Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Til foreldra

Til foreldra

Til foreldra

Fyrir unglinga getur það virkað eins og línudans að komast klakklaust í gegnum unglingsárin. Hvert einasta skref gæti virst óstöðugt — jafnvel ógnvekjandi. Þið foreldrar óskið þess kannski stundum að þið gætuð hlíft börnunum ykkar við þessum línudansi. Þið getið það auðvitað ekki, en þið getið verið „jafnvægisstöngin“ þeirra. Þið eruð í sérstaklega góðri aðstöðu til að hjálpa börnunum að halda sig á réttri braut á unglingsárunum svo að þau vaxi upp til að verða þroskaðir og ábyrgir einstaklingar.

Hægara sagt en gert? Að sjálfsögðu. Þér líður kannski eins og það hafi verið í gær sem sonur þinn var orkumikill smákrakki sem kunni ekki að þegja en núna er hann hlédrægur unglingur sem vill ekki tala við þig. Og fyrir ekki svo löngu vildi litla stelpan þín fara með þér hvert sem þú fórst en núna dauðskammast hún sín fyrir að sjást nálægt þér á almannafæri.

Þið þurfið samt ekki að finna til vanmáttarkenndar gagnvart þeim breytingum sem fylgja unglingsárunum. Þið hafið aðgang að visku sem getur veitt ykkur og börnunum ykkar örugga leiðsögn. Þessa visku er að finna í orði Guðs, Biblíunni.

Annað bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga er samið með það fyrir augum að láta barninu ykkar í té haldgóð rök sem eru byggð á Biblíunni. Þegar þú skoðar efnisyfirlitið á bls. 4 og 5 sérðu hvaða efni er tekið fyrir. En þessi bók tíundar ekki bara staðreyndir. Líttu á eftirfarandi.

(1) Bókin kallar á viðbrögð lesandans. Á mörgum stöðum eru unglingarnir hvattir til að skrifa niður svör við ýmsum spurningum og fullyrðingum. Tökum dæmi. Ramminn „Viðbrögð við hópþrýstingi“ á bls. 132 og 133 hjálpar unglingum að hugsa um vissa erfiðleika sem þeir mæta og hvernig þeir geti brugðist við þeim. Auk þess enda allir bókarhlutarnir níu á blaðsíðu sem heitir „Hugleiðingar“ þar sem barnið þitt getur skrifað niður persónulegar hugsanir og tilfinningar í tengslum við efni þess bókarhluta.

(2) Bókin hvetur til tjáskipta. Tökum dæmi. Á bls. 63 og 64 er að finna ramma sem nefnist „Hvernig get ég talað við pabba eða mömmu um kynlíf?“ Auk þess er rammi í lok hvers kafla með yfirskriftinni „Hvað finnst þér?“ Hér er ekki aðeins um að ræða upprifjun á efni kaflans heldur er hægt að nota rammann sem grundvöll að umræðum í fjölskyldunni. Í hverjum kafla er líka að finna ramma sem nefnist „Hvað ætla ég að gera?“ Neðst í þeim ramma eiga unglingarnir að klára þessa setningu: „Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um . . .“ Þetta hvetur unglingana til að leita til foreldra sinna og fá heilnæm ráð hjá þeim á uppvaxtarárunum.

Varnaðarorð: Til að auðvelda unglingnum að skrifa sínar innstu tilfinningar í bókina skaltu leyfa honum að hafa hana út af fyrir sig. Seinna meir vill hann kannski tjá sig um það sem hann hefur skrifað niður.

Verðið ykkur út um ykkar eigið eintak af bókinni og kynnið ykkur efni hennar vel. Þegar þið lesið í henni skuluð þið reyna að rifja upp stormasöm unglingsár ykkar og hvernig þið voruð stundum ráðvillt og kvíðin. Þegar það á við skaltu segja syni þínum eða dóttur frá þinni eigin reynslu. Það hvetur unglinginn til að trúa þér fyrir tilfinningum sínum. Hlustaðu vel þegar unglingurinn tjáir sig. Gefstu ekki upp þó að tjáskiptin gangi stundum erfiðlega. Hvað svo sem börnin segja taka þau yfirleitt meira mark á ráðleggingum foreldra sinna en jafnaldranna.

Það er sönn ánægja að láta bæði ykkur og börnunum í té þetta biblíutengda hjálpargagn, og það er bæn okkar að bókin megi reynast fjölskyldum ykkar til blessunar.

Útgefendur