Jesaja boðar endalok falstrúarbragðanna
8. kafli
Jesaja boðar endalok falstrúarbragðanna
1, 2. (a) Af hverju getur mönnum þótt ótrúlegt að innan skamms verði róttæk breyting á hinu trúarlega andrúmslofti í heiminum? (b) Hvernig vitum við að orðin í 47. kafla Jesajabókar eiga að rætast síðar? (c) Af hverju hæfir það falstrúarbrögðum heims að kallast ‚Babýlon hin mikla‘?
„TRÚARBRÖGÐIN ná sér aftur á strik.“ Þessu var slegið upp í grein í tímaritinu The New York Times Magazine. Í greininni kom fram að trúarbrögðin virðast enn eiga sterk ítök í hugum og hjörtum milljóna manna. Mörgum kann því að þykja ótrúlegt að það eigi eftir að verða róttæk breyting á hinu trúarlega andrúmslofti í heiminum. En 47. kafli Jesajabókar gefur í skyn að slík breyting sé framundan.
2 Spádómsorð Jesaja rættust fyrir 2500 árum. En Opinberunarbókin vitnar hins vegar í Jesaja 47:8 og gefur til kynna að versið rætist síðar. Þar birtist heimsveldi falskra trúarbragða í skækjulíki, nefnt ‚hin mikla Babýlon,‘ og boðað er að það líði undir lok. (Opinberunarbókin 16:19, 20) Nafnið „Babýlon“ hæfir falstrúarbrögðum heims af því að þau eiga upptök sín í Babýlon fortíðar og breiddust þaðan út til allra heimshorna. (1. Mósebók 11:1-9) Nálega öll trúarbrögð, þar á meðal í kristna heiminum, halda fram trúarkenningum ættuðum frá Babýlon, svo sem kenningunum um ódauðleika sálarinnar, helvíti og þríeina guði. * Varpar spádómur Jesaja ljósi á framtíð trúarbragðanna?
Babýlon beygð í duftið
3. Lýstu mikilleik babýlonska heimsveldisins.
3 Kaflinn hefst á áhrifamikilli yfirlýsingu Guðs: „Stíg niður og sest í duftið, þú mærin Babeldóttir! Sest þú á jörðina hásætislaus, þú Kaldeadóttir! því þú munt eigi framar kölluð verða hin lystilega og látprúða.“ (Jesaja 47:1) Babýlon hefur setið í hásæti sem heimsveldi um langt árabil. Hún hefur verið blómleg trúar-, verslunar- og hernaðarmiðstöð, sannkölluð „prýði konungsríkjanna.“ (Jesaja 13:19) Þegar veldi hennar stendur sem hæst teygir hún sig allt suður að landamærum Egyptalands. Og hún vinnur Jerúsalem árið 607 f.o.t. svo að það er engu líkara en Guð sjálfur geti ekki stemmt stigu við sigurvinningum hennar. Henni finnst hún vera ‚mær‘ og ímyndar sér að hún þurfi aldrei að þola innrás erlendra afla. *
4. Hvernig fer fyrir Babýlon?
4 En bráðlega verður þessari dramblátu ‚mær‘ hrundið úr hásæti. Hún verður ekki óumdeilt heimsveldi lengur heldur verður hún auðmýkt og látin ‚setjast í duftið.‘ (Jesaja 26:5) Hún verður ekki talin ‚lystileg og látprúð‘ eins og dekruð drottning. Jehóva fyrirskipar: „Tak kvörnina og mala mjöl! Bregð burt skýlu þinni, tak upp um þig klæðin, gjör beran fótlegg þinn og vað yfir fljótin!“ (Jesaja 47:2) Babýlon hefur hneppt alla Júdamenn í þrælkun en hlýtur nú sjálf hlutskipti þrælsins. Medar og Persar hrinda henni úr hásæti sem heimsveldi og niðurlægja hana með nauðungarvinnu.
5. (a) Hvernig verður Babýlon svipt ‚skýlu og klæðum‘? (b) Hvað kann að vera átt við með því að henni er fyrirskipað að ‚vaða yfir fljótin‘?
