Réttlæti sprettur upp í Síon
22. kafli
Réttlæti sprettur upp í Síon
1, 2. Hvaða breyting er í þann mund að verða hjá Ísrael og hver kemur henni til leiðar?
BOÐIÐ frelsi! Jehóva hefur ákveðið að frelsa fólk sitt og senda það aftur heim í land ættfeðranna. Sönn tilbeiðsla skal spretta upp á nýjan leik, líkt og fræ sem skýtur frjóöngum eftir regnið. Þegar dagurinn rennur upp víkur örvæntingin fyrir gleði- og lofsöng og aska sorgarinnar fyrir höfuðdjásni velþóknunar Guðs.
2 Hver ætlar að breyta ástandinu svona stórkostlega? Enginn nema Jehóva getur gert það. (Sálmur 9:20, 21; Jesaja 40:25) Sefanía spámaður fyrirskipaði: „Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem! [Jehóva] hefir afmáð refsidóma þína.“ (Sefanía 3:14, 15) Þetta verður mikill gleðitími. Það er draumi líkast þegar Jehóva safnar leifunum heim frá Babýlon árið 537 f.o.t. — Sálmur 126:1.
3. Hvernig hafa spádómsorðin í 61. kafla Jesajabókar ræst?
3 Þessari endurreisn er spáð í 61. kafla hjá Jesaja. Spádómurinn rættist greinilega árið 537 f.o.t. og enn þá ítarlegar síðar. Ítarlegri uppfyllingin nær til Jesú og fylgjenda hans á fyrstu öld og til fólks Jehóva í nútímanum. Hin innblásnu orð eru því afar þýðingarmikil.
„Náðarár“
4. Á hverjum rættist Jesaja 61:1 fyrst og á hverjum öðru sinni?
4 Jesaja skrifar: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að [Jehóva] hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum [„auðmjúkum,“ NW] gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn.“ (Jesaja 61:1) Hverjum er falið að flytja gleðilegan boðskap? Líklega var Jesaja falið það fyrst en Guð innblés honum að skrásetja gleðilegan boðskap handa hinum hernumdu í Babýlon. En Jesús benti á mikilvægari uppfyllingu spádómsins er hann heimfærði hann á sjálfan sig. (Lúkas 4:16-21) Hann var sendur til að flytja auðmjúkum gleðilegan boðskap og var smurður með heilögum anda til þessa hlutverks er hann skírðist. — Matteus 3:16, 17.
5. Hverjir hafa boðað fagnaðarerindið í um það bil 2000 ár?
5 Jesús kenndi fylgjendum sínum að flytja gleðilegan boðskap, fagnaðarerindið. Um 120 lærisveinar voru smurðir með heilögum anda á hvítasunnu árið 33 og urðu þá andleg börn Guðs. (Postulasagan 2:1-4, 14-42; Rómverjabréfið 8:14-16) Þeir fengu líka það verkefni að flytja nauðstöddum og sorgbitnum gleðilegan boðskap. Þessir 120 voru fyrstir af 144.000 til að fá andasmurningu. Hinir síðustu úr hópnum eru enn þá starfandi á jörðinni. Smurðir fylgjendur Jesú hafa því vitnað „um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú“ í hér um bil 2000 ár. — Postulasagan 20:21.
6. Hverjum fannst uppörvandi að heyra gleðilegan boðskap forðum daga og hvað um nútímann?
6 Innblásinn boðskapur Jesaja var einkar uppörvandi fyrir iðrandi Gyðinga í Babýlon. Á dögum Jesú og lærisveina hans var hann uppörvandi fyrir Gyðinga sem hörmuðu illskuna í Ísrael og voru hnepptir í fjötra falstrúarhefða gyðingdómsins. (Matteus 15:3-6) Milljónir manna eru fangar heiðinna kenninga og siða kristna heimsins og „andvarpa og kveina“ yfir þeim svívirðingum sem framdar eru þar. (Esekíel 9:4) Þeir sem taka við fagnaðarerindinu losna úr þessari ömurlegu stöðu. (Matteus 9:35-38) Þeir sleppa úr fjötrum og fá nýja sýn þegar þeir læra að tilbiðja Jehóva „í anda og sannleika.“ — Jóhannes 4:24.
7, 8. (a) Hvaða tvö „náðarár“ hefur Jehóva gefið mönnum? (b) Hvenær var ‚hefndardagur Guðs‘ til forna og hvenær kemur hann aftur?
