Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Náðartími‘

‚Náðartími‘

10. kafli

‚Náðartími‘

Jesaja 49:1-26

1, 2. (a) Hvaða blessunar naut Jesaja? (b) Við hverja eiga spádómsorðin í fyrri helmingi 49. kafla Jesajabókar?

 TRÚFASTIR menn hafa löngum notið verndar Guðs og velþóknunar. En það fær ekki hver sem er að njóta náðar hans, enda er hún einstök. Hver og einn þarf að sýna sig verðugan hennar. Jesaja var slíkur maður. Hann naut velþóknunar Guðs og Guð notaði hann til að boða öðrum vilja sinn. Við finnum dæmi um þetta í fyrri hluta 49. kafla Jesajabókar.

2 Þessi spádómsorð eru töluð til afkvæmis Abrahams. Ísraelsmenn voru afkvæmið í fyrri uppfyllingunni, enda beinir afkomendur Abrahams. En ljóst er af málfari spádómsins að stór hluti hans rætist á Messíasi sem er hið langþráða afkvæmi Abrahams. Þessi innblásnu orð eiga einnig við andlega bræður Messíasar sem verða hluti af andlegu afkvæmi Abrahams og „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 3:7, 16, 29; 6:16) Hér fjallar spádómur Jesaja einkum um náið samband Jehóva og elskaðs sonar hans, Jesú Krists. — Jesaja 49:26.

Jehóva skipaði hann og verndaði

3, 4. (a) Hvaða stuðning hefur Messías? (b) Hverja ávarpar Messías?

3 Messías nýtur náðar og velþóknunar Jehóva Guðs, og Jehóva veitir honum það vald sem hann þarf til að ljúka ætlunarverki sínu og staðfestir hver hann er. Messías framtíðarinnar segir því: „Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! [Jehóva] hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.“ — Jesaja 49:1.

4 Hér ávarpar Messías „fjarlægar þjóðir.“ Allar þjóðir njóta góðs af þjónustu hans, þó svo að fyrirheitið um hann sé gefið Gyðingum. (Matteus 25:31-33) Messías Ísraels er sendur til hjálpræðis öllu mannkyni, svo að ‚eylöndin‘ og ‚þjóðirnar‘ veita honum athygli þó að þær séu ekki í sáttmálasambandi við hann.

5. Hvernig er Messías nefndur jafnvel áður en hann fæðist á jörð?

5 Spádómurinn segir að Jehóva nefni Messías löngu áður en hann fæðist á jörð. (Matteus 1:21; Lúkas 1:31) Jesús er nefndur „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi“ löngu fyrir fæðingu. (Jesaja 9:6) Sonur Jesaja heitir líklega Immanúel en það er einnig spádómlegt nafn Messíasar. (Jesaja 7:14; Matteus 1:21-23) Nafnið Jesús, sem Messías ber, er meira að segja boðað fyrirfram. (Lúkas 1:30, 31) Nafnið er dregið af hebresku orði sem merkir „Jehóva er hjálpræði.“ Augljóst er að Jesús er ekki sjálfskipaður Kristur.

6. Í hvaða skilningi er munnur Messíasar eins og beitt sverð og hvernig er hann hulinn eða falinn?

6 Spádómsorð Messíasar halda áfram: „Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.“ (Jesaja 49:2) Messías Guðs hefur þjónustu sína á jörð árið 29 og orð hans eru eins og beitt og fáguð vopn sem geta þrengt sér inn í hjörtu áheyrenda. (Lúkas 4:31, 32) Með orðum sínum og verkum vekur hann reiði óvinarins Satans og útsendara hans. Satan situr um líf Jesú allt frá fæðingu hans, en Jesús er eins og ör sem er falin í örvamæli Jehóva. * Hann getur reitt sig á vernd föðurins. (Sálmur 91:1; Lúkas 1:35) Í fyllingu tímans leggur hann lífið í sölurnar fyrir mannkynið. En síðar kemur að því að hann gengur fram sem voldug stríðshetja á himni. Þá verður hann vopnaður í öðrum skilningi og beitt sverð gengur út af munni hans. Hér táknar sverðið vald Jesú til að fella dóm yfir óvinum Jehóva og fullnægja honum. — Opinberunarbókin 1:16.

