Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er að gerast með líkama minn?

Hvað er að gerast með líkama minn?

KAFLI 6

Hvað er að gerast með líkama minn?

„Ég stækkaði ótrúlega hratt. Jafnvel þótt það hafi verið spennandi var það sársaukafullt. Ég fékk sinadrátt í fæturna. Það var ömurlegt!“ — Páll.

„Maður veit að líkaminn er að breytast og vonar að enginn taki eftir því. En svo segir einhver sem meinar vel að maður sé kominn með kvenlegar mjaðmir. Þá langar mann til að hverfa ofan í jörðina og koma aldrei upp aftur.“ — Chanelle.

HEFURÐU einhvern tíma flutt með fjölskyldunni í nýtt hverfi? Breytingin hefur sennilega verið erfið, er það ekki? Þú þurftir í rauninni að segja skilið við allt sem þú þekktir — húsið þitt, skólann og vinina. Líklega tók smá tíma fyrir þig að venjast nýju umhverfi.

Þegar kynþroskinn byrjar — það tímabil þegar þú nærð fullum vexti — hefst ein stærsta breytingin í lífi þínu. Þú ert í vissum skilningi að flytja í nýtt „hverfi“. Spennandi? Já, auðvitað! En þegar þú ert að breytast í fullorðna manneskju geta ýmsar tilfinningar vaknað og kannski er ekki svo auðvelt fyrir þig að aðlagast þessum breytingum. Hvað gerist á þessu skemmtilega en jafnframt ólgusama tímabili í lífi þínu?

Breytingar hjá stelpum

Kynþroskaskeiðið er tími mikilla breytinga. Sumar breytinganna, sem þú átt eftir að upplifa, verða sýnilegar. Til dæmis stuðla hormón í líkamanum að því að hár fara að vaxa í kringum kynfærin. Þú munt líka taka eftir því að brjóst, mjaðmir, læri og rass fara að stækka. Smám saman er líkami þinn að segja skilið við barnavöxtinn og taka á sig kvenlegri útlínur. Þetta er ekkert sem þú þarft að hafa áhyggjur af — þetta er fullkomlega eðlilegt. Þessar breytingar eru merki um að líkami þinn sé að búa sig undir þann tíma þegar þú verður fær um að eignast börn.

Fljótlega eftir að kynþroskinn hefst fer tíðahringurinn í gang. Ef þú ert ekki viðbúin gætu þessi tímamót í lífi þínu verið svolítið ógnvekjandi. „Í fyrsta skiptið sem ég byrjaði á blæðingum var ég algerlega óviðbúin,“ segir Samantha. „Mér fannst ég óhrein. Ég skrúbbaði mig alla í sturtunni og hugsaði: ,Oj, ég er svo ógeðsleg.‘ Mér fannst sú tilhugsun skelfileg að þurfa að vera á blæðingum einu sinni í mánuði í mörg, mörg ár.“

En mundu að blæðingar eru merki þess að þú sért að verða kynþroska. Jafnvel þótt það séu mörg ár þangað til þú verður tilbúin til að verða móðir ertu að þroskast í konu. En samt sem áður geta fyrstu skiptin, sem maður byrjar á blæðingum, verið erfið. „Mér fannst tilfinningasveiflurnar verstar,“ segir Kata. „Það var svo svekkjandi að skilja ekki hvernig ég gat verið glöð allan daginn en farið síðan að hágráta sama kvöld.“

Ef þér líður þannig núna skaltu vera þolinmóð. Þú aðlagast þessu með tímanum. Annette er tvítug og hún segir: „Ég man þegar ég skildi að þetta myndi gera mig að konu og að Jehóva hefði gefið mér þá gjöf að geta eignast börn. Það tekur smá tíma að sætta sig við þetta og það er mjög erfitt fyrir sumar stelpur, en með tímanum lærir maður að sætta sig við breytingarnar.“

Ertu farin að upplifa sumar af þeim breytingum sem hér hafa verið nefndar? Ef þú hefur einhverjar spurningar um þær breytingar sem þú ert að ganga í gegnum geturðu skrifað þær hér.

