Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Treystið eigi tignarmennum“

„Treystið eigi tignarmennum“

11. kafli

„Treystið eigi tignarmennum“

Jesaja 50:1-11

1, 2. (a) Hvaða innblásnum ráðleggingum fara Gyðingar ekki eftir og með hvaða afleiðingum? (b) Af hverju spyr Jehóva um ‚skilnaðarskrána‘?

 „TREYSTIÐ eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. . . . Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á [Jehóva], Guð sinn, hann sem skapað hefir himin og jörð.“ (Sálmur 146:3-6) Bara að Gyðingar á dögum Jesaja vildu gera eins og sálmaritarinn ráðleggur! Bara að þeir leggðu traust sitt á „Jakobs Guð“ en ekki á Egypta eða einhverja aðra heiðna þjóð! Þá myndi Jehóva vernda Júdamenn þegar óvinir þeirra réðust á þá. En þeir leita ekki ásjár Jehóva svo að hann leyfir Babýloníumönnum að flytja þá í útlegð og eyða Jerúsalem.

2 Júdamenn geta engum nema sjálfum sér um kennt. Þeir geta ekki haldið því fram með réttu að eyðing þjóðarinnar stafi af því að Jehóva hafi komið sviksamlega fram við hana eða sniðgengið sáttmálann við hana. Skaparinn er enginn sáttmálsbrjótur. (Jeremía 31:32; Daníel 9:27; Opinberunarbókin 15:4) Hann leggur áherslu á það er hann spyr Gyðinga: „Hvar er sú skilnaðarskrá móður yðar, er ég á að hafa rekið hana burt með?“ (Jesaja 50:1a) Samkvæmt Móselögunum varð maður að gefa konu sinni skilnaðarvottorð ef hann skildi við hana. Henni var þá frjálst að giftast öðrum. (5. Mósebók 24:1, 2) Ísraelsmenn hafa fengið táknrænt skilnaðarvottorð frá Jehóva en Júdamenn, systurþjóð þeirra, ekki. * Hann er enn þá „herra“ þeirra. (Jeremía 3:8, 14) Júdamönnum er alls ekki frjálst að hafa samneyti við heiðnar þjóðir. Samband Jehóva við þá mun haldast „uns sá kemur, er valdið hefur.“ — 1. Mósebók 49:10.

3. Af hverju ‚selur‘ Jehóva fólk sitt?

3 Jehóva spyr Júdamenn einnig: „Hverjum af lánardrottnum mínum hefi ég selt yður?“ (Jesaja 50:1b) Gyðingar verða ekki sendir í útlegð til Babýlonar sem greiðsla upp í meinta skuld. Jehóva hefur ekki stofnað til skulda. Hann er ekki eins og fátækur Ísraelsmaður sem þarf að selja börnin í hendur skuldareiganda til að gera upp reikninga við hann. (2. Mósebók 21:7) Hann bendir á hina raunverulega ástæðu fyrir því að þjóðin verði hneppt í þrælkun: „Sjá, sökum misgjörða yðar hafið þér seldir verið og vegna afbrota yðar hefir móðir yðar verið burt rekin.“ (Jesaja 50:1c) Jehóva hefur ekki yfirgefið Gyðingana heldur þeir hann.

4, 5. Hvernig sýnir Jehóva þjóðinni kærleika sinn en hvernig bregðast Júdamenn við?

4 Kærleikur Jehóva til þjóðar sinnar kemur skýrt fram í næstu spurningu: „Hvers vegna var enginn fyrir, þegar ég kom, hví gegndi enginn, þegar ég kallaði?“ (Jesaja 50:2a) Jehóva kom táknrænt heim til þjóðarinnar er hann sendi spámenn til hennar, til að sárbæna hana um að snúa sér til sín af öllu hjarta. En honum var tekið með þögn. Gyðingar vilja heldur leita stuðnings manna, jafnvel Egypta ef svo ber undir. — Jesaja 30:2; 31:1-3; Jeremía 37:5-7.

5 Eru Egyptar áreiðanlegri bjargvættir en Jehóva? Þessir ótrúu Gyðingar virðast hafa gleymt aðdraganda þess að þjóð þeirra varð til öldum áður. Jehóva spyr þá: „Er hönd mín þá svo stutt orðin, að hún geti eigi frelsað, eða vantar mig mátt til að bjarga? Sjá, með hótun minni þurrka ég upp hafið, gjöri fljótin að eyðimörk, svo að fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi og deyja af þorsta. Ég færi himininn í svartan hjúp og sveipa hann í sorgarbúning.“ — Jesaja 50:2b, 3.

