skilningi sem orðið „himinninn“ er notað í Jesaja 66:1. Versið á eftir hnykkir á því: „Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið — segir [Jehóva].“ (Jesaja 66:2a) Ímyndaðu þér Jehóva benda á „allt þetta“ — allt sem er á himni og jörð — með áherslumiklum handatilburðum. (Jesaja 40:26; Opinberunarbókin 10:6) Skapari alheimsins verðskuldar meira en einhverja byggingu sem er helguð honum. Hann verðskuldar tilbeiðslu sem er meira en ytra form og yfirskin.

5. Hvernig sýnum við að við erum ‚þjáð og höfum sundurmarinn anda‘?

5 Hvers konar tilbeiðslu verðskuldar alheimsdrottinn? Hann svarar því sjálfur: „Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.“ (Jesaja 66:2b) Sá sem tilbiður Guð þarf að hafa rétt hjartalag til að tilbeiðslan sé hrein. (Opinberunarbókin 4:11) Hann þarf að ‚vera þjáður og hafa sundurmarinn anda.‘ Vill Jehóva þá að við séum vansæl? Nei, hann er ‚sæll Guð‘ og vill að dýrkendur sínir séu glaðir. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Filippíbréfið 4:4) En öll syndgum við oft og við megum ekki gera lítið úr því. Það ætti að ‚þjá‘ okkur og við ættum að hryggjast yfir því að ná ekki að uppfylla réttlátar kröfur Jehóva. (Sálmur 51:19) Við þurfum að sýna „sundurmarinn anda“ með því að iðrast, berjast gegn syndugum tilhneigingum og biðja Jehóva fyrirgefningar. — Lúkas 11:4; 1. Jóhannesarbréf 1:8-10.

6. Í hvaða skilningi eiga sannir guðsdýrkendur að ‚skjálfa fyrir orði Guðs‘?

6 Og Jehóva lítur til þeirra sem ‚skjálfa fyrir orði hans.‘ Vill hann þá að við skjálfum af ótta hvenær sem við lesum í Biblíunni? Nei, en hann vill að við berum lotningu fyrir því sem hann segir. Við leitum ráðlegginga hans í fullri einlægni og notum þær til leiðsagnar á öllum sviðum lífsins. (Sálmur 119:105) Við ‚skjálfum‘ líka í þeim skilningi að tilhugsunin um að óhlýðnast Guði, menga sannleika hans með mannakenningum eða taka hann ekki alvarlega skelfir okkur. Auðmýkt er forsenda hreinnar tilbeiðslu en því miður fágæt í heimi nútímans.

Jehóva hatar trúhræsni

7, 8. Hvernig lítur Jehóva á tilbeiðslu trúhræsinna manna?

7 Jesaja virðir samlanda sína fyrir sér, meðvita um að fáir hafa það eðlisfar sem Jehóva leitar að í fari dýrkenda sinna. Þess vegna verðskuldar fráhvarfsborgin Jerúsalem þann dóm sem vofir yfir henni. Sjáðu hvernig Jehóva lýsir skoðun sinni á þeirri tilbeiðslu sem fram fer innan borgar: „Sá sem slátrar uxa, er ekki mætari en manndrápari, sá sem fórnar sauð, er ekki mætari en sá sem hengir hund, sá sem færir fórnargjöf, ekki mætari en sá sem ber fram svínablóð, sá sem brennir reykelsi, ekki mætari en sá sem blessar skurðgoð. Eins og þeir hafa valið sína vegu og eins og sál þeirra hefir mætur á hinum viðurstyggilegu goðum þeirra.“ — Jesaja 66:3.

8 Þessi lýsing minnir á orð Jehóva í fyrsta kafla Jesajabókar. Þar segir hann þrjóskri þjóð sinni að hann hafi enga þóknun á tilbeiðslu hennar, enda sé hún ekki nema formið eitt, og hann segist vera þjóðinni reiður fyrir hræsni hennar. (Jesaja 1:11-17) Hann líkir fórnum hennar við verstu glæpi. Að fórna dýrum uxa friðaði hann ekki frekar en manndráp! Öðrum fórnum er líkt við það að fórna hundi eða svíni sem voru óhrein dýr samkvæmt Móselögunum og allsendis óhæf til fórnar. (3. Mósebók 11:7, 27) Ætlar Jehóva að láta þeim órefsað fyrir trúhræsnina?

