Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva kennir okkur það sem er gagnlegt

Jehóva kennir okkur það sem er gagnlegt

9. kafli

Jehóva kennir okkur það sem er gagnlegt

Jesaja 48:1-22

1. Hvernig bregðast vitrir menn við orðum Jehóva?

 VITRIR menn hlusta með djúpri virðingu þegar Jehóva talar og fara eftir því sem hann segir. Allt sem hann segir er okkur til góðs, enda er honum mjög annt um velferð okkar. Við tökum til dæmis eftir því hve hlýlega hann ávarpaði sáttmálaþjóð sína forðum daga: „Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum,“ sagði hann. (Jesaja 48:18) Það sem Guð kennir hefur sannað gildi sitt og það ætti að vera okkur hvöt til að hlýða á hann og fylgja leiðsögn hans. Uppfylltir spádómar taka af öll tvímæli um að hann sé ákveðinn í að standa við loforð sín.

2. Fyrir hverja er 48. kafli Jesajabókar skrifaður en hverjir geta einnig haft gagn af honum?

2 Fertugasti og áttundi kafli Jesajabókar virðist vera skrifaður fyrir Gyðinga sem áttu eftir að fara í útlegð til Babýlonar. Og hann inniheldur líka boðskap sem kristnir menn nú á tímum mega ekki láta fram hjá sér fara. Fall Babýlonar er boðað í 47. kafla Jesajabókar en nú lýsir Jehóva því sem hann hefur í hyggju með Gyðingana í útlegðinni. Það hryggir hann að horfa upp á hræsni útvalinnar þjóðar sinnar og þrjóskulega vantrú hennar á loforð hans. En hann vill fræða hana henni til góðs. Hann sér fyrir hreinsunartíma sem eru undanfari þess að trúfastar leifar þjóðarinnar snúi aftur heim til ættjarðar sinnar.

3. Hvað var athugavert við tilbeiðslu Júdamanna?

3 Þjóð Guðs er orðin býsna fjarlæg hreinni tilbeiðslu. Inngangsorð Jesaja eru á alvarlegum nótum: „Heyrið þetta, þér Jakobs niðjar, þér sem nefndir eruð eftir Ísrael og runnir eruð úr Júda lindum, þér sem sverjið við nafn [Jehóva] og tignið Ísraels Guð, þótt eigi sé í sannleika og réttlæti, því að þeir kenna sig við hina helgu borg og leita trausts hjá Ísraels Guði: Nafn hans er [Jehóva] allsherjar.“ (Jesaja 48:1, 2) Hvílík hræsni! Það er greinilega aðeins til málamynda sem Gyðingar ‚sverja við nafn Jehóva.‘ (Sefanía 1:5) Fyrir útlegðina í Babýlon tilbáðu þeir Jehóva í ‚hinni helgu borg,‘ Jerúsalem. En þeir voru ekki einlægir. Í hjörtum sér voru þeir fjarlægir Guði og tilbáðu hann ekki „í sannleika og réttlæti.“ Þeir höfðu ekki trú ættfeðranna. — Malakí 3:7.

4. Hvers konar tilbeiðsla er Jehóva þóknanleg?

4 Orð Jehóva minna okkur á það að tilbeiðslan má ekki vera til málamynda heldur þarf hún að vera hugheil. Málamyndaþjónusta, kannski til að sýnast eða þóknast öðrum, er engin „guðrækni.“ (2. Pétursbréf 3:11) Að kalla sig kristinn dugir ekki eitt sér til að gera tilbeiðsluna þóknanlega Guði. (2. Tímóteusarbréf 3:5) Það er mikilvægt að viðurkenna að Jehóva sé til en það er aðeins byrjunin. Jehóva vill fá hugheila tilbeiðslu sem er sprottin af djúpum kærleika og virðingu. — Kólossubréfið 3:23.

