Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva lífgar anda hinna lítillátu

Jehóva lífgar anda hinna lítillátu

18. kafli

Jehóva lífgar anda hinna lítillátu

Jesaja 57:1-21

1. Hverju lofaði Jehóva og hvaða spurningar vekja orð hans?

 „SVO segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.“ (Jesaja 57:15) Svo skrifaði spámaðurinn Jesaja á áttundu öld f.o.t. Hvað var að gerast í Júda sem olli því að þessi boðskapur var sérlega uppörvandi? Hvaða gildi hafa þessi innblásnu orð fyrir kristna menn nú á tímum? Við fáum svör við þessum spurningum með því að rýna í 57. kafla Jesajabókar.

„Komið þér hingað“

2. (a) Við hvaða tíma virðist 57. kafli Jesaja eiga? (b) Hvernig er ástatt fyrir réttlátum á dögum Jesaja?

2 Þessi hluti af spádómi Jesaja virðist eiga við samtíð hans. Lítum á dæmi sem sýnir hve rótgróin illskan er orðin: „Hinir réttlátu líða undir lok, og enginn leggur það á hjarta. Hinum guðhræddu er burt svipt, og enginn veitir því athygli. Hinir réttlátu verða burt numdir frá ógæfunni, þeir ganga inn til friðar. Þeir, sem ganga beina braut, munu hvíla í legurúmum sínum.“ (Jesaja 57:1, 2) Öllum stendur á sama um það að réttlátur maður falli. Enginn veitir því athygli þó að hann deyi um aldur fram. Hann öðlast frið í dauðanum því að hann er þá laus við þjáningar af hendi óguðlegra og umflýr ógæfu. Útvalin þjóð Guðs er djúpt sokkin, en það hlýtur að vera mjög uppörvandi fyrir þá sem eru trúfastir að hann skuli bæði sjá hvað fram fer og styðja þá.

3. Hvernig ávarpar Jehóva hina óguðlegu kynslóð Júda og hvers vegna?

3 Jehóva stefnir til sín hinni óguðlegu kynslóð Júda og segir: „Komið þér hingað, þér seiðkonusynir, þú afsprengi hórkarls og skækju!“ (Jesaja 57:3) Júdamenn hafa áunnið sér þann skammarlega stimpil að kallast seiðkonusynir og afsprengi hórkarls og skækju. Þeir hafa tekið upp falsdýrkun sem er meðal annars fólgin í viðurstyggilegri skurðgoðatilbeiðslu, andakukli og grófu siðleysi. Jehóva spyr því syndarana: „Að hverjum skopist þér? Framan í hvern eruð þér að bretta yður og reka út úr yður tunguna? Eruð þér ekki syndarinnar börn og lyginnar afsprengi? Þér brunnuð af girndarbruna hjá eikitrjánum, undir hverju grænu tré, þér slátruðuð börnum í dölunum, niðri í klettagjánum.“ — Jesaja 57:4, 5.

4. Um hvað gera hinir óguðlegu Júdamenn sig seka?

4 Hinir óguðlegu Júdamenn stunda heiðna tilbeiðslu fyrir opnum tjöldum og líkar vel. Þeir skopast að spámönnunum sem Guð hefur sent til að áminna þá og reka út úr sér tunguna í óvirðingarskyni. Vegna þrjósku sinnar eru þeir börn syndarinnar og afsprengi lyginnar, þótt þeir séu börn Abrahams. (Jesaja 1:4; 30:9; Jóhannes 8:39, 44) Þeir magna upp trúarhita í skurðgoðadýrkun sinni innan um eikitrén úti í sveitum landsins. Og hvílík grimmdartilbeiðsla! Þeir slátra jafnvel börnum sínum líkt og þjóðirnar sem Jehóva hafði rekið burt úr landinu sökum viðurstyggilegrar háttsemi þeirra. — 1. Konungabók 14:23; 2. Konungabók 16:3, 4; Jesaja 1:29.