5 Babýlon missir gæsileikann og reisnina, ‚svipt skýlu og klæðum.‘ „Vað yfir fljótin,“ fyrirskipa verkstjórarnir. Kannski verður einhverjum Babýloníumönnum fyrirskipað að vinna þrælavinnu undir berum himni. Hugsanlega merkir spádómurinn að sumir verði bókstaflega fluttir í útlegð og dregnir yfir ár á leiðinni. Að minnsta kosti ferðast Babýlon ekki um með viðhöfn eins og drottning sem borin er yfir ár á burðarstóli eða ekur yfir um í vagni. Hún verður eins og þræll sem þarf að gera sér að góðu að sleppa háttprýðinni og bera fótleggina til að vaða yfir á. Hvílík auðmýking!
6. (a) Í hvaða skilningi verður nekt Babýlonar afhjúpuð? (b) Hvað merkir það að Guð „hlífi engum“? (Sjá neðanmálsgrein.)
6 Jehóva heldur áfram að hæða Babýlon: „Ber verði blygðan þín og svívirða þín augsýnileg. Ég vil hefna mín og hlífi engum.“ (Jesaja 47:3) * Babýlon verður svívirt og auðmýkt. Nú verður afhjúpuð sú vonska og grimmd sem þjóð Guðs má þola af hendi hennar. Enginn maður fær hindrað hefnd Guðs!
7. (a) Hvernig bregðast hinir útlægu Gyðingar við fréttunum af falli Babýlonar? (b) Hvernig mun Jehóva leysa fólk sitt?
7 Hin volduga Babýlon hefur haldið þjóð Guðs fanginni í 70 ár svo að fall hennar er mikið fagnaðarefni. Þjónar Guðs munu hrópa: „Lausnari vor; [Jehóva] allsherjar er nafn hans, Hinn heilagi í Ísrael.“ (Jesaja 47:4) Ef Ísraelsmaður seldi sig í þrælkun til að greiða skuldir sínar gat lausnarmaður (ættingi) keypt hann lausan úr þrælkuninni, samkvæmt ákvæðum Móselaganna. (3. Mósebók 25:47-54) Gyðingar verða seldir í þrælkun til Babýlonar svo að það þarf að kaupa þá lausa. Þegar eitt ríki leggur annað undir sig breytir það yfirleitt litlu fyrir þræla. Þeir skipta aðeins um húsbændur. En Jehóva ætlar að láta sigurvegarann Kýrus leysa Gyðingana úr þrælkun. Hann skal fá Egyptaland, Bláland og Seba „í lausnargjald“ fyrir Gyðinga. (Jesaja 43:3) Það er viðeigandi að lausnari Ísraels sé kallaður ‚Jehóva allsherjar‘ því að hið mikla hervald Babýlonar má sín einskis gagnvart ósýnilegum englasveitum hans.
Gjald grimmdarinnar
8. Í hvaða skilningi mun Babýlon ‚ganga inn í myrkrið‘?
8 Jehóva heldur áfram að lesa dómsorð sitt yfir Babýlon: „Sit hljóð og gakk inn í myrkrið, þú Kaldeadóttir, því þú munt eigi framar kölluð verða drottning konungsríkjanna.“ (Jesaja 47:5) Babýlon á ekkert annað í vændum en dimma og dapurlega daga. Hún fær ekki framar að drottna með harðri hendi yfir öðrum ríkjum. — Jesaja 14:4.
9. Af hverju reiðist Jehóva Gyðingum?
9 Hvers vegna fær Babýlon yfirleitt að skaða þjóð Guðs? Hann svarar: „Ég var reiður lýð mínum og lét eign mína verða fyrir vansæmd og seldi hana í hendur þér.“ (Jesaja 47:6a) Jehóva hefur ærna ástæðu til að vera Gyðingum reiður. Löngu áður hafði hann varað þá við því að þeir yrðu reknir úr landinu ef þeir hlýddu ekki lögmáli hans. (5. Mósebók 28:64) Þegar þeir sukku niður í skurðgoðadýrkun og saurlifnað sendi hann spámenn til að hjálpa þeim að snúa aftur til hreinnar tilbeiðslu. En „þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði [Jehóva] við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“ (2. Kroníkubók 36:16) Hann leyfir því að eign sín, Júda, verði fyrir vansæmd þegar Babýlon ræðst inn í landið og svívirðir hið heilaga musteri. — Sálmur 79:1; Esekíel 24:21.
10, 11. Af hverju er Jehóva reiður Babýlon, þó svo að hún eigi að sigra þjóð hans?