Þjónar Guðs erfiða ekki til einskis

7. Við hvern eiga orð Jehóva í Jesaja 49:3 og hvers vegna?

7 Jehóva heldur spádóminum áfram: „Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína.“ (Jesaja 49:3) Jehóva kallar Ísraelsþjóðina þjón sinn. (Jesaja 41:8) En Jesús Kristur er fremri öllum öðrum þjónum Guðs. (Postulasagan 3:13) Engin sköpunarvera Jehóva getur endurspeglað „vegsemd“ hans betur en Jesús. Orðin eiga því raunverulega við Jesú þó að Ísrael sé ávarpaður að nafninu til. — Jóhannes 14:9; Kólossubréfið 1:15.

8. Hvernig tóku samlandar Messíasar honum en hvern lætur hann dæma um velgengi sína?

8 En er ekki Jesús fyrirlitinn og honum hafnað af flestum samlöndum sínum? Jú, Ísraelsþjóðin í heild tók ekki við Jesú sem smurðum þjóni Guðs. (Jóhannes 1:11) Samtíðarmönnum hans þykir það kannski lítils virði, jafnvel ómerkilegt, sem hann áorkar á jörð. Messías ýjar að því að þjónusta hans þyki hafa misheppnast: „Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust.“ (Jesaja 49:4a) Þetta er ekki sagt af því að Messías sé niðurdreginn. Taktu eftir framhaldinu: „Samt sem áður er réttur minn hjá [Jehóva] og laun mín hjá Guði mínum.“ (Jesaja 49:4b) Það er Guð sem dæmir um velgengni Messíasar en ekki menn.

9, 10. (a) Hvaða verkefni hefur Jehóva falið Messíasi og hvaða árangri nær hann? (b) Hvernig er starf Messíasar hvetjandi fyrir kristna menn?

9 Jesú er fyrst og fremst umhugað um velþóknun og náð Guðs. Í spádóminum segir Messías: „En nú segir [Jehóva], hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, — og ég er dýrmætur í augum [Jehóva] og Guð minn varð minn styrkur.“ (Jesaja 49:5) Messías kemur til að snúa hjörtum Ísraelsmanna aftur til föðurins á himnum. Sumir taka sinnaskiptum en ekki margir. En það er Jehóva Guð sem launar honum. Árangurinn er ekki mældur eftir mannlegri mælistiku heldur á kvarða Jehóva sjálfs.

10 Verið getur að fylgjendum Jesú nú á dögum finnist stundum sem þeir erfiði til ónýtis. Sums staðar virðist árangurinn af boðunarstarfi þeirra óverulegur miðað við alla vinnuna og erfiðið. En þeir halda ótrauðir áfram, hvattir af fordæmi Jesú. Og orð Páls postula styrkja þá einnig: „Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ — 1. Korintubréf 15:58.

‚Ljós fyrir þjóðirnar‘

11, 12. Hvernig hefur Messías verið ‚ljós fyrir þjóðirnar‘?

11 Jehóva hvetur Messías í spádóminum með því að minna hann á að honum sé falið það hlutverk að vera þjónn sinn. Jesús á að „endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael.“ Og Jehóva heldur áfram: „Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar.“ (Jesaja 49:6) Hvernig getur Jesús upplýst þjóðir „til endimarka jarðarinnar“ þar eð þjónusta hans á jörð takmarkast við Ísrael?

12 Biblíusagan sýnir að ‚ljósið fyrir þjóðirnar‘ slökknaði ekki þegar Jesús hvarf af jarðneskum vettvangi. Um 15 árum eftir dauða hans vitnuðu trúboðarnir Páll og Barnabas í spádóminn í Jesaja 49:6 og heimfærðu hann á lærisveinana sem voru andlegir bræður hans. Þeir sögðu: „Svo hefur [Jehóva] boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.“ (Postulasagan 13:47) Áður en Páll dó hafði hann séð fagnaðarerindi hjálpræðisins boðað bæði Gyðingum og „öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:6, 23) Þeir sem nú eru eftir af smurðum bræðrum Krists halda þessu starfi áfram. Ásamt milljónamúgi eru þeir ‚ljós fyrir þjóðirnar‘ í meira en 230 löndum víðs vegar í heiminum. — Opinberunarbókin 7:9.