Boðar nýja hluti

5. Nefndu dæmi um það sem Jehóva ‚kunngerði fyrir löngu.‘

5 Kannski þurfa Gyðingarnir í Babýlon að hressa upp á minnið. Þess vegna minnir Jehóva þá enn og aftur á það að hann sé Guð sannra spádóma: „Það sem nú er fram komið, hefi ég kunngjört fyrir löngu, það er útgengið af mínum munni, og ég hefi gjört það heyrinkunnugt. Skyndilega færði ég það til vegar, og það kom fram.“ (Jesaja 48:3) Guð er þegar búinn að gera það sem hann ‚kunngerði fyrir löngu,‘ svo sem að frelsa Ísraelsmenn úr Egyptalandi og gefa þeim fyrirheitna landið. (1. Mósebók 13:14, 15; 15:13, 14) Þessar spár ganga út af munni Guðs. Hann lætur menn heyra tilskipanir sínar og þeir ættu að hlýða því sem þeir heyra. (5. Mósebók 28:15) Hann framkvæmir skyndilega það sem hann hefur boðað. Sú staðreynd að Jehóva er alvaldur tryggir að ásetningur hans nær fram að ganga. — Jósúabók 21:45; 23:14.

6. Hversu ‚þrjóskir og ódælir‘ eru Gyðingar orðnir?

6 Þjóð Jehóva er orðin „þrjósk og ódæl.“ (Sálmur 78:8) Hann segir henni hreinskilnislega: „Þú ert þrjóskur og háls þinn seigur sem járnseymi og enni þitt hart sem kopar.“ (Jesaja 48:4) Gyðingar eru harðir og ósveigjanlegir eins og málmur. Það er ein ástæðan fyrir því að Jehóva opinberar hluti áður en þeir eiga sér stað. Ella myndi fólk segja um það sem Jehóva gerir: „Goð mitt hefir komið því til leiðar, og skurðgoð mitt og hið steypta líkneski mitt hefir ráðstafað því.“ (Jesaja 48:5) Ætli það sem Jehóva segir núna hafi einhver áhrif á hina ótrúu Gyðinga? Hann segir þeim: „Þú hefir heyrt það, sjá, nú er það allt komið fram! Og þér, hljótið þér ekki að játa það? Nú boða ég þér nýja hluti og hulda, sem þú ekkert veist um. Þeir eru nú að skapast, en eigi fyrr, fyrr en í dag hefir þú ekkert um þá heyrt, svo að þú skyldir ekki geta sagt: ‚Sjá, ég vissi það!‘“ — Jesaja 48:6, 7.

7. Hvað verða Gyðingarnir í útlegðinni að viðurkenna og hvers mega þeir vænta?

7 Jesaja skráði spádóminn um fall Babýlonar löngu áður en hann rættist. Nú er talað til Gyðinganna sem útlaga í Babýlon og þeim er fyrirskipað í spádóminum að ígrunda uppfyllingu hans. Geta þeir neitað því að Jehóva Guð uppfylli spádóma sína? Og ber Júdamönnum ekki að játa og boða öðrum þennan sannleika, fyrst þeir hafa séð og heyrt að Jehóva er Guð sannleikans? Opinberunarorð Jehóva boða nýja og ókomna hluti, svo sem það að Kýrus vinni Babýlon og Gyðingum verði sleppt. (Jesaja 48:14-16) Þessir atburðir koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Enginn gat séð þá fyrir einungis með því að virða fyrir sér framvindu heimsmála. Þetta gerist öllum að óvörum. Hver lætur þetta gerast? Svarið er augljóst því að Jehóva sagði þetta fyrir um 200 árum áður.

8. Hverju nýju vonast kristnir menn eftir og af hverju treysta þeir algerlega á spádómsorð Jehóva?

8 Og Jehóva uppfyllir orð sín eftir eigin tímaáætlun. Gyðingar fortíðar og kristnir menn nútíðar sjá guðdóm hans birtast í uppfylltum spádómum. Hinir ótalmörgu spádómar sem rættust í fortíðinni — „það sem nú er fram komið“ — eru trygging fyrir því að hið nýja, sem Jehóva lofar, rætist einnig — ‚þrengingin mikla,‘ björgun hins ‚mikla múgs‘ úr þrengingunni, ‚nýja jörðin‘ og ótalmargt annað. (Opinberunarbókin 7:9, 14, 15; 21:4, 5; 2. Pétursbréf 3:13) Þessi trygging hvetur hjartahreina menn til að tala um Jehóva af brennandi áhuga. Þeir eru sama sinnis og sálmaritarinn sem sagði: „Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur.“ — Sálmur 40:10.