10 Er Babýlon þá einfaldlega að gera vilja Guðs þegar hún hneppir Gyðinga í þrælkun? Nei, því að hann segir: „Þú sýndir þeim enga miskunnsemi. Jafnvel á gamalmennin lagðir þú þitt afar þunga ok. Og þú sagðir: ‚Ég skal verða drottning um aldur og ævi.‘ Þú hugfestir þetta eigi og hugsaðir eigi um, hver endalokin mundu verða.“ (Jesaja 47:6b, 7) Guð hafði ekki fyrirskipað Babýloníumönnum að sýna óhóflega grimmd og hlífa ekki einu sinni ‚gamalmennum.‘ (Harmljóðin 4:16; 5:12) Og ekki hafði hann hvatt þá til að spotta bandingjana eða njóta þess að kvelja þá. — Sálmur 137:3.
11 Babýlon áttar sig ekki á því að hún fær aðeins að halda Gyðingum um stundar sakir. Hún hefur hunsað viðvörun Jesaja um að Jehóva muni frelsa þjóð sína þegar þar að kemur. Hún hegðar sér eins og hún eigi rétt á því að ráða yfir Gyðingum um aldur og ævi og vera drottning lénsríkja sinna um alla framtíð. En hún sinnir því ekki að það eigi að verða ‚endalok‘ á kúgun hennar.
Fall Babýlonar boðað
12. Af hverju er Babýlon kölluð „hin sællífa“?
12 Jehóva segir: „En heyr nú þetta, þú hin sællífa, er situr andvaralaus og segir í hjarta þínu: ‚Ég og engin önnur. Í ekkjudómi skal ég aldrei sitja og eigi reyna, hvað það er að vera barnalaus.‘“ (Jesaja 47:8) Babýlon er alræmd fyrir skemmtanafíkn. Á fimmtu öld fyrir okkar tímatal minnist sagnaritarinn Heródótos á þann „svívirðilega sið“ Babýloníumanna að skylda allar konur til að stunda vændi í lotningarskyni við ástargyðjuna. Fornaldarsagnfræðingurinn Curtíus tekur í sama streng: „Engin spilling tekur háttsemi borgarinnar fram; engin kerfisbundin siðspilling getur lokkað og örvað meir til ólifnaðar.“
13. Hvernig flýtir munaðarfíkn Babýlonar fyrir falli hennar?
13 Munaðarfíkn Babýlonar flýtir fyrir falli hennar. Kvöldið sem hún fellur skulu konungur hennar og stórmenni sitja að veislu og drekka frá sér allt vit. Þeir taka því ekki eftir að Medar og Persar ráðast inn í borgina. (Daníel 5:1-4) Babýlon „situr andvaralaus.“ Hún telur sig örugga innan óvinnandi múra og borgarsíkis. Hún telur sér trú um að ‚enginn annar‘ geti tekið við yfirburðastöðu hennar. Ekki hvarflar að henni að hún geti orðið ‚ekkja‘ og glatað bæði konungi sínum og ‚börnum,‘ það er að segja þegnunum. En enginn múr getur varið hana fyrir hegnandi hendi Jehóva Guðs. Hann segir löngu síðar: „Þó að Babýlon hefji sig til himins og þó að hún gjöri vígi sitt svo hátt, að það verði ókleift, þá munu þó frá mér koma eyðendur yfir hana.“ — Jeremía 51:53.
14. Hvernig verður Babýlon bæði „barnalaus og ekkja“?
14 Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir Babýlon? Jehóva heldur áfram: „En hvort tveggja þetta skal þér að hendi bera skyndilega, á einum degi. Þú skalt bæði verða barnalaus og ekkja. Í fullum mæli mun það yfir þig koma, þrátt fyrir þína margvíslegu töfra og þínar miklu særingar.“ (Jesaja 47:9) Heimsyfirburðir Babýlonar taka snöggan endi. Að missa mann sinn og börn var mesta ógæfa sem kona gat orðið fyrir í Austurlöndum fornaldar. Við vitum ekki hversu mörg ‚börn‘ Babýlon missir nóttina sem hún er tekin. * En þar að kemur að borgin verður yfirgefin algerlega. (Jeremía 51:29) Hún verður líka ekkja í þeim skilningi að konungar hennar verða settir af.