Úthella drykkjarfórn handa steinum

5, 6. (a) Hvað hafa Júdamenn kosið að gera í stað þess að dýrka Jehóva? (b) Hversu óskammfeilin og útbreidd er skurðgoðadýrkun Júdamanna?

5 Við sjáum hve djúpt Júdamenn eru sokknir í skurðgoðadýrkunina: „Á sleipum steinum í árfarvegi skriðnar þér fótur. Þú úthelltir drykkjarfórn handa þeim, færðir þeim matfórn. Átti ég að una slíku?“ (Jesaja 57:6) Gyðingar eru sáttmálaþjóð Guðs en í stað þess að tilbiðja hann tína þeir steina úr árfarvegi og gera úr þeim guði. Davíð sagði að Jehóva væri hlutskipti sitt en þessir syndarar hafa kosið lífvana steinlíkneski og úthella drykkjarfórnum handa þeim. (Sálmur 16:5; Habakkuk 2:19) Á Jehóva að una því að þjóðin, sem ber nafn hans, skuli rangsnúa tilbeiðslunni svona?

6 Júdamenn dýrka skurðgoð út um allt — undir eikitrjám, í dölum, á hæðum og í borgum. En Jehóva sér allt sem þeir gera og afhjúpar spillinguna fyrir munn Jesaja: „Á háu og gnæfandi fjalli settir þú hvílurúm þitt, þú fórst og upp þangað til þess að færa fórnir. Á bak við hurð og dyrastafi settir þú minningarmark þitt.“ (Jesaja 57:7, 8a) Júda setur óhreint, andlegt hvílurúm sitt á hæðunum og færir framandi guðum fórnir. * Jafnvel á einkaheimilum eru skurðgoð á bak við hurðir og dyrastafi.

7. Með hvaða hugarfari stundar Júda siðlausa tilbeiðslu?

7 Sumum er kannski spurn hvers vegna Júdamenn hafi flækt sig svona í óhreinni tilbeiðslu. Hefur eitthvert utanaðkomandi afl gert þá afhuga Jehóva? Svarið er nei. Júdamenn gera þetta af fúsu geði, meira að segja af ákefð. Jehóva segir: „Já, fráhverf mér flettir þú ofan af hvílu þinni, steigst upp í hana og rýmkaðir til í henni og gjörðir samning við þá. Þér voru kær hvílubrögð þeirra, þú sást blygðan þeirra.“ (Jesaja 57:8b) Júda hefur gert sáttmála við falsguði sína og hefur yndi af óleyfilegu sambandi sínu við þá, einkum siðleysinu. Líklega er þar meðal annars átt við reðurtáknin sem einkenna dýrkun þessara guða.

8. Hvaða konungur greiddi sérstaklega götu skurðgoðadýrkunar í Júda?

8 Lýsingin á hinni gróflega siðlausu og grimmilegu skurðgoðadýrkun kemur vel heim og saman við það sem vitað er um allmarga óguðlega konunga Júda. Manasse byggði til dæmis fórnarhæðirnar, reisti Baal ölturu og setti upp falsguðaölturu í tveim musterisforgörðum. Hann lét syni sína ganga gegnum eldinn og stundaði galdra, spásagnir og andakukl. Manasse konungur setti jafnvel asérulíkneski, sem hann hafði látið gera, í musteri Jehóva. * Hann tældi Júdamenn „svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er [Jehóva] hafði eytt.“ (2. Konungabók 21:2-9) Sumir telja að Manasse hafi látið drepa Jesaja þó svo að nafn konungs komi ekki fram í Jesaja 1:1.

