Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað ef annað foreldri mitt er háð áfengi eða vímuefnum?

Hvað ef annað foreldri mitt er háð áfengi eða vímuefnum?

KAFLI 23

Hvað ef annað foreldri mitt er háð áfengi eða vímuefnum?

„Pabbi sagðist ætla að fara að gera við bílinn en við heyrðum ekkert frá honum allan daginn. Mamma reyndi að hringja í símann hans en hann svaraði ekki. Stuttu síðar tók ég eftir því að mamma var orðin áhyggjufull og virtist vera á leiðinni út.,Ég ætla að athuga hvernig gengur hjá pabba þínum,‘ sagði hún við mig.

Þegar mamma kom til baka var hún ein. ,Pabbi var ekki þarna, er það nokkuð?‘ spurði ég. ,Nei,‘ svaraði hún.

Nú vissi ég að pabbi var kominn í sama gamla farið. Þetta var alveg eins og síðast. Pabbi er nefnilega fíkniefnaneytandi. Og þegar hann kom loksins heim vorum við mamma orðnar algerar taugahrúgur. Ég hunsaði hann allan næsta dag — og mér líður hræðilega illa yfir því.“ — Karen, 14 ára.

MILLJÓNIR unglinga þurfa daglega að lifa við það óöryggi að eiga foreldri sem er háð áfengi eða vímuefnum. Ef pabbi þinn eða mamma er í viðjum slíkrar fíknar gæti hann eða hún valdið þér vonbrigðum, verið þér til skammar eða jafnvel vakið með þér reiði.

María var til dæmis alin upp af föður sem kom mjög vel fyrir á almannafæri. En hann drakk í laumi og á heimilinu var hann hrottafenginn og notaði ljótt orðbragð. „Fólk kom til okkar systkinanna og sagði okkur hvað við ættum yndislegan föður og hvað við værum heppin,“ segir María biturlega. *

Hvað geturðu gert ef annað foreldri þitt er háð áfengi eða vímuefnum?

Hvað liggur að baki fíkninni?

Í fyrsta lagi er gott að fá smá innsýn í vandamál mömmu þinnar eða pabba. „Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni þiggur hollráð,“ segir í Orðskviðunum 1:5. Það væri því gott fyrir þig að fræðast aðeins um það hvað fíkn er, hverjir verða háðir áfengi eða vímuefnum og hvers vegna.

Til dæmis má nefna að alkóhólisti er ekki bara einhver sem drekkur of mikið annað slagið heldur er hann með langvarandi drykkjuvanda. Hann er stöðugt með hugann við áfengi — jafnvel heltekinn af því — og getur ekki stjórnað drykkjunni þegar hann byrjar að drekka. Fíkn hans veldur alvarlegum vandamálum sem hafa áhrif á fjölskylduna, vinnuna og heilsuna.

Þótt líffræðilegir þættir geti stuðlað að áfengissýki hjá sumum virðast tilfinningalegir þættir einnig spila inn í. Svo virðist sem margir alkóhólistar hafi mjög neikvæða sjálfsmynd. (Orðskviðirnir 14:13) Sumir þeirra ólust jafnvel upp á heimilum þar sem foreldrarnir voru alkóhólistar. Hjá slíkum einstaklingum gæti drykkjan verið leið til að deyfa sársaukafullar minningar úr barnæsku. Hið sama gæti átt við þá sem eru háðir vímuefnum.

Að sjálfsögðu eykur drykkjan eða fíkniefnaneyslan aðeins á vanda fíkilsins. Hugsun hans og tilfinningar verða enn brenglaðri. Þess vegna gæti foreldri þitt þurft á töluverðri hjálp fagfólks að halda til að losna undan fíkninni.

Stilltu væntingunum í hóf

Auðvitað hverfur vandamálið ekki þótt þú skiljir af hverju foreldri þitt hegðar sér svona illa. En ef þú hefur smá innsýn í vandann gæti það hjálpað þér að hafa vissa samúð með mömmu þinni eða pabba.

Tökum dæmi. Myndirðu ætlast til þess að pabbi þinn spilaði við þig fótbolta ef hann væri fótbrotinn? Hvað ef þú vissir að hann hefði slasað sig af því að hann var að gera eitthvað heimskulegt? Sennilega yrðirðu fyrir vonbrigðum. En þú myndir samt gera þér grein fyrir því að hann gæti ekki spilað fótbolta við þig fyrr en honum væri batnað. Sú vitneskja myndi hjálpa þér að hafa ekki of miklar væntingar.