Jehóva heldur aftur af sér

9. Hvernig hafa Ísraelsmenn verið ‚trúrofar frá móðurlífi‘?

9 Sökum vantrúar á spádóma Jehóva hafa Gyðingar ekki sinnt viðvörunum hans. Þess vegna segir hann þeim: „Þú hefir hvorki heyrt það né vitað það, né heldur hefir eyra þitt verið opið fyrir löngu, því að ég vissi, að þú ert mjög ótrúr og að þú hefir kallaður verið ‚trúrofi‘ frá móðurlífi.“ (Jesaja 48:8) Júdamenn hafa lokað eyrunum fyrir gleðiboðskap Jehóva. (Jesaja 29:10) Með hegðun sinni hefur sáttmálaþjóð hans sýnt að hún er ‚trúrofi frá móðurlífi.‘ Ísraelsmenn hafa verið uppreisnargjarnir allar götur síðan þeir fæddust sem þjóð. Þeir syndga ekki aðeins einstöku sinnum heldur er ótryggð og uppreisn orðin rótgróin í fari þeirra. — Sálmur 95:10; Malakí 2:11.

10. Af hverju heldur Jehóva aftur af sér?

10 Er þá öll von úti? Nei, Jehóva hefur alltaf verið trúr og tryggur þó svo að Júdamenn hafi verið uppreisnargjarnir og sviksamir. Nafns síns vegna hefur hann taumhald á reiði sinni. Hann segir: „Fyrir sakir nafns míns sefa ég reiði mína og vegna lofs míns hefti ég hana þér í vil, svo að ég uppræti þig eigi.“ (Jesaja 48:9) Hvílíkur munur! Bæði Ísraelsmenn og Júdamenn, þjóð Jehóva, hafa verið honum ótrúir. En hann mun helga nafn sitt og það sem hann gerir verður því til heiðurs og lofs. Þess vegna mun hann ekki afmá kjörþjóð sína. — Jóel 2:13, 14.

11. Af hverju leyfir Guð ekki að þjóð sinni sé gereytt?

11 Áminningar Guðs örva hjartahreina menn meðal hinna útlægu Gyðinga svo að þeir einsetja sér að hlýða kennslu hans. Eftirfarandi yfirlýsing er mjög hughreystandi fyrir þá: „Sjá, ég hefi hreinsað þig, þó eigi sem silfur, ég hefi reynt þig í bræðsluofni hörmungarinnar. Mín vegna, sjálfs mín vegna gjöri ég það, og dýrð mína gef ég eigi öðrum, því að hversu mjög yrði nafn mitt vanhelgað!“ (Jesaja 48:10, 11) Jehóva hefur látið þjóð sína ganga í gegnum ýmsar eldraunir, kallaðar ‚bræðsluofn hörmungarinnar,‘ og þær hafa hreinsað hana og dregið fram í dagsljósið hvað býr í hjörtum manna. Eitthvað ámóta hafði gerst öldum áður. Móse sagði forfeðrum þeirra: „[Jehóva] Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta.“ (5. Mósebók 8:2) Jehóva eyddi ekki þjóðinni á þeim tíma, þrátt fyrir uppreisnargirni hennar, og hann eyðir henni ekki með öllu núna. Þannig verður nafni hans og virðingu haldið á loft. Hann héldi ekki sáttmála sinn og nafn hans yrði fyrir lasti ef Babýloníumenn fengju að eyða þjóð hans. Þá myndi það líta þannig út að Guð Ísraels væri ekki nógu sterkur til að frelsa þjóð sína. — Esekíel 20:9.

