Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hef ég rétt viðhorf til tónlistar?

Hef ég rétt viðhorf til tónlistar?

KAFLI 31

Hef ég rétt viðhorf til tónlistar?

Hversu mikilvæg er tónlist þér?

□ Ég get lifað án tónlistar.

□ Ég myndi deyja án tónlistar.

Hvenær hlustarðu á tónlist?

□ Þegar ég ferðast á milli staða

□ Þegar ég læri heima

□ Alltaf

Hvernig tónlist líkar þér og hvers vegna? ․․․․․

HÆFILEIKINN til að njóta fallegrar tónlistar virðist vera innbyggður í okkur öll. Og tónlist er mjög mikilvægur þáttur í lífi margra unglinga. „Ég get ekki lifað án hennar,“ segir Amber sem er 21 árs. „Ég er alltaf að hlusta á tónlist — jafnvel þegar ég er að þrífa, elda, versla eða lesa.“

Þótt taktur byggist á einfaldri stærðfræði er tónlist miklu meira en það og höfðar beint til tilfinninganna. „Fagurt er orð í tíma talað“ en söngur á réttum tíma getur líka verið mjög hughreystandi. (Orðskviðirnir 15:23) „Stundum finnst mér eins og enginn skilji hvernig mér líður,“ segir Jessica, 16 ára. „En þegar ég hlusta á uppáhaldshljómsveitina mína veit ég að það er ekki bara ég sem verð niðurdregin.“

Ólíkar skoðanir

Þótt þér finnist tónlistin, sem þú hlustar á, eflaust vera frábær gætu foreldrar þínir haft aðra skoðun. „Stundum kallar pabbi: ,Slökktu á þessum hávaða! Ég fæ hausverk af þessu!‘“ segir unglingsstrákur. Kannski ertu búin(n) að fá leið á athugasemdum foreldra þinna og finnst þeir vera að gera stórmál út af engu. „Hvernig var þetta þegar pabbi og mamma voru ung?“ segir ein unglingsstelpa. „Fannst foreldrum þeirra ekki tónlistin, sem þau hlustuðu á, vera slæm?“ Ingred, 16 ára, kvartar og segir: „Fullorðna fólkið virðist vera fast í fortíðinni. Það væri frábært ef það gerði sér grein fyrir því að okkar kynslóð getur líka haft góðan tónlistarsmekk.“

Ingred hefur nokkuð til síns máls. Eins og þú veist er það ekkert nýtt að yngri og eldri kynslóðir séu ósammála um ýmis mál sem tengjast persónulegum smekk. En slíkur skoðanaágreiningur þýðir ekki að það þurfi alltaf að rífast þegar rætt er um tónlist. Það væri gott ef þú og foreldrar þínir reynduð að finna eitthvað sem þið eruð sammála um. Ef foreldrar þínir virða Biblíuna er það mikill kostur. Af hverju? Af því að orð Guðs getur hjálpað bæði þér og foreldrum þínum að komast að því hvaða tónlist er óviðeigandi og hvenær svigrúm sé fyrir ólíkan smekk. Til að gera þetta verðurðu að skoða tvö atriði: (1) boðskap tónlistarinnar sem þú hlustar á og (2) hversu mikið þú hlustar á tónlist. Lítum fyrst á spurninguna . . .

Hver er boðskapur tónlistarinnar?

Tónlist er eins og matur. Rétt tegund í réttu magni er góð fyrir þig. Röng tegund er slæm fyrir þig í hvaða mæli sem er. Því miður er það oft slæma tónlistin sem er mest aðlaðandi. „Af hverju eru flottustu lögin alltaf með verstu textana?“ spyr ungur strákur sem heitir Steve.

En ef tónlistin hljómar vel skiptir boðskapurinn þá nokkru máli? Til að hjálpa þér að svara þessari spurningu skaltu spyrja þig: Ef einhver vildi lokka mig til að kyngja eitri hvernig myndi hann fara að? Myndi hann dýfa eitrinu í edik eða sykur? Hinn trúfasti Job spurði: „Prófar eyrað ekki orðin og finnur gómurinn ekki bragð að matnum?“ (Jobsbók 12:11) Í stað þess að gleypa við einhverju lagi bara af því að þér líkar laglínan eða takturinn — sykurhúðin, ef svo mætti segja — skaltu ,prófa orðin‘ með því að hugleiða titilinn og textann. Af hverju? Af því að textinn í tónlistinni hefur áhrif á hugsunarhátt þinn og viðhorf.

Því miður fjallar mikið af nýjustu og vinsælustu tónlistinni um kynlíf, ofbeldi og vímuefnaneyslu. Ef þér finnst slíkir textar ekki hafa áhrif á þig hefurðu þegar orðið fyrir áhrifum af „eitrinu“.

Hugsaðu sjálfstætt

Jafnaldrar þínir þrýsta kannski mikið á þig til að hlusta á siðspillandi tónlist. Það er líka þrýstingur frá tónlistariðnaðinum sjálfum. Með hjálp útvarps, sjónvarps og Netsins er tónlistarheimurinn orðinn áhrifamikill iðnaður sem veltir mörgum milljörðum á ári. Snjallir markaðssérfræðingar eru ráðnir til að móta tónlistarsmekk þinn og stjórna honum.

