Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sönn tilbeiðsla vex um allan heim

Sönn tilbeiðsla vex um allan heim

21. kafli

Sönn tilbeiðsla vex um allan heim

Jesaja 60:1-22

1. Hvaða hvetjandi boðskap flytur 60. kafli Jesajabókar?

 SEXTUGASTI kafli Jesajabókar er skrifaður eins og hrífandi sjónleikur. Í fyrstu versunum er dregin upp hjartnæm leikmynd. Því næst fylgir hröð atburðarás og svo áhrifamikill lokaþáttur. Kaflinn bregður upp litríkum myndum af endurreisn hinnar sönnu tilbeiðslu í Jerúsalem fortíðar og vexti hennar um víða veröld nú á dögum. Og hann bendir á eilífa blessun sem allir dyggir dýrkendur Guðs eiga í vændum. Við getum, hvert og eitt, farið með hlutverk í uppfyllingu þessa hrífandi kafla í spádómi Jesaja. Við skulum því skoða hann vandlega.

Ljós skín í myrkri

2. Hvaða skipun fær kona sem liggur í myrkrinu og af hverju er áríðandi að hlýða?

2 Kaflinn hefst á því að kona er ávörpuð. * Hún er illa á vegi stödd og virðist liggja kylliflöt á jörðinni í niðamyrkri. Skyndilega brýst ljósgeisli gegnum myrkrið er Jehóva kallar fyrir munn Jesaja: „Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð [Jehóva] rennur upp yfir þér!“ (Jesaja 60:1) ‚Konan‘ á að rísa á fætur og endurkasta ljósinu af dýrð Guðs. Þetta er áríðandi því að spádómurinn heldur áfram: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur [Jehóva], og dýrð hans birtist yfir þér.“ (Jesaja 60:2) ‚Konan‘ þarf að ‚skína‘ vegna nærstaddra sem enn þá fálma í myrki. Það hefur þau áhrif að „þjóðirnar stefna á ljós [hennar] og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir [henni].“ (Jesaja 60:3) Þessi inngangsorð lýsa í hnotskurn því sem útskýrt er nánar í versunum á eftir — að sönn tilbeiðsla skuli vaxa um heim allan!

3. (a) Hver er ‚konan‘? (b) Af hverju hefur ‚konan‘ legið í myrkri?

3 Þó að ókomnir atburðir séu til umræðu notar hebreskan sagnbeygingu sem kallast ‚lokið horf‘ og segir að ljós ‚konunnar‘ ‚sé komið.‘ Þannig leggur Jehóva áherslu á að spádómurinn rætist örugglega. ‚Konan‘ er Síon eða Jerúsalem, höfuðborg Júda. (Jesaja 52:1, 2; 60:14) Borgin er tákn allrar þjóðarinnar. Þegar spádómurinn rætist í fyrra sinnið liggur ‚konan‘ í myrkri og hefur legið síðan Jerúsalem var eytt árið 607 f.o.t. En árið 537 f.o.t. snúa trúfastar leifar hinna útlægu Gyðinga heim og endurvekja hreina tilbeiðslu. Loksins lætur Jehóva ljós skína á ‚konuna‘ og endurreist þjóð hans upplýsir þjóðir sem sitja í andlegu myrkri.

Meiri uppfylling

4. Hverjir eru fulltrúar ‚konunnar‘ á jörðinni núna og við hverja á spádómurinn einnig?

4 Áhugi okkar á þessum spádómlegu orðum einskorðast ekki við uppfyllingu þeirra á Jerúsalem fortíðar. „Ísrael Guðs“ er fulltrúi himneskrar ‚konu‘ Jehóva á jörð nú á tímum. (Galatabréfið 6:16) Frá því að þjóðin varð til á hvítasunnu árið 33 fram til þessa dags hefur henni fjölgað upp í 144.000 andasmurða einstaklinga. Þeir eru ‚leystir út frá jörðinni‘ og eiga að ríkja með Kristi á himnum. (Opinberunarbókin 14:1, 3) Nútímauppfylling 60. kafla Jesajabókar á við þá sem eftir eru á jörðinni af þessum hópi á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Spádómurinn snertir einnig félaga þessara smurðu kristnu manna, hinn ‚mikla múg‘ ‚annarra sauða.‘ — Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:11, 16.