12. Hvernig hreinsuðust sannkristnir menn í fyrri heimsstyrjöldinni?

12 Fólk Jehóva á seinni tímum hefur einnig þurft hreinsunar við. Margir litlir hópar Biblíunemenda í upphafi 20. aldar þjónuðu Guði af því að þeir þráðu í einlægni að þóknast honum. En hjá sumum var tilefnið annað, svo sem framagirni. Þessi fámenni hópur þurfti að hreinsast áður en hann gat gengið fram fyrir skjöldu í boðun fagnaðarerindisins um heim allan eins og spáð var að gerast myndi á endalokatímanum. (Matteus 24:14) Spámaðurinn Malakí sagði fyrir að þess konar hreinsun myndi eiga sér stað þegar Jehóva kæmi til musteris síns. (Malakí 3:1-4) Það rættist árið 1918. Sannkristnir menn höfðu gengið gegnum vissan hreinsunareld meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst, og reynslutíminn náði hámarki með því að Joseph F. Rutherford, þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, var hnepptur í fangelsi ásamt nokkrum öðrum forystumönnum. Hreinsunin var þessum einlægu kristnu mönnum til góðs. Er fyrri heimsstyrjöldinni lauk voru þeir ákveðnari en nokkru sinni fyrr í að þjóna hinum mikla Guði sínum á hvern þann hátt sem hann benti á.

13. Hvernig hefur fólk Jehóva brugðist við ofsóknum allt frá fyrri heimsstyrjöldinni?

13 Vottar Jehóva hafa margsinnis verið ofsóttir grimmilega síðan. En þeir hafa ekki efast um orð skaparans heldur minnst orða Péturs postula er hann sagði við ofsótta trúbræður síns tíma: „Nú um skamma stund hafið [þér] orðið að hryggjast í margs konar raunum. Það er til þess að trúarstaðfesta yðar . . . geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.“ (1. Pétursbréf 1:6, 7) Ráðvendni sannkristinna manna fuðrar ekki upp í ofsóknareldi heldur leiðir hann í ljós að hvatir þeirra eru hreinar. Hann herðir trúarstaðfestu þeirra og sýnir hve djúpt hollusta þeirra og kærleikur ristir. — Orðskviðirnir 17:3.

‚Ég er hinn fyrsti, ég er hinn síðasti‘

14. (a) Í hvaða skilningi er Jehóva „hinn fyrsti“ og „hinn síðasti“? (b) Hvaða máttarverk vann Jehóva með „hönd“ sinni?

14 Jehóva höfðar hlýlega til sáttmálaþjóðar sinnar: „Heyr mig, Jakob, og þú Ísrael, sem ég hefi kallað: Ég er hann, ég er hinn fyrsti, ég er einnig hinn síðasti. Hönd mín hefir grundvallað jörðina, og hægri hönd mín hefir þanið út himininn. Þegar ég kalla á þau, koma þau.“ (Jesaja 48:12, 13) Jehóva er eilífur og breytist ekki, ólíkt mönnum. (Malakí 3:6) Hann lýsir yfir í Opinberunarbókinni: „Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn.“ (Opinberunarbókin 22:13) Enginn alvaldur Guð var til á undan Jehóva og enginn verður eftir hann. Hann er skaparinn, hinn æðsti og eilífi. „Hönd“ hans, mátturinn sem hann beitir, grundvallaði jörðina og þandi út stjörnuhimininn. (Jobsbók 38:4; Sálmur 102:26) Sköpunarverk hans eru reiðubúin að þjóna honum þegar hann kallar. — Sálmur 147:4.