En ef þú leyfir jafnöldrum þínum eða fjölmiðlum að stjórna því á hvað þú hlustar ertu að láta aðra taka ákvarðanir fyrir þig. Þú verður eins og hugsunarlaus þræll. (Rómverjabréfið 6:16) Biblían hvetur þig til að standa gegn áhrifum heimsins í slíkum málum. (Rómverjabréfið 12:2) Það væri því gott fyrir þig að aga hugann „til að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) En hvernig geturðu notað rökhugsunina þegar þú velur þér tónlist? Hugleiddu eftirfarandi tillögur:

Skoðaðu umbúðirnar. Oft er nóg að skoða umbúðirnar eða auglýsingaefnið til að dæma um innihaldið. Plötuumslag með ofbeldisfullum, djörfum eða dulrænum myndum ættu að vera viðvörunarmerki. Þá er líklegt að tónlistin sé einnig slæm.

Skoðaðu textana. Hvað er verið að segja? Viltu virkilega hlusta á þennan texta og endurtaka hann aftur og aftur? Er boðskapurinn í samræmi við lífsgildi þín og meginreglur Biblíunnar? — Efesusbréfið 5:3-5.

Taktu eftir áhrifunum. „Ég tók eftir því að mikið af tónlistinni og textunum, sem ég hlustaði á, gerðu mig niðurdreginn,“ segir unglingur sem heitir Philip. Að vísu getur tónlist haft mismunandi áhrif á fólk. En í hvaða skap ferðu þegar þú hlustar á þessa tónlist? Spyrðu þig: Fer ég að hugsa um eitthvað rangt eftir að hafa hlustað á tónlistina eða textana? Er orðbragðið, sem notað er í tónlistinni, farið að smitast inn í orðaforða minn? — 1. Korintubréf 15:33.

Taktu tillit til annarra. Hvað finnst foreldrum þínum um tónlistina sem þú hlustar á? Spyrðu þau álits. Hugleiddu líka hvað öðrum í söfnuðinum gæti fundist. Myndu sumir hneykslast á þessari tónlist? Það er merki um þroska að geta lagað hegðun sína að öðrum vegna virðingar fyrir þeim. — Rómverjabréfið 15:1, 2.

Með því að spyrja þig þessara spurninga geturðu valið tónlist sem hreyfir við þér án þess að skaða þinn andlega mann. En það er annað sem þarf líka að hugleiða.

Hve mikið er of mikið?

Það getur verið heilnæmt að hlusta á góða tónlist rétt eins og að borða góðan mat. En í Orðskviðunum er að finna þessi viturlegu orð: „Finnir þú hunang fáðu þér nægju þína svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og spýir því upp.“ (Orðskviðirnir 25:16) Heilsusamleg áhrif hunangs eru vel þekkt. En of mikið, jafnvel af því góða, getur verið slæmt fyrir mann. Hver er niðurstaðan? Njóta ætti góðra hluta í hófi.

En sumir unglingar leyfa tónlistinni að ganga fyrir öllu öðru í lífi sínu. Jessica, sem vitnað var í áðan, viðurkennir til dæmis: „Ég er alltaf með tónlistina í gangi — jafnvel þegar ég les í Biblíunni. Ég segi foreldrum mínum að það hjálpi mér að einbeita mér. En þau trúa mér ekki.“ Hljóma orð Jessicu kunnuglega?

Hvernig geturðu komist að því hve mikið er of mikið? Spyrðu þig eftirfarandi spurninga:

Hve miklum tíma eyði ég í að hlusta á tónlist á hverjum degi? ․․․․․

Hve miklum peningum eyði ég í tónlist í hverjum mánuði? ․․․․․

Truflar tónlistin samskipti mín við aðra í fjölskyldunni? Ef svo er skaltu skrifa hér fyrir neðan hvað þú getur gert til að bæta úr því. ․․․․․

Settu þér mörk

Ef tónlist skipar of stóran sess í lífi þínu væri skynsamlegt af þér að setja þér mörk og stilla því í hóf hve mikið þú hlustar á tónlist. Það væri til dæmis gott fyrir þig að venja þig af því að vera með heyrnartól í eyrunum allan daginn eða kveikja á tónlist um leið og þú kemur heim.

Hvernig væri að læra að njóta þagnarinnar? Það gæti hjálpað þér með heimavinnuna. „Maður lærir miklu betur þegar slökkt er á tónlistinni,“ segir Steve sem vitnað var í áðan. Prófaðu að læra án tónlistar og athugaðu hvort þú nærð að einbeita þér betur.

Það er líka skynsamlegt af þér að taka frá tíma til að lesa og rannsaka Biblíuna og biblíutengd rit. Jesús Kristur valdi stundum að vera á kyrrlátum stað til að biðja og hugleiða. (Markús 1:35) Er námsaðstaðan þín á hljóðlátum og rólegum stað? Ef ekki gæti það hindrað framför þína í trúnni.