7 Boðun gleðiboðskaparins er tímasett. Jesú og fylgjendum hans var fyrirskipað „að boða náðarár [Jehóva] og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda.“ (Jesaja 61:2) Ár er langur tími en á sér þó upphaf og endi. „Náðarár“ Jehóva er það tímabil þegar hann gefur auðmjúkum mönnum tækifæri til að taka við frelsisboðuninni.
8 Náðarár Gyðinga á fyrstu öld rann upp árið 29 er Jesús hóf þjónustu sína á jörð. Hann sagði Gyðingum: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 4:17) Náðarárið stóð uns ‚hefndardagur‘ Jehóva rann upp en hann náði hámarki árið 70 er Jehóva leyfði rómverskum hersveitum að eyða Jerúsalem og musterið. (Matteus 24:3-22) Við lifum nú annað náðarár sem hófst 1914 er Guðsríki var stofnsett á himnum. Þessu náðarári lýkur með öðrum og víðtækari hefndardegi er Jehóva eyðir öllu heimskerfinu í ‚þrengingunni miklu.‘ — Matteus 24:21.
9. Hverjir njóta góðs af náðarári Jehóva?
9 Hverjir njóta góðs af náðarári Guðs nú á tímum? Þeir sem taka við boðskapnum, sýna af sér auðmýkt og boða Guðsríki dyggilega meðal ‚allra þjóða.‘ (Markús 13:10) Þeir þekkja af eigin raun að fagnaðarerindið huggar. En þeir sem hafna boðskapnum og vilja ekki notfæra sér náðarár Jehóva þurfa að taka afleiðingunum í náinni framtíð þegar hefndardagurinn rennur upp. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.
Andlegur ávöxtur til vegsemdar Guði
10. Hvaða áhrif hefur máttarverk Jehóva á Gyðingana sem snúa heim frá Babýlon?
10 Gyðingarnir, sem snúa heim frá Babýlon, gera sér ljóst að Jehóva hefur unnið mikið máttarverk fyrir þá. Harmur hinna herteknu breytist í fögnuð og lofsöng nýfrjálsra manna. Jesaja skilar af sér hinu spámannlega verkefni „að láta hinum hrelldu í Síon í té, — gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan [Jehóva] honum til vegsemdar.“ — Jesaja 61:3.
11. Hverjir höfðu ærna ástæðu til að lofa Jehóva fyrir máttarverk hans á fyrstu öld?
11 Gyðingar á fyrstu öld, sem losnuðu úr fjötrum falstrúar, lofuðu Guð líka fyrir máttarverk hans. Að vera frelsaður frá andlega dauðri þjóð var eins og að klæðast „skartklæði“ í stað hugarvílsins sem fyrir var. Lærisveinar Jesú fundu fyrst fyrir þessari breytingu þegar hinn upprisni Drottinn smurði þá með heilögum anda og hryggð þeirra vegna dauða hans breyttist í fögnuð. Skömmu síðar gerðist slíkt hið sama hjá 3000 auðmjúkum mönnum sem tóku við boðskap þessara nýsmurðu kristnu manna á hvítasunnu árið 33 og létu skírast. (Postulasagan 2:41) Vissan um blessun Jehóva var yndisleg! Þeir voru ekki lengur ‚hrelldir vegna Síonar‘ heldur fengu heilagan anda og hresstust við ‚fagnaðarolíuna‘ er táknar gleði þeirra sem Jehóva blessar. — Hebreabréfið 1:9.
12, 13. (a) Hverjir voru „réttlætis-eikur“ meðal Gyðinga eftir heimkomuna árið 537 f.o.t.? (b) Hverjir hafa verið „réttlætis-eikur“ frá hvítasunnu árið 33?
12 Jehóva gefur fólki sínu „réttlætis-eikur.“ Hvað tákna þær? Á árunum eftir 537 f.o.t. voru þetta menn sem rannsökuðu og hugleiddu orð Guðs og tileinkuðu sér réttláta mælikvarða hans. (Sálmur 1:1-3; Jesaja 44:2-4; Jeremía 17:7, 8) Menn eins og Esra, Haggaí, Sakaría og Jósúa æðstiprestur voru áberandi „réttlætis-eikur“ — hugrakkir málsvarar sannleikans sem börðust gegn andlegri spillingu innan þjóðarinnar.