6, 7. Hvernig sýndi Jehóva bjargarmátt sinn þegar Egyptar ógnuðu?

6 Egyptar frelsuðu ekki þjóð Guðs árið 1513 f.o.t. heldur kúguðu. Ísraelsmenn voru þrælar þessarar heiðnu þjóðar á þeim tíma. En Jehóva frelsaði þá og það var mikilfengleg frelsun. Fyrst sendi hann tíu plágur yfir landið. Síðasta plágan var Egyptum sérlega þung í skauti og eftir hana lagði Faraó hart að Ísraelsmönnum að yfirgefa landið. (2. Mósebók 7:14–12:31) En þeir voru ekki fyrr farnir en hann skipti um skoðun, kallaði saman herinn og lagði af stað til að þvinga Ísraelsmenn aftur til Egyptalands. (2. Mósebók 14:5-9) Þeir voru í sjálfheldu; Rauðahafið var fram undan og egypski herinn að baki þeim. En Jehóva var reiðubúinn að berjast fyrir þá.

7 Hann stöðvaði eftirför Egypta með því að setja skýstólpa milli þeirra og Ísraelsmanna. Dimmt var þeim megin við skýstólpann sem Egyptar voru en bjart þeim megin sem Ísraelmenn voru. (2. Mósebók 14:20) Þannig hélt Jehóva Egyptum í skefjum meðan hann „lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt og gjörði hafið að þurrlendi.“ (2. Mósebók 14:21) Þegar Rauðahafið hafði opnast gátu karlar, konur og börn — öll þjóðin — gengið á þurru yfir á ströndina hinum megin þar sem þau voru óhult. Mannfjöldinn var kominn langleiðina yfir að hinum bakkanum þegar Jehóva lét skýið lyftast og Egyptar eltu Ísraelsmenn hvatvíslega út í hafið. Þegar Ísraelsmenn voru óhultir á sjávarbakkanum hinum megin sleppti Jehóva hafinu lausu og drekkti faraó og her hans. Þannig barðist hann fyrir fólk sitt. Þetta er mjög hvetjandi fyrir kristna menn til að vita. — 2. Mósebók 14:23-28.

8. Hvaða viðvaranir hunsa Júdamenn með þeim afleiðingum að þeir eru sendir í útlegð?

8 Á dögum Jesaja eru sjö hundruð ár liðin frá þessum sigri Guðs. Júdamenn eru orðnir að sjálfstæðri þjóð. Stundum ganga þeir til milliríkjasamninga við stjórnvöld erlendra ríkja, svo sem Assýringa og Egypta. En leiðtogum þessara heiðnu þjóða er ekki treystandi því að þeir taka alltaf eigin hagsmuni fram yfir samninga við Júdamenn. Í nafni Jehóva vara spámennirnir þjóðina við því að treysta slíkum mönnum en tala fyrir daufum eyrum. Að lokum verða Gyðingar sendir til Babýlonar í 70 ára ánauð. (Jeremía 25:11) En Jehóva gleymir hvorki fólki sínu né hafnar því til frambúðar. Á tilsettum tíma minnist hann þess og opnar því leiðina heim til ættjarðarinnar svo að það geti endurreist hreina tilbeiðslu. Markmiðið með því er að undirbúa komu þess sem valdið hefur og þjóðirnar skulu ganga á hönd.

Sá kemur sem valdið hefur

9. Hver er sá sem valdið hefur og hvers konar kennari er hann?

9 Aldir líða. „Fylling tímans“ rennur upp og sá sem valdið hefur kemur fram á jörð. Þetta er Drottinn Jesús Kristur. (Galatabréfið 4:4; Hebreabréfið 1:1, 2) Það að Jehóva skuli velja nákomnasta félaga sinn sem talsmann meðal Gyðinga sýnir hve vænt honum þykir um fólk sitt. Jesús reynist afburðagóður talsmaður. Hann er reyndar meira en talsmaður því að hann er snilldarkennari. Það er ekkert undarlegt því að hann hefur sjálfur afbragðskennara — Jehóva Guð sjálfan. (Jóhannes 5:30; 6:45; 7:15, 16, 46; 8:26) Þetta er staðfest með þeim orðum sem Jesú eru lögð í munn í spádómi Jesaja: „Hinn alvaldi [Jehóva] hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.“ — Jesaja 50:4. *