Taktu rétta ákvörðun

Tónlist er sannarlega gjöf frá Guði en þú verður að gæta þess að misnota hana ekki. Ekki vera eins og Marlene sem viðurkennir: „Ég er með tónlist á heimilinu sem ég veit að ég ætti að henda. En hún hljómar bara svo vel.“ Hugleiddu hvað hún skaðar huga sinn og hjarta með því að hlusta á það sem er slæmt. Forðastu þessa snöru. Leyfðu tónlistinni ekki að spilla þér eða taka völdin í lífi þínu. Haltu þig fast við meginreglur Biblíunnar þegar þú velur þér tónlist. Biddu um leiðsögn Guðs og hjálp. Veldu þér félaga sem hafa sömu viðmið og þú.

Tónlist getur hjálpað þér að slaka á. Hún getur fyllt ákveðið tómarúm ef þú ert einmana. En þegar tónlistin hættir eru vandamálin enn til staðar. Og falleg lög koma ekki í staðinn fyrir raunverulega vini. Leyfðu því tónlist ekki að verða aðalatriðið í lífi þínu. Njóttu hennar en láttu hana skipa réttan sess.

Í NÆSTA KAFLA

Það er nauðsynlegt að slaka á og gera eitthvað skemmtilegt inn á milli. Hvernig geta meginreglur Biblíunnar hjálpað þér að njóta slíkra stunda?

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Prófar eyrað ekki orðin og finnur gómurinn ekki bragð að matnum?“ — Jobsbók 12:11.

RÁÐ

Ef þú vilt að pabbi þinn og mamma skilji af hverju þér líkar ákveðið lag eða hljómsveit skaltu reyna að læra að meta tónlist sem þau hafa gaman af.

VISSIR ÞÚ . . .?

Ef þú ert hikandi við að leyfa foreldrunum að heyra uppáhaldslögin þín gæti það verið merki um að það sé eitthvað athugavert við tónlistarsmekk þinn.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ég get haft rétt viðhorf til tónlistar með því að ․․․․․

Ef jafnaldrar mínir reyna að fá mig til að hlusta á óviðeigandi tónlist ætla ég að segja ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mín um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Af hverju skiptir máli hvers konar tónlist þú hlustar á?

Hvernig geturðu dæmt um það hvort ákveðið lag sé viðeigandi eða ekki?

Hvernig geturðu lært að meta ólíkar tegundir af tónlist?

[Innskot á bls. 259]

„Stundum átta ég mig á því að ég er að hlusta á lag sem ég ætti ekki að vera að hlusta á. Ég slekk á því um leið. Ef ég geri það ekki fer ég að réttlæta það að hlusta á lagið.“ — Cameron

[Rammi/mynd á bls. 258]

lærðu að meta ólíkar tegundir af tónlist

Kanntu að meta fleiri tegundir af mat en þú gerðir þegar þú varst fimm ára? Þá hefurðu lært að meta nýjar bragðtegundir. Þetta er svipað með tónlist. Takmarkaðu þig ekki við einn tónlistarstíl. Reyndu að breikka tónlistarsmekkinn.

Ein leið til að gera það er að læra að spila á hljóðfæri. Það getur verið áskorun en það er líka gefandi. Auk þess getur það opnað augu þín fyrir annars konar tónlist en þeirri sem tónlistariðnaðurinn ýtir að okkur. Hvernig geturðu fundið tíma til að læra á hljóðfæri? Þú gætir notað tíma sem annars færi í að horfa á sjónvarpið eða spila tölvuleiki. Taktu eftir því sem þessir unglingar segja.

„Það er mjög gaman að spila á hljóðfæri og það getur verið frábær leið til að fá útrás fyrir tilfinningar sínar. Ég hef lært að meta ólíkar tegundir af tónlist með því að læra að spila ný lög.“ — Brian, 18 ára, spilar á gítar, trommur og píanó.

„Maður verður að æfa sig ef maður vill læra að spila vel á hljóðfæri. Og það er ekki alltaf gaman. En þegar maður nær tökum á ákveðnu lagi líður manni vel og finnst maður hafa áorkað einhverju.“ — Jade, 13 ára, spilar á lágfiðlu.

„Þegar ég hef átt erfiðan dag eða er niðurdregin næ ég að slaka á með því að spila á gítarinn minn. Það er alveg einstök tilfinning að spila tónlist sem er ánægjuleg og róandi.“ — Vanessa, 20 ára, spilar á gítar, píanó og klarínettu.

„Ég hugsaði stundum: ,Ég á aldrei eftir að verða jafn góður og þessi eða hinn.‘ En ég hélt áfram að æfa mig og nú gefur það mér mikla gleði þegar ég næ að spila eitthvað lag mjög vel. Ég kann líka betur að meta hæfileika annarra tónlistarmanna.“ — Jakob, 20 ára, spilar á gítar.

[Mynd á bls. 255]

Tónlist er eins og matur. Rétt tegund í réttu magni er góð fyrir þig. Röng tegund er slæm fyrir þig í hvaða mæli sem er.