Jehóva upphefur þjón sinn, Messías
14. kafli
Jehóva upphefur þjón sinn, Messías
1, 2. (a) Í hvaða aðstöðu voru margir Gyðingar á fyrri hluta fyrstu aldar? (b) Hvað hafði Jehóva gert til að trúaðir Gyðingar gætu borið kennsl á Messías?
ÍMYNDAÐU þér að þú eigir að hitta háttsettan tignarmann. Það er búið að ákveða stað og stund. En þú átt við vanda að glíma: Þú þekkir hann ekki í sjón og hann kemur í kyrrþey án þess að vekja á sér athygli. Hvernig áttu að bera kennsl á hann? Það kæmi sér óneitanlega vel að hafa ítarlega lýsingu á honum.
2 Margir Gyðingar stóðu í svipuðum sporum á fyrri hluta fyrstu aldar. Þeir áttu von á Messíasi — mikilvægasta manni sögunnar. (Daníel 9:24-27; Lúkas 3:15) En hvernig áttu trúfastir Gyðingar að þekkja hann? Jehóva hafði látið hina hebresku spámenn gefa ítarlega lýsingu á atburðum sem myndu eiga sér stað í tengslum við komu hans, og hún átti að duga glöggum manni til að bera örugglega kennsl á hann.
3. Hvaða lýsing er gefin á Messíasi í Jesaja 52:13–53:12?
3 Skýrustu myndina af Messíasi er líklega að finna í spádóminum í Jesaja 52:13–53:12 sem var borinn fram meira en 700 árum áður en hann rættist. Jesaja lýsir ekki útliti Messíasar heldur þýðingarmeiri atriðum — þjáningum hans og tilgangi þeirra og ýmsu varðandi dauða hans, greftrun og upphafningu. Okkur hlýnar um hjartarætur og við styrkjum trúna með því að rannsaka spádóminn og uppfyllingu hans.
„Þjónn minn“ — hver er hann?
4. Hvaða hugmyndir hafa sumir fræðimenn Gyðinga haft um ‚þjóninn‘ en hvers vegna geta þær ekki verið réttar?
4 Jesaja er nýbúinn að segja frá lausn Gyðinga úr ánauðinni í Babýlon. Nú horfir hann fram til mun merkari atburðar og skráir eftir Jehóva: „Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.“ (Jesaja 52:13) Hver er þessi „þjónn“? Fræðimenn Gyðinga höfðu ýmsar skoðanir á því í aldanna rás. Sumir sögðu að hann táknaði alla Ísraelsþjóðina á útlegðartímanum í Babýlon. En það kemur ekki heim og saman við spádóminn. Þjónn Guðs þjáist af fúsu geði. Hann líður saklaus fyrir syndir annarra. Það lýsir tæplega Gyðingum sem fóru í útlegð vegna eigin synda. (2. Konungabók 21:11-15; Jeremía 25:8-11) Sumir héldu því fram að þjónninn táknaði hina sjálfbirgingslegu hefðarstétt Ísraels og það að hún hefði þjáðst fyrir synduga Ísraelsmenn. En enginn sérstakur hópur leið fyrir annan á þrengingatíma Ísraels.
5. (a) Hvernig skildu sumir fræðimenn Gyðinga spádóm Jesaja? (Sjá neðanmálsgrein.) (b) Hvern segir Postulasagan þjóninn vera?
5 Fáeinir fræðimenn Gyðinga heimfærðu þennan spádóm á Messías fyrir tilkomu kristninnar og eitthvað var einnig um það á fyrstu öldum okkar tímatals. Kristnu Grísku ritningarnar taka af öll tvímæli um það að þetta sé réttur skilningur. Postulasagan segir frá eþíópskum hirðmanni sem sagðist ekki vita hver væri þjónninn í spádómi Jesaja, og Filippus ‚boðaði honum þá fagnaðarerindið um Jesú.‘ (Postulasagan 8:26-40; Jesaja 53:7, 8) Fleiri biblíubækur benda líka á að Jesús Kristur sé þjónninn í spádómi Jesaja, Messías. * Þegar við rannsökum spádóminn sjáum við óyggjandi hliðstæður milli Jesú frá Nasaret og þess sem Jehóva kallar ‚þjón sinn.‘