9. Hvernig hafa flestir Gyðingar brugðist við áminningum Jehóva fyrir munn Jesaja og hvaða afleiðingar eru óhjákvæmilegar?

9 Jehóva heldur áfram: „Eins mun ég láta mér vel líka að hrjá þá og láta yfir þá koma það, er þeir hræðast. Því að enginn gegndi, þegar ég kallaði, og þeir heyrðu ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðu mætur á því, sem mér mislíkaði.“ (Jesaja 66:4) Jesaja getur eflaust sagt þessi orð af innilegri sannfæringu. Svo árum skiptir hefur hann verið talsmaður Jehóva og ‚kallað‘ og ‚talað‘ til fólks hans. Hann veit mætavel að fáir hafa hlustað. Menn hafa ástundað það sem illt er svo að það er óhjákvæmilegt að þeir hljóti makleg málagjöld. Jehóva velur viðeigandi refsingu handa fráhvarfsþjóð sinni þannig að skelfilegir atburðir eru í vændum.

10. Hvað segja samskipti Jehóva við Júdamenn um afstöðu hans til kristna heimsins?

10 Hinn kristni heimur nútímans hefur einnig stundað það sem Jehóva mislíkar. Skurðgoðadýrkun dafnar innan kirknanna, óbiblíulegar heimspekihugmyndir og erfikenningar eru útlistaðar úr prédikunarstólnum og sóknin í pólitísk völd hefur dregið kirkjufélögin æ meira inn í andlega siðlaust samband við þjóðir heims. (Markús 7:13; Opinberunarbókin 18:4, 5, 9) Kristni heimurinn fær makleg málagjöld líkt og Jerúsalem forðum daga — ‚hræðileg‘ en óhjákvæmileg. Meðferð hans á fólki Guðs er ein ástæðan fyrir því að hann kemst ekki hjá refsingu.

11. (a) Hvað þyngir synd fráhvarfsmannanna á dögum Jesaja? (b) Í hvaða skilningi reka samtíðarmenn Jesaja trúfasta menn burt ‚fyrir sakir nafns Guðs‘?

11 Jesaja heldur áfram: „Heyrið orð [Jehóva], þér sem skjálfið fyrir orði hans! Bræður yðar, er hata yður og reka yður burt frá sér fyrir sakir nafns míns, þeir segja: ‚Gjöri [Jehóva] sig dýrlegan, svo að vér megum sjá gleði yðar!‘ En þeir skulu til skammar verða.“ (Jesaja 66:5) „Bræður“ Jesaja eða samlandar hafa þá skyldu að vera fulltrúar Jehóva Guðs og lúta drottinvaldi hans. Það er háalvarleg synd að bregðast þessu hlutverki. En syndin er þyngri fyrir þá sök að þessir fráhvarfsmenn hata trúa og auðmjúka menn eins og Jesaja fyrir að vera sannir fulltrúar Jehóva Guðs, og reka þá burt ‚fyrir sakir nafns hans.‘ En þessir falsþjónar þykjast svo sem vera góðir fulltrúar Guðs, og taka sér í munn trúrækileg orð eins og: ‚Gjöri Jehóva sig dýrlegan.‘ *

12. Nefndu dæmi um ofsóknir trúhræsinna manna á hendur dyggum þjónum Jehóva.

12 Hatur falstrúarmanna á sönnum guðsdýrkendum er engin nýlunda heldur uppfylling spádómsins í 1. Mósebók 3:15 þar sem spáð er langstæðum fjandskap milli sæðis Satans og sæðis konu Guðs. Jesús sagði smurðum fylgjendum sínum á fyrstu öld að þeir myndu líka verða fyrir barðinu á samlöndum sínum. Þeir yrðu gerðir samkundurækir, yrðu ofsóttir og jafnvel líflátnir. (Jóhannes 16:2) Og hvað um okkar tíma? Fólk Guðs sá fram á sams konar ofsóknir í upphafi ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Árið 1914 vitnaði Varðturninn í Jesaja 66:5 og sagði: „Nálega allar ofsóknir á hendur fólki Guðs hafa komið frá mönnum sem kölluðu sig kristna.“ Í greininni stóð enn fremur: „Við vitum ekki nema þeir gerist öfgafengnir á okkar dögum — drepi félagslega, kirkjulega og kannski einnig bókstaflega.“ Varðturninn reyndist sannspár því að klerkar beittu sér fyrir geysihörðum ofsóknum meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst, skömmu eftir að þessi orð voru birt. En kristni heimurinn mátti þola skömm alveg eins og spáð var. Hvernig gerðist það?