13, 14. (a) Hvernig viðbrögð fengu Messías og fylgjendur hans við boðunarstarfi sínu? (b) Hvaða umskipti hafa átt sér stað?

13 Jehóva hefur verið eins og styrk stoð að baki þjóni sínum Messíasi, smurðum bræðrum hans og múginum mikla sem halda sameiginlega áfram að prédika fagnaðarerindið. Lærisveinar Jesú hafa mátt þola fyrirlitningu og andstöðu líkt og hann. (Jóhannes 15:20) En Jehóva hefur alltaf breytt aðstæðum til að bjarga og umbuna dyggum þjónum sínum þegar það hefur verið tímabært. Messías er „fyrirlitinn“ og „fólk hefir andstyggð á“ honum en Jehóva lofar honum: „Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna [Jehóva], sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.“ — Jesaja 49:7.

14 Páll postuli fjallaði um þessi boðuðu umskipti löngu síðar, í bréfi til kristinna manna í Filippí. Hann nefndi að Jesús hefði verið auðmýktur á kvalastaur en síðan upphafinn af Guði, og sagði að Guð hefði „hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig.“ (Filippíbréfið 2:8-11) Trúum fylgjendum Krists er bent á að þeir verði líka ofsóttir. En Jehóva lofar þeim náð sinni eins og hann lofaði Messíasi. — Matteus 5:10-12; 24:9-13; Markús 10:29, 30.

„Nú er hagkvæm tíð“

15. Hvaða sérstakur ‚tími‘ er nefndur í spádómi Jesaja og hvað gefur það til kynna?

15 Nú kemur mjög þýðingarmikil yfirlýsing í spádómi Jesaja. Jehóva segir Messíasi: „Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn.“ (Jesaja 49:8a) Í Sálmi 69:14-19 er að finna líkan spádóm þar sem sálmaritarinn talar um „stund náðar.“ Orðalagið gefur til kynna að Jehóva veiti náð sína og vernd bæði á sérstakan hátt og á ákveðnum og afmörkuðum tíma.

16. Hvenær var náðartími Jehóva gagnvart Forn-Ísrael?

16 Hvenær var þessi ‚náðartími‘? Upphaflega var þetta hluti af endurreisnarspádómi og boðaði að Gyðingar myndu snúa heim úr útlegðinni. Ísraelsþjóðin nýtur náðar Guðs á þeim tíma þegar hún er að „reisa við landið“ og taka á ný við „erfðahlutum, sem komnir eru í auðn.“ (Jesaja 49:8b) Gyðingar voru ekki lengur ‚hinir fjötruðu‘ í Babýlon. Jehóva sá til þess að þá ‚hungraði‘ ekki né ‚þyrsti‘ á heimleiðinni og að þeim yrði ekki meint af ‚breiskjuloftinu og sólarhitanum.‘ Hinir tvístruðu Ísraelsmenn sneru heim hópum saman „langt að, sumir frá norðri og vestri.“ (Jesaja 49:9-12) Byrjunaruppfyllingin er áhrifamikil en Biblían bendir á að spádómurinn hafi víðtækara gildi.

17, 18. Hvaða náðartíma ákvað Jehóva á fyrstu öld?

17 Þegar Jesús fæddist boðuðu englar mönnum frið og velþóknun Guðs, það er að segja náð hans. (Lúkas 2:13, 14) Þessi velþóknun var ekki boðin mönnum almennt heldur þeim einum sem iðkuðu trú á Jesú. Síðar las Jesús upp spádóminn í Jesaja 61:1, 2 og heimfærði hann á sjálfan sig þannig að hann væri að boða ‚náðarár Jehóva.‘ (Lúkas 4:17-21) Páll postuli gat þess að Kristur hefði notið sérstakrar verndar Jehóva á jarðvistardögum sínum. (Hebreabréfið 5:7-9) Þessi náðartími er því fólginn í velþóknun Guðs á Jesú meðan hann var maður.