6. Hvernig kemur fram í spádómi Jesaja að Messíasi takist giftusamlega að gera vilja Guðs?
6 Spádómurinn hefst með lýsingu á hinum endanlega árangri af því að Messías gerir vilja Guðs. Orðið „þjónn“ gefur til kynna að hann lúti vilja Guðs eins og þjónn lýtur vilja húsbónda síns. Spádómurinn segir að hann ‚muni verða giftusamur.‘ Hebreska sögnin lýsir því að sýna innsæi, það er að segja djúpan og næman skilning, og breyta í samræmi við það. Heimildarrit segir um hebresku sögnina: „Meginhugsunin er sú að breyta viturlega og skynsamlega. Sá sem breytir viturlega er giftusamur.“ Og spádómurinn ítrekar að Messías verði giftusamur: „Hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.“
7. Hvernig breytti Jesús Kristur viturlega og hvernig varð hann „mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn“?
7 Jesús sýndi næman skilning á biblíuspádómunum um sig og lét þá leiðbeina sér um vilja föðurins. (Jóhannes 17:4; 19:30) Það hafði í för með sér að ‚Guð hóf hann hátt upp og gaf honum nafnið sem hverju nafni er æðra,‘ eftir að hann var upprisinn og stiginn upp til himna. (Filippíbréfið 2:9; Postulasagan 2:34-36) Árið 1914 hlaut hinn dýrlegi Jesús enn meiri upphefð er Jehóva setti hann í hásæti sem konung messíasarríkisins. (Opinberunarbókin 12:1-5) Já, hann varð „mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.“
„Agndofa af skelfingu“
8, 9. Hver verða viðbrögð jarðneskra valdhafa er hinn upphafni Jesús kemur til að fullnægja dómi, og hvers vegna?
8 Hvernig bregðast þjóðir og valdhafar við upphafningu Messíasar? Við skulum í bili hlaupa yfir innskotið í síðari hluta 14. versins. Spádómurinn segir: „Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum . . . eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.“ (Jesaja 52:14a, 15) Hér er Jesaja ekki að lýsa fyrri komu Messíasar heldur lokaviðureign hans við jarðneska valdhafa.
9 Valdhafar jarðar verða „agndofa af skelfingu“ er hinn upphafni Jesús kemur til að fullnægja dómi á þessu óguðlega heimskerfi. Auðvitað sjá þeir ekki Jesú bókstaflega heldur sjá þeir hin sýnilegu merki um vald hans sem himneskur stríðsmaður Jehóva. (Matteus 24:30) Þeir neyðast þá til að gefa gaum að máli sem þeir hafa aldrei heyrt trúarleiðtoga minnast á — að Jesús komi til að fullnægja dómi Guðs. Þeir kynnast því óvæntri hlið á hinum upphafna þjóni.
10, 11. Hvernig er hægt að segja að Jesús hafi verið afskræmdur á fyrstu öldinni og hvernig er hann afskræmdur núna?
10 Innskotssetningin í 14. versinu hljóðar þannig: „Svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum.“ (Jesaja 52:14b) Var Jesús líkamlega afskræmdur á einhvern hátt? Nei, þó að Biblían segi fátt um útlit hans hlýtur fullkominn sonur Guðs að hafa verið myndarlegur í útliti. Jesaja er greinilega að lýsa þeirri auðmýkingu sem Jesús verður fyrir. Djarfmannlega afhjúpaði hann trúarleiðtoga samtíðarinnar og kallaði þá hræsnara, lygara og morðingja, og þeir brugðust ókvæða við og svívirtu hann. (1. Pétursbréf 2:22, 23) Þeir sökuðu hann um lögmálsbrot, guðlast, blekkingar og undirróður gegn Róm. Ásakanirnar voru alrangar og gáfu afskræmda mynd af Jesú.
11 Jesús er afskræmdur enn þann dag í dag. Flestir sjá hann fyrir sér sem ungbarn í jötu eða sem sárþjáðan mann á krossi með þyrnikórónu á höfði, afskræmdan af kvölum. Klerkar kristna heimsins hafa ýtt undir þessa ímynd. Þeir hafa ekki lýst Jesú sem himneskum konungi er þjóðirnar þurfi að standa reikningsskap. Þegar mennskir valdhafar standa frammi fyrir Jesú í náinni framtíð eiga þeir í höggi við Messías sem fer með ‚allt vald á himni og jörð.‘ — Matteus 28:18.
Hverjir trúa þessum gleðifréttum?
