Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva — ‚réttlátur Guð og hjálpari‘

Jehóva — ‚réttlátur Guð og hjálpari‘

6. kafli

Jehóva — ‚réttlátur Guð og hjálpari‘

Jesaja 45:1-25

1, 2. Hvaða loforð eru gefin í 45. kafla Jesajabókar og hvaða spurningar verður fjallað um?

 LOFORÐ Jehóva eru áreiðanleg. Hann er Guð sem opinberar leynda hluti og hann er skapari allra hluta. Hann hefur margsannað að hann er réttlátur Guð og hjálpari fólks af öllum þjóðum. Þetta er eitt af uppörvandi loforðum hans í 45. kafla Jesajabókar.

2 Auk þessa er þar að finna athyglisvert dæmi um spádómsgáfu Jehóva. Með anda sínum lætur hann Jesaja sjá fjarlæg lönd og virða fyrir sér atburði komandi alda, og fær hann til að lýsa atburðum sem enginn nema Jehóva, Guð sannra spádóma, getur sagt nákvæmlega fyrir. Hvaða atburðir eru þetta? Hvaða áhrif hafa þeir á þjóð Guðs á dögum Jesaja? Hvaða þýðingu hafa þeir fyrir okkur? Við skulum rýna í orð spámannsins.

Dómur Jehóva yfir Babýlon

3. Hvernig lýsir Jesaja 45:1-3a sigri Kýrusar?

3 „Svo segir [Jehóva] við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð: Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar. Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi.“ — Jesaja 45:1-3a.

4. (a) Af hverju kallar Jehóva Kýrus „sinn smurða“? (b) Hvernig ætlar Jehóva að tryggja Kýrusi sigur?

4 Jehóva talar til Kýrusar í spádóminum eins og hann sé lifandi þó að hann sé reyndar enn ekki fæddur á dögum Jesaja. (Rómverjabréfið 4:17) Þar eð Jehóva skipar Kýrus fyrir fram til að vinna ákveðið verk má kalla Kýrus ‚smurðan‘ þjón hans. Undir handleiðslu Guðs mun hann leggja að velli þjóðir og veikla konunga svo að þeir geta ekki veitt viðnám. Þegar Kýrus ræðst síðan á Babýlon sér Jehóva til þess að borgarhliðin verði opin; þau gera jafnlítið gagn og væru þau brotin. Hann gengur á undan Kýrusi og jafnar allar hindranir. Hersveitir Kýrusar vinna að lokum borgina og leggja hald á ‚fólgna dýrgripi‘ hennar, fjársjóðina sem huldir eru í dimmum fjárhirslunum. Jesaja spáir þessu. Rætast orð hans?

5, 6. Hvenær og hvernig rættist spádómurinn um fall Babýlonar?

5 Árið 539 f.o.t., um 200 árum eftir að Jesaja skráir þennan spádóm, er Kýrus kominn upp að múrum Babýlonar til að ráðast á borgina. (Jeremía 51:11, 12) En Babýloníumenn telja borgina ósigrandi og eru óhræddir. Himinhár múrinn gnæfir yfir djúpum borgarsíkjum. Síkin eru tengd Efratfljótinu og hvort tveggja er hluti af varnarkerfi borgarinnar. Í meira en hundrað ár hefur engum tekist að vinna Babýlon með áhlaupi! Belsasar, sem situr að völdum í Babýlon á þeim tíma, er svo öruggur með sig að hann situr að veislu með hirðmönnum sínum. (Daníel 5:1) Þessa nótt, hinn 5./6. október, vinnur Kýrus stórsnjallan hernaðarsigur.