„Þú sendir sendiboða þína“

9. Af hverju gera Júdamenn út sendiboða „langar leiðir“?

9 Afbrot Júdamanna einskorðast ekki við falsguðadýrkun. Jehóva heldur áfram fyrir munn Jesaja: „Þú fórst til konungsins með olíu og hafðir með þér mikil smyrsl, og þú sendir sendiboða þína langar leiðir og steigst niður allt til Heljar.“ (Jesaja 57:9) Hið ótrúa Júdaríki leitar til „konungsins“ — líklega er átt þar við konung erlends ríkis — og færir honum dýrar og geðfelldar gjafir, táknaðar með olíu og ilmsmyrslum. Júdamenn gera út sendiboða til fjarlægra staða til að telja heiðnar þjóðir á að ganga til stjórnmálabandalags við sig. Þeir hafa snúið baki við Jehóva og leggja traust sitt á útlenda konunga.

10. (a) Hvernig leitar Akas konungur eftir bandalagi við Assýríukonung? (b) Á hvaða hátt teygja Júdamenn sig ‚allt niður til Heljar‘?

10 Eitt dæmið um þetta er frá dögum Akasar Júdakonungs. Hinn ótrúi konungur telur sér standa ógn af bandalagi Ísraelsmanna og Sýrlendinga og gerir sendimenn til Tíglats Pílesers þriðja af Assýríu með þessa orðsendingu: „Ég er þjónn þinn og sonur! Kom og frelsa mig undan valdi Sýrlandskonungs og undan valdi Ísraelskonungs, er ráðist hafa á mig.“ Akas sendir Assýríukonungi silfur og gull í mútur og konungur tekur máli hans vel og ræðst með hörku á Sýrland. (2. Konungabók 16:7-9) Júdamenn teygja sig „niður allt til Heljar“ í samskiptum við heiðnar þjóðir. Þeir skulu gjalda fyrir með lífinu er þeir líða undir lok sem sjálfstæð þjóð með eigin konung.

11. Hvers konar falskt öryggi búa Júdamenn sér til?

11 Jehóva talar áfram til Júdamanna: „Þú varðst þreytt af hinu langa ferðalagi þínu, en þó sagðir þú ekki: ‚Ég gefst upp!‘ Þú fannst nýjan lífsþrótt í hendi þinni, fyrir því örmagnaðist þú ekki.“ (Jesaja 57:10) Þjóðin hefur erfiðað í fráhvarfi sínu en sér þó ekki hve vonlaus viðleitni hennar er. Hún telur sjálfri sér trú um að hún spjari sig af eigin rammleik. Henni finnst hún hress og endurnærð. Hvílík heimska!

12. Hvað er hliðstætt með kristna heiminum og Júda?

12 Kristni heimurinn nú á dögum minnir um margt á Júdamenn á dögum Jesaja. Kirkjufélögin nota nafn Jesú en sækjast eftir bandalagi við þjóðirnar og hafa fyllt tilbeiðslustaði sína af skurðgoðum. Sóknarbörnin eru jafnvel með skurðgoðalíkneski heima hjá sér. Kristni heimurinn hefur fórnað ungmennum sínum í styrjöldum þjóðanna. Hinum sanna Guði hlýtur að bjóða við, því að hann skipar kristnum mönnum að ‚flýja skurðgoðadýrkunina.‘ (1. Korintubréf 10:14) Með því að blanda sér í stjórnmál hafa kirkjufélögin ‚drýgt saurlifnað með konungum jarðar.‘ (Opinberunarbókin 17:1, 2) Reyndar eru þau einn dyggasti málsvari Sameinuðu þjóðanna. Hvað á þessi trúarskækja í vændum? Orð Jehóva við fyrirmyndina, hina ótrúu Júdamenn og höfuðborgina Jerúsalem, svara því.

‚Skurðgoðin bjarga þér ekki‘

13. Hvernig hafa Júdamenn ‚brugðið trúnaði‘ og hvernig bregðast þeir við þolinmæði Jehóva?

13 „Hvern hræddist og óttaðist þú þá, að þú skyldir bregða svo trúnaði þínum?“ spyr Jehóva. Þetta er góð spurning. Júdamenn sýna ekki heilnæman guðsótta, ella hefðu þeir ekki brugðið trúnaði og gerst falsguðadýrkendur á þjóðarvísu. Jehóva heldur áfram: „Að þú skyldir ekki muna til mín, ekkert um mig hirða? Er eigi svo: Ég hefi þagað, og það frá eilífð, mig óttaðist þú því ekki?“ (Jesaja 57:11) Jehóva hefur þagað og beðið með að refsa Júda. En kann þjóðin að meta það? Nei, hún lítur á umburðarlyndi Guðs sem afskiptaleysi. Hún hefur glatað öllum guðsótta.