12. Hvaða forvitnileg spurning vaknar vegna orðanna í Jesaja 53:1?
12 Eftir að Jesaja hefur lýst hinni undraverðu breytingu á Messíasi, frá ‚afskræmingu‘ til ‚upphafningar,‘ spyr hann: „Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur [Jehóva] opinber?“ (Jesaja 53:1) Þessi orð spámannsins vekja forvitnilega spurningu: Rætist spádómurinn? Á ‚armleggur Jehóva,‘ sem táknar að hann geti beitt mætti sínum, eftir að opinberast og uppfylla þessi orð?
13. Hvernig sýndi Páll fram á að spádómur Jesaja hafi ræst á Jesú og hvernig brugðust menn við því?
13 Svarið er tvímælalaust já. Í Rómverjabréfinu vitnar Páll í orð Jesaja til að sýna fram á að spádómurinn, sem Jesaja heyrði og skráði, hafi ræst á Jesú. Upphafning Jesú eftir þjáningarnar á jörð voru gleðifréttir. „En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu,“ segir Páll og á þar við Gyðingana sem trúðu ekki. „Jesaja segir: ‚[Jehóva], hver trúði því, sem vér boðuðum?‘ Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.“ (Rómverjabréfið 10:16, 17) Því miður trúðu fáir samtíðarmenn Páls á gleðifréttirnar um þjón Guðs. Af hverju?
14, 15. Lýstu uppruna og tilkomu Messíasar hér á jörð.
14 Spádómurinn bendir Ísraelsmönnum því næst á ástæðuna fyrir spurningunni í 1. versi og varpar um leið ljósi á ástæðuna fyrir því að margir hafna Messíasi: „Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti [þeirra sem til sjá] og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann.“ (Jesaja 53:2) Hér er lýst uppruna og tilkomu Messíasar á jörð. Hann á að vera af lágum stéttum og þeir sem til sjá geta varla ímyndað sér að nokkuð verði úr honum. Hann verður eins og viðkvæmur viðarteinungur sem sprettur af trjástofni eða grein, eins og vatnsháð rót í þurrum og ófrjóum jarðvegi. Og hann á ekki að koma með konunglegri viðhöfn og glæsibrag — ekki í skrautklæðum eða með glitkórónu á höfði. Koma hans er látlaus og fábrotin.
15 Þetta er mjög nákvæm lýsing á látlausri tilkomu Jesú hér á jörð. Gyðingameyjan María fæddi hann í gripahúsi í lítt þekktum bæ sem Betlehem hét. * (Lúkas 2:7; Jóhannes 7:42) María og Jósef, eiginmaður hennar, voru fátæk. Um 40 dögum eftir fæðingu Jesú færðu þau „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“ í syndafórn, en það var sú fórn sem fátæklingum leyfðist að færa. (Lúkas 2:24; 3. Mósebók 12:6-8) María og Jósef settust síðar að í Nasaret þar sem Jesús ólst upp í barnmargri fjölskyldu, trúlega við fátækleg kjör. — Matteus 13:55, 56.
16. Hvernig má segja að Jesús hafi hvorki verið „fagur“ né „glæsilegur“?
16 Það var eins og maðurinn Jesús væri ekki sprottinn úr réttum jarðvegi. (Jóhannes 1:46; 7:41, 52) Þótt hann væri fullkominn og væri afkomandi Davíðs konungs bjó hann við svo fábrotin kjör að hann gat hvorki talist „fagur“ né „glæsilegur“ — að minnsta kosti ekki í augum þeirra sem bjuggust við Messíasi af mun glæsilegri uppruna. Mörgum sást yfir hann og margir jafnvel fyrirlitu hann að áeggjan trúarleiðtoganna. Að síðustu gat mannfjöldinn ekki séð neitt álitlegt við fullkominn son Guðs. — Matteus 27:11-26.
‚Fyrirlitinn og menn forðuðust hann‘
17. (a) Hverju lýsir Jesaja og af hverju skrifar hann í þátíð? (b) Hverjir ‚fyrirlitu‘ Jesú og ‚forðuðust‘ hann, og hvernig gerðu þeir það?
17 Jesaja lýsir nú í smáatriðum hvernig litið verði á Messías og með hann farið: „Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.“ (Jesaja 53:3) Jesaja er svo viss um að orð sín rætist að hann skrifar í þátíð, eins og þau séu búin að rætast. Var Jesús Kristur raunverulega fyrirlitinn og forðuðust menn hann? Já, svo sannarlega. Sjálfumglaðir trúarleiðtogar og fylgjendur þeirra álitu hann auvirðilegastan allra. Þeir sökuðu hann um að vingast við skækjur og tollheimtumenn. (Lúkas 7:34, 37-39) Þeir hræktu í andlit honum, slógu hann með hnefunum og formæltu honum. Þeir hæddu hann og spottuðu. (Matteus 26:67) Þessir óvinir sannleikans komu því til leiðar að „hans eigin menn tóku ekki við honum.“ — Jóhannes 1:10, 11.