18 En spádómurinn á sér enn eina uppfyllingu. Eftir að hafa vitnað í orð Jesaja um náðartímann heldur Páll áfram og segir: „Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.“ (2. Korintubréf 6:2) Páll skrifaði þetta 22 árum eftir dauða Jesú. Frá og með tilurð kristna safnaðarins á hvítasunnu árið 33 virðist Jehóva hafa látið náðarár sitt ná til smurðra fylgjenda Krists.

19. Hvernig geta kristnir menn nú á dögum notfært sér náðartíma Jehóva?

19 Hvað um fylgjendur Jesú nú á tímum sem eru ekki smurðir erfingjar að himnesku ríki Guðs? Nær þessi hagkvæmi tími til þeirra sem bera jarðneska von í brjósti? Já, Opinberunarbókin sýnir fram á að nú standi yfir náðartími Jehóva gagnvart múginum mikla sem koma mun „úr þrengingunni miklu“ og fær að lifa í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 7:13-17) Allir kristnir menn geta því notfært sér þennan takmarkaða tíma sem Jehóva lætur náð sína ná til ófullkominna manna.

20. Hvernig geta kristnir menn komið í veg fyrir að náð Jehóva verði til einskis?

20 Páll postuli kom með viðvörun áður en hann talaði um hagkvæma tíð Jehóva. Hann hvatti kristna menn eindregið til þess að ‚láta ekki náð Guðs, sem þeir hefðu þegið, verða til einskis.‘ (2. Korintubréf 6:1) Kristnir menn nota því hvert tækifæri til að þóknast Guði og gera vilja hans. (Efesusbréfið 5:15, 16) Það er þeim til góðs að hlýða hvatningu Páls: „Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði. Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir ‚í dag‘, til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.“ — Hebreabréfið 3:12, 13.

21. Með hvaða gleðiorðum lýkur fyrri hluta 49. kafla Jesajabókar?

21 Jesaja slær á glaðlega strengi eftir að spádómlegum orðaskiptum Jehóva og Messíasar lýkur: „Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að [Jehóva] veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu.“ (Jesaja 49:13) Þetta eru falleg orð og hughreystandi, bæði fyrir Ísraelsmenn fortíðar og Jesú Krist, hinn mikla þjón Jehóva, og eins fyrir smurða þjóna hans nú á tímum og hina „aðra sauði“ sem starfa með þeim. — Jóhannes 10:16.

Jehóva gleymir ekki fólki sínu

22. Hvernig leggur Jehóva áherslu á að hann gleymi aldrei fólki sínu?

22 Jesaja heldur nú áfram að greina frá yfirlýsingum Jehóva. Hann segir að hinum útlægu Ísraelsmönnum hætti til að þreytast og missa vonina. Jesaja skrifar: „Síon segir: ‚[Jehóva] hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!‘“ (Jesaja 49:14) Er þetta rétt? Hefur Jehóva yfirgefið fólk sitt og gleymt því? Jesaja heldur áfram sem talsmaður Jehóva: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.“ (Jesaja 49:15) Kærleikur Jehóva er sterkari en móðurástin eins og hlýleg orð hans bera með sér! Hann er sífellt að hugsa um holla þjóna sína. Hann minnist þeirra rétt eins og nöfn þeirra séu rist í lófa hans: „Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.“ — Jesaja 49:16.

23. Hvernig hvatti Páll kristna menn til að treysta því að Jehóva gleymdi þeim ekki?

23 Páll postuli hvatti kristna menn í Galatabréfinu: „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ (Galatabréfið 6:9) Hann skrifaði Hebreum í uppörvandi tón: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ (Hebreabréfið 6:10) Við þurfum aldrei að hafa það á tilfinningunni að Jehóva hafi gleymt fólki sínu. Kristnir menn hafa fullt tilefni til að gleðjast og bíða hans þolinmóðir, líkt og Síon gerði forðum daga. Hann heldur ákvæði sáttmála síns og efnir loforð sín.