15. Hvaða ástæðu hefur Jehóva til að vera Babýlon reiður, aðra en grimmd hennar við Gyðinga?
15 En ill meðferð Babýloníumanna á Gyðingum er ekki eina ástæðan fyrir reiði Jehóva. Hann er henni líka reiður fyrir ‚margvíslega töfra hennar.‘ Lögmálið, sem Guð gaf Ísrael, lagði bann við spíritisma en Babýlon stundar dulspeki af miklum krafti. (5. Mósebók 18:10-12; Esekíel 21:21) Bókin Social Life Among the Assyrians and Babylonians segir að Babýloníumenn hafi ‚lifað í sífelldum ótta við ótal illa anda sem þeir töldu umkringja sig.‘
Örugg í vonskunni
16, 17. (a) Hvernig er Babýlon ‚örugg í vonsku sinni‘? (b) Af hverju verður endalokum Babýlonar ekki afstýrt?
16 Ætli spásagnamenn Babýlonar bjargi henni? Jehóva svarar: „Þú þóttist örugg í vonsku þinni og sagðir: ‚Enginn sér til mín.‘ Viska þín og kunnátta hefir leitt þig afvega, svo að þú sagðir í hjarta þínu: ‚Ég og engin önnur!‘“ (Jesaja 47:10) Babýlon ímyndar sér að veraldleg og trúarleg viska sín, hernaðarmáttur og slóttug harðýðgi nægi sér til að halda heimsveldisstöðunni. Hún heldur að enginn ‚sjái til hennar,‘ það er að segja láti hana standa reikningsskap vonskuverka sinna. Og hvergi er neinn keppinaut að sjá. „Ég og engin önnur!“ segir hún við sjálfa sig.
17 En Jehóva varar við fyrir munn annars spámanns: „Getur nokkur falið sig í fylgsnum, svo að ég sjái hann ekki?“ (Jeremía 23:24; Hebreabréfið 4:13) Hann lýsir því yfir: „Þess vegna skal ógæfa yfir þig koma, sem þú skalt ekki geta keypt þig undan. Ólán skal yfir þig dynja, er þú eigi fær afstýrt með fégjöfum [„töfrabrögðum,“ NW]. Skyndilega skal eyðing yfir þig koma, þegar þig varir minnst.“ (Jesaja 47:11) Hvorki guðir Babýlonar né ‚töfrabrögð‘ spíritistanna geta afstýrt yfirvofandi ógæfu hennar — annarri og meiri ógæfu en hún hefur áður þekkt.
Ráðgjafar Babýlonar bregðast
18, 19. Hvaða skelfilegar afleiðingar hefur það fyrir Babýlon að reiða sig á ráðgjafa sína og fræðinga?
18 Jehóva heldur áfram með napurri kaldhæðni: „Kom þú nú með særingar þínar og með hina margvíslegu töfra þína, sem þú hefir stundað með allri elju í frá barnæsku þinni. Má vera, að þú getir eitthvað áunnið, má vera, þú fáir fælt það burt.“ (Jesaja 47:12) Jehóva skorar á Babýlon að bæta ekki ráð sitt heldur halda galdrakuklinu áfram. Þjóðin hefur hvort eð er þróað dulspekilistina af mikilli elju allt frá „barnæsku.“
19 En Jehóva hæðist að henni: „Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma.“ (Jesaja 47:13) * Ráðgjafar og fræðingar Babýlonar munu bregðast algerlega. Vissulega er stjörnuspáfræði Babýlonar byggð á aldalöngum stjörnuathugunum, en spáfræðingarnir bregðast svo illa nóttina sem borgin fellur að fræði þeirra standa afhjúpuð, gagnslaus. — Daníel 5:7, 8.
20. Hvaða örlög bíða ráðgjafa Babýlonar?
20 Jehóva lýkur þessum hluta spádómsins með eftirfarandi orðum: „Sjá, þeir eru sem hálmleggir, eldurinn eyðir þeim. Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín úr loganum, því það verður ekki glóð til að orna sér við eða eldur til að sitja við. Svo munu þeir reynast þér, er þú hefir mæðst fyrir, þeir er keypt hafa við þig frá æskuárum þínum: Þeir þjóta í sína áttina hver, og enginn verður til að hjálpa þér.“ (Jesaja 47:14, 15) Eldurinn bíður falsráðgjafanna. Og það verður ekki þægilegur eldur til að orna sér við heldur eyðingareldur sem afhjúpar þá. Þeir eru ekki meira virði en hálmleggir. Engin furða að þeir skuli flýja í ofboði! Síðasti stuðningur Babýlonar er brostinn og enginn er eftir til að bjarga henni. Hún hlýtur sömu örlög og Jerúsalem hefur hlotið af hennar hendi. — Jeremía 11:12.
