Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Minn útvaldi sem ég hefi þóknun á‘

‚Minn útvaldi sem ég hefi þóknun á‘

3. kafli

‚Minn útvaldi sem ég hefi þóknun á‘

Jesaja 42:1-25

1, 2. Af hverju er 42. kafli Jesajabókar sérlega áhugaverður fyrir kristna menn?

 „ÞÉR eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið.“ (Jesaja 43:10) Jesaja spámaður skráði þessa yfirlýsingu Jehóva á áttundu öld fyrir okkar tímatal, og hún sýnir að sáttmálaþjóð Jehóva var vottaþjóð hans forðum daga. Hún var útvalinn þjónn hans. Smurðir kristnir menn lýstu því opinberlega yfir árið 1931, 2600 árum síðar, að þessi orð ættu við sig. Þá tóku þeir sér nafnið vottar Jehóva og öxluðu fúslega þá ábyrgð sem fylgdi því að vera þjónn Guðs á jörð.

2 Vottar Jehóva þrá einlæglega að þóknast Guði. Þar af leiðandi er 42. kafli Jesajabókar sérlega áhugaverður fyrir þá af því að hann dregur upp mynd af þjóni sem Guð hefur þóknun á og þjóni sem hann hafnar. Þessi spádómur og uppfylling hans veitir innsýn í hvernig menn hljóta velþóknun Guðs og hvað kallar yfir þá vanþóknun hans.

„Ég legg anda minn yfir hann“

3. Hvað boðar Jehóva um ‚þjón sinn‘?

3 Jehóva boðar að fram komi þjónn sem hann sjálfur velur: „Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt. Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum. Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti. Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.“ — Jesaja 42:1-4.

4. Hver er hinn „útvaldi,“ sem koma átti, og hvernig vitum við það?

4 Hvaða þjón er átt við? Við þurfum ekki að velkjast í vafa um það því að vitnað er í þessi orði í Matteusarguðspjalli og þau heimfærð á Jesú Krist. (Matteus 12:15-21) Jesús er ástkær þjónn hans, hinn ‚útvaldi.‘ Jehóva lagði anda sinn yfir hann er hann lét skírast árið 29. Hin innblásna frásaga segir að ‚himinninn hafi opnast‘ eftir að Jesús steig upp úr vatninu, og ‚heilagur andi hafi stigið niður yfir hann í líkamlegri mynd, og rödd hafi komið af himni: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“‘ Þannig benti Jehóva sjálfur á ástkæran þjón sinn. Þjónusta Jesú og kraftaverkin, sem hann vann eftir það, sönnuðu að andi Jehóva var yfir honum. — Lúkas 3:21, 22; 4:14-21; Matteus 3:16, 17.

„Hann mun boða þjóðunum rétt“

5. Af hverju þurfti að ‚boða rétt‘ á fyrstu öld?

5 Útvalinn þjónn Jehóva átti að „boða þjóðunum rétt“ Guðs, sanna réttvísi. (Samanber Matteus 12:18.) Það var mikil þörf á því á fyrstu öld okkar tímatals. Trúarleiðtogar Gyðinga kenndu rangsnúnar hugmyndir um réttvísi og réttlæti. Þeir reyndu að ávinna sér réttlæti með því að fylgja stífum lagabókstaf sem þeir höfðu stundum samið sjálfir. Bókstafsréttvísi þeirra bauð hvorki upp á miskunn né meðaumkun.

6. Hvernig boðaði Jesús sanna réttvísi?

6 Jesús opinberaði aftur á móti viðhorf Guðs til réttvísi. Með kennslu sinni og líferni sýndi hann fram á að sönn réttvísi einkennist af miskunn og meðaumkun. Lítum aðeins á hina frægu fjallræðu sem dæmi (í Matteusi 5.-7. kafla) en þar er snilldarleg útlistun á því hvernig iðka beri réttlæti og réttvísi. Guðspjöllin lýsa hjartnæmri umhyggju Jesú fyrir fátækum og þjökuðum. (Matteus 20:34; Markús 1:41; 6:34; Lúkas 7:13) Margir voru eins og brákaður og hrakinn reyr. Þeir voru eins og dapur hörkveikur því að það var næstum búið að slökkva síðasta lífsneistann. Jesús braut hvorki „brákaðan reyrinn“ né slökkti í ‚döprum hörkveiknum‘ heldur hressti hjörtu auðmjúkra manna með hlýlegum og kærleiksríkum orðum. — Matteus 11:28-30.