15. Hvernig og í hvaða tilgangi „elskar“ Jehóva Kýrus?

15 Jehóva sendir bæði Gyðingum og öðrum mikilvægt boð: „Safnist allir saman og heyrið: Hver á meðal þeirra hefir kunngjört þetta: Sá er [Jehóva] elskar, skal framkvæma vilja hans á Babýlon og vera armleggur hans meðal Kaldea? Það er ég, það er ég, sem hefi talað það, ég hefi og kallað hann. Ég hefi leitt hann fram og veitt honum sigurgengi.“ (Jesaja 48:14, 15) Jehóva einn er almáttugur og fær um að segja atburði nákvæmlega fyrir. Ekkert „þeirra,“ hinna einskis nýtu skurðgoða, getur kunngert þetta. Það eru ekki skurðgoðin heldur Jehóva sem „elskar“ Kýrus, og það merkir að Jehóva hefur útvalið hann í sérstökum tilgangi. (Jesaja 41:2; 44:28; 45:1, 13; 46:11) Hann hefur séð það fyrir að Kýrus gangi fram á vettvangi heimsmála og hefur útvalið hann til að vinna Babýlon þegar þar að kemur.

16, 17. (a) Hvernig getum við sagt að Guð hafi ekki spáð í leyndum? (b) Hvernig hefur Jehóva kunngert fyrirætlanir sínar nú á dögum?

16 Jehóva heldur áfram í sama dúr: „Komið til mín og heyrið þetta: Frá upphafi hefi ég eigi talað í leyndum; þegar kominn var sá tími, að það skyldi verða, kom ég.“ (Jesaja 48:16a) Spádómar Jehóva eru ekki bornir fram í leyndum eða kunngerðir aðeins fáeinum innvígðum. Spámenn hans voru opinskáir og boðuðu vilja hans fyrir almenningi. (Jesaja 61:1) Það sem Kýrus framkvæmdi var ekkert nýtt fyrir Guði. Hann hafði séð það fyrir og látið Jesaja spá því opinberlega 200 árum áður.

17 Jehóva fer heldur ekki leynt með tilgang sinn nú á dögum. Milljónir manna í hundruðum landa og eyja vara við yfirvofandi endalokum þessa heimskerfis hús úr húsi, á götum úti og hvarvetna sem hægt er, boða fagnaðarerindið um blessunina sem Guðsríki hefur í för með sér. Jehóva Guð lætur vita af því sem hann ætlar sér að framkvæma.

‚Gefið gaum að boðorðum mínum‘

18. Hvað vill Jehóva að fólk sitt geri?

18 Spámaðurinn kunngerir í krafti anda Jehóva: „Nú hefir hinn alvaldi [Jehóva] sent mig með sinn anda. Svo segir [Jehóva], frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael: Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ (Jesaja 48:16b-17) Þessi umhyggju- og kærleiksorð Jehóva ættu að fullvissa Ísraelsmenn um að hann ætli að frelsa þá frá Babýlon. Hann er frelsari þeirra. (Jesaja 54:5) Hann þráir að Ísraelsmenn endurnýi samband sitt við hann og gefi gaum að boðorðum hans. Sönn tilbeiðsla er byggð á því að hlýða fyrirmælum Guðs. Ísraelsmenn rata ekki rétta leið nema þeim sé vísað á ‚veginn sem þeir eiga að ganga.‘

19. Hvernig höfðar Jehóva til Ísraelsmanna?

19 Jehóva orðar mjög fallega þá löngun sína að fólk sitt forðist hvers kyns ógæfu og njóti þess að vera til: „Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:18) Þetta eru hlýleg tilmæli frá hinum alvalda skapara. (5. Mósebók 5:29; Sálmur 81:14) Ísraelsmenn þurfa ekki að lenda í ánauð heldur geta þeir búið við heill og frið sem streymir fram eins og stórfljót. (Sálmur 119:165) Réttlætisverk þeirra geta verið eins óteljandi og bylgjur sjávarins. (Amos 5:24) Jehóva er mjög annt um þá og hann reynir að höfða til þeirra og bendir þeim ástúðlega á veginn sem þeir eiga að ganga. Bara að þeir hlusti á hann!

20. (a) Hvað þráir Jehóva þrátt fyrir uppreisnargirni Ísraels? (b) Hvað lærum við um Jehóva af samskiptum hans við þjóð sína? (Sjá rammagrein á bls. 133.)