10. Hvernig endurspeglar Jesús kærleika Jehóva til þjóðar sinnar og hvaða móttökur fær hann?

10 Jesús vann við hlið föður síns á himnum áður en hann kom til jarðar. Hlýlegu sambandi föður og sonar er lýst ljóðrænt í Orðskviðunum 8:30: „Þá stóð ég [Jehóva] við hlið sem verkstýra, . . . leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma.“ Jesús naut þess að hlýða á föður sinn og hafði yndi af „mannanna börnum“ líkt og hann. (Orðskviðirnir 8:31) Þegar hann kemur til jarðar ‚styrkir hann hina mæddu með orðum sínum.‘ Hann byrjar þjónustu sína á því að lesa hughreystandi ritningarorð úr spádómi Jesaja: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap . . . láta þjáða lausa.“ (Lúkas 4:18; Jesaja 61:1) Að flytja fátækum gleðilegan boðskap! Að styrkja hina mæddu! Þessi yfirlýsing ætti að gleðja fólk ósegjanlega. Og sumir gleðjast — en ekki allir. Að endingu neita margir að viðurkenna sannanirnar fyrir því að Jesús sé lærisveinn Jehóva.

11. Hverjir ganga undir ok með Jesú og hvað uppgötva þeir?

11 En sumir vilja fræðast og þiggja fúslega hlýlegt boð Jesú: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matteus 11:28, 29) Væntanlegir postular Jesú eru í hópi þeirra sem sækja til hans. Þeir vita að það kostar erfiði að ganga undir sama ok og Jesús. Meðal annars þurfa þeir að boða fagnaðarerindið um ríkið til endimarka jarðar. (Matteus 24:14) Postularnir og aðrir lærisveinar hefja boðunarstarfið og komast að raun um að það hvílir og endurnærir. Trúfastir kristnir menn nú á tímum taka þátt í þessu sama starfi og finnst það bæði ánægjulegt og endurnærandi.

Hann þverskallast ekki

12. Hvernig sýnir Jesús að hann er hlýðinn föður sínum á himnum?

12 Jesús missir aldrei sjónar á tilganginum með komu sinni til jarðar sem er sá að gera vilja Guðs. Því er spáð hver afstaða hans verði: „Hinn alvaldi [Jehóva] opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.“ (Jesaja 50:5) Jesús er alltaf hlýðinn Guði. Hann segir jafnvel að ‚sonurinn geti ekkert gert af sjálfum sér nema það sem hann sér föðurinn gera.‘ (Jóhannes 5:19) Líklegt er að Jesús hafi starfað í milljónir eða jafnvel milljarða ára við hlið föður síns áður en hann varð maður. Hann heldur áfram að fylgja fyrirmælum Jehóva er hann kemur til jarðar. Við, ófullkomnir fylgjendur hans, ættum ekki síður að leggja okkur í líma við að fylgja fyrirmælum Jehóva.

13. Hvað bíður Jesú en hvernig birtist hugrekki hans?

13 Sumir þeirra sem hafna eingetnum syni Jehóva ofsækja hann og því er líka spáð: „Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.“ (Jesaja 50:6) Samkvæmt spádóminum á Messías að þola þjáningar og auðmýkingu af hendi andstæðinga sinna. Jesús veit það. Og hann veit líka hve langt þessar ofsóknir eiga að ganga. En hann sýnir engin hræðslumerki þegar dregur að lokum jarðvistar hans. Hann er einbeittur sem tinna er hann heldur til Jerúsalem þar sem endi verður bundinn á líf hans hér á jörð. Á leiðinni þangað segir hann lærisveinunum: „Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum. Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa.“ (Markús 10:33, 34) Það eru æðstu prestarnir og fræðimennirnir sem eru hvatamenn þessarar hrottalegu meðferðar, og þeir ættu að vita betur.

14, 15. Hvernig rætist spá Jesaja um að Jesús verði barinn og auðmýktur?

14 Nóttina 14. nísan árið 33 er Jesús staddur í Getsemanegarðinum ásamt nokkrum af fylgjendum sínum. Hann er að biðjast fyrir. Skyndilega kemur hópur manna á vettvang og handtekur hann. En hann er óhræddur. Hann veit að Jehóva er með honum, og hann fullvissar skelfda postulana um að hann gæti beðið föðurinn að senda meira en tólf sveitir engla til að bjarga sér en bætir við: „Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ — Matteus 26:36, 47, 53, 54.