6 Liðsmenn Kýrusar hafa grafið gegnum bakka Efratar nokkru ofan við Babýlon og veitt henni úr farvegi hennar svo að vatnið rennur ekki lengur suður til borgarinnar. Fljótlega lækkar svo í ánni þar sem hún rennur um Babýlon og næsta nágrenni að hermenn Kýrusar geta vaðið eftir farveginum inn í hjarta borgarinnar. (Jesaja 44:27; Jeremía 50:38) Svo furðulegt sem það er standa borgarhliðin meðfram ánni opin eins og Jesaja hafði spáð. Hersveitir Kýrusar flykkjast inn í Babýlon, taka höllina og drepa Belsasar konung. (Daníel 5:30) Borgin er unnin á einni nóttu. Babýlon er fallin og spádómurinn hefur ræst í einu og öllu.

7. Hvernig styrkir það kristna menn að rifja upp hina einstæðu uppfyllingu spádómsins um Kýrus?

7 Nákvæm uppfylling þessa spádóms er trústyrkjandi fyrir kristna menn. Hún gefur þeim sterkt tilefni til að trúa að þeir biblíuspádómar, sem hafa ekki ræst enn þá, séu algerlega áreiðanlegir líka. (2. Pétursbréf 1:20, 21) Dýrkendur Jehóva vita að „Babýlon hin mikla“ féll árið 1919 og að fall Babýlonar árið 539 f.o.t. var fyrirboði þess. En þeir horfa fram til þess að trúarskipulagi nútímans verði gereytt, stjórnmálakerfið undir stjórn Satans fjarlægt eins og heitið er, Satan fjötraður í undirdjúpi og nýr himinn og ný jörð renni upp. (Opinberunarbókin 18:2, 21; 19:19-21; 20:1-3, 12, 13; 21:1-4) Þeir vita að spádómar Jehóva eru ekki innantóm loforð heldur lýsingar á atburðum sem eiga eftir að gerast. Það styrkir trú sannkristinna manna að rifja upp hvernig spádómur Jesaja um fall Babýlonar rættist í smáatriðum. Þeir vita að Jehóva stendur alltaf við orð sín.

Jehóva sýnir Kýrusi velvild áfram

8. Nefndu eina ástæðu fyrir því að Jehóva veitir Kýrusi sigur yfir Babýlon.

8 Eftir að Jehóva er búinn að upplýsa hver skuli vinna Babýlon og hvernig, tiltekur hann eina ástæðu fyrir því að Kýrus fær að gera það. Hann talar spádómlega til Kýrusar og segir að það sé til þess að hann „kannist við, að það er ég, [Jehóva], sem kalla þig með nafni þínu, ég Ísraels Guð.“ (Jesaja 45:3b) Það er viðeigandi að stjórnandi fjórða heimsveldis biblíusögunnar viðurkenni að hann á stærsta sigur sinn að þakka öðrum og sér meiri, það er að segja Alheimsdrottni, Jehóva. Kýrus ætti að viðurkenna að það er Jehóva, Guð Ísraels, sem kallar hann til starfa. Ljóst er af Biblíunni að Kýrus viðurkenndi að hann ætti þennan mikla sigur Jehóva að þakka. — Esrabók 1:2, 3.

9. Nefndu aðra ástæðu fyrir því að Jehóva lætur Kýrus vinna Babýlon.

9 Jehóva tiltekur aðra ástæðu fyrir því að hann lætur Kýrus vinna Babýlon: „Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki.“ (Jesaja 45:4) Fall Babýlonar fyrir Kýrusi er stórviðburður á vettvangi heimsmála. Hann markar þau tímamót að eitt heimsveldi fellur og annað rís, og hann setur mark sitt á sögu komandi kynslóða. En grannþjóðirnar, sem fylgjast kvíðnar með þessum atburðum, yrðu líklega steini lostnar ef þær vissu að allt þetta gerðist vegna nokkur þúsund „ómerkilegra“ útlaga í Babýlon — Gyðinganna, afkomenda Jakobs. En í augum Jehóva eru eftirlifandi Ísraelsmenn alls ekkert ómerkilegir. Þeir eru ‚þjónn‘ hans. Þeir eru ‚útvaldir‘ úr öllum þjóðum jarðar. Jafnvel þótt Kýrus hafi ekki þekkt Jehóva áður notar Jehóva hann sem smurðan þjón sinn til að vinna borgina sem neitaði að sleppa föngum sínum. Það er ekki ætlun Guðs að láta útvalda þjóð sína veslast upp á erlendri grund.