18. Í hvaða skilningi var Jesús „harmkvælamaður og kunnugur þjáningum“ þar eð hann veiktist aldrei?
18 Jesús var fullkominn og veiktist aldrei. Þó er hann kallaður „harmkvælamaður og kunnugur þjáningum.“ Harmkvælin og þjáningarnar voru ekki hans eigin því að hann kom frá himnum inn í sjúkan heim. Hann bjó meðal kvalinna og þjáðra manna en fyrirleit þá ekki. Líkt og umhyggjusamur læknir kynntist hann vel þjáningum samtíðarmanna sinna, hvort heldur þær voru af líkamlegum toga eða andlegum. Og hann vann afrek sem enginn mennskur læknir getur leikið eftir. — Lúkas 5:27-32.
19. Af hverju byrgðu óvinir Jesú andlit sín fyrir honum og hvernig sýndu þeir að þeir ‚mátu hann einskis‘?
19 En óvinir Jesú álitu hann vera sjúkan og þverneituðu að sjá nokkuð jákvætt við hann. Þeir ‚byrgðu andlit sín‘ fyrir honum. Þeim hryllti við honum, rétt eins og hann væri of viðbjóðslegur til að horfa á hann. Þeir verðlögðu hann eins og þræl. (2. Mósebók 21:32; ) Þeir virtu hann minna en morðingjann Barabbas. ( Matteus 26:14-16Lúkas 23:18-25) Varla gátu þeir sýnt með skýrari hætti að þeir mátu Jesú einskis.
20. Hvernig eru orð Jesaja hughreystandi fyrir þjóna Jehóva nú á tímum?
20 Orð Jesaja eru einkar hughreystandi fyrir trúa þjóna Jehóva nú á tímum sem mega stundum þola fyrirlitningu og lítilsvirðingu andstæðinga sinna. En þeir hugsa líkt og Jesús, að það sé álit Jehóva á þeim sem skipti máli. Þó svo að menn hafi ‚metið Jesú einskis‘ breytti það engu um gildi hans í augum Guðs.
„Særður vegna vorra synda“
21, 22. (a) Hvað tók Messías á sig fyrir aðra? (b) Hvernig litu margir á Messías og hvernig náðu þjáningar hans hámarki?
21 Af hverju þurfti Messías að þjást og deyja? Jesaja svarar: „En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en [Jehóva] lét misgjörð vor allra koma niður á honum.“ — Jesaja 53:4-6.
22 Messías bar þjáningar og harmkvæli annarra. Hann létti byrðar þeirra með því að leggja þær á eigin herðar, ef svo má segja. Og þar eð þjáningarnar og harmkvælin eru afleiðing af syndugu eðli mannsins bar Messías syndir annarra. Margir skildu ekki ástæðuna fyrir þjáningum hans og töldu að Guð væri að refsa honum með því að slá hann andstyggilegum sjúkdómi. * Þjáningar hans náðu hámarki er hann var særður og kraminn. Þetta eru sterk orð og lýsa því að hann hafi verið drepinn með kvalafullum hætti. En dauði hans friðþægir og er forsenda þess að Guð geti endurheimt þá sem eigra um í villu og synd. Dauði hans hjálpar þeim að eignast frið við Guð.
23. Hvernig bar Jesús þjáningar annarra?
23 Hvernig bar Jesús þjáningar annarra? Í Matteusarguðspjalli er vitnað í Jesaja 53:4: „Færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann. Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: ‚Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.‘“ (Matteus 8:16, 17) Jesús tók á sig þjáningar manna með því að lækna þá sem komu til hans haldnir ýmsum sjúkdómum. Og lækningarnar reyndu á krafta hans. (Lúkas 8:43-48) Að Jesús skyldi geta læknað alls konar sjúkdóma — jafnt líkamlega sem andlega — sannaði að hann hafði vald til að hreinsa fólk af syndum þess. — Matteus 9:2-8.
24. (a) Af hverju virtist mörgum sem Guð væri að ‚refsa‘ Jesú? (b) Hvers vegna þjáðist Jesús og dó?