7. Af hverju gat spádómurinn sagt að Jesús myndi ‚ekki láta raust sína heyrast á strætunum‘?

7 En af hverju segir spádómurinn að Jesús myndi ‚ekki kalla og ekki hafa háreysti og ekki láta raust sína heyrast á strætunum‘? Af því að hann hampaði ekki sjálfum sér eins og margir samtíðarmenn hans. (Matteus 6:5) Þegar hann læknaði holdsveikan mann sagði hann honum að ‚gæta þess að segja engum neitt.‘ (Markús 1:40-44) Hann vildi ekki auglýsa sig og láta fólk draga ályktanir af umtali um sig heldur vildi hann að það sæi með eigin augum sannanirnar fyrir því að hann væri Kristur, hinn smurði þjónn Jehóva.

8. (a) Hvernig boðaði Jesús „þjóðunum rétt“? (b) Hvað má læra um réttvísi af dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann?

8 Hinn útvaldi þjónn átti að boða „þjóðunum rétt.“ Jesús gerði það. Auk þess að leggja áherslu á umhyggjuna í réttvísi Guðs kenndi hann að hún ætti að ná til allra manna. Einhverju sinni minnti hann lögvitring á það að hann ætti að elska Guð og náungann. Maðurinn spurði Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Kannski bjóst hann við að Jesús svaraði: „Samlandar þínir, Gyðingar.“ En Jesús sagði honum dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Dæmisagan segir frá Samverja er liðsinnti manni sem féll í hendur ræningjum en levíti og prestur vildu ekki hjálpa honum. Spyrjandinn varð að viðurkenna að hvorki levítinn né presturinn hefði reynst náungi mannsins heldur hinn fyrirlitni Samverji. Jesús lauk dæmisögunni með því að ráðleggja manninum að ‚fara og gjöra hið sama.‘ — Lúkas 10:25-37; 3. Mósebók 19:18.

„Hann daprast eigi og gefst eigi upp“

9. Hvaða áhrif hefur það á okkur að skilja eðli sannrar réttvísi?

9 Jesús dró fram hvert væri inntak sannrar réttvísi svo að lærisveinar hans lærðu að sýna hana. Það þurfum við líka að gera. Í fyrsta lagi þurfum við að viðurkenna mælikvarða Guðs á gott og illt því að það er réttur hans að ákveða hvað sé réttlátt. Þegar við reynum að gera hlutina eins og Jehóva vill sést greinilega af réttri breytni okkar hvað er sönn réttvísi. — 1. Pétursbréf 2:12.

10. Af hverju er boðun og kennsla þáttur í því að sýna réttvísi?

10 Við sýnum líka sanna réttvísi þegar við leggjum okkur vel fram við boðun og kennslu. Jehóva hefur af örlæti sínu látið í té lífsnauðsynlega þekkingu á sér, syni sínum og tilgangi sínum. (Jóhannes 17:3) Það væri hvorki rétt né réttlátt að liggja á þessari þekkingu. „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það,“ segir Salómon. (Orðskviðirnir 3:27) Við skulum af heilum huga miðla öllum mönnum af þekking okkar á Guði, óháð kynþætti þeirra og þjóðerni. — Postulasagan 10:34, 35.

11. Hvernig ber okkur að koma fram við aðra að fyrirmynd Jesú?

11 Sannkristinn maður kemur fram við aðra eins og Jesús gerði. Margir eru niðurdregnir sökum erfiðra vandamála og þarfnast umhyggju og hughreystingar. Þess eru jafnvel dæmi að aðstæður hafi leikið kristna menn svo hart að þeir líkist brákuðum reyr eða döprum kveik. Þarfnast þeir stuðnings okkar? (Lúkas 22:32; Postulasagan 11:23) Það er hressandi að tilheyra bræðrafélagi sannkristinna manna sem reynir að iðka réttvísi að fyrirmynd Jesú.