10. Hver er þýðingarmesta ástæðan fyrir því að Jehóva notar Kýrus til að ráða niðurlögum babýlonska heimsveldisins?

10 En það er enn ein og þýðingarmeiri ástæða fyrir því að Jehóva notar Kýrus til að vinna Babýlon. Hann segir: „Ég er [Jehóva] og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég. Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki, svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég. Ég er [Jehóva] og enginn annar.“ (Jesaja 45:5, 6) Fall babýlonska heimsveldisins er óræk sönnun fyrir guðdómi Jehóva, skýr vitnisburður þess að hann einn er tilbeiðsluverður. Þar eð þjóð Guðs er sleppt úr haldi mun fólk af mörgum þjóðum, bæði í austri og vestri, viðurkenna að Jehóva er hinn eini sanni Guð. — Malakí 1:11.

11. Hvernig lýsir Jehóva mætti sínum til að láta ásetning sinn varðandi Babýlon ná fram að ganga?

11 Höfum hugfast að þessi spádómur Jesaja var borinn fram um 200 árum áður en þetta gerðist. Margir hafa eflaust velt fyrir sér þegar þeir heyrðu hann hvort Jehóva væri virkilega nógu máttugur til að láta hann rætast. Sagan ber vitni um að hann er það. Jehóva bendir á hvers vegna það sé skynsamlegt að trúa því að hann geti gert það sem hann segist ætla að gera: „Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill og veld óhamingju. Ég er [Jehóva], sem gjöri allt þetta.“ (Jesaja 45:7) Allt í sköpuninni — frá ljósi til myrkurs — og allt í sögunni — frá heill til óhamingju — er á valdi hans. Hann mun skapa Ísrael heill og Babýlon óhamingju, líkt og hann skapar dagsljós og náttmyrkur. Hann er nógu máttugur til að skapa alheiminn og hann er líka nógu máttugur til að uppfylla spádóma sína. Þetta er hughreystandi fyrir kristna menn nú á tímum sem grannskoða spádómsorð hans.

12. (a) Hvað lætur Jehóva táknrænan himin og jörð bera fram? (b) Hvaða hughreystandi fyrirheit fyrir kristna menn er að finna í Jesaja 45:8?

12 Jehóva notar hversdagslega atburði til að lýsa því sem bíður Gyðinga í ánauðinni: „Drjúpið, þér himnar, að ofan, og láti skýin réttlæti niður streyma. Jörðin opnist og láti hjálpræði fram spretta og réttlæti blómgast jafnframt. Ég, [Jehóva], kem því til vegar.“ (Jesaja 45:8) Jehóva ætlar að láta réttlæti rigna yfir fólk sitt af táknrænum himni ofan, líkt og regn fellur af himni í bókstaflegri merkingu. Og rétt eins og jörðin opnast og ber ríkulegan ávöxt, eins mun hann láta spretta fram atburði á hinni táknrænu jörð í samræmi við réttlátan ásetning sinn. Hann ætlar að frelsa fangna þjóð sína frá Babýlon. Árið 1919 lét Jehóva ‚himin‘ og ‚jörð‘ bera fram hliðstæða atburði til frelsunar fólki sínu. Kristnir menn fagna því mjög vegna þess að þessir atburðir styrkja trú þeirra meðan þeir bíða þess að Guðsríki, hinn táknræni himinn, úthelli blessun yfir réttláta jörð í fyllingu tímans. Réttlætið og hjálpræðið, sem streymir af táknrænum himni og sprettur af táknrænni jörð, verður margfalt meira en þegar Forn-Babýlon féll. Lokauppfylling orða Jesaja verður stórfengleg. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1.