․․․․․

Breytingar hjá strákum

Kynþroskinn hefur mikil áhrif á útlit stráka. Húðin gæti til dæmis orðið mjög fitug og þú gætir fengið bólur og fílapensla. * „Það er svo pirrandi og leiðinlegt að fá allar þessar bólur,“ segir Matti sem er 18 ára. „Maður þarf að heyja hálfgert stríð gegn þeim. Maður veit ekki hvort þær eigi eftir að fara eða hvort þær muni skilja eftir sig ör eða hvort fólk eigi eftir að hafa minna álit á manni af því að maður er með bólur.“

En það sem er jákvætt er að þú verður stærri og sterkari og axlirnar verða breiðari. Á kynþroskaskeiðinu fer hár líka að vaxa á fótleggjunum, bringunni, andlitinu og undir höndunum. Mundu hins vegar að það hversu mikil líkamshár þú færð hefur ekkert með karlmennsku að gera heldur fer það bara eftir erfðum.

Þar sem líkamshlutar vaxa mishratt gætirðu orðið svolítið klaufskur á þessu tímabili. „Ég var jafn tignarlegur og gíraffi á hjólaskautum,“ segir Dwayne. „Það var eins og heilinn sendi skilaboð sem útlimirnir fengu ekki fyrr en viku seinna.“

Á miðju kynþroskaskeiðinu dýpkar röddin en það gerist smám saman. Um tíma gætu djúpir tónar skyndilega brotnað og orðið skrækir. Þetta getur verið svolítið neyðarlegt en hafðu ekki áhyggjur. Að lokum nærðu tökum á röddinni. Þangað til er gott að læra að hlæja að þessu, þá verður maður ekki eins vandræðalegur.

Þegar kynfærin þroskast stækka þau og í kringum þau fara að vaxa hár. Þau byrja líka að framleiða sæði. Í sáðvökvanum eru milljónir smásærra sáðfrumna sem losna við samfarir. Sæði getur frjóvgað eggfrumu konu og þannig verður til barn.

Sæðið safnast fyrir í líkamanum. Sumt af því leysist upp en stundum gæti eitthvað af því losnað út úr líkamanum á nóttunni þegar þú sefur. Ósjálfráð sáðlát eru eðlileg. Í Biblíunni er meira að segja talað um þau. (3. Mósebók 15:16, 17) Það gefur til kynna að kynfærin séu að þroskast og að þú sért að verða fullorðinn karlmaður.

Ertu farinn að upplifa sumar af þeim breytingum sem hér hafa verið nefndar? Ef þú hefur einhverjar spurningar um þær breytingar sem þú ert að ganga í gegnum geturðu skrifað þær hér.

․․․․․

Að takast á við nýjar tilfinningar

Á kynþroskaaldrinum verða bæði strákar og stelpur mun meðvitaðri um hitt kynið. „Þegar kynþroskinn skall á fattaði ég allt í einu hvað það voru til margar sætar stelpur,“ segir Matti. „Það var mjög pirrandi því að ég vissi að ég gæti ekki gert neitt í málinu fyrr en ég yrði miklu eldri.“ Í kafla 29 í þessari bók er fjallað nánar um þennan þátt uppvaxtaráranna. En þú verður að gera þér grein fyrir að það er mikilvægt að læra að hafa stjórn á kynhvötinni. (Kólossubréfið 3:5) Þótt það virðist erfitt geturðu valið að fylgja henni ekki eftir.

Þú gætir líka þurft að takast á við aðrar tilfinningar á kynþroskaskeiðinu. Það er til dæmis algengt að unglingar hafi lítið sjálfsálit. Margir verða líka einmana og stundum niðurdregnir. Þá getur verið gott að tala við foreldra sína eða annan þroskaðan einstakling. Skrifaðu niður nafn þeirrar manneskju sem þú getur rætt við um tilfinningar þínar.