14, 15. Hvað segir Jehóva um verk Júdamanna og ‚skurðgoðin sem þeir hafa safnað saman‘?

14 En langlyndi Guðs tekur enda. Hann horfir fram til þess tíma og segir: „Ég skal gjöra réttlæti þitt kunnugt, og verkin þín — þau munu þér að engu liði verða. Lát skurðgoðin, sem þú hefir saman safnað, bjarga þér, er þú kallar á hjálp! Vindurinn mun svipta þeim öllum í burt, gusturinn taka þau.“ (Jesaja 57:12, 13a) Jehóva mun afhjúpa uppgerðarréttlæti Júdamanna. Hræsniverk þeirra eru til einskis. ‚Skurðgoðin, sem þeir hafa safnað saman,‘ frelsa þá ekki. Vindhviða feykir burt guðunum, sem þeir treysta á, þegar ógæfan ríður yfir.

15 Orð Jehóva rætast árið 607 f.o.t. þegar Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, eyðir Jerúsalem, brennir musterið og flytur flestalla íbúana ánauðuga burt. „Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.“ — 2. Konungabók 25:1-21.

16. Hvað bíður kristna heimsins og ‚Babýlonar hinnar miklu‘ í heild?

16 Hið mikla skurðgoðasafn kristna heimsins frelsar hann ekki heldur á reiðidegi Jehóva. (Jesaja 2:19-22; 2. Þessaloníkubréf 1:6-10) Honum verður útrýmt með heimsveldi falskra trúarbragða, Babýlon hinni miklu, sem hann er hluti af. Hið táknræna skarlatsrauða dýr og hornin tíu munu „gjöra [Babýlon hina miklu] einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:3, 16, 17) Við erum himinlifandi að hafa hlýtt skipuninni: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4, 5) Snúum aldrei aftur til háttsemi hennar.

‚Sá sem leitar hælis hjá mér mun erfa landið‘

17. Hvað er þeim lofað sem ‚leitar hælis hjá Jehóva‘ og hvenær rætist það?

17 En hvað um framhaldið í spádómi Jesaja? „Sá, sem leitar hælis hjá mér, mun erfa landið og eignast mitt heilaga fjall.“ (Jesaja 57:13b) Um hvern er Jehóva að tala núna? Hann horfir fram yfir hörmungarnar og boðar að fólk sitt verði frelsað frá Babýlon og hrein tilbeiðsla endurvakin á heilögu fjalli hans, Jerúsalem. (Jesaja 66:20; Daníel 9:16) Þetta hlýtur að vera mikil uppörvun fyrir trúfasta Gyðinga. Jehóva heldur áfram: „Sagt mun verða: ‚Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar!‘“ (Jesaja 57:14) Brautin verður opin þegar tíminn kemur að Guð frelsar fólk sitt, og öllum hindrunum verður rutt úr vegi. — 2. Kroníkubók 36:22, 23.

18. Hvernig er því lýst hve háleitur Jehóva er en hvernig birtist umhyggja hans og kærleikur?

18 Það er í þessu samhengi sem Jesaja spámaður segir orðin sem í var vitnað í byrjun kaflans: „Svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.“ (Jesaja 57:15) Hásæti Jehóva er á hæstu himnum. Engin staða er hærri eða háleitari. Það er ákaflega hughreystandi til að vita að hann sér allt frá hásæti sínu — ekki aðeins syndir hinna óguðlegu heldur einnig réttlætisverk þeirra sem reyna að þjóna honum. (Sálmur 102:20; 103:6) Og hann heyrir andvörp hinna kúguðu og lífgar hjörtu hinna sundurkrömdu. Þessi orð hljóta að hafa snortið hjörtu iðrandi Gyðinga forðum daga því að þau snerta hjörtu okkar svo sannarlega.