Að virða drottinvald Jehóva er til blessunar

13. Af hverju er það fáránlegt að menn véfengi ásetning Jehóva?

13 Eftir að hafa lýst gleði og blessun framtíðarinnar skiptir snögglega um tón í spádóminum. Jesaja boðar nú tvíþætt vei: „Vei þeim, sem þráttar við skapara sinn, sjálfur leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar! Hvort má leirinn segja við leirmyndarann: ‚Hvað getur þú?‘ eða handaverk hans: ‚Hann hefir engar hendur.‘ Vei þeim, sem segir við föður sinn: ‚Hvað munt þú fá getið!‘ eða við konuna: ‚Hvað ætli þú getir fætt!‘“ (Jesaja 45:9, 10) Ísraelsmenn virðast taka spádóma Jehóva óstinnt upp. Kannski trúa þeir ekki að hann leyfi að þjóðin verði send í útlegð. Kannski mislíkar þeim að konungur heiðinnar þjóðar skuli eiga að frelsa Ísrael en ekki konungur af ætt Davíðs. Jesaja tekur dæmi til að sýna fram á hve fáránleg slík mótmæli séu og líkir mótmælendunum við leirmola og leirbrot sem myndu ekki voga sér að véfengja visku leirkerasmiðsins. Handaverk leirkerasmiðsins halda því fram að hann hafi hvorki hendur né kraft til að móta leirinn. Það er fáránlegt! Mótmælendurnir eru eins og smákrakkar sem voga sér að gagnrýna forræði foreldra sinna.

14, 15. Hvað segir það um Jehóva að hann er ‚heilagur‘ og hefur „myndað“ alla hluti?

14 Jesaja flytur þeim svar Jehóva: „Svo segir [Jehóva], Hinn heilagi í Ísrael og sá er hann hefir myndað: Spyrjið mig um hið ókomna og felið mér að annast sonu mína og verk handa minna! Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her. Ég hefi vakið hann upp í réttlæti og ég mun greiða alla hans vegu. Hann skal byggja upp borg mína og gefa útlögum mínum heimfararleyfi, og það án endurgjalds og án fégjafa, — segir [Jehóva] allsherjar.“ — Jesaja 45:11-13.

15 Hér er lögð áhersla á að Jehóva er heilagur. Hann er skapari allra hluta og hefur þann rétt að ákveða framvindu mála. Hann getur upplýst Ísraelsmenn um það sem framundan er og annast handaverk sitt, það er að segja þjóð sína. Enn og aftur er bent á tengsl sköpunar og opinberunar. Sem skapari alheims hefur Jehóva rétt til að stýra málum á þann veg sem hann ákveður. (1. Kroníkubók 29:11, 12) Hér er það til umræðu að alvaldur Drottinn hefur ákveðið að vekja upp heiðinn valdhafa, Kýrus, til að frelsa Ísrael. Það er jafnöruggt að Kýrus kemur eins og til er himinn og jörð. Hvaða Ísraelsmaður vogar sér þá að gagnrýna föðurinn, ‚Jehóva allsherjar‘?

16. Af hverju ættu þjónar Jehóva að vera honum undirgefnir?

16 Í þessum sömu versum er bent á aðra ástæðu fyrir því að þjónar Guðs eigi að vera honum undirgefnir. Ákvarðanir hans eru alltaf til heilla fyrir þjóna hans. (Jobsbók 36:3) Hann setti lög til að kenna mönnum að gera sjálfum sér gagn. (Jesaja 48:17) Gyðingar, sem viðurkenna drottinvald Jehóva á dögum Kýrusar, komast að raun um það. Kýrus sendir þá heim frá Babýlon í samræmi við réttlæti Jehóva svo að þeir geti endurreist musterið. (Esrabók 6:3-5) Nú á dögum njóta menn líka blessunar ef þeir fara eftir lögum Guðs dags daglega og lúta drottinvaldi hans. — Sálmur 1:1-3; 19:7; 119:105; Jóhannes 8:31, 32.