13 Frá hvítasunnu árið 33 gróðursetti Jehóva sams konar „réttlætis-eikur“ á andlegri landareign hinnar nýju þjóðar, ‚Ísraels Guðs.‘ (Galatabréfið 6:16) Þetta voru hugrakkir, smurðir kristnir menn. Í aldanna rás hafa vaxið upp 144.000 „eikur“ sem hafa borið réttlátan ávöxt, Jehóva Guði til vegsemdar. (Opinberunarbókin 14:3) Síðustu ‚réttlætis-eikurnar‘ hafa dafnað eftir 1919 er Jehóva vakti leifar Ísraels Guðs af tímabundnu athafnadái. Hann vökvaði þær svo ríkulega með andlegu vatni að úr varð heill skógur réttlætistrjáa er báru góðan ávöxt. — Jesaja 27:6.
14, 15. Við hvað hófust þjónar Jehóva handa árið (a) 537 f.o.t.? (b) 33? (c) 1919?
14 Jesaja bendir nú á starf ‚réttlætis-eikanna‘: „Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.“ (Jesaja 61:4) Trúfastir Gyðingar sneru heim frá Babýlon og reistu Jerúsalem og musterið upp úr rústum í samræmi við tilskipun Kýrusar Persakonungs. Árin eftir 33 og 1919 einkenndust einnig af endurreisn.
15 Lærisveinar Jesú hryggðust stórlega er hann var handtekinn árið 33, dæmdur og líflátinn. (Matteus 26:31) En það breyttist er hann birtist þeim eftir upprisuna. Og þegar heilögum anda var úthellt yfir þá tóku þeir til óspilltra málanna við að boða fagnaðarerindið „í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Þeir tóku sem sagt að endurreisa hreina tilbeiðslu. Árið 1919 lét Jesús Kristur leifar smurðra bræðra sinna hefjast handa við að endurbyggja ‚eyddar borgir sem legið höfðu við velli í marga mannsaldra.‘ Klerkastétt kristna heimsins hafði um aldaraðir brugðist þeirri skyldu sinni að miðla þekkingu á Jehóva. Í staðinn hafði hún haldið á loft kenningum manna og óbiblíulegum kreddum. Smurðir kristnir menn hreinsuðu söfnuðina af siðum sem báru keim af falstrú, til að sönn tilbeiðsla fengi framgang og endurreisn. Og þeir hófu mesta boðunarátak mannkynssögunnar. — Markús 13:10.
16. Hverjir hafa stutt hina smurðu við endurreisnarstarfið og hvaða verkefni hafa þeim verið falin?
16 Þetta var feikilegt verkefni. Hvernig gátu hinir tiltölulega fáu, sem eftir voru af Ísrael Guðs, hrint því í framkvæmd? Jehóva innblés Jesaja að skrifa: „Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður.“ (Jesaja 61:5) Þessir útlendingar og aðkomumenn tákna hinn ‚mikla múg‘ af ‚öðrum sauðum‘ Jesú. * (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:11, 16) Þeir eru ekki smurðir með heilögum anda og eiga ekki himneska arfleifð í vændum heldur von um eilíft líf í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 21:3, 4) En þeir elska Jehóva og þeim er trúað fyrir andlegri hjarðgæslu, akurmennsku og vínrækt. Þetta eru fjarri því að vera lítilmótleg störf. Undir forystu Ísraels Guðs aðstoða þessir verkamenn við að gæta hjarðarinnar og halda henni til haga, og eiga hlutdeild í hinum andlegu uppskerustörfum. — Lúkas 10:2; Postulasagan 20:28; 1. Pétursbréf 5:2; Opinberunarbókin 14:15, 16.
17. (a) Hvað verða andlegir Ísraelsmenn kallaðir? (b) Hvaða eina fórn nægir til að fyrirgefa syndir?
17 Hvað um Ísrael Guðs? Jehóva segir andlegum Ísraelsmönnum fyrir munn Jesaja: „Sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar [Jehóva] og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.“ (Jesaja 61:6) Jehóva skipaði prestastéttina af ætt Leví forðum daga til að færa fórnir fyrir sjálfa sig og aðra Ísraelsmenn. En árið 33 hætti hann að nota levítaprestana og tók upp betra fyrirkomulag. Hann tók við fullkomnu lífi Jesú sem fórn fyrir syndir mannkyns og þaðan í frá hefur ekki þurft að færa aðrar fórnir. Fórn Jesú hefur ævarandi gildi. — Jóhannes 14:6; Kólossubréfið 2:13, 14; Hebreabréfið 9:11-14, 24.