21. Hvenær og hvernig rætast spádómsorð Jesaja?
21 Þessi innblásnu orð byrja að rætast árið 539 f.o.t. Herir Meda og Persa taka borgina undir forystu Kýrusar og drepa Belsasar konung sem var við völd á þeim tíma. (Daníel 5:1-4, 30) Á einni nóttu er Babýlon velt úr sessi sem heimsveldi. Þar með lýkur aldalöngum yfirburðum semíta og Aríar taka völdin. Við tekur aldalangt hnignunarskeið Babýlonar. Á fjórðu öld okkar tímatals er ekkert eftir nema ‚grjóthrúga.‘ (Jeremía 51:37) Spádómur Jesaja hefur ræst að fullu.
Babýlon nútímans
22. Hvað má læra um drambsemi af falli Babýlonar?
22 Spádómur Jesaja er einkar umhugsunarverður, meðal annars fyrir þá sök að hann undirstrikar hve hættulegt stærilæti og hroki er. Fall hinnar drambsömu Babýlonar minnir á orðskviðinn: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ (Orðskviðirnir 16:18) Dramb setur stundum mark sitt á hið ófullkomna manneðli en sá sem ‚ofmetnast‘ getur orðið fyrir ‚álasi og lent í tálsnöru djöfulsins.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:6, 7) Við ættum því að fara eftir ábendingu Jakobs: „Auðmýkið yður fyrir [Jehóva] og hann mun upphefja yður.“ — Jakobsbréfið 4:10.
23. Hvaða traust vekur spádómur Jesaja?
23 Þessi spádómsorð hjálpa okkur að treysta á Jehóva sem er öllum andstæðingum máttugri. (Sálmur 24:8; 34:8; 50:15; 91:14, 15) Þetta er hughreystandi áminning á erfiðum tímum. Traust á Jehóva styrkir okkur í þeim ásetningi að vera ráðvönd frammi fyrir honum, vitandi að „friðsamir menn [og ráðvandir] eiga framtíð fyrir höndum.“ (Sálmur 37:37, 38) Það er alltaf viturlegt að treysta á Jehóva en reiða sig ekki á eigin mátt andspænis ‚vélabrögðum‘ Satans. — Efesusbréfið 6:10-13.
24, 25. (a) Af hverju er stjörnuspekin órökrétt en af hverju hafa samt margir áhuga á henni? (b) Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að kristnir menn forðast hjátrú.
24 Og við erum sterklega vöruð við spíritisma, einkum stjörnuspám. (Galatabréfið 5:20, 21) Stjörnuspekin var ekki látin lönd og leið þegar Babýlon féll. Bókin Great Cities of the Ancient World bendir reyndar á að stjörnumerkin, eins og Babýloníumenn kortlögðu þau, hafa „hliðrast til“ frá því sem var í fornöld þannig að stjörnuspáfræðin sé „hrein firra.“ Engu að síður á hún fylgi að fagna og mörg dagblöð eru með stjörnuspádálk handa lesendum sínum.
25 Hvað fær jafnvel vel menntað fólk til að leita ráða í afstöðu stjarnanna eða leggja trúnað á aðra órökrétta hjátrú? Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir: „Hjátrú mun sennilega tilheyra lífinu eins lengi og fólk óttast hvert annað og telur framtíðina óvissa.“ Ótti og óvissa rekur vissulega margan manninn út í hjátrú. En kristnir menn forðast hjátrú. Jehóva styður þá og þeir óttast ekki menn. (Sálmur 6:5-11) Og þeir eru ekki óvissir um framtíðina heldur þekkja ásetning Jehóva sem hann hefur opinberað. Þeir efast ekki um að „ráð [Jehóva] stendur stöðugt um aldur.“ (Sálmur 33:11) Við eigum langa og hamingjuríka framtíð fyrir okkur ef við lögum líf okkar að ráðum Jehóva.