Blessun handa öðrum þjóðum

17. Hverjir aðrir en Ísraelsmenn njóta góðs af björgunarverki Jehóva og hvernig?

17 Ísraelsmenn eru ekki eina þjóðin sem nýtur góðs af falli Babýlonar. Jesaja segir: „Svo segir [Jehóva]: Auður [„Kauplausir verkamenn,“ NW] Egyptalands og verslunargróði [„kaupmenn,“ NW] Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: ‚Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð.‘“ (Jesaja 45:14) „Mikill fjöldi af alls konar lýð“ yfirgaf Egyptaland með Ísraelsmönnum á dögum Móse. (2. Mósebók 12:37, 38) Útlendingar munu sömuleiðis slást í för með Gyðingum er þeir snúa heim frá Babýlon. Þeir „ganga til“ Ísraelsmanna af eigin hvötum, ótilneyddir. Orðin „þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig“ lýsa fúsri undirgefni og tryggð þessara útlendinga við Ísrael. Ef þeir bera fjötra gera þeir það ótilneyddir til tákns um vilja sinn til að þjóna sáttmálaþjóð Guðs. Og þeir segja: „Guð er hjá þér.“ Þeir munu tilbiðja Jehóva sem trúskiptingar eins og gert er ráð fyrir í sáttmálanum við Ísrael. — Jesaja 56:6.

18. Hverjir hafa notið góðs af frelsun ‚Ísraels Guðs‘ á okkar dögum og hvernig?

18 „Ísrael Guðs“ var leystur úr andlegri ánauð árið 1919, og þaðan í frá hafa orð Jesaja ræst í enn mikilfenglegri mæli en á dögum Kýrusar. Milljónir manna um heim allan sýna vilja til að þjóna Jehóva. (Galatabréfið 6:16; Sakaría 8:23) Líkt og ‚verkamennirnir‘ og ‚kaupmennirnir,‘ sem Jesaja nefnir, bjóða þeir fúslega fram krafta sína og fjármuni til að styðja sanna tilbeiðslu. (Matteus 25:34-40; Markús 12:30) Þeir vígjast Guði, ganga á vegi hans og gerast fúslega þjónar hans. (Lúkas 9:23) Þeir tilbiðja Jehóva einan og njóta góðs af því að umgangast ‚trúan og hygginn þjón‘ hans sem er í sérstöku sáttmálasambandi við hann. (Matteus 24:45-47; 26:28; Hebreabréfið 8:8-13) ‚Verkamennirnir‘ og ‚kaupmennirnir‘ eru ekki aðilar að sáttmálanum en njóta góðs af honum og hlýða þeim lögum sem fylgja honum. Þeir segja djarfmannlega: ‚Enginn annar er Guð.‘ Það er hrífandi að sjá hve gríðarlega stuðningsmönnum sannrar tilbeiðslu hefur fjölgað. — Jesaja 60:22.

19. Hvað verður um þá sem halda áfram að dýrka skurðgoð?

19 Eftir að spámaðurinn hefur upplýst að menn af þjóðunum taki að tilbiðja Jehóva hrópar hann upp yfir sig: „Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari!“ (Jesaja 45:15) Jehóva mun ekki hylja sig í framtíðinni þó svo að hann stilli sig núna um að sýna mátt sinn. Þá mun hann sýna sig vera Guð Ísraels og frelsara fólks síns. En hann mun ekki reynast frelsari þeirra sem treysta á skurðgoð. Jesaja segir um slíka menn: „Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir.“ (Jesaja 45:16) Auðmýking þeirra verður meira en stundleg skammarkennd eða háðung. Þeir farast, gagnstætt því sem Jehóva lofar Ísrael í framhaldinu.

20. Hvernig mun Ísrael hljóta ‚eilífa frelsun‘?

20 „En Ísrael frelsast fyrir [Jehóva] eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu.“ (Jesaja 45:17) Jehóva lofar Ísrael eilífri frelsun en hún er því skilyrði háð að þjóðin haldi sig við hann. Þegar Ísraelsmenn slíta þessu sambandi með því að hafna Jesú sem Messíasi glata þeir voninni um ‚eilífa frelsun.‘ En sumir Ísraelsmenn munu iðka trú á Jesú og verða kjarni Ísraels Guðs sem tekur við af hinni bókstaflegu þjóð. (Matteus 21:43; Galatabréfið 3:28, 29; 1. Pétursbréf 2:9) Hinn andlegi Ísrael verður aldrei auðmýktur heldur er gerður við hann ‚eilífur sáttmáli.‘ — Hebreabréfið 13:20.