15 Allt kemur fram sem spáð var um prófraunir Messíasar og dauða. Eftir sýndarréttarhöld hjá æðstaráðinu er Jesús sendur til Pontíusar Pílatusar sem yfirheyrir hann og húðstrýkir. Rómverskir hermenn „slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann.“ Þannig rætast orð Jesaja. (Markús 14:65; 15:19; Matteus 26:67, 68) Biblían getur þess ekki að óvinir Jesú hafi reytt skegg hans, sem er táknrænt fyrir takmarkalausa fyrirlitningu, en það hefur eflaust átt sér stað eins og Jesaja spáði. * — Nehemíabók 13:25.

16. Hvernig ber Jesús sig undir gífurlegu álagi og af hverju er hann ekki niðurlútur?

16 Jesús sýnir af sér hljóða reisn frammi fyrir Pílatusi. Hann sárbænir hann ekki um að þyrma lífi sínu því að hann veit að hann verður að deyja til að Ritningin rætist. Rómverski landstjórinn bendir Jesú á að hann hafi vald til að dæma hann til dauða eða láta hann lausan en Jesús svarar óttalaust: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan.“ (Jóhannes 19:11) Hermenn Pílatusar fara hrottalega með Jesú en þeim tekst ekki að niðurlægja hann. Af hverju ætti hann að vera niðurlútur? Hann er ekki að taka út réttláta refsingu fyrir eitthvert afbrot heldur er hann ofsóttur fyrir réttlætis sakir. Þar rætast spádómsorð Jesaja: „[Jehóva] hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar.“ — Jesaja 50:7.

17. Hvernig stendur Jehóva með Jesú meðan hann þjónar á jörð?

17 Hugrekki Jesú er sprottið af því að hann treystir Jehóva algerlega. Framkoma hans er í fullu samræmi við orð Jesaja: „Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín! Sjá, hinn alvaldi [Jehóva] hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.“ (Jesaja 50:8, 9) Á skírnardegi Jesú lýsir Jehóva hann réttlátan, andlegan son sinn. Rödd Guðs heyrist jafnvel segja: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Þegar jarðlíf Jesú er næstum á enda og hann krýpur í bæn í Getsemanegarðinum ‚birtist honum engill af himni sem styrkir hann.‘ (Lúkas 22:41-43) Jesús veit að faðir hans hefur velþóknun á lífshlaupi hans. Hann er fullkominn og syndlaus sonur Guðs. (1. Pétursbréf 2:22) Óvinir hans saka hann ranglega um að brjóta hvíldardagsboðið, vera drykkjurútur og haldinn illum anda en lygar þeirra smána hann ekki. Guð er með honum; hver getur þá verið á móti honum? — Lúkas 7:34; Jóhannes 5:18; 7:20; Rómverjabréfið 8:31; Hebreabréfið 12:3.

18, 19. Hvað hafa smurðir kristnir menn mátt þola, líkt og Jesús?

18 Jesús varar lærisveinana við ofsóknum: „Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður,“ segir hann. (Jóhannes 15:20) Þetta gerist innan skamms. Heilagur andi kemur yfir lærisveina Jesú á hvítasunnu árið 33 og kristni söfnuðurinn verður til. Trúarleiðtogarnir bíða ekki boðanna að reyna að bæla niður boðunarstarf þessara trúföstu karla og kvenna sem eru nú „niðjar Abrahams“ ásamt Jesú og eru ættleidd sem andlegir synir Guðs. (Galatabréfið 3:26, 29; 4:5, 6) Allt frá fyrstu öld fram á okkar daga hafa smurðir kristnir menn mátt sæta lygaáróðri og hatrömmum ofsóknum af hendi óvina Jesú. En þeir hafa alla tíð verið staðfastir í réttlætinu.

19 Þeir minnast engu að síður hvetjandi orða Jesú: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ (Matteus 5:11, 12) Hinir smurðu bera höfuðið hátt, jafnvel í hatrömmustu ofsóknum. Þeir vita að Guð hefur lýst þá réttláta, hvað sem andstæðingarnir segja. Í augum hans eru þeir ‚lýtalausir og óaðfinnanlegir.‘ — Kólossubréfið 1:21, 22.

20. (a) Hverjir styðja hina smurðu og hvað hafa þeir fengið að reyna? (b) Hvernig hafa smurðir kristnir menn og ‚aðrir sauðir‘ fengið lærisveinatungu?