12. Hvers vegna getum við treyst að öllum verði tryggt réttlæti í náinni framtíð?

12 Kemur einhvern tíma að því að öllum verði tryggt réttlæti? Já, útvalinn þjónn Jehóva mun ‚eigi daprast og eigi gefast upp uns hann fær komið inn rétti á jörðu.‘ Mjög bráðlega mun konungurinn, hinn upprisni Kristur Jesús, ‚láta hegningu koma yfir þá sem þekkja ekki Guð.‘ (2. Þessaloníkubréf 1:6-9; Opinberunarbókin 16:14-16) Stjórn manna víkur fyrir ríki Guðs. Réttlæti og réttvísi verður allsráðandi. (Orðskviðirnir 2:21, 22; Jesaja 11:3-5; Daníel 2:44; 2. Pétursbréf 3:13) Þjónar Jehóva um alla jörð, jafnvel í ‚fjarlægum landsálfum,‘ bíða þess dags með óþreyju.

‚Ég mun gera hann að ljósi fyrir þjóðirnar‘

13. Hverju spáir Jehóva um útvalinn þjón sinn?

13 Jesaja heldur áfram: „Svo segir [Jehóva] Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga.“ (Jesaja 42:5) Þetta er mögnuð lýsing á skaparanum Jehóva. Það gefur orðum hans mikið vægi að minna á mátt hans. Hann segir: „Ég, [Jehóva], hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.“ — Jesaja 42:6, 7.

14. (a) Hvað merkir það að Jehóva taki í hönd útvalins þjóns síns? (b) Hvaða hlutverki gegnir útvalinn þjónn hans?

14 Hinn mikli alheimsskapari og lífgjafi tekur í hönd hins útvalda þjóns og heitir honum stöðugum og fullum stuðningi. Það er traustvekjandi. Og Jehóva varðveitir hann til að gera hann að „sáttmála fyrir lýðinn.“ Sáttmáli er samkomulag, samningur eða hátíðlegt loforð. Hann er örugg skuldbinding. Já, Jehóva hefur gert þjón sinn að „tryggingu fyrir þjóðina.“ — An American Translation.

15, 16. Á hvaða hátt var Jesús ‚ljós fyrir þjóðirnar‘?

15 Hinn fyrirheitni þjónn er ‚ljós fyrir þjóðirnar‘ og frelsar þá sem „í myrkri sitja.“ Jesús gerði það. Hann vegsamaði nafn föður síns á himnum með því að bera sannleikanum vitni. (Jóhannes 17:4, 6) Hann afhjúpaði trúvillu, boðaði fagnaðarerindið um ríkið og veitti andlegt frelsi þeim sem voru í trúarfjötrum. (Matteus 15:3-9; Lúkas 4:43; Jóhannes 18:37) Hann varaði við verkum myrkursins og afhjúpaði Satan sem ‚lyginnar föður‘ og ‚höfðingja þessa heims.‘ — Jóhannes 3:19-21; 8:44; 16:11.

16 Jesús sagðist vera „ljós heimsins“ og sýndi það með einstökum hætti þegar hann fórnaði fullkomnu mannslífi sínu. (Jóhannes 8:12) Þannig opnaði hann leið fyrir þá sem iðka trú til að fá syndafyrirgefningu, eignast gott samband við Guð og eiga eilíft líf í vændum. (Matteus 20:28, 29; Jóhannes 3:16) Með fullkominni guðrækni sinni hélt hann drottinvaldi Jehóva á loft og sannaði djöfulinn lygara. Það má með sanni segja að hann hafi gefið blindum sjón og leitt út úr dýflissu þá sem sátu í andlegu myrkri.