24 En mörgum virtist engu að síður sem Guð væri að ‚refsa‘ Jesú. Var það ekki að undirlagi hinna virtu trúarleiðtoga sem hann þjáðist? En við skulum hafa hugfast að hann drýgði engar syndir sem hann þurfti að líða fyrir. „Kristur leið einnig fyrir yður,“ segir Pétur, „og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. ‚Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.‘ Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.“ (1. Pétursbréf 2:21, 22, 24) Öll vorum við einu sinni glataðir syndarar, eins og „villuráfandi sauðir.“ (1. Pétursbréf 2:25) En Jehóva lét Jesú kaupa okkur lausa frá syndinni. Hann lét syndir okkar „koma niður á honum.“ Jesús var syndlaus en þjáðist fúslega fyrir syndir okkar, og með því að deyja smánardauða á kvalastaur, án saka, gerði hann okkur mögulegt að ná sáttum við Guð.
„Hann lítillætti sig“
25. Hvernig vitum við að Messías þjáðist og dó fúslega?
25 Var Messías fús til að þjást og deyja? Jesaja segir: „Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.“ (Jesaja 53:7) Síðustu nóttina, sem Jesús lifði, hefði hann getað kallað sér til hjálpar „meira en tólf sveitir engla,“ en ‚hvernig áttu þá ritningarnar að rætast sem sögðu að þetta ætti svo að vera?‘ sagði hann. (Matteus 26:53, 54) „Guðs lamb“ streittist ekki á móti. (Jóhannes 1:29) Hann „svaraði engu“ þegar æðstuprestar og öldungar báru hann röngum sökum frammi fyrir Pílatusi. (Matteus 27:11-14) Hann vildi ekkert segja sem gæti staðið í vegi fyrir því að vilji Guðs með sig næði fram að ganga. Hann var fús til að deyja sem fórnarlamb, vitandi að dauði hans myndi endurleysa hlýðna menn frá synd, sjúkdómum og dauða.
26. Hvernig beittu fjandmenn Jesú hann ‚þrengingu‘?
26 Jesaja veitir nú nánari upplýsingar um þjáningar og auðmýkingu Messíasar. Spámaðurinn skrifar: „Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það [„hver hugar einu sinni að ætterni hans,“ NW]? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða.“ (Jesaja 53:8) Trúarlegir hatursmenn Jesú beita hann ‚þrengingu‘ er þeir taka hann höndum og gefa hatrinu útrás með því að fá hann dæmdan til dauða. Gríska Sjötíumannaþýðingin talar um „auðmýkingu“ í stað ‚þrengingar.‘ Óvinir Jesú auðmýktu hann með því að synja honum um réttláta málsmeðferð sem jafnvel ótíndir glæpamenn áttu rétt á. Öll málsmeðferðin var réttarfarsleg svívirða. Hvernig þá?
27. Hvaða reglur þverbrutu trúarleiðtogar Gyðinga við réttarhöldin yfir Jesú og hvernig brutu þeir lögmál Guðs?
27 Trúarleiðtogar Gyðinga voru svo ákveðnir í því að losa sig við Jesú að þeir brutu eigin reglur. Samkvæmt hefð mátti æðstaráðið ekki rétta yfir dauðasekum manni annars staðar en í höggsteinasalnum á musterissvæðinu. Ekki mátti gera það í húsi æðstaprestsins. Slíkt réttarhald varð að fara fram að degi til en ekki eftir sólsetur. Og þegar um dauðasök var að ræða bar að tilkynna niðurstöðu dómsins daginn eftir að réttarhöldunum lauk. Ekki mátti því rétta í slíku máli daginn fyrir hvíldardag eða hátíð. Þessar reglur voru allar þverbrotnar þegar réttað var yfir Jesú. (Matteus 26:57-68) Og sýnu alvarlegra var það að trúarleiðtogarnir gerðu sig seka um svívirðileg brot á lögmáli Guðs við meðferð málsins. Til dæmis greiddu þeir mútur til að reyna að sakfella Jesú. (5. Mósebók 16:19; Lúkas 22:2-6) Þeir hlýddu á ljúgvitni. (2. Mósebók 20:16; Markús 14:55, 56) Og þeir kölluðu blóðskuld yfir sig og landið er þeir sammæltust um að láta morðingja lausan. (4. Mósebók 35:31-34; 5. Mósebók 19:11-13; Lúkas 23:16-25) Þess vegna féll enginn ‚dómur‘ — það voru engin heiðarleg réttarhöld sem skiluðu réttum og óhlutdrægum úrskurði.