19. Hvenær linnir reiði Jehóva?

19 Jehóva heldur áfram að hughreysta: „Ég þreyti ekki deilur eilíflega og reiðist ekki ævinlega, ella mundi andi mannsins vanmegnast fyrir mér og sálirnar, sem ég hefi skapað.“ (Jesaja 57:16) Engin sköpunarvera Guðs gæti staðist ef reiði hans væri endalaus. En reiði hans stendur aðeins skamma stund og henni linnir er hún hefur náð tilgangi sínum. Þessi innblásna ábending dregur upp skýra mynd af kærleika Jehóva til sköpunar sinnar.

20. (a) Hvernig kemur Jehóva fram við iðrunarlausa syndara? (b) Hvernig hughreystir Jehóva þann sem iðrast?

20 Jehóva upplýsir okkur áfram. Fyrst segir hann: „Sökum hinnar syndsamlegu ágirndar hans reiddist ég og laust hann, ég byrgði andlit mitt og var reiður. Þrjóskufullur hélt hann þá leið, er hann lysti.“ (Jesaja 57:17) Ágirndarsyndirnar eru vissulega ávísun á reiði Guðs og reiði hans varir meðan menn fara sínu fram í þrjósku. En Jehóva sýnir kærleika og umhyggju ef hinn þrjóski lætur ögunina sér að kenningu verða: „Ég sá vegu hans og ég vil lækna hann, ég vil leiða hann og veita honum hugsvölun. Öllum þeim, sem hryggir eru hjá honum.“ (Jesaja 57:18) Jehóva læknar iðrandi mann eftir að hafa agað hann og huggar hann og þá sem hryggjast með honum. Þess vegna gátu Gyðingar snúið heim á ný árið 537 f.o.t. Júda verður að vísu aldrei aftur sjálfstætt ríki undir stjórn konungs af ætt Davíðs, en musterið er endurbyggt í Jerúsalem og sönn tilbeiðsla endurvakin.

21. (a) Hvernig lífgaði Jehóva anda hinna smurðu árið 1919? (b) Hvaða eiginleika ættum við að rækta með okkur, hvert og eitt?

21 Jehóva, „hinn hái og háleiti,“ sýndi umhyggju sína fyrir velferð hinna smurðu leifa árið 1919. Hinni mikli Guð gaf gaum að bágindum þeirra og frelsaði þá úr Babýlonaránauð vegna þess að þeir auðmýktu sig og iðruðust. Hann fjarlægði allar hindranir og leiddi þá út í frelsið þannig að þeir gætu tilbeðið hann í hreinleika. Þannig rættust orð hans fyrir munn Jesaja á þeim tíma. Og að baki þessum orðum búa ævarandi lögmál sem eiga erindi til okkar allra. Jehóva viðurkennir aðeins tilbeiðslu þeirra sem eru auðmjúkir í hjarta. Og syndgi einhver þjónn hans ætti hann að viðurkenna villu sína sem skjótast, þiggja áminningu og bæta ráð sitt. Gleymum aldrei að Jehóva læknar og hughreystir auðmjúka menn en „stendur í gegn dramblátum.“ — Jakobsbréfið 4:6.

‚Friður fyrir fjarlæga og nálæga‘

22. Hvaða framtíð boðar Jehóva (a) iðrandi mönnum? (b) óguðlegum?

22 Jehóva ber saman framtíð þeirra sem iðrast og hinna sem halda illskunni áfram: „Vil ég gefa ávöxt varanna . . . Friður, friður fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann! En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju. Hinum óguðlegu . . . er enginn friður búinn.“ — Jesaja 57:19-21.