20 Hvaða blessun eiga Ísraelsmenn í vændum ef þeir iðrast? Jehóva segir: „Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti.“ (Jesaja 48:19) Jehóva minnir fólk sitt á loforðið um að afkomendur Abrahams skyldu verða margir ‚sem stjörnur á himni og sem sandur á sjávarströnd.‘ (1. Mósebók 22:17; 32:12) En þessir afkomendur hafa verið uppreisnargjarnir og eiga engan rétt á að sjá fyrirheitið rætast. Reyndar er saga þjóðarinnar svo ljót að samkvæmt lögmáli Jehóva á hún það skilið að nafn hennar sé afmáð. (5. Mósebók 28:45) En Jehóva langar ekki til að útrýma þjóð sinni og vill ekki yfirgefa hana algerlega.

21. Hvaða blessun getum við hlotið ef við sækjumst eftir kennslu hjá Jehóva?

21 Meginreglan í þessum sterku ritningarorðum á erindi til þeirra sem tilbiðja Jehóva nú á dögum. Jehóva er uppspretta lífsins og veit öðrum betur hvernig við eigum að nota líf okkar. (Sálmur 36:10) Hann hefur sett ákveðnar viðmiðunarreglur, ekki til að ræna okkur lífshamingjunni heldur til góðs fyrir okkur. Sannkristnir menn sækjast eftir kennslu hans. (Míka 4:2) Leiðbeiningar hans vernda andlegt hugarfar okkar og samband við hann, og þær verja okkur fyrir spillingaráhrifum Satans. Þegar við skiljum meginreglurnar að baki lögum Guðs sjáum við að hann kennir okkur það sem er gagnlegt fyrir okkur. Við gerum okkur ljóst að „boðorð hans eru ekki þung.“ Og við tortímumst ekki. — 1. Jóhannesarbréf 2:17; 5:3.

„Gangið út úr Babýlon“

22. Hvað eru trúfastir Gyðingar hvattir til að gera og hverju er þeim lofað?

22 Ætli einhverjir Gyðingar sýni rétt hjartalag þegar Babýlon fellur? Ætli þeir notfæri sér frelsunina, sem Guð hefur komið til leiðar, til að snúa heim og endurreisa hreina tilbeiðslu? Já, Jehóva treystir að svo verði eins og sést af orðum hans. „Gangið út úr Babýlon, skundið burt frá Kaldeum með fagnaðarópi, boðið þetta og birtið það, útbreiðið það til endimarka jarðarinnar: [Jehóva] hefir frelsað þjón sinn Jakob! Og þá þyrsti ekki, þegar hann leiddi þá um öræfin. Hann lét vatn spretta upp úr kletti handa þeim, og hann klauf klettinn, svo að vatnið vall þar upp.“ (Jesaja 48:20, 21) Spádómurinn hvetur fólk Jehóva til að yfirgefa Babýlon tafarlaust. (Jeremía 50:8) Það þarf að kunngera frelsun þeirra til endimarka jarðar. (Jeremía 31:10) Eftir að fólk Jehóva yfirgaf Egyptaland sá hann fyrir þörfum þess á leiðinni um eyðimörkina. Eins ætlar hann að sjá fyrir fólki sínu á leiðinni heim frá Babýlon. — 5. Mósebók 8:15, 16.

23. Hverjir njóta ekki friðar Guðs?

23 Gyðingar þurfa að hafa aðra mikilvæga meginreglu í huga í sambandi við frelsunarafrek Jehóva. Réttsýnir menn geta þurft að þjást fyrir syndir sínar en þeim er ekki tortímt. Öðru máli gegnir um rangláta menn. „Hinum óguðlegu, segir [Jehóva], er enginn friður búinn.“ (Jesaja 48:22) Iðrunarlausir syndarar hljóta engan frið; hann er ætlaður þeim sem elska Guð. Hjálpræðisverkin eru ekki hugsuð fyrir óguðlega, þrjóska og vantrúaða heldur aðeins fyrir þá sem trúa. (Títusarbréfið 1:15, 16; Opinberunarbókin 22:14, 15) Óguðlegir búa ekki yfir friði Guðs.