Jehóva er áreiðanlegur í sköpun og opinberun

21. Hvernig sýnir Jehóva fram á að hann sé fullkomlega áreiðanlegur í sköpun og opinberun?

21 Geta Gyðingar reitt sig á loforð Jehóva um eilíft hjálpræði handa Ísrael? Jesaja svarar: „Já, svo segir [Jehóva], sá er himininn hefir skapað — hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er [Jehóva], og enginn annar. Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: ‚Leitið mín út í bláinn!‘ Ég, [Jehóva], tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.“ (Jesaja 45:18, 19) Í fjórða og síðasta sinn í þessum kafla hefst mikilvægur spádómur á formálsorðunum: ‚Svo segir Jehóva.‘ (Jesaja 45:1, 11, 14) Og hvað segir Jehóva? Að hann sé bæði áreiðanlegur í sköpun og opinberun. Hann skapaði ekki jörðina „til þess, að hún væri auðn.“ Hann biður ekki heldur Ísraelsmenn að leita sín „út í bláinn.“ Ásetningur hans með fólk sitt nær fram að ganga alveg eins og ásetningur hans með jörðina. Orð hans eru flutt opinberlega, ólíkt óskýrum orðum falsguðadýrkenda. Orð hans eru rétt og munu rætast. Þjónar hans þjóna honum ekki til einskis.

22. (a) Hverju mega Gyðingarnir í útlegðinni treysta? (b) Hverju geta kristnir menn treyst?

22 Þessi orð fullvissa útlæga þjóð Guðs í Babýlon um að fyrirheitna landið liggi ekki í eyði um aldur og ævi heldur verði endurbyggt. Og loforð Jehóva rætist. Í víðari skilningi eru orð Jesaja loforð til fólks Guðs nú á tímum um það að jörðin verði ekki að óbyggilegri auðn — sviðin í eldi eins og sumir halda eða eyðilögð í kjarnorkubáli eins og aðrir óttast. Það er ásetningur Guðs að jörðin standi að eilífu, íklædd paradísarfegurð og byggð réttlátum mönnum. (Sálmur 37:11, 29; 115:16; Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:3, 4) Orð Jehóva munu rætast eins og þau rættust á Ísrael.

Jehóva býður fram miskunn sína

23. Hvernig fer fyrir skurðgoðadýrkendum og hvernig farnast þeim sem tilbiðja Jehóva?

23 Í framhaldinu leggur Jehóva áherslu á frelsun Ísraels: „Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað. Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan! Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, [Jehóva], ekki gjört það? Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur [„réttlátur,“ NW] Guð og hjálpari til.“ (Jesaja 45:20, 21) Jehóva segir ‚þeim sem undan hafa komist‘ að bera frelsun sína saman við örlög skurðgoðadýrkendanna. (5. Mósebók 30:3; Jeremía 29:14; 50:28) Skurðgoðadýrkendur eru „skynlausir“ af því að þeir þjóna og biðja til máttlausra guða sem geta ekki frelsað þá. Dýrkun þeirra er algerlega til einskis. En dýrkendur Jehóva komast að raun um að hann getur komið til leiðar því sem hann boðaði „frá öndverðu,“ þar á meðal frelsun þeirra úr útlegðinni í Babýlon. Þessi máttur og þessi framsýni greinir Jehóva frá öllum öðrum guðum. Hann er ‚réttlátur Guð og hjálpari.‘

„Hjálpræðið heyrir til Guði vorum“

24, 25. (a) Hvað býður Jehóva Ísraelsmönnum og af hverju rætist loforð hans örugglega? (b) Hvers krefst Jehóva réttilega?