23. Hver er ávöxtur varanna og hvernig ‚gefur‘ Jehóva hann?

23 Ávöxtur varanna er lofgerðarfórnin sem við færum Guði, það að játa nafn hans meðal almennings. (Hebreabréfið 13:15) Hvernig ‚gefur‘ Jehóva þennan ávöxt? Til að bera fram lofgerðarfórn þurfa menn fyrst að kynnast Guði og trúa á hann. Trúin er ávöxtur anda Guðs og hún kemur þeim til að segja öðrum frá því sem þeir hafa heyrt. Við játum trúna sem sagt opinberlega. (Rómverjabréfið 10:13-15; Galatabréfið 5:22) Það ber einnig að hafa hugfast að það er Jehóva sem felur þjónum sínum það verkefni að bera fram lofgerðina. Og það er hann sem frelsar fólk sitt svo að það geti borið fram slíkar lofgerðarfórnir. (1. Pétursbréf 2:9) Það má því að réttu lagi segja að Jehóva gefi ávöxt varanna.

24. (a) Hverjir fá að njóta friðar Guðs og með hvaða árangri? (b) Hverjir þekkja ekki frið og hvaða afleiðingar hefur það fyrir þá?

24 Gyðingar hljóta að lofsyngja Jehóva er þeir snúa aftur heim í land sitt. Það er fagur ávöxtur af vörum þeirra. Þeir hljóta að fagna því að njóta friðar Guðs, hvort sem þeir eru ‚fjarri‘ Júda og bíða þess að snúa heim, eða ‚nálægir,‘ það er að segja komnir heim. En hinir óguðlegu eru harla ólíkt í sveit settir. Þeim sem þiggja ekki ögun Jehóva er enginn friður búinn, og gildir þá einu hver á í hlut og hvar hann er staddur. Þeir ólga eins og úfinn sjór og ávöxturinn er ‚aur og leðja‘ — allt sem óhreint er.

25. Hvernig njóta margir friðar, bæði nær og fjær?

25 Þjónar Jehóva færa honum líka ávöxt vara nú á dögum. Þeir boða fagnaðarerindið um ríki hins sanna Guðs í meira en 230 löndum, fjær og nær. Lofsöngur þeirra heyrist „til endimarka jarðarinnar.“ (Jesaja 42:10-12) Þeir sem heyra og taka við því læra sannleikann í orði Guðs, Biblíunni, og kynnast þeim friði sem fylgir því að þjóna ‚Guði friðarins.‘ — Rómverjabréfið 16:20.

26. (a) Hvað bíður hinna óguðlegu? (b) Hverju er hinum hógværu heitið og hvað ættum við að einsetja okkur?

26 Hinir óguðlegu sinna ekki boðskapnum um ríkið en fá ekki að spilla friði hinna réttlátu öllu lengur. „Innan stundar eru engir guðlausir til framar,“ lofar Jehóva. Þeir sem leita hælis hjá honum erfa landið með stórfenglegum hætti. „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu“ og friði. (Sálmur 37:10, 11, 29) Jörðin verður unaðsleg þegar þar er komið sögu. Verum öll staðráðin í að glata aldrei friði Guðs svo að við getum haldið áfram að lofsyngja hann um alla eilífð. 

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sennilega merkir orðið „hvílurúm“ annaðhvort altari eða staður til að dýrka heiðna guði. Orðið minnir á að slík tilbeiðsla er andlegur skækjulifnaður.

^ gr. 8 Aséran kann að hafa táknað hin kvenlega þátt og hinn svokallaði merkissteinn hefur hugsanlega verið reðurtákn. Ótrúir Júdamenn notuðu hvort tveggja. — 2. Konungabók 18:4; 23:14.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 263]

Júdamenn stunda siðlausa tilbeiðslu undir hverju grænu tré.

[Mynd á blaðsíðu 267]

Júdamenn reisa ölturu út um allt land.

[Mynd á blaðsíðu 275]

‚Ég gef ávöxt varanna.‘