Skyndileg og óvænt endurreisn

13. Hvaða ‚gnýr heyrðist frá borginni‘ í fyrri uppfyllingunni?

13 Jesaja spáir: „Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu! Heyr, [Jehóva] geldur óvinum sínum fyrir tilverknað þeirra!“ (Jesaja 66:6) Jerúsalem, þar sem musteri Jehóva stóð, var ‚borgin‘ í fyrri uppfyllingu þessa spádóms. ‚Gnýrinn‘ stafar af stríðsátökunum sem urðu þegar hersveitir Babýlonar réðust inn í hana árið 607 f.o.t. En hvað um nútímauppfyllinguna?

14. (a) Hvað boðaði Malakí varðandi komu Jehóva til musterisins? (b) Hvað gerðist, að sögn Esekíels, þegar Jehóva kom til musterisins? (c) Hvenær rannsökuðu Jehóva og Jesús hið andlega musteri og hvaða áhrif hafði það á þá sem sögðust fulltrúar hreinnar tilbeiðslu?

14 Orð Jesaja koma heim og saman við tvo aðra spádóma, annan í Esekíel 43:4, 6-9 og hinn í Malakí 3:1-5. Esekíel og Malakí boða báðir að Jehóva Guð vitji musteris síns. Samkvæmt spádómi Malakís kemur Jehóva til að rannsaka tilbeiðsluhús sitt, hreinsa það og hafna þeim sem gefa ranga mynd af honum. Í sýn Esekíels er honum lýst svo að hann gangi inn í musterið og krefjist þess að hver einasti snefill af siðleysi og skurðgoðadýrkun sé fjarlægður. * Mikilvæg, andleg framvinda átti sér stað árið 1918 í sambandi við tilbeiðsluna á Jehóva, en þá uppfylltust þessir spádómar í nútímasögunni. Greinilegt er að Jehóva og Jesús rannsökuðu alla sem sögðust vera fulltrúar hreinnar tilbeiðslu og rannsóknin leiddi til þess að kristna heiminum var endanlega hafnað, enda gerspilltur. Hún hafði í för með sér skammvinnan hreinsunartíma fyrir smurða fylgjendur Krists og svo skjóta andlega endurreisn árið 1919. — 1. Pétursbréf 4:17.

15. Hvaða fæðing er boðuð og hvernig rætist það árið 537 f.o.t.?

15 Þessari endurreisn er lýst með viðeigandi hætti í framhaldinu: „Hún fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina. Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu? Því að óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín.“ (Jesaja 66:7, 8) Þessi orð uppfyllast fyrst með heillandi hætti á hinum útlægu Gyðingum í Babýlon. Síon eða Jerúsalem er aftur líkt við konu sem er að fæða, en fæðingin er óvenjuleg. Hún er svo skyndileg og kemur svo óvænt að fæðingarhríðirnar ná ekki einu sinni að byrja. En þetta er viðeigandi samlíking. Fólk Guðs endurfæðist sem þjóð árið 537 f.o.t. en það gerist svo skyndilega og óvænt að það er einna líkast kraftaverki. Aðeins fáeinir mánuðir líða frá því að Kýrus leysir Gyðinga úr ánauðinni uns trúfastar leifar eru komnar heim í ættland sitt! Þetta er harla ólíkt þeim atburðum sem voru undanfari þess að Ísraelsþjóðin fæddist á sínum tíma. Árið 537 f.o.t. þarf ekki að falast eftir frelsi hjá tregum einvaldi, flýja undan óvinaher eða dvelja í eyðimörk í 40 ár.

16. Hvað táknar Síon í nútímauppfyllingu Jesaja 66:7, 8 og hvernig hafa börn hennar endurfæðst?

16 Í nútímauppfyllingunni táknar Síon himneska ‚konu‘ Jehóva, andaveruskipulag hans á himnum. Þessi ‚kona‘ fagnaði fæðingu smurðra barna sinna á jörð árið 1919. Þá urðu þau skipuleg heild eða „þjóð.“ Endurfæðingin var skyndileg og óvænt. * Sem hópur höfðu hinir smurðu verið í dauðadái sökum athafnaleysis, en það breyttist á fáeinum mánuðum og þeir urðu mjög virkir og athafnasamir í ‚landi‘ sínu sem er hinn andlegi starfsvettvangur þeirra. (Opinberunarbókin 11:8-12) Haustið 1919 tilkynntu þeir að nýtt tímarit hæfi göngu sína ásamt Varðturninum. Það var kallað The Golden Age (Gullöldin,Vaknið!) og var glöggt merki þess að fólk Guðs hefði fengið nýjan kraft og hafið skipulagða starfsemi að nýju.