24 Jehóva er miskunnsamur og býður eftirfarandi: „Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar. Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað. ‚Hjá [Jehóva] einum,‘ mun um mig sagt verða, ‚er réttlæti og vald.‘ Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín. Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir [Jehóva] og miklast af honum.“ — Jesaja 45:22-25.

25 Jehóva lofar Ísrael því að frelsa þá sem eru í Babýlon og snúa sér til hans. Þessi spádómur getur ekki brugðist af því að Jehóva bæði langar til að frelsa fólk sitt og getur það. (Jesaja 55:11) Orð hans eru áreiðanleg sem slík, hvað þá ef hann staðfestir þau með eiði. (Hebreabréfið 6:13) Hann krefst réttilega undirgefni (‚sérhvert kné skal beygja sig‘) og hollustu (‚sérhver tunga skal sverja mér trúnað‘) af þeim sem þrá hylli hans. Þeir Ísraelsmenn, sem halda áfram að tilbiðja hann, munu bjargast og eru hreyknir af því sem hann gerir fyrir þá. — 2. Korintubréf 10:17.

26. Hvernig bregst „mikill múgur“ af öllum þjóðum við boði Jehóva um að snúa sér til hans?

26 En boð Guðs til útlægra Gyðinga í Babýlon um að þeir snúi sér til hans nær til fleiri en þeirra. (Postulasagan 14:14, 15; 15:19; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Boðið stendur enn. „Mikill múgur . . . af alls kyns fólki“ þiggur það og segir: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum . . . og lambinu [Jesú].“ (Opinberunarbókin 7:9, 10; 15:4) Á hverju ári bætast við múginn mikla hundruð þúsunda manna sem snúa sér til Guðs, viðurkenna drottinvald hans og játa honum opinberlega hollustu sína. Auk þess styðja þeir dyggilega hinn andlega Ísrael sem eru „niðjar Abrahams.“ (Galatabréfið 3:29) Þeir lýsa yfir ást sinni á réttlátri stjórn Jehóva og boða um víða veröld að ‚hjá Jehóva einum sé réttlæti og vald.‘ * Í Rómverjabréfinu vitnar Páll í Jesaja 45:23 í Sjötíumannaþýðingunni til að sýna fram á að sá tími komi er allir lifandi menn viðurkenni drottinvald Guðs og lofi nafn hans stöðuglega. — Rómverjabréfið 14:11; Filippíbréfið 2:9-11; Opinberunarbókin 21:22-27.

27. Af hverju geta kristnir menn treyst algerlega á fyrirheit Jehóva?

27 Af hverju getur múgurinn mikli treyst því að þeir bjargist sem snúa sér til Guðs? Af því að loforð Jehóva eru áreiðanleg eins og spádómsorðin í Jesaja 45. kafla sýna greinilega. Jehóva bjó yfir mætti og visku til að skapa himin og jörð, og hann er nógu máttugur og vitur til að láta spádóma sína rætast. Og hann á eftir að uppfylla alla aðra biblíuspádóma, sem bíða uppfyllingar, alveg eins og hann sá til þess að spádómurinn um Kýrus rættist. Dýrkendur Jehóva geta þess vegna treyst því að hann reynist innan skamms ‚réttlátur Guð og hjálpari‘ eins og áður.

[Neðanmáls]

^ gr. 26 Nýheimsþýðingin segir „fullkomið réttlæti“ af því að orðið „réttlæti“ stendur í fleirtölu í hebreska textanum. Fleirtalan er notuð til að lýsa því hve ríkulegt réttlæti Jehóva er.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 80, 81]

Jehóva, sem myndar ljósið og framleiðir myrkrið, getur veitt heill og valdið óhamingju.

[Mynd á blaðsíðu 83]

Jehóva lætur rigna blessun af ‚himni‘ og spretta frelsun af ‚jörð.‘

[Mynd á blaðsíðu 84]

Ættu leirbrot að véfengja visku leirkerasmiðsins?

[Mynd á blaðsíðu 89]

Jehóva skapaði ekki jörðina til þess að hún væri auðn.