28. Um hvað sinntu óvinir Jesú ekki?
28 Könnuðu óvinir Jesú raunverulega hver það var sem þeir höfðu dregið fyrir rétt? Jesaja spyr svipaðrar spurningar: „Hver hugar einu sinni að ætterni hans?“ Þegar æðstaráðið réttaði yfir Jesú sinnti það ekki um uppruna hans og sögu — það að hann uppfyllti kröfurnar sem gerðar voru til hins fyrirheitna Messíasar. Ráðsöldungarnir sökuðu hann um guðlast og kváðu hann dauðasekan. (Markús 14:64) Rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus lét síðan undan þrýstingi frá þeim og dæmdi Jesú til staurfestingar. (Lúkas 23:13-25) Jesús var „hrifinn burt“ á besta aldri, aðeins þrjátíu og þriggja og hálfs árs gamall.
29. Hvernig var Jesús greftraður „meðal illræðismanna“ og „með ríkum“?
29 Jesaja segir þessu næst um dauða og greftrun Messíasar: „Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans.“ (Jesaja 53:9) Hvernig var Jesús bæði með illræðismönnum og ríkum í dauða sínum og greftrun? Hann dó á aftökustaur fyrir utan borgarmúra Jerúsalem 14. nísan árið 33. Hann var líflátinn mitt á milli tveggja illvirkja, þannig að í þeim skilningi var honum búin gröf meðal illræðismanna. (Lúkas 23:33) En auðugur maður er Jósef hét og var frá Arímaþeu tók í sig kjark eftir að Jesús var látinn og bað Pílatus um leyfi til að taka líkama hans niður af staurnum og greftra hann. Þeir Jósef og Nikódemus bjuggu líkama Jesú til greftrunar og lögðu hann síðan í úthöggna gröf er Jósef átti. (Matteus 27:57-60; Jóhannes 19:38-42) Hann fékk því legstað með ríkum.
‚Jehóva þóknaðist að kremja hann‘
30. Í hvaða skilningi þóknaðist Jehóva að kremja Jesú?
30 Jesaja segir nokkuð óvænt í framhaldinu: „En [Jehóva] þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi [Jehóva] fyrir hans hönd framgengt verða. Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra.“ (Jesaja 53:10, 11) Hvernig í ósköpunum gat Jehóva þóknast að sjá trúfastan þjón sinn kraminn? Augljóst er að Jehóva kvaldi ástkæran son sinn ekki persónulega heldur báru óvinir Jesú fulla ábyrgð á því sem þeir gerðu honum. En Jehóva leyfði þeim að sýna þessa grimmd. (Jóhannes 19:11) Af hverju? Auðvitað hefur það tekið umhyggjusaman og líknsaman Guð sárt að sjá saklausan son sinn þjást. (Jesaja 63:9; Lúkas 1:77, 78) Jehóva var alls ekkert óánægður með Jesú, en hann hafði þóknun á því að sonur sinn skyldi vera fús til að þjást vegna blessunarinnar sem af því hlytist.
31. (a) Hvernig var Jesú fórnað í „sektarfórn“? (b) Hvað hlýtur að gleðja Jesú ósegjanlega eftir alla erfiðleikana sem hann þoldi hér á jörð?
31 Blessunin fólst meðal annars í því að Jesú var fórnað í „sektarfórn.“ Er hann steig aftur upp til himna gekk hann fram fyrir Jehóva með andvirði mannslífsins, sem fórnað var í sektarfórn, og Jehóva þáði það fúslega í þágu alls mannkyns. (Hebreabréfið 9:24; 10:5-14) Með fórn sinni eignaðist Jesús „afsprengi“ eða afkomendur. Sem „Eilífðarfaðir“ getur hann gefið þeim sem iðka trú á úthellt blóð hans líf — eilíft líf. (Jesaja 9:6) Eftir allar þjáningarnar, sem maðurinn Jesús gekk í gegnum, hlýtur hann að njóta þess að sjá fram á að geta frelsað mannkynið undan synd og dauða! En hann hlýtur að njóta þess enn meir að vita að ráðvendni hans skuli hafa gefið föðurnum á himnum svar við smánarorðum óvinarins, Satans djöfulsins. — Orðskviðirnir 27:11.