20 „Mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ styður smurða kristna menn á okkar dögum. Þessi hópur tekur líka eindregna afstöðu með réttlætinu og hefur af þeim sökum þjáðst með smurðum bræðrum sínum. Hann hefur „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Jehóva hefur lýst þá réttláta í þeim tilgangi að þeir lifi ‚þrenginguna miklu‘ af. (Opinberunarbókin 7:9, 14, 15; Jóhannes 10:16; Jakobsbréfið 2:23) Þó svo að andstæðingarnir virðist öflugir núna segir spádómur Jesaja að á tilsettum tíma Guðs verði óvinirnir eins og mölétin flík sem er hent. En ‚aðrir sauðir‘ og hinir smurðu halda sér sterkum með reglulegu bænasambandi við Guð, námi í orði hans og samkomusókn. Þannig fá þeir kennslu hjá Jehóva og læra að tala með lærisveinatungu.

Treystið á nafn Jehóva

21. (a) Hverjir ganga í ljósinu og hvernig farnast þeim? (b) Hvað verður um þá sem ganga í myrkrinu?

21 Lítum nú á andstæðu: „Hver sá meðal yðar, sem óttast [Jehóva], hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn [Jehóva] og reiði sig á Guð sinn.“ (Jesaja 50:10) Þeir sem hlýða á þjón Guðs, Jesú Krist, ganga í ljósinu. (Jóhannes 3:21) Bæði nota þeir nafn Guðs, Jehóva, og treysta á hann. Núna óttast þeir ekki menn, þó svo að þeir hafi einu sinni gengið í myrkri. Þeir reiða sig á Guð. En þeir sem halda áfram að ganga í myrkrinu óttast menn. Rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus er einn þeirra. Hann veit að Jesús er saklaus og ákærurnar á hendur honum rangar, en hann þorir ekki að láta Jesú lausan. Rómverskir hermenn taka son Guðs af lífi en Jehóva reisir hann upp og krýnir hann heiðri og dýrð. En hvað varð um Pílatus? Gyðingasagnfræðingurinn Flavíus Jósefus segir að einungis fjórum árum eftir dauða Jesú hafi Pílatus verið settur af sem landstjóri og kallaður til Rómar þar sem hann þurfti að svara fyrir ásakanir um alvarleg brot. Hvað um Gyðingana sem fengu Jesú líflátinn? Tæpum fjórum áratugum síðar eyddi rómverskur her Jerúsalem og felldi borgarbúa eða hneppti þá í þrælkun. Þeir sem velja myrkrið eiga sér ekki bjarta framtíð. — Jóhannes 3:19.

22. Af hverju er það hámark heimskunnar að halda að menn geti veitt okkur hjálpræði?

22 Það er hámark heimskunnar að halda að menn geti veitt okkur hjálpræði. Ástæðan er tiltekin í spádómi Jesaja: „Sjá, allir þér, sem kveikið eld og gyrðið yður eldlegum skeytum, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveikt, og sláið umhverfis yður þeim slagbröndum, sem þér hafið tendrað! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður, þér skuluð liggja í kvölum.“ (Jesaja 50:11) Mennskir leiðtogar koma og fara. Einn og einn maður getur heillað og hrifið fjöldann um stund en jafnvel einlægustu mönnum eru takmörk sett. Stuðningsmennirnir vona að hann kveiki mikinn eld en honum tekst ekki að tendra nema fáein ‚eldleg skeyti‘ sem varpa daufu ljósi og yl um stutta stund en deyja svo út. En þeir sem treysta á hinn fyrirheitna Messías Guðs verða aldrei fyrir vonbrigðum.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Í 50. kafla Jesajabókar, fyrstu þrem versunum, talar Jehóva um Júdamenn í heild sem eiginkonu sína en einstakir landsmenn eru kallaðir börn hennar.

^ gr. 9 Ritarinn virðist vera að tala um sjálfan sig frá fjórða versinu og út kaflann. Vera má að Jesaja hafi sjálfur lent í einhverjum af þeim prófraunum sem hann nefnir þar, en spádómurinn rætist fyrst og fremst á Jesú Kristi.

^ gr. 15 Sjötíumannaþýðingin orðar Jesaja 50:6 svona: „Ég bauð bak mitt til hýðingar og vanga mína til barsmíðar.“

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 155]

Gyðingar reiða sig frekar á mennska valdhafa en Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 156, 157]

Jehóva verndaði fólk sitt við Rauðahaf með því að setja skýstólpa milli þess og Egypta.