5. Hvenær lá Ísrael Guðs í myrkri og hvenær lét Jehóva ljós sitt skína á hann?

5 Um stuttan tíma snemma á 20. öld lágu þeir sem eftir voru af Ísrael Guðs flatir á jörðinni í myrkri, ef svo má að orði komast. Er fyrri heimsstyrjöldinni lauk voru þeir táknrænt í sömu aðstöðu og Opinberunarbókin lýsir þar sem segir að lík þeirra hafi legið „á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland.“ (Opinberunarbókin 11:8) En árið 1919 lýsti Jehóva á þá og þeir risu á fætur og endurspegluðu ljós hans með því að boða fagnaðarerindið um ríkið óttalaust. — Matteus 5:14-16; 24:14.

6. Hvernig hefur heimurinn almennt brugðist við þeim boðskap að Jesús sé nærverandi sem konungur en hverjir hafa laðast að ljósi Jehóva?

6 Satan er foringi yfir ‚heimsdrottnum þessa myrkurs‘ og mannkynið í heild hefur hafnað þeim boðskap að Jesús Kristur, „ljós heimsins,“ sé nærverandi sem konungur. (Efesusbréfið 6:12; Jóhannes 8:12; 2. Korintubréf 4:3, 4) Milljónir manna hafa engu að síður laðast að ljósi Jehóva, þeirra á meðal „konungar“ (þeir sem verða smurðir erfingjar að ríkinu á himnum) og ‚þjóðir‘ (mikill múgur annarra sauða).

Vöxturinn vekur hjartans gleði

7. Hvaða kærkomin sjón blasir við ‚konunni‘?

7 Jehóva vinnur nú úr stefinu í Jesaja 60:3 og gefur ‚konunni‘ ný fyrirmæli: „Hef upp augu þín og litast um.“ Konan hlýðir og kærkomin sjón blasir við — börn hennar eru á heimleið! „Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni.“ (Jesaja 60:4) Hin alþjóðlega boðun Guðsríkis, sem hófst árið 1919, varð til þess að þúsundir ‚sona‘ og ‚dætra‘ bættust við Ísrael Guðs. Þannig lauk Jehóva við að safna saman öllum þeim 144.000 sem eiga að ríkja með Kristi. — Opinberunarbókin 5:9, 10.

8. Hvað hefur glatt Ísrael Guðs frá 1919?

8 Vöxturinn gleður. „Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.“ (Jesaja 60:5) Samsöfnun hinna smurðu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar vakti mikla gleði hjá Ísrael Guðs. Og gleðin jókst þegar tekið var til við að safna saman fólki af öllum þjóðum til að tilbiðja með honum, einkum frá miðjum fjórða áratugnum. Þetta fólk tilheyrði áður þeim ‚ólgusjó‘ mannkyns sem er fjarlægur Guði, en það þjónar honum ekki eins og því sjálfu sýnist heldur kemur til ‚konu‘ hans og sameinast hinni einu hjörð. Fyrir vikið eiga allir þjónar hans hlutdeild í vexti sannrar tilbeiðslu. — Jesaja 57:20; Haggaí 2:7.

Þjóðir safnast saman í Jerúsalem

9, 10. Hverjir þyrpast til Jerúsalem og hvernig tekur Jehóva þeim?

9 Jesaja lýsir vextinum með líkingum sem samtíðarmenn hans þekktu mætavel. ‚Konan‘ skimar fyrst til austurs ofan af sjónarhóli sínum á Síonfjalli. Hvað sér hún? „Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof [Jehóva].“ (Jesaja 60:6) Úlfaldalestir farandkaupmanna af ýmsum ættflokkum hlykkjast eftir vegunum sem liggja til Jerúsalem. (1. Mósebók 37:25, 28; Dómarabókin 6:1, 5; 1. Konungabók 10:1, 2) Úlfaldarnir streyma að, næstum eins og flóð hylji landið! Kaupmennirnir flytja með sér verðmætar gjafir, svo að ljóst er að þeir koma í friðsamlegum erindagerðum. Þeir vilja tilbiðja Jehóva og gefa honum það besta sem þeir geta boðið fram.