24. Hvað gladdi þjóna Guðs snemma á síðustu öld?

24 Trúfastir Ísraelsmenn glöddust mjög þegar þeir fengu tækifæri til að yfirgefa Babýlon árið 537 f.o.t. Þjónar Guðs glöddust líka þegar þeir voru leystir úr Babýlonaránauð árið 1919. (Opinberunarbókin 11:11, 12) Vonglaðir gripu þeir tækifærið til að auka starfsemi sína. Vissulega þurfti þessi fámenni hópur kristinna manna að sýna mikið hugrekki til að notfæra sér ný tækifæri til að prédika í fjandsamlegum heimi. En með hjálp Jehóva sneru þeir sér að því að prédika fagnaðarerindið. Sagan sýnir að Jehóva blessaði þá.

25. Hvers vegna er mikilvægt að gefa góðan gaum að réttlátum dómum og tilskipunum Guðs?

25 Þessi kafli í spádómi Jesaja leggur áherslu á að Jehóva kennir okkur það sem er okkur fyrir bestu. Það er mjög þýðingarmikið að gefa góðan gaum að réttlátum dómum og tilskipunum Guðs. (Opinberunarbókin 15:2-4) Ef við minnum okkur á visku og kærleika Guðs er það hjálp til að laga okkur að því sem hann segir að sé rétt. Öll boðorð hans eru okkur gagnleg. — Jesaja 48:17, 18.

[Spurningar]

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 133]

Alvaldur Guð heldur aftur af sér

„[Ég] sefa . . . reiði mína,“ sagði Jehóva við fráhvarfsþjóðina Ísrael. (Jesaja 48:9) Yfirlýsing eins og þessi minnir okkur á að Guð er fullkomið fordæmi um það að misbeita aldrei valdi. Enginn er máttugri en Guð; þess vegna köllum við hann alvaldan. Hann notar réttilega ávarpsorðið „Almáttugur“ um sjálfan sig. (1. Mósebók 17:1) Bæði er afl hans ótakmarkað og eins er hann alráður af því að hann er Alvaldsdrottinn alheimsins sem hann skapaði. Þess vegna dirfist enginn að tálma honum eða spyrja hann: „Hvað gjörir þú?‘“ — Daníel 4:35.

En Guð er seinn til reiði, jafnvel þegar hann þarf að gefa reiði sinni útrás gegn óvinum sínum. (Nahúm 1:3) Hann getur ‚sefað reiði sína‘ og er réttilega lýst svo að hann sé „þolinmóður“ af því að kærleikurinn en ekki reiðin er ráðandi eiginleiki í fari hans. En reiði hans er alltaf réttlát, alltaf réttlætanleg og alltaf öguð þegar hann gefur henni útrás. — 2. Mósebók 34:6; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Af hverju er Jehóva þannig? Af því að alvald hans samræmist fullkomlega þrem öðrum höfuðeiginleikum hans — visku, réttvísi og kærleika. Hann beitir mætti sínum alltaf í samræmi við þessa eiginleika.

[Mynd á blaðsíðu 122]

Trúfastir Gyðingar í útlegðinni sjá vonarglætu í endurreisnarboðskap Jesaja.

[Myndir á blaðsíðu 124]

Gyðingum hætti til að eigna skurðgoðum það sem Jehóva framkvæmdi.

1. Istar.  2. Glerhúðuð skrautrönd við helgigöngustræti Babýlonar. 3. Drekamerki Mardúks.

[Mynd á blaðsíðu 127]

‚Bræðsluofn hörmungarinnar‘ getur leitt í ljós hvort við þjónum Jehóva af hreinu tilefni eða ekki.

[Myndir á blaðsíðu 128]

Sannkristnir menn hafa mátt þola grimmilegustu ofsóknir.