32. Með hvaða ‚þekkingu‘ gerir Jesús „marga réttláta“ og hverjir hljóta þetta réttlæti?
32 Önnur blessun, sem hlýst af dauða Jesú, er sú að hann ‚gerir marga réttláta‘ nú þegar. Hann gerir það „þá menn læra að þekkja hann,“ segir Jesaja. Biblían frá 1912 talar um að hann myndi „seðjast af þekking sinni“ og mun þar átt við þá þekkingu sem Jesús fékk er hann varð maður og þjáðist ranglega fyrir hlýðni sína við Guð. (Hebreabréfið 4:15) Eftir að hafa þjáðst og dáið gat Jesús fært þá fórn sem þurfti til að hjálpa öðrum að verða réttlátir. Hverjir hljóta þetta réttlæti? Í fyrsta lagi smurðir fylgjendur Jesú. Þeir iðka trú á fórn hans svo að Jehóva lýsir þá réttláta til að geta ættleitt þá og gert þá að samerfingjum hans. (Rómverjabréfið 5:19; 8:16, 17) Í öðru lagi iðkar „mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ trú á úthellt blóð Jesú. Þeir eru réttlátir sem vinir Guðs og eiga í vændum að lifa Harmagedónstríðið af. — Opinberunarbókin 7:9; 16:14, 16; Jóhannes 10:16; Jakobsbréfið 2:23, 25.
33, 34. (a) Hvaða hlýlegum þætti í fari Jehóva kynnumst við? (b) Hverjir eru hinir „mörgu“ sem þjónn Guðs, Messías, fær „hlutskipti“ meðal?
33 Jesaja lýsir að lokum sigrum Messíasar: „Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi [„gef ég honum hlut meðal hinna mörgu og hann mun skipta herfangi með hinum voldugu,“ NW], fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.“ — Jesaja 53:12.
34 Lokaorðin í þessum spádómskafla Jesaja benda á mjög hlýlegan þátt í fari Jehóva: Hann metur mikils þá sem sýna honum tryggð. Það sést meðal annars af loforði hans um að ‚gefa‘ þjóni sínum, Messíasi, „hlut“ meðal hinna mörgu. Þessi orð virðast dregin af þeirri venju að skipta herfangi. Jehóva metur mikils hollustu „hinna mörgu“ trúföstu þjóna sinna frá fyrri tíð, þeirra á meðal Nóa, Abrahams og Jobs, og hefur gefið þeim „hlut“ í nýja heiminum sem framundan er. (Hebreabréfið 11:13-16) Hann mun einnig gefa þjóni sínum, Messíasi, hlut þar. Hann umbunar honum örugglega ráðvendni hans. Við megum líka treysta að Jehóva ‚gleymi ekki verki okkar og kærleikanum sem við auðsýndum nafni hans.‘ — Hebreabréfið 6:10.
35. Hverjir eru ‚hinir voldugu‘ sem Jesús deilir herfangi með og hvert er herfangið?
35 Þjónn Guðs fær líka herfang er hann sigrar óvini sína. Og hann skiptir því með „hinum voldugu.“ Hverjir eru ‚hinir voldugu‘ í uppfyllingu spádómsins? Þeir eru fyrsti lærisveinahópurinn sem sigrar heiminn eins og hann — hinir 144.000 borgarar ‚Ísraels Guðs.‘ (Galatabréfið 6:16; Jóhannes 16:33; Opinberunarbókin 3:21; 14:1) Og herfangið mun meðal annars vera ‚gjafir í mönnum‘ sem Jesús hrifsar úr klóm Satans, ef svo má að orði komast, og gefur kristna söfnuðinum. (Efesusbréfið 4:8-12, NW) Hinum 144.000 „voldugu“ er líka gefin hlutdeild í öðru herfangi. Þeir hafa sigrað heiminn og ónýtt sérhverja átyllu sem Satans hefur haft til að smána Guð. Órjúfanleg hollusta þeirra við Jehóva upphefur hann og gleður hjarta hans.
36. Vissi Jesús að hann var að uppfylla spádóminn um þjón Guðs? Skýrðu svarið.
36 Jesús vissi að hann var að uppfylla spádóminn um þjón Guðs. Nóttina, sem hann var handtekinn, vitnaði hann í Jesaja 53:12 og heimfærði á sjálfan sig: „Ég segi yður, að þessi ritning á að rætast á mér: ‚með illvirkjum var hann talinn.‘ Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað.“ (Lúkas 22:36, 37) Því miður var farið með Jesú eins og illvirkja. Hann var líflátinn sem lögbrjótur, staurfestur á milli tveggja ræningja. (Markús 15:27) En hann bar þessa hneisu fúslega því að hann vissi mætavel að hann var að biðja okkur griða. Hann stóð svo að segja á milli syndaranna og dauðarefsingarinnar og tók af þeim höggið.