24. Hvernig verður Síon endurreist og um hvað mun hún spyrja?

24 Jehóva heldur áfram að uppörva þjóna sína fyrir munn Jesaja. Þeir sem „brutu [Síon] niður,“ annaðhvort Babýloníumenn eða fráhvarfsmenn meðal Gyðinga, ógna ekki lengur. „Byggjendur“ Síonar, hinir útlægu Gyðingar sem sýna Jehóva hollustu, „koma með flýti.“ Þeir „safnast allir saman.“ Gyðingar hafa hraðað sér heim til Jerúsalem og þeir munu prýða höfuðborgina, rétt eins og „brúður“ klæðist „skarti.“ (Jesaja 49:17, 18) Rústir Síonar eru „eyðistaðir.“ Við getum rétt ímyndað okkur undrun hennar þegar íbúarnir verða skyndilega svo margir að það virðist of þröngt um þá. (Lestu Jesaja 49:19, 20.) Hún spyr auðvitað hvaðan öll þessi börn séu komin: „Þá muntu segja í hjarta þínu:Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?‘“ (Jesaja 49:21) Þetta eru gleðileg umskipti fyrir hina barnlausu Síon!

25. Hvaða endurreisn fékk hinn andlegi Ísrael?

25 Þessi orð eiga sér nútímauppfyllingu. Andlegir Ísraelsmenn máttu þola eyðileggingu og ánauð á hinum erfiðu árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. En svo voru þeir reistir við og fengu að ganga inn í andlega paradís. (Jesaja 35:1-10) Þeir glöddust eins og hin eydda borg, sem Jesaja lýsir, þegar allt varð iðandi af kátum og virkum tilbiðjendum Jehóva.

„Hermerki fyrir þjóðirnar“

26. Hvernig leiðir Jehóva frelsaða þjóð sína?

26 Jehóva spáir nú um þann tíma þegar fólk hans verður leyst úr ánauð Babýlonar. Mun hann leiða þá þegar þar að kemur? Jehóva svarar: „Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni.“ (Jesaja 49:22) Í frumuppfyllingunni er „merki“ Jehóva borgin Jerúsalem þar sem stjórnarsetrið hafði verið og musteri hans hafði staðið. Jafnvel nafnkunnir og voldugir menn af öðrum þjóðum, svo sem „konungar“ og „drottningar,“ liðsinna Ísraelsmönnum á heimleiðinni. (Jesaja 49:23a) Persakonungarnir Kýrus og Artaxerxes Longimanus og heimamenn þeirra eru í hópi þessara stuðningsmanna. (Esrabók 5:13; 7:11-26) Og orð Jesaja uppfyllast í víðtækari mæli.

27. (a) Að hvaða „merki“ safnast menn í meiri uppfyllingunni? (b) Hvaða áhrif hefur það að allar þjóðir eru neyddar til að lúta stjórn Messíasar?

27 Jesaja 11:10 talar um „hermerki fyrir þjóðirnar.“ Páll postuli heimfærir þessi orð á Jesú Krist. (Rómverjabréfið 15:8-12) Í hinni meiri uppfyllingu eru Jesús og andasmurðir meðstjórnendur hans ‚merkið‘ sem fólk safnast að. (Opinberunarbókin 14:1) Í fyllingu tímans þurfa allir menn á jörð — meira að segja valdastéttirnar — að lúta stjórn Messíasar. (Sálmur 2:10, 11; Daníel 2:44) Jehóva segir um áhrifin: „Þá munt þú komast að raun um, að ég er [Jehóva] og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.“ — Jesaja 49:23b.

„Nú er oss hjálpræðið nær“

28. (a) Hvernig fullvissar Jehóva fólk sitt enn einu sinni um að það verði leyst úr ánauð? (b) Hvernig er Jehóva enn skuldbundinn fólki sínu?

28 Sumum þeirra sem eru í útlegðinni í Babýlon er kannski spurn hvort það sé yfirleitt nokkur möguleiki á því að Ísrael verði leystur úr ánauð. Jehóva tekur mið af því og spyr: „Hvort mun herfangið verða tekið af hinum sterka? Og munu bandingjar ofbeldismannsins fá komist undan?“ (Jesaja 49:24) Svarið er já. Jehóva fullvissar þá: „Bandingjarnir skulu teknir verða af hinum sterka og herfang ofbeldismannsins komast undan.“ (Jesaja 49:25a) Þetta er einkar hughreystandi. Og náð Jehóva gagnvart fólki sínu helst í hendur við skýrt loforð um að vernda það. Hann segir berum orðum: „Ég skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og sonu þína mun ég frelsa.“ (Jesaja 49:25b) Þetta loforð stendur enn. „Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn,“ segir Jehóva í Sakaría 2:8. Nú stendur yfir sá náðartími er fólk um heim allan hefur tækifæri til að flykkjast til hinnar andlegu Síonar, en þessi náðartími tekur enda.