10 Kaupmennirnir eru ekki einir á ferð. „Allar hjarðir Kedars safnast til þín, hrútar Nebajóts þjóna þér.“ Hirðingjaættkvíslir eru einnig á leiðinni til Jerúsalem. Þær koma með það verðmætasta sem þær geta gefið — sauðahjarðir — og bjóða sig fram til þjónustu. Hvernig ætli Jehóva taki þeim? Hann segir: „Þeir stíga upp á altari mitt mér til þóknunar, og hús dýrðar minnar gjöri ég dýrlegt.“ (Jesaja 60:7) Jehóva þiggur gjafir þeirra og þær verða notaðar í þágu hreinnar tilbeiðslu. — Jesaja 56:7; Jeremía 49:28, 29.

11, 12. (a) Hvaða sjón blasir við ‚konunni‘ er hún horfir í vesturátt? (b) Hvers vegna eru svona margir á hraðferð til Jerúsalem?

11 Jehóva segir nú ‚konunni‘ að horfa til vesturs og spyr: „Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna?“ Hann svarar spurningunni sjálfur: „Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum, og þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt — vegna nafns [Jehóva] Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlega.“ — Jesaja 60:8, 9.

12 Ímyndaðu þér að þú standir við hlið ‚konunnar‘ og mænir í vesturátt yfir hafið mikla. Hvað sérðu? Langt í fjarska glittir í mergð hvítra depla rétt yfir sjávarborðinu. Þeir eru eins og fuglar tilsýndar en er þeir nálgast sérðu að þetta eru skip fyrir fullum seglum. Þau eru komin „af fjarlægum löndum.“ * (Jesaja 49:12) Svo mörg eru skipin, sem stefna til Síonar, að þau líkjast dúfnahjörð á heimleið til búra sinna. Þau flytja dýrkendur Jehóva frá fjarlægum höfnum og flotinn er á hraðferð af því að honum er mikið í mun að koma farminum til skila. Allir hinir aðkomnu, bæði Ísraelsmenn og útlendingar, frá austri sem vestri, frá næsta nágrenni og fjarlægum löndum, hraða sér til Jerúsalem til að helga sig og allt, sem þeir eiga, nafni Jehóva, Guðs síns. — Jesaja 55:5.

13. Hverjir eru ‚synirnir‘ og ‚dæturnar‘ í nútímanum og hver er „fjárafli þjóðanna“?

13 Jesaja 60:4-9 dregur upp ákaflega lifandi mynd af þeim vexti sem hefur átt sér stað um heim allan síðan ‚kona‘ Jehóva tók að skína í myrkum heimi. Fyrst komu „synir“ og „dætur“ hinnar himnesku Síonar sem fengu smurningu andans. Árið 1931 tóku þau að kalla sig votta Jehóva. Síðan streymdi til þeirra heilt ský auðmjúkra manna sem kallaðir eru „auðlegð hafsins“ og „fjárafli þjóðanna.“ Þeir hröðuðu sér að hlið þeirra sem eftir voru af bræðrum Krists. * Þeir koma frá öllum heimshornum og af öllum stéttum til liðs við Ísrael Guðs, og þeir lofa Jehóva Guð sem alheimsdrottin og lofsyngja nafn hans sem er æðst allra nafna í alheimi.

14. Hvernig stíga hinir nýkomnu ‚upp á altari Guðs‘?

14 En hvað er átt við með því að þessir nýkomnu menn af þjóðunum ‚stígi upp á altari Guðs‘? Altari er staður þar sem fórnir eru færðar, og Páll postuli vísaði til þess er hann skrifaði: „Því brýni ég yður . . . að þér . . . bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.“ (Rómverjabréfið 12:1) Sannkristnir menn gefa fúslega af sjálfum sér. (Lúkas 9:23, 24) Þeir nota tíma sinn, krafta og kunnáttu til að efla hreina tilbeiðslu og með því færa þeir Guði velþóknanlegar lofgerðarfórnir. (Rómverjabréfið 6:13; Hebreabréfið 13:15) Það er gleðilegt að sjá hvernig milljónir manna, bæði ungir og gamlir, láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir eigin löngunum. Það er sönn fórnfýsi. — Matteus 6:33; 2. Korintubréf 5:15.

Hinir nýkomnu taka þátt í vextinum

15. (a) Hvernig sýndi Jehóva miskunn á fornum tíma? (b) Hvernig hafa „útlendir menn“ átt hlutdeild í því að byggja upp sanna tilbeiðslu í nútímanum?

15 Hinir nýkomnu bjóðast til að styðja ‚konu‘ Jehóva bæði með eigum sínum og þjónustu. „Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér, því að í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér.“ (Jesaja 60:10) Jehóva sýndi miskunn sína á sjöttu öld f.o.t. er útlendingar hjálpuðu til við endurreisn Jerúsalem. (Esrabók 3:7; Nehemíabók 3:26) Í hinni meiri uppfyllingu nútímans styðja „útlendir menn,“ það er að segja múgurinn mikli, hinar smurðu leifar við að byggja upp sanna tilbeiðslu. Þeir leggja sig fram um að byggja upp kristna eiginleika í fari biblíunemenda sinna og þar með efla þeir kristna söfnuðinn og styrkja ‚borgarmúra‘ skipulags Jehóva. (1. Korintubréf 3:10-15) Þeir vinna einnig bókstafleg byggingarstörf er þeir reisa ríkissali, mótshallir og Betelbyggingar. Þannig styðja þeir andlega bræður sína í því að annast vaxandi skipulag Jehóva. — Jesaja 61:5.

16, 17. (a) Hvernig hefur ‚hliðunum‘ að skipulagi Guðs verið haldið opnum? (b) Hvernig hafa „konungar“ þjónað Síon? (c) Hvað verður um þá sem reyna að loka ‚hliðunum‘ sem Jehóva vill að standi opin?

16 Hið andlega byggingarstarf veldur því að árlega bætast hundruð þúsunda ‚útlendra manna‘ við skipulag Jehóva og leiðin er opin fyrir fleiri. Jehóva segir: „Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna og konunga þeirra sem bandingja [„konungar þeirra munu hafa forystuna,“ NW].“ (Jesaja 60:11) En hvaða „konungar“ hafa forystu um að færa fjárafla þjóðanna til Síonar? Forðum daga lagði Jehóva vissum valdhöfum í brjóst að „þjóna“ Síon. Kýrus sýndi til dæmis það frumkvæði að senda Gyðinga heim til Jerúsalem til að endurreisa musterið. Artaxerxes lagði síðar til fjármuni og sendi Nehemía til að endurreisa múra Jerúsalem. (Esrabók 1:2, 3; Nehemíabók 2:1-8) Það eru orð að sönnu að „hjarta konungsins er eins og vatnslækir í hendi [Jehóva].“ (Orðskviðirnir 21:1) Guð okkar getur lagt voldugum valdhöfum í brjóst að gera vilja sinn.

17 Í nútímasögu þjóna Guðs hafa margir „konungar,“ það er að segja veraldleg yfirvöld, reynt að loka ‚hliðunum‘ að skipulagi Jehóva. En aðrir hafa þjónað Síon með ákvörðunum sem hafa stuðlað að því að ‚hliðin‘ standi opin. (Rómverjabréfið 13:4) Árið 1919 slepptu yfirvöld Joseph F. Rutherford og félögum hans úr fangelsi þar sem þeir sátu ranglega dæmdir. (Opinberunarbókin 11:13) Mennsk stjórnvöld ‚svelgdu‘ ofsóknarflóðið sem Satan hleypti af stað eftir að honum var úthýst af himnum. (Opinberunarbókin 12:16) Sum stjórnvöld hafa beitt sér fyrir umburðarlyndi í trúmálum, stundum sérstaklega í þágu votta Jehóva. Þess konar þjónusta hefur auðveldað fjölda auðmjúkra manna að streyma inn í skipulag Jehóva gegnum hin opnu „hlið.“ Og andstæðingum mun aldrei takast að loka ‚hliðunum.‘ Jehóva segir um þá: „Því að hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða.“ (Jesaja 60:12) Allir sem berjast gegn ‚konu‘ Guðs — hvort heldur einstaklingar, samtök eða stofnanir — munu farast í síðasta lagi í stríðinu við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14, 16.

18. (a) Hvað er átt við með loforðinu um gróskumikil tré í Ísrael? (b) Hver er ‚staður fóta Jehóva‘ nú á tímum?

18 Eftir þessa viðvörun beinir spádómurinn athyglinni aftur að fyrirheitum um upphefð og velgengni. Jehóva ávarpar ‚konu‘ sína og segir: „Prýði Líbanons mun til þín koma: kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað minn og gjöra vegsamlegan stað fóta minna.“ (Jesaja 60:13) Tíguleg tré eru tákn fegurðar og frjósemi. (Jesaja 41:19; 55:13) Orðin ‚helgur staður‘ og ‚staður fóta minna‘ í þessu versi vísa til musterisins í Jerúsalem. (1. Kroníkubók 28:2; Sálmur 99:5) En Páll postuli útskýrði að musterið í Jerúsalem væri táknmynd hins meira andlega musteris sem er fyrirkomulag Jehóva til tilbeiðslu á sér á grundvelli fórnar Krists. (Hebreabréfið 8:1-5; 9:2-10, 23) Jehóva gerir ‚stað fóta sinna‘ vegsamlegan, það er að segja jarðneska forgarða hins mikla andlega musteris. Svo aðlaðandi eru þeir að fólk af öllum þjóðum safnast til þeirra til að taka þátt í sannri tilbeiðslu. — Jesaja 2:1-4; Haggaí 2:7.

19. Hvað neyðast andstæðingar til að viðurkenna og hvenær gera þeir það í síðasta lagi?

19 Jehóva snýr sér nú aftur að andstæðingunum og segir: „Synir þeirra, sem kúguðu þig, munu koma til þín niðurlútir, og allir þeir, sem smánuðu þig, munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér. Þeir munu kalla þig borg [Jehóva], Síon Hins heilaga í Ísrael.“ (Jesaja 60:14) Sumir andstæðingar finna sig knúna til að koma niðurlútir og kalla til ‚konunnar‘ er þeir horfa upp á hina miklu aukningu sem blessun Guðs veitir fólki hans og sjá hið göfuga líferni þess. Þeir neyðast sem sagt til að viðurkenna, í síðasta lagi í Harmagedón, að hinar smurðu leifar og félagar þeirra séu sannarlega fulltrúar ‚borgar Jehóva, Síonar Hins heilaga í Ísrael,‘ sem er skipulag hans á himnum.

Að notað tiltæk úrræði

20. Hvaða mikil breyting verður á aðstæðum ‚konunnar‘?

20 Aðstæður breytast sannarlega hjá ‚konu‘ Jehóva. Hann segir: „Í stað þess, að þú áður varst yfirgefin, hötuð og enginn fór um hjá þér, gjöri ég þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða. Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, [Jehóva], er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn.“ — Jesaja 60:15, 16.

21. (a) Hvernig verður Forn-Jerúsalem að „vegsemd“? (b) Hvaða blessun hafa smurðir þjónar Jehóva hlotið frá 1919 og hvernig hafa þeir drukkið „mjólk þjóðanna“?

21 Jerúsalem fortíðar hverfur algerlega af kortinu í 70 ár, ef þannig má að orði komast. ‚Enginn fer þar um.‘ En frá 537 f.o.t. byggir Jehóva borgina að nýju og gerir hana að „vegsemd.“ Undir lok fyrri heimsstyrjaldar þoldi Ísrael Guðs auðnartíma og fannst hann ‚yfirgefinn.‘ En árið 1919 leysti Jehóva smurða þjóna sína úr ánauð og þaðan í frá hefur hann veitt þeim eindæma aukningu og andlega velmegun. Fólk hans hefur drukkið „mjólk þjóðanna“ með því að nota sér úrræði þeirra til að efla sanna tilbeiðslu. Skynsamleg notkun nútímatækni hefur til dæmis gert þjónum hans kleift að þýða og gefa út Biblíuna og biblíutengd rit á hundruðum tungumála. Þar af leiðandi fræðast hundruð þúsunda manna um Biblíuna hjá vottum Jehóva á hverju ári og komast að raun um að hann er frelsari þeirra og lausnari fyrir atbeina Krists. — Postulasagan 5:31; 1. Jóhannesarbréf 4:14.

Skipulagslegar framfarir

22. Hvers konar framförum lofar Jehóva?

22 Fjölgun þjóna Jehóva hefur haldist í hendur við skipulagslegar framfarir. Jehóva segir: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ (Jesaja 60:17) Að nota gull í stað eirs er framför og hið sama er að segja um hin efnin sem nefnd eru. Í samræmi við þetta hefur fólk Jehóva bætt sig skipulagslega á hinum síðustu dögum.

23, 24. Hvaða skipulagsumbætur hefur fólk Jehóva séð síðan 1919?

23 Árið 1919 voru lýðræðislega kosnir öldungar og djáknar í söfnuðunum. Það ár var þjónustustjóri skipaður með guðræðislegum hætti til að hafa umsjón með boðunarstarfi safnaðarins, en þess voru dæmi að kjörnir öldungar settu sig upp á móti þjónustustjóranum. Árið 1932 varð breyting á. Í tímaritinu Varðturninum var söfnuðunum sagt að hætta að kjósa öldunga og djákna. Nú áttu þeir að kjósa sér þjónustunefnd er starfa átti með þjónustustjóranum. Þetta var mikil framför.

24 Árið 1938 var komið með meira „gull“ þegar ákveðið var að skipa alla þjóna í söfnuðunum með guðræðislegum aðferðum. Safnaðarstjórnin var sett í hendur félagsþjóni (síðar kallaður safnaðarþjónn) og annarra þjóna sem aðstoðuðu hann, og allir voru skipaðir undir umsjón ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ * (Matteus 24:45-47) En árið 1972 var ljóst að hin biblíulega aðferð væri sú að umsjón safnaðarins væri í höndum öldungaráðs frekar en eins manns. (Filippíbréfið 1:1) Ýmsar aðrar breytingar hafa verið gerðar hjá söfnuðunum og hjá hinu stjórnandi ráði. Nefna má sem dæmi að hinn 7. október 2000 var tilkynnt að þeir meðlimir hins stjórnandi ráðs, sem sátu í stjórn Watch Tower Society of Pennsylvania og tengdra félaga, hefðu af frjálsum vilja dregið sig í hlé. Þannig getur hið stjórnandi ráð, sem er fulltrúi hins trúa og hyggna þjóns, einbeitt sér að andlegri umsjón „safnaðar Guðs“ og félaga hans, hinna annarra sauða. (Postulasagan 20:28, Biblían 1912) Allar þessar breytingar hafa verið til bóta. Þær hafa styrkt skipulag Jehóva og verið dýrkendum hans til góðs.

25. Hver stendur á bak við skipulagsframfarir þjóna Jehóva og hvernig hafa þeir notið góðs af þeim?

25 Hver stendur að baki þessum jákvæðu breytingum? Eru þær sprottnar af mannlegri skipulagsgáfu eða hugviti? Nei, því að Jehóva sagði: „Ég mun færa þér gull.“ Allar þessar framfarir eru tilkomnar vegna leiðsagnar Guðs og þjónar hans njóta góðs af þeim. Friður ríkir á meðal þeirra og réttlætisástin knýr þá til að þjóna honum.

26. Hvaða auðkenni sannkristinna manna sjá jafnvel andstæðingar þeirra?

26 Friðurinn, sem Guð gefur, er sterkt afl til breytingar. Jehóva lofar: „Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín.“ (Jesaja 60:18) Þetta eru orð að sönnu. Andstæðingar viðurkenna jafnvel að friðsemd sé mjög áberandi þáttur í fari sannkristinna manna. (Míka 4:3) Þessi friður vottanna við Jehóva og hver við annan gerir að verkum að hver einasti samkomustaður þeirra er eins og vin í ofbeldisfullum heimi. (1. Pétursbréf 2:17) Þetta er forsmekkur þess ríkulega friðar sem verður þegar allir jarðarbúar verða ‚lærisveinar Jehóva.‘ — Jesaja 11:9; 54:13.

Hið dýrlega velþóknunarljós Guðs

27. Í hvaða stöðugu ljósi baðar ‚kona‘ Jehóva sig?

27 Jehóva lýsir hinu sterka ljósi sem skín á Jerúsalem og segir: „Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal [Jehóva] vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull. Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að [Jehóva] mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda.“ (Jesaja 60:19, 20) Jehóva verður „eilíft ljós“ ‚konu‘ sinnar. Hann mun aldrei „ganga undir“ eins og sólin né „minnka“ eins og tunglið. * Stöðug velþóknun hans skín á smurða kristna menn sem eru fulltrúar ‚konu‘ hans hér á jörð. Þeir og múgurinn mikli baða sig í svo skæru, andlegu ljósi að ekkert myrkur á vettvangi stjórnmála eða efnahagsmála getur deyft það. Og þeir treysta loforði Jehóva um bjarta framtíð. — Rómverjabréfið 2:7; Opinberunarbókin 21:3-5.

28. (a) Hverju er þeim heitið sem snúa heim til Jerúsalem? (b) Hvað eignuðust smurðir kristnir menn árið 1919? (c) Hversu lengi munu hinir réttlátu eiga landið?

28 Jehóva segir um Jerúsalembúa: „Lýður þinn — þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.“ (Jesaja 60:21) Ísraelsmenn ‚eignuðust landið‘ eftir að þeir sneru heim frá Babýlon. En í þessu tilfelli reyndist ‚eilífðin‘ ná fram á fyrstu öld okkar tímatals er hersveitir Rómar eyddu Jerúsalem og ríki Gyðinga. Leifar smurðra kristinna manna komu úr andlegri ánauð árið 1919 og eignuðust andlegt land. (Jesaja 66:8) Þetta land eða starfsvettvangur einkennist af ófölnandi andlegri paradísarvelsæld. Hinn andlegi Ísrael í heild mun ekki reynast ótrúr eins og Ísrael að fornu. Og spádómur Jesaja rætist einnig á þann hátt að jörðin verður bókstafleg paradís full af „ríkulegri gæfu“ og friði. Þá munu hinir réttlátu, sem hafa jarðneska von, eiga landið eilíflega. — Sálmur 37:11, 29.

29, 30. Hvernig er „hinn minnsti“ orðinn að „þúsund“?

29 Í lok 60. kafla Jesajabókar er að finna hátíðlegt loforð sem Jehóva ábyrgist með því að leggja nafn sitt við það. Hann segir: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ (Jesaja 60:22) Hinar tvístruðu leifar voru „hinn minnsti“ er þær voru endurvaktar til starfa árið 1919 en fjölgaði til muna þegar safnað var saman þeim sem upp á vantaði af hinum andlega Ísrael. * Og vöxturinn varð magnaður þegar söfnun hins mikla múgs komst á skrið.

30 Friður og réttlæti fólks Guðs laðaði að svo marga hjartahreina menn að „hinn minnsti“ varð virkilega að „voldugri þjóð“ áður en langt um leið. Hún er fjölmennari en margar sjálfstæðar þjóðir okkar tíma. Ljóst er að Jehóva hefur stýrt starfi Guðsríkis og hraðað því fyrir atbeina Jesú Krists. Það er ákaflega hrífandi að sjá sanna tilbeiðslu vaxa um allan heim og eiga hlutdeild í henni. Jehóva spáði þessu endur fyrir löngu og það er gleðilegt til þess að hugsa hvernig aukningin er honum til vegsauka.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Fornafnið „þú“ og sagnorðin standa í kvenkyni eintölu í hebreska textanum þannig að verið er að ávarpa konu.

^ gr. 12 Tarsis var líklega þar sem nú heitir Spánn. Sum heimildarrit telja hins vegar að með orðinu „Tarsis-knerrir“ sé frekar verið að lýsa skipagerðinni. Hér sé átt við „hámastra úthafsskip“ sem voru „hæf til Tarsis-siglinga,“ það er að segja skip sem voru vel fallin til langsiglinga á fjarlægar hafnir. — 1. Konungabók 22:49.

^ gr. 13 Dyggir og kostgæfnir menn með jarðneska von voru farnir að tengjast Ísrael Guðs fyrir 1930, en þeim tók að fjölga umtalsvert á fjórða áratugnum.

^ gr. 24 Söfnuðirnir voru kallaðir félög á þeim tíma.

^ gr. 27 Jóhannes postuli lýsir hinni „nýju Jerúsalem“ á svipaðan hátt en hún táknar hinar 144.000 í himneskri dýrð. (Opinberunarbókin 3:12; 21:10, 22-26) Það er viðeigandi vegna þess að hún táknar andlega Ísraelsmenn eftir að þeir hafa allir hlotið himneska umbun sína. Þá mynda þeir, ásamt Jesú Kristi, mikilvægasta hluta ‚konu‘ Guðs, „Jerúsalem, sem í hæðum er.“ — Galatabréfið 4:26.

^ gr. 29 Árið 1918 tóku innan við 4000 að meðaltali þátt í boðun orðsins í hverjum mánuði.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 305]

‚Konunni‘ er sagt að ‚standa upp.‘

[Mynd á blaðsíðu 312, 313]

„Tarsis-knerrir“ koma með dýrkendur Jehóva.