Foreldri, sem er háð áfengi eða vímuefnum, er á sama hátt tilfinningalega og andlega veikt. Að vísu eru „meiðslin“ sjálfsköpuð og það er eðlilegt að þessi slæma hegðun veki með þér reiði. En þangað til pabbi þinn eða mamma leitar sér hjálpar til að takast á við fíknina er það takmarkað sem hann eða hún getur gert til að annast þig. Með því að líta á fíknina sem lamandi meiðsl getur þú dregið úr væntingunum.

Það sem þú getur gert

Staðreyndin er sú að þangað til foreldri þitt tekur sig á verður þú að lifa við afleiðingarnar af hegðun þess. En hvað geturðu gert þangað til?

Taktu ekki ábyrgð á fíkninni. Foreldri þitt eitt er ábyrgt fyrir fíkn sinni, og enginn annar. „Sérhver mun verða að bera sína byrði,“ segir í Galatabréfinu 6:5. Það er því ekki þitt hlutverk að lækna foreldri þitt og þér ber engin skylda til að hlífa því við afleiðingum gerða sinna. Þú þarft til dæmis ekki að ljúga að vinnuveitanda fyrir foreldri þitt eða draga það inn í húsið ef það deyr áfengisdauða fyrir utan dyrnar.

Hvettu foreldri þitt til að leita sér hjálpar. Stærsta vandamál foreldris þíns gæti verið að viðurkenna að það eigi við vandamál að stríða. Þegar foreldri þitt er allsgáð og rólegt gæti hitt foreldrið ásamt elstu börnunum sagt því hvaða áhrif hegðun þess hefur á fjölskylduna og hvað það þarf að gera í málinu.

Auk þess gæti verið gott fyrir foreldrið, sem á við fíkn að stríða, að skrifa niður svörin við eftirfarandi spurningum: Hvað verður um mig og fjölskylduna ef ég held áfram að drekka eða nota vímuefni? Hvað gerist ef ég hætti þessum ávana? Hvað verð ég að gera til að fá hjálp?

Ef vandræði eru í uppsiglingu skaltu forða þér. „Forðaðu þér því áður en rifrildið brýst út,“ segir í Orðskviðunum 17:14(New World Translation) Settu þig ekki í hættu með því að flækjast inn í deilur. Ef þú getur skaltu fara inn í herbergið þitt eða heim til vinar þíns eða vinkonu. Ef hætta er á ofbeldi gæti þurft að kalla á utanaðkomandi aðstoð.

Viðurkenndu tilfinningar þínar. Sumir unglingar finna til sektarkenndar vegna þess að þeir hafa neikvæðar tilfinningar í garð foreldris sem er fíkill. Það er alveg eðlilegt að finna til einhverrar andúðar, sérstaklega ef fíknin kemur í veg fyrir að foreldri þitt veiti þér þá ást og þann stuðning sem þú þarft á að halda. Í Biblíunni erum við að sjálfsögðu hvött til að heiðra föður okkar og móður. (Efesusbréfið 6:2, 3) En að „heiðra“ merkir að virða yfirvald þeirra á sama hátt og þú átt að virða yfirvald lögreglumanns eða dómara. Það þýðir ekki að þú samþykkir hegðun mömmu þinnar eða pabba. (Rómverjabréfið 12:9) Þú ert ekki heldur slæm manneskja þótt þú hafir andstyggð á drykkju eða neyslu foreldris þíns því að ofneysla áfengis og fíkniefnaneysla er andstyggileg. — Orðskviðirnir 23:29-35.

Leitaðu í uppbyggjandi félagskap. Þegar fjölskyldulífið heima fyrir er erfitt geturðu misst sjónar á því hvað er eðlilegt. Það er því mikilvægt að hafa félagskap við fólk sem er í tilfinningalegu jafnvægi og á gott samband við Guð. Fólk í söfnuðinum getur veitt mikla hvatningu og stuðning og umgengni við það getur gefið þér smá frí frá erfiðleikunum heima fyrir. (Orðskviðirnir 17:17) Með því að umgangast aðrar fjölskyldur í söfnuðinum færðu að sjá hvernig eðlilegt fjölskyldulíf er og það getur vegið upp á móti þeirri afbrigðilegu mynd sem þú færð heima.

Leitaðu þér hjálpar. Það er mikil hjálp í því að eiga þroskaðan og áreiðanlegan vin sem þú getur talað við um tilfinningar þínar. Safnaðaröldungar eru fúsir til að hjálpa þér þegar þú þarft á því að halda. Í Biblíunni segir að þeir geti verið „sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum eins og vatnslækir í þurrlendi, skuggi af háum hamri í skrælnuðu landi“. (Jesaja 32:2) Þú skalt því ekki skammast þín eða hika við að leita til þeirra til að fá hughreystingu og ráð.