18. Hvers konar prestafélag mynda andlegir Ísraelmenn og hvaða verkefni hafa þeir með höndum?
18 Hvernig eru andlegir Ísraelsmenn ‚prestar Jehóva‘? Pétur postuli skrifaði smurðum trúbræðrum sínum: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:9) Smurðir kristnir menn í heild mynda því prestafélag sem hefur það ákveðna verkefni að boða þjóðunum dýrð Jehóva og vera vottar hans. (Jesaja 43:10-12) Hinir smurðu hafa rækt dyggilega þessa mikilvægu skyldu með þeim árangri að milljónir manna boða nú ríki Jehóva með þeim.
19. Hvaða þjónustu munu smurðir kristnir menn hafa með höndum?
19 Andlegir Ísraelsmenn eiga í vændum að þjóna sem prestar á annan hátt. Eftir dauða sinn eru þeir reistir upp til himna sem ódauðlegir andar. Þar þjóna þeir bæði sem meðstjórnendur Jesú í ríki hans og sem prestar Guðs. (Opinberunarbókin 5:10; 20:6) Sem slíkir hafa þeir það hlutverk að beita lausnarfórn Jesú í þágu trúfastra manna á jörðinni. Þeir eru einnig kallaðir „tré“ í sýn Jóhannesar postula í 22. kafla Opinberunarbókarinnar. Öll hin 144.000 „tré“ sjást þar á himnum og þau bera „tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum [gefa þau] ávöxt sinn, og blöð [trjánna] eru til lækningar þjóðunum.“ (Opinberunarbókin 22:1, 2) Þetta er góð prestþjónusta!
Smán og háðung en síðan gleði
20. Hvaða blessun á hið konunglega prestafélag að hljóta þrátt fyrir andstöðu?
20 Hið smurða prestafélag hefur mætt stöðugri andstöðu frá klerkastétt kristna heimsins síðan náðarár Jehóva hófst 1914. (Opinberunarbókin 12:17) En allar tilraunir til að stöðva boðun fagnaðarerindisins hafa fyrr eða síðar runnið út í sandinn. Þetta var sagt fyrir í spádómi Jesaja: „Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.“ — Jesaja 61:7.
21. Hvernig fengu smurðir kristnir menn tvöfalda blessun?
21 Í fyrri heimsstyrjöldinni máttu hinar smurðu leifar þola smán og háðung af hendi kristna heimsins sem var mjög þjóðernissinnaður. Átta trúfastir bræður við aðalstöðvarnar í Brooklyn voru ranglega sakaðir um uppreisnaráróður, og voru prestar í hópi ákærenda. Þessir bræður sátu í níu mánuði í fangelsi fyrir upplognar sakir. Vorið 1919 voru þeir loksins leystir úr haldi og síðar voru allar ákærur á hendur þeim felldar niður. Það áform að stöðva boðunarstarfið fór því út um þúfur. Jehóva leyfði ekki að dýrkendur sínir þyldu varanlega smán heldur frelsaði þá og leiddi aftur heim í andlegt ‚land‘ þeirra. Þar hlutu þeir tvöfalda blessun sem meira en bætti fyrir allar þjáningarnar. Þeir höfðu sannarlega ástæðu til að fagna.
22, 23. Hvernig hafa smurðir kristnir menn líkt eftir Jehóva og hvernig hefur hann umbunað þeim?
22 Jehóva bendir nú á aðra ástæðu sem kristnir menn hafa til að fagna: „Ég, [Jehóva], elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán. Ég geld þeim laun þeirra með trúfesti og gjöri við þá eilífan sáttmála.“ (Jesaja 61:8) Af biblíunámi sínu lærðu hinar smurðu leifar að elska réttlætið og hata ranglætið. (Orðskviðirnir 6:12-19; 11:20) Þær lærðu að „smíða plógjárn úr sverðum sínum“ og vera hlutlausar í styrjöldum og stjórnmálaumbrotum mannkyns. (Jesaja 2:4) Og þær sögðu skilið við svívirðilegt hátterni svo sem rógburð, hórdóm, þjófnað og drykkjuskap. — Galatabréfið 5:19-21.
23 Smurðir kristnir menn elska réttlætið líkt og skaparinn, þannig að hann hefur ‚goldið þeim laun þeirra með trúfesti.‘ ‚Launin‘ eru meðal annars fólgin í eilífum sáttmála — nýja sáttmálanum — sem Jesús boðaði fylgjendum sínum kvöldið áður en hann dó. Það er á grundvelli þessa sáttmála sem þeir verða andleg kjörþjóð Guðs. (Jeremía 31:31-34; Lúkas 22:20) Samkvæmt ákvæðum sáttmálans mun Jehóva beita blessuninni af lausnarfórn Jesú að fullu. Þar á meðal fá hinir smurðu og allir aðrir trúfastir menn syndafyrirgefningu.