26. Hvernig hafa „hugsanir vitringanna“ reynst „hégómlegar“?
26 Á síðustu árum hafa sumir reynt að spá í framtíðina með öllu „vísindalegri“ aðferðum. Það er jafnvel til fræðigrein sem kallast framtíðarfræði, skilgreind sem ‚grein félagsfræði sem fæst við rannsóknir á samfélagsþróun og reynir að segja fyrir um hana.‘ Rómarklúbburinn, sem er hópur háskólamanna og kaupsýslumanna, spáði því til dæmis árið 1972 að allar birgðir gulls, kvikasilfurs, sinks og jarðolíu yrðu uppurnar árið 1992. Heimurinn hefur vissulega átt í hrikalegum vandamálum frá 1972 en spáin reyndist alröng. Enn er til gull, kvikasilfur, sink og olía í jörð. Maðurinn hefur slitið sér út við að reyna að spá fyrir um framtíðina en ágiskanir hans eru alltaf óáreiðanlegar. ‚Hugsanir vitringanna eru hégómlegar‘ að ekki sé meira sagt. — 1. Korintubréf 3:20.
Endalok Babýlonar hinnar miklu
27. Hvenær og hvernig féll Babýlon hin mikla líkt og Babýlon fortíðar féll árið 539 f.o.t.?
27 Trúarbrögð okkar daga hafa varðveitt margar af kenningum Forn-Babýlonar. Heimsveldi falstrúarbragðanna er því réttnefnt Babýlon hin mikla. (Opinberunarbókin 17:5) Þessi alþjóðlega trúarsamsteypa er þegar fallin líkt og Babýlon fortíðar féll árið 539 f.o.t. (Opinberunarbókin 14:8; 18:2) Leifar andlegra bræðra Krists voru leystar úr andlegri ánauð árið 1919 og slitu sig lausar frá trúaráhrifum kirkjufélaganna sem eru einn máttarstólpi Babýlonar hinnar miklu. Síðan þá hafa kirkjufélögin glatað mjög áhrifum víða um lönd þar sem ítök þeirra voru sterk.
28. Hverju gortar Babýlon hin mikla af en hvað bíður hennar?
28 En fall hennar var aðeins undanfari þess að falstrúarbrögðunum verði eytt að fullu. Það er athyglisvert að spádómur Opinberunarbókarinnar um eyðingu Babýlonar hinnar miklu minnir mjög á spádómsorðin í Jesaja 47:8, 9. Babýlon nútímans segir, líkt og forveri hennar: „Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.“ En „plágur hennar [munu] koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er [Jehóva] Guð, sem hana dæmdi.“ Spádómsorðin í 47. kafla Jesajabókar eru því viðvörun öllum sem eiga enn þá aðild að falstrúarbrögðunum. Vilji þeir bjargast þegar falstrúarbrögðunum er eytt þurfa þeir að hlýða hinum innblásnu fyrirmælum: „Gangið . . . út úr henni.“ — Opinberunarbókin 18:4, 7, 8.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Nánari umfjöllun um þróun falstrúarkenninga er að finna í bókinni Mankind’s Search for God, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
^ gr. 3 „Mærin Babeldóttir“ er orðatiltæki sem notað er í hebresku um Babýlon sjálfa eða íbúa hennar. Hún er ‚mær‘ af því að enginn hefur farið ránshendi um hana síðan hún varð heimsveldi.
^ gr. 6 Fræðimenn segja að hebreska orðasambandið, sem þýtt er ‚ég hlífi engum,‘ sé „sérstaklega vandþýtt.“ Í Nýheimsþýðingunni er það þýtt „ég tek ekki vinsamlega á móti nokkrum manni“ og hugmyndin er sú að enginn fái að koma Babýlon til bjargar. Í þýðingu Jewish Publication Society segir: „Ég . . . læt engan miðla málum.“
^ gr. 14 Bókin Nabonidus and Belshazzar eftir Raymond Philip Dougherty segir að gríski sagnaritarinn Xenófon gefi í skyn að taka Babýlonar hafi kostað talsverðar blóðsúthellingar. Nabónídusarkroníka segir hins vegar að innrásarmenn hafi komist „bardagalaust“ inn í borgina.
^ gr. 19 Hebreska orðið, sem hér er þýtt ‚himinfræðingar,‘ er stundum þýtt „himindeilar.“ Það vísar þá til þess að himninum sé deilt niður í svæði til að gera megi stjörnuspákort.
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 111]
Hin munaðargjarna Babýlon skal setjast í duftið.
[Mynd á blaðsíðu 114]
Stjörnuspámenn Babýlonar geta ekki spáð falli hennar.
[Mynd á blaðsíðu 116]
Babýlonskt stjörnuspádagatal frá fyrstu árþúsund f.o.t.
[Myndir á blaðsíðu 119]
Babýlon nútímans hverfur af sjónarsviðinu innan skamms.