․․․․․

Mikilvægasti þroskinn

Mikilvægasti þroskinn, sem þú gengur í gegnum, tengist ekki hæð þinni, vexti eða andlitsdráttum heldur þínum innri manni. Þú verður að þroskast hugarfarslega, tilfinningalega og umfram allt andlega. Páll postuli sagði: „Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.“ (1. Korintubréf 13:11) Lærdómurinn er augljós. Það er ekki nóg að líta út fyrir að vera fullorðinn heldur verður maður líka að læra að hegða sér, tala og hugsa eins og fullorðinn. Vertu ekki svo upptekin(n) af því sem er að gerast með líkama þinn að þú vanrækir að hugsa um þinn innri mann.

Mundu líka að Guð „horfir á hjartað“. (1. Samúelsbók 16:7) Í Biblíunni segir að Sál konungur hafi verið hávaxinn og myndarlegur en hann var bæði slæmur konungur og slæmur maður. (1. Samúelsbók 9:2) Sakkeus var aftur á móti „lítill vexti“ en hafði innri styrk til að breyta lífi sínu og gerast lærisveinn Jesú. (Lúkas 19:2-10) Það er augljóst að þegar allt kemur til alls er það hinn innri maður sem skiptir máli.

Eitt er víst: Það finnst engin örugg aðferð til að flýta fyrir eða hægja á líkamlegum þroska. Í stað þess að hræðast þessar breytingar eða streitast á móti þeim skaltu því taka þeim með svolitlu skopskyni og líta á björtu hliðarnar. Kynþroskinn er ekki sjúkdómur og þú ert ekki sá fyrsti eða sú fyrsta sem gengur í gegnum þetta tímabil. Hafðu því ekki áhyggjur, þú munt lifa þetta af. Og þegar ólgusjór kynþroskatímans er liðinn hjá hefur þú breyst í fullvaxta mann eða konu.

Í NÆSTA KAFLA

Hvað ef þér líkar ekki við það sem þú sérð þegar þú lítur í spegil? Hvernig geturðu séð eigið útlit í réttu ljósi?

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Stelpur ganga líka í gegnum þetta. Yfirleitt er hægt af hafa stjórn á þessu með því að hugsa vel um húðina.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður.“ — Sálmur 139:14.

RÁÐ

Þegar líkaminn byrjar að þroskast skaltu gæta þess að klæðast ekki ögrandi fötum. Vertu alltaf látlaus í klæðaburði. — 1. Tímóteusarbréf 2:9.

VISSIR ÞÚ . . .?

Það er mjög breytilegt hvenær kynþroskinn byrjar. Hann getur byrjað í kringum átta ára aldurinn eða jafnvel um miðjan unglingsaldurinn. Hvort tveggja telst innan eðlilegra marka.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Núna þegar ég er að þroskast í fullorðna manneskju þarf ég að vinna mest í eftirfarandi eiginleika ․․․․․

Til að þroskast í trúnni ætla ég að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Af hverju er svona erfitt að takast á við þær líkamlegu og tilfinningalegu breytingar sem fylgja kynþroskanum?

Hvað finnst þér erfiðast við þessar breytingar?

Af hverju gæti kærleikur þinn til Guðs dvínað á þessum aldri en hvernig geturðu komið í veg fyrir að það gerist?

[Innskot á bls. 61]

„Það er margt sem getur gert mann óöruggan á unglingsárunum og maður veit aldrei fyrir víst hvernig líkaminn á eftir að breytast. En eftir því sem maður verður eldri lærir maður að sætta sig við breytingarnar og jafnvel taka þeim fagnandi.“ — Annette

[Rammi á bls. 63, 64]

Hvernig get ég talað við pabba eða mömmu um kynlíf?

„Ef ég hefði einhverjar spurningar um kynlíf myndi ég aldrei spyrja foreldra mína.“ — Beth.

„Ég myndi ekki þora að nefna þetta.“ — Dennis.

Ef þér líður eins og Beth og Dennis ertu í erfiðri stöðu. Þú hefur spurningar um kynlíf en langar síst að spyrja þá sem vita svörin — foreldra þína. Það er ýmislegt sem þú hefur áhyggjur af:

Hvað eiga þau eftir að halda um mig?