17. Hvernig fullvissar Jehóva fólk sitt um að ekkert geti hindrað að ásetningur hans með hinn andlega Ísrael nái fram að ganga?

17 Ekkert afl í alheiminum gat komið í veg fyrir þessa andlegu fæðingu. Það kemur mjög skýrt fram í versinu á eftir: „Skyldi ég láta barnið komast í burðarliðinn og ekki láta það fæðast? — segir [Jehóva]. Eða skyldi ég, sem læt barnið fæðast, loka móðurkviðnum? — segir Guð þinn.“ (Jesaja 66:9) Fæðing er óumflýjanleg eftir að hún er komin af stað, þannig að endurfæðing hins andlega Ísraels varð ekki stöðvuð eftir að hún var hafin. Vissulega var við andstöðu að etja og eflaust má búast við meiri andstöðu í framtíðinni. Enginn getur stöðvað það sem Jehóva er byrjaður á nema hann sjálfur, og það gerir hann aldrei. En hvernig annast hann hið endurlífgaða fólk sitt?

Ást og umhyggja Jehóva

18, 19. (a) Hvaða hjartnæmri líkingu bregður Jehóva upp og hvernig á hún við útlæga þjóð hans? (b) Hvernig hefur verið séð fyrir hinum smurðu leifum á okkar tímum?

18 Næstu fjögur vers draga upp hjartnæma mynd af ást og umhyggju Jehóva. Fyrst segir Jesaja: „Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana! Kætist með henni, allir þér sem nú hryggist yfir henni, svo að þér megið sjúga og saddir verða við hugsvalandi brjóst hennar, svo að þér megið teyga og gæða yður við dýrðargnótt hennar.“ (Jesaja 66:10, 11) Jehóva tekur hér líkingu af konu með ungbarn á brjósti. Barnið grætur þegar það finnur til svengdar en hljóðnar um leið og móðirin tekur það í faðm sér og ber það upp að brjóstinu til að seðja hungrið. Hryggð trúfastra Gyðinga í Babýlon breytist líka á augabragði í sælu og gleði þegar lausnar- og heimfarartíminn rennur upp. Jerúsalem endurheimtir fyrri ljóma er hún verður endurbyggð og dýrð borgarinnar umfaðmar trúfasta íbúa hennar. Þeir nærast andlega á nýjan leik við fræðslu prestastéttarinnar. — Esekíel 44:15, 23.

19 Hinn andlegi Ísrael hlaut sömuleiðis ríkulega næringu eftir endurreisn sína árið 1919 og síðan hefur andleg fæða streymt jafnt og þétt frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni.‘ (Matteus 24:45-47) Þetta hefur verið tími mikillar hughreystingar og gleði hjá hinum smurðu leifum. En meira var í vændum.

20. Hvernig hefur ‚bakkafullur lækur‘ streymt til Jerúsalem, bæði fyrr og nú?

20 Spádómurinn heldur áfram: „Svo segir [Jehóva]: Sjá, ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti, og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk. Þér skuluð liggja á brjóstum hennar og skuluð bornir verða á mjöðminni og yður skal hossað verða á hnjánum.“ (Jesaja 66:12) Hér er myndinni af móður með barn á brjósti fléttað saman við mynd af „fljóti“ og „bakkafullum læk“ þar sem blessunin streymir fram. Jehóva veitir Jerúsalem velsæld og lætur ‚auðæfi þjóðanna‘ streyma til hennar. Það merkir að menn af öðrum þjóðum flykkjast þangað. (Haggaí 2:7) Forðum daga rættist spádómurinn þannig að fólk af ýmsu þjóðerni gekk til liðs við Ísrael og tók gyðingatrú. En hann hefur ræst í mun stórfenglegri mæli á okkar dögum því að „mikill múgur . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ — já, mikill straumur manna — hefur tengst leifum andlegra Gyðinga. — Opinberunarbókin 7:9; Sakaría 8:23.