17. Hvernig erum við ljósberar?

17 Jesús sagði lærisveinum sínum í fjallræðunni að þeir væru „ljós heimsins.“ (Matteus 5:14) Erum við ekki ljósberar líka? Með líferni okkar og boðunarstarfi höfum við þau sérréttindi að beina öðrum til Jehóva sem er uppspretta hins sanna ljóss. Við líkjum eftir Jesú með því að kunngera nafn Jehóva, halda drottinvaldi hans á loft og boða ríki hans sem einu von mannkyns. Og sem ljósberar afhjúpum við falstrú, vörum við óhreinum verkum myrkursins og afhjúpum Satan, hinn vonda. — Postulasagan 1:8; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

‚Syngið Jehóva nýjan söng‘

18. Hvað lætur Jehóva fólk sitt vita?

18 Jehóva snýr sér nú að fólki sínu og segir: „Ég er [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum. Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.“ (Jesaja 42:8, 9) Það voru ekki fánýtir guðir sem báru fram spádóminn um ‚þjóninn‘ heldur hinn eini lifandi og sanni Guð. Spádómurinn hlaut að rætast og gerði það. Jehóva Guð er höfundur nýrra hluta og lætur fólk sitt vita af þeim áður en þeir eiga sér stað. Hvernig ættum við að bregðast við því?

19, 20. (a) Hvaða söng þarf að syngja? (b) Hverjir syngja lofsönginn til Jehóva nú á dögum?

19 Jesaja skrifar: „Syngið [Jehóva] nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja! Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum! Þeir skulu gefa [Jehóva] dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!“ — Jesaja 42:10-12.

20 Íbúar borga, eyðimerkurþorpa, fjarlægra landsálfa og þorpanna þar sem „Kedar“ bjó — já, allir menn alls staðar — eru hvattir til að syngja Jehóva lofsöng. Á okkar dögum hafa milljónir manna þegið þetta spádómlega boð. Þeir hafa tekið við sannleikanum í orði Jehóva og viðurkennt hann sem Guð sinn. Fólk Jehóva í ríflega 230 löndum syngur nýjan söng og gefur honum dýrðina. Það er hrífandi að mega taka undir með þessum mikla kór margra þjóða, tungna og menninga.

21. Af hverju geta óvinir fólks Guðs ekki þaggað niður lofsönginn til hans?

21 Geta andstæðingar Guðs þaggað þennan lofsöng niður? Nei, það er óhugsandi. „[Jehóva] leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum.“ (Jesaja 42:13) Hvaða afl getur staðist gegn Jehóva? Spámaðurinn Móse og Ísraelsmenn sungu fyrir 3500 árum: „[Jehóva] er stríðshetja, [Jehóva] er hans nafn. Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða.“ (2. Mósebók 15:3, 4) Jehóva sigraði voldugasta her þess tíma. Enginn óvinur getur sigrað fólk hans þegar hann gengur fram sem stríðshetja.

„Ég hefi þagað langan tíma“

22, 23. Af hverju ‚þegir Jehóva um langan tíma‘?

22 Jehóva er sanngjarn og réttvís, jafnvel þegar hann fullnægir dómi yfir óvinum sínum. Hann segir: „Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili. Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.“ — Jesaja 42:14, 15.

23 Áður en Jehóva fullnægir dómi gefur hann syndurum tíma og tækifæri til að snúa frá vondum vegum sínum. (Jeremía 18:7-10; 2. Pétursbréf 3:9) Lítum á Babýloníumenn sem dæmi en þeir eyða Jerúsalem árið 607 f.o.t. meðan þeir eru ráðandi heimsveldi. Jehóva leyfir það til að aga Ísraelsmenn sökum ótrúmennsku þeirra. En Babýloníumenn skilja ekki hvaða hlutverki þeir gegna og fara miklu verr með fólk Guðs en dómur hans krefst. (Jesaja 47:6, 7; Sakaría 1:15) Hinn sanna Guð hlýtur að taka það sárt að sjá fólk sitt þjást. En hann heldur aftur af sér þangað til það er tímabært að láta til sín taka. Þá streitist hann eins og kona í barnsburði við að frelsa sáttmálaþjóð sína og fæðir hana sem sjálfstæða þjóð. Hann þurrkar upp Babýlon árið 539 f.o.t., eyðir hana og gerir varnir hennar að engu.