Skrifaðu á línuna hverja af þessum sex tillögum þú ætlar að prófa fyrst. ․․․․․

Þótt þú getir ekki breytt aðstæðunum heima fyrir geturðu breytt því hvaða áhrif aðstæðurnar hafa á þig. Í stað þess að reyna að stjórna foreldri þínu skaltu einbeita þér að þeim sem þú getur stjórnað — þér. „Vinnið nú að sáluhjálp ykkar,“ skrifaði Páll postuli. (Filippíbréfið 2:12) Með því að gera það geturðu tamið þér jákvætt viðhorf og það gæti jafnvel verið foreldri þínu hvatning til að leita sér hjálpar við fíkn sinni.

Í NÆSTA KAFLA

Hvað ef foreldrar þínir virðast alltaf vera að rífast? Hvernig geturðu tekist á við tilfinningarótið?

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Ef þú sætir illri meðferð af hendi foreldris, sem er alkóhólisti, ættirðu að leita hjálpar. Talaðu við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Ef þú ert vottur Jehóva geturðu talað við safnaðaröldung eða annan þroskaðan einstakling í söfnuðinum.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Það er viska að vera seinn til reiði.“ — Orðskviðirnir 19:11.

RÁÐ

Í stað þess að hata foreldri þitt skaltu þroska með þér heilbrigt hatur á því ranga sem foreldri þitt gerir. — Orðskviðirnir 8:13; Júdasarbréfið 23, Biblían 1981.

VISSIR ÞÚ . . .?

Í Biblíunni getur orðið „heiðra“ einfaldlega þýtt að viðurkenna lögmæt yfirráð. (Efesusbréfið 6:1, 2) Það að heiðra foreldri þýðir því ekki að þú verðir að samþykkja hegðun þess í einu og öllu.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ef foreldri mitt beitir andlegu eða líkamlegu ofbeldi ætla ég að ․․․․․

Ég get hvatt foreldri mitt til að leita sér hjálpar með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Hvers vegna verða sumir háðir áfengi eða vímuefnum?

Af hverju berð þú ekki ábyrgð á fíkn mömmu þinnar eða pabba?

Hverju geturðu stjórnað í sambandi við aðstæður þínar og hvernig geturðu gert það?

[Innskot á bls. 192]

„Ég veit að ég mun kannski áfram þurfa að skammast mín fyrir foreldra mína í framtíðinni en ég veit líka að ef ég legg traust mitt á Jehóva gefur hann mér styrk til að halda út.“ — Maxwell

[Mynd á bls. 198]

Ef annað foreldri þitt hættir að þjóna Jehóva

Hvað geturðu gert ef annað foreldri þitt hættir að lifa eftir meginreglum Biblíunnar eða lýsir því jafnvel yfir að það vilji ekki lengur tilheyra söfnuðinum?

Mundu að Jehóva dregur þig ekki til ábyrgðar fyrir hegðun foreldra þinna. Í Biblíunni segir: „Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér.“ — Rómverjabréfið 14:12.

Forðastu þá tilhneigingu að bera þig saman við unglinga sem eru í betri aðstöðu en þú. (Galatabréfið 5:26) Ungur maður, sem átti föður sem yfirgaf fjölskylduna, segir: „Í stað þess að dvelja við slíkar hugsanir er betra að einbeita sér að því hvernig maður geti tekist á við aðstæðurnar.“

Haltu áfram að sýna foreldri þínu virðingu og hlýddu því svo framarlega sem það fer ekki fram á eitthvað sem brýtur gegn meginreglum Guðs. Fyrirmæli Jehóva um að börn eigi að heiðra foreldra sína eru ekki háð því að foreldrarnir tilbiðji Jehóva. (Efesusbréfið 6:1-3) Þegar þú heiðrar foreldra þína og hlýðir þeim þrátt fyrir mistök þeirra sýnir þú kærleika þinn til Jehóva. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Hafðu náinn félagsskap við bræður og systur í söfnuðinum. Þar færðu stuðning frá stórri andlegri fjölskyldu. (Markús 10:30) Ungur maður, sem heitir Davíð, óttaðist að fólk í söfnuðinum myndi forðast hann og aðra í fjölskyldunni þegar pabbi hans hætti að þjóna Jehóva. En Davíð komst að raun um að ótti hans var óþarfur. „Enginn lét okkur líða eins og við værum útskúfuð,“ segir hann. „Þetta sannfærði mig um að söfnuðinum þætti raunverulega vænt um okkur.“

[Mynd á bls. 194]

Þú getur stillt væntingum þínum í hóf með því að líta á fíkn foreldris þíns sem lamandi meiðsl.