37. (a) Hvað sjáum við greinilega af heimildunum um ævi og dauða Jesú? (b) Af hverju ættum við að vera Jehóva Guði og upphöfnum syni hans, Jesú Kristi, innilega þakklát?
37 Heimildirnar um ævi og dauða Jesú gera okkur kleift að fullyrða með öruggri vissu að Jesús Kristur sé þjónninn Messías í spádómi Jesaja. Við megum vera Jehóva þakklát fyrir að láta son sinn uppfylla spádómlegt hlutverk þjónsins og láta hann þjást og deyja til að við yrðum leyst undan synd og dauða! Jehóva sýndi okkur mikinn kærleika með þessu. Rómverjabréfið 5:8 segir: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ Við ættum líka að vera Jesú Kristi þakklát, hinum hátt upp hafna þjóni sem gaf líf sitt fúslega í dauðann!
[Neðanmáls]
^ gr. 5 Í Targúm (þýðingu eða endursögn) Jónatans ben Ússíels (á fyrstu öld) á Jesaja 52:13 segir (þýtt úr enskri þýðingu J. F. Stennings): „Sjá, þjóni mínum, hinum smurða (eða Messíasi) mun vegna vel.“ Babýloníutalmúðinn (frá þriðju öld) segir: „Messías — hvert er nafn hans? . . . [þeir] sem tilheyra húsi rabbínanna [segja: Hinn sjúki]; eins og ritað er: ‚Hann hefur sannlega borið sjúkdóma vora.‘“ — Sanhedrin 98b; Jesaja 53:4.
^ gr. 15 Spámaðurinn Míka kallaði Betlehem ‚einna minnsta af héraðsborgunum í Júda.‘ (Míka 5:1) En smábærinn Betlehem varð þess einstaka heiðurs aðnjótandi að Messías fæddist þar.
^ gr. 22 Hebreska orðið, sem þýtt er „refsaðan,“ er einnig notað um holdsveiki eða líkþrá. (2. Konungabók 15:5) Fræðimenn segja að sumir Gyðingar hafi dregið þá ályktun af Jesaja 53:4 að Messías yrði holdsveikur. Babýloníutalmúðinn heimfærir þetta vers á Messías og kallar hann „holdsveika fræðimanninn.“ Kaþólska Douay-biblían þýðir versið líkt og hin latneska Vulgata: „Við höfum litið á hann eins og holdsveikan mann.“
[Spurningar]
[Tafla á blaðsíðu 212]
ÞJÓNN JEHÓVA
Þannig uppfyllti Jesús spádóminn
SPÁDÓMUR
ATBURÐUR
UPPFYLLING
Veglegur og upphafinn
Post. 2:34-36; Fil. 2:8-11; 1. Pét. 3:22
Rangtúlkaður og vansæmdur
Matt. 11:19; 27:39-44, 63, 64; Jóh. 8:48; 10:20
Vekur undrun margra þjóða
Matt. 24:30; 2. Þess. 1:6-10; Opinb. 1:7
Menn trúðu ekki á hann
Jóh. 12:37, 38; Rómv. 10:11, 16, 17
Mannlegur uppruni fábrotinn og látlaus
Fyrirlitinn og honum hafnað
Matt. 26:67; Lúk. 23: 18-25; Jóh. 1:10, 11
Bar þjáningar okkar
Stunginn
Misgerðir annarra komu niður á honum
Hljóður og kvartaði ekki frammi fyrir ákærendum
Matt. 27:11-14; Mark. 14:60, 61; Post. 8:32, 35
Dreginn fyrir rétt og ranglega dæmdur
Matt. 26:57-68; 27:1, 2, 11-26; Jóh. 18:12-14, 19-24, 28-40
Grafinn með ríkum
Fórnaði sér í sektarfórn
Opnaði mörgum leiðina til réttlætis
Rómv. 5:18, 19; 1. Pét. 2:24; Opinb. 7:14
Talinn með syndurum
Matt. 26:55, 56; 27:38; Lúk. 22:36, 37
[Mynd á blaðsíðu 203]
‚Hann var fyrirlitinn af mönnum.‘
[Mynd á blaðsíðu 206]
‚Hann lauk eigi upp munni sínum.‘
[Rétthafi]
Úr „Ecce Homo“ eftir Antonio Ciseri
[Mynd á blaðsíðu 211]
„Hann gaf líf sitt í dauðann.“