29. Hvaða skelfilegar horfur hafa þeir sem neita að hlýða Jehóva?

29 Hvað verður um þá sem neita þrákelknislega að hlýða Jehóva og ofsækja jafnvel tilbiðjendur hans? Hann segir: „Ég mun láta kúgara þína eta eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði, eins og af vínberjalegi.“ (Jesaja 49:26a) Þetta eru skelfilegar horfur. Þrjóskir andstæðingar eiga sér enga framtíð til langs tíma litið. Þeim verður tortímt. Jehóva er því frelsari bæði með því að bjarga fólki sínu og eyða óvinum þess. „Allt hold mun þá komast að raun um, að ég, [Jehóva], er frelsari þinn, og hinn voldugi Jakobs Guð, lausnari þinn.“ — Jesaja 49:26b.

30. Hvaða björgunarverk hefur Jehóva unnið í þágu fólks síns og hvað á hann eftir að gera?

30 Þessi orð rættust fyrst þegar Jehóva notaði Kýrus til að frelsa þjóð sína úr ánauðinni í Babýlon. Þau rættust líka árið 1919 þegar hann notaði krýndan son sinn, Jesú Krist, til að leysa fólk sitt úr andlegri ánauð. Biblían talar því bæði um Jehóva og Jesú sem frelsara. (Títusarbréfið 2:11-13; 3:4-6) Jehóva er frelsari okkar og Jesús, Messías, er ‚foringi‘ hans. (Postulasagan 5:31) Það er mikið björgunarverk sem Guð lætur Jesú Krist koma til leiðar. Með fagnaðarerindinu leysir hann hjartahreina menn úr fjötrum falskra trúarbragða. Með lausnarfórninni frelsar hann þá úr fjötrum syndar og dauða. Hann frelsaði bræður Jesú úr andlegum fjötrum árið 1919. Og í Harmagedónstríðinu, sem nálgast óðfluga, frelsar hann mikinn múg trúfastra manna svo að þeir farast ekki með syndurunum.

31. Hvernig ættu kristnir menn að bregðast við náð Guðs?

31 Það er mikill heiður að njóta náðar Guðs. Við skulum öll nota þennan náðartíma viturlega. Og hegðum okkur öll í samræmi við mikilvægi tímans og gefum gaum að orðum Páls í Rómverjabréfinu: „Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.“ — Rómverjabréfið 13:11-14.

32. Hverju má fólk Guðs treysta?

32 Jehóva heldur áfram að sýna þeim velvild sem gefa ráðum hans gaum. Hann veitir þeim bæði styrk til að boða fagnaðarerindið og kunnáttu til þess. (2. Korintubréf 4:7) Hann notar þjóna sína eins og hann notar leiðtoga þeirra, Jesú. Hann gerir munn þeirra eins og „beitt sverð“ svo að þeir nái að láta fagnaðarerindið snerta hjörtu auðmjúkra manna. (Matteus 28:19, 20) Hann verndar fólk sitt „í skugga handar sinnar“ og felur það eins og ‚fágaða ör‘ í „örvamæli sínum.“ Já, Jehóva mun ekki yfirgefa fólk sitt! — Sálmur 94:14; Jesaja 49:2, 15.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 „Satan hefur eflaust vitað að Jesús var sonur Guðs sem átti að merja höfuð hans samkvæmt spádóminum (1M 3:15) svo að hann gerði allt sem hann gat til að tortíma honum. En engillinn Gabríel sagði Maríu þegar hann boðaði henni að hún yrði þunguð af Jesú: ‚Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.‘ (Lk 1:35) Jehóva verndaði Jesú svo að óvininum tókst ekki að tortíma honum á barnsaldri.“ — Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 868, gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 139]

Messías er eins og ‚fáguð ör‘ í örvamæli Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 141]

Messías hefur verið ‚ljós fyrir þjóðirnar.‘

[Mynd á blaðsíðu 147]

Ást Guðs á fólki sínu er sterkari en móðurástin.