„Ég vil ekki að þau verði tortryggin af því að ég er að spyrja.“ — Jessica.

„Þau vilja að maður sé ungur og saklaus að eilífu en um leið og maður fer að tala við þau um kynlíf hverfur sú ímynd að hluta.“ — Beth.

Hvernig munu þau bregðast við?

„Ég er hrædd um að foreldrar mínir myndu draga rangar ályktanir áður en ég næði að klára að tala og fara að halda langa ræðu yfir mér.“ — Gloria.

„Foreldrar mínir eiga ekki auðvelt með að fela tilfinningar sínar og ég er hrædd um að ég myndi sjá vonbrigðin í andliti þeirra. Pabbi myndi örugglega byrja að semja ræðu í huganum á meðan ég væri enn að tala.“ — Pam.

Eiga þau eftir að misskilja ástæðuna fyrir því að ég spyr?

„Þau gætu brugðist of hart við og farið að spyrja spurninga eins og ,Hefurðu þér fundist freistandi að prófa kynlíf?‘ eða ,Eru jafnaldrarnir að þrýsta á þig?‘ En kannski er maður bara forvitinn.“ — Lísa.

„Pabbi verður alltaf áhyggjufullur á svip þegar ég nefni einhvern strák. Síðan fer hann strax að ræða um kynferðismál. Ég hugsa með mér ,Pabbi, ég sagði bara að hann væri sætur. Ég sagði ekkert um hjónaband eða kynlíf!‘“ — Stacey.

Það er kannski huggun fyrir þig að vita að foreldrum þínum gæti fundist jafn vandræðalegt að tala við þig um kynlíf og þér finnst að tala við þau. Það útskýrir kannski niðurstöður könnunar sem sýndi að 65 prósent foreldra sögðust tala við börnin sín um kynlíf en aðeins 41 prósent barnanna mundu eftir slíkri umræðu.

Staðreyndin er sú að foreldrar þínir gætu verið hikandi við að tala um kynlíf. Ef til vill töluðu foreldrar þeirra aldrei um slík mál. Hver sem ástæðan er skaltu ekki dæma þau of hart. Kannski getur þú gert ykkur öllum greiða með því að sýna það hugrekki að hefja máls á þessu. En hvernig áttu að fara að?

Að koma umræðum í gang

Foreldrar þínir vita heilmikið um kynferðismál og geta gefið þér góð ráð. Þetta er bara spurning um að vita hvernig þú átt að koma umræðunum í gang. Prófaðu eftirfarandi tillögu:

1 Segðu strax af hverju þér finnst erfitt að tala um þetta. „Ég er svolítið hikandi við að nefna þetta því að ég er hrædd(ur) um að þú gætir haldið að . . .“

2 Segðu síðan pabba þínum eða mömmu af hverju þú leitar til hans eða hennar. „En ég er með spurningu sem ég myndi frekar vilja að þú svaraðir en einhver annar.“

3 Berðu síðan upp spurninguna. „Mig langar til að spyrja þig . . .“

4 Í lok samtalsins skaltu fullvissa þig um að hægt sé að ræða aftur um þessi mál í framtíðinni. „Get ég talað aftur við þig um þetta efni ef ég hef fleiri spurningar?“

Jafnvel þótt þú vitir að svarið sé já er gott að heyra foreldri þitt segja það. Þá er auðveldara fyrir þig að leita aftur til pabba þíns eða mömmu ef það er eitthvað meira sem þú vilt vita. Prófaðu þetta! Að lokum gæti þér liðið eins og Katrínu sem er nú 24 ára. Hún segir: „Þegar við mamma vorum að ræða þessi mál man ég að ég óskaði þess að við værum alls ekki að tala um þetta. En núna er ég ánægð að mamma skuli hafa verið svona hreinskilin og opinská. Það hefur veitt mér mikla vernd.“

[Mynd á bls. 59]

Að kveðja barndóminn getur verið eins og að flytja á nýjan stað — en þú getur aðlagast.