Þeir gleðjast yfir blessun Jehóva
24. Hverjir af þjóðunum eru ‚kynslóðin sem Jehóva blessar‘ og hvernig verða þeir slík „kynslóð“?
24 Sumir af þjóðunum hafa áttað sig á því að Jehóva blessar fólk sitt. Jehóva sagði það fyrir er hann lofaði: „Niðjar þeirra munu kunnir verða meðal þjóðanna og afsprengi þeirra á meðal þjóðflokkanna. Allir sem sjá þá, munu kannast við, að þeir eru sú kynslóð, sem [Jehóva] hefir blessað.“ (Jesaja 61:9) Smurðir kristnir menn (Ísrael Guðs) hafa starfað meðal þjóðanna á náðarári Guðs. Nú hafa milljónir manna tekið við boðskap þeirra. Með nánu samstarfi við Ísrael Guðs hefur fólki af þjóðunum hlotnast sá heiður að vera ‚sú kynslóð sem Jehóva hefur blessað.‘ Allt mannkyn tekur eftir hamingju hennar.
25, 26. Hvernig taka allir kristnir menn undir orðin í Jesaja 61:10?
25 Allir kristnir menn, jafnt smurðir sem aðrir sauðir, hlakka til þess að mega lofa Jehóva að eilífu. Þeir taka af heilum hug undir innblásin orð spámannsins Jesaja: „Ég gleðst yfir [Jehóva], sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu.“ — Jesaja 61:10.
26 Smurðir kristnir menn eru klæddir „skikkju réttlætisins“ og eru staðráðnir í því að halda sér hreinum í augum Jehóva. (2. Korintubréf 11:1, 2) Hann lýsir þá réttláta til að þeir geti erft líf á himnum og þeir snúa aldrei aftur til auðnarinnar í Babýlon hinni miklu þaðan sem þeir eru frelsaðir. (Rómverjabréfið 5:9; 8:30) Hjálpræðisklæðin eru ómetanleg fyrir þá. Félagar þeirra af hópi annarra sauða eru líka ákveðnir í að halda hina háleitu staðla hreinnar tilbeiðslu á Jehóva Guði. Þeir hafa „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins,“ eru réttlættir og komast lifandi gegnum ‚þrenginguna miklu.‘ (Opinberunarbókin 7:14; Jakobsbréfið 2:23, 25) Uns sú stund rennur upp líkja þeir eftir smurðum félögum sínum og forðast að óhreinka sig á nokkurn hátt af Babýlon hinni miklu.
27. (a) Hvað mun „upp spretta“ í þúsundáraríkinu? (b) Hvernig sprettur réttlætið upp nú þegar meðal manna?
27 Dýrkendur Jehóva njóta þess að búa í andlegri paradís og bráðlega tekur við bókstafleg paradís. Við hlökkum ákaft til þess tíma sem er lýst svo fagurlega í lokaorðum 61. kaflans hjá Jesaja: „Eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi [Jehóva] láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.“ (Jesaja 61:11) ‚Réttlætið mun upp spretta‘ á jörð í þúsundáraríki Krists. Menn munu syngja af gleði og réttlætið mun breiðast út til endimarka jarðar. (Jesaja 26:9) En við þurfum ekki að bíða þessa dýrðardags til að víðfrægja Jehóva í augsýn allra þjóða. Réttlætið sprettur upp nú þegar meðal þeirra milljóna manna sem vegsama Guð himnanna og boða fagnaðarerindið um ríki hans. Trúin og vonin er okkur ærið tilefni til að gleðjast yfir blessun Guðs.
[Neðanmáls]
^ gr. 16 Jesaja 61:5 kann að hafa uppfyllst forðum daga því að menn af útlendum uppruna voru í för með Gyðingum er þeir sneru heim til Jerúsalem, og þeir tóku líklega þátt í endurreisninni. (Jesaja 61:5; Esrabók 2:43-58) En frá og með 6. versinu virðist spádómurinn eingöngu eiga við Ísrael Guðs.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 323]
Jesaja hefur gleðilegan boðskap að bera hinum hernumdu Gyðingum.
[Mynd á blaðsíðu 331]
Jehóva hefur gróðursett 144.000 „réttlætis-eikur“ síðan árið 33.
[Mynd á blaðsíðu 334]
Réttlæti mun spretta upp á jörðinni.