24. Hvaða von vekur Jehóva í brjósti þjóðar sinnar, Ísraelsmanna?

24 Það hlýtur að vera hrífandi fyrir þjóð Guðs að sjá leiðina heim opnast eftir svona langa útlegð. (2. Kroníkubók 36:22, 23) Hún hlýtur að vera himinlifandi að sjá loforð Jehóva rætast: „Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.“ — Jesaja 42:16.

25. (a) Hverju má nútímafólk Jehóva treysta? (b) Í hverju ættum við að vera ákveðin?

25 Hvað þýða þessi orð fyrir okkur núna? Um langt skeið — raunar um aldaraðir — hefur Jehóva leyft þjóðunum að fara sínu fram. En nú er stutt í það að hann útkljái málið. Hann hefur vakið upp fólk til að bera nafni sínu vitni. Hann hefur „jafnað út“ alla andstöðu gegn þeim og sléttað veginn svo að þeir geti tilbeðið hann „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Hann lofaði að ‚hætta eigi við þá‘ og hefur staðið við það. En hvað um þá sem halda áfram að dýrka falsguði? Jehóva segir: „Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: ‚Þér eruð guðir vorir.‘“ (Jesaja 42:17) Við verðum að vera Jehóva trú eins og útvalinn þjónn hans.

‚Blindur þjónn og daufur‘

26, 27. Hvernig reynist Ísrael ‚blindur þjónn og daufur‘ og hvaða afleiðingar hefur það?

26 Útvalinn þjónn Guðs, Jesús Kristur, var trúr allt til dauða. En þjóð Jehóva, Ísrael, hefur verið ótrúr þjónn, andlega daufur og blindur. Jehóva ávarpar þjóðina og segir: „Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá! Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn [Jehóva]? Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki. Fyrir sakir réttlætis síns hefir [Jehóva] þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega.“ — Jesaja 42:18-21.

27 Það er dapurlegt hve illa Ísrael hefur brugðist. Þjóðin hefur æ ofan í æ farið að dýrka djöflaguði þjóðanna. Jehóva hefur sent henni marga sendiboða en hún hefur hunsað þá. (2. Kroníkubók 36:14-16) Jesaja boðar hvaða afleiðingar það hafi: „Þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: ‚Skilið þeim aftur!‘ Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis? Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki [Jehóva], hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki. Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.“ — Jesaja 42:22-25.

28. (a) Hvernig eru Júdamenn dæmi til viðvörunar? (b) Hvernig getum við leitað velþóknunar Jehóva?

28 Sökum ótrúmennsku landsmanna leyfir Jehóva Babýloníumönnum að ræna og rupla Júda árið 607 f.o.t. Innrásarmenn brenna musteri Jehóva, eyða Jerúsalem og hernema Gyðinga. (2. Kroníkubók 36:17-21) Tökum þessa viðvörun til okkar og látum aldrei sem við heyrum hvorki fyrirmæli Jehóva né sjáum ritað orð hans. Leitum heldur velþóknunar hans með því að líkja eftir Kristi Jesú, þjóninum sem Jehóva hafði velþóknun á. Og líkjum eftir Jesú með því að boða sanna réttvísi í orðum og verkum. Þá eigum við okkur langan aldur meðal fólks Jehóva og erum ljósberar til lofs og vegsemdar hinum sanna Guði.

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 33]

Sönn réttvísi einkennist af miskunn og meðaumkun.

[Mynd á blaðsíðu 34]

Í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann sýndi Jesús fram á að sönn réttvísi nær til allra manna.

[Myndir á blaðsíðu 36]

Við iðkum réttlæti með því að vera uppörvandi og vinsamleg.

[Myndir á blaðsíðu 39]

Við endurspeglum réttlæti Guðs með því að prédika.

[Mynd á blaðsíðu 40]

Viðurkenndur þjónn Guðs var gerður að ‚ljósi fyrir þjóðirnar.‘