21. Hvers konar huggun er boðuð með fallegri myndlíkingu?

21 Móðurástin er enn til umræðu í Jesaja 66:12 — að bera börnin á mjöðminni og hossa þeim á hnjánum. Svipuð hugsun kemur fram í næsta versi en þar er breytt um sjónarhorn. „Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður. Í Jerúsalem skuluð þér huggaðir verða.“ (Jesaja 66:13) Samkvæmt frummálinu kemur fram að barnið er nú uppvaxinn sonur, en móðirin lætur sér enn sem fyrr annt um að hugga hann á hryggðarstund.

22. Hvernig lýsir Jehóva blíðunni og styrknum í kærleika sínum?

22 Jehóva lýsir blíðunni og styrknum í kærleika sínum með einkar hlýlegum hætti. Sterkasta móðurást er eins og dauft endurkast hins djúpa kærleika hans til trúrra þjóna sinna. (Jesaja 49:15) Allir kristnir menn þurfa að endurspegla þennan eiginleika föður síns á himnum, líkt og Páll postuli sem er góð fyrirmynd öldunga í kristna söfnuðinum. (1. Þessaloníkubréf 2:7) Jesús sagði að bróðurástin yrði skýrasta auðkenni fylgjenda sinna. — Jóhannes 13:34, 35.

23. Lýstu hamingju hinnar heimkomnu þjóðar Jehóva.

23 Jehóva sýnir kærleika sinn í verki og heldur áfram: „Þér munuð sjá það, og hjarta yðar mun fagna og bein yðar blómgast sem grængresi. Hönd [Jehóva] mun kunn verða á þjónum hans, og hann mun láta óvini sína kenna á reiði sinni.“ (Jesaja 66:14) Hebreskumálfræðingur segir að orðin: „Þér munuð sjá það,“ gefi í skyn að „gleðin blasi við augum“ hinna heimkomnu útlaga hvert sem litið er. Þeir munu fagna og hrífast meir en orð fá lýst yfir því að vera komnir heim aftur til ættjarðarinnar sem er þeim svo kær. Þeim finnst þeir hafa yngst upp, rétt eins og beinin séu að styrkjast á ný sem grængresið að vori. Og allir vita að það er ‚hönd Jehóva‘ en ekki mannleg viðleitni sem hefur komið þessari blessun til leiðar.

24. (a) Að hvaða niðurstöðu kemstu eftir að hafa hugleitt þróun mála hjá fólki Jehóva nú á tímum? (b) Í hverju ættum við að vera staðráðin?

24 Sérðu hönd Jehóva að verki meðal fólks hans nú á dögum? Mannlegur máttur hefði ekki getað endurreist hreina tilbeiðslu. Mannlegur máttur hefði ekki getað látið fólk af öllum þjóðum streyma í milljónatali inn í andlegt land hinna trúföstu leifa. Enginn getur gert þetta nema Jehóva Guð. Ást hans, sem birtist með þessum hætti, gleður okkur ákaflega. Göngum aldrei að henni sem gefnum hlut. Höldum áfram að ‚skjálfa fyrir orði hans.‘ Verum staðráðin í því að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar og njóta þess að þjóna Jehóva. 

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Algengt er innan kristna heimsins að menn vilji ekki nota einkanafn Jehóva og það er jafnvel fellt niður í mörgum biblíuþýðingum. Sumir skopast að því að fólk Guðs skuli nota nafn hans. Margir þeirra nota hins vegar trúarleg orð eins og „hallelúja“ í tilbeiðsluskyni, en það merkir „lofið Jah.“

^ gr. 14 ‚Lík konunganna,‘ sem nefnd eru í Esekíel 43:7, 9, eru skurðgoð. Hinir uppreisnargjörnu leiðtogar og almenningur í Jerúsalem höfðu saurgað musteri Guðs með skurðgoðum og í reynd gert þau að konungum.

^ gr. 16 Fæðingin, sem hér er spáð, er ekki sú sama og lýst er í Opinberunarbókinni 12:1, 2, 5. Þar segir frá ‚syni, sveinbarni,‘ sem táknar messíasarríkið en það tók til starfa árið 1914. ‚Konan‘ er hins vegar sú sama í báðum spádómunum.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 395]

„Hönd mín hefir gjört allt þetta.“

[Mynd á blaðsíðu 402]

Jehóva veitir Síon ‚auðæfi þjóðanna.‘