Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spámaður Guðs færir mannkyni ljós

Spámaður Guðs færir mannkyni ljós

1. kafli

Spámaður Guðs færir mannkyni ljós

1, 2. Af hverju hafa margir miklar áhyggjur?

 MANNINUM virðast allir vegir færir. Geimferðir, tölvutækni, erfðatækni og aðrar vísindanýjungar bjóða mannkyni upp á nýja möguleika og von um betra líf — og kannski lengra líf.

2 En hafa þessar framfarir gert þér kleift að skilja við húsið þitt ólæst? Hafa þær útrýmt stríðshættunni? Hafa þær læknað sjúkdóma og eytt sorginni sem fylgir ástvinamissi? Nei, framförum mannkyns eru takmörk sett þótt merkar séu. „Okkur hefur tekist að ferðast til tunglsins, framleiða æ öflugri örgjörva og skipta um einstök gen í mönnum,“ segir í skýrslu frá Worldwatch Institute. „En við höfum ekki enn þá getað séð milljarði manna fyrir hreinu vatni, hægt á útrýmingu tegundanna eða fullnægt orkuþörf okkar án þess að raska jafnvægi andrúmsloftsins.“ Það er ofur skiljanlegt að margir skuli horfa uggandi til framtíðarinnar og vera óvissir um hvar hægt sé að leita hughreystingar og vonar.

3. Hvernig var ástatt í Júda á áttundu öld f.o.t.?

3 Ástandið, sem við okkur blasir, er keimlíkt því sem var hjá þjóð Guðs á áttundu öld f.o.t. Guð fól þá Jesaja, spámanni sínum, að færa Júdamönnum hughreystandi boðskap enda veitti þeim ekki af hughreystingu. Uggvænlegir atburðir skelfdu þjóðina. Hið grimma Assýríuveldi átti eftir að ógna henni og vekja ótta manna á meðal. Hver gat bjargað fólki Guðs? Það var með nafn Jehóva á vörunum en kaus frekar að treysta á menn. — 2. Konungabók 16:7; 18:21.

Ljós skín í myrkri

4. Hvaða tvíþættan boðskap var Jesaja falið að boða?

4 Jerúsalem yrði lögð í rúst sökum uppreisnarstefnu Júdamanna og þeir yrðu fluttir fangnir til Babýlonar. Já, horfurnar voru dapurlegar. Jehóva fól spámanninum Jesaja að boða þessa óheillatíma en hann átti jafnframt að boða fagnaðartíðindi. Júdamenn yrðu frelsaðir frá Babýlon eftir 70 ára útlegð. Leifar þeirra myndu snúa fagnandi heim til Síonar og fá að endurreisa sanna tilbeiðslu þar. Með þessum gleðiboðskap sendi Jehóva þeim ljós í myrkri.

5. Af hverju opinberaði Jehóva ætlun sína svona löngu fyrir fram?

5 Meira en öld leið frá því að Jesaja skráði spádóminn uns Júdaríkið var lagt í eyði. Af hverju opinberaði Jehóva ætlun sína svona löngu fyrir fram? Yrðu ekki allir sem heyrðu Jesaja boða þetta löngu dánir þegar spádómarnir rættust? Jú, en þeir sem væru uppi þegar Jerúsalem yrði eytt árið 607 f.o.t. hefðu undir höndum skriflegar heimildir um spádómlegan boðskap Jesaja. Þar með lægi fyrir óhrekjandi sönnun þess að Jehóva ‚kunngeri endalokin frá öndverðu og segi fyrir fram það, sem eigi er enn fram komið.‘ — Jesaja 46:10; 55:10, 11.

6. Að hvaða leyti er Jehóva fremri öllum mennskum spámönnum?

6 Enginn nema Jehóva getur fullyrt slíkt með réttu. Maður gagnkunnugur stjórnmála- og þjóðfélagsaðstæðum samtíðarinnar getur kannski spáð fyrir um nánustu framtíð. En enginn nema Jehóva getur séð fyrir með algerri vissu hvað gerist á hverjum tíma, meira að segja í fjarlægri framtíð. Hann getur líka gert þjónum sínum kleift að segja fyrir atburði löngu áður en þeir gerast. Biblían segir: „[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ — Amos 3:7.

Var Jesaja einn eða voru þeir fleiri?

7. Hvað hafa margir fræðimenn véfengt og af hverju?

7 Spádómsþátturinn veldur því að margir fræðimenn draga í efa að Jesaja hafi ritað bókina sem við hann er kennd. Þeir halda því fram að síðari hluti bókarinnar hljóti að hafa verið saminn á sjöttu öld f.o.t., annaðhvort meðan útlegðin í Babýlon stóð yfir eða eftir hana. Þeir staðhæfa að spádómarnir um eyðingu Júda hafi verið skrifaðir eftir uppfyllinguna og séu því engir spádómar þegar allt komi til alls. Þessir gagnrýnismenn benda líka á það að eftir 40. kafla tali Jesajabók um Babýlon eins og hún sé ráðandi heimsveldi og Ísraelsmenn séu þar í ánauð. Þeir hugsa því sem svo að sá sem ritaði síðari hluta Jesajabókar, hver sem hann var, hljóti að hafa gert það á sjöttu öld f.o.t. Eru einhver haldbær rök fyrir því? Nei, engin.

8. Hvenær var það véfengt að Jesaja hefði skrifað bókina sem við hann er kennd, og hvernig breiddist sú skoðun út?

8 Það var ekki fyrr en á 12. öld okkar tímatals sem véfengt var að Jesaja hefði ritað bókina sem við hann er kennd. Þar var að verki Gyðingurinn og biblíuskýrandinn Abraham Ibn Esra. Alfræðibókin Encyclopaedia Judaica segir að hann fullyrði „í skýringum sínum við Jesajabók að síðari hluti hennar, frá 40. kafla, sé verk spámanns sem uppi var á útlegðarárunum í Babýlon og snemma á heimkomutímanum til Síonar.“ Margir fræðimenn á 18. og 19. öld tóku sjónarmið Ibn Esra upp á arma sína. Einn þeirra var þýski guðfræðingurinn Johann Christoph Döderlein sem gaf út skýringarit um Jesajabók árið 1775 og aðra útgáfu árið 1789. Biblíuskýringabókin New Century Bible Commentary segir: „Allir nema íhaldssömustu fræðimenn viðurkenndu nú þá tilgátu Döderleins . . . að spádómarnir í 40. til 66. kafla Jesajabókar væru ekki verk áttundu aldar spámannsins Jesaja heldur síðari tíma verk.“

9. (a) Hvernig hafa fræðimenn tætt Jesajabók í sundur? (b) Hvernig lýsir biblíuskýrandi deilunni um ritara Jesajabókar?

9 En menn létu ekki staðar numið þar í efasemdum sínum um höfund Jesajabókar. Kenningin um annan Jesaja varð kveikjan að þeirri hugmynd að ritararnir hefðu hugsanlega verið þrír. * Þá var bókin krufin á nýjan leik og einn fræðimaður hélt því fram að 15. og 16. kafli væru verk óþekkts spámanns en annar véfengdi að Jesaja hefði skrifað 23. til 27. kafla. Sá þriðji segir að Jesaja hafi ekki getað skrifað það sem stendur í 34. og 35. kafla. Ástæðan er sú, segir hann, að efnið er nauðalíkt því sem er að finna í 40. til 66. kafla, og það hefur verið eignað einhverjum öðrum en Jesaja þeim sem uppi var á áttundu öld! Biblíuskýrandinn Charles C. Torrey segir stutt og laggott um útkomuna úr þess konar rökfærslu: „Það er búið að gera svo lítið úr hinum mikla ‚útlegðarspámanni‘ að það má segja að hann liggi grafinn í sundurtættum bókarslitrunum.“ En fræðimenn eru ekki allir sáttir við það að Jesajabók sé tætt svona í sundur.

Merki þess að ritarinn sé einn

10. Nefndu dæmi um samræmi í orðalagi sem bendir til þess að Jesajabók sé verk eins manns.

10 Það eru sterk rök fyrir því að einn og sami maður hafi ritað alla Jesajabók. Má þar nefna meðal annars samræmi í orðalagi. Heitið „Hinn heilagi í Ísrael“ kemur til dæmis 12 sinnum fyrir í hebreska textanum í 1. til 39. kafla bókarinnar og 13 sinnum í 40. til 66. kafla. Annars staðar í Hebresku ritningunum eru aðeins 6 dæmi um þetta heiti. Þessi tíða notkun heitis, sem er sjaldgæft annars staðar í Ritningunni, bendir til þess að Jesajabók sé verk eins manns.

11. Hvað er líkt annars vegar með kafla 1 til 39 í Jesajabók og hins vegar kafla 40 til 66?

11 Margt annað er líkt með 1. til 39. kafla Jesajabókar annars vegar og 40. til 66. kafla hins vegar. Í báðum bókarhlutum er fjöldi dæma um sams konar, sérkennandi líkingamál, eins og til dæmis konu með fæðingarhríðir og „braut,“ „veg“ og „brautarveg.“ * „Síon“ er nefnd 29 sinnum í kafla 1 til 39 og 18 sinnum í kafla 40 til 66. Síon er reyndar nefnd oftar í Jesajabók en nokkurri annarri biblíubók. Fræðibókin The International Standard Bible Encyclopedia bendir á að þetta sé „svo einkennandi fyrir bókina að það sé erfitt að skýra það“ ef hún er verk tveggja, þriggja eða fleiri manna.

12, 13. Hvernig má sjá af kristnu Grísku ritningunum að Jesajabók sé verk eins manns?

12 Sterkustu rökin fyrir því að Jesajabók sé verk eins manns er að finna í kristnu Grísku ritningunum sem eru innblásnar af Guði. Þar kemur greinilega fram að kristnir menn á fyrstu öld álitu Jesajabók verk eins ritara. Lúkas segir til dæmis frá eþíópskum hirðmanni sem var að lesa upp úr 53. kafla Jesajabókar, kafla sem gagnrýnismenn okkar tíma vilja eigna öðrum „Jesaja.“ En Lúkas segir að Eþíópinn hafi lesið „Jesaja spámann.“ — Postulasagan 8:26-28.

13 Lítum þessu næst á dæmi hjá guðspjallamanninum Matteusi sem greinir frá því hvernig þjónusta Jóhannesar skírara uppfyllti spádómsorðin í Jesaja 40:3. Matteus eignar ekki óþekktum „öðrum Jesaja“ bókina heldur einfaldlega „Jesaja spámanni.“ * (Matteus 3:1-3) Öðru sinni las Jesús af bókrollu orðin í Jesaja 61:1, 2. Lúkas segir svo frá atvikinu að ‚honum hafi verið fengin bók Jesaja spámanns.‘ (Lúkas 4:17) Í Rómverjabréfinu vísar Páll bæði í fyrri og síðari hluta Jesajabókar en ýjar hvergi að því að ritarinn hafi verið annar en Jesaja sjálfur. (Rómverjabréfið 10:16, 20; 15:12) Ljóst er að frumkristnir menn voru ekki þeirrar skoðunar að Jesajabók væri verk tveggja, þriggja eða fleiri manna.

14. Hvaða ljósi varpa Dauðahafshandritin á ritara Jesajabókar?

14 Þá má einnig líta á hin ævafornu Dauðahafshandrit sem eru mörg frá því fyrir daga Jesú Krists. Eitt handrit Jesajabókar, kallað Jesajabókrollan, er frá annarri öld f.o.t., og það hrekur þá staðhæfingu gagnrýnismanna að einhver „annar Jesaja“ hafi tekið við rituninni frá og með 40. kafla. Í þessari fornu bókrollu hefst 40. kafli í neðstu línu dálks og setningunni er svo lokið efst í næsta dálki. Skrifarinn, sem gerði handritið, hafði greinilega enga hugmynd um einhvern annan bókarritara sem tekið hefði við þar.

15. Hvað segir fyrstu aldar sagnaritarinn Flavíus Jósefus um Kýrusarspádóm Jesaja?

15 Að síðustu skulum við líta á umsögn gyðinglega sagnaritarans Flavíusar Jósefusar sem uppi var á fyrstu öld. Hann getur þess bæði að spádómar Jesaja um Kýrus hafi verið ritaðir á áttundu öld f.o.t. og jafnframt að Kýrusi hafi verið kunnugt um þessa spádóma. „Kýrus vissi þetta,“ skrifar hann, „enda hafði hann lesið spádómsbókina sem Jesaja hafði látið eftir sig tvö hundruð og tíu árum áður.“ Að sögn Jósefusar er hugsanlegt að þessir spádómar hafi jafnvel stuðlað að því að Kýrus var fús til að senda Gyðinga heim í land þeirra, því að hann segir að Kýrus hafi verið „gripinn sterkri löngun og metnaði til að gera það sem ritað hafði verið.“ — Jewish Antiquities, XI. bók, 1. kafli, 2. grein.

16. Hvað er hægt að segja um þá gagnrýni að Babýlon sé lýst sem ráðandi heimsveldi í síðari hluta Jesajabókar?

16 Eins og áður greinir benda margir gagnrýnismenn á það að frá og með 40. kafla Jesajabókar sé talað um Babýlon sem ráðandi heimsveldi og Ísraelsmönnum svo lýst eins og þeir séu þegar í útlegð. Bendir þetta ekki til þess að þessir kaflar séu ritaðir á sjöttu öld f.o.t.? Svo þarf ekki að vera. Sannleikurinn er sá að Babýlon er stundum lýst sem ráðandi heimsveldi fyrir 40. kaflann í Jesajabók. Til dæmis er hún kölluð „prýði konungsríkjanna“ í Jesaja 13:19, eða „fegurst allra ríkja,“ svo vitnað sé í Today’s English Version. Orðin eru greinilega spádómleg því að Babýlon varð ekki heimsveldi fyrr en rúmri öld síðar. Einn gagnrýnismaður „leysir“ þetta svokallaða vandamál með því hreinlega að tileinka 13. kafla Jesajabókar öðrum ritara! En það er mjög algengt í spádómum Biblíunnar að tala um ókomna atburði eins og þeir séu búnir að eiga sér stað. Þetta er áherslustílbragð sem hnykkir á því hversu öruggt það er að spádómur rætist. (Opinberunarbókin 21:5, 6) Enginn nema Guð sannra spádóma getur sagt: „Hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.“ — Jesaja 42:9.

Áreiðanleg spádómsbók

17. Hvernig má skýra stílbreytinguna frá og með 40. kafla?

17 Niðurstaðan er því sú að Jesajabók er verk eins innblásins ritara. Bókin hefur um allar aldir verið álitin eitt verk en ekki tvö eða fleiri. Sumir segja að vísu að merkja megi stílbreytingu frá og með 40. kafla. En það má ekki gleyma því að Jesaja þjónaði Guði sem spámaður í heil 46 ár. Viðbúið er að inntak boðskaparins og tjáning hans hafi breyst á svona löngum tíma. Jesaja hafði ekki aðeins það hlutverk að flytja alvarlegar viðvaranir og dóma frá Guði. Hann átti einnig að flytja þjóðinni orð Jehóva: „Huggið, huggið lýð minn!“ (Jesaja 40:1) Það hlaut að vera hughreysting fyrir sáttmálaþjóð Guðs að henni var lofað því að hún yrði send aftur til síns heima eftir 70 ára útlegð.

18. Hvaða þema Jesajabókar er fjallað um í þessari bók?

18 Lausn Gyðinga úr ánauð Babýlonar er þemað í mörgum af þeim köflum Jesajabókar sem fjallað er um í þessari bók. * Margir þessara spádóma eiga sér nútímauppfyllingu eins og við munum sjá. Að auki er að finna hrífandi spádóma í Jesajabók sem rættust með lífi og dauða eingetins sonar Guðs. Það er áreiðanlega mjög gagnlegt fyrir þjóna Guðs um heim allan að kynna sér hina mikilvægu spádóma Jesajabókar. Þeir eru svo sannarlega ljós handa öllu mannkyni.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Þessi ímyndaði „þriðji Jesaja“ á að hafa skrifað 56. til 66. kafla.

^ gr. 11 Kona með fæðingarhríðir: Jesaja 13:8; 21:3; 26:17, 18; 42:14; 45:10; 54:1; 66:7. „Brautarvegur,“ „braut“ og „vegur“: Jesaja 11:16; 19:23; 35:8; 40:3; 43:19; 49:11; 57:14; 62:10.

^ gr. 13 Markús, Lúkas og Jóhannes taka svipað til orða í samsvarandi frásögum sínum. — Markús 1:2; Lúkas 3:4; Jóhannes 1:23.

^ gr. 18 Farið er yfir fyrstu 40 kafla Jesajabókar í fyrra bindi bókarinnar Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 9]

Niðurstöður málbreytingarannsókna

Rannsóknir á málbreytingum styðja þá skoðun að Jesajabók sé verk eins og sama manns. Hafi hluti bókarinnar verið skrifaður á áttundu öld f.o.t. og annar hluti 200 árum síðar hefði verið munur á hebreskunni í hvorum hlutanum fyrir sig. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar, sem birtar voru í tímaritinu Westminster Theological Journal, „styðja rannsóknir á málbreytingum það eindregið að Jesaja kaflar 40-66 séu ritaðir fyrir útlegðina.“ Höfundur rannsóknarinnar segir: „Ef gagnrýnir fræðimenn staðhæfa áfram að Jesajabók sé rituð á útlegðartímanum eða eftir hann gera þeir það í berhögg við niðurstöður málbreytingarrannsókna.“

[Mynd á blaðsíðu 11]

Hluti af Dauðahafsbókrollu Jesaja. Örin bendir á endi 39. kafla.

[Myndir á blaðsíðu 12, 13]

Jesaja boðar frelsun Gyðinga um